Dagbók: október 2012
Miðvikudagur 31. 10. 12
Fréttin um að ríkisstjórn Davids Camerons hafi tapað atkvæðagreiðslu um fjárlög ESB í breska þinginu í dag vegna uppreisnar innan þingflokks íhaldsmanna sýnir að ESB-málefni valda enn og aftur að stórpólitískum vandræðum í Bretlandi. Angela Merkel reyndi að koma Cameron til hjálpar á dögunum með yfirlýsingum um hve aðild Breta að ESB skipti. Hjálpin bar ekki þann árangur sem að var stefnt.
Atkvæðagreiðslan er ekki aðeins til marks um að ESB nýtur vaxandi óvinsælda í Bretlandi. Hún kann einnig að vera til marks um að Cameron sé að missa stjórn á Íhaldsflokknum. Hann kemst ekki upp með það sem æ fleiri flokksmenn kalla tvöfeldni í afstöðunni til ESB.
Hér á landi ættu forystumenn í stjórnmálaflokkum að fylgjast náið með þróuninni í Bretlandi. Þeir geta lært af henni að tvískinnungur í málefnum sem snerta þjóðarhagsmuni kemur mönnum ávallt í koll.
Utanríkismálanefnd alþingis situr nú og ræðir afstöðuna til orðalags á kröfu um bann með viðskipti með lifandi dýr sem er lifandi viðfangsefni í ESB-aðildarviðræðunum vegna ákvæða í ESB-regluverkinu sem alþingi verður að gleypa með húð og hári að kröfu Brusselmanna. Utanríkisráðuneyti Íslands vill ekki að krafist sé varanlegrar undanþágu frá þessum viðskiptum af því að það þrengi svigrúm viðræðunefndarinnar. Að þingmenn skuli sitja dögum saman og þrefa um hvort fara eigi að þessari kröfu utanríkisráðuneytisins sýnir tvískinnung eins og þann sem meirihluti breska þingsins vildi forðast í viðræðum innan ESB um fjárlög sambandsins árin 2014 til 2020,
Þriðjudagur 30. 10. 12
Rúmum 20 árum eftir lyktir kalda stríðsins stíga Svíar og Finnar til samstarfs við NATO á norðurslóðum. Þeir gera það með lofrýmiseftirliti sem hafið var af NATO að ósk Íslendinga eftir brottför bandaríska varnarliðsins héðan í september 2006. Í júlí 2007 kynnti NATO ákvörðun sína um að verða við óskum íslenskra stjórnvalda um að hér yrðu reglulega orrustuþotur undir merki NATO. Frakkar sendu fyrstu flugsveitina vorið 2008. Um svipað leyti fólu utanríkisráðherrar Norðurlanda Thorvald Stoltenberg, fyrrv. utanríkisráðherra Noregs, að semja skýrslu um framtíðarsamstarf Norðurlanda í öryggismálum. Hann skilaði tillögum í febrúar 2009 og vakti þar meðal annars máls á að Finnar og Svíar tækju að sér það verkefni sem þeir hafa nú ákveðið að sinna.
Ég hef sótt nokkra fundi síðustu misseri þar sem Norðurlandamenn hafa rætt öryggismál sín. Í fyrstu virtist mörgum tillaga Stoltenbergs um að Svíar og Finnar tækju að sér NATO-verkefni á Íslandi fjarlæg ef ekki fjarstæðukennd. Ég er sannfærður um að ákvörðunin sem kynnt var í dag hefði ekki verið tekin nema vegna þess að hægrisinnaðir forsætisráðherrar sitja í Finnlandi og Svíþjóð en innan flokka þeirra eru margir áhugasamir um aðild þjóðanna að NATO. Þær kunna að fara inn í bandalagið um Ísland.
Hið hlálega við þessa atburðarás er að á Íslandi situr ríkisstjórn þar sem að minnsta kosti helmingur ráðherranna, vinstri-grænir, hafa horn í síðu loftrýmiseftirlitsins eða eru beinlínis andvígir því. Þeir vita hins vegar sem er að kæmi málið til kasta alþingis yrði meirihluti þingmanna til að styðja þennan þátt í gæslu öryggis þjóðarinnar.
Þá ber að hafa í huga að Svíar og Finnar eru aðilar að Norðurskautsráðinu. Með flugi héðan öðlast flugmenn þeirra þjálfun í samstarfi við vestrænar þjóðir innan ráðsins sem hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta á Norður-Íshafi. Ekki kæmi á óvart að Rússar lýstu ólund vegna áformanna um að sænskar og finnskar orrustuþotur athafni sig frá Íslandi.
Mánudagur 29. 10. 12
Eftir að Páll Magnússon útvarpsstjóri hafði ráðist af miklu dómgreindarleysi á Davíð Oddsson fyrir að leggja til að skattgreiðendur fengju að velja hvort þeir létu nefskattinn renna til ríkisútvarpsins eða eitthvað annað sneri Páll sér að Baugsmiðlunum, eignarhaldi þeirra og fjármögnun og spurði hvort þingmenn ættu Jóni Ásgeiri Jóhannessyni einhverja skuld að gjalda. Viðbrögðin létu ekki á sér standa úr ranni Baugsmanna. Ari Edwald, forstjóri Baugsmiðlanna gömlu, svaraði af miklum þunga og hneykslan. Hann sakaði Pál um karlrembu og kvenfyrirlitningu – Jón Ásgeir ætti ekki miðlana heldur Ingibjörg, eiginkona hans!
Dansi fjölmiðlarnir sem þessir tveir menn stjórna eftir höfðinu er ekki von á góðu.
Jóhanna Sigurðardóttir skammaði Sjálfstæðisflokkinn blóðugum skömmum á laugardaginn fyrir að berjast fyrir niðurskurðarstefnu í ríkisfjármálum. Í dag sat hún fund í Helsinki með ráðherrum frá Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum þar sem lýst var stuðningi við niðurskurðarstefnu ESB og skilningi á kröfum Angelu Merkel Þýskalandskanslara á hendur Grikkjum í nafni þýskra skattgreiðenda. Sjá hér.
Enn vakna spurningar um samhengið í ræðum Jóhönnu eða málflutningi hennar almennt. Þar er ekki heil brú þegar grannt er skoðað hvort sem rætt er um efnahagsmál, stjórnarskrármál eða ESB-aðildarumsókn.
Sunnudagur 28. 10. 12
Jóhanna Sigurðardóttir ræðst á Sjálfstæðisflokkinn fyrir árás á velferðarkerfið vegna hvatninga hans um aðhald í ríkisútgjöldum. Í sömu ræðu ákallar hún Evrópusambandið og telur Íslendingum helst til bjargar að ganga í það. Hér er um þverstæðu að ræða. Hvergi er lögð eins mikil áhersla á niðurskurð ríkisútgjalda og innan Evrópusambandsins. Í dag bárust fréttir um að Grikkir yrðu enn að grípa til 150 sparnaðarráða til að fullnægja kröfum ESB. Efnt er til mótmæla víða innan evru-svæðisins gegn aðhaldskröfum ESB og nú er atvinnuleysi meira en 25% á Spáni.
Stundum má ætla að ræðusmiðir Jóhönnu lesi ekki ræðutextann í heild heldur skrifi hver sinn kafla og hún lesi síðan það sem að henni er rétt. Skuldir Íslands eru um 100% af landsframleiðslu ef ekki hærri. Um þetta ríkir leynd eins og svo margt annað í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ríki með svo háar skuldir eru tekin í gjörgæslu Brusselmanna sem krefja ríkisstjórnir um aðhald og hóta sektum sé ekki farið að kröfum þeirra. Innan ESB er á döfinni að skipa sérstakan ríkisfjármálatilsjónarmann í framkvæmdastjórn ESB til að sauma að ríkisstjórnum á borð við þá sem Jóhanna leiðir.
