Dagbók: október 2009

Laugardagur 31. 10. 09. - 31.10.2009

Í dag ritaði ég pistil um laumuspil í ESB-málum, óskhyggju Ögmundar Jónassonar og ný-einkavæðingu bankanna.

Um árabil hafa ráðherrar haft ráðstöfunarfé til þess að koma til móts við óskir um fjárveitingar. Reglulega hefur verið spurt um ráðstöfun þessa fjár og birt um það yfirlit í þingtíðindum. Fyrir nokkrum misserum fékk Kastljós sjónvarpsins sérstakan áhuga á þessu fé og tók að kalla það „skúffufé“ og hefur sérstaklega verið fundið að því, að ráðherrar verji því til verkefna í eigin kjördæmum. Allar frásagnir í Kastljósi hafa verið því marki brenndar, að hlustendur geta ekki annað en efast um gildi verkefna, sem notið hafa þessa stuðnings, eða hug þann, sem bjó að baki ákvörðun viðkomandi ráðherra - hann hafi líklega meira verið að hugsa um sjálfan sig en þann, sem styrksins naut.

Af eigin reynslu veit ég, að stuðningur af þessum lið fjárlaga hefur skipt sköpum fyrir marga og ráðið úrslitum um framgang eða upphaf margra markverðra verkefna.

Í kvöld birti sjónvarpið viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur um málið og sagði hún, að setja ætti reglur um ráðstöfun á þessu fé eða taka það úr höndum ráðherra. Spyrja má af þessu tilefni: Telur Jóhanna, að ráðherrar í ríkisstjórn hennar hafi sýnt dómgreindarleysi við ráðstöfun á þessu fé? Ef svo er, í hvaða tilvikum?

 

Föstudagur, 30. 10. 09. - 30.10.2009

 

Á Wordsmith.org er í dag að finna orðið „draconian“ sem dregið er af Draco, sem uppi var seint á 7. öld fyrir Krist í Aþenu og geymist í sögunni, vegna þess hve refisglaður hann var og setti hörð refsilög.

Í stjórnartíð Dracos og samkvæmt lögum hans var dauðarefsing við stóru og smáu, til dæmis leti. Þegar hann var spurður, hvers vegna hann beitti dauðarefsingu fyrir flest brot, er hann sagður hafa svarað, að léttvæg brot réttlættu hana og hann vissi ekki um neina þyngri refsingu fyrir alvarlegri brot. Haft var á orði, að lög hans væru skráð með blóði í stað bleks.

Þegar litið er til lýsingar á inntaki laga, hefur nafn eftirmanns Dracos komist inn í málið með gagnstæða merkingu en Dracos. Sólon, lagasmiður í Aþenu, vann að því að breyta lögum Dracos með mannúðlegri refsingu að leiðarljósi og tengist nafn hans því að vera „vitur löggjafi“. Sólon sagði: Lögin eru köngulóarvefur, ef eitthvað lítið brýtur í bága við þau snara þau það, en hið stóra rýfur vefinn og sleppur.

Þessi orð Sólons eiga við enn þann dag í dag. Gengið er harðar gegn einstaklingum, sem skulda lítið, en félögum eða fyrirtækjum, sem mikið skulda. Einkavæðing banka fyrir hrun var fyrir opnum tjöldum en ekki ný-einkavæðing banka eftir hrun.  Ríkisvaldið veitir nú skjól fyrir fjármálalegar ákvarðanir, sem lutu aðhaldi þess og eftirliti fyrir hrun.



 

Fimmtudagur, 29. 10. 09. - 29.10.2009

Í viðtali mínu við Ögmund Jónasson á ÍNN í gærkvöldi kom fram, að hann telur, að breyting hafi orðið á þann veg á Icesave-samningunum, eftir að hann lét af starfi ráðherra, að nú sé unnt að ræða við Hollendinga og Breta um málið, eftir að það hafi farið fyrir dómstól, skapist á annað borð aðstæður til að leita álits dómara. Viðræðurnar muni snúast um dóminn og verði hann Íslendingum í hag hljóti Hollendingar og Bretar að taka mið af honum eftir þessar viðræður. Leggur Ögmundur mikla áherslu á, að þingmenn ræði málið á þeim nótum, sem hann lýsir, tali málið upp en ekki niður eins og hann orðaði það.

Ég sagði þá ríkisstjórn hanga á veikum bláþræði, sem ætti líf sitt undir svona orðræðu. Mér virtist Ögmundar túlka þessa breytingu því í hag, að hann gæti stutt ríkisstjórn Jóhönnu, en hann tæki ekki mið af þeirri óbilgirni, sem Bretar og Hollendingar hefðu sýnt. Eitt væri, að Ögmundur vilji geta stutt ríkisstjórnina, annað raunveruleik Breta og Hollendinga.

Í öllum málflutningi Ögmundar gætir tvíhyggju. Hann segist ekkert mál hafa afgreitt í ágreiningi úr stjórn BSRB í þau 21 ár, sem hann var þar formaður. Frá 1995 hefur hans hins vegar verið þingmaður, lengst af í harðvítugum slag við ríkisstjórn, ekki maður neinna málamiðlanna þar. Hann situr í ríkisstjórn einn daginn en fer úr henni hinn, af því að hann sættir sig ekki við að geta ekki farið sínu fram í máli, sem ræður úrslitum um líf eða dauða ríkisstjórnarinnar. Kemst síðan að þeirri niðurstöðu, að líklega geti hann stutt stjórnina, þegar öllu sé á botninn hvolft, af því að hann túlkar orðalag sér og ríkisstjórninni í vil, þótt Bretar og Hollendingar eigi síðasta orðið um túlkunina. Þegar ég spyr, hvort rétt sé, að með þessari afstöðu sé hann að búa í haginn fyrir endurkomu í ríkisstjórnina, segist hann ekki vera svo lítill karl. Í hinu orðinu segist þó ekki útiloka að verða aftur ráðherra.

Ímynd Ögmundar er sú, að hann sé fylginn sér og stefnufastur. Að því leyti eru þeir svipaðir Steingrímur J. og Ögmundur, að þeim mislíkar ekki að geta hagað seglum eftir vindi, þótt þeir vilji teljast stefnufastir. Steingrími J. er þó auðveldara en Ögmundi að kasta stefnumiðum fyrir róða, þegar völdin eru í húfi. Mér sýnist þó, að Ögmundur sé að búa sig undir að gangast undir Icesave vegna valdanna, eins og hann lét ESB-aðildarviðræður yfir sig ganga til að geta sest í ríkisstjórn með Samfylkingunni.

