Dagbók: desember 2006
Sunnudagur, 31. 12. 06.
Ríkisráðið kom saman til fundar á Bessastöðum klukkan 10.30.
Þakka liðið ár. Gleðilegt ár!
Laugardagur, 30. 12. 06.
Dótturdóttir okkar, sem fæddist 7. september sl. í London var skírð Rut hér hjá okkur í dag að viðstöddu fjölmenni. Séra Jón Dalbú Hróbjartsson skírði og Hörður Áskelsson lék á píanó.
Á mbl.is les ég:
„Í nótt var skotið á fjölskyldubifreið lögreglumanns á Blönduósi. Enginn var í bílnum er skotið reið af. Lögreglan telur víst að um kúlnagöt sé að ræða. Kúlan fór inn um hliðarrúðuna bílstjóramegin og út um hliðarrúðuna farþegamegin en kúlan hefur ekki fundist og engin vitni heyrðu skothvell í nótt.“
Þegar þetta er skrifað hefur ekk náðst í þann, sem vann þetta illvirki. Ómennskan lætur víða að sér kveða og ekki er unnt að afsaka hana sífellt með því, að opinbert eftirlit eða aðhald skorti. Illivirki eru á ábyrgð þeirra, sem vinna þau. Illvirkin eiga rætur í hugarfylgsnum þeirra en ekki í skorti á opinberu eftirliti. Oft virkar það eins og ódýr aflausn, þegar fjölmiðlar beina spjótum að opinberum aðilum, ef eitthvað fer úrskeiðis, í stað þess að höfða til ábyrgðar þess, sem er hinn raunverulegi skaðvaldur. Í skjóli þessa ganga menn á lagið og láta eins og þeir geti einfaldlega farið sínu fram og farið á svig við lög og reglur, af því að enginn opinber aðili er sífellt að horfa yfir öxlina á þeim.
Í 3. hefti 2006 Lögreglumannsins tímarits Landssambands lögreglumanna ritaði ég grein, þar sem ég ræði meðal annars um nauðsyn þess að auka öryggi lögreglumanna.
Saddam Hussein einræðisherra í Írak var hengdur í nótt, eftir að hafa verið dæmdur til dauða bæði af undirrétti og áfrýjunarrétti. Samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu er dauðarefsing óheimil og ber Íslandi og öðrum aðildarríkjum sáttmálans að virða það ákvæði. Saddam hefði því aldrei hlotið þessi málagjöld í Evrópu - í Írak eins og mörgum öðrum löndum er unnt að refsa mönnum með aftöku.
Föstudagur, 29. 12. 06.
Í dag ritaði ég undir reglugerðir um flutning verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í Reykjavík til sýslumanna utan borgarmarkanna.
Þessi flutningur hefur verið lengi á döfinni og tengist ákvörðunum um nýskipan lögreglumála. Verður gaman að sjá hvernig til tekst.
Þá var í dag birt fréttatilkynning í dag um, að ég hefði skipað Ingimund Einarsson héraðsdómara í Reykjavík frá 1. janúar og Ásdísi Ármannsdóttur sýslumann í Siglufirði frá 1. febrúar 2007.
Á sama tíma og Evrópusambandssinnar á Íslandi telja bjargir sínar byggjast á því að tala um evruna eins og töfralausn fyrir okkur Íslendinga birtist niðurstaða skoðanakönnunar í Frakklandi, sem sýnir, að meirihluti Frakka telur, að skiptin yfir í evru fyrir fimm árum hafi verið slæm fyrir sig. Frakkar telja, að evran hafi spillt fyrir hagvexti og leitt til verðhækkanna - en 94% eru sannfærðir um, að evran hafi ýtt undir verðbólgu.
Sérstök könnun Eurobarometer á afstöðu til evrunnar sýnir, að evran nýtur nú minnsta stuðnings síðan hún kom til sögunnar. 2002 voru 59% íbúa evrusvæðisins þeirrar skoðunar, að evran mundi almennt verða landi þeirra til hagsbóta, nú er rétt innan við helmingur sömu skoðunar. Evrulöndin eru nú 12 hið 13. Slóvenía bætist í hópinn 1. janúar 2007.
Enn urðu sviptingar í fjölmiðlaheiminum í dag og Páll Vilhjálmsson lýsir þeim á þennan veg á vefsíðu sinni: „Það er heldur ekki aðalmarkmið Jóns Ásgeirs að fjölmiðlareksturinn skili hagnaði. Tilgangurinn er að hafa áhrif á umræðuna og sérstaklega að gæta hagsmuna Jóns Ásgeirs og Baugs í sakamálum sem nú eru til meðferðar í réttarkerfinu. Fjölmiðlar Baugs fylgja þeirri línu að gera sem mest úr misfellum í málatilbúnaði ákæruvaldsins og á hinn bóginn að draga fjöður yfir sakargiftir á hendur Jóni Ásgeiri og félögum hans.“
Páll vekur einnig athygli á sérkennilegri hlið þessara sviptinga í þessari færslu.
Fimmtudagur, 28. 12. 06.
„Feðgarnir sme og Janus eiga 11% í útgáfufélagi DV, Hjálmur á 49% og 365 40%. Tengslin við útgáfufélag Ísafoldar eru mikil og má segja að hafi einhvern tímann verið til Baugsmiðlar þá sé það nú þar sem Baugur í gegnum Hjálm er orðinn ráðandi eigandi í DV, Ísafold, Veggfóðri, Hér og nú og Bístró, auk þess að eiga tæplega fjórðung í 365.“
Feitletrun er mín. Skyldi Pétur ekki átta sig á því, hve mikla reiði þetta orð kallar yfir þá, sem nota það? Reiði þeirra, sem eiga Baug. Ástæðu reiðinnar hef ég aldrei skilið. Hvers vegna þykja það skammir að kenna einhvern við eiganda sinn?
Miðvikudagur, 27. 12. 06.
Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er tekið undir með þeim, sem eru andvígir því, að spilakassastofa undir handarjaðri happdrættis Háskóla Íslands fái samastað í Mjóddinni, en borgarráð hefur einróma samþykkt áskorun um, að fallið verði frá þeirri ráðagerð. Borgaryfirvöld geta ráðið úrslitum í slíkum málum með skipulagsákvörðunum og er þess að vænta, að farið verði að áskorun þeirra.
Afstaða Morgunblaðsins til fjáröflunar af þessu tagi er næsta grunnhyggin, þegar litið er til umræðna um stöðu happdrætta, spilakassa og fjárhættuspils í Evrópu og Norður-Ameríku.
Í Bandaríkjunum hafa sum ríkisþing samþykkt, að ekki megi nota kort til greiðslu í netspilamennsku, þegar henni er haldið úti af fyrirtækjum utan Bandaríkjanna.
Fyrir EFTA-dómstólnum og dómstóli Evrópusambandsins eru nú mál, sem miða að því að brjóta á bak aftur vald stjórnvalda einstakra Evrópulanda, þjóðþinga og ríkisstjórna, til að ákveða skipan þessara mála innan landamæra sinna. Spilafyrirtæki í einkaeign telja það brot á reglunum um fjórfrelsið, að þau hafi ekki óheft leyfi til að reka starfsemi sína, hvar sem þeim hentar. Þau vilja ekki frekar en Morgunblaðið að háskóli, Rauði krossinn, SÁÁ, íþróttahreyfingin, öryrkjabandalög eða ungmennafélög sitji að tekjum af spilastarfsemi. Fyrirtækin vilja ná þessu í eigin vasa.
Ef ekki er vilji til að heimila þjóðþingum að ráðstafa tekjum af spilamennsku til sérgreindra verkefna, heldur eigi að láta alþjóðlegum spilafyrirtækjum það alfarið eftir að hagnast á þessum markaði, er augljóst að hækka verður skatta til að bæta þjóðþrifafyrirtækjunum tekjutapið.
Eitt er að andmæla staðarvali fyrir spilastofur, annað að vilja spilastarfsemi í þágu góðra málefna feiga. Summa lastanna í spilamennskunni er konstant eins og á svo mörgum sviðum.