Þegar grannt er skoðað er ekki heil brú í gagnrýni Jóhönnu á þá hér innan lands sem vilja sýna meiri aðgæslu en hún og stjórn hennar í ríkisfjármálum. Hún hefur alls ekki nein efni á að ráðast á sjálfstæðismenn fyrir ríkisfjármálastefnu þeirra og hrópa síðan á ESB sér til hjálpar. Sjálfstæðismenn hafa ekki boðað neitt í líkingu við það sem krafist er af Brusselmönnum. Jóhanna ætti að lesa ræðuna sína aftur og taka í hnappadrambið á þeim sem sömdu hana.
Laugardagur 27. 10. 12
Hér hefur oftar en einu sinni verið vikið að augljósri hlutdrægni Egils Helgasonar sem stjórnar tveimur umræðuþáttum á ríkisútvarpinu annars vegar um stjórnmál og hins vegar bókmenntir. Hvorugur þátturinn kemst á blað þegar greint er frá 10 þáttum sem vekja mestan áhuga áhorfenda. Hefur verið bent á að í því felist virðingarleysi við lög ríkisútvarpsins að láta jafnhlutdrægan mann annast þætti af þessum toga.
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er vakið máls á hlutdrægni ríkisútvarpsins og varpað fram hugmynd um að fólk fái að ákveða með því að haka í box hvort það vilji kaupa þjónustu þessarar opinberu stofnunar sem kostuð er með nefskatti eða beina skattinum annað.
Egill Helgason bregst illa við þessu og ræðst að Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins. Viðbrögð Egils sýnast þó mildileg þegar leitað er álits Páls Magnússonar útvarpsstjóra og hann segir á Eyjunni:
„Það er ekki lengur hægt að svara því sem frussast út um samanbitna kjálkana á Davíð þegar hann fjallar um RÚV. Þetta er eins og það skrýtnasta í kveðskap Æra-Tobba – eitthvað illskiljanlegt og samhengislítið garg út í loftið. En Tobbi verður að njóta sannmælis. Flest það sem hann samdi er auðvitað miklu gáfulegra en heiftarþruglið í Reykjavíkurbréfum Davíðs.“
Heilbrigð dómgreind er mikill kostur við öll störf og ætti að vera skilyrði við ráðningu ríkisútvarpsstjóra. Dómgreindarskorturinn í toppnum á Efstaleitinu skýrir þaulsetu Egils við þáttastjórn og að vinsælasta efni sjónvarpsins er það sem er endursýnt frá fyrri áratugum. Hvað skyldi gert við nefskattinn?
Þess skal getið að stjórnlagaráðsliðinn Illugi Jökulsson kemur Agli og Páli til hjálpar á hinn mannúðlega hátt að heimta að fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins verði sviptir málfrelsi og bannað að segja álit sitt á málefnum líðandi stundar. Skyldi hann að nýju fá frjálsar hendur í Efstaleiti? Þaðan hvarf hann á sínum tíma til starfa hjá Baugsmönnum þegar þeir unnu gegn Sjálfstæðisflokknum með Samfylkingunni.
Föstudagur 26. 10. 12
Heppilegt að ég lét setja nagladekkin undir í dag. Þegar komið var austur að Hvolsvelli var snjóföl á jörðu og hálka inn Fljótshlíðina.
Í dag birtist á SpiegelOnline löng frásögn um fjárfestingar Kínverja erlendis og raunar einnig heima fyrir í Kína. Frásögnin hefst á heimsókn til góðkunningja Íslendinga, Huangs Nubos. Hann lýsir enn einu sinni vonbrigðum sínum yfir að fá ekki að kaupa Grímsstaði á Fjöllum og þýsku blaðamennirnir segja hann hafa glatað upphaflegum áhuga sínum á Grímsstöðum og Íslandi. Ekki er minnst einu orði á að Huang hafi ætlað að skrifa undir leigusamning um hluta Grímsstaðalandsins um miðjan október. Þýðir það að hann hafi ekki lengur áhuga á að koma sér fyrir á Íslandi? Á Evrópuvaktinni má lesa þýðingu af frásögninni í SpiegelOnline.
Sama dag og þessi frásögn birtist í þýsku blaði má í The New York Times lesa langa frásögn um ótrúlega auðsöfnun fjölskyldu Wen Jiabaos, forsætisráðherra Kína. Þar kemur fram hið sama og alls staðar má lesa þegar rætt er um kínverska auðmenn að enginn í landinu getur skapað sér sambærilega aðstöðu og Huang Nubo hefur tekist nema hann njóti velvildar kommúnistaflokksins eða hafi náin tengsl við æðstu menn hans og þjóðarinnar. Að annað gildi um Huang Nubo er fráleitt enda er kommúnistaflokkurinn hinn ósýnilegi bakhjarl allra kínverskra fyrirtækja.
Vaki ekki fyrir kínverskum ráðamönnum að skapa aðstöðu í þágu Kína með fjárfestingum Huangs Nubos hangir hitt á spýtunni að einhver innan flokksins hafi fjárhagslegan hag af viðskiptum Huangs við Íslendinga. Huang kom hingað sem skáld og Íslandsvinur með tengsl inn í valdastétt Samfylkingarinnar. Hann var talinn hafa einstaka aðstöðu til að búa um sig á Íslandi, forráðamenn Samfylkingarinnar tóku honum fagnandi og lögðu honum meira að segja til lögfræðing, Lúðvík Bergvinsson, fyrrverandi formann þingflokks Samfylkingarinnar.
Kínverska valdastéttin leit á valdastöðu Samfylkingarinnar og taldi sig horfa í spegil. Rauði dregillinn var dreginn fram í sendiráði Íslands í Peking og Huang gat vitnað til tengsla við forseta Íslands. Allt kom fyrir ekki, íslensk lög var ekki unnt að teygja á þann veg að þau rúmuðu Huang á Grímsstöðum á Fjöllum. Þá var breytt um taktík og gengið á eftir sveitarstjórnarmönnum á norðausturlandi með grasið í skónum. Nú hefur Huang Nubo misst upphaflega áhugann á Íslandi og situr á síðkvöldum við ljóðagerð með héra og dverg-hákarla sér við hlið.
Fimmtudagur 25. 10. 12
Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um hættuna af hrægammasjóðunum sem sækja á þrotabú bankanna. Leyndin í kringum þetta mál er óþolandi. Í stað þess að bankaleynd minnkaði eftir hrunið hefur hún aukist. Stjórnvöld eru nú á kafi í samskiptum við leynilega eigendur bankanna. Þegar eitthvað fréttist vegna flutnings frumvarpa á alþingi blasir við að stjórnarþingmenn eru í vasanum á erlendum kröfuhöfum.
Miðvikudagur 24. 10. 12
Í dag ræddi ég við sr. Halldór Gunnarsson í Holti í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um skoðanakönnunina vegna stjórnarskrárinnar. Hann fagnaði ákvæðinu um þjóðkirkjuna. Þá ræddum við einnig um stjórnmálaástandið en sr. Halldór býður sig fram í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Þáttinn má sjá næst kl. 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.
Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpunnar, flutti erindi í Rótarý-klúbbi Reykjavíkur í dag um Hörpuna, stöðu nú og framtíð. Frá því að húsið var opnað hafa 1,6 milljónir manna komið í það, verðlaunin og viðurkenningarnar sem húsið hefur hlotið eru margar. Bókun ráðstefnuþjónustu á árinu 2013 er margföld miðað við það sem verið hefur. Við starfsemi hússins blasir ekkert annað en vöxtur. Vegna óheyrilegra fasteignagjalda verður leitað til til dómstóla. Þegar ég kom að undirbúningi að smíði hússins kom mér aldrei til hugar að skattar til Reykjavíkurborgar mundu standa rekstri hússins fyrir þrifum enda eru borg og ríki bakhjarlar hússins.