Miðvikudagur, 28. 10. 09. - 28.10.2009

Klukkan 14.00 var ég ÍNN sjónvarpsstöðinni og tók viðtal við Ögmund Jónasson, sem verður sent á inntv.is. Við ræddum störf hans hjá BSRB, Icesave, afsögn hans sem ráðherra og fleira í þeim dúr.28.10.09

Eftir upptökuna með Ögmundi skrapp ég á Amokka í Borgartúni og hittir þar gamla samstarfsfélaga úr menntamálaráðuneytinu, Aðalstein Eiríksson og Jóhönnu Maríu Eyjólfsdóttur. Þar tók vinsamleg starfskona þessa mynd af okkur. Ég set hana hér inn til að minnast stundarinnar og einnig til að sannreyna, að ég geti auðveldlega bætt myndum á síðuna.

Klukkan 16.00 var ég í ráðhúsi Reykjavíkur, þar sem Guðrún Pétursdóttir og erfingjar Ólafar heitinnar Pétursdóttur afhentu Borgarskjalasafni Reykjavíkur skjala- og myndasafn Ólafs Thors að gjöf til minningar um foreldra þeirra systra, Mörtu Thors og Pétur Benediktsson. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, og Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, veittu safninu viðtöku. Auk þeirra tóku til máls Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur, Ólafur Hannibalsson, fyrrv. alþingismaður, og Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur. Ragnhildur Helgadóttir, fyrrv. ráðherra, stjórnaði athöfninni. Guðrún Pétursdóttir kynnti vefsíðu um Ólaf Thors, sem tengist skjalasafninu. Fjölmenni var við athöfnina.

 

Þriðjudagur, 27. 10. 09. - 27.10.2009

Undarlegt er að sjá samfylkingarbloggarana reita hár sitt af reiði yfir því, að Bjarni Benediktsson. formaður Sjálfstæðisflokksins, skyldi nota ræðustól Norðurlandaráðsþings í Stokkhólmi og málfrelsi þar til að lesa norrænum stjórnmálamönnum, öðrum en Færeyingum, pistilinn fyrir að hanga í pilsfaldi Breta og Hollendinga og fara að fyrirmælum Alþjóðagjaldeyrisjóðsins varðandi samskipti við okkur Íslendinga.

Frederik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía, svaraði heldur hrokafullt, eins og kannski við var að búast, þar sem hann vissi, að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, forystumenn íslensku ríkisstjórnarinnar, lágu í duftinu vegna málsins og friðmæltust, sérstaklega Jóhanna, enda hefur hálf ríkisstjórnin að minnsta kosti gengið í Evrópusambandið og vill engan styggja á þeim bæ.

Gísli Baldvinsson, sem mest bloggar fyrir Samfylkinguna norðan frá Akureyri og er jafnan kaþólskari en páfinn, þegar kemur að ESB-málstaðnum, veitist harkalega að Bjarna fyrir ræðuna í Stokkhólmi. 

Á dögunum stærði Gísli sig af því, að hafa verið í Sambandi ungra sjálfstæðismanna samtíða Davíð Oddssyni og sungið með honum Nallann á SUS-þingi! Umturnist menn í pólitík eða trúmálum verða þeir stundum fanatískari en hinir, sem halda ró sinni og bregðast við með rökum en láta ekki tilfinningar ráða för.

Gísli segir í fyrirsögn á bloggi sínu, þar sem hann flytur Jóhönnu lof fyrir að  særa ekki Reinfeldt hinn sænska: Bjarni Ben skammast og skammast sín ekki.

Mánudagur, 26. 10. 09. - 26.10.2009

Skýrt hefur verið frá því, Jan Guillou, sænskur höfundur njósnabóka, starfaði um tíma fyrir njósnastofnun Sovétríkjanna, KGB. Tengiliður hans við KGB var Jevgeníj Gergel, sem var í sovéska sendiráðinu í Stokkhólmi 1964 til 1970. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, bendir réttilega á í pistli á pressan.is í dag, að Gergel var í sovéska sendiráðinu hér á landi 1973 til 1979. Á þeim árum var ég skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og man eftir Gergel og vitneskju íslenskra stjórnvalda um, að hann væri einn af KGB-mönnunum í sendiráðinu.

Úr þvíað Gergel réð Guillou til starfa fyrir KGB í Svíþjóð, hlýtur verkefni hans hér á landi að hafa verið að leggja snörur fyrir menn í sama tilgangi, það er að miðla leynilegum upplýsingum um íslensk stjórnmál til Moskvu. Þetta voru spennandi tímar fyrir KGB-menn á Íslandi. Gergel kemur til landsins á tíma vinstri stjórnar, sem vildi varnarliðið á brott. Á þessum árum var einnig hart deilt við Breta vegna 50 og síðan 200 mílnanna. Mótmæli gegn Bretum snerust í andúð á NATO og bandaríska varnarliðinu - draumaþróun fyrir undirróðursmann KGB.

Þegar Gergel hverfur héðan, er þorskastríðunum lokið með sigri Íslendinga, varnarliðið er enn á landinu og mynduð hefur verið fyrsta vinstri stjórn sögunnar, sem ekki hafði brottför varnarliðsins á dagskrá sinni. Að þessu leyti tókst Kremlverjum ekki að koma ár sinni vel fyrir borð hér á landi. Hins vegar er óupplýst, hvort Gergel tókst að krækja sér í einhvern íslenskan samverkamann á borð við Jan Guillou í Svíþjóð.

Sunnudagur, 25. 10. 09. - 25.10.2009

Nú var að ljúka þáttaröð á RÚV, sjónvarpsmyndinni Hamarinn, sem hélt athyglinni til enda og það með ágætum.

Í dag skrifaði ég pistil um leynihraðferðina inn í ESB, þar sem ég gagnrýni vinnubrögð utanríkisráðuneytisins.

Friðbjörn Orri Ketilsson vekur athygli á því í pistli á amx.is, að Egill Helgason „senior journalist“ ritaði bréf til sérfræðinga í spillingarmati og taldi þá mæla of litla spillingu á Íslandi. Þetta yrði að leiðrétta. „Senior journalistar“ eiga auðvitað rétt á því að fá þær fréttir frá útlöndum, sem þeim eru að skapi, um spillingu í eigin landi.

Dv.is hefur nú gengið í lið með ósannindamönnunum, sem segja mig vilja reka Egil Helgason úr starfi hans hjá RÚV. Mér er nokk sama, hvar Egill vinnur. Hann og vinnuveitendur hans eiga hins vegar að fara að lögum. Varla er of mikils krafist að hreyfa slíku um sjálfan spillingarbanann, sem vill, að mæld sé meiri spilling?

Ég sé á vefsíðu Egils, að hann hefur verið með Jón F. Thoroddsen í þætti sínum í dag. Af þeim bókum, sem ég hef lesið um bankahrunið á Íslandi, er bók Jóns F. langverst. Egill segir hana hins vegar „skyldulesningu“. Egill hefur einnig endurtekið ósannindi Jóns F. í bókinni um saksóknara og mig. Vegna þess óhróðurs hef ég ritað Jóni F. tvö bréf og krafist leiðréttingar. Hann hefur ekki einu sinni látið svo lítið að svara mér. Skyldu mælingamenn spillingarinnar líta til starfa álitsgjafa?

