Dagbók: apríl 1999
Föstudagur 30.4.1999
Fór með tveimur meðframbjóðendum mínum Katrínu Fjeldsted og Soffíu Kristínu Þórðardóttur í heimsókn í fyrirtæki í Sundaborg. Um hádegið var fundur á með starfsmönnum Stöðvar 2. Þaðan fór ég á Hótel Sögu og setti ráðstefnu um menntunarmál og fiskvinnslu. Klukkan 17.30 tók ég þátt í að opna sýningu í Perlunni á menntunarleiðum í tölvu- og upplýsingatækni.
Fimmtudagur 29.4.1999
Í hádeginu var kosningafundur í Iðnskólanum í Reykjavík. Klukkan 16.00 var ég í Flensborgarskóla í Hafnarfirði, þar sem kynnt var höfðingleg tölvu- og upplýsingatæknigjöf 20 ára nemenda skólans. Þegar ég kom úr Hafnarfirði fór ég í Kringluna og var um eina klukkustund á kosningabás okkar sjálfstæðismanna þar. Um kvöldið fór ég á glæsilega 100 ára afmælishátíð KFUM og K.
Mánudagur 29.4.1999
Síðdegis efndi ég til samráðsfundar með stjórn Bandalags íslenskra listamanna og var þar farið yfir mál, sem eru efst á baugi í samskiptum ríkis og listamanna. Fundir af þessu tagi eru mjög gagnlegir og þar gefst tækifæri til að skiptast á skoðunum um mikilvæg málefni og skiptast á sjónarmiðum.
Miðvikudagur 28.4.1999
Klukkan 14 var efnt til fundar í Háskóla Íslands á vegum menntamálaráðuneytisins um tungutækni. Setti ég hana með ávarpi en síðan flutti Rögnvaldur Ólafsson dósent erindi. Er ljóst, að mikill áhugi er á þessu máli enda mikið í húfi. Menningarsjóður efndi til blaðamannafundar klukkan 15.30 og kynnti úhlutun sína. Klukkan 16.00 var ég í Ráðhúsi Reykjavíkur, þar sem Heimili og skóli afhenti viðurkenningu fyrir gott skólastarf. Klukkan 18.00 var ég í kosningaskrifstofu sjálfstæðismanna í Grafarvogi og einnig á sama tíma daginn áður. Úr Grafarvoginum fór ég í Förðunarskóla Íslands og tók þátt í slitum hans. Um kvöldið fór ég aftur á Skjá 1 og tók þar þátt í umræðum um utanríkismál.
Þriðjudagur 27.4.1999
Síðdegis var ársfundur Rannsóknarráðs Íslands haldinn í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs. Var ég meðal ræðumanna. Svartsýnismenn fylkingarinnar og annarra í menntamálum hefðu átt að sitja þennan fund til að öðlast meiri bjartsýni. Klukkan 16.00 fór ég í fjarfundaver Landssímans og tók þátt í fundi, sem fór fram þar og á Ítalíu. Hlaut Ari Trausti Guðmundsson viðurkenningu fyrir baráttu hans í þágu umhverfisverndar og afhenti Thor Vilhjálmsson rithöfundur verðlaunin auk þess sem hann flutti ræðu á ítölsku, sem var vel tekið af hlustendum í Róm. Einnig voru þarna tvær stúlkur, sem hafa verið við ítölskunám í Háskóla Íslands.
Þriðjudagur 27.4.1999
Síðdegis var ársfundur Rannsóknarráðs Íslands haldinn í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs. Var ég meðal ræðumanna. Svartsýnismenn fylkingarinnar og annarra í menntamálum hefðu átt að sitja þennan fund til að öðlast meiri bjartsýni. Klukkan 16.00 fór ég í fjarfundaver Landssímans og tók þátt í fundi, sem fór fram þar og á Ítalíu. Hlaut Ari Trausti Guðmundsson viðurkenningu fyrir baráttu hans í þágu umhverfisverndar og afhenti Thor Vilhjálmsson rithöfundur verðlaunin auk þess sem hann flutti ræðu á ítölsku, sem var vel tekið af hlustendum í Róm. Einnig voru þarna tvær stúlkur, sem hafa verið við ítölskunám í Háskóla Íslands.
