Dagbók: janúar 2004
Laugardagur, 31. 01. 04.
Klukkan 13.15 hófst kjördæmisþing reykvískra sjálfstæðismanna á Hótel Sögu. Tók ég þar þátt í umræðum um hringamyndun og fleira og flutti ræðu.
Föstudagur, 30. 01.04
Fór klukkan 20.00 í Þjóðleikhúsið og skemmti mér mjög vel, þegar flutt var dagskrá til tilefni af afmæli heimastjórnarinnar.
Fimmtudagur, 29. 01. 04
Um klukkan 11.00 komu fjögur frumvörp mín sem dómsmálaráðherra á dagskrá alþingis um sölu fasteiga, lögmenn, fullnustu refsinga og breytingu á umferðarlögum. Lauk umræðu um þau um klukkan 12.45 og var þeim síðan vísað til nefnda.
Miðvikudagur, 28. 01. 04
Héldum klukkan 13.20 frá Stokkhólmi með Icelandair og lentum 15.15 á Keflavíkurflugvelli.
Þriðjudagur, 27. 01. 04.
Hitti í hádeginu í Folkets hus í Stokkhólmi fréttamenn frá kínverskri sjónvarpsstöð, sem höfðu óskað eftir samtali við mig. Ræddu þeir einkum mannréttindamál - í mikilli vinsemd - en mig grunar að Falun gong reki stöðina.
Fór síðdegis í Utenrikspolitiska Instituttet í Stokkhólmi og hlustaði á Vidar Helgesen aðstoðar-utanríkisráðherra Norðmanna ræða um friðargæslu Norðurlandanna og sáttastarf Norðmanna á Sri Lanka.
Klukkan 18.30 fórum við Svavar Gestsson sendiherra í bænahús gyðinga í Stokkhólmi og tókum þátt í ógleymanlegri minningarstund um þá, sem nasistar myrtu í helförinni - en þennan dag árið 1945 var Auschwitz lokað.
Mánudagur, 26. 01. 04
Síðdegis flutti ég ræðu mína á Stokkhólmsráðstefnunni gegn þjóðarmorði, sem haldin var í Folkets hus.
Sunnudagur, 25. 01. 04
Flaug klukkan 07. 45 til Stokkhólms til að sitja þar alþjóðlega ráðstefnu gegn þjóðarmorði.
Þegar á flugvellinum var augljóst að öryggisgæsla og móttökur yrðu sérstakar. Við Þorsteinn Davíðsson vorum leiddir út í sérstakan bíl við flugvélina og ekið með okkur í VIP-herbergi vallarins. Þar hittum við fulltrúa sænsku ríkisstjórnarinnar, sem var fylgdarmaður allan tíma, bílstjóra og bíl okkur til umráða auk lögreglubíls, sem ók á undan okkur, hvert sem ferðinni var heitið akandi. Hvarvetna á leiðinni til Stokkhólms (tæpir 50 km) voru lögreglumenn við allar aðreinar að hraðbrautinni og lokuðu henni fyrir almennri umferð. Hið sama gilti síðan á leiðum innan Stokkhólms og út á flugvöll við brottför, auk þess sem Grand Hotel, þar sem við bjuggum var innan stórs öryggissvæðis, sem var aðeins opið þeim, sem sýndu sérstök skilríki.
Laugardagur, 24. 01. 04.
Fór klukkan 11.00 á opin kaffifund með Davíð Oddssyni í Valhöll og ritaði frásögn um hann á vefsíðuna mína.
Fimmtudagur, 22. 01. 04
Flutti klukkan 12 á hádegi erindi í Norræna húsinu á vegum Politicu félags stjórnmálafræðinema, Evrópusamtakanna og Félags stjórnmálafræðinga um Varnarsamstarf Evrópusambandsins og Ísland og tók síðan þátt í pallborðsumræðum.
Þirðjudagur, 20. 01. 04
Fór klukkan 13.00 í heimsókn í Neyðarlínuna við Skógarhlíð og fræddist um starfsemi hennar af Þórhalli Ólafssyni framkvæmdastjóra og samstarfsmönnum hans.
Mánudagur, 19. 01. 04
Fór í heimsókn til Guðmundar Sophussonar, sýslumanns í Hafnarfirði klukkan 13.00, skoðaði lögreglustöð og skirfstofur auk þess sem við rituðum undir árangursstjórnunarsamning. Einnig litum við inn í lögreglustöð embættisins í Garðabæ.
Úr Garðabæ fórum við í Kópavog og heimsóttum Þorleif Pálsson sýslumann og lögreglu þar auk þess að rita undir árangursstjórnunarsamning.
Laugardagur, 17. 01. 04
Fórum klukkan 16.00 í Háskólabíó á velheppnaða afmælishátíð hf. Eimskipafélags Íslands.
Föstudagur, 16. 01. 04
Klukkan 15.30 tók ég þátt í því að opna nýja vefsíðu Útlendingastofnunar í húsakynnum hennar við Skógarhlíð.
Miðvikudagur, 14. 01. 04.
Íslensku tónlistarverðlaunin afhent í Þjóðleikhúsinu klukkan 20.00 og tók Rut við þeim fyrir hönd Kammersveitar Reykjavíkur fyrir besta hljómdiskinn með Brandenborgarkonsertum Bachs.