Dagbók: september 2004
Miðvikudagur, 29. 09. 04.
Fór fyrir hádegi í heimsókn til fíkniefnalögreglunnar í Reykjavík og kynnti mér starfsemi hennar í ljósi hins mkla árangurs, sem hún hefur verið að ná.
Sunnudagur, 26. 09. 04.
Fór klukkan 14.00 í Þjóðmenningarhúsið og hlustaði á Einar Má Guiðmundsson rithöfund flytja erindi fyrir fullum sal um Gunnar Gunnarsson skáld.
Laugardagur, 25. 09. 04.
Var kominn út á Reykjavíkurflugvöll klukkan 11.40 til að fylgjast með flugslysaæfingu á vegum Flugmálastjórnar. Veðrið var leiðinlegt, suðvestan slagveður, en það aftraði okkur ekki frá því að sjá slökkviliðsmenn ráðast til atlögu við eld, sem átti að vera í flaki Boeing-þotu, sem hlekktist á í flugtaki í áttina að Öskjuhlíð með 90 farþega og áhöfn innan borðs. Við sáum þegar unnið var við að greina hina slösuðu og ákveða, hvert þeir skyldu sendir, fórum í stjórnstöðina í Skógarhlíð, á slysavarðstöðina í Fossvogi og miðstöð fyrir aðstandendur í Grensáskirkju, áður en ég sneri aftur um klukkan 15.00. Alls staðar var björgunarfólk og sjálfboðaliðar í óða önn að sinna mikilvægum verkefnum sínum af alúð.
Föstudagur, 24. 09. 05.
Tók þátt í málþingi Lögfræðingafélags Íslands um það, hvort þörf væri á stjórnsýsludómstól og flutti þar ræðu.
Fimmtudagur, 23. 09. 04.
Evrópunefnd kom saman til fjórða fundar síns klukkan 14.00 og var þar ákveðið, að Hreinn Hrafnkelsson yrði starfsmaður nefndarinnar í hálfu starfi.
Þriðjudagur, 21. 09. 04.
Borgarstjórn kom saman til fundar klukkan 14.00 og tók ég þar þátt í umræðum um tillögu okkar sjálfstæðismanna og frjálslyndra um að hraðað yrði framkvæmdum við mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. R-listinn hefur enn einu sinni brugðið fæti fyrir þetta umferðarmannvirki.
Mánudagur, 20. 09. 04.
Við Rut fórum síðdegis í Þjóðminjasafnið, hittum þar Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð, Ögmund Skarphéðinsson arkitekt, Guðrúnu Guðmundsdóttur sýningarstjóri og Lilju Árnadóttur, fagstjóri munasafns, fóru með okkur um safnið. Var ánægjulegt að fá þetta tækifæri til að kynnast, undir leiðsögn þessa ágæta fólks, hinni miklu umbreytingu, sem orðið hefur á safninu.
Sunnudagur, 19. 09. 04.
Klukkan rúmlega níu smalaði ég túnið hjá mér, en fé hafði um morguninn smogið undir réttarhólfsgriðinguna í Kvoslækjaránni og sótti upp í túnið. Stóð á endum, að við höfðum lokið við að smala, þegar tími var kominn til að reka féð í réttina. Var ég þar fram undir hádegi en þá hafði nær allt fé verið dregið í dilka.
Um morguninn sást ekki skýhnoðri á himni og hlýnaði eftir því sem leið á daginn. Var mikill munur á þessari veðurblíðu og þeim stormi sem var fáeinum sólarhringum áður, þegar vindmælir á Stöðlakoti í Fljótshlíð sprakk, þegar hann var kominn í 54,5 metra á sekúndu. Fuku fjárhús af grunni í nágrenninu og gömul hlaða splundraðist.
Laugardagur, 18. 09. 04.