Nýlega ræddi Charlie Rose, frægi bandaríski sjónvarpsmaðurinn, við hljómsveitarstjórann Riccardo Muti, aðalstjórnanda Chicago Symphony Orchestra. Muti sagði þrjár sinfóníuhljómsveitir bestar í heimi, tvær við hliðina á hljómsveitinni í Chicago: Berliner Philharmoniker og Wiener Philharmoniker. Ein þessara hljómsveita, sú í Berlín sem Simon Rattle stjórnar verður hér á landi 20. nóvember. Hún hefði aldrei ákveðið að leggja leið sína til landsins nema vegna Eldborgar – tónlistarsalarins í Hörpu sem tímaritið Grammophone telur meðal 10 bestu tónlistasalar í veröldinni á nýrri öld.
Við blasir að ný vídd hefur bæst við íslenskt samfélag með Hörpu og gert þeim sem hér búa að njóta hluta sem aldrei hafa verið í boði áður.
Þriðjudagur 23. 10. 12
Í umræðum um breytingar á stjórnarskránni er talað á þann veg að þingmenn hafi í tæp sjötíu ár skort vilja til að endurskoða hana. Þetta er að sjálfsögðu rangt eins og svo margt sem talsmenn stjórnlagaráðs og Jóhönnu Sigurðardóttur segja um þetta mál. Þess má til dæmis geta að Gunnar Thoroddsen hóf þátttöku í stjórnmálum að nýju á áttunda áratugnum með það sem baráttumál að breyta stjórnarskránni. Hann samdi frumvarp að nýrri stjórnarskrá, muni ég rétt. Málið hlaut ekki framgang.
Vandinn er ekki sá að margir hafi ekki haft skoðanir á efni í nýja stjórnarskrá. Vandinn hefur verið að skapa nógu víðtæka samstöðu um haldgóðan texta til að þingmenn samþykktu hann. Vinnubrögðin í stjórnlagaráði stangast á við vönduð vinnubrögð í stjórnlaganefndum fyrri ára. Þar hefði aldrei neinum komið til hugar að efna til einskonar bögglauppboðs við smíði stjórnarskrár og setja afurðina síðan í gám, flytja hann til alþingis og síðan þaðan út á víðavang, nefna nokkur atriði sem talið væri að félli að skoðun flestra og efna til skoðanakönnunar á kostnað skattgreiðenda fyrir 250 til 300 milljónir króna og láta síðan rýna í innihaldið.
Eftir að skoðanakönnunni lauk beindist athygli að nefnd fjögurra lögfræðinga sem vinnur með leynd að skoðun á tillögunum sem spurt var um í könnuninni. Kynnt var í sama mund og niðurstöður könnunarinnar voru kynntar að lögfræðingarnir myndu leggja fram skýrslu eftir tvær vikur. Í dag var sagt að þeir þyrftu lengri tíma. Þessa vinnu hafa menn hingað til unnið samhliða smíði tillagna að texta í stjórnarskrá. Þeir hafa ekki stofnað til rýnivinnu eftir að tillögur að nýrri stjórnarskrá hafa verið kynntar. Rýnivinnan hefur verið unnin samhliða smíði textans og hann ekki kynntur fyrr en frumkröfum um góð vinnubrögð hefur verið fullnægt.
Að þessu sinni er öllu snúið á hvolf og síðan ætlast til að þingmenn gleypi það sem að þeim er rétt. Í samræmi við öfugmælin í þessu öllu saman segir síðan Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að eina leiðin fyrir alþingi til að auka virðingu sína sé að samþykkja textann á mettíma.
Mánudagur 22. 10. 12
Lokakappræðurnar milli bandarísku forsetaefnanna er í kvöld eða nótt á íslenskan tíma. Nú verð ég fjarri góðu gamni enda kominn heim frá Boston. Það er bót í máli að auðvelt er að nálgast efnið á netinu hvenær sem er. Þjónustan sem felst í aðgangi að sjónvarpsefni þegar manni sjálfum hentar er til mikilla bóta. Ég gat til dæmis skoðað tvo síðustu þættina af Brúnni eftir heimkomu sem áskrifandi að sjónvarpsefni hjá Skjánum. Mér er því ekkert að vanbúnaði að horfa á síðasta þáttinn annað kvöld.
Allt fram að annarri lotu kappræðnanna hafði Barack Obama yfirburði gagnvart Mitt Romney þegar spurt var um getu þeirra á sviði utanríkismála. Eftir aðra lotuna tók Romney að saxa á forskot Obama þar. Ræður mestu hve illa Bandaríkjastjórn hefur haldið á málum vegna hryðjuverkaárásinnar á bandarísku ræðismannsskrifstofuna í Benghazi í Líbíu. Embættismenn hafa orðið margsaga og það varð Obama ekki til bjargar að stjórnandinn í annarri lotunni rétti honum hjálparhönd.
Því fer víðs fjarri að nokkur mynd sé gefin af andrúmsloftinu í bandarísku kosningunum í íslenskum fjölmiðlum. Erlendar fréttir sjónvarpsstöðvanna eru hvorki fugl né fiskur og þar virðist enginn áhugi á að dýpka skilning áhorfenda á málefnum líðandi stundar. Er raunar óskiljanlegt hve erlendar fréttir eru á miklu undanhaldi í fjölmiðlum landsins. Fyrir því er hefð allt frá því á 19. öld að erlendir viðburðir settu sterkan svip á þá miðla sem fluttu landsmönnum fréttir, nægir þar að benda á Skírni og Almanak Þjóðvinafélagsins.
Áhugaleysi fjölmiðla á erlendum fréttum leiðir til þess að þekking fjölmiðlamanna á því sem gerist í umheiminum minnkar, þeir glata hæfni til að leita uppi fréttir, leggja mat á hvaða atburðir erlendis hafa skírskotun til þess sem gerist hér á landi eða snerta íslenska hagsmuni og aldarlöng hefð verður að engu. Dapurleg þróun.
Sunnudagur 21. 10. 12
Furðulegt er nú að sjá fulltrúa stjórnlagaráðs tala um „atkvæðagreiðslu af þessu tagi“ þegar rætt er um skoðanakönnunina 20. október til að skýra að eðlilegt sé að ekki nema tæplega 50% kjósenda hafi farið að kjörstað og tekið þátt í skoðanakönnuninni. Hefði „atkvæðagreiðslan“ verið nefnd skoðanakönnun og ekki nema tæp 50% tekið þátt hefðu menn varla talið hana marktæka. Við fagnaðaryfirlýsingar um þátttökuna er síðan bætt að þingmenn hafi ekki heimild til að breyta neinu í tillögum stjórnlagaráðs. Þetta er sagt við alþingismenn sem höfðu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave að engu og gerðu nýjan Icesave-samning sem síðan var enn á ný felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Að greidd séu atkvæði um efni í stjórnarskrá er sjaldgæft. Það var gert hér á landi vegna stofnun lýðveldis og þá var þátttakan nærri 100%. Hans Haraldsson vekur athygli á því á vefsíðu sinni að í Frakklandi hafi þátttaka verið um 80% þegar kosið var um stjórnarskrá V. lýðveldisins á sjötta áratugnum.
Líklegt er að fögnuður stjórnlagaráðsliða stafi af því að þeir höfðu búið sig undir enn verri útkomu. Hitt er síðan einbert ofríki að setja alþingismönnum skorður, stjórnarskrá lýðveldisins segir að þeim beri að fara eftir eigin sannfæringu. Þeir eru ekki bundnir af skilyrðum kjósenda eða annarra ráðgjafa. Skoðanakönnunin var ráðgefandi. Alþingismenn hafa stjórnarskrárvaldið og hafa ráðið sérfræðinga til að veita sér ráðgjöf um textasmíði stjórnarskrárinnar.