Þriðjudagur, 26. 12. 06.
Breytingar í fjölmiðlun eru víðar til umræðu en hér á landi. Í Berlingske Tidende birtist í dag viðtal við Lisbeth Knudsen, sem fyrir nokkru var látin hætta sem fréttastjóri hjá danska útvarpinu. Hún veltir þar fyrir sér framtíð blaðamennsku og segir meðal annars:
„Når vi er kommet os over benovelsen over, at vi kan få nyheder alle vegne og blive opkoblet hele tiden, så tror jeg, at vi som forbrugere begynder at efterspørge en anden form for kvalitet. Måske noget af det, som nicheaviserne kan i dag, eller en helt ny form for journalistik. Det kan være i retning af skarpere holdninger, dybere research og perspektivering, eller det kan være medborgerjournalistik - lokal-lokal journalistik - hvor borgerne selv bidrager med nyheder, osv.
Jeg tror, vi kommer til at efterspørge en hel masse ting, som markedet ikke laver i dag, hvor alle laver det samme og samler sig inde på midten,« siger Lisbeth Knudsen og tilføjer, at tiden måske også er løbet fra den megen fokusering på bestemte målgrupper.“
Það er umhugsunarvert, hve margir íslenskir blaðamenn og starfsmenn ljósvakamiðla halda úti vefsíðum til að viðra skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Þeir fá greinilega ekki samskiptaþörf sinni svalað til fulls í daglegum störfum sínum. Á hinn bóginn sýnist mér bloggið undir hatti mbl.is geta þróast á þann veg, sem Lisbeth Knudsen kallar „lokal-lokal journalistik“, þar sem borgararnir sjálfir miðla fréttum, þótt bloggið sé oft sco persómubundið, að það teljist ekki sérstaklega fréttnæmt, sem þar birtist, heldur svali forvitni um hag náungans. Spurning er, hvenær andinn í blogginu nær inn á síður móðurskipsins, Morgunblaðsins.
Stækkun Viðskiptablaðsins er til marks um viðleitni til að veita sérgreindum hópi viðskiptavina aukna þjónustu - hópi, sem ætti eðli málsins samkvæmt að vera kröfuharður um ágæti frétta.
Íslensk blaðamennska er enn dálítið gamaldags og í föstum skorðum auk þess sem íslenskir álitsgjafar og fjölmiðlamenn eru eins og starfsbræður þeirra víða um lönd ákaflega hörundsárir og taka gagnrýni á störf sín almennt illa - slík afstaða leiðir ekki til framfara. Menn í varnarstöðu eru sjaldan til þess fallnir að skapa eitthvað nýtt.
Sunnudagur, 24. 12. 06.
Gleðileg jól!
Laugardagur, 23. 12. 06.
Veðrið var betra í dag en vænta mátti af spám - raunar hafði ég ekki reiknað með að geta gert mikið utan húss fyrir hádegi vegna óveðurs, en strax klukkan 08.00 var ágætt veður, þegar ég skrapp í sund og síðan var ekki undan neinu að kvarta við annir dagsins utan húss og innan.
Svo virðist sem það komi öllum í opna skjöldu (nema sérfræðingi Danske bank), að alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor´s (S&P) hafi lækkað lánshæfismat Íslands. Hjá Danske bank hafa menn lengi verið þeirrar skoðunar, að allt myndi fara hér til fjandans í efnahagsstjórninni og þar er farið lofsyrði um hverja vísbendingu um réttmæti þeirrar hrakspár.
Efnahagsþróun ræðst ekki síður af sálarástandi en hagfræðilegum kröftum og takist að fóðra þá skoðun, að ekki sé unnt að treysta á efnahagslega velgengni Íslendinga eða hún standi á veikum grunni, leiðir það eitt til ófarnaðar. Afstaða til íslensks efnahagslífs ræðst auðvitað af þekkingu á því - ef allir, sem best þekkja til mála hér, eru þeirrar skoðunar, að niðurstaða S&P komi á óvart, kunna hinir fávísu að spyrja: Byggist niðurstaða S&P á sömu þekkingu og reynslu þeirra, sem eru undrandi?
Að útgjöld ríkisins aukist við afgreiðslu alþingis á fjárlagafrumvarpi er ekkert einsdæmi og gerist, hvort sem kosningar eru á næsta leiti eða ekki. Hafi sérfræðingur S&P hrokkið við vegna þessa, ber það ekki vott um djúpstæða þekkingu.
Kannski hefur hugtakið „kosningafjárlög“ ruglað einhvern í ríminu, en stjórnarandstaða notaði það talsvert í umræðum á alþingi. Hitt kann einnig að vera, að sérfræðingur S&P telji hugsanlegt, að stjórnarandstaðan nái sér á strik á kosningaári og komi að því eftir kosningar að móta efnahagsstefnuna - þess vegna sé talin ástæða til að bæta hag lánveitenda með ákvörðunum, sem leiði til verri lánskjara fyrir Íslendinga.
Föstudagur, 22. 12. 06.
Síðdegis fór ég í björgunarmiðstöðina við Skógarhlíð og hitti Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar, og þakkaði hið mikla og góða starf, sem björgunarsveitir félagsins hafa unnið, en óvenjulega annasamt hefur verið hjá þeim víða um land undanfarna óveðursdaga og enn er spáð ofsaveðri að morgni Þorláksmessu. Í skrifstofum félagsins í Skógarhlíð var fjöldi manns að störfum. Er ómetanlegt fyrir þjóðina að eiga þennan fjölmenna hóp sjálfboðaliða að, þegar hætta er á ferðum.
Mér þótti skrýtið, að hvorki hljóðvarp né sjónvarp ríkisins sendi menn á vettvang, þegar við Árni M. Mathiesen rituðum undir smíðasamninginn um nýtt varðskip sl. miðvikudag, en í ár er 31 ár liðið síðan varðskip var síðast smíðað fyrir okkur Íslendinga, svo að ekki er unnt að skýra fjarveruna með því, að atburðir sem þessir séu alltaf í fréttum. Hitt er víst, að þessar fréttastofur eru áhugasamari um afskipti stjórnvalda af málefnum gæslunnar, þegar talið er, að eitthvað megi betur fara.
Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins var rætt við Árna Pál Árnason um niðurstöðu ríkissaksóknara vegna ummæla Árna Páls um að sími hans hefði verið hleraður, þegar hann var starfsmaður utanríkisráðuneytisins. Árni Páll vakti máls á þessu, þegar hann var að hefja prófkjörsbaráttu sína innan Samfylkingarinnar í suðvestur kjördæmi. Hann sagði í fréttunum, að hann hefði aldrei vænst neins af rannsókn ríkissaksóknara - þetta væri „pólitískt mál“ en ekki sakamál. Það þyrfti að fjalla um þetta á pólitískum vettvangi til að gefa mönnum upp sakir og létta af þeim trúnaði. Árni Páll er sem sagt sama sinnis og Jón Baldvin Hannibalsson, að starfsmenn síma og lögreglu hafi brotið lög og þori ekki að kannast við það af ótta við refsingu. Þetta eru dæmalausar ásakanir og enn furðulegri en áður, eftir að niðurstaða ríkissaksóknara hefur verið kynnt.
Páll Vilhjálmsson ræðir um þetta á vefsíðu sinni og bendir á pólitískan vinkil á málinu að því er varðar framgöngu Jóns Baldvins. Pólitíski vinkillinn að því er varðar Árna Pál felst að sjálfsögðu í því, að hann kaus frekar að veifa röngu tré en öngu til að draga að sér athygli í prófkjörinu. Þess vegna er þetta „pólitískt mál“ frá sjónarhóli Árna Páls, þótt hann kjósi í sömu andrá að saka símamenn og lögreglumenn um að hafa brotið lög og þora ekki að kannast við það af ótta við refsingu. Árni Páll hefur ekki mikla sæmd af þessum málflutningi.
Ég bendi einnig á það sem þessir bloggarar segja: Ómar R. Valdimarsson, Ingvi Hrafn Jónsson og Guðmundur Magnússon.
