29.12.2006 19:50

Föstudagur, 29. 12. 06.

Í dag ritaði ég undir reglugerðir um flutning verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í Reykjavík til sýslumanna utan borgarmarkanna.

Þessi flutningur hefur verið lengi á döfinni og tengist ákvörðunum um nýskipan lögreglumála. Verður gaman að sjá hvernig til tekst.

Þá var í dag birt fréttatilkynning í dag um, að ég hefði skipað Ingimund Einarsson héraðsdómara í Reykjavík frá 1. janúar og Ásdísi Ármannsdóttur sýslumann í Siglufirði frá 1. febrúar 2007.

Á sama tíma og Evrópusambandssinnar á Íslandi telja bjargir sínar byggjast á því að tala um evruna eins og töfralausn fyrir okkur Íslendinga birtist niðurstaða skoðanakönnunar í Frakklandi, sem sýnir, að meirihluti Frakka telur, að skiptin yfir í evru fyrir fimm árum hafi verið slæm fyrir sig. Frakkar telja, að evran hafi spillt fyrir hagvexti og leitt til verðhækkanna - en 94% eru sannfærðir um, að evran hafi ýtt undir verðbólgu.

Sérstök könnun Eurobarometer á afstöðu til evrunnar sýnir, að evran nýtur nú minnsta stuðnings síðan hún kom til sögunnar. 2002 voru 59% íbúa evrusvæðisins þeirrar skoðunar, að evran mundi almennt verða landi þeirra til hagsbóta, nú er rétt innan við helmingur sömu skoðunar. Evrulöndin eru nú 12 hið 13. Slóvenía bætist í hópinn 1. janúar 2007.

Enn urðu sviptingar í fjölmiðlaheiminum í dag og Páll Vilhjálmsson lýsir þeim á þennan veg á vefsíðu sinni: „Það er heldur ekki aðalmarkmið Jóns Ásgeirs að fjölmiðlareksturinn skili hagnaði. Tilgangurinn er að hafa áhrif á umræðuna og sérstaklega að gæta hagsmuna Jóns Ásgeirs og Baugs í sakamálum sem nú eru til meðferðar í réttarkerfinu. Fjölmiðlar Baugs fylgja þeirri línu að gera sem mest úr misfellum í málatilbúnaði ákæruvaldsins og á hinn bóginn að draga fjöður yfir sakargiftir á hendur Jóni Ásgeiri og félögum hans.“

Páll vekur einnig athygli á sérkennilegri hlið þessara sviptinga í þessari færslu.