19.9.2004 0:00

Sunnudagur, 19. 09. 04.

Klukkan rúmlega níu smalaði ég túnið hjá mér, en fé hafði um morguninn smogið undir réttarhólfsgriðinguna í Kvoslækjaránni og sótti upp í túnið. Stóð á endum, að við höfðum lokið við að smala, þegar tími var kominn til að reka féð í réttina. Var ég þar fram undir hádegi en þá hafði nær allt fé verið dregið í dilka.

Um morguninn sást ekki skýhnoðri á himni og hlýnaði eftir því sem leið á daginn. Var mikill munur á þessari veðurblíðu og þeim stormi sem var fáeinum sólarhringum áður, þegar vindmælir á Stöðlakoti í Fljótshlíð sprakk, þegar hann var kominn í 54,5 metra á sekúndu. Fuku fjárhús af grunni í nágrenninu og gömul hlaða splundraðist.