Dagbók: janúar 2016

Sunnudagur 31. 01. 16 - 31.1.2016 15:30

Mánudaginn 1. febrúar hefst röð prófkjara í Bandaríkjunum vegna forsetakosninganna í nóvember. Fyrsta prófkjörið er í Iowa-ríki og er talið að Hillary Clinton sigri hjá demókrötum en Donald Trump hjá repúblíkönum.

Í tilefni af þessu skrifar Andrew Roberts, heimskunnur sagnfræðingur og blaðamaður, grein í The Sunday Telegraph í dag þar sem hann líkir Trump við Benito Mússólíni, fastistaforingja á Ítalíu.

Trump sé þó verri en Mússólíni sem hefði aldrei dottið í hug að banna múslimum að koma til Ítalíu. Þá hefði Mússólíni ekki heldur látið sér til hugar koma að raða eiginkonu sinni og hjákonu við sama borð í góðgerðakvöldverði eins og Trump gerði að Roberts viðstöddum, öllum til ama nema hinum sjálfumglaða gestgjafa, Trump.

Greininni lýkur á þessum orðum:

„Það má til sanns vegar færa að ýmislegt af því sem íhaldssamir álitsgjafar segja um Trump sé reist á snobbi; það er satt að ruddamennska Trumps, augljós karlremba, hárgreiðsla, viðskiptahættir – einkum fjögur gjaldþrot spilavíta hans – hafa skapað andúð á honum meðal ýmissa Bandaríkjamanna. Það er hins vegar almennt lýðskrum hans og hömlulaus hentistefna sem fólk fyrirlítur, þessi framkoma hans mun líklega opna Hillary Clinton leið inn í Hvíta húsið til að hún geti setið þar í fjögur, hugsanlega átta ár til að framlengja næsta hörmuleg átta ár Obama forseta.

Það ætti að vera einstaklega auðvelt að sigra Clinton sem frambjóðanda – hún nýtur víða lítils trausts, næstum 70 ára gömul, leiðinlegur ræðumaður, stóð sig illa sem öldungardeildarþingmaður og verr sem utanríkisráðherra - hvað sem þessu líður virðast repúblíkanar að því komnir að velja eina manninn sem gæti látið hana líta út sem stjórnmálaskörung og næstum geðþekka. Skynsamir repúblíkanar ættu að iðrast þess dags þegar Teddy Roosevelt tryggði að frambjóðendur væru valdir í prófkjörum frekar en með gamla laginu þar sem flokksforingjar hittust í reykfylltum herbergjum, hefðu þeir þetta vald nú stæði valið milli Marcos Rubios, Johns Kasich eða Jebs Bush, þ. e. einhverra frambærilega og heilvita manna sem væru auk þess sigurstranglegir.“

Undir þessi orð Andrews Roberts skal tekið. Með miklum ólíkindum er að Trump hafi náð þetta langt innan flokks repúblíkana. Áður en hann hóf valdabrölt sitt þar litu margir á hann sem demókrata og náinn vin Clinton-hjónanna. Að ógeðfelldur málflutningur hans og hentistefna höfði til jafnmargra og raun ber vitni er áhyggjuefni.

 

Laugardagur 30. 01. 16 - 30.1.2016 16:15

Fréttir um vandræði innan Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) við kjör á stjórnarmönnum í Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) bera með sér að einkennilega hefur verið staðið að vali fulltrúanna.

Ásta Rut Jónasdóttir. fulltrúi VR, hefur verið formaður stjórnar lífeyrissjóðsins síðan í september 2013 þegar hún tók við að Bryndísi Hlöðversdóttur, fyrrv. þingmanni Samfylkingarinnar, sem sat aðeins um 2 mánuði á formannsstólnum áður en hún hvarf til starfa á Landspítalanum þar til hún varð sáttasemjari ríkisins í fyrra. Ásta Rut hafði starfað innan stjórn VR m.a. sem varaformaður, hún var á sínum tíma formaður Hagsmunasamtaka heimilinna.

Ásta Rut gagnrýnir framkvæmd kosningarinnar á fulltrúum í stjórn LV og segir um hana á mbl.is í dag: „Kosn­inga­rétt­ur er mik­il­væg­ur grunn­rétt­ur og ekki tek­inn af eft­ir geðþótta enda afar óheppi­legt ef hægt sé að kippa slík­um réttu úr sam­bandi án skýrra heim­ilda.“

Þarna vísar hún til þess að henni var bannað að kjósa í trúnaðarráði VR við val á fulltrúum í stjórn LV. Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, tilkynnti einhliða í tölvubréfi 18. janúar 2016: „Eins er rétt að taka fram að stjórn­ar- og trúnaðarráðsmenn, ef þeir eru meðal um­sækj­enda, eru van­hæf­ir til að taka þátt í at­kvæðagreiðslu stjórn­ar og trúnaðarráðs.“ Hvergi í lögum eða reglum VR er að finna stafkrók um heimild til að svipta frambjóðendur kosningarétti.

Stefán Sveinbjörnsson fékk, án útboðs, ráðgjafarfyrirtækið Hagvang til að forvelja úr 40 manna hópi sem hafði áhuga á setu í stjórn LV í umboði VR. Taldi Hagvangur 26 vanhæfa til þess, þar á meðal stjórnarmann í LV sem staðist hafði skoðun Fjármálaeftirlitsins. Forvalið á vegum Hagvangs mun að sögn heimildarmanns hafa kostað VR um 4 milljónir króna.

Á fundi trúnaðarráðs VR var framkvæmd kosningarinnar um sætin tvö í stjórn LV algjört hneyksli að sögn sama heimildarmanns: engin kjörstjórn, réttur frambjóðenda fótum troðinn, kjörseðlar gallaðir og kosningin tvítekin, sú seinni eftir að nokkrir trúnaðarráðsmenn voru farnir af fundi. Efasemdir eru um að eftirlit með talningu hafi verið nóg. Ásta Rut féll úr stjórn á einu atkvæði.

Allt ber þetta annaðhvort vott um reynsluleysi við framkvæmd kosninga eða purkunarlaust ofríki. Um Ólafíu B. Rafnsdóttur, formann VR, verður seint sagt að hún hafi enga reynslu af kosningum. Hún var kosningastjóri Ólafs Ragnars í forsetakosningunum 1996 og 2012 auk þess að stjórna baráttu Ingibjargar Sólrúnar gegn Össuri Skarphéðinssyni um formennsku í Samfylkingunni 2005. Þá voru uppi ásakanir um kosningabrögð með skráningu stuðningsmanna Ingibjargar Sólrúnar í flokkinn.

Föstudagur 29. 01. 16 - 29.1.2016 19:15

Ekki kemur á óvart að þeir sem urðu undir við val á stjórnarmönnum í Lífeyrissjóð verslunarmanna (LV) á vegum Verslunamannafélags Reykjavíkur (VR) geri athugasemd við hvernig að málum er staðið undir formennsku Ólafíu B. Rafnsdóttur. Lögfræðingar tveggja fráfarandi stjórnarmanna hafa tekið saman álitsgerðir fyrir umbjóðendur sína og báðir komist að þeirri niðurstöðu að aðferðin sem beitt var sé ólögmæt.

Í fyrsta lagi sé hvergi að finna heimild til að banna þeim sem bjóði sig fram til setu í stjórn LV að taka þátt í kosningu um stjórnarmenn í LV á fundi trúnaðarráðs VR. Í trúnaðarráðinu var fráfarandi formanni LV bannað að greiða atkvæði og féll þar með úr stjórninni. Segir lögmaður um þetta:

„[Að]svipta einstakling atkvæðisrétti við það eitt að bjóða sig fram til trúnaðarstarfa innan félags er fyrst og fremst brot á [...] jafnræði. Slík skerðing verður ekki gerð nema fyrir henni sé skýr heimild í lögum, reglum eða samþykktum félagsins. Jafnframt yrði slík takmörkun að styðjast við málefnaleg rök eða byggja á almennum sjónarmiðum […]er kosning kjörfundar trúnaðarráðs þann 26. janúar sl. markleysa eða ógildanleg.“

Í öðru lagi hafi verið ólögmætt að framselja til ráðgjafarfyrirtækisins Hagvangs að forvelja frambjóðendur í stjórn LV úr hópi 40 félagsmanna VR sem lýstu áhuga á stjórnarsetunni. Hagvangur hafnaði 24 úr þessum hópi og skilaði lista með 16 nöfnum til stjórnar VR. Einn fráfarandi stjórnarmanna LV komst ekki einu sinni á þennan úrvalslista Hagvangs. Í áliti lögmanns þessa manns segir meðal annars:

„Miðað við þau svör sem umbjóðandi minn fékk frá fyrirtækinu [Hagvangi] þá kemur hann ekki til greina við val fulltrúa þar sem það er mat starfsmanna Hagvangs að ákveðinn fjöldi annarra umsækjanda sé hæfari en hann. Þessi svör verða ekki skilin með öðrum hætti að en val fulltrúa hafi a.m.k. að hluta verið sett í hlut þriðja aðila sem á enga stöðu að lögum til að koma að valinu og því má auðveldlega draga þá ályktun að um ólögmætt valdaframsal sé að ræða.“

Þá kemur einnig fram að svo klaufalega hafi verið staðið að framkvæmd kosningarinnar í trúnaðarráðinu að líta megi á hana sem markleysu.

Frumskylda þeirra sem valdir eru til forystu í félögum er að hafa burði til að tryggja lögmæta og lýðræðislega aðferð við val á fólki til trúnaðarstarfa. Formaður og stjórn VR hafa fallið á því prófi.

 

 

Fimmtudagur 28. 01. 16 - 28.1.2016 17:00

ÍNN-viðtal mitt við Birgi Jakobsson landlækni er komið á netið eins og sjá má hér.

Laugardaginn 29.ágúst 2015 sagði Birgitta Jónsdóttir alþingismaður á aðalfundi Pírata að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér aftur til þingstarfa nema samið yrði fyrir kosningar um stjórnarsamstarf sem gerði ráð fyrir að á sex mánuðum yrði stjórnarskránni breytt, þjóðin kysi um aðildarviðræður við ESB og stjórnarráðinu yrði gjörbylt. Kosið yrði að nýju til þings eftir níu mánuði.