Fimmtudagur, 21. 12. 06.
Bogi Nilsson ríkissaksóknari sendi í dag frá sér tilkynningu um, að rannsókn vegna ásakana Jóns Baldvins Hannibalssonar og Árna Páls Árnasonar um að símar þeirra hefðu verið hleraðir væri lokið. Ríkissaksóknari telur, að fyrirliggjandi rannsóknargögn gefi ekki tilefni til þess að rannsókn á málinu verði haldið áfram. Með öðrum orðum, að ekkert hafi komið fram, sem styður fullyrðingar þeirra Jóns Baldvins og Árna Páls.
Í Kastljósi í kvöld var rætt í síma við Jón Baldvin, en hann var í Riga. Svo virtist sem hann teldi rannsóknina á vegum ríkissaksóknara engu skipta en hann sagðist þó vera „yfirvegaður“, sem gladdi áhorfendur. Undir lok máls síns lét hann að því liggja, að símamenn og lögreglumenn segðu ekki sannleikann, af því að þeir hefðu stundað lögbrot í störfum sínum við hleranir. Sambærilegar ásakanir í garð þessara opinberu starfsmanna hafa ratað inn í yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Að Jón Baldvin skuli halda þeim áfram, eftir að niðurstaða ríkissaksóknara hefur verið birt, sýnir mikla forherðingu. Í umræðum um hleranamálin hefur hvergi komið nein haldföst vísbending um, að símar kunni að hafa verið hleraðir án heimildar dómara. Umræðurnar hafa hins vegar leitt í ljós, að Jón Baldvin Hannibalsson beindi því sem utanríkisráðherra til starfsmanns utanríkisráðuneytisins, að hann kannaði STASI skjöl og þar með sérstaklega hvort Svavar Gestsson meðráðherra hans kæmi þar við sögu. Hvaða heimild hafði Jón Baldvin til slíkra fyrirmæla?
Síðdegis fór ég um borð í danska gæsluskipið Triton í Reykjavíkurhöfn hitti Ulf Berthelsen skipherra og Lasse Reimann, sendiherra Dana á Íslandi. Með mér voru Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Björn Brekkan Björnsson þyrluflugmaður og Auðunn F. Kristinsson yfirstýrimaður en þeir voru í þyrlunni, sem bjargaði dönsku sjóliðunum sjö og seig Auðunn niður til þeirra. Ég vottaði skipherranum og áhöfn hans samúð og síðan ræddum við aðstæður á slysstað og björgunarafrek landhelgisgæslumanna í um það bil klukkustund.
Klukkan 17.15 kom fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík saman í Valhöll og samþykkti einum rómi og umræðulaust framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum - ég er í öðru sæti í Reykjavík suður á eftir Geir H. Haarde.
Miðvikudagur, 20. 12. 06.
Sögulegur atburður var í Þjóðmenningarhúsinu í dag kl. 14.00, þegar ritað var undir smíðasamning um nýtt varðskip við ASMAR skipasmíðastöðina í Chile. Varðskip var síðast smíðað fyrir Íslendinga árið 1975, og var það Týr. Nýja skipið verður mun stærra en Ægir og Týr, ef allt gengur samkvæmt umsaminni áætlun á það verða tilbúið um mitt ár 2009. Ég flutti ávarp við athöfnina.
Í Morgunblaðinu í dag er birt viðtal við Ulf Berthelsen, skipherra á danska gæsluskipinu Triton, vegna atburðanna í gær, þegar skipverji hans fórst við björgunarstörf. Í viðtalinu segir meðal annars:
„Mér þætti ákaflega vænt um að fá að koma hér á framfæri djúpu þakklæti mínu til bæði Gæslunnar og ekki síður sjúkrahússins í Keflavík. Allir sjömenningarnir eru nú komnir aftur um borð og hafa það gott. Mér fannst frábært hvað þeir fengu góða meðhöndlun á sjúkrahúsinu, menninrnir eiga varla orð yfir þær einstöku móttökur,“ sagði Berthelsen.
Hann var spurður hver ástæðan gæti verið fyrir því að báðir mótorar gúmbátsins brugðust. „Ég er búinn að tala við áhöfnina á bátnum. Það sem gerðist var að heljarmikill brotsjór lyfti bátnum upp. Gúmbáturinn stóð alveg lóðréttur. Þetta hafa mótorarnir einfaldlega ekki þolað. Við vitum samt ekki nákvæmlega hvað gerðist en bátnum hvolfdi rétt á eftir og öllum mönnunum skolaði fyrir borð. Þeir stóðu smástund í sjó upp að hnjám á skeri í brimgarðinum en þá kom feiknamikil alda og fleygði þeim aftur í hafið.
Mér finnst þeir hafa staðið sig afburðavel við þessar hræðilegu aðstæður. Þeir sýndu fagmannleg vinnubrögð, héldu hópinn eftir mætti og hjálpuðu hver öðrum. Þeir ákváðu fyrirfram að sá sem var orðinn allt of kaldur skyldi verða hífður fyrst upp í þyrluna. Þeir héldu alltaf ró sinni.
Að auki var björgunin frábært dæmi um góða samvinnu okkar við Landhelgisgæsluna íslensku. Fyrst vorum við beðnir um hjálp, síðan kom í ljós að við gátum ekkert gert og þetta endaði með því að þeir björguðu okkur. Þetta samstarf er alltaf einstaklega gott og ég held að báðir aðilar telji það mjög mikilvægt,“ sagði Ulf Berthelsen, skipherra á Triton. “
Þegar rætt er um samstarf Íslendinga og Dana eða Íslendinga og Norðmanna um öryggismál er þetta kjarni málsins, að menn geti unnið saman, þegar mest á reynir og brugðist við aðstæðum á þann veg, að veita hver öðrum gagnkvæmt öryggi. Ég tel, að í Morgunblaðinu hafi undanfarið verið lögð alltof mikil áhersla á hernaðarlega þáttinn í samstarfi okkar við Dani og Norðmenn - hann getur verið mikilvægur, ef á hann reynir, en aðrir þættir samstarfsins eru mikilvægari um þessar mundir og þeir snerta samstarf á sviði lögreglu og landhelgisgæslu. Ég átta mig ekki alveg á því, hvers vegna Morgunblaðið valdi þá leið að leggja höfuðáherslu á hernaðarþáttinn í öryggissamstarfi við Dani og Norðmenn.
Þriðjudagur 19. 12. 06.
Eftir að ég var kominn heim úr sundi rúmlega 07.00 í morgun hringdi Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, í mig vegna þess að skip hefði strandað sunnan við Sandgerði og óttast væri um 7 til 8 skipverja af danska gæsluskipinu Triton, sem hefðu farið á gúmmíbát til að veita aðstoð. Þyrlusveit landheglisgæslunnar vann mikið afrek við bjögun mannanna. Í kvöldfréttum RÚV birtist þessi frétt:
„Allar aðgerðir á strandstað við Stafnesvita munu liggja niðri í nótt að því er fram kemur í fréttatilkynningu sem birtist á Lögregluvefnum í kvöld. Þar segir að ef aðstæður haldist óbreyttar í nótt og skipið verði kyrrt á sama stað í fyrramálið verði undirbúnar aðgerðir til að dæla olíunni úr skipinu í land.
Flutningaskipið Wilzon Muuga strandaði við Stafnesvita í nótt. Öllum skipverjum var bjargað í land um hádegið með þyrlu og er skipið nú mannlaust. Unnið er að lagningu vegar niður í fjöru við strandstaðinn, svo koma megi að tækjum til að ná olíu úr skipinu.
Björgunarmenn óttast að skipið brotni í briminu í nótt, eða næstu daga og olía leki úr því. Vonskuveður hefur verið á strandstað í kvöld. Skipið er flatbotna og er botn þess illa farinn og gat komið á að minnsta kosti þrjá botntanka.
Í skipinu munu vera allt að 120 tonn af þunnri svartolíu og um 14 tonn af gasolíu. Hollustuvernd ríkisins mun stýra mengunarvarnaraðgerðum í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands, Siglingastofnun Íslands og Almannavarnardeild ríkislögreglustjórans.