Laugardagur, 24. 10. 09. - 24.10.2009

Undanfarna morgna og í morgun hefur verið einstakt að fylgjast með komu þeirra í Laugardalslaugina, sem taka þar þátt í Evrópumóti fatlaðra. Einbeitni og dugnaður einkenna keppendur í búningsklefunum og fyrir okkur, sem teljum okkur heilbrigða til líkama og sálar, er að í raun yfirmannlegt hvernig sumir þessara einstaklinga búa sig til keppni. Er mikið ánægjuefni, að forráðamenn Íþróttafélags fatlaðara skuli hafa ráðist í þetta stórvirki og það hafi tekist þeim svo vel úr hendi. Fyrir okkur, sem sækjum sund að jafnaði klukkan 06.30 hefur þetta ekki valdið neinni röskun, þvert á móti aukið skilning okkar á því, hve mikilvægt íþróttastarf í þágu fatlaðra er. Þá hefur ekki spillt fyrir, að í vikunni hefur verið sannkölluð haustblíða svo snemma á morgnana.

Í morgun klukkan 10.00 var ég á fjömennum fundi sjálfstæðismanna í Kópavogi. Ég sé, að sagt er frá hluta ræðu minnar á amx.is og hef ekki neinu við það að bæta, að minnsta kosti ekki að sinni.

Klukkan 18.00 hófst fundur og hátíð á vegum Wagnerfélagsins í Þingholti og flutti ég þar erindi, sem ég nefndi Wagnerarfurinn og fjölskyldan. Mun ég vekja athygli á því, þegar það kemur hér á síðuna, en ég vil breyta því úr erindi í grein, áður en ég birti textann.

Föstudagur, 23. 10. 09. - 23.10.2009

Hugsmiðjan efndi í dag til kynningarfundar fyrir vini sína á nýju forriti. Ég hef verið með bjorn.is hjá Hugsmiðjunni í Eplica-kerfinu síðan 2002. Hefur það reynst mér vel og þjónusta alltaf verið góð, ef eitthvað hefur á bjátað.

Við færslu á síðunni á sínum tíma úr einu kerfi í annað, tókst ekki að færa allt efni úr gamla kerfinu á þann veg, að greinarskil birtust. Nú hefur verið bætt úr því og  tel ég, að allt efni á síðunni frá 1995 hafi verið fært upp í Eplica-kerfið á þann veg, að greinarskil birtist. Á hinn bóginn kunna gæsalappir eða þankastrik stundum að birtast sem spurningamerki.

Ég verð var við, að margir gestir á síðu mína eru að leita að öðru efni en því, sem ég set inn á hana daglega, enda er mikið efni á síðunni, sem veitir sýn á þróun stjórnmála eða þeirra málaflokka, sem hafa verið á dagskrá minni í allan þann tíma, sem síðan spannar.

Vilji ég vekja umræður um síðuna, þarf ég ekki annað en skrifa um Egil Helgason. Þá tekur hann kipp, aðdáendur hans og gagnrýnendur. Tel ég sérstakt rannsóknarefni fyrir áhugamenn um fjölmiðla að kynna sér hið tilfinningalega uppnám, sem umræður um síðu Egils vekur. Hún nýtur sérstöðu að því leyti, að stjórnendur RÚV telja hana ekki falla undir ábyrgð sína, þótt Egill sé starfsmaður þeirra. Á hinn bóginn ýttu þeir fyrir nokkrum árum manni úr starfi af fréttasviði RÚV vegna þess, hvernig hann bloggaði um Bónusfeðga og Baug á einkavefsíðu sína. Reglan um Jón og séra Jón gildir að þessu leyti á RÚV.

Fimmtudagur, 22. 10. 09. - 22.10.2009

Sækjast sér um líkir. Einkennilegt, hve mörgum, sem leggja út af orðum mínum um lög um ríkisútvarpið og Egil Helgason, er ósýnt um sannleikann. Í því efni líkjast þeir Agli. Hann hefur haft í frammi ósannindi um mig. Að kvöldi 21. október sagði Ólafur Ragnar Grímsson í viðtali á Skjá einum við Sölva Tryggvason, að Egill hefði sagt ósatt um sig og atvik á fiskideginum mikla á Dalvík.  

Álitsgjafinn Árni Snævarr í Brussel segir ósatt, þegar hann heldur því fram, að ég vilji, að Egill sé rekinn frá ríkisútvarpinu. Mér er sama, hvar Egill stundar álitsgjöf sína. Ég tel hins vegar, að Páll Magnússon eigi að sjá til þess, að Egill fari að útvarpslögum. Páll segist ekki þurfa þess, af því að blogg Egils falli ekki undir útvarpslög. Um árið vék Óðinn Jónsson manni af fréttasviði RÚV, vegna þess sem maðurinn bloggaði um Bónusfeðga og Baug á vefsíðu sína. Gilda einnig sérreglur innan ríkisútvarpsins að þessu leyti um Egil? Eða er ekki sama á hvern starfsmenn ríkisútvarpsins ráðast á bloggi sínu?

Viti ég rétt starfar Árni Snævarr hjá Sameinuðu þjóðunum. Honum dugar ekki að segja ósatt um skoðanir mínar á bloggsíðu sinni. Hann vill gera hlut minn enn verri með því að uppnefna mig, eins og rökþrota ósannindamenn gera gjarnan, og bæta orðunum Kim il fyrir framan nafn mitt. Það er örugglega ekki gert til heiðurs einræðisherranum í Norður-Kóreu. Skyldu starfsmenn utanríkisþjónustu Norður-Kóreu leita álits hjá yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna á því, hvers leiðtogi þeirra eigi að gjalda með þessum óhróðri frá starfsmanni samtakanna? 

Upphrópanir, uppnefni og ósannindi breyta ekki þeirri skoðun minni, að Egill Helgason fer á svig við lögin um ríkisútvarpið, og útvarpsstjóra beri að taka á málinu. Þá tel ég, að jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins eigi að gilda, þegar yfirmenn ríkisútvarpsins grípa til agaviðurlaga í tilefni af bloggi starfsmanna stofnunarinnar. Gildi mismunandi reglur eftir því um hvað starfsmennirnir blogga, er eðlilegt að ríkisútvarpið birti reglurnar opinberlega.

Miðvikudagur, 21. 10. 09. - 21.10.2009

Aðgerðir lögreglunnar á Suðurnesjum í samvinnu við önnur lið í landinu gegn skipulagðri, alþjóðlegri glæpastarfsemi hafa vakið þjóðarathygli. Ég minnist þess fyrir nokkrum árum, þegar ég vakti máls á því, að hér væru skipulagðir, alþjóðlegir glæpahópar að festa rætur, þótti ýmsum ég mála of svarta mynd. Óþarfi væri að huga að því að styrkja lögreglu til að hún yrði betur í stakk búinn til að takast á við alvarleg og víðtæk verkefni af þessum toga.