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar laugardaginn 19. september 2015 tók Árni Páll Árnason flokksformaður undir hugmyndir Birgittu og sagði að Samfylkingin ætti að „leita samstöðu með öðrum umbótasinnuðum öflum um þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna, framhald stjórnarskrárbreytinga og aðrar nauðsynlegar grundvallarbreytingar í kjölfar næstu kosninga. Píratar hafa sett fram hugmynd um stutt þing í þessu skyni og það er hugmynd sem vert er að ræða.“

Í tilefni af orðum Árna Páls birtist samtal við Birgittu í fréttatíma ríkisútvarpsins sunnudaginn 20. september 2015 þar sem hún sagði meðal annars: „Það er öllum frjálst að koma að tala við okkur. Ég vil aftur á móti bara leggja höfuðáherslu á það að við erum ekki í kosningavetri. Við eigum að einbeita okkur að bara að neyðarástandi sem hér ríkir.“

Samtal fréttamannsins og Birgittu var einkennilegt því að engu var líkara en hvorki fréttamaðurinn né sjálf Birgitta áttaði sig á að Árni Páll var að taka í framrétta hönd Birgittu eins og hún væri ætluð fylgislausum samfylkingarmanni. Nú man örugglega enginn eftir hvaða „neyðarástand“ ríkti 20. september 2015 þótt það ætti allan hug Birgittu þá.

Stefnulaust stjórnmálatal Birgittu fellur svo vel að skoðunum almennra kjósenda að í dag mælir Fréttablaðið pírata með  tæplega 42% fylgi. Þá bregður svo við að Birgitta segist ætla að bjóða sig fram árið 2017. Hún sagði á Facebook-síðu Frálshyggjufélagsins að kvöldi þriðjudags 26. janúar 2016:

Ég mun bjóða mig fram til að tryggja að þið sem talið um að sniðugt sé fyr­ir frjáls­hyggju­menn að ganga í Pírata til að geta tekið yfir kosn­inga- og stefnu­mót­un­ar­ferl­in okk­ar. Ég ætla að bjóða mig fram þó það væri ekki nema til að tryggja að ykk­ar hug­mynda­fræði taki ekki yfir Pírata.“

Það er ekki öllum frjálst að koma og tala við pírata. Birgitta óttast mest að flokkur þeirra fái stefnu þess vegna býður hún sig fram.

Miðvikudagur 27. 01. 16 - 27.1.2016 18:15

Í dag ræddi ég við Birgi Jakobsson landlækni í þætti mínum á ÍNN. Heilbrigðismálin eru fyrirferðarmikil í umræðum líðandi stundar. Birgir hefur víðtæka reynslu en hann var forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi í sjö ár áður en hann var skipaður landlæknir 1. janúar 2015. Þátturinn verður frumsýndur kl. 20.00 á rás 20 í kvöld og síðan má sjá hann á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun (og hvenær sem er á tímaflakki).

 

Þriðjudagur 26. 01. 16 - 26.1.2016 15:30

Bjarni Harðarson sagði af sér þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn 11. nóvember 2008 daginn eftir að upplýst var í ríkisútvarpinu kvöldið áður að hann hefði fyrir mistök framsent til fjölmiðla tölvubréf sem átti að vera til aðstoðarmanns hans. Bréfinu fylgdi bréf frá tveimur framsóknarmönnum sem gagnrýndu Valgerði Sverrisdóttur, varaformann Framsóknarflokksins, vegna ábyrgðar hennar á einkavæðingu bankanna og afstöðu hennar til Evrópusambandsins. Vildi Bjarni að aðstoðarmaður sinn sendi bréfið undir nafnleynd til fjölmiðla. Bréfið sendi Bjarni frá tölvu í þingmannsskrifstofu sinni.

Í dag segir frá því á dv.is menntamálaráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu hafi borist kvörtun frá yfirmanni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu (LRH) vegna tölvubréfs sem Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri sendi frá skrifstofu sinni til Jóns H. B. Snorrasonar, aðstoðarlögreglustjóra og saksóknara hjá LRH. Bréfið var áframsent af Jóni H. B. og fór að sögn DV á rangt netfang og til fleiri aðila en ætlað var.

Í bréfinu ræðir þjóðleikhússtjóri að sögn DV innri málefni lögreglunnar sem snerta meðal annars ágreining Jóns H. B. Snorrasonar og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur. Í bréfinu nefnir þjóðleikhússtjóri „stelpurnar í lögreglunni“ til sögunnar, vísar til  „þessara kvenna“  og segir einnig: „Hinn góði og réttsýni lögreglustjóri er að leysa allt með stelpunum og uppræta spillingu.“ Þá vitnar Ari til þess að lekar af málum frá lögreglunni komi frá þeim konum sem séu æðstu stjórnendur.  Segir DV að með þessum orðum vísi hann til Sigríðar Bjarkar og Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirmanns lögfræðideildar LRH.

Í samtali við DV lýsti þjóðleikhússtjóri bréfi sínu sem „gamanmáli“ og sagði:

 „Ég hélt að það væri stjórnarskrárbundinn réttur hvers og eins að einkasamskipti væru lögvernduð. Á hinn bóginn vil ég bæta því við að mér þykir leiðinlegt ef þessi gamanmál í einkapósti hafi orðið til þess að einhver móðgaðist.“

Þegar alþingismaður átti í hlut og framsendi fjölmiðlum fyrir mistök beiðni um leka á óvinsamlegu bréfi annarra um pólitískan samherja leysti þingmaðurinn málið með afsögn sinn. Nú hefur birst bréf háttsetts embættismanns til annars háttsetts embættismanns þar sem sneitt er að yfirmönnum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra. Ráðuneyti viðkomandi embættismanna hafa fengið bréfið til athugunar, engum viðkomandi virðist koma til hugar að binda enda á málið á sama snaggarlega hátt og Bjarni Harðarson gerði – þetta er bara „gamanmál“. Hverjum skyldi vera skemmt?

 

 

 

 

Mánudagur 25. 01. 16 - 25.1.2016 16:15

Margir velta fyrir sér hvort stefni í óefni í Bandaríkjunum vegna þess hve frambjóðendur innan raða demókrata og repúblíkana þykja lítt álitlegir til að fara með úrslitavald um beitingu bandaríska hersins eða leiða þjóðina í sátt og jafnvægi fram á veginn.

Þegar svo er komið berast fregnir um að milljarðamæringurinn Michael Bloomberg (73 ára) sem sat í þrjú kjörtímabil sem borgarstjóri í New York velti enn einu sinn fyrir sér hvort hann eigi að bjóða sig fram utan flokka. Fyrir forsetakosningarnar 2008 og 2012 bárust fréttir um að Bloomberg íhugaði stöðu sína en í hvorugt skiptið lét hann til skarar skríða. Nú telja stjórnmálaskýrendur að hann muni ekki hugsa sér til hreyfings ef Hillary Clinton verður tilnefnd forsetaframbjóðandi demókrata nema hún eigi undir högg að sækja vegna ásakana um að hafa misfarið með trúnaðarmál sem utanríkisráðherra.

Leiðarahöfundur The Wall Street Journal  ræðir í dag styrkleika Bloombergs og segir hann halla sér nógu langt til vinstri í afstöðunni til skotvopna, loftslagsbreytinga og innflytjendamála til að margir demókratar geti hugsað sér að styðja hann. Hann sé miðjumaður í efnahagsmálum og sýni nokkra hörku í utanríkismálum en það fæli demókrata ekki frá honum þegar hagvöxtur sé 2% og Ríki íslams sæki í sig veðrið.

Erfiðara sé að átta sig á hvernig hann höfði til kjósenda til hægri við miðjuna, það ráðist að vísu af því hver verði frambjóðandi repúblíkana. Hann hafi staðið sig frábærlega við að fækka glæpum í New York og hann hafi tekið slaginn við kennarasamtökin vegna frjáls vals á skólum og starfsskyldna. Samtök skotvopnaeigenda hafi þó megna skömm á honum og hann sýni stundum of mikla opinbera umhyggju eins og þegar hann vildi banna stórar gos-plastflöskur í New York til að minnka gosdrykkjaþamb og sykurneyslu.

Í leiðaranum er rakið hve leið Bloombergs til framboðs og í Hvíta húsið er torsótt og í lokin segir:

„Allt krefst þetta að eitthvað gerist sem verður nær aldrei í bandarískum stjórnmálum. Bloomberg er hins vegar alvörugefinn maður sem mundi hvorki verja fé sínu né tíma kæmi hann ekki auga á tækifæri. Megi læra eitthvað af því sem gerst hefur í válegri kosningabaráttunni undanfarið er það að kjósendur séu nógu kvikir til að allt geti gerst.“

 

 

 

Sunnudagur 24. 01. 16 - 24.1.2016 15:00

 

Jóhann J. Ólafsson lögfræðingur ritaði grein í Morgunblaðið 3. desember, þar stóð meðal annars:

„James Harrington (1611-1677) enskur stjórnmálahugsuður sagði á sinni tíð:

„Einveldi ríkir þegar krúnan á allt eða í það minnsta tvo þriðju af öllum landauði.  Höfðingjaveldi ríkir ef aðalsmenn eiga svipaðan hlut. Eigi almenningur tvo þriðju eða meira, ríkir lýðræði.“ […]

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er allur þjóðarauður Íslendinga  (allar eignir landsmanna einkaeignir og opinberar eignir samanlagt)   23,3 billjónir króna.  Af þeim eru u.þ.b. 4,4 billjónir í einkaeign  en u.þ.b. 19 billjónir í opinberri eigu. Lýðræði í skilningi Harringtons er því víðs fjarri, því  eignir einstaklinga eru ekki nema um 19% en opinberar eignir um 81% af heildareignum þjóðfélagsins. Ef lýðræði ætti að vera raunverulegt þyrfti almenningur, þ.e. einstaklingarnir sjálfir að eiga  15 billjónir til að leiðrétta þennan lýðræðishalla. Ásættanlega jöfn dreifing eigna á milli einstaklinga innbyrðis yrði svo einnig að vera til staðar til að treysta lýðræði og sátt í þjóðfélaginu. […]

Þjóðaratkvæðagreiðslur og kosningar einar og sér tryggja ekki lýðræði, þegar megnið af tekjum og eignum manna er komið í hendur yfirvalda og auðmanna  endurúthlutunarþjóðfélagsins.

Er lýðræði nothæft í þjóðfélagi þar sem hið opinbera á 80% af eignum þjóðfélagsins og ráðstafar 50% af tekjum manna?“

Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör. Augljóst er af tölunum sem Jóhann J. Ólafsson birtir að þeir sem krefjast meiri hlutdeildar ríkisins á öllum sviðum vega að svigrúmi einstaklinga og þar með lýðræði.

Hér var í gær vikið að einnota viðfangsefnum stjórnmálamanna og flokka. Þau móta í raun allar umræður um þjóðfélagsmálin og þess gætir í vaxandi mæli hve mikið traust menn setja á réttlæti þess sem Jóhann J. Ólafsson nefnir réttilega „endurúthlutunarþjóðfélagið“.