Ég skrifaði pistil um úrslitin í skoðanakönnunina hér á síðuna. Nú fyrst hefst hin raunverulega vinna við að smíða stjórnarskrártextann. Unnið hefur verið að verkinu á bakvið luktar dyr undanfarið á vegum stjórnarflokkanna. Tími er til þess kominn að upplýsa almenning um hvað málið snýst svo að unnt sé að hefja almennar umræður um texta sem máli skipta en ekki málamiðlunartexta stjórnlagaráðs sem reynist marklítill þegar í hann er rýnt.
Laugardagur 20. 10. 12
Fróðlegt var að fylgjast með því hvernig viðmið fréttastofu ríkisútvarpsins og annarra vegna kjörsóknar í skoðanakönnunni um tillögur stjórnlagaráðs breyttust eftir því sem á daginn leið og í ljós kom að hún yrði mjög dræm. Undir lokin var tekið til við að bera kjörsóknina saman við stjórnlagaþingskosningarnar 27. nóvember 2010 sem hæstiréttur ógilti með ákvörðun 25. janúar 2011.Þá var hún aðeins 36,77% og því lægsta tala sem fréttamenn gátu fundið til að hlustendum þætti þátttakan í könnuninni ekki gjörsamlega ömurleg.
Stefán Ólafsson prófessor fann annað viðmið: þjóðaratkvæðagreiðslur í Sviss. Þar er þátttakan oft milli 30% og 40%. Hefur verið spurt um nýja stjórnarskrá í Sviss? Er Stefán þeirrar skoðunar að andlag kannana af þessu tagi skipti ekki máli? Þá er alveg óþarfi að leita til Sviss til samanburðar. Hvers vegna nefnir Stefán ekki þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave þar sem kosningaþátttakan var mun meiri en núna - eða er Stefán komin á þá skoðun að ekki hafi verið þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða heldur skoðanakönnun?
Hluti af spuna stjórnlagaráðsliða undanfarið hefur verið að ekki skipti neinu máli hve margir taki þátt í kosningunni. Þetta er fráleit skoðun en svo sem í samræmi við annað sem frá þessu fólki hefur komið. Stjórnarskrárbrölt Jóhönnu Sigurðardóttur og félaga hefur nú kostað skattgreiðendur 1,3 milljarða króna. Fráleitt er að halda fram að minni en 50% þátttaka í skoðanakönnun sem stofnað er til með slíkum tilkostnaði skipti ekki neinu. Þá er látið í veðri vaka að dræma þátttöku megi rekja til þess að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki skipt sér af könnuninni. Þessi skoðun stenst ekki gagnrýni frekar en annað frá talsmönnum stjórnlagaráðsliða. Flokksformenn hafa hvatt fólk í þessu máli og Samfylkingin bauð upp á kaffi í tilefni dagsins til að ýta undir kjörsókn.
Hin dræma þátttaka segir aðeins eitt: Spuni stjórnlagaráðs og alþingismanna sem stóðu að þessari marklausu aðgerð höfðaði einfaldlega ekki almennt til fólks.
Föstudagur 19. 10. 12
Hið einkennilega við málstað þeirra sem hvetja fólk til að greiða atkvæði með tillögu stjórnlagaráðs í skoðanakönnuninni á morgun er að þeir líta á tillöguna sem leið til að ná sér niðri á hluta þjóðarinnar, pólitískum óvinum sínum. Þetta er veikasti þátturinn í málflutningi talsmanna stjórnlagaráðstillagnanna af því að hann sannar að tillögurnar verða aldrei að veruleika, jafnvel þótt meirihluti manna lýsi stuðningi við þær í skoðanakönnuninni.
Í lýðræðisríki hefur aldrei gerst að sett sé stjórnaraskrá til höfuðs hluta þess fólks sem á að búa við hana. Alls staðar þar sem stjórnmálaréttindi eru í heiðri höfð leitast menn við að ná víðtækri samstöðu efni grunnreglna samfélags síns.
Einfaldasta leiðin til að stöðva þetta feigðarflan í nafni stjórnarskrárinnar er að segja nei við fyrstu spurningunni í skoðanakönnuninni á morgun.
Fimmtudagur 18. 10. 12
Lokadaginn í Boston notuðum við til að skoða stærsta listasafn borgarinnar Museum of Fine Arts. Glæsilegt safn. Þar er sérstök deild helguð frelsishetjunum frá Boston og listmálaranum Copley sem borgin heiðrar á þann veg að eitt virðulegasta torg hennar er nefnt eftir honum.
Þetta er skrifað á flugvellinum í bið eftir að Icelandair vélin leggi af stað heim á leið. Hið einkennilega gerðist þegar við komum á völlinn að bókun okkar á sætum sem gerð hafði verið við kaup miðanna var sögð ógild og urðum við að sætta okkur við sæti í andstöðu við óskir okkar. Til hvers býður Icelandair farþegum að bóka sæti ef bókunin reynist marklaus þegar á hólminn er komið? Engin viðvörun gefin og raunar engin skýring því að við innritunina sagði stúlkan að hún réði engu um þetta. Hún gæti ekki gert annað en það sem tölvan segði henni að gera.
Miðvikudagur 17. 10. 12
Það var hressandi að fara um Boston og Harvard í dag og fræðast enn meira um byltingarsögu Bandaríkjanna og stofnun þeirra. Hugmyndafræðin var reist á að gera annað og betra en í gömlu Evrópu. Í Evrópu hefur verið reynt að gera eitthvað nýtt eftir tvennar heimsstyrjaldir, skilin við hið gamla eru þó ekki nógu skýr og verða það ekki vegna sögulegra róta sem ekki þvældust fyrir mönnum í Bandaríkjunum. Þar tókust menn á um hugsjónir en ekki sögulega arfleifð. Evrópusambandið verður aldrei að Bandaríkjum Evrópu, þess í stað gliðnar það.
Össur Skarphéðinsson hætti að halda úti vefsíðu þegar hann varð utanríkisráðherra. Þess í stað skrifar hann hól um sjálfan sig á Eyjuna/Pressuna. Ég hef birt furðusögur um Össur á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér og hér.
Össur segir þessi skrif „skapvonskukast Björns Bjarnasonar“. Ekkert er fjær mér á skemmtilegu ferðalagi í Boston og nágrenni. Furðusögurnar um Össur eru öllum gleðiauki. Össur segir til dæmis í Eyjupistli í dag sem birtur er nafnlaus á ábyrgð Björns Inga Hrafnssonar, hann var einu sinni í Framsóknarflokknum:
„Staðreyndin er sú, að maður verður að viðurkenna það hvort sem maður styður Össur eða ekki, að hann kemur hlutunum í verk, og enginn maður á Íslandi fer eins létt með að teikna hringi í kringum íhaldið, sem nær engu taki á honum. Og Björn er að sjá það teiknast upp að Össur mun verða langefstur í Reykjavík, getur hirt formennsku í Samfylkingunni ef hann vill, og gæti farið langt með að tryggja að Engeyjarættin verði önnur fjögur ár, ef ekki átta, utan ríkisstjórnar.“
Enginn skrifar af svo mikilli aðdáun á sjálfum sér en einmitt Össur. Spurningin er þessi: Ætla kjósendur Samfylkingarinnar að fá slíkan oflátung til forystu í stað eintrjáningsins Jóhönnu? Það er annað hvort í ökkla eða eyra.
Þriðjudagur 16. 10. 12
Nú hafa þættir mínir á ÍNN í september verið settir á netið. Hér má sjá viðtal við Jón Helga Guðmundsson í Byko og hér við Jakob F. Ásgeirsson, ritstjóra Þjóðmála.