Ég taldi þá og tel enn, að besta leiðin hér til að vinna gegn mansali og uppræta það sé að styrkja lögregluna í baráttu gegn skipulögðum, alþjóðlegum glæpum. Aðeins á þann hátt tekst að skapa fælingarmátt og nauðsynlegar varnir bregðist hann. Þá verður einnig að tryggja með lögum eða ótvíræðri túlkun laga, að unnt sé að vísa mönnum, sem njóta EES-réttinda úr landi, gerist þeir sekir um alvarleg afbrot, ekki síst séu þau ítrekuð.

Lögregla þarf að ráða yfir þeim tækjum, sem gera henni kleift að takast á við meiri hörku í undirheimunum og sporna gegn afbrotum. Alþingi hefur hvað eftir annað undanfarið slegið á frest að afgreiða frumvarp um breytingar á almennum hegningarlögum, sem auðveldar enn frekar aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri grænna, brá fyrstur þingmanna fæti fyrir fyrrnefndar breytingarnar á almennu hegningarlögunum. Undarlegt, að enginn fjölmiðlamaður skuli hafa kannað, hver hafi verið afstaða Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, í ríkisstjórn sl. þriðjudag, þegar bókuð var andstaða við árásir aðgerðasinna á heimili fólks. Skyldu öskrararnir ekki telja sig eiga hauk í horni, þar sem Álfheiður er, eftir þátttöku hennar í árás á sjálfa lögreglustöðina í Reykjavík?

Þriðjudagur, 20. 10. 09. - 20.10.2009

Fráleitasta framlag til Icesave-umræðunnar nú er að ræða orð, sem féllu um málið fyrir ári eða almennt, áður en Steingrímur J. og Jóhanna komu að því eftir 1. febrúar 2009 og fólu Svavari Gestssyni forystu fyrir samninganefndinni til að leiða Icesave til lykta. Augljóst var þá og allt fram að vandræðum ríkisstjórnarinnar með málið 5. júní síðastliðinn, að hún taldi sig vera með það á réttu róli, af því að hún hefði tekið það allt öðrum og betri tökum en gert hefði verið fram að 1. febrúar 2009.

Söguskýringar álitsgjafa stjórnarflokkanna og ESB-aðildarsinnanna Egils Helgasonar, Illuga Jökulssonar og Guðmundar Gunnarssonar breyta þessum bláköldu staðreyndum um ábyrgð Steingríms J., Jóhönnu og Svavars á málinu ekki. Þau sitja uppi með málið í núverandi mynd þess, hver sem forsagan var og hvernig sem á hana er litið.

Hér skal áréttuð sú skoðun, að hlutdrægni Egils Helgasonar í afstöðu hans til manna og málefna geri hann óhæfan til að stjórna sjónvarpsþætti um þjóðmál, eigi þátturinn að lúta lögum um ríkisútvarpið. Lögleysan í kringum þátt Egils, verður ekki afsökuð með því, að hann sé einhver öryggisventill fyrir almenningsálitið, sem annars brytist fram á enn hroðalegri hátt en í nafnlausri illmælgi á bloggsíðu Egils. Hver hefur heimild til að leysa Egil Helgason undan lögum um ríkisútvarpið? Páll Magnússon, útvarpsstjóri? Sé svo, ætti hann að sýna eigendum RÚV hana.

Mánudagur, 19. 10. 09. - 19.10.2009

Fyrr í sumar var látið eins og þáttaskil yrðu við stjórn efnahagsmála með samþykkt alþingis um aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB).  Nú eru þrír mánuðir liðnir frá þessari samþykkt. Hvað hefur breyst til batnaðar?

Nú er fullyrt, að nýja Icesave-niðurstaðan leiði til gjörbreytinga fyrir Ísland. Bretar og Hollendingar ætli að sleppa hreðjatakinu innan stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta telur Steingrímur J. mikið heillaskref, þótt hann hafi bæði staðið gegn samstarfi við sjóðinn og samningi um Icesave í stjórnarandstöðu. Hvorugt hafi verið nauðsynlegt.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sem genginn er í ESB og lýst hefur sérstökum stuðningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, segir, að Icesave verði að komast aftur fyrir sig, svo að hann geti tryggt, að stöðugleikasáttmálinn virki.

 

Sunnudagur, 18. 10. 09. - 18.10.2009

Klukkan 11.30 flaug ég til Vestmannaeyja en klukkan 13.00 hófst þar í Golfskálanum stofnfundur Heimssýnar Vestmannaeyjum, en félagið er staðbundin deild Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Ég flutti erindi um tengsl Íslands og Evrópusambandsins (ESB) auk þess að svara fyrirspurnum fundarmanna. Umræður voru líflegar. Mér er sagt, að ætti að halda fund í Eyjum með og á móti Evrópusambandsaðild yrði erfitt að finna nokkurn heimamann, sem mælti með aðild. Þetta sel ég ekki dýrara en ég keypti, en víst er, að á þeim fundi, sem ég sat, spurðu fundarmenn á þann veg, að þeir hafa greinilega skýr rök fyrir andstöðu sinni við aðild Íslands að ESB.

Í stjórn Heimssýnar Vestmannaeyjum valdist fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Stofnfundurinn samþykkti einróma að skora á ríkisstjórnina að draga umsókn um aðildarviðræður við ESB til baka.

Ánægjulegt var að fá tækifæri til að kynnast sjónarmiðum Eyjamanna til fleiri mála en ESB. Mikill uppgangur er í samfélagi þeirra um þessar mundir. Öflug fyrirtæki blómstra og bæjarfélaginu hefur verið stjórnað á þann veg, að fjárhagur þess er traustur og góður. Sannar þessi staða enn dugnað og forsjálni þeirra, sem í Vestmannaeyjum búa.

Yfir útgerð og fiskvinnslu hvílir hins vegar nokkur óvissa, þar sem óljóst er, hver er stefna ríkisstjórnarinnar í fiskveiðimálum, hvort hún ætli að fara hina svonefndu fyrningarleið eða grípa til annarra úrræða til að raska stöðu útgerðarinnar.

Hið einkennilega er, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur vakið uppnám í öllum atvinnugreinum, sem helst reynir á við endurreisn efnahags þjóðarinnar. Hvað ætlar ríkisstjórnin sér fyrir í sjávarútvegsmálum? Hvers vegna er brugðið fæti fyrir stórhuga áform í stóriðjumálum? Af hverju er lagt af stað í ESB-vegferðina, sem mun kippa löppunum undan íslenskum landbúnaði?