Baráttan um áhuga úthlutunarvaldsins við skiptingu opinberra fjármuna tekur á sig ýmsar myndir eins og nú má til dæmis sjá af söfnun undirskrifta undir forystu Kára Stefánssonar um að heilbrigðiskerfið njóti 11% af útgjöldum ríkisins í stað 8,7% eins og nú er, segir Kári þetta þó ekki snúast um fjármuni heldur „kærleika“.

Ráðist árangur í heilbrigðismálum af samanburði við útgjöld til þeirra í öðrum löndum vaknar spurning um gildi inntaks meginstefnu. Nóg sé að halda í hlutfallið. Um tíma var hlutfall útgjalda til grunnskóla á Íslandi hið hæsta í OECD-ríkjunum. Batnaði árangur í PISA-könnunum í réttu hlutfalli við útgjöldin? Getur einhver bent á það?

 

 

 

Laugardagur 23. 01. 16 - 23.1.2016 16:00

Ekki er óeðlilegt að rætt sé hvort ríkið eigi að einoka sölu áfengi. Hitt er sérkennilegt að ýmsir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, ekki síst nýlega kjörinn ritari hans, skuli gera þetta mál að einskonar útslitamáli fyrir flokkinn. Það getur aldrei orðið að slíku máli því að meðal sjálfstæðismanna er ekki einhugur um það. Með því að knýja á það sem flokksmál er stuðlað að því að þrengja ímynd Sjálfstæðisflokksins – að ástæðulausu.

Í stað þess að binda sig fasta við einnota mál eins og sölu á áfengi eiga forystumenn Sjálfstæðisflokksins að árétta gildi þess fyrir þjóðina að í landinu starfi víðsýnn borgaralegur stjórnmálaflokkur með áherslu á skýra afstöðu til mála sem skipta sköpum fyrir þjóðarheildina og stöðu landsins út á við. Í því felst í raun flótti frá meginhlutverki forystumanna Sjálfstæðisflokksins geri þeir sig að skotmarki í málsvörn vegna sérgreindra viðfangsefna eins og sölu á áfengi.

Færa má rök fyrir að deilur um einkavæðingu einstakra banka snúist einnig um einnota pólitískt viðfangsefni – að ríki reki banka er í raun furðulegt pólitískt stefnumál nú á tímum og tal um samfélagsbanka er enn ábyrgðarlausara en stefna sem miðar að því að losa ríkið undan eigandaábyrgð á banka. Sé ekki sæmileg sátt um aðra hvora stefnuna er ástæðulaust að stofna til deilna og ágreinings, óbreytt ástand er besti kosturinn enda skaðist enginn á því.

Öðru máli gegnir um stefnu í efnahagsmálum, atvinnumálum, heilbrigðismálum, húsnæðismálum, menntamálum eða öryggismálum. Þar er í öllum tilvikum um mál að ræða sem marka þjóðarumgjörðina. Flokkar sem skorast undan að hafa skýra afstöðu til málaflokka af þessum toga eru til lítils gagns.

Sjálfstæðisflokkurinn getur fagnað verulegum árangri í efnahags- og atvinnumálum á þessum kjörtímabili auk þess sem umskipti hafa orðið í fjármálastjórn ríkisins. Þar hefur mest hvílt á herðum formanns flokksins, Bjarna Benediktssyni, enda hlaut hann óskorað traust á landsfundi flokksins haustið 2015.

Það er eitthvað verulega mikið að í kynningarstarfi flokksins og viðleitni hans til að afla sér fylgis að ekki takist að nýta hinn mikla árangur sem náðst hefur við að efla efnahag þjóðarinnar og atvinnulíf til að auka fylgi hans. Meginskýringin er að áherslan er á einnota mál í stað þess að marka hinar stóru línur á skýran og greinilegan hátt og segja hvert stefnir innan marka þeirra.

  

Föstudagur 22. 01. 16 - 22.1.2016 16:15

Viðtal mitt við Magneu Marínósdóttur alþjóðastjórnmálafræðingi á ÍNN miðvikudaginn 20. janúar er komið á netið og má sjá það hér. 

Umræðurnar um sölu Landsbankans á  kortafyrirtækinu Borgun og um úthlutun listamannalauna eiga það sammerkt að gefið er til kynna að í raun ráði eitthvað annað ákvörðunum þeirra sem þær taka en málefnalegt sjónarmið. Að einhvers staðar sé einhver „Guðjón á bakvið tjöldin“ sem ráði þessu öllu í raun.

Í stað þess að líta á staðreyndir og greina hvernig ákvarðanir eru teknar eða hlusta á lýsingar þeirra sem að þeim standa kjósa sumir frekar að ala á dylgjum. Salan á Borgun er rædd enn og aftur vegna þess að andstæðingar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, telja sig geta komið höggi á hann. Meira líf er í þessum umræðum en um listamannalaunin vegna þess að fréttastofa ríkisútvarpsins leggur sig fram um að enduróma dæmalausan málflutning formanns Samfylkingarinnar.

Stjórnarformaður Landsbankans og bankastjóri hans hafa lýst þeirri skoðun opinberlega að eftir á að hyggja hefði átt að hafa opnari aðferð við að selja hlut bankans í Borgun. Miðað við allt sem sagt hefur verið undanfarin ár um nauðsyn trúnaðar og trausts í viðskiptum banka ber það vott um dæmalausan dómgreindarbrest stjórnenda Landsbankans að verða ekki vitrir fyrr en almannatengsla-skaðinn er skeður. Hið sama ber að segja um sölu Arion-banka til valinna viðskiptavina á hlutabréfum í Símanum.

Það er síður en svo einsdæmi hér á landi að stjórnendur bankastofnana gangi fram á þann veg að öðrum blöskri. Þetta er þekkt um heim allan og má rekja til þess að innan þessara stofnana skapast andrúmsloft yfirlætis ef ekki hroka. Fram yfir miðja þessa öld tíðkaðist það til dæmis að ráðherrar fóru til fundar við stjórnendur Landsbankans í húsakynnum hans í stað þess að bankastjórar röltu í Stjórnarráðshúsið.

Í fangelsum landsins situr nú hópur manna sem hélt þannig á málum við stjórn banka að þeir hafa hlotið margra ára refsidóma fyrir það. Innan við áratugur er síðan þær refsiverðu ákvarðanir voru teknar. Læri menn ekki af reynslunni og sögunni rata þeir einfaldlega í ógöngur. Nú hefur seðlabankastjóra til dæmis verið stefnt vegna afskipta hans af sölunni á Sjóvá á sínum tíma.

Er ekki ástæðulaust að velta vöngum um „Guðjón á bakvið tjöldin“ þegar ákvarðanir í bönkum eiga í hlut?

 

 

Fimmtudagur 21. 01. 16 - 21.1.2016 19:00

Það er í raun furðulegt að fréttamenn hafi fyrir að birta viðbrögð talsmanns Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta við skýrslu bresks dómara um morðið á Alexander Litvinenko í London í nóvember 2006. Þau einkennast í senn af yfirlæti og lítilsvirðingu í garð hins myrta. Lítilsvirðingin ber í raun með sér að Kremlverjar teljo Litvinenko réttdræpan enda hafi hann snúið baki við KGB sem er dauðasök í augum rússnesku valdaklíkunnar.

Hér má lesa um morðið og skýrsluna.

Enginn vafi er á aðild rússneskra stjórnvalda að þessu morði á manni sem vann að því að rekja tengsl valdaklíku Pútíns við skipulagða glæpastarfsemi. Fréttaskýrandi BBC segir niðurstöður dómarans bendi ákveðnar til Vladimírs Pútíns persónulega en margir hefðu vænst. Svo virðist sem þar sé reist á leynilegum upplýsingum sem dómarinn hafi fengið á lokuðum fundi. Þegar dómarinn segi að Litvinenko hafi verið myrtur vegna þess að hann hafi verið óvinur rússneska ríkisins þrýsti það enn frekar á að bresk stjórnvöld grípi til „raunverulega aðgerða“, fyrir tæpum áratug hafi aðgerðirnar verið takmarkaðar.

Athyglisvert er að sjá í breskum fjölmiðlum vangaveltur um að viðbrögðum bresku ríkisstjórnarinnar séu settar skorður vegna þess hlutverks sem Rússar gegni nú í Mið-Austurlöndum. Þessar vangaveltur koma heim og saman við það sem Bill Browder fésýslumaður sagði hér á landi undir lok nóvember 2015 þegar hann kynnti bók sína Eftirlýstur.

Hann taldi það meðal annars skýringu á ákvörðun Pútíns um að senda herafla til Sýrlands að  hann vildi styrkja stöðu sína gagnvart Vesturlöndum, hann mundi síðan nýta aðstöðuna sem stríðsþátttakan skapaði til að skara eld að eigin köku og gæta einkahagsmuna sinna.

Rætt var við Browder í BBC í tilefni skýrslu breska dómarans. Hann sagði:

„Allt sem hugsanlega getur afhjúpað hvernig glæpamennirnir við stjórnvölinn [í Rússlandi] afla sér fjár kemur þeim sem að afhjúpuninni stendur í lífshættu. Geti ríkisstjórn Rússlands sent launmorðingja til að drepa fólk í Bretlandi án þess að það dragi dilk á eftir sér felur það í raun í sér að kveikt hafi verið á græna ljósinu fyrir frekari morð á fólki.“

Hann sagði að yfirvöld í Bretlandi og ESB ættu „að minnsta kosti“ að beita refsiaðgerðum eins og frystingu eigna og ferðabanni gagnvart þeim innan rússneska stjórnkerfisins sem bera einhvern vott af ábyrgð á morðinu á Litvinenko.

 

 

Miðvikudagur 20. 01. 16 - 20.1.2016 16:00

Í kvöld verður Magnea Marínósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur gestur minn á ÍNN. Hún starfar nú í Austur-Jerúsalem að málefnum kvenna. Eru viðhorf hennar fróðleg á líðandi stundu þegar rætt er straum flóttamanna til Evrópu of afstöðu karlmanna sem birtist meðal annars í fréttum af uppnámi og kynferðislegri áreitni víða um álfuna.

Látinn er í Osló, 79 ára að aldri, Lars Roar Langslet, menningarfrömuður, rithöfundur og menningarmálaráðherra Noregs um miðjan níunda áratuginn. Okkur Lars Roar var vel til vina frá því að við kynntumst fyrst sumarið 1970 þegar kom hingað til lands en upphaflegur tilgangur ferðar hans var að hitta föður minn. Hann kom hingað hins vegar eftir brunann á Þingvöllum 10. júlí 1970 og hitti því aðra menn.