Ég fræddist enn um bandarísku byltingarsöguna hér í Boston í dag. Nýlega hefur safn um Tea Party þáttinn í henni verið opnað. Kjarni þess máls er að nýlendubúarnir í Boston vildu ekki sætta sig við að breska þingið legði á þá skatta. Fólkið sjálft ætti að kjósa þá sem legðu á það skatta.
Sagt er frá því á netinu að Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, hafi flutt ræðu í dag í Valhöll um reynslu sína af mótmælunum fyrir og eftir áramót 2008/2009. Hann hefur ritað frásögn um málið fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Skýrslan hefur hvergi verið birt og enginn utan lögreglustöðvarinnar hefur fengið að sjá hana.
Geir Jón rifjar upp þegar Álfheiður Ingadóttir, núv. þingflokksformaður VG, stóð fyrir fram lögreglustöðina við Hlemm og öskraði hvatningarorð til þeirra sem gerðu árás á lögreglustöðina. Geir Jón segir að mest hætta hafi steðjað að alþingi þegar mótmælendur ruddust þar inn í byrjun desember 2008. Þá stóð Álfheiður með farsímann við gluggann í Kringlu þinghússins.
Eva Hauksdóttir sem varð sér til skammar með gjörningi í gervi nornar fyrir framan Stjórnarráðshúsið fór í fylgd Geir Jóns í hús Seðlabanka Íslands og gekk á fund Davíðs Oddssonar. Eva vill fá aðgang að skýrslu Geir Jóns. Skyldi hann segja frá Evu fyrir og eftir fundinn með Davíð?
Mánudagur 15. 10. 12
Í dag gafst tími til fara um miðborg Boston og sigla um höfnina. Þegar farið er um Boston blasa alls staðar við sögufrægir staðir úr byltingunni sem leiddi til þess að Bandaríkin voru stofnuð. Hér var til dæmis hið upphaflega Tea Party og fræðast má um sögu þess.
Hér geta menn farið um götur og falla í stafi við að sjá rúmlega 200 ára gamlar byggingar. Evrópumönnum finnst þetta ekki mjög merkilegt miðað við enn eldri glæsihallir sínar og kirkjur. Sagan sem gerðist í Boston og á austurströnd Bandaríkjanna markaði hins vegar meiri þáttaskil í mannkynssögunni en flest af því sem gerst hefur í Evrópu.
Sunnudagur 14. 10. 12
Sunnudagur 15. 10. 12
Lokatónleikar Skálholtskvartettsins í þessari ferð til Boston og New Haven voru í gærkvöldi, laugardag, í Gasson Hall í Boston College. Húsið er í stíl Oxford og Cambridge í Bretlandi, var reist fyrir um 100 árum og nýlega endurgert með stuðningi samtaka Bandaríkjamanna af írskum uppruna. Við fengum okkur kvöldverð fyrir tónleikana í stórri kantínu háskólans sem var þéttsetin nemendum.
Á tónleikunum fluttu þau kvartetta eftir Boccherini og Haydn fyrir hlé og síðan klarinettukvintett eftir Mozart eftir hlé en þá bættist Owen Watkins, Ástrali búsettur í Bandaríkjunum, í hópinn og lék á basset-klarinett sem hann hafði smíðað sjálfur enda hljóðfærasmiður auk þess að leika á blásturhljóðfæri. Um 200 manns sóttu tónleikana og fögnuðu listamönnunum innilega.
Um hádegisbilið í dag fórum við í Skinner-uppboðshúsið í hjarta Boston og fylgdumst með uppboði á strengjahljóðfærum og bogum fyrir þau. Síðan héldum við í Symphony Hall, tónleikahús Boston. Það var reist árið 1900 og var árið 1999 skráð sem sögulegt mannvirki Bandaríkjanna, U.S. National Historic Landmark, með þeirri umsögn að með vísan til hljómburðar sé húsið talið meðal hinna þriggja bestu í heimi og hið besta í Bandaríkjunum.
Handel and Haydn Society í Boston stóð fyrir tónleikunum í Symphony Hall í dag og hóf félagið 198. starfsár sitt með þeim. Flutt voru verk eftir Bach, svíta, kantötur og loks Magnificat. Húsið er glæsilegt, salurinn „skókassalaga“ og hljómburður með miklum ágætum.
Smíði þessa húss fyrir 112 árum og tæplega 200 ára starfsemi félags til heiðurs Händel og Haydn sýnir að í Boston hefur menning og áhugi á henni snemma fæst rætur hjá þeim sem hér numu land á sínum tíma, listhneigðin er einnig til marks um ríkidæmi. Háskólar eru hér fleiri og betri en á nokkrum stað á jarðarkringlunni.
Nú hefur þáttur minn með Ágústi Þór Árnasyni á ÍNN 10. október verið settur á netið og má sjá hann hér.
Því miður hafa þeir á ÍNN ekki fært inn þætti mína í september á netið. Geri þeir það vek ég athygli á því.
Laugardagur 13. 10. 12
Við skruppum inn til Boston með lest úr úthverfinu þar sem við búum. Það er auðvelt að ferðast héðan inn í hjarta borgarinnar.
Síðdegis æfði Skálholtskvartettinn og nú hefur kvikmyndagerðarmaður slegist í hópinn, Brendan, frá Portland í Oregon-ríki sem flaug hingað til að halda áfram við gerð heimildarmyndar um Jaap Schröder, fiðluleikara og frumkvöðuls Skálholtskvartettsins.
Klukkan 18.30 hófst Master Class í kammermúsik í Boston College Music Department. Nemendur við skólann léku og Jaap leiðbeindi þeim. Var mjög fróðlegt að hlusta á hann skýra fyrir nemendunum hvað mætti betur fara. Félagar í Skálholtskvartettinum, Rut, Svava Bernharðsdóttir og Sigurður Halldórsson tóku einnig þátt í kennslunni með Jaap.
Um klukkan 20.00 lék síðan Skálholtskvartettinn brot úr tveimur kvartettum eftir Purcell og Schübert fyrir nemendur og kennara tónlistardeildarinnar.
Jaap sagði frá hvernig áhugi hans á flutningi kvartetta kom til sögunnar með kynnum sínum af tónlist 17., 18. og 19. aldar. Hann stofnaði á sinum tíma Qudrao Amsterdam til að flytja kvartetta frá þessum tíma og færa flutninginn sem næst upprunalegri mynd í ljósi tónlistarsögunnar með athygli á að tónskáld hefðu aldrei heyrt tónlist seinni tíma manna þegar þeir sömdu tónverk sín og þess vegna verði að líta til baka þegar menn reyni að átta sig á hvernig tónskáldið hafi litið á eigin verk og flutning þeirra. Þá leiddi Jaap Quartetto Estetrhazy og síðan Smithsonian String Quartet. Ef farið er inn á Amazon má sjá hve mikið hefur verið hljóðritað af flutningi þessara kvartetta. Hann stofnaði einnig Concerto Amsterdam sem var brautryðjandi í flutningi verka með barokk-hljóðfærum.
Þau sem mynda Skálholtskvartettinn léku fyrst saman 1997. Jaap hefur verið fastur gestur á Skálholtstónleiknum síðan 1993 og hann gaf árið 2006 stóran hluta tónlistarbókasafns síns til Skálholts. Safninu hefur því miður ekki enn verið búinn sá samastaður sem hæfir.
Föstudagur 12. 10. 12
Við komum aftur til Boston frá New Haven í gær og horfðum á kappræður bandarísku varaforsetaefnanna á heimili gamalla hjóna sem eru stuðningsmenn Obama. Greinilegt var að Joe Biden varaforseti talaði stundum beint til þeirra en þeim þótti ekki allt merkilegt sem Paul Ryan sagði. Yfirlæti Bidens í garð keppinautar síns og fliss hans eða hlátur spillti mjög fyrir honum.