Ríkisstjórnin hefur gefist upp í annað sinn í Icesave-málinu. Nú segist Jóhanna hins vegar hafa þingmeirihluta fyrir uppgjöfinni. Hvílík niðurlæging! Þegar ég hlusta á Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segja blákalt, að Hollendingar og Bretar hafi hrokkið í Icesave-liðinn við afsögn Ögmundar Jónassonar, af því að þeir hafi ekki viljað stjórnarkreppu á Íslandi, fer um mig aulahrollur.

Ég hef sett pistil inn á síðu mína, sem sýnir, að Íslendingar eru blóraböggull vegna ófullburða regluverks ESB um bankastarfsemi.

Laugardagur, 17. 10. 09. - 17.10.2009

Í vikunni var sagt frá því í fréttum RÚV, að svör við spurningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins væru í lokavinnslu innan stjórnarráðsins og í samráði við þingnefnd, ef ég skildi rétt.

Utanríkisráðuneytið neitaði að þýða spurningarnar á íslensku og líklegt er, að svörin hafi verið samin á ensku og þá lögð fyrir þingnefndina á ensku. Þetta er andstætt meginreglunni um, að íslenska sé stjórnsýslumál á Íslandi og hér skuli stjórnmálamenn taka afstöðu til mála, sem fyrir þá eru lögð á íslensku. Reynslan af Icesave-málinu ætti að sýna betur en flest annað, hve mikilvægt er að fara nákvæmlega í saumana á því, sem lagt er fyrir aðrar þjóðir varðandi íslenska hagsmuni. Ræði stjórnmálamenn slíka texta aðeins á ensku er veruleg hætta á því, að eitthvað fari á milli mála. Hefur það rækilega sannast í Icesave-málinu.

Við afgreiðslu alþingis á tillögu Össurar Skarphéðinssonar um að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu varð sú breyting, að við textann var bætt, að ríkisstjórnin ætti að fara að áliti meirihluta utanríkismálanefndar við undirbúning ESB-viðræðnanna og skipulag þeirra. Varð þessi breyting til þess að auka stuðning við tillöguna á þingi, en 33 af 63 þingmönnum greiddi henni atkvæði.

Meirihlutinn mælti fyrir um samninganefnd undir forystu aðalasamningamanns eða manna, einnig 9 til 12 samningahópum um afmörkuð svið. Nefndin og hóparnir fylgi málinu frá upphafi ferlisins til enda, í því felist m. a. að undirbúa svör við spurningum sambandsins, taka þátt í yfirferð yfir regluverk Íslands og ESB og undirbúa samningsafstöðu Íslands.

Augljóst er, að þetta ákvæði í áliti meirihluta utanríkismálanefndar hefur ekki verið virt. Samninganefnd hefur hvorki verið skipuð né formaður hennar valinn. Það er  hins vegar til marks um skort á aðhaldi frá Árna Þór Sigurðssyni, formanni utanríkismálanefndar, að ekki skuli fundið að þessum vinnubrögðum Össurar Skarphéðinssonar og utanríkisráðuneytisins. Er það enn ein staðfesting á því, sem ég sagði hér á síðunni, þegar álit meirihluta utanríkismálanefnar lá fyrir, að ekkert bit væri í þessu áliti.

 

Föstudagur, 16. 10. 09. - 16.10.2009

Hér er þáttur minn í ÍNN síðastliðinn miðvikudag með Ársæli Valfells.

Ragna Árnadóttir, dóms- og mannréttindaráðherra, átti í dag að flytja ávarp á ráðstefnu á vegum lagadeildar Háskóla Íslands um mannréttindamál. Hún varð frá að hverfa vegna mótmæla þeirra, sem telja, að ekki eigi að fara að lögum við afgreiðslu á málefnum hælisleitenda. 

Sigurður Rúnar Sæmundsson bloggar á þennan veg af þessu tilefni:

„Það er alltaf auðveldast að skjóta fyrir sig reglum, til að losna við að taka afstöðu. En ráðherra Íslands á ekki að gera það. Hann á að taka afstöðu, samkvæmt eigin sannfæringu. Ragna, af öllu fólki á að eiga létt með það. Hún er ekki bundin af pólitískum böndum.

Þessi ákvörðun er ákvörðun Rögnu Árnadóttur, ekki neinna annarra.“

Þessi orð lýsa ótrúlegri vanþekkingu á íslenskri stjórnskipan, skyldum og ábyrgð ráðherra. Í fyrsta lagi er fráleitt, að ráðherra sé óbundinn að lögum. Í öðru lagi alrangt, að í málum, sem þessum eigi sannfæring ráðherra að ráða. Í þriðja lagi er út í hött, að Ragna Árnadóttir eigi ekki að fara að lögum, af því að hún sé ekki „bundin af pólitískum böndum“.

Hitt er umhusgunarefni, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, skuli ekki bregða pólitískum skildi fyrir Rögnu vegna hinna ómaklegu árása á hana. Í fyrsta lagi á heimili hennar og síðan á málfrelsi hennar á fundi í Háskóla Íslands. Jóhanna heldur ekki málstað þjóðarinnar fram á alþjóðavettvangi og þegir þunnu hljóði, þegar veist er að ráðherra í ríkisstjórn hennar, ráðherra, sem hefur ekki stjórnmálaflokk að baki sér og því í raun ekki annan en forsætisráðherrann.

Ég sá ekki betur en Egill Helgason væri á mótmælafundi vegna hælisleitenda á Lækjartorgi í dag. Hann átti kannski bara leið framhjá eins og á gamlársdag, þegar hann var álengdar við mótmæli gegn Kryddsíld Sigmundar Ernis á Stöð 2.

Þegar horft er á myndband á mbl.is af fundinum í Háskóla Íslands, vekur athygli, að fundarboðendur virðast ekki lyfta litla fingri til að hafa stjórn á mótmælendum, þegar þeir brjóta öll almenn fundarsköp með öskrum sínum.

Fimmtudagur, 15. 10. 09. - 15.10.2009

Undrun vekur, að fulltrúi Rauða kross Íslands annars vegar og Amnesty International hins vegar skuli segja í RÚV, að það stangist á við lög og reglur, að hælisleitendum sé vísað héðan til Grikklands og láta í veðri vaka, að Dublin-reglurnar um meðferð hælisleitenda séu andstæðar mannréttindum. Hvorugt stenst gagnrýni. Hitt er síðan einkennilegt, ef þessir málsvarar laga og réttar mótmæla því ekki, að ráðist sé að heimili dómsmálaráðherra vegna lögmætra ákvarðana um brottvísun þessara hælisleitenda.

Nýlega var vitnað í Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann taldi, að lög væru túlkuð of linlega varðandi brottvísun manna, sem hér stunda afbrot. Lögreglustjóri mælir hér fyrir munn margra. Nú beinist athygli til dæmis að hópi Litháa, sem grunaðir eru um að stunda mansal. Er leitað að litháískri konu á Suðurnesjum, af því að hún kunni að vera fórnarlamb þeirra.