Eins og sjá má með því að slá nafni Lars Roars í leitarvélina hér á síðunni hafa leiðir okkar oftar en einu sinni legið saman undanfarin 45 ár bæði hér og erlendis.

Tilviljanir hafa stundum ráðið eins og því að hann sat kvöldverð okkar Rutar í Háuhlíð 14 í apríl 1995 þegar boðað var til þingflokksfundar sjálfstæðismanna að kvöldi laugardags 23. apríl. Ég varð frá að hverfa og kom heim aftur tilnefndur sem menntamálaráðherra án þess að vita fyrirfram að það stæði fyrir dyrum.

Í norskum fjölmiðlum er farið lofsamlegum ummælum um Lars Roar og framlag hans til norsks menningarlífs. Þegar hann var menningarmálaráðherra beitti hann sér fyrir afnámi einokunar norska ríkisins á útvarpsrekstri. Hann hefur ritað bækur um sagnfræðilegt efni og norska konunga.

Torbjørn Røe Isaksen, þekkingarmálaráðherra Noregs, segir í minningarorðum í Aftenposten: „Ingen har vært viktigere for norsk konservatisme de siste 60 år enn Lars Roar Langslet.“ Ákveðin gildi og hugsjónir hafi sett svip sinn á hann og allt hans starf allt frá því að hann var ungur þar til hann sofnaði svefninum langa heima hjá sér mánudaginn 18. janúar. Hann hafi einnig verið mikill trúmaður og ekki sé unnt að skilja konservatisma hans án hins trúarlega þáttar.

Blessuð sé minning Lars Roars Langslets.

Þriðjudagur 19. 01. 16 - 19.1.2016 15:00

Hlustendur frétta ríkisútvarpsins fylgjast náið með stöðunni á Landspítalanum frá degi til dags. Stundum mætti ætla að þegar lítið nýtt efni er fyrir hádegisfréttir ákveði fréttastjórinn að hringt skuli í Landspítalann, þar hljóti að vera vandræði af einhverju tagi sem eigi erindi við hlustendur. Ósjaldan ber fyrsta fréttin þetta með sér eins og í dag en hún hófst á þessum orðum:

„Mikið álag er á bráðamóttöku Landspítalans þessa dagana. Ekki er pláss fyrir fjölda sjúklinga sem ákveðið hefur verið að leggja inn.

Það er ekki óvanalegt að það sé mikið álag á bráðadeild Landspítalans á þessum árstíma, en síðustu daga hefur álagið verið óvenju mikið. Sjúklingar hafa þurft að bíða klukkustundum saman og gríðarlega mikið að gera hjá starfsfólki.“

Margt nýtt og spennandi sem gerist á sviði læknisfræðinnar fær ekki eins mikla athygli fréttahaukanna við Efstaleiti og daglegur rekstur Landspítalans. Í BBC, breska ríkisútvarpinu, var til dæmis ítarlega sagt frá því í gær að læknar í Sheffield í Bretlandi hefðu náð „ótrúlegum“ árangri við að lækna MS-sjúkdóminn með því að beita sömu aðferðum og við krabbameinssjúklinga, það er stofnfrumumeðferð.  

Gatnamótin við Stakkahlíð og Hamrahlíð eru fjölfarin gangandi fólki auk þess sem töluverð umferð er jafnan um Hamrahlíðina en gangbrautarljós eru yfir hana skammt fyrir austan Stakkahlíðina. Öðru megin Hamrahlíðar er Blindraheimilið og hinu megin Hlíðaskóli, fjölmennur grunnskóli. Næst fyrir austan hann er Menntaskólinn við Hamrahlíð (MH) og er biðstöð strætisvagna kennd við MH ekki langt frá ljósunum.

Hér er minnst á þessi gatnamót og gangbrautarljósin vegna þess að á þeim hefur verið slökkt vegna bilunar í fáeinar vikur auk þess sem ekki loga nein götuljós á þessum slóðum. Sett hefur verið upp skilti um að ljósin séu óvirk en engin skýring er gefin á skorti á götulýsingu.

Nemendur í Hlíðaskóla eru í allt frá fyrsta bekk til 10. bekkjar auk þess sem blindir sem eiga leið yfir Hamrahlíðina treysta mjög á ljósin og hljóðmerkið sem þeim fylgir. Auðvitað hlýtur bilunin í götuljósunum að vera alvarleg úr því að þau eru svo lengi óvirk. Á meðan það ástand varir hefði hins vegar verið rík ástæða til að auka frekar almenna götulýsingu á þessum slóðum í stað þess að hafa ljósastaurana almyrkvaða.

 

Mánudagur 18. 01. 16 - 18.1.2016 18:15

Útlendingastofnun sendi frá sér greinargerð föstudaginn 15. janúar um fjölda hælisumsókna á árinu 2015 og reyndust þær vera 354 eða tvöfalt fleiri en árið 2014 (176) og árið 2013 (172). Flestir voru umsækjendur frá „örugga landinu“ Albaníu eða 108.

Þessi fjölgun er ekki einsdæmi hér á landi eins og allir vita af fréttum. Í nágrannalöndunum þótti yfirvöldum nóg um og hafa nú gripið til aðgerða sem eiga að stemma stigu við komu annars fólks en þess sem raunverulega er taldið í nauðum staddir. Albanir eru ekki í þeim hópi eða annað fólk frá löndunum á Balkanskaga.

Á vefsíðunni vardberg.is birtist í dag frétt um að Austurríkismenn geri nú í vikunni ráðstafanir til að halda þeim í Slóveníu sem segist vera á leið til Norðurlandanna. Þetta gera Austurríkismenn vegna þess að við landamæri Þýskalands og Austurríkis er fólk á leið til Norðurlandanna stöðvað af þýskum landamæravörðum og sent aftur til Austurríkis. Sjá fréttina hér. 

Sama dag og Útlendingastofnun birti yfirlit sitt fyrir árið 2015 eða 15. janúar 2016 höfðu 29 manns leitað hælis hér á landi á árinu 2016 eða að meðaltali 15 á viku. Gefi það vísbendingu um fjölda á nýbyrjuðu ári verða hælisleitendurnir 780 eða tvöfalt fleiri en árið 2015. Af þessum 29 voru nú 12 Albanir og 4 Makedóníumenn. Hvort stefni í komu 312 Albana í hælisleit í ár skal ósagt en hitt er víst að sú ákvörðun alþingis að hafa brottvísun Útlendingastofnunar á Albönum að engu fer að sjálfsögðu ekki leynt í hópi þeirra. Tal þingmanna um að ekki hafi verið um fordæmi að ræða hefur líklega þótt ástæðulaust að þýða á albönsku enda hefur það ekkert lögformlegt gildi.

Hinn 8. janúar sl. skrifaði ég grein í Morgunblaðið um auknar heimildir íslenskra yfirvalda til að fylgjast með komu fólks til landsins og ráðstafanir sem gerðar hafa verið á Norðurlöndum til að flutningsaðilar vísi þeim á brott sem ekki hafa lögmætar heimildir til að ferðast til viðkomandi lands. Má lesa greinina hér.

Af vísbendingum um fjölda hælisleitenda sem birtast í tölum um tvær fyrstu vikur ársins má ráða að full ástæða sé fyrir íslensk stjórnvöld  að huga að aðgerðum á borð við þær sem gripið hefur verið til annars staðar á Norðurlöndunum. Til þess eru fullar lögheimildir.

Sunnudagur 17. 01. 16 - 17.1.2016 15:00

Innanríkisráðuneytið hefur kynnt á vefsíðu sinni drög að frumvarpi til nýrra laga um dómstóla og frumvarpi til breytinga á lögum um meðferð einkamála og meðferð sakamála. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um frumvörpin á netfangið  til og með 29. janúar 2016.

Frumvörpunum er í sameiningu ætlað að leggja grunn að nýrri dómstólaskipan með þriggja þrepa dómskerfi og nýjum málsmeðferðarreglum sem taki mið af hinni nýju skipan. 

Í ítarlegri greinargerð með dómstólafrumvarpinu segir meðal annars:

„Íslendingar hafa nú um rúmlega tveggja áratuga skeið búið við einfalt, gagnsætt og tiltölulega hagkvæmt dómstólakerfi. Dómskerfið er þó ekki hnökralaust. Alvarlegustu ágallarnir hafa á síðustu árum verið taldir þeir annars vegar að ekki sé unnt að fá endurskoðun Hæstaréttar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar í sakamálum og hins vegar að fordæmisgildi dóma Hæstaréttar líði fyrir mikinn málafjölda í Hæstarétti sem skapi að auki hættu á misvísandi niðurstöðum og að mál fái ekki nægilega vandaða málsmeðferð. […]

Þessu frumvarpi og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála er í sameiningu ætlað að leggja grunn að nýrri dómstólaskipan með þriggja þrepa dómskerfi og nýjum málsmeðferðarreglum sem taki mið af hinni nýju skipan.

Flest dómstólakerfi í Evrópu eiga það sameiginlegt að hafa þrjú dómstig og taka kröfur sem Mannréttindadómstóll Evrópu gerir til réttlátrar málsmeðferðar mið af þessu. Erfitt hefur reynst að fylgja eftir þeirri þróun sem orðið hefur á sviði réttarfars og mannréttinda í Evrópu vegna þess að tveggja þrepa dómskerfis sem hér hefur verið. Þær lausnir sem gripið hefur verið hafa ekki reynst fullnægjandi.“

Vafalaust verða ekki allir á eitt sáttir um útfærslu einstakra þátta í þessu máli frekar en öðrum þótt öllum sé ljóst að nauðsynlegt sé að koma á fót svonefndu millidómstigi sem nefnt er Landsréttur í frumvarpinu. Hugmyndin að nafni á sér fordæmi í Danmörku þar sem Vestre Landsret er í Viborg og Østre Landsret í  Kaupmannahöfn. 

Miklu skiptir að menn missi ekki sjónar á efni málsins við þær umræður sem nú hljóta að hefjast en sterkir skoðanastraumar leika um dómstólakerfið og hvernig staðið er að því að skipa dómara. Undanfarin ár hefur pendúllinn sveiflast alltof langt til þeirrar áttar að dómarar ráði sjálfir hverjir bætast í þeirra hóp, innræktun er varasöm á þessu sviði eins og öðrum.

