25.10.2009

Sunnudagur, 25. 10. 09.

Nú var að ljúka þáttaröð á RÚV, sjónvarpsmyndinni Hamarinn, sem hélt athyglinni til enda og það með ágætum.

Í dag skrifaði ég pistil um leynihraðferðina inn í ESB, þar sem ég gagnrýni vinnubrögð utanríkisráðuneytisins.

Friðbjörn Orri Ketilsson vekur athygli á því í pistli á amx.is, að Egill Helgason „senior journalist“ ritaði bréf til sérfræðinga í spillingarmati og taldi þá mæla of litla spillingu á Íslandi. Þetta yrði að leiðrétta. „Senior journalistar“ eiga auðvitað rétt á því að fá þær fréttir frá útlöndum, sem þeim eru að skapi, um spillingu í eigin landi.

Dv.is hefur nú gengið í lið með ósannindamönnunum, sem segja mig vilja reka Egil Helgason úr starfi hans hjá RÚV. Mér er nokk sama, hvar Egill vinnur. Hann og vinnuveitendur hans eiga hins vegar að fara að lögum. Varla er of mikils krafist að hreyfa slíku um sjálfan spillingarbanann, sem vill, að mæld sé meiri spilling?

Ég sé á vefsíðu Egils, að hann hefur verið með Jón F. Thoroddsen í þætti sínum í dag. Af þeim bókum, sem ég hef lesið um bankahrunið á Íslandi, er bók Jóns F. langverst. Egill segir hana hins vegar „skyldulesningu“. Egill hefur einnig endurtekið ósannindi Jóns F. í bókinni um saksóknara og mig. Vegna þess óhróðurs hef ég ritað Jóni F. tvö bréf og krafist leiðréttingar. Hann hefur ekki einu sinni látið svo lítið að svara mér. Skyldu mælingamenn spillingarinnar líta til starfa álitsgjafa?