Miðvikudagur 20. 01. 16
Í kvöld verður Magnea Marínósdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur gestur minn á ÍNN. Hún starfar nú í Austur-Jerúsalem að málefnum kvenna. Eru viðhorf hennar fróðleg á líðandi stundu þegar rætt er straum flóttamanna til Evrópu of afstöðu karlmanna sem birtist meðal annars í fréttum af uppnámi og kynferðislegri áreitni víða um álfuna.
Látinn er í Osló, 79 ára að aldri, Lars Roar Langslet, menningarfrömuður, rithöfundur og menningarmálaráðherra Noregs um miðjan níunda áratuginn. Okkur Lars Roar var vel til vina frá því að við kynntumst fyrst sumarið 1970 þegar kom hingað til lands en upphaflegur tilgangur ferðar hans var að hitta föður minn. Hann kom hingað hins vegar eftir brunann á Þingvöllum 10. júlí 1970 og hitti því aðra menn.
Eins og sjá má með því að slá nafni Lars Roars í leitarvélina hér á síðunni hafa leiðir okkar oftar en einu sinni legið saman undanfarin 45 ár bæði hér og erlendis.
Tilviljanir hafa stundum ráðið eins og því að hann sat kvöldverð okkar Rutar í Háuhlíð 14 í apríl 1995 þegar boðað var til þingflokksfundar sjálfstæðismanna að kvöldi laugardags 23. apríl. Ég varð frá að hverfa og kom heim aftur tilnefndur sem menntamálaráðherra án þess að vita fyrirfram að það stæði fyrir dyrum.
Í norskum fjölmiðlum er farið lofsamlegum ummælum um Lars Roar og framlag hans til norsks menningarlífs. Þegar hann var menningarmálaráðherra beitti hann sér fyrir afnámi einokunar norska ríkisins á útvarpsrekstri. Hann hefur ritað bækur um sagnfræðilegt efni og norska konunga.
Torbjørn Røe Isaksen, þekkingarmálaráðherra Noregs, segir í minningarorðum í Aftenposten: „Ingen har vært viktigere for norsk konservatisme de siste 60 år enn Lars Roar Langslet.“ Ákveðin gildi og hugsjónir hafi sett svip sinn á hann og allt hans starf allt frá því að hann var ungur þar til hann sofnaði svefninum langa heima hjá sér mánudaginn 18. janúar. Hann hafi einnig verið mikill trúmaður og ekki sé unnt að skilja konservatisma hans án hins trúarlega þáttar.
Blessuð sé minning Lars Roars Langslets.