Á sama hátt og farið er að lögum við brottvísun hælisleitenda verður einnig að fara að lögum um rétt brotamanna til að dvelja hér á landi. Sé óvissa um, hvernig túlka beri þessi lög varðandi brotamennina, verður að fá niðurstöðu dómstóla til að eyða þessari óvissu.

Miðvikudagur, 14. 10. 09. - 14.10.2009

Ræddi í dag við Ársæl Valfells, lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands, í sjónvarpsþætti mínum á ÍNN. Við ræddum um gjaldmiðilsmál og stöðu okkar Íslendinga eftir bankahrunið.

Klukkan 18.00 var ég í Rótarýklúbbi Grafarvogs í Grafarvogskirkju og ræddi við félagana þar um þróun mála á norðurslóðum. Er greinilega mikill áhugi á þessum málum og framvindu þeirra.

Í dag var formlega tilkynnt, að Rússar myndu ekki veita Íslendingum lán vegna bankahrunsins, þeir ættu fullt í fangi með sjálfa sig. Ég er undrandi á því, hve lengi menn hafa látið eins og við því væri að búast, að Rússar myndu lána okkur fé, þótt rússneska ríkið berjist við mikinn fjárhagsvanda.

Steingrímur J. Sigfússon gaf til kynna í gær, að Icesave-málið kæmist á endapunkt næstu klukkstundir. Nú er meira en sólarhringur liðinn, frá því að þessi orð féllu. Þá er sagt í fréttum RÚV, að menn séu að kasta málinu á milli sín frá Íslandi til Hollands og Bretlands.

Athyglisvert er, að fréttastofa RÚV bregður aldrei neinni heildarmynd af hinum endalausu yfirlýsingum Steingríms J. og Jóhönnu um, að eitthvað sé á næsta leiti, sem síðan verður ekki. Þannig var látið í veðri vaka, þegar Steingrímur J. kom til Istanbúl á dögunum, að hann mundi semja um lán við Rússa. Nú lætur hann, eins og það hafi aldrei verið á dagskrá. Þetta er ótrúleg framganga og menn komast upp með hana vegna andvaraleysis fjölmiðla.

Í dag var tilkynnt, að rannsóknarnefnd alþingis á bankahruninu undir formennsku Páls Hreinssonar mundi skila skýrslu sinni 1. febrúar 2010 í stað 1. nóvember nk. Sagði Páll, að gögn hefðu borist seinna en vænst hefði verið, auk þess sem umfang skýrslunnar yrði meira en ætlað hafði verið.

 

Þriðjudagur, 13. 10. 09. - 13.10.2009

Þegar ráðherrar tala jafnan á þann veg, að eitthvað kunni að gerast næstu klukkustundir, daga eða vikur, og gefa jafnframt til kynna, að þeir ráði ekki niðurstöðunni, leiðir það til trúnaðarbrests milli ríkisstjórnar og umbjóðenda hennar. Á skömmum tíma hafa þetta orðið örlög ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Í kvöld talaði Steingrímur J. Sigfússon enn einu sinni á þennan veg um Icesave-málið. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, talaði einnig á þennan veg um framtíðareignarhald á bönkunum. Hvers vegna bíða ráðherrarnir ekki með yfirlýsingar, þar til þeir hafa eitthvað örugglega fast í hendi?

Jóhanna Sigurðardóttir ræðir oftast um störf stjórnar sinnar með þeim orðum, að eitthvað sé til skoðunar, mál muni skýrast á næstunni og þannig fram eftir götunum. Traust til Jóhönnu hefur einnig snarminnkað. Forsætisráðherra er þolað að tala í hálfkveðnum vísum á fyrstu vikum stjórnarsamstarfs en ekki eftir að hafa setið rúma átta mánuði í embætti.

Sama er hve marga upplýsingafulltrúa eða spunameistara ráðherrar fá sér til aðstoðar, þeir eru einskis nýtir, ef framganga ráðherranna sjálfra vekur ekki traust. Frægt var þegar Kristján Kristjánsson, þáverandi upplýsingafulltrúi Jóhönnu, sagði, að fyrst yrði ríkisstjórnin að móta sér Icesave-stefnu, áður en unnt yrði að kynna hana.

Einkenni Jóhönnu er, að hana virðist skorta kjark til að leita lausna í samtölum og með mati á ólíkum sjónarmiðum. Henni sýnist tamast að krefjast þess einhliða af öðrum, að þeiri styðji hana, þótt þeir séu henni augljóslega ósammála.  Einmitt þess vegna ákvað Ögmundur Jónasson að hverfa úr ríkisstjórninni.

Jóhanna getur ekki vænst þess, að stjórnarandstaðan leysi stjórn hennar hvað eftir annað út snörunni. Skorti hana fylgi við stefnu sína á alþingi, án hún að segja af sér. Jóhönnu skortir hins vegar einnig kjark til að horfast í augu við þá staðreynd.

Mánudagur. 12. 10. 09. - 12.10.2009

Þegar farið er yfir umræður á þeirri viku, sem liðin er, frá því að ég hélt utan, sést, að reiptogið um Icesave er jafnhart og áður. Á hinn bóginn hefur skýrst, að Steingrími J. Sigfússyni varð ekkert ágengt á AGS-fundinum í Istanbúl. Spennan í aðdraganda fundarins og áður en Steingrímur J. hitti þar málsmetandi menn var hluti af spuna, sem rann út í sandinn.

Jóhanna Sigurðardóttir tók kipp undir stjórn spunameistara sinna, eftir að í ljós kom, að hún var í frjálsu fall á vinsældalistanum. Hún er að reyna að ná fótfestu með því að birta bréf. Annars vegar bréf sitt til Jens Stoltenbergs, forsætisráðherra Noregs, og hins vega svar hans til Jóhönnu um, að það sé alveg öruggt, að framsóknarmönnum takist ekki að fá lán í Noregi utan afskipta AGS.

Þá birti Jóhanna bréf til sín um hörmungar þjóðarinnar, yrði ekki farið að stefnu Jóhönnu í Icesave-málinu. Virtist bréfið vera frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, sem kom til sögunnar 1. október, þegar Jóhanna afsalaði forsætisráðherra stjórn efnahagsmála og stjórnsýslu vegna Seðlabanka Íslands.

Í dag birtist síðan tilkynnig um uppgjör innan Landsbanka Íslands, sem er túlkað á þann veg, að 90% Icesave-skuldbindinganna verði greiddar með eignum bankans sjálfs og „aðeins“ 75 milljarðar króna lendi á íslenskum skattgreiðendum. Virðist málið komið á þennan reit að nýju, þrátt fyrir allt þrefið um hina fáheyrðu skuldabyrði í Icesave-samningunum. Skyldi Steingrímur J. að nýju kalla niðurstöðu málsins „glæsilega“ eins og hann orðaði það í sjónvarpsviðtali á mbl.is sl. vetur?