Fulltrúar Umhverfisstofnunar og Olíudreifingar sitja nú á fundi og fara yfir stöðuna á strandstað. Davíð Egilsson forstjóri Umhverfistofnunar sagði í samtali við fréttastofu rétt fyrir fréttir að reynt yrði að koma slöngu í skipið og morgun og þess freistað að ná olíunni úr skipinu. Slæmt veður og lítil dagsbirta geri starfinu þó mjög erfitt fyrir. Allt nema að hætta mannslífum verður gert til að ná olíunni úr skipinu. Davíð segir suma olíutanka aðgengilega, en erfitt verði að komast í aðra.
Skipið snerist um 10 til 15 gráður á flóðinu í kvöld. Magnús Daðason lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli sem vaktar skipið, ásamt björgunarsveitarmönnum frá Landsbjörgu, sagði í samtali við fréttastofu Sjónvarps skömmu fyrir fréttir að flætt hafi undan skipinu og það sitji nú nokkuð stöðugt. Skipið verður vaktað í alla nótt.
Menn á jarðýtum og gröfum vinna fram eftir nóttu að vegagerð á staðnum svo hægt sé að koma dælum og tækjabúnaði að skipinu á morgun. Það spáir svipuðu veðri og nú næstu daga, sem kann að torvelda aðgerðir.“
Mánudagur, 18. 12. 06.
Þegar rætt er um persónuvernd er ekki síst átt við, að ekki sé safnað á einn stað svo miklu magni af upplýsingum um einstakling, að hann sé eins og berskjaldaður og sviptur rétti sínum til einkalífs. Settar hafa verið flóknar reglur um þessi mál, sem opinberum aðilum ber að hlíta og sjá til þess, að virtar séu.
Nú er hins vegar svo komið með aðgangi að upplýsingum á netinu í gegnum leitarvélar eins og Google eða Blingo Search, að unnt er að kalla fram á hvaða nettengda tölvu sem er ótrúlegt magn upplýsinga um menn og málefni, sem gerir einstaklega auðvelt að draga upp nokkuð glögga mynd af fólki, sem er í sviðsljósinu eða skráð af einhverju tilefni inn á veraldarvefinn. Persónuverndarsjónarmið víkja í raun fyrir mætti þessara ölfugu leitarvéla, sem talið er sjálfsagt að skrái allt, sem þær geta og miðli áfram til annarra. Að vísu tókst kínverskum stjórnvöldum að knýja Google til að laga sig að sínum óskum í von um, að þau gætu á þann veg haft stjórn á upplýsingaöflun þegna sinna. Í Kína óttast stjórnvöld fátt meira en frjálst streymi upplýsinga.
Þegar rætt er um breytingar á blaðamennsku nú á tímum, er ekki síst vísað til þess, að blaðamenn hafi hæfileika til að lesa úr öllum þeim upplýsingum, sem eru við fingurgómana, og matreiða þær á þann veg, að lesandinn fái nýja sýn á stefnu eða strauma. Tölur um samdrátt í eintakafjölda blaða sýna, að þeim tekst ekki að miðla efni á þann veg, að þau haldi í lesendur sína hvað þá heldur fjölgi þeim. The Wall Street Journal hefur boðað nýja stefnu við framsetningu efnis til að koma til móts við nýja tíma, en blaðið hefur mesta útbreiðslu meðal þeirra dagblaða í Bandaríkjunum, sem njóta mestrar virðingar. The New York Times hefur tekið upp nýtt forrit við framsetningu á efni sínu á netinu, en vefsíða þess er mest heimsótta vefsíða dagblaðs í Bandaríkjunum og kannski heiminum öllum.
Sunnudagur 17. 12. 06.
Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur nýlega sent frá sér dómareifanir mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg fyrir janúar til júní árið 2006. Í heftinu eru 34 dómar reifaðir og er fróðlegt að lesa þessar reifanir með það í huga, að mannréttindasáttmálinn hefur verið lögfestur hér og talið er að niðurstöður dómaranna í Strassborg hafi mótandi áhrif á viðhorf dómara í aðildarlöndunum og túlkun þeirra á ákvæðum sáttmálans.
Ég hef vakið máls á því oftar en einu snni, að gjalda beri varhug við þeirri þróun í Strassborg og hjá öðrum alþjóðadómstólum, að með framsækinni lagatúlkun seilist dómarar inn á verksvið löggjafans. Hér á landi hafa margir lögfróðir menn gert lítið úr þeim varnaðarorðum og krafist meiri hollustu við dómarana í Strassborg.
Björg Thorarensen prófessor vekur máls á því í formála þessa heftis dómareifananna, að hinn 11. janúar 2006 hafi fallið athyglisverður dómur um félagafrelsi í Strassborg. Í formála Bjargar segir:
„Er ekki útséð hvort dómurinn kunni að hafa áhrif á íslenskan vinnumarkað. Hér á landi eru til staðar forgangsréttarákvæði í flestum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem fela í sér að félagsmenn viðkomandi stéttarfélags hafi forgang til vinnu á félagssvæði þess, þótt stéttarfélagsaðild sé ekki forsenda ráðningar. Athyglisvert er að í dóminum er vísað til breyttra viðhorfa Evrópuríkja sem hafa horfið frá slíkri skipan á vinnumarkaði og jafnframt að eingöngu á Íslandi, auk Danmerkur, sé að finna ákvæði af þessum toga í kjarasamningum. Ekki er þó fyllilega ljóst af dóminum hvort forgangsréttarákvæði í kjarasamningum á borð við þau sem hér tíðkast séu í andstöðu við 11. gr. (mannréttinda)sáttmálans.“
Björg fer varlega í túlkun sinni á áhrifum þessa dóms hér á landi. Hitt er líklegt, að yrði látið reyna á íslenska skylduaðild að verkalýðsfélögum í Strassborg, leiddi niðurstaða dómaranna til nokkurs uppnáms. Hitt er svo undarlegt, að ekki hafi orðið neinar opinberar umræður hér í tilefni af dóminum frá 11. janúar.
Föstudagur, 15. 12. 06.
Egill Helgason segir á vefsíðu sinni:
„Sökum þess hvað ég horfi sjaldan á sjónvarp sá ég ekki einvígi Björns Inga og Dags B. í sjónvarpinu í gær. Hef eiginlega bara lýsingu Björns Bjarnasonar á því. Björn segir að Björn Ingi hafi ekki látið þá Dag og Helga Seljan "eiga neitt inni hjá sér".
Þetta er reyndar hugtak sem Björn notar oft - „að láta ekki eiga inni hjá sér". Hvers konar pólitík er það annars? Eitthvað sem mun duga landi og þjóð eða kannski bara gamaldags þvergirðingur? Yrði maður ekki ruglaður ef maður ætlaði að svara fullum hálsi öllum sem er uppsigað við mann?“
Þegar ég las þetta, velti ég því fyrir mér, hvort ég notaði þetta „hugtak“ oft. Ég er ekki viss. Gagnrýni Egils er hins vegar í ætt við þá skoðun hans, að ég megi ekki nota orðið „andstæðingur“, af því að einhverjir, sem ég vísa til með þessu orði, kunni að hafa ánægju af að sjá sömu kvikmynd og höfðar til mín. Mér sýnist, að Egill sé ekki eins hrifinn af nýju Bond-myndinni og ég. Má ég þá kalla Egil andstæðing?
Egill hefur atvinnu af því að etja mönnum saman í sjónvarpi og kynda undir orðaskipti þeirra. Gerir hann það í þágu lands og þjóðar? Er hann kannski bara að ýta undir þvergirðingshátt í gömlum stíl? Skýringin á því, að ég er hættur að horfa á Silfur Egils er líklega sú, að ég vil ekki verða ruglaður.
Það kemur mér ekki á óvart, að kvikmyndin The Departed (Hinir framliðnu) fái fimm tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna, þar á meðal fyrir besta handrit. Ég varð undrandi, þegar ég las gagnrýni í Morgunblaðinu um myndina fyrir skömmu og gagnrýnandinn kvartaði undan því, að handritið væri „gloppótt.“ Hvaða kvarði skyldi hafa verið notaður í því tilviki?