Klukkan 07.00 hélt ég af stað með nágrönnum mínum í Fljótshlíðinni í leitir. Við héldum af stað á hestum frá Reynifelli undir Þríhyrningi um klukkan 08.30. Veðrið var bjart og gott og að þessu sinni fór ég með Eggerti Pálssyni, fjallkóngi, upp í Kálfatungur og var útsýni þaðan fögur yfir Rangárvellina og uppsveitirnar og við sáum einnig inn á Tindafjallajökul, áður en við lögðum af stað niður.
Klukkan var farin að ganga sex síðdegis, þegar við komum með safnið niður Lambalæk að réttinni.
Föstudagur, 17. 09. 04.
Halldór Ásgrímsson stýrði fyrsta ríkisstjórnarfundi sínum sem forsætisráðherra klukkan 11.00.
Miðvikudagur, 15. 09. 04.
Ríkisráðið kom saman á Bessastöðum kl. 13.00, þar sem þeir skiptu um ráðherrastóla Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson og Siv Friðleifsdóttir vék sem umhverfisráðherra fyrir Sigríði Önnu Þórðardóttur.
Þriðjudagur, 14. 09. 04.
Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30 og var þetta síðasti reglulegi fundurinn, sem Davíð Oddsson stjórnaði, í bili að minnsta kosti, sem forsætisráðherra. Þá var þetta einnig síðasti fundur Sivjar Friðleifsdóttur að þessu sinni sem umhverfisráðherra.
Klukkan 16.30 var athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í tilefni af útkomu bókar um ráðherra Íslands og forsætisráðherra. Var fyrsta eintakið afhent Davíð Oddssyni.
Mánudagur, 13. 09. 04.
Klukkan 15.00 kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman í Valhöll. Þar var formlega gengið frá þvi af hálfu hans, að Davíð Oddsson yrði utanríkisráðherra. Við myndun ríkisstjórnarinnar vorið 2003 hafði verið samþykkt, að Davíð léti af embætti forsætisráðherra 15. september og Halldór Ásgrímsson tæki við af honum en ekki var vitað þá, hvort Davíð yrði áfram í ríksstjórn eða hvaða ráðherraembætti hann tæki að sér. Nú var sem sé formlega frá því gengið, hvernig þessu yrði háttað.
Laugardagur, 11. 09. 04.
Ríkisstjórn kom saman klukkan 11.00 og stjórnaði Davíð Oddsson nú fundi að nýju eftir hlé vegna alvarlegra veikinda sinna.
Síðdegis brá ég mér á myndina Good bye, Lenin í Háskólabíói en þar er brugðið upp kostulegri mynd af því, þegar Berlínarmúrinn hrundi og Austur-Þýskaland varð að engu.
Föstudagur, 10. 09. 04.
Klukkan 17.00 var ég í Háskólanum í Reykjavík og flutti þar ávarp í tilefni útgáfu á fyrsta hefti Tímarits Lögréttu, en nemendur í lagadeild skólans standa að baki ritinu.
Fimmtudagur, 09. 09. 04.
Fór með þeim Þorsteini Geirssyni, ráðuneytisstjóra og Þorsteini Davíðssyni, aðstoðarmanni mínum, klukkan rétt fyrir 09.00 í ráðherrabílnum með Leif, undir stýri, í heimsókn til sýslumanna og lögreglu á Vesturlandi.
Fyrst hittum við Ólaf Þór Hauksson, sýslumann á Akranesi, og starfsfólk hans í sýsluskrifstofunni og skoðuðum síðan lögreglustöðina og ræddum við starfsmenn þar.
Í Borgarnesi hittum við Stefán Skarphéðinsson sýslumann og samstarfsfólk hans og kynntum okkur aðstæður í sýsluskrifstofu og hjá lögreglu.
Að loknum hádegisverði hittum við Benedikt Bogason, héraðsdómara Vesturlands, og samstarfsfólk hans og skoðuðum dómssal í Borgarnesi og skrifstofur í tengslum við hann.
Í Búðardal tók Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaður, á móti okkur. Við hittum lögreglumanninn og annað samstarfsfólk sýslumanns í sýsluskrifstofunni og lögreglustöðinni.