Laugardagur 16. 01. 16 - 16.1.2016 15:00

Stöð 2  birti á dögunum viðtal við þrjá hrunmáls-fanga á Kvíabryggju sem hafa kvartað undan fangelsismálastjóra, saksóknara og dómurum eftir að þeir voru sviptir frelsi í nokkur ár. Ákvörðun 365 um að viðtalið skyldi tekið og birt hefur vakið umræður og gagnrýni. Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365, bregst við gagnrýninni í Fréttablaðinu, flaggskipi fjölmiðlaveldis Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, í dag og segir í forystugrein blaðsins:

„Ásakanir um herferð gera lítið úr fréttamanninum sem tók viðtalið. Hann er raunar þeirrar gerðar að hann tekur slíkt ekki inn á sig – enda standa verk hans fyrir sínu. Engu að síður er rétt að undirstrika, að hvorki hann, né aðrir fréttamenn 365, leggjast svo lágt að gerast peð í herferð manna utan úr bæ. Fréttastofa 365 sannar það á hverjum einasta degi, þótt fólk sjái náttúrulega draug ef það vill sjá draug. Það er gömul saga og ný að fólk ætli þeim á annað hundrað blaðamönnum sem starfa hér á landi að vera viljalaus verkfæri þessa eða hins.“

Á milli línanna má lesa að fréttamaðurinn telur að sér vegið. Hann er viðkvæmur fyrir gagnrýni eins og kom í ljós á tíma Evrópuvaktarinnar þegar hann snerist af þunga til varnar þar vegna ummæla sem féllu um afstöðu hans til ESB – voru þau orð mín smámunir miðað við það sem sagt hefur verið um atbeina hans í þágu hrunmannanna.

Það sem Kristín Þorsteinsdóttir segir um að fréttamenn 365 leggist ekki „svo lágt að gerast peð í herferð manna utan úr bæ“ er ekki annað en endurómur af því sem stjórnendur Baugsmiðlanna sögðu á tíma Baugsmálsins. Þá var að vísu sá munur að ekki var um „herferð manna utan úr bæ“ að ræða heldur vörn fyrir sjálfan Jón Ásgeir. Hvað eftir annað var fullyrt að Baugsmiðlarnir gengu ekki erinda eiganda síns, þeir sem héldu öðru fram stunduðu argasta atvinnuróg. Raunar væri það eitt hneyksli að kenna miðlana við Baug.

Eftir að Baugsveldið hrundi birtust ýmsir fyrri málsvarar þess í öðru gervi og viðurkenndu að nafngiftin Baugsmiðlar hefði átt fullan rétt á sér, á vettvangi miðlanna hefðu menn gengið erinda Baugs og eigenda hans.

Í þessu ljósi er ástæða til að taka með fyrirvara yfirlýsingum Kristínar aðalritstjóra sem var blaðafulltrúi Baugs þar til hún varð útgáfustjóri og síðar aðalritstjóri 365. Málatilbúnaður 365 vegna hrunmála þjónar hagsmunum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar ekki aðeins „manna utan úr bæ“.

Föstudagur 15. 01. 16 - 15.1.2016 21:00

Samtal mitt á ÍNN frá 13. janúar við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er komið á netið og má sjá það hér.

Ein undarlegasta athyglisárátta sem birtist nú í tengslum við forsetaframboð sést hjá Jóni Gnarr, starfsmanni 365. Hann tilkynnti fyrir nokkrum dögum að í dag mundi hann tilkynna hvort hann yrði í framboði til forseta þótt hann hefði áður tilkynnt að hann yrði ekki í framboði.

Á visir.is segir í dag:

„Jón Gnarr, ritstjóri innlendrar dagskrár hjá 365, hyggst ekki bjóða sig fram til embættis forseta Íslands í vor. Hann upplýsti um þetta í Ísland í dag í kvöld. Jón stýrði þættinum sjálfur en hinn helmingur Tvíhöfðans, Sigurjón Kjartansson, og blaðamaðurinn Viktoría Hermannsdóttir voru gestir hans.

„Eruð þið nokkuð til í að spyrja mig um þarna forsetann? Mér skilst að það sé ein af fréttum vikunnar,“ sagði Jón aðspurður um hvort hann ætlaði að bjóða sig fram til forseta. „Ég er gríðarlega upp með mér og snortinn og finnst vænt um að fólk vilji að ég bjóði mig fram. Nei, ég hyggst ekki bjóða mig fram til forseta að svo stöddu en ég gæti hugsað mér að gera það síðar.“

Jón segir að hann sakni þess ekkert að vera borgarstjóri en hann sakni þess hins vegar að leika. Hann sé leikari að upplagi. 

„Ég hlakka gríðarlega til að fá að leika og búa til íslenskt sjónvarpsefni á nýjan leik. Þannig ég vona að ég hafi svarað þessari spurningar í eitt skipti fyrir öll,“ segir Jón. Sigurjón Kjartansson benti þá á að hann hefði ekki aðeins svarað spurningunni heldur hefði hann spurt hennar líka.“

Sjálfhverfari framganga stjórnmálamanns er vandfundin eða misnotkun á aðstöðu sinni sem ritstjóri fjölmiðils. Að slíkt sé látið viðgangast á 365 er enn ein staðfesting þess að miðlunum sé ekki síst haldið úti til að þjóna hagsmunum eiganda þeirra eða stjórnenda.

 

Fimmtudagur 14. 01. 16 - 14.1.2016 16:00

 

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að vinnuveitendur hafi heimild til þess að lesa tölvubréf og aðrar rafrænar orðsendingar starfsmanna sinna. Rúmenskur verkfræðingur var rekinn fyrir að senda tölvubréf til unnustu sinnar á reikningi sínum hjá Yahoo sem hann hafði opnað að ósk vinnuveitanda síns. Hann stefndi vinnuveitenda sínum vegna uppsagnarinnar.

Málið má rekja aftur til 2007 en vinnuveitandinn fylgdist með sendingum starfsmannsins í nokkra daga og lagði síðan fram 45 bls. útskrift af þeim og þar á meðal voru bréf til unnustu starfsmannsins. Þriðjudaginn 12. janúar komst dómstóllinn í Strassborg að þeirri niðurstöðu að ekki væri „ósanngjarnt að vinnuveitandi vildi staðfesta að starfsmenn hans sinntu starfsskyldum sínum á vinnutíma“.

Vinnuveitandinn sagðist hafa bannað starfsmönnum sínum að senda einkaskilaboð á meðan þeir væru í vinnunni. Dómararnir sögðu starfsmanninn ekki hafa gert „sannfærandi grein“ fyrir því hvers vegna hann hefði notað „Yahoo skilaboða-reikninginn í persónulegum tilgangi“.

Þessi dómur er leiðbeinandi fyrir íslenska dómstóla. Hann leiðir til þess að strangar kröfur verður að gera til stjórnenda um að upplýsa starfsmenn um rétt þeirra til afnota af tölvupóstkerfum vegna einkamála og hvort sendingarnar séu lesnar af eftirlitsmönnum fyrirtækisins „það er mjög erfitt að réttlæta eftirlit framkvæmt með leynd“ segir sérfræðingur í réttarstöðu launamanna við breska blaðið The Daily Telegraph. Annar sérfræðingur sagði dómstólinn hafa komist að þessari niðurstöðu vegna þess að starfsmaðurinn hefði fullyrt að hann hefði aðeins notað Yahoo-reikninginn til að senda boð tengd starfi sínu.

Í dóminum segir: „Vinnuveitandinn fór ekki út fyrir agavald sitt þar sem hann hafði, eins og heima-dómstólar sáu, skoðað Yahoo-reikninginn í þeirri trú að umræddar upplýsingar hefðu verið starfstengdar og þess vegna hefði athugunin verið lögmæt.“

Það veikir ekki trúverðugleika lögreglu að Sigríður Björk Guðjónsdóttir taki mál öðrum tökum en forverar hennar í starfi lögreglustjóra. Hver yfirmaður hefur sinn stíl. Það er hins vegar undarlegt að stofnað sé til samblásturs vegna þessa í fjölmiðlum og Landssambandi lögreglumanna beitt í málinu á annan hátt en Lögreglufélag Reykjavíkur ályktar um það.

 

 

Miðvikudagur 13. 01. 16 - 13.1.2016 17:15

Í dag ræddi ég á ÍNN við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Samtalið er 51 mínúta og skiptist í þrjár lotur, um skipulagsmál, um alþjóða- og flóttamannamál, um efnahags- og stjórnmál. Markmið samtala minna er ekki að stofna til ágreinings við viðmælendur mína heldur fá þá til að miðla þekkingu sinni, reynslu og viðhorfum. Þeim sem vilja hanaslag í sjónvarpssal er bent á að snúa sér annað!

Augljóst er að 365 undir yfirstjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar fetar nú sama stíg og Baugsmiðlarnir gerðu á tíma Baugsmálsins. Leitast er við að gera hlut efnahagsbrotamanna sem bestan og sverta þá sem standa að rannsókn, saksókn og dómum. Nú bætist fangelsismálastjóri í hóp hinna fordæmdu. Á hlut hans reyndi ekki í Baugsmálinu því að höfuðpaurar þess voru ekki dæmdir til fangelsisvistar.

Lýsingu á aðferðunum sem beitt er má finna í  bók minni Rosabaugi yfir Íslandi. Að öðrum þræði hugsaði ég hana sem handbók fyrir þá sem vilja átta sig á hvernig auðugir efnahagsbrotamenn með aðgang að fjölmiðlaveldi haga sér. Rangar fullyrðingar í skýrslu rannsóknarnefndar um að ekkert opinbert aðhald hafi verið að fésýslumönnum í aðdraganda hrunsins voru þó meginástæðan fyrir að ég ákvað að skrifa bókina.

Hinn 9. janúar 2016 birtist þetta á vefsíðu Viðskiptablaðsins:

Nú er ljóst að aðeins fæst 2,9% upp í kröfur í þrotabú Baugs. Heildarkröfur í búið nema 240 milljörðum króna en kröfuhafar fá aðeins 7 milljarða króna. Þetta er líklega stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar, fyrir utan föllnu viðskiptabankanna.