Fimmtudagur, 14. 12. 06.
Evrópunefnd hélt 37. fund sinn í dag og hitti fulltrúa hagsmunasamtsaka, áhugasmannasamtaka um Evrópumál og fræðimenn frá háskólum.
Ég varð undrandi, þegar ég las viðhorfsgrein Höllu Gunnarsdóttur í Morgunblaðinu í dag, þar sem hún ræðir um tímaritið Þjóðmál, en nýjasta hefti þess kom einmitt úr prentsmiðju í dag. Í greininni ræðir Halla um greinar í 3. hefti þessa árs, hún lýkur máli sínu á þennan veg:
„Fræði- og stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir skrifa í Þjóðmál með óbreyttu sniði.“
Halla er greinilega vinstrisinnaður feministi. Höllu er misboðið, af því að hún er ósammála höfundum í Þjóðmálum um fóstureyðingar og alþjóðavæðingu. Halla er einnig blaðamaður við Morgunblaðið. Hvað þætti henni um, ef andmælendur hennar blésu í lúðra og segðu fólki að skrifa ekki í Morgunblaðið, af því að þar starfaði vinstrisinnaður feministi?
Ég las þessa grein eftir Höllu, af því að minnst var á Þjóðmál í fyrirsögn. Annars hefði ég látið mér skrif hennar í léttu rúmi liggja. Ég segi ekki upp Morgunblaðinu vegna Höllu. Ég skrifa einnig í blaðið, þrátt fyrir Höllu. Líklega er ég umburðarlyndari en Halla og ekki haldinn sömu póltitísku rétthugsun. Af skrifum Höllu get ég aðeins dregið eina ályktun: Heimur versnandi fer!
Í nýjasta hefti Þjóðmála skrifa ég umsögn um bók Ásgeirs Péturssonar Haustliti en frá henni var einmitt sagt í Kastljósi í kvöld http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301675/4
Mér finnst fyndið, að þær Guðfinna Bjarnadóttir og Inga Dóra Sigfúsdóttir hjá Háskólanum í Reykjavík taki að sér að skjalda Dag B. Eggertsson vegna Kastljóss í gærkvöldi og ummæla Björns Inga Hrafnssonar. Spyrja má: Hefur Dagur B. ekki mátt til að verjast sjálfur?
Miðvikudagur, 13. 12. 06.
Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lét þá Helga Seljan, þáttarstjórnanda, eða Dag B. Eggertsson, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn, ekki eiga neitt inni hjá sér í Kastljósinu í kvöld, þegar gerð var hörð hríð að honum með ásökunum um, að framsóknarmenn hefðu hlotið verkefna-bitlinga hjá Reykjavíkurborg í skjóli Björns Inga.
Eftir að Björn Ingi vék að því við Helga, að hann hefði verið ráðinn til starfa í Kastljósinu án auglýsingar, svo að hann tæki dæmi af því, hvernig ráðið væri til starfa hjá opinberum aðilum, hvarf broddurinn úr spurningum Helga. Þegar Björn Ingi sagði eðlilegt, að menn huguðu að starfi Dags B. Eggertssonar í Háskólanum í Reykjavík, eftir að fyrir lægi, að hann hefði gefið háskólanum eina af dýrmætustu lóðum borgarinnar, átti Dagur varla meira erindi í þáttinn vegna hneykslunar.
Sú athugasemd Björns Inga var fyllilega réttmæt í þættinum, að ekki hafi verið einleikið, hve æðstu embættismenn Reykjavíkurborgar létu mikið að sér kveða í formannskjörinu í Samfylkingunni til stuðnings Ingibjörgu Sólrúnu gegn Össuri Skarphéðinssyni.
Umræðurnar voru óvenjulega líflegar og þróuðust á annan veg en Helgi Seljan vildi, vegna þess að Björn Ingi tók svo rösklegt frumkvæði í þættinum. Ekki var nóg með, að hann stjórnaði umræðunum og segðist eiga ríkan þátt í að stjórna borginni, heldur sagðist hann einnig hafa ráðið Árna Pál Árnason, sem nú er þingmannsefni Samfylkingarinnar, til að vera ritara nefndar forsætisráðherra um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hann liti ekki aðeins á flokksskírteini, þegar hann væri að velja fólk. Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra, þegar þetta gerðist.
Þriðjudagur, 12. 12. 06.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ræddu saman í Kastljósi í kvöld undir stjórn Sigmars Guðmundssonar. Tónninn, sem stjórnandinn gaf í þættinum, ekki í samræmi við tilefnið, þegar forystumenn stærstu stjórnmálaflokkanna hittast. Spurningarnar voru um of sniðnar að talnastagli í stað þess að líta á megnlínur í stjórnmálunum.
Geir vildi beina umræðunum að þessum stóru línum með því að benda á, hve mikið hefði áunnist við stjórn ríkisfjármála með greiðslu skulda og þar með auknu svigrúmi til að lækka skatta og til að nýta opinbera fjármuni í þágu borgaranna. Þessar stóru línur og hinn mikli árangur í atvinnu- og efnahagsmálum eru eitur í beinum Ingibjargar Sólrúnar og í hróplegri andstöðu við það, hvernig R-listinn, sem lengst laut hennar stjórn, skildi við Reykjavíkurborg - skulduga upp fyrir haus með kröfur um stórgreiðslur í vexti og afborgarinnar. Í því ljósi var furðulegt að heyra Ingibjörgu Sólrúnu tala í hneykslunartón um, að ríkisstjórnin leggði fram nýjar áætlanir á mörgum sviðum. Ríkisstjórnin hefur efni á að gera slíkar tillögur.
Í öðru orðinu býsnaðist Ingibjörg Sólrún yfir því, að umsvif ríkisins væru orðin alltof miki, í hinu kvartaði hún undan því, að við hefðum ekki mestu samneyslu af Norðurlandaþjóðunum með alls kyns millifærslum að tilhlutan ríkissjóðs.
Þegar horfið var frá umræðum um tölur og skatta, datt Sigmar niður á hvalamálið - hann minntist hvorki á varnarmál né Evrópusamstarfið.
Nokkrar umræður hafa verið um gildi fríblaða og áskriftarblaða og mismunandi efnistök þessara blaða, hlutverk og áhrifamátt. Sýnist sitt hverjum í því efni. Það er ekki síður ástæða að velta fyrir sér, hvaða aðferðum stjórnendur umræðuþátta í sjónvarpi beita til að leiða menn saman eða ólík sjónarmið. Einfaldasta aðferðin er að stofna til deilna um prósentutölur í einhverjum nýlegum skýrslum. Raunalegasta aðferðin er að stjórnandinn setji sig reiðistellingar í því skyni að stilla viðmælanda sínum upp við vegg. Ég mæli enn með Tim Russert í Meet the Press sem fyrirmynd fyrir stjórnendur umræðuþátta. Hann kallar á viðmælendur sína til að fá álit þeirra á skipulegan, hógværan og málefnalegan hátt.
Mánudagur 11. 12. 06.
Um þessar mundir er hagvöxtur mestur í Eistlandi af 25 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þeir, sem leita orsakanna, fyrir þessum mikla og öra vexti, staldra við upphafsárin, eftir að Eistlendingar komust undan áþján Sovétríkjanna og hagstjórn marxista. Mart Laar, ungur sagnfræðingur, varð forsætisráðherra snemma á tíunda áratugnum. Hann hafði lesið eina bók um efnahagsmál, það er bók Miltons Friedmans Free to Choose. Hann viðurkennir nú, að hann hafi ekki haft neitt vit á efnahagsmálum og þess vegna hafi hann einfaldlega talið, að í bók sinni væri Friedman að lýsa kenninngum, sem hefði verið hrundið í framkvæmd á Vesturlöndum, þess vegna hefði hann ákveðið að taka þær upp í Eistlandi. Fyrir bragðið hafa Eistlendingar búið við róttæka efnahagsstefnu, sem hefur komið þeim í fremstu röð.