Við vorum komnir aftur til Reykjavíkur um klukkan 17. 30.
Miðvikudagur, 08. 09. 04.
Var klukkan 14.00 í Fíladelfíu-kirkjunni við Laugaveg, þar sem samverur eldri borgara voru að hefjast að nýju eftir sumarhlé. Vörður Leví Traustason, forstöðumaður Hvítasunnusafnaðarins, leiddi samkomuna. Lesið var úr ritningunni, Lögreglukórinn söng og Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, einsöng, ég flutti ávarp og Valgerður Gísladóttir, sem stýrir starfi Ellimálaráðs Reykjavíkurprófastsdæma, sleit samkomunni en að henni lokinni buðu hvítasunnukonur öllum í kaffi og kökur í safnaðarsalnum.
Þriðjudagur, 07. 09. 04.
Var kominn á Bessastaði klukkan 10.20 til að taka á móti Svíakonungi, drottningu hans og dóttur, Það var slagveður, þegar þau heilsuðu ríkisstjórninni og fleirum við tröppur Bessastaða. Athöfninni lokið klukkan 11.00.
Borgarstjórnarfundur klukkan 14.00 - fyrsti á þriðjudegi og sá fyrsti eftir sumarleyfi.
Mánudagur 06. 09. 04.
Qi gong æfingar með hópnum góða og Gunnari Eyjólfssyni hófust að nýju eftir sumarhlé og hittumst við kl. 08.10 í húsi Jóns Þorsteinssonar.
Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kom saman að nýju eftir sumarhlé. Við höfum breytt fundartíma okkar fært hann frá klukkan 17.00 á miðvikudögum til klukkan 12.00 á mánudögum vegna breytinga á fundartíma borgarstjórnar.
Fimmtudagur, 02. 09. 04.
Eftir að hafa verið í Þjóðminjasafninu ók ég austur í Fljótshlíð og þaðan hélt ég um tíuleytið austur í Vík, þar sem ég hitti með ráðuneytisfólki Sigurð Gunnarsson sýslumann, starfsfólk hans og síðan sveitarstjórnarmenn en við snæddum saman hádegisverð í Halldórskaffi í Bryde-búð og skoðuðum sýningarnar þar.
Síðan var haldið að Kirkjubæjarklaustri, þar sem ný lögreglustöð var opnuð við hátíðlega athöfn, ritað undir samning um sameiningu almannavarnanefnda og árangursstjórnunarsamning milli dómsmálaráðuneytisins og sýslumanns Skaftfellinga.
Ég var komin aftur í Fljótshlíðina á sjötta tímanum.
Miðvikudagur, 01. 09. 04.
Klukkan 18.00 var ég í Þjóðminjasafninu, þegar það var opnað við hátíðlega athöfn með þátttöku 700 gesta, Davíð Oddsson klippti á borða og var þetta fyrsta embættisverk hans, frá því að hann veiktist.
Safnið og sýning þess ber með sér glæsileika og settur er nýr stuðull fyrir allar sýningar í landinu. Það vakti athygli fleiri en mín, að danski þjóðminjavörðurinn, sem flutti ávarp við athöfnina sá ástæðu til að þakka stjórnmálamönnum sérstaklega fyrir að staðið væri jafnvel að endurgerð safnsins. Eitt er víst, að án pólitískra ákvarðana hefði ekki verið ráðist í þetta verk.
Frá upphafi hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar, að það ætti að gefa endurreisn safnsins þann tíma, sem þyrfti til að vel yrði að henni staðið - í ljósi tímans og sögunnar skipti það meira máli en að kippa sér upp við nöldrið í pólitískum andstæðingum, sem reyndu á framkvæmdatímanum að finna allt til að gera sem minnst úr okkur, sem stóðum að því að ákveða framkvæmdina og bárum á henni pólitíska ábyrgð.
Sýningin og húsið er aðeins toppurinn á þeim ísjaka, sem Þjóðminjasafnið er.