Þá rifjast upp orð Davíðs Oddssonar fyrrverandi seðlabankastjóra sem féllu á fundi Viðskiptaráðs skömmu eftir fall bankanna. „Af hverju hefur það ekki verið upplýst að einn aðili skuldaði eitt þúsund milljarða í íslenska bankakerfinu og þá er eingöngu verið að tala um viðskiptabankana þrjá.“ Þetta var staðfest í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Í þessu ljósi er fróðlegt að lesa grein eftir Jón Ásgeir í Morgunblaðinu í nóvember 2008. Þar segir Jón: „Gunnar Smári [sem hafði gert skuldirnar að umtalsefni] gleymir að nefna að á móti skuldum félaganna þriggja sem hann tilgreinir koma eignir. Mér þykir því rétt að upplýsa Gunnar Smára og aðra áhugamenn um stöðu umræddra fyrirtækja um að samanlagðar eignir Baugs, Stoða og Landic Property um mitt þetta ár námu tæplega 1.200 milljörðum króna. Skuldirnar, við innlenda sem erlenda lánardrottna, námu hins vegar rúmlega 900 milljörðum króna.““

 

Þriðjudagur 12. 01. 16 - 12.1.2016 20:20

Skýrsla um um efnahagsleg áhrif innflutningsbanns Rússlands á íslenska hagsmuni var birt í dag og má lesa hana hér  – hún er á ensku og segist Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ekki hafa neina skýringu á því. Reykjavík Economics samdi skýrsluna en Magnús Árni Skúlason hagfræðingur er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Í skýrslunni segir að tapaðar útflutningstekjur vegna lokunar Rússlandsmarkaðar geti verið á bilinu tveir til átján milljarðar króna, allt eftir lengd bannsins og hversu þungt Rússlandsmarkaður vegi. Af þessu stóra bili má ráða að ekki er auðvelt að slá neinu föstu um þessar tekjur. Raunar er næsta haldlítið að deila um málið með vísan til talna um tekjur. Enginn veit neitt um framtíðina í efnahagsmálum Rússlands þegar verð á olíutunnu er komið niður í 30 USD.

Hraðferð yfir skýrsluna leiðir ekki í ljós að þar sé gerð grein fyrir ákvörðun Matvælastofnunar Rússlands um að loka á viðskipti við nokkra stóra seljendur frá Íslandi. Stofnuninni er beitt í pólitískum tilgangi meðal annars til að knýja erlenda seljendur til að eiga viðskipti við einhvern stóru hringanna fjögurra sem nú hafa skipt rússneska matvælamarkaðnum á milli sín í skjóli Vladimírs Pútíns.

Þá verður ekki heldur séð að skýrsluhöfundar geri grein fyrir hvernig íslenskum fyrirtækjum hefur gengið að innheimta kröfur sínar í Rússlandi. Hefði verið fróðlegt að sjá hlutfall affalla í uppgjörum undanfarinna ára.

Á bls. 29 í skýrslunni er vitnað í ræðu sem Dmtrij Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, flutti í ágúst 2015 og sagt að í henni virðist gefið til kynna að innflutningsbann Rússa megi að hluta rekja til ákvörðunar stjórnvalda um að efla framleiðslu matvæla heima fyrir til að tryggja fæðuöryggi Rússa.

Að verða sjálfum sér nógir í matvælaframleiðslu er hluti hernaðarstefnu Rússa og nær hún einnig til fiskveiða.

Þá er á bls. 32 í skýrslunni bent á að bann við innflutningi á matvælum til Rússlands megi skoða sem lið í fjármagnshöftum enda sé nauðsynlegt að grípa til róttækra ráðstafana til að vernda gjaldeyrisforðann.

Skýrslan er innlegg í umræður sem orðið hafa um innflutningsbann Rússa og taka á sig ýmsar myndir þar sem fiskútflytjendur skella í bráðræði allri skuld á íslensk yfirvöld meðal annars með þessum orðum Guðmundar Gíslasonar á Djúpavogi í Morgunblaðinu í morgun: „Samningatækni íslenskra stjórnvalda hefur vægast sagt verið einkennileg.“ Orðin gefa til kynna þá hugmynd að unnt sé að semja við Pútín vegna einhliða ákvörðunar hans – hvílík ranghugmynd.

 

Mánudagur 11. 01. 16 - 11.1.2016 16:15

Nú er samtal mitt við Halldór Halldórsson, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, á ÍNN miðvikudaginn 6. janúar komið á netið og má sjá það hér.

Stjórnarhættir fjórflokksins sem fer með meirihluta í borgarstjórn er með ólíkindum. Ekkert af því kemst þó til skila í fjölmiðlum með þeim þunga sem verkin verðskulda. Í grein í Fréttablaðinu í dag kennir Guðmundur Andri Thorsson þá við „óða fólkið“ sem andmæla vinnubrögðum meirihlutans í flugvallarmálinu. Þetta sýnir endaskiptin sem álitsgjafar Dags B. hafa á sannleikanum til að fegra hlut hans. Hafi runnið æði á einhvern vegna flugvallarins er það á þá sem virða hvorki lög né rétt til að níðast á flugvellinum og ögra öryggi þeirra sem á völlinn treysta.

Í morgun var tilkynnt um andlát Davids Bowies. Hann var snillingur og magnaður listamaður. Ég hitti hann 20. júní 1996 þegar hann var hér á listahátíð. Þá skrifaði ég hér á síðuna:

 „Um kvöldið fórum við á tónleika Davids Bowie í Laugardalshöllinni. Var ekki annað unnt en dást að frammistöðu goðsins. Hann var tvo klukkutíma á sviðinu, þar sem allt gekk eins og vel smurð vél. Stóð hann við loforð sitt við komuna til landsins, að efna hér til góðra tónleika í tvær stundir. Fyrir okkur óvana áheyrendur á slíkum tónleikum var hávaðinn næstum óbærilegur á stundum og bassinn skall á manni eins og bylgja. Þegar við hittum Bowie og menn hans eftir tónleikana, voru þeir undrandi á því, að við hefðum ekki sett tappa í eyrun til að draga úr hávaðanum! Í stuttu samtali var Bowie eins og margir aðrir heimsfrægir menn hógvær og velviljaður. Virtist hann hafa fullan hug á að koma hingað aftur til að kynnast landinu betur í fylgd með eiginkonu sinni. 


Þegar við kvöddum hann var klukkan farin að halla í tvö eftir miðnætti og morguninn eftir var ferðinni heitið snemma morguns til Frankfurt, þar sem síðdegis átti að sinna sjónvarpsviðtölum og búa sig undir tónleika á laugardeginum. Hefur Bowie verið á sífelldu ferðalagi með tveimur stuttum hléum síðan í ágúst 1995 og haldið að meðaltali þrjá stórtónleika í viku hverri í nýju landi eða borg í hvert sinn.“ 


 

Sunnudagur 10. 01. 16 - 10.1.2016 15:00

Enn er ástæða til að velta fyrir sér umræðunum um aðild Íslendinga að viðskiptaþvingunum á Rússa. Nú er gert veður út af því sem Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á Bylgjunni að morgni sunnudags 10. janúar og látið eins og hann sé ósammála flokksbróður sínum, Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, í málinu. Er það svo þegar nánar er að gáð?

Sigurður Ingi talar á annan veg um málið en Gunnar Bragi en í raun eru þeir sammála. Sigurður Ingi leggur áherslu á nauðsyn þess að mótmæla framgöngu Rússa í Úkraínu en vill velta fyrir sér á hvaða hátt það er gert. Gunnar Bragi hefur að sjálfsögðu velt þessu fyrir sér og kynnir niðurstöðu sína á afdráttarlausan hátt. „Við erum auðvitað bara með tákn­ræn­an stuðning við vest­ræn­ar þjóðir í þessu,“ sagði Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og einnig þetta:

„Það má hinsvegar velta fyrir sér hvort að þessi aðferðafræði sé árangursrík, skynsamleg og hvernig hún kemur við einstök lönd, einstakar greinar og einstök byggðalög. En það er að sjálfsögðu gagnákvörðun Rússa sem veldur því.“

Í lokasetningu hinna tilvitnuðu orða kemur Sigurður Ingi að kjarna málsins. Þótt aðild Íslands að þvingununum sé aðeins táknræn hafa Rússar ákveðið að snúast af meiri hörku gegn Íslendingum en öðrum þjóðum vegna þeirra. Þeir ráðast því á garðinn þar sem hann er lægstur og ljá ekki máls á neinni breytingu. Þar að auki hefur rússnesku matvælastofnuninni verið sigað á íslensk fyrirtæki og sett þau í bann.

Í frásögn mbl.is af þessum þætti á Bylgjunni segir:

„Sig­ur­jón Eg­ils­son, stjórn­andi þátt­ar­ins, sagði […] að ráðherr­ann hefði þó greini­lega efa­semd­ir í þeim efn­um [varðandi viðskiptaþvinganir] og svaraði Sig­urður Ingi því til að hann hefði al­mennt efa­semd­ir um viðskiptaþving­an­ir og ár­ang­ur­inn af þeim.“

Við nánari athugun á því sem fram fór í þessum þætti skýrist að þeir sem vilja nota hann til að skapa ágreining milli ráðherra Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni sýnast gera það með því að vísa til útleggingar Sigurjóns Egilssonar! Hvílík fréttamennska!

Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sjálfstæðisflokki, formaður utanríkismálanefndar alþingis, var einnig í þessum þætti og sagði til stuðnings viðskiptaþvingunum á Rússa:

„Ég veit alveg að það getur stundum kostað eitthvað að standa vörð um ákveðna hagsmuni en mér hefur fundist það skipta máli.“

Laugardagur 09. 01. 15 - 9.1.2016 16:00

Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, birti grein á Facebook-síðu sendiráðsins og leiðrétti rangfærslur vegna skrifa hér á landi um framkvæmd á viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi eftir yfirgang Rússa og ólögmæta innlimun á Krímskaga í Rússland. Þetta var tímabær áminning um nauðsyn þess að farið skuli með rétt mál í umræðum um utanríkis- og öryggismál.

Rússar hafa komið á fót sérstakri rangfærsludeild til að blekkja Vesturlandabúa og stofna til illinda innan einstakra ríkja. Stundum dettur manni helst í hug að deildin standi að baki ýmsu sem hér er sagt um ástandið í Úkraínu og hlut Rússa. Má þar nefna aðsendar greinar sem birst hafa í Morgunblaðinu til stuðnings málstað Rússa.

Íslensk stjórnvöld hafa réttilega tekið afstöðu með bandamönnum sínum innan NATO gegn yfirgangi Rússa. Fyrirlitning á alþjóðalögum er hættuleg ögrun ekki síst fyrir smáríki. Varðstaða um virðinguna fyrir þeim er grunnþáttur í utanríkisstefnu Íslands.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti setti bann á innflutning frá Íslandi í refsiskyni vegna aðgerða þar sem hlutur Íslendinga skaðaði ekki Rússa á neinn hátt. Að breyta þessu ofríki Pútíns í árásarefni á Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra ber með sér handbragð rangfærsludeildarinnar í þágu Rússa.

Minna er talað um hinn þátt óvinsemdar Rússa í garð íslenskra matvælaframleiðenda sem birtist í gjörðum Matvælastofnunar Rússlands og lesa má um hér.