Spuninn vegna Steingríms J. í Istanbúl og Jóhönnu vegna Stoltenbergs hefur enn grafið undan trausti í garð þess, sem sagt er af opinberri hálfu um Icesave-lausnirnar.

Sunnudagur, 11. 10. 09. - 11.10.2009

Flogið heim frá Kænugarði um Kaupmannahöfn.

Skrifaði pistil um ferðina og sendi frá mér á Kastrup.

Laugardagur, 10. 09. 10. - 10.10.2009

Farið í skoðunarferð um Kænugarð.

Sjá pistil.

Föstudagur, 09. 10. 09. - 9.10.2009

Ársfundur ATA haldinn í Kænugarði, rætt um nýja heildarstefnun NATO, stöðuna í Afgangistan, lýðræðisþróun í Úkraínu, samskipti við Rússa.

Sjá pistil.

Fimmtudagur, 08. 10. 09. - 8.10.2009

Aðalfundur ATA var haldinn í Kænugarði og stóð frá morgni til kvölds.

Sjá pistil

Miðvikudagur, 07. 10. 09. - 7.10.2009

Flaug snemma morguns til Kænugarðs frá Kaupmannahöfn. Síðdegis hinn sama dag kom Stefán Einar Stefánsson, formaður Varðbergs, til borgarinnar frá Póllandi. Við tókum saman þátt í fundum ATA og YATA, það er samtökum, þar sem Samtök um vestræna samvinnu og Varberg eru aðilar.

Sjá pistil. 

Þriðjudagur, 06. 10. 09. - 6.10.2009

Flaug um hádegisbilið til Kaupmannahafnar til að gista þar í nótt á leið til Kiev.

Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana, hefur rekið yfirmann danska hersins vegna hneykslismáls í tengslum við bók eftir hermann í sérsveit hersins. Politiken birti bókina í fylgiblaði, þegar lá í loftinu að útgáfa hennar yrði bönnuð með vísan til gæslu ríkisleyndarmála.

Þá er rætt um að flytja yfirstjórn hersins inn í varnarmálaráðuneytið, til að þurrka út óæskilegt bil og jafnvel afbrýðissemi milli ráðherra og yfirhershöfðingjans. Gade vill að þetta sé gert en orð hans hafa átt lítinn hljómgrunn til þessa, Það er að breytast núna. Skipulag innan Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytisins, er nefnt sem fyrirmynd að þessu leyti, þar sé pólitísk og hernaðarleg forysta á einum stað.

Þegar ég hreyfði því um árið, að rétt væri að leita til einkaaðila vegna húsnæðis fyrir fanga, það er vegna fangelsa, ætluðu sumir að fara af hjörunum og þá ekki síst stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar. Innan dómsmálaráðuneytisins er nú farið yfir 12 tilboð um einkareknar fangelsisbyggingar og virðist öllum nú sjálfsagt, að sú leið sé farin.

Nafni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hefur verið breytt í dóms- og mannréttindaráðuneyti. Þessi breyting er ekki til bóta. Orðið mannréttindi er of gildishlaðið til að vera í ráðuneytisheiti. Raunar skilst mér að þetta sé til bráðabirgða, því að mynda eigi innanríkisráðuneyti á rústum dóms- og mannréttindaráðuneytisins.

Mánudagur, 05. 10. 09. - 5.10.2009

Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu ríkisstjórnar sinnar í kvöld. Menn þurfa að fara um það bil tvo áratugi aftur í tímann til að kynnast sambærilegu ráðleysi hjá ríkisstjórn við upphaf þings, framlagningu fjárlagafrumvarps og flutning stefnuræðu. Ræður ráðherranna voru ekki aðeins ótrúverðugar vegna þess, sem þeir sögðu, heldur einnig vegna hins, sem þeir sögðu ekki. Þeir treystu sér ekki til að lýsa hinni raunverulegu stöðu á stjórnarheimilinu.

Um átta mánuðir eru liðnir síðan Samfylking og vinstri-grænir tóku höndum saman um landstjórnina. Ögmundur Jónasson settist í ríkisstjórn 1. febrúar 2009 og boðaði 12 ára stjórnarsetu. Hann hefur nú yfirgefið ríkisstjórnina og þingflokkur vinstri-grænna getur ekki komið saman til fundar vegna innbyrðis ágreinings. 

Steingrímur J. heldur áfram að pukrast með Icesave-málið og að þessu sinni í Istanbúl. Hvorki hann né Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður hans, segja alla söguna. Í gær var gefið til kynna, að í dag myndu Rússar svara af eða á um lán til Íslands. Ekkert svar barst, enda eru Rússar ekki aflögufærir og eiga fullt í fangi með sjálfa sig.

Eitt er víst varðandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún bregst ekki þeirri skoðun, að vinstri stjórnir eru sundurlyndar og þar sé hver höndin upp á móti annarri. Sagan sýnir, að það tekur misjafnlega langan tíma fyrir þverbrestina að birtast. Þeir blasa nú við öllum í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Örvænting magnast bakvið tjöldin innan Samfylkingarinnar en hún brýst fram í klofningi meðal vinstri-grænna.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í dag, varnaðarorð vegna ESB. Það er til marks um, hvernig komið er fyrir málstað ESB-aðildarsinna, að Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, flutti ræðu við stefnuræðumræðuna, án þess að hrópa á ESB-aðild eða ráðast á þá, sem eru á móti henni.

 

 

Sunnudagur, 04. 10. 09. - 4.10.2009

Glöggur lesandi síðu minnar nefndi við mig eftir færslu mína í gær, að David Cameron hefði sagt, að hann mundi leggja Lissabon-sáttmálann undir þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi, hefði afgreiðslu hans ekki verið lokið í öllum ESB-ríkjum, þegar hann yrði forsætisráðherra. Þetta er rétt en Cameron hefur einnig gefið til kynna, að hann eigi plan B, sem hann muni grípa til, hafi sáttmálinn hlotið afgreiðslu og breska þjóðin eigi að fá að segja álit sitt. Hann hefur haldið þessu plani B hjá sér en kynnir það líklega á flokksþingi íhaldsmanna, sem hefst í Manchester í dag.

Þá liggur fyrir, að Cameron hefur ritað einkabréf til Vaclavs Klaus, forseta Tékklands, og beðið hann að draga eins lengi og honum sé fært að rita undir fullgildingarskjöl Lissabon-sáttmálans. Nokkrir öldungardeildarþingmenn í Tékklandi lögðu sáttmálann fyrir tékkneska stjórnlagadómstólinn, sem er með hann til skoðunar í nokkrar vikur eða mánuði. Fréttir berast um ráðagerðir í Brussel um að beita tékkneska forsetann þrýstingi.