Í Eistlandi eru áreiðanlega ekki allir á einu máli um ágæti þeirrar efnahagsstefnu, sem fylgt hefur verið, þótt hún hafi skilað þjóðinni svo hratt fram á veg. Rifjast þá upp, þegar dáðst var að glæsilegum árangri tékkneskra skólabarna í alþjóðlegri samanburðarkönnun á námsárangri, og síðan voru birt viðtöl við nemendurna, sem kvörtuðu sáran undan kennsluaðferðunum, sem beitt var til að þjálfa þau til þessa árangurs. Í öðrum löndum var hins vegar rætt um, hvernig ætti að ná sama árangri og Tékkar hefðu náð, það yrði að læra aðferðir þeirra til að beita þeim.
Allir alþjóðlegir mælikvarðar sýna, að hagstjórnaraðferðir undanfarinna ára hafa skilað okkur Íslendingum í fremstu röð meðal þjóða. Raunar hefur vöxturinn verið svo ör og mikill hér, að samanburður við aðrar þjóðir um hag okkar og úrræði til að bæta hann enn frekar hefur lítið gildi. Þegar breytingar verða jafnmiklar og örar og hér hefur verið, er óhjákvæmilegt að bil breikki milli þeirra, sem hraðast fara og hinna. Við þessar aðstæður á við hið fornkveðna að jafna upp á við en ekki taka mið af þjóðum, þar sem óttinn við breytingar heldur aftur af framförum.
Sunnudagur, 10. 12. 06.
Ein af forsíðufréttum Fréttablaðsins í dag er um samkomulag ríkis og kirkju um prestssetrin, sem ritað var undir 20. október. Þar er meðal annars leyst úr ágreiningi um Þingvelli. Fréttin birtist fyrst núna í Fréttablaðinu vegna þess að frumvarp í framhaldi af samkomulaginu hefur verið lagt fram á alþingi.
Bloggarar fjalla af miklum móð um breytingar á fjölmiðlamarkaðinum. Við þessar breytingar er mest spennandi að fylgjast með breytingum á Viðskiptablaðinu. Hvarvetna njóta blöð, sem tengja vandaðar viðskiptafréttir, stjórnmál og menningarmál velgengni - nægir að nefna Börsen í Danmörku, Financial Times í Bretlandi og Wall Street Journal í Bandaríkjunum. Velgengni blaðanna byggist ekki síst á því, að þau fjalla um mál líðandi stundar af raunsæi og leggja kapp á að miðla upplýsingum. Þessi viðleitni hefur einkennt blaðamennsku Viðskiptablaðsins. Fréttir berast nú af því, að öflugir fjárfestar standi að baki fjölgun útgáfudaga blaðsins.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir staðfestir á vefsíðu sinni, að hún og eiginmaður hennar Valdimar Birgisson, sem á sínum tíma stjórnaði auglýsingadeild 365, ætli að stofna vikublað og Arna Schram, þingfréttaritari Morgunblaðsins eigi að verða aðstoðarritstjóri. Skoðun blaðsins er ein, að verða á móti að sögn Sigríðar Daggar, sem verður sjálf ritstjóri. Lengi hefur verið rætt um, að konur hafi mátt sín lítils við stjórn íslenskra blaða - þarna verður greinilega breyting. Fréttablaðið og Morgunblaðið missa jafnframt máttarstólpa úr hópi blaðamanna sinna. Enn hefur ekki verið upplýst, hvaða fjárfestar munu standa á bakvið þetta blað.
Sigurjón M. Egilsson er að láta af ritstjórn Blaðsins og hverfur þaðan með hluta starfsfólksins til að stofna nýtt blað. Ritstjórar eru ekki þaulsætnir á Blaðinu og ekkert hefur verið sagt um, hver tekur við af Sigurjóni um áramótin. Honum líkar ekki að starfa á fríblaði. Enn er óljóst, hvaða fjárfestar standa að baki því blaði, sem Sigurjón ætlar að hleypa af stokkunum.
Hvað sem líður öllum nýjum blöðum, væri þakkarvert, að þau, sem gefin eru út, hvort heldur sem fríblöð eða í áskrift, bærust með sæmilegum skilum. Reynsla mín er sú, að sá þjónustuþáttur í blaðaútgáfunni hafi hríðversnað. Væri um annan varning að ræða, yrði litið á hann sem stórgallaðan, því að blöð án góðs dreifikerfis eru lítils virði.
Laugardagur, 09. 12. 06.
Héldum af stað frá Aþenu í morgun klukkan 09.00 að þarlendum tíma, 07.00 að íslenskum. Fórum í gegnum Amsterdam og höfðum rúma klukkustund á milli véla, en komum samt töskulaus heim með Icelandair. Virtust margir fleiri Amsterdam-farþegar í sömu sporum. Ég valdi frekar Schipol en Heathrow til að vera öruggur með töskuna - það er engu að treysta í þessu efni. Engin skýring var gefin á hvarfi eða seinkun farangursins.
Mér þótti forvitnilegt að lesa Lesbók Morgunblaðsins í vélinni á heimleið. Gísli Gunnarsson sagnfræðingur talar um komu grískra mótmælenda hingað vegna utanríkisráðherrafundar NATO 1968 eins og þeir hafi verið með tómata í lautarferð og menn hafi komið saman fyrir framan fundarstað ráðherranna til að æfa söng.
Ólafur Hannibalsson skrifar um lögfræðilegan ágreining um, hvernig staðið skuli að úrskurði hins opinbera um hleranir, án þess að lýsa því, hvernig lögin um þetta breyttust með setningu laga um meðferð opinberra mála. Grein hans er dæmi um notkun á hálfsannleik til að ýta undir rangar ályktanir og til að kasta rýrð á lögfræðinga, sem gættu þess jafnan að fara að réttum lögum. Óvirðingin sem Ólafur sýnir Valdimar Stefánssyni og Baldri Möller og minningu þeirra er honum ekki til álitsauka og styrkir ekki málstað hans.
Þá sá ég í Fréttablaðinu að Þráinn Bertelsson vill, að mér sé hlíft við spurningum um hleranir, af því að ég sé vanhæfur til að ræða málið. Ég þakka Þráni umhyggjuna en ég tel mig síður en svo vanhæfan til að ræða þessi mál. Þráinn segist aðeins einu sinni hafa fengið „almennilegan styrk“ til kvikmyndagerðar, en þá hafi Svavar Gestsson verið menntamálaráðherra. Þráinn telur, að úthlutunarnefndin hafi óttast Svavar og því veitt sér styrk. Hvers vegna minnist Þráinn ekki á heiðurslaun listamanna? Fróðlegt væri að lesa lýsingu Þráins á því, hvernig hann komst á þann lista.
Föstudagur, 08. 12. 06.
ATA-fundinum lauk í Aþenu síðdegis í dag. Á vegum NATO og samstarfsríkja þess eru nú 52. 500 menn undir vopnum eða að sinna hernaðarlegum verkefnum og þjálfun í Evrópu, Asíu og Afríku. Það er engin furða, þótt talsmenn bandalagsins keppist við að árétta við þessar aðstæður, að bandalagið gegni ekki hlutverki alheimslögreglu, því að svo mætti ætla að óathuguðu máli.
Baker/Hamilton skýrslan, sem birt var á miðvikudag í Bandaríkjunum, og hefur að geyma tillögur í 79 liðum um það, hvernig Bandaríkjastjórn skuli taka á málum í Írak, er líklega meira virði fyrir demókrata í Bandaríkjunum en repúblíkana, því að demókrata skorti alfarið stefnu í málefnum Íraks en repúblíkanar studdu forseta sinn, þótt þeir hafi orðið honum stöðugt tregari í taumi. Forsetinn setur fyrirvara við ýmsar tillögur í skýrslunni en hún verður vafalaust stefnumarkandi fyrir hann að lokum eins og Bandaríkjaþing.
