22.5.1997 0:00

Fimmtudagur 22.5.1997

Í hádegi fimmtudaginn 22. maí fór ég fyrst í símstöðina við Kirkjustræti og tók þar þátt í upphafi sjónvarpsfundar, sem fór fram í Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Var rætt um fjarlækningar og fjarnám á þessum fyrsta fundi sinnar tegundar. Eftir að hafa sagt nokkur orð í upphafi þessa fundar fór ég í Hússtjórnarskólann í Reykjavík og þáði þar hádegisverð í boði nemenda og kennara ásamt formanni skólanefndar og formanni og varaformanni Bandalags kvenna í Reykjavík. Eins og kunnugt er hefur verið nokkur óvissa um framtíð skólans en nú hefur orðið að samkomulagi milli mín og forráðamanna skólans og Bandalags kvenna í Reykjavík að hefja viðræður um, að bandalagið taki að sér að reka skólann sem sjálfstæða stofnun eða einkaskóla. Stendur vilji til þess, að Reykjavíkurborg komi að þessum skólarekstri. Með þessum hætti tel ég, að unnt sé að tryggja framtíð skólans og sérstöðu hans.