Íslensk stjórnvöld kynntust því fyrir tæpu ári, hvernig Brussel-valdið getur sett ríkjum úrslitakosti í eigin þágu og einstakra aðildarríkja eins og Bretlands og Hollands og síðan beitt áhrifum sínum gegn ríkjum á öðrum vettvangi, eins og innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ríkisstjórn Íslands hefur bognað vegna þessa þrýstings. Fylgst verður náið með því, hvort Vaclav Klaus bognar einnig.

 

Laugardagur, 03. 10. 09. - 3.10.2009

Írar samþykktu í gær með miklum meirihluta að staðfesta Lissabon-sáttmálann, það er nýjan stofnsáttmála Evrópusambandsins (ESB). Þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni var 58%.

Enn eiga Pólverjar og Tékkar eftir að samþykkja sáttmálann, en þar er hann ekki borinn undir þjóðina. David Cameron, formaður breska Íhaldsflokksins, segir, að komist flokkurinn í ríkisstjórn muni hann leita álits bresku þjóðarinnar á sáttmálanum.

Samþykkt sáttmálans er forsenda þess, að Evrópusambandið stækki. Nú bendir allt til þess, að í Brussel vilji menn hengja aðild Íslands og Króatíu á sama snaga, en Króatar hafa leyst landamæraþrætu sína við Slóvena, svo að þeim þröskuldi hefur verið rutt úr aðildarvegi þeirra. Líklegt er, að í Brussel hafi menn einnig þá hugmynd, að samhliða því sem tillaga um aðild Íslands og Króatíu yrði lögð fyrir þjóðþing aðildarríkjanna verði sérstakir skilmálar vegna samþykkis Íra lagðir fyrir þingin.

Eins og kunnugt er ræður ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ekki við Icesave-málið, en það er þröskuldur í ESB-viðræðuferli Íslendinga. Ögmundur Jónasson ákvað að hverfa úr ríkisstjórninni og vísaði til Icesave-málsins. Jón Bjarnason ráðherra er andvígur ESB-aðild. Verður hann látinn taka ráðherrapokann sinn?

Föstudagur, 02. 10. 09. - 2.10.2009

Spennandi var að fylgjast með fundi Alþjóðaólympíunefndarinnar í Kaupmannahöfn, þar sem gert var upp á milli fjögurra borga, sem sóttust eftir að halda Ólympíuleikanna 2016. Bandarísku forsetahjónin komu til Kaupmannahafnar til að mæla með heimaborg sinni, Chicago. Danska sjónvarpið var með stöðuga sendingu um þau hjón þá fimm tíma eða svo, sem forsetinn dvaldist í landinu. Chicago var hins vegar hafnað í fyrstu atrennu. Næst var Tókýó hafnað. Þá var gert upp á milli Rio de Janero og Madrid. Rio var valin og grét Lula, forseti Brasilíu, á blaðamannafundi brasilísku sendinefndarinnar í Bella Center.

Á CNN áttu menn í vandræðum með að skýra og skilja, hvernig nokkrum datt í hug að hafna Chicago, eftir að Obama-hjóninn höfðu mælt með borginni. Líklega var eins gott fyrir hjónin að leggja sitt af mörkum, því að annars hefði þeim verið legið á hálsi fyrir að láta ekki að sér kveða.

Karl Th. Birgisson, fyrrv. framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, var í Kastljósi í kvöld og lét þau orð falla, að ekki væru neinar hörmungar kallaðar yfir þjóðina, þótt lífskjörin færðust aftur til ársins 2002. Hvort menn hefðu ekki haft það dágott þá?

Kannski tekur sig einhver til og kynnir sér málflutning Samfylkingarinnar árið 2002 og í aðdraganda kosninganna 2003. Mig minnir, að frambjóðendur hennar hafi talið allt á hverfanda hveli og þó sérstaklega, hve fátækt væri mikil. Gott ef Ólafur Ragnar Grímsson hitti ekki Hörpu Njáls á Bessastöðum til að taka við skýrslu hennar um vaxandi fátækt Íslendinga og árétta með því helsta kosningamál Samfylkingarinnar.

 

Fimmtudagur, 01.10. 09. - 1.10.2009

Var klukkan 08.00 í morgunþætti rásar 2 hjá Frey Eyjólfssyni og Láru Ómarsdóttur og ræddi um þróun mála á norðurslóðum og um stöðu stjórnmála. Hér má hlusta á samtalið.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, boðar miklar skattahækkanir og talar um „progressivt skattakerfi“ að skandinavískri fyrirmynd. Hann sagðist á sínum tíma hafa myndað norræna velferðarstjórn með Jóhönnu. Í Danmörku teygja skattar sig í 70% á hina hæstlaunuðu. Þar hafa stjórnvöld að vísu boðað skattalækkun. Hve langt ætlar Steingrímur J. í skattheimtu á einstaklinga? Hann segist ekki vita það. Sérfræðingar séu að reikna út, hve mikilla tekna þurfi að afla og hvernig. Fyrir nokkrum áratugum heyrði ég ráðherra í útgjaldaráðuneyti spyrja á ríkisstjórnarfundi: Hvers vegna ákveðum við ekki útgjöldin og högum síðan tekjuöfluninni í samræmi við þau? Því miður held ég, að þetta sjónarmið ráði of miklu við gerð fjárlagafrumvarpsins, sem Steingrímur J. er að kynna. Það er í anda vinstrimennskunnar.

Í Kastljósi kvöldsins sagði Steingrímur J., að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar við gerð fjárlaganna fælist í því, að krafist væri 5% samdráttar í heilbrigðis- og félagsmálum, 7% í menntamálum en 10% á öðrum sviðum. Þannig væri staðinn vörður um grunnþjónustu samfélagsins. Í þessu felst, að Steingrímur J. hefur breytt þeirri stefnu, sem mótuð hafði verið, að löggæslumálum yrði skipað með menntamálum ef ekki velferðarmálunum. Þetta endurspeglar hug vinstri-grænna í garð lögreglunnar, enda hafa þeir nú valið Álfheiði Ingadóttur sem heilbrigðisráðherra, en hún beitti sér gegn lögreglunni í mótmælunum í kringum áramótin, eins og margoft hefur verið lýst.

Einkenni stjónarsamstarfsins er, að ráðherrarnir tala í einskonar vorkunnartón um eigið hlutskipti og hótunartón í garð þingmanna. Þeim beri að láta að óskum ráðherranna annars gerist eitthvað voðalegt. Þetta er til marks um veika forystu ríkisstjórnarinnar bæði af hálfu Jóhönnu og Steingríms J. Það þykja til dæmis sérstök stórtíðindi, að Steingrímur J. hafi umboð frá þingflokki sínum til að ræða við Jóhönnu um Icesave-málið og spunnið er í kringum þetta umboð til að draga athygli frá hinu, að engin trygging er fyrir því, að þingmenn vinstri-grænna styðji niðurstöðu þeirra Jóhönnu og Steingríms J.