Lee Hamilton, fyrrverandi þingmann demókrata, hittum við utanríkisnefndarmenn frá Íslandi snemma árs 1995, þegar nefndin fór í fyrstu ferð sína til Washington. Hamilton var þá formaður utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
James Baker hitti ég á dögunum í Washington, þegar ég var staddur í bókabúð, þar sem hann áritaði nýja sjálfsævisögu sína. Þar var hann einmitt spurður um störf Íraks-nefndarinnar en varðist allra frétta um hana. Ég hef gluggað í bók Bakers og bregður hann ljósi á margt í bandarískum stjórnarháttum, enda hefur hann oft verið kallaður á vettvang, þegar mikið er í húfi fyrir repúblíkana.
Ég las í franska vikuritinu l'Express að þar á bæ eru menn farnir að tala um netið og bloggarana sem fimmta valdið, við hlið löggjafarvalds, framkvæmdavalds, dómsvalds og fjölmiðlavalds. Mér sýnist krafturinn í íslensku bloggi vera að magnast, þegar mbl.is dregur að sér alla höfuðpaurana. Á sama tíma birtast síðan fréttir um, að ætlunin sé að stofna nýtt vikublað, nýtt dagblað og Viðskiptablaðið ætli að fjölga útgáfudögum. Stenst þessi þverstæða? Er það fjárhagslegur ávinningur eða eitthvað annað, sem ræður þessum áhuga á miðlun upplýsinga? Örugglega ekki hjá bloggurunum - og enginn hagnaður virðist af íslenskri blaðaútgáfu um þessar mundir.
Fimmtudagur, 07. 12. 06.
Jaap de Hoof Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, ávarpaði ATA-fundinn í morgun í gegnum fjarfundabúnað, þar sem hann átti ekki heimangengt vegna yfirmannaskipta hjá herstjórninni, Shape, í Mons. Mér kom á óvart, hve ómyrkur hann var í tali um vandræðin í stofnanalegum samskiptum NATO og Evrópusambandsins. Hann sagði óformlega fundi geta skilað árangri en formleg samskipti væru mjög erfið. Hann sagðist vera andvígur því, að NATO yrði einskonar almheimslögregla en hins vegar þyrfti bandalagið að eignast samstarfsaðila um heim allan.
Ég flutti ræðu um orkuöryggi, orkuvinnslu á Norðurslóðum og NATO en síðdegis var Christopher Coker, prófessor við London School of Economics, sammála þeirri skoðun minni, að orkuöryggi og trygging þess hlyti að verða höfuðviðfangsefni NATO.
Prófessorinn benti á, að Kínverjar væru helstu keppinautar Bandaríkjanna um orkukaup en þeir stæðu betur að vígi en Babdaríkjamenn vegna þess hve þeir ættu mikið af kolanámum. Þeir væru einnig á höttunum eftir olíu í Afríku. Þess vegna létu kínversk stjórnvöld sér svona annt um stjórnvöld í Súdan, þrátt fyrir blóðugan feril þeirra í Darfur. Þá segðu Nígeríumenn, að þeir gætu ekki átt olíuviðskipti við Bandaríkjamenn, án þess að vera spurðir um baráttu gegn hryðjuverkum, og ekki við Evrópusambandið, án þess að vera spurðir um mannréttindamál, hins vegar spyrðu Kínverjar aldrei um annað en verð og afhendingartíma olíunnar.
Ég sé, að fleiri hafi haft áhuga á að fylgjast með því, sem Silja Bára hjá alþjóðastofnun háskólans hefur til öryggismálanna að leggja.
Miðvikudagur, 06. 12. 06.
Komum til Aþenu skömmu eftir miðnætti aðfaranótt 6. desember,
Höfðum tíma fyrir hádegi til að fara upp á Akrapólis og síðan að Agórunni.
Fundir ATA hófust síðan síðdegis. Varnarmálaráðherra Grikkja flutti aðalræðuna auk þess sem sagt var ítarlega frá nýlegum leiðtogafundi NATO-ríkjanna í Riga og þeirri stefnu, sem þar var mótuð.
Ég sé á mbl.is, að Jón Baldvin Hannibalsson hefur farið mikinn á fundi í Háskóla Íslands um hlerunarmálin. Þegar rætt er um hlut þingmanna og viðleitni lögreglu á þessum árum til að halda uppi allsherjarreglu má ekki gleyma því, að þingmennirnir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason sendu boð úr þinghúsinu 30. mars 1949, sem urðu til þess, að ráðist var að alþingishúsinu.
12 árum síðar eða árið 1961, þegar blásið var til mikils andróðurs gegn samningum við Breta um 12 mílurnar, hefur lögreglan viljað vera við öllu búin og að ósk hennar veitti sakadómari heimild til hlerana. Ekkert liggur fyrir um það, hvort þær heimildir voru nýttar. Að sjálfsögðu má eftir á deila um, hvort þessar heimildir hafi verið nauðsynlegar eða ekki. Ekkert liggur fyrir um, að þær hafi spillt fyrir pólitískum samskiptum forráðamanna Sjálfstæðisflokksins og forystumanna Alþýðusambands Íslands, sem nokkrum misserum síðar stóðu að hinu sögulega júní-samkomulagi, sem talið er marka þáttaskil í samskiptum Sjálfstæðisflokksins og verkalýðshreyfingarinnar.
Það er mikil einföldun á gangi mála árið 1968 að láta eins og við því einu hafi verið búist, að grískir mótmælendur vegna NATO-fundar ætluðu að kasta tómötum í gríska ráðherra á fundinum. Þórður Björnsson, sakadómari, sem hafði verið borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og eindreginn andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, kvað upp úrskurð um heimild til hlerana 1968.
Í öllum tilvikum, sem hér um ræðir, var farið að lögum og leitað til dómara, sem kvað upp úrskurð sinn um heimildir til hlerunar á grundvelli laga. Engir slíkir úrskurðir hlutlauss þriðja aðila lágu fyrir, þegar Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra, fór þess á leit við embættismann ráðuneytis síns, að hann kannaði, hvort finna mætti í skjölum Stasi gögn um Íslendinga, þar á meðal meðráðherra hans í ríkisstjórn, Svavar Gestsson.
Í skýrslum, sem ég hef kynnt um öryggis- og greiningarþjónustu, er gert ráð fyrir, að ætíð sé leitað heimildar dómara til að rannsaka einkahagi fólks eða fylgjast með þeim og þeir, sem það gera, sæti eftirliti þingnefndar. Í ljósi sögunnar kemur gagnrýni Jóns Baldvins á leynimakk stjórnvalda úr hörðustu átt.
Þriðjudagur, 05. 12. 06.
Á fundi dómsmála- og innanríkisráðherra Schengen-ríkjanna í morgun hér í Brussel var ákveðið, að 31. desember 2007 yrði landamæraeftirliti á sjó og landi gagnvart nýju ESB-ríkjunum hætt og 29. mars 2008 á flugvöllum - svo framarlega, sem leyst haf verið úr öllum tæknilegum vandamálum.
Síðdegis fórum við með sendiráðsfólki og kynntum okkur aðstæður í menningarmiðstöðinni Bozar (áður Beux Arts) í hjarta Brussel, þar sem ætlunin er að efna til íslenskrar menningarkynningar snemma árs 2008. Allar aðstæður eru þarna eins og best verður kosið. Vonandi rætast þessi áform um menningarkynninguna - fátt er betur til þess fallið að bera hróður lands og þjóðar en kynning á íslenskri menningu. Það þekki ég af langri reynslu.
Nú sit ég á flugvellinum í Brussel og bíð eftir flugi til Aþenu, þar sem ég á að flytja ræðu um orkuöryggi á fimmtudaginn á ársþingi Atlantic Treaty Association - ATA. Vonandi verður ekki eins mikið slagveður þar og hér í Brussel og í Amsterdam á dögunum.
Mánudagur, 04. 12. 06.
Hef verið á fundum um Evrópumál í Brussel í dag. Hitti Kristján Andra Stefánsson, stjórnarmann Íslands í eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Sat síðan fund með Schengen-ráherrum og loks kvöldverðarfund með dómsmálaráðherrum Sviss og Noregs, þar sem við ræddum framtíðarskipan samstarfs okkar við ESB-ríkin á Schengen-vettvangi, eftir að þeim fjölgar.
