9.10.2012 23:05

Þriðjudagur 09. 10. 12.


Við tókum lest frá Boston til New Haven í Connecticut-ríki. Ferðin átti að taka tvo og hálfan tíma en varð klukkutíma lengri vegna bilunar í lest á undan okkur. Lestin fór með ströndinni og þar voru þúsundir báta í höfnum, þeim hefur verið lagt fyrir veturinn. Hauslitur í trjám en veitingastaðir og mannvirki við brautarteinana gefa vísbendingu um mikið sumarlíf við ströndina.

Í New Haven fórum við í Davenport-garð Yale-háskóla þar sem Jaap Schröder er gesta-prófessor til nokkurra áratuga og fær þar inni sem slíkur, Sigurður og Svava gista í garðinum og Piers-garði en við Rut hittum vini Jaaps sem hýsa okkur í glæsilegu gestahúsi sínu utan við borgina.

Áður en við ókum til gestgjafa okkar sýndi Magnús Þorkell Bernharðsson, bróðir Svövu, okkur það helsta í háskólahverfinu í Yale. Hann stundaði þar nám á sínum tíma og er því öllum hnútum kunnugur. Nú kennir hann í Williams College í Massachusetts-ríki í Bandaríkjunum og kom þaðan að hitta okkur. Án leiðsagnar hans hefðum við farið á mis við margt meðal annars hin gluggalausu hús leynifélaganna sem starfa við Yale-háskóla.