Stofnunin hefur sett íslensk fyrirtæki á bannlista. Ákvörðunin um það er tekin án tillits til Úkraínudeilunnar. Þessi rússneska stofnun er angi hins spillta stjórnkerfis í skjóli Pútíns og fer það orð af henni að fyrirgreiðslufé skipti meira við ákvarðanir hennar en fjöldi örveira þótt vísað sé til þeirra í tilkynningum um innflutningsbann.

Það er hluti af rangfærslusmíðinni að láta eins og hið sama búi að baki banni Pútíns og banni matvælastofnunarinnar.

Hið rétta að baki ofríkisákvörðunum skýrist oft aðeins á nokkrum tíma.

Meirihlutinn í Reykjavík hefur skýrt hækkun á gjaldi fyrir sorphirðu og fækkun sorphirðudaga á ýmsan hátt. Hjálmar Sveinsson (Samfylkingu) segir öskubílana menga svo mikið að fækka verði ferðum þeirra. Sóley Tómasdóttir (VG) skrifar í Fréttablaðið 9. janúar:

„Hagrænn og heilsusamlegur ávinningur af reglulegum gönguferðum [með sorp] á grenndarstöðvar getur verið umtalsverður. Í Reykjavík eru reknar 57 grenndarstöðvar, staðsettar í innan við 500 metra fjarlægð við 85% heimila í Reykjavík.“

Borgarbúar eiga sem sagt sjálfir að bera sorp sitt í stöðvar borgarstjórnar sér til heilsubótar.

Föstudagur 08. 01. 16 - 8.1.2016 18:00

Sérkennilegt er ef engin rödd heyrist á alþingi sem er í takt við raddirnar sem verða æ háværari á þjóðþingum annars staðar í Evrópu um nauðsyn þess að staldra við og endurskoða stefnu og lög um útlendingamál í ljósi þess hve íþyngjandi straumur farand- og flóttafólks er til þessara landa.

Síðasta dag fyrir jólahlé var einróma samþykkt á alþingi að hafa ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun tveggja fjölskyldna til Albaníu að engu. Tekin var sú einstæða ákvörðun að veita fjölskyldunum ríkisborgararétt.

Í dag hefur ríkisútvarpið í nokkrum fréttatímum sagt að sex þingmenn Samfylkingarinnar hafi lagt fram tillögu til þingsályktunar um að undirbúa stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna og sé Ólína Þorvarðardóttir fyrsti flutningsmaður – þetta hafi komið fram í morgunútvarpi rásar 2. Þótt þingmaður komist í morgunútvarpið og kynni einhverja hugmynd jafngildir það ekki framlagningu máls á alþingi – tillagan er ekki komin fram og þing kemur ekki saman fyrr en 19. janúar.

Ólína kynnti tillöguna sem andsvar við störfum Útlendingastofnunar sem hafi „úrskurðarvald og rannsóknarskyldu“ en gæti ekki hagsmuna flóttamannsins sem þurfi að aðstoða og hjálpa „í gegnum kerfið“.

Á ruv.is segir í dag:

„Ólína segir að það sé ekkert launungarmál að það hafi verið ágreiningur í þjóðfélaginu um málsmeðferð flóttamanna og vaxandi gagnrýni mörg undanfarin ár. „Það kann að vera vegna þess að verið er að gera óraunhæfar kröfur til stofnunar eins og Útlendingastofnunar. Hún er ekki mannúðarstofnun. Hún er meira í ætt við lögreglu. Menn verða að skilja það. Ef við ætlum að gæta hagsmuna flóttamanna þá þurfum við að tryggja að flóttamenn hafi þann hagsmunagæsluaðila.“

Þessi ummæli eru aðeins enn ein staðfestingin á nauðsyn þess að veita alþingismönnum meira aðhald þegar þessi alvarlegu mál eru á döfinni. Hið sérkennilega í málinu er ef enginn á alþingi áttar sig á nauðsyn þess að ræða útlendingamál á öðrum forsendum en þeim að íslensk stjórnvöld sem fara að íslenskum lögum séu í raun mannfjandsamleg. Ólína gefur til kynna með orðum sínum að hlutverk lögreglu sé óvinveitt borgurunum, Útlendingastofnun sé af sama meiði og þess vegna beri að setja einhvern opinberan aðila til höfuðs henni.

Hagsmuna flóttamanna er gætt á Íslandi í samræmi við innlend lög og alþjóðasamninga. Að halda öðru fram er vísvitandi blekking og misheppnað lýðskrum.

 

 

Fimmtudagur 07. 01. 16 - 7.1.2016 18:30

Síðdegis í dag, 7. janúar, birti YouGov könnunarfyrirtækið í Bretlandi niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar um afstöðu Breta til aðildar að ESB. Könnunin sýnir að þjóðin skiptist 51-49 til stuðnings ESB-aðild. Þeir sem búa í Skotlandi, hafa hlotið háskólamenntun eða eru yngri en 30 ára eru helst fylgjandi aðild að ESB. YouGov segir að „eitt helsta verkefni þeirra sem vilja ESB-aðild“ sé að hvetja kjósendur undir 30 ára aldri til að greiða atkvæði, þeir séu líklegastir til að styðja aðild en ólíklegastir til að fara á kjörstað. Andstæðingar aðildar þurfi hins vegar að leggja mesta áherslu á fá sem flesta af hinum almenna vinnumarkaði til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Sé afstaða manna skoðuð eftir búsetu kemur í ljós að 60% manna í Skotlandi vilja vera í ESB. Nicola Sturgeon, úr Skoska þjóðarflokknum og forsætisráðherra Skotlands, hefur sagt að yfirgefi Bretland ESB verði ekki unnt að koma í veg fyrir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu meðal íbúa á Skotlandi um sjálfstæði Skotlands. Næst mesti áhuginn á aðild er í London 55% með en 45% á móti aðild. Í sex héruðum á Bretlandi styður meirihlutinn aðild en í fimm er meirihlutinn andvígur henni.

Skilin í afstöðu til ESB-aðildar eru skýr milli aldurshópa. Af þeim sem eru 18-29 ára eru 63% hlynnt aðild en 56% eldri en 60 ára vilja segja skilið við ESB. Aðrir aldurshópar skiptast í nær jafnstóra hópa.

Líklegt er að afstaða bresks almennings verði á þessu róli þar til skýrist hvort David Cameron forsætisráðherra hefur erindi sem erfiði í viðræðum um nýja ESB-aðildarskilmála Breta. Vilji Camerons stendur til að Bretar verði áfram aðilar að ESB en á nýjum grunni sem er í mörgu tilliti óljós. Cameron kemur í sjálfu sér vel á þessu stigi að aðildin hangi á bláþræði, það styrkir samningsstöðu hans því að ofan á evru-kreppuna og Schengen-krísuna má ESB vart við því að Bretar segi skilið við sambandið. Forystumenn Frakklands, Þýskalands og ESB-embættismannaveldisins munu því leggja sig fram um að auðvelda Cameron að gerast afdráttarlaus talsmaður ESB-aðildar í Bretlandi.

Miðvikudagur 06. 01. 16 - 6.1.2016 16:00

Í dag ræddi ég á ÍNN við Halldór Halldórsson, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Verður þátturinn sýndur í kvöld klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti þangað til 18.00 á morgun.

Af mörgu er að taka þegar rætt er við oddvita minnihlutans í borgarstjórn. Undrun vekur að ekki séu í raun meiri umræður um hve hörmulega illa er að stjórn borgarinnar staðið. 

Í gær voru fréttir á forsíðum Fréttablaðsins og Morgunblaðsins um þá ákvörðun að fækka sorphirðudögum í Reykjavík en hækka gjald vegna hirðunnar um 38%.

Í Fréttablaðinu stóð:

„Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, segir ákvörðunina [í sorphirðumálum] tekna vegna umhverfisverndarsjónarmiða. Reykjavíkurborg vilji fækka ferðum sorphirðubíla um borgina, þá sé fyrirsjáanlegt að þegar fólk flokki plast sérstaklega frá almennum úrgangi minnki umfang þess. „Þessir stóru sorphirðubílar, þeirra ferðir eru færri í borginni. Þetta verður þá líka til þess að fólk hugsar sig meira um hvað það setur í almennu tunnuna. Það reynir að minnka framleiðslu heimilisins á óendurvinnanlegum úrgangi. Með þessu er Reykjavík að fara í sömu sorphirðutíðni og hin sveitarfélögin. Íbúar sem það vilja geta valið stærri tunnur en þær almennu eða jafnvel minni tunnur, eins og ég geri sjálfur sem nota spartunnuna. Sem er jafnframt ódýrasti kostur á landinu að velja.“

Spyrja má: Er ástæðan fyrir því að ekki eru ruddar götur og gangstéttar í borginni óttinn við mengun frá snjóruðningstækjunum?

Í leiðara Morgunblaðsins í gær sagði:

„Þegar umræður höfðu staðið um vaxandi vanda leigjenda tilkynntu borgaryfirvöld með fjaðraþyt og söng að þau myndu bregðast hratt við og hefja uppbyggingu leiguíbúðakerfis í stórum stíl til að bæta úr. Lengi vel gerðist lítið. En í síðustu viku var kynnt að Borgin hefði loks hafist handa með stóráform sín í leiguíbúðamálum. Um væri að ræða 50 íbúðir af 500 íbúða áfanga. Fremur lítið og fremur seint, hugsuðu margir, en töldu þetta þó sýna viðleitni. En þá kom á daginn að þessar 50 nýju leiguíbúðir væru keyptar af Íbúðalánasjóði. Þær íbúðir hefðu að vísu allar verið í útleigu og þyrfti því að byrja á því að segja 50 leigjendum upp og koma þeim með tiltækum ráðum úr íbúðunum sínum áður en hægt væri að leigja þær einhverjum öðrum 50 íbúum sama sveitarfélags!

Við Halldór ræðum þessi mál og fleiri í spjalli okkar.

Þriðjudagur 05. 01. 16 - 5.1.2016 21:00

Í frétt á vefsíðu Isavia segir í dag

„Árið 2015 fóru 4.855.505 farþegar um Keflavíkurflugvöll, einni milljón fleiri en árið 2014. Fjöldinn hefur aldrei verið meiri og er um að ræða 25,5% aukningu frá fyrra ári. Skiptingin var þannig að 1.693.858 komu til landsins um flugvöllinn, 1.696.769 fóru frá landinu og 1.464.878 millilentu. Júlí var stærsti mánuður ársins með 662.750 farþega. Samkvæmt farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að 6,25 milljón farþegar fari um flugvöllinn árið 2016.“

Fjöldi ferðamanna var um 1,3 milljón árið 2015 og spáð er að hann verði 1,5 milljón í ár. Árið 2013 spáði Boston Consulting Group (BCG)að 1,5 milljón talan næðist árið 2023 – nú eru sjö ár þangað til! Hér má sjá spána. 