Þeir Kristófer Helgason og Þorgeir Ástvaldsson á Bylgjunni hringdu í mig síðdegis og ræddu við mig um nýjustu James Bond-myndina, sem ég gaf þrjá og hálfa stjörnu.
Ég sá á netinu, að í þættinum Pólitik á Stöð 2, sem virðist settur til höfuðs Silfri Egils, og sendur er út á laugardögum, ræddi Svavar Halldórsson um öryggismál við gesti sína og meðal annars við Silju Báru Ómarsdóttur, forstöðumann Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands og var hún spurð um ógnir, sem steðjuðu að Ísland. Silja Bára sagði:
„ Sko, já eftirlit með hverju, varnir gegn einhverju eða einhverjum. Vitum við um einhverja óvini sem að hérna eru á leiðinni að koma að ráðast á okkur eða erum við, þurfum við að hugsa um svona nýja hluti. Nú erum við með þennan samning við Bandaríkjamenn sem að á að tryggja okkur vernd á ófriðartímum og er verið að leita að einhverri vernd og vörnum á sem sagt friðartímum núna í yfirstandandi fundum hjá utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Ef
þú ætlar út í samningaferli, ef þú ert að fara að kaupa þér bíl þá
náttúrulega mótar þú þér hugmynd um það hvað þú ætlar að eyða í bílinn og hvernig bíl þarftu. Þú ferð ekki að kaupa þér sportbíl ef þú átt 7 börn og ætlar að nota bílinn til að koma þeim á milli staða. Þannig að auðvitað þarftu að hafa hugmynd um það hvað þú ætlar að fá út úr ferlinu áður en þú byrjar á því og það kannski er hérna, það er svolítið skrýtið að segja sko, ja nú erum við bara að byrja að ræða við Pólverja, Dani, Norðmenn um það hvað þeir geta boðið okkur og eigum við þá að skilgreina varnarþörfina út frá því hvað er í boði, hvað er hægt að verja. Eigum við ekki fyrst að segja sko hvað þurfum við að verja og fara svo að leita að þjónustunni til þess að tryggja það. Mér finnst það svolítið verið að byrja á öfugum enda.“
Þegar þessi texti er lesinn, er ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri, að höfundur hans hafi ekki minnstu hugmynd um öryggis- og varnarmál. Raunar er kannski ekki við því að búast hjá stofnun, sem kennd er við alþjóðamál og hlýtur samkvæmt þessu að vera að sinna einhverju öðru en öryggis- og varnarmálum. Utanríkismálastofnanir annars staðar á Norðurlöndunum hafa innan sinna vébanda sérfræðinga, sem geta lagt eitthvað af mörkum til umræðna um öryggis- og varnarmál. Alþjóðastofnun Háskóla Íslands er að sinna einhverju allt öðru og þegar hún kallar saman fund um Evrópumál eru það aðeins innvígðir talsmenn aðildar að Evrópusambandinu, sem fá að tala, ef marka má blaðaskrif undanfarið.
Sunnudagur, 03. 12. 06.
Það var slagveður í Amsterdam í morgun þegar við fórum á tónleika í Constergebouw klukkan 11.00 og hlýddum á European Baroque Orchestra en Lars Ulrik Mortensen stjórnaði henni og lék á sembal um leið. Salurinn er fallegur og hljómburðurinn einstakur.
Síðan fórum við í Rijksmuseum og skoðuðum verk eftir Rembrant og fleiri meistara. Mikill mannfjöldi var bæði á tónleikunum og í safninu - Hollendingar og gestir þeirra nýta sunnudaga gerinilega vel til menningariðkana.
Þegar við komum síðan sídegis til Brussel með lest blöstu við okkur miklu meiri jólaljós og skreytingar þar en í Amsterdam. Sama slagveðrið er hér í Brussel.
Lestarferðin á milli Amsterdam og Brussel tekur um þrjá tíma og á leiðinni las ég meðal annars The Sunday Telegraph þar sem enn er mikið fjallað um geislavirkamorðið á fyrrverandi KGB-manninum í London og sagt frá því, að rússneska leyniþjónustan sé ekki umsvifaminni núna í Bretlandi en KGB var í kalda stríðinu. Viðfangsefnin snúist mest um að verða sér úti um upplýsingar um landflótta Rússa og um það, sem er að gerast í iðnaði og viðskiptum.
Laugardagur, 02. 12. 06.
Flaug til Amsterdam klukkan 07.50 á leið á Schengen-ráðherrafund í Brussel, lenti rétt fyrir 12.00 í grenjandi rigningu.
Sá á ruv.is, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði haldið stefnumarkandi ræðu yfir Samfylkingarfólki. Hún sagði m.a. að vandi Samfylkingarinnar lægi í því að kjósendur þyrðu ekki að treysta þingflokknum fyrir landsstjórninni. Hingað til hefði fólk ekki treyst þingflokknum til þess að gæta hagsmuna þeirra, tryggja stöðugleika, fara með skattpeninga af ábyrgð, gæta þess að atvinnulíf sé samkeppnishæft og til að standa vörð um hagsmuni Íslands utan landssteinanna. Nú yrði á því breyting enda væri Samfylkingin tilbúin. Ingibjörg sagði það mundu verða eitt fyrsta verk Samfylkingarinnar að taka Ísland af lista hinna viljugu þjóða sem studdu innrásina í Írak.
Spyrja má: Hvers vegna skyldi fólk treysta þingflokki Samfylkingarinnar nú en ekki áður? Af því að Össur er orðinn formaður þinglokksins? Hvað hefur annað breyst? Þetta tal um Ísland á lista hinna viljugu þjóða er skrýtið - listinn var saminn í Hvíta húsinu, þar er höfundarréttur að honum. Fór ekki Róbert Marshall, frambjóðandi Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi, illa á því að vera að tala um listann sem fréttamaður? Hvað með auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar í The New York Times - átti hún ekki að þurrka okkur af listanum? Samfylkgingin ætti að fara varfærnum höndum um þennan lista, ef hann er einhvers staðar að finna fyrir utan vefsíðu Hvíta hússins.
Var klukkan 20.30 í Orgelparken í Amsterdam, gamalli kirkju, sem hefur verið gerð upp sem tónleikasalur, einkum fyrir organista, því að þar eru þrjú orgel og tvö píanó. Húsið verður opnað opinberlega í janúar 2007 en í kvöld var verið að opna það óformlega og meðal þeirra, sem komu fram á fjölmennri hátíð voru Skálholtskvartettinn undir forystu Jaaps Schröders, en hann býr svo að segja við hliðina á þessu nýja menningarhúsi, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari, Sigurður Halldórsson sellóleikari og Rut kona mín eru með Jaap í kvartettinum.
Föstudagur, 01. 12. 06.
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu mína um, að við fjármálaráðherra hefðum heimild til að ganga til samninga við Asmar skipasmíðastöðina í Chile um smíði ný 4.000 lesta varðskips fyrir tæpa 3 milljarði króna og verður skipið tilbúið um mitt ár 2009, ef allt gengur samkvæmt áætlun.
Í dag eru einnig tímamót að því leyti, að ég hef gengið til samstarfs við blog.is á mbl.is um tengingu síðu minnar inn í blogg-umhverfið, án þess að ég hverfi frá síðunni bjorn.is. Þetta er brautryðjenda samstarf á milli mín og mbl.is og verður gaman að sjá, hvernig það heppnast. Ég hef ekki nægilega tækniþekkingu til að lýsa einstökum tækniþáttum þessa samstarfs. Ég þarf ekki að breyta neinum vinnubrögðum við síðu mína, held póstlistanum og öllum öðrum þáttum óbreyttum - ég lít sem sagt á þetta sem skemmtilega viðbót við þjónustuna, sem ég vil veita netverjum. Slóðin mín á mbl.is er:http://bjorn.blog.is - en eins og ég segi er nákvæmlega sama efni þar og hér og útlitið einnig hið sama nema mbl.is bætir við auglýsingum.