Ég renndi í gegnum Morgunblaðið á netinu og sé að Sveinn Skúlason tekur að sér að bera í bætifláka fyrir Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann vegna greinar sem ég skrifaði um Sjálfstæðisflokkinn og komandi prófkjör í tímaritið Þjóðmál.
Sveinn grípur til útúrsnúninga eins og menn gera gjarnan til varnar vondum málstað. Sveinn lætur eins og ég vegi að grasrót Sjálfstæðisflokksins í grein minni. Þetta er algjör umsnúningur. Ég veg að þeim sem gengu leynt og ljóst erinda Baugsmanna innan Sjálfstæðisflokksins á árinu 2006. Það átti ekkert skylt við framboð mitt til borgarstjórnar árið 2002 heldur var gert vegna starfa minna sem dómsmálaráðherra og málaferlanna gegn Baugi á þessum árum. Ætlunin var að ryðja dómsmálaráðherra úr vegi af því að Baugsmenn töldu sig ekki hafa tök á honum.
Á meðan áhrifamenn innan Sjálfstæðisflokksins viðurkenna ekki staðreyndir sem þessar og láta sem þeir átti sig ekki á hvernig leitast var við að grafa undan einstaklingum innan flokksins með hagsmuni fésýslumanna að leiðarljósi og kjósa þess í stað að tala um grasrót flokksins sýnist þörf á að ræða þessi mál frekar og ítarlegar í tengslum við ákveðna frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins en ég hef kosið að gera til þessa.
Fréttir af nýbirtri skýrslu um málefni Orkuveitu Reykjavíkur sýna nauðsyn þess að fara betur ofan í þau mál öll. Ég vék lítillega að REI-málinu í grein minni í Þjóðmálum. Skora ég á áhugamenn um Sjálfstæðisflokkinn og stöðu hans á líðandi stundu að lesa þetta hefti tímaritsins.
Fimmtudagur 11. 10. 12
Kenningin um að stjórnarskráin 1944 hafi verið sett til bráðabirgða er fráleit og stenst enga skoðun. Þá eins og oft síðan voru stjórnmálamenn hins vegar sammála um að huga að endurbótum á stjórnarskránni og settu á laggirnar nefnd og síðan nefndir í því skyni. Áhersla var á að endurskoðunin yrði í sátt og náðist það markmið ekki fyrr en 1995 undir formennsku Geirs H. Haarde í tíð Davíðs Oddssonar sem forsætisráðherra. Þá var samþykktur nýr mannréttindakafli stjórnarskrárinnar.
Aðferðin sem Jóhanna Sigurðardóttir og Þorvaldur Gylfason hafa beitt við endurskoðun stjórnarskrárinnar er eins fjarri því sem menn vildu árið 1944 og unnt er að ímynda sér. Þau gangast bæði upp í að skapa ágreining og raunar ófrið um stjórnarskrána með þá blekkingu að leiðarljósi að slíkt sé nauðsynlegt vegna hruns bankanna haustið 2008. Atburðirnir þá snertu ekki stjórnarskrána á neinn hátt. Er raunar óskiljanlegt að þremenningarinnar sem sátu í rannsóknarnefnd alþingis skuli sitja þegjandi undir áróðri um að þau hafi hvatt til þess óskapnaðar sem liggur fyrir frá stjórnlagaráði.
Í gær ræddi ég við Ágúst Þór Árnason frá lagadeild Háskólans á Akureyri í þætti mínum á ÍNN. Ágúst Þór sat í stjórnlaganefnd sem vann úr tillögum þjóðfundarins 2010. Hann og Skúli Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sem einnig sat í stjórnlaganefnd eru eindregið á móti aðferðinni sem stjórnlagaráð og meirihluti alþingis hefur valið í stjórnarskrármálinu. Samtal okkar Ágústs Þórs verður endursýnt um helgina.
Eina leiðin til að koma í veg fyrir að 250 milljóna króna skoðanakönnunin 20. október 2012 leiði til enn meiri óþarfa útgjalda skattgreiðenda er að segja nei við fyrstu spurningunni í könnuninni og láta hjá líða að svara öðrum spurningum.
Stjórnlagaráðstillögurnar eru svo gallaðar að alþingismenn treystu sér ekki til að taka afstöðu til þeirra. Jóhanna hefur falið fjórum lögfræðingum á kostnað forsætisráðuneytisins að reyna að finna einhvern botn í tillögum stjórnlagaráðs. Þetta er gert á bakvið tjöldin og unnið er að tillögugerð hvað sem líður niðurstöðu 250 milljón króna könnunarinnar. Jóhanna efnir aðeins til hennar til að kaupa sér frið gagnvart stjórnlagaráðsliðum. Friðkaup við þá eru stunduð á kostnað skattgreiðenda en markmiðið er hins vegar ekki að skapa frið um málið á alþingi sem á síðasta orðið. Þetta er dýrt spaug vegna stjórnarskrár sem dugar vel og verður aldrei breytt nema um það takist breið samstaða í anda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 1944.
Miðvikudagur 10. 10. 12
Tókum daginn rólega hjá gestgjöfum okkar í Hamden útborg New Haven þar sem þau hafa innréttað gamla hlöðu sem gestahús. Var ævintýri líkast að fá að gista þar. Síðdegis héldum við í Marchand Chapel sem er hluti guðfræðideildar Yale-háskóla. Rut æfði þar með kvartettinum og um kvöldið voru tónleikar í kapellunni.
Skálholtskvartettinn flutti verk eftir Boccherini, Haydn og Purcell og siðan lék Jaap Schröder einleik með American Baroque Orchestra í 3. Brandenborgarkonsert Bachs.
Var gerður góður rómur að tónleikunum og boðið upp á kaffi, kökur og ávexti að þeim loknum í „common room“ garðsins sem er aðeins fyrir utan Yale-háskólahverfið í hjarta New Haven.
Nemendur leggja hart að sér til að fá skólavist í Yale eins og öllum háskólum og þó sérstaklega þeim sem taldir eru meðal hinna bestu í heimi. Það kostar einnig sitt, skólagjöld í Yale eru 52.000 dollarar á ári, margir fá hins vegar styrki eða lækkun á þessum gjöldum vegna hæfileika sinna. Hlýtur að reyna mjög á margan nemandann í hinni miklu samkeppni innan skólans.
Við settumst í stofu í húsi gestgjafa okkar þegar heim var komið eftir tónleikana. Tvær vinkonur höfðu komið frá nágrannaríkinu Rhode Island til að hlusta á tónleikana og gistu um nóttina. Önnur hafði ferðast um Ísland, hin þekkti Harald Sigurðsson eldfjallafræðing frá því að hann bjó í Jamestown Rhode Island og dætur hans Áshildi og Bergljótu.
Þriðjudagur 09. 10. 12.
Við tókum lest frá Boston til New Haven í Connecticut-ríki. Ferðin átti að taka tvo og hálfan tíma en varð klukkutíma lengri vegna bilunar í lest á undan okkur. Lestin fór með ströndinni og þar voru þúsundir báta í höfnum, þeim hefur verið lagt fyrir veturinn. Hauslitur í trjám en veitingastaðir og mannvirki við brautarteinana gefa vísbendingu um mikið sumarlíf við ströndina.
Í New Haven fórum við í Davenport-garð Yale-háskóla þar sem Jaap Schröder er gesta-prófessor til nokkurra áratuga og fær þar inni sem slíkur, Sigurður og Svava gista í garðinum og Piers-garði en við Rut hittum vini Jaaps sem hýsa okkur í glæsilegu gestahúsi sínu utan við borgina.
Áður en við ókum til gestgjafa okkar sýndi Magnús Þorkell Bernharðsson, bróðir Svövu, okkur það helsta í háskólahverfinu í Yale. Hann stundaði þar nám á sínum tíma og er því öllum hnútum kunnugur. Nú kennir hann í Williams College í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum og kom þaðan að hitta okkur. Án leiðsagnar hans hefðum við farið á mis við margt meðal annars hin gluggalausu hús leynifélaganna sem starfa við Yale-háskóla.