BCG heldur úti 82 skrifstofum í 46 löndum og skýrslan um þróun íslenska ferðamarkaðarins var unnin frá október 2012 til júlí 2013 en kynningin á henni var í september 2013. Icelandair, Isavia, Bláa lónið og Höldur fengu sérfræðinga BCG til að vinna skýrsluna.

Tölurnar sem Isavia birti í dag eru einfaldlega allar hærri en sérfræðinga BCG grunaði. Það er til marks um mikinn sveigjanleika íslensks atvinnulífs að tekist hafi á svo skömmum tíma að skapa svigrúm til þessarar öru aukningar. Segja má, að svigrúmið sé fyrir hendi þrátt fyrir ríkisvaldið og afskipti þess.

Skapa ber þróun ferðaiðnaðarins, vernd og nýtingu náttúrunnar hæfilegan lagaramma svo að frumkvæði einkaaðila njóti sín til nauðsynlegra framkvæmda. Fróðlegt væri að vita hvenær þeir sem báðu BGC að vinna fyrrgreinda skýrslu hafi áttað sig á að ráðgjafarnir fóru villir vega. Þeir gerðu til dæmis ráð fyrir að á þessu ári, 2016, yrði fjöldi ferðamanna á bilinu 910 til 990 þúsund.  

Mánudagur 04. 01. 16 - 4.1.2016 18:15

Í gær sagði ég hér frá forsetaframboði Árna Björns Guðjónssonar. Til að öll sagan sé sögð birtist hér frétt af mbl.is í dag:

„Árni Björn Guðjóns­son, fyrr­ver­andi odd­viti Kristi­lega lýðræðis­flokks­ins, hef­ur dregið til baka fram­boð sitt til embætt­is for­seta Íslands.

Í yf­ir­lýs­ingu sem Árni sendi fjöl­miðlum í dag seg­ir að þar liggi „sér­stak­ar ástæður“ að baki en ástæðurn­ar eru ekki til­tekn­ar frek­ar.

„Ég vona að þeir sem sem verða kosn­ir verði öt­ul­ir bar­áttu­menn eða kon­ur gegn hat­urs meðal mann­kyns,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu Árna. Framboð hans varði í rétt rúman sólarhring en hann hafði til­kynnt að hann hyggðist aðeins sitja í tvö kjör­tíma­bil næði hann kjöri.“

Árni Björn sagðist einnig ætla að leita liðsinnis Frans páfa. Kannski hefur það ekki tekist og framboðið því fallið um sjálft sig.

Á síðunni vardberg.ishér lesa grein úr Frankfurter Allgemeine Zeitung um handbók sem hryðjuverkasamtökin Ríki íslam hafa sent frá sér til að búa liðsmenn sína undir átök í Evrópu. Þetta er fróðleg úttekt sem ýmsum kann að þykja ógnvekjandi.

Sunnudagur 03. 01. 16 - 3.1.2016 16:15

Í morgun kl. 08.37 var Árni Björn Guðjónsson spurður í heita pottinum í Laugardalslauginni hvort hann ætlaði að gefa kost á sér sem forseti Íslands. Hann svaraði því neitandi. Eftir því sem leið á daginn hefur hann greinilega fengið víðtæka hvatningu. Á ruv.is birtist kl. 14.17:

„Árni Björn Guðjónsson ætlar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.

Í fréttatilkynningu frá Árna Birni segir að hann muni leggja aðaláherslu á að eyða hatri á Íslandi og um allan heim. Ætlar hann að leita liðsinnis páfans í þeim efnum.

Árni Björn segist aðeins ætla að sitja í tvö kjörtímabil verði hann kjörinn. 

Hann er 76 ára gamall og var oddviti framboðs Kristilegrar stjórnmálahreyfingar sem bauð fram lista í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi í Alþingiskosningunum 1995. Flokkurinn fékk 316 atkvæði eða 0,2% atkvæða.“

Framboðshugleiðingar Árna Björns sýna að þröskuldurinn sem menn þurfa að stíga yfir til að láta í ljós áhuga á framboði setur engum skorður. Ástþór Magnússon hefur auk þess sótt svo hart að fréttastofu ríkisútvarpsins að þar sjá fréttamenn að sjálfsögðu þann kost vænstan að birta allt sem að þeim er rétt frá væntanlegum frambjóðendum.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur fært forsetaembættið til þeirrar áttar að brýnna er en ella að tryggja með kosningareglum að kjörinn forseti hafi meirihluta þeirra sem greiða atkvæði að baki sér. Hinn kosturinn kann þó að þykja nærtækari að setja skýrari stjórnskipunarreglur um vald forseta og breyta 26. gr, stjórnarskrárinnar.

Stjórnmálaflokkar ættu að sameinast um efni breytingar á 26. gr, í aðdraganda forsetakosninganna og semja um raunverulegan rétt þjóðarinnar til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um mál með augljósum og skýrum skilyrðum en ekki láta það háð duttlungum eins manns eins og nú er eftir túlkun Ólafs Ragnars á 26. gr.

 

Laugardagur 02. 01. 16 - 2.1.2016 16:00

Finnur Árnason, forstjóri Haga, sker í áramótagrein í Viðskiptablaðinu upp herör gegn búvörusamningi sem er í smíðum. Forstjóranum blöskrar ef hann kosti 18 milljarða króna á ári sem jafngildi 180 milljörðum á 10 árum. „Samn­ing­ur til tíu ára þýðir skatt­lagn­ingu í tíu ár,“ segir forstjórinn og rekur ekki í fyrsta sinn horn í síðu íslenskra bænda. Málflutningur í þá veru á ávallt hljómgrunn hjá ýmsum og setti sterkan svip á röksemdir ESB-aðildarsinna á meðan þeim var flíkað.

Í rökræðum um ESB-aðildina voru rök aðildarsinna meðal annars þau að ganga yrði í ESB til að fella niður tolla. Í tíð Bjarna Benediktssonar sem efnahags- og fjármálaráðherra hefur réttmæti þessara fullyrðinga verið afmáð. Tollar og vörugjöld lækka en Íslendingar eru blessunarlega utan ESB. Áróðurinn gegn bændum magnaðist á tíma hinna misheppunuðu ESB-aðildarviðræðna og það er hluti af ESB-blekkingariðjunni hér á landi að láta eins og verslun með landbúnaðarvörur sé frjáls og án ríkisíhlutunar í ESB, því fer víðsfjarri. Sérhver þjóð vill standa vörð um eigið fæðuöryggi.

Sama dag og grein Haga-forstjórans birtist í Viðskiptablaðinu birti Morgunblaðið frétt sem var reist á forystugrein í nýjasta hefti Tíundar, fréttablaðs ríkisskattstjóra. Þar segja Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri og Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri meðal annars:

„Starfshópur á vegum ríkisskattstjóra hefur á undanförnum misserum kannað mögulegt umfang undanskota frá sköttum hérlendis. Niðurstaðan er um margt athyglisverð, en þar ber hæst að rösklega 80 milljarða vanti upp á þær skatttekjur sem umsvif í þjóðfélaginu gefa vísbendingar um að ættu að vera. Þetta hefur verið kallað skattagapið og eru það þeir skattar og þau gjöld sem ekki skila sér til þjóðarbúsins. Það myndi breyta miklu fyrir samfélagið í heild ef unnt væri að draga úr undanskotum til framtíðar.“

Hér er um 80 milljarða árið 2015 að ræða. Talan tekur mið af umsvifum í þjóðfélaginu og hækkar þegar þau aukast eins og nú er. Hún verður örugglega hærri en 800 milljarðar á 10 árum. Spyrja má hvers vegna umhyggja forstjóra Haga fyrir hag skattgreiðenda beinist ekki að hagsmununum sem hér um ræðir. Það er í raun nærtækara og arðbærara fyrir þjóðarbúið en að vega að bændum og landbúnaði.

01. 01. 16 - Nýársdagur - 1.1.2016 13:50

 

Ég óska lesendum síðu minnar gleðilegs árs og farsældar með þökk fyrir samfylgdina á liðnum árum.

Ólafur Ragnar Grímsson lýsti yfir í nýársávarpi sínu að hann yrði ekki í kjöri sem forseti í lok júní á þessu ári og lýkur embættisferli hans sem forseta því 1. ágúst 2016. Hann ætlar þó ekki að setjast í helgan stein heldur vill hann frelsi til að vinna að málum sem hann telur öllu mannkyni til framdráttar.

Þegar Vigdís Finnbogadóttir lét af embætti forseta 66 ára að aldri árið 1996 var henni skapað starfsumhverfi af opinberri hálfu sem gerði henni kleift að sinna áhugamálum sínum. Árangur þess starfs hennar sést meðal annars í því að í háskólahverfinu á Melunum rís nú bygging yfir starfsemi stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur sem einkum er helguð virðingunni fyrir tungumálum.

Málefnaleg rök Ólafs Ragnars fyrir að draga sig í hlé voru skírskotun til þess sem hann sagði þegar hann ákvað að bjóða sig fram í fimmta sinn árið 2012. Hann sagði:

„Átökum við Evrópuríki í hinu svonefnda Icesave máli lauk með fullnaðarsigri Íslendinga, bæði í krafti þjóðaratkvæðagreiðslna og úrskurðar EFTA dómstóls.

Umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, áformin um grundvallarbreytingar á fullveldi Íslands, hafa verið lögð til hliðar og allir flokkar á Alþingi heita því nú að aldrei verði aftur lagt í slíka vegferð nema þjóðin heimili það fyrst í sérstakri atkvæðagreiðslu.

Uppgjör vegna hinna föllnu banka og afnám hafta í viðskiptum við önnur lönd eru senn í höfn; breið samstaða bæði innan þings og utan um lokaáfanga á þeirri braut.

Deilurnar um uppstokkun á stjórnskipun landsins hafa vikið fyrir sátt um að velja heldur einstaka þætti sem njóta myndu víðtæks stuðnings; setja í forgang ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðareign á auðlindum.“

Allt er þetta rétt og afskipti Ólafs Ragnars af þessum málum hafa haft mikið gildi um farsæla niðurstöðu. Það ber að meta og þakka. Á hinn bóginn hefur hann beitt forsetavaldi á þann veg að jafnvægi innan stjórnskipunarinnar hefur raskast og verður ekki úr því bætt nema með nýju og skýrara ákvæði í stað 26. gr, stjórnarskrárinnar. Um þetta fjallaði ég í pistli hér á síðunni í gær.