Mánudagur 08. 10. 12
Á dögunum vakti ég máls á því á Evrópuvaktinni að stuðningur Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við lögregluna í baráttu hennar við sífellt bíræfnari og skipulagðri glæpahópa væri næsta innan tómur af því að hann vildi ekki tryggja lögregluyfirvöldum nægilega víðtækar rannsóknarheimildir. Þegar ég beitti mér fyrir setningu laga um slíkar heimildir mætti það andstöðu Ögmundar og einnig þingmanna Samfylkingarinnar.
Vissulega eru víti til að varast í þessum efnum eins og öðrum en menn verða að hafa þrek til að vega og meta stöðuna fordómalaust. Ögmundur er ekki í þeirri stöðu. Hann telur sig hafa hlutverki að gegna við varðstöðu vegna þeirra sem stunda lögbrot í þágu einhvers pólitísks málstaðar.
Anders Berhing Breivik, fjöldamorðingi í Noregi, birti 1.500 bls. pólitískt skjal á netinu til skýringar á ódæðinu sem hann framdi 22. júlí 2011. Hann taldi sig vinna í þágu málstaðar sem í hans augum var og er til þess fallinn að skapa Evrópu bjarta framtíð og halda óvinum hennar víðs fjarri.
Norska öryggislögreglan, PST, hafði nasasjón af óeðlilegri háttsemi Breiviks en rakti málið ekki til enda. Árið 2007 var kynnt áætlun um öryggi stjórnarbygginga í Osló sem gerði ráð fyrir lokuðu svæði þar sem Breivik lagði bíl hlöðnum sprengiefni. Eftir á eru norsk yfirvöld harðlega ávítt fyrir að hafa ekki sýnt nægilega aðgæslu, hvorki PST né þeir sem áttu að tryggja öryggi stjórnarbygginga.
Skipti pólitískir fordómar meira máli en kaldar staðreyndir taka menn ekki mark á ábendingum um það sem gera þarf ef það brýtur í bága við fordómana. Þetta sannast á tali Ögmundar Jónassonar um að hann þurfi ekki að huga að staðreyndum eða reynslu annarra þjóða þegar hugað er að öryggi borgaranna og lögreglunnar.
Sunnudagur 07. 10. 12
Í færslu í dagbókina í gær gat ég þess að í Peets-kaffihúsi í Newton Centre, útborg Boston, hefði ég séð sérbakað vínarbrauð kallað Icelandic-Danish. Það kom mér á óvart því að til þessa hafði ég aðeins séð slík vínarbrauð nefnd Danish í Bandaríkjunum. Velti ég fyrir mér hvort íslenskur bakari væri á næstu grösum. Mér þætti brauðið líkt og ég fengi í Bakarameistaranum í nágrenni mínu í Suðurveri í Hlíðunum.
Glöggur lesandi síðu minnar sendi mér þennan tengil. Þarna kemur fram að fyrir tæpum 20 árum hafi íslenskur bakari, Ágúst Felix Gunnarsson, lærður í Bakarameistaranum, stofnað bakarí í Cambridge hér við Boston. Tæpum tveimur árum eftir að fréttin um nýja bakaríið birtist í Morgunblaðinu hitti Karl Blöndal, nú aðstoðarritstjóri blaðsins, sem þá var við nám í Boston Ágúst Felix og birti við hann viðtal í blaðinu sem sýndi að bakarinn hafði slegið í gegn sjá hér.
Ég þarf ekki frekari sannanir. Áhrif Ágústs Felix birtast í kynningu Peets-kaffihússins á sérbökuðum vínarbrauðum.
Laugardagur 06. 10. 12
Ávallt tekur nokkurn tíma að venjast nýjum stað og í dag gengum við um Newton, 75.000 manna úthverfi eða útborg Boston í björtu. Þetta er vinalegur bær og ég fann Peets-kaffistað þar sem ég félkk gott Earl Grey-te og nettengingu, ekki spillti að þar er selt vínarbrauð með gulum glassúr sem heitir Icelandic-Danish í kynningu Peets. Ég hef til þessa aðeins séð Danish í kynningu á þessu vínarbrauði. Freistinguna stóðst ég ekki og framleiðslan gæti eins verið úr Bakarameistaranum í nágrenni mínu í Suðurveri eins og hér í Newton Centre. Kannski starfar íslenskur bakari hér á næstu grösum?
Föstudagur 05. 10. 12
Flugum klukkan 17.00 frá Keflavíkurflugvelli með Icelandair til Logan-vallar við Boston og lentum nákvæmlega á áætlun kl. 18.30 að staðartíma. Skálholtskvartettinn (Rut, Svava Bernharðsdóttir (víóla), Sigurður Halldórsson (selló) og Jaap Schröder (fiðla)) efnir til tónleika í Boston og New Haven næstu daga auk þess sem þau fara i upptökur. Ég fylgi með eins og svo oft áður. Jaap flaug daginn áður frá Amsterdam til Boston.
Við tókum stóran leigubíl frá flugvellinum, sellóið þarf sæti eins og maður bæði í flugvélum og bílum, og ókum í Newton, kyrrlátt úthverfi Boston, í „bed og breakfast“ gistiheimili sem gömul hjón reka í stóru húsi. Hann er fyrrverandi prófessor í þjóðhagfræði við Boston College sem er í um 25 mínútna göngufæri héðan, hún er fyrrverandi listdansmær og kennari. Við sjáum í herberginu þar sem við gistum, líklega gamla hjónaherberginu þeirra, að þau hafa verið gift í 61 ár.
Jaap hafði fundið gistingu hjá þeim að tilstuðlan vina sinna. Nú á eftir að reyna á hvernig samgöngum er háttað við aðra borgarhluta. Þau eru nettengd en bæði með kapli. Þau vissu ekki hvað vakti fyrir mér þegar ég spuði um númer á routernum (beininum) svo að ég gæti tengst honum þráðlaust. Ég fór með gamla prófessornum að beininum. Vinnustofa hans er í kjallara þessa stóra húss og þar sefur hann líka. Þarna ægir öllu saman en eftir að prófessorinn hætti að kenna og skrifa fræðibækur lagði hann sig fram sem myndhöggvari og listmálari auk þess notar hann tölvuforrit kennt við Sibelíus til að semja tónverk, nýlega (9. september) var óratóría eftir hann frumflutt.
Ég fann routerinn eða beininn og gat tengt ipadinn en gekk ekki eins vel með tölvuna.
Fimmtudagur 04. 10. 12
Fyrstu mínúturnar af kappræðum Mitts Romneys og Baracks Obama að kvöldi miðvikudags 3. október í Denver, Kólóradóríki, duga til að sjá yfirburði Romneys. Dómarnir um framgöngu Obama í bandarískum fjölmiðlum eru harðir. Einn reyndur álitsgjafi segist ekki hafa séð nokkurn mann bursta forsetann í sjónvarpseinvígi eins og Romney gerði síðan Ronald Reagan tók Jimmy Carter í bakaríið árið 1980, fyrir 32 árum, og raunar sé Carter gert rangt til með samanburðinum við Obama.
Skýringarnar á óförum Obama eru jafnmargar og mennirnir sem gefa þær. Þrjár skulu nefndar: (a) Obama hafði ekki texta á skjá (telepromter) fyrir framan sig. Án slíks hjálpartækis verður hann eins og fiskur á þurru landi. (b) Romney hefur háð svo mörg sjónvarpseinvígi á leið sinni á framboðstoppinn hjá repúblíkönum að þau eru honum leikur einn. (c) Obama forðast fundi með fréttamönnum eins og heitan eldinn, hann leyfir aðeins drottningarviðtöl við vinveitta spyrjendur eins og David Letterman, honum hefur því verið hlíft við gagnrýni á borð við þá sem Romney flutti.
Egill Helgason umræðustjóri ríkissjónvarpsins og King Kong bókaheimsins að mati markaðsstjóra ríkisútvarpsins brást illa við kappræðum Romneys og Obama. Hann greip til þess frumlega ráðs á vefsíðu sinni að lýsa frati á kappræðurnar almennt, þær væru markleysa og líktust búktali! Fyrir nokkrum árum var Egill óánægður með eitthvað sem stóð í vikuritinu The Economist og sagði þá hreina tímasóun að lesa svo afdankað, uppskrúfað blað. Ambrose Evans-Pritchard, alþjóðlegur viðskiptaritstjóri The Daily Telegraph í London, er einn þeirra sem Egill hefur bannfært.
Útskúfun af þessu tagi með opinberum yfirlýsingum er almennt undarleg. Af þessu þrennu er þó reiðin yfir sjónvarpseinvígi forsetaframbjóðendanna undarlegust og raunar óskiljanleg hjá reyndum sjónvarpsmanni. Áhorfið á kappræðurnar er gífurlegt, umtalið enn meira og áhrifin marktæk. Er unnt að biðja um meira vegna sjónvarpsþáttar?
Miðvikudagur 03. 10. 12
Enginn efast um að menntamálaráðherra hafi viðurkennt Hjallastefnuna sem rekstraraðila sjálfstæðra grunnskóla. Starfsemi hennar eykst jafnt og þétt eins og til dæmis má sjá á framkvæmdum í jaðri Öskjuhlíðar fyrir norðan Háskólann í Reykjavík.
Nú kemst ráðuneytið að því að sveitarfélag verði sjálft að reka grunnskóla og þess vegna megi það ekki semja við þá sem reka Hjallaskóla um að annast grunnskólastarfsemi í Tálknafirði. Túlkun ráðuneytisins er sem sagt sú að Hjallasstefnan geti aðeins starfað í sveitarfélagi þar sem annar grunnskóli sé rekinn af sveitarfélaginu. Á vefsíðu VG Smugunni segir í dag:
„Í bréfi menntamálaráðuneytisins kemur fram að hvert sveitarfélag þurfi að reka eigin grunnskóla, samkvæmt lögum. Þá hafi Hjallastefnan ekki hlotið viðurkenningu ráðuneytisins.“
Síðari málsliðurinn er rangur. Hjallastefnan hefur fengið viðurkenningu ráðuneytisins. Hvar stendur í lögum að ráðuneytið verði að samþykkja hvern skóla sem rekinn er af Hjallastefnunni? Segir ekki einmitt í ofannefndri lagagrein að samþykki sveitarfélags sé skilyrði fyrir stofnun sjálfstæðs skóla á vegum viðurkennds einkaaðila?
Allt bendir til að pólitísk sjónarmið ráði túlkun ráðuneytisins á grunnskólalögunum, andstaða við grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum. Enginn efast um að sveitarstjórn Tálknafjarðar hafi samþykkt að fela Hjallastefnunni undir forystu Margrétar Pálu að reka grunnskóla sveitarfélagsins.
Þriðjudagur 02. 10. 12
Margt bendir til að hér átti menn sig ekki á hve ömurlegt er fyrir Ísland og íslenska stjórnarhætti að koma til athugunar á vegum laganefndar Evrópuráðsþingsins vegna ólýðræðislegra stjórnarhátta og misnotkunar á dómskerfinu í þágu flokkspólitískra hagsmuna. Þetta ætti ekki síst að vera áhyggjuefni fyrir ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur slegið um sig heima og erlendis sem fyrirmynd á öllum sviðum – gerði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra það ekki síðast á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna? Við mikla hrifningu konunnar sem varð sér að athlægi og raunar stórskammar þegar hún birtist í gervi nornar fyrir framan Stjórnarráðshúsið haustið 2008.
Í framvinduskýrslu hollensks þingmanns um landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde sem lögð var fram í laganefnd Evrópuráðsþingsins 25. september er lýst nornaveiðum á Íslandi af hálfu meirihluta þingmanna eins og ég segi frá í pistli hér á síðunni í dag. Þrír fulltrúar Íslands á Evrópuráðsþinginu, Birkir Jón Jónsson (F), Mörður Árnason (SF) og Þuríður Backman (VG) greiddu öll atkvæði með ákærunni á hendur Geir. Þau hljóta nú að reyna að hnekkja áliti hollenska þingmannsins á þeim óheillagjörningi. Mörður hefur þegar hafið spuna um framvinduskýrsluna á heimavelli með útúrsnúningum og rangfærslum.
Sama dag og sagt er frá þessari alvarlegu gagnrýni á stjórnarhætti meirihlutans að baki Jóhönnu Sigurðardóttur skrifar Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, eitthvert rugl um STASI og Sjálfstæðisflokkinn. Fellur það að siðareglum stjórnarráðsins að menn þar stundi slík ritstörf á kostnað skattgreiðenda? Jóhann er starfsmaður forsætisráðuneytisins, miðstöðvar siðsemi í stjórnarráðinu. Líta menn þar aðeins langt yfir skammt?
Mánudagur 01. 10. 12
Umræðustjóri hins óhlutdræga ríkisútvarps, Egill Helgason, hefur hafið deilur við stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna um hvaða ríkisstjórn sé hin versta sem þjóðin hefur kynnst. Hann reisir skoðun sína á pólitísku tilfinningalífi og þrá til að hlut ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem bestan. Egill mun vega að Sjálfstæðisflokknum á kosningavetri og er tekinn til við að kalla fulltrúa minnihlutasjónarmiða, eins og aðildar Íslands að ESB, í þáttinn til sín undir þeim formerkjum að þeir kynni þar sjónarmið sjálfstæðismanna. Iðja af þessu tagi er einn svartasti bletturinn á pólitískri fréttamennsku ríkisútvarpsins. Við henni verður ekkert annað gert en vekja athygli á henni og benda þeim sem enn horfa á Silfur Egils á að átta sig á fyrirvörunum sem nauðsynlegt er að hafa við áhorfið.
Í Kastljósi kvöldsins sást vel hve veikan málstað Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar og handlangari Steingríms J. Sigfússonar, hefur að verja þegar að því kemur að rökstyðja ofsóknir hans í garð Sveins Arasonar ríkisendurskoðanda og starfsmanna ríkisendurskoðunar. Björn Valur sagði að ríkisendurskoðun hefði ekki vakið máls á því við fjárlaganefnd að í fjárlögum væri veitt fé til fjársýslunnar vegna gallaðs tölvukerfis.
Hafi moldviðri undanfarinna daga leitt eitthvað í ljós er það að ríkisendurskoðun lauk ekki vinnu við skýrslu sem leiddi að hennar mati til endanlegrar niðurstöðu. Vill Björn Valur reka ríkisendurskoðanda fyrir segja eitthvað með vísan til verks sem ekki er að fullu lokið?
Þetta er dæmalaus krafa um brottrekstur háttsetts embættismann sem starfar í umboði alþingis. Krafan er reist á öðru en málinu sem er átylla hennar. Innan ríkisendurskoðunar hljóta menn að velta fyrir sér hvað raunverulega býr að baki hjá Birni Vali. Þeim ber skylda til að kanna það og upplýsa almenning um niðurstöðuna.
Kastljósið heldur áfram að kasta rýrð á þetta tölvukerfi ríkisins, nú með tilvitnun í skýrslu frá PwC frá 2010, öryggisúttekt á kerfinu. Rætt var við sérfróðan mann sem taldi víst að skýrslan hefði leitt til umbóta á kerfinu. Þetta voru sem sagt engin tíðindi, málið þjónaði hins vegar tilgangi Kastljóss og þá halda engin bönd almennrar skynsemi.