Mánudagur 26.4.1999
Um kvöldið fór ég á sjónvarpsstöðina Skjá 1, þar sem við Katrín Fjeldsted sátum fyrir svörum Egils Helgasonar og Flosa Eiríkssonar. Stöðina má sjá á breiðbandinu og einnig ef menn hafa örbylgjuloftnet hér á höfuðborgarsvæðinu.
Sunnudagur 25.4.1999
Við Rut vorum allan daginn á Akureyri, þar sem kristnihátíðin var að hefjast og einnig kirkjulistarvika. Veðrið var gott og fagurt og fór allt fram með miklum glæsibrag, ekki síst tónleikarnir, þar á þriðja hundrað kórfélagar fluttu messu eftir Gounoud.
Föstudagur 23.4.1999
Klukkan 9 var ég í Kringlunni og opnaði þar ljósmyndasýninguna World Press Photo. Klukkan 14.00 var tilkynnt niðurstaða á könnun um bók aldarinnar í Þjóðarbókhlöðunni.
Fimmtudagur 22.4.1999
Fór í skátamessu klukkan 11.00 Klukkan 13.30 fórum við Rut í Háskólabíó til að taka þátt í útskrift úr Viðskipta- og tölvuskólanum og flutti ég ávarp við það tækifæri.
Miðvikudagur 21.4.1999
Klukkan 17.00 var ég í Loftkastalanum og flutti ávarp, þegar ný leið á netinu til kauphallarviðskipta í Wall Street var opnuð á vegum Kauphallar Landsbréfa.
Þriðjudagur 20.4.1999
Í hádeginu fór ég í Verslunarskóla Íslands og ræddi við nemendur. Klukkan 14.00 var blaðamannafundur þar sem kynnt var niðurstaða í könnun um bóklestur Íslendinga. Klukkan 20.00 fór ég á fund um leikskóla í Garðabæ. Klukkan 21.00 var ég kominn fund stjórnmálafræðinga í Ráðhúsinu.
Mánudagur 19.4.1999
Klukkan rúmlega 09.00 mættu þeir ráðherrar sem gátu til Bessastaða til að taka þar formlega á móti forseta Lettlands og föruneyti. Um hádegið fór ég í Menntaskólann við Hamrahlíð og ræddi við stjórnmálafræðinemendur.
Laugardagur 17.4.1999
Klukkan 9 hófst Skólamálaþing á vegum kennarafélaganna í Menntaskólanum á Akureyri og flutti ég ávarp við upphaf þess. Um hádegisbilið flaug ég aftur til Reykjavíkur. Klukkan 18.00 tók ég þátt í því að opna kosningaskrifstofu sjálfstæðismanna í miðbæ Reykjavíkur. Klukkan 20.00 fór ég með Sigríði Sól dóttur minni á frumsýningu í Borgarleikhúsinu á Stjórnleysingi ferst af slysförum eftir Dario Fo.
Föstudagur 16.4.1999
Eftir hádegi hélt ég flugleiðis til Akureyrar og fórum við Tómas Ingi Olrich, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra, í hinn glæsilega Myndlistarskóla á Akureyri og hittum kennara og nemendur. Þaðan fórum við síðan að Sólborgu og hittum rektor Háskólans á Akureyri, samstarfsmenn hans og nemendur, sem voru við vinnu á bókasafninu. Klukkan 17.00 var efnt til fundar um menntamál á vegum sjálfstæðismanna á Akureyri í kosningamiðstöð þeirra. Var hann vel sóttur og urðu miklar og góðar umræður.
Fimmtudagur 15.4.1999
Fyrir hádegi efndi ég til fundar með fulltrúum frá Smithsonian-stofnuninni í Bandaríkjunum um hina miklu víkingasýningu, sem þar verður á næsta ári. Síðan fór ég á kynningarfund hjá Reykjavíkurakademíunni, það er samstarfshópi sjálfstætt starfandi fræðimanna, sem hafa búið um sig í húsi Jóns Loftssonar. Var mjög fróðlegt að kynnast þeim sjónarmiðum, sem þar komu fram. Er ljóst, að það eru að skapast nýjar aðstæður á þessu sviði atvinnulífsins eins og öðrum. Einstaklingar og félög eða samtök þeirra eru tilbúnir til þess að láta að sér kveða með nýjum hætti. Ber að virkja þessa sjálfstæðu krafta og endurskilgreina opinbera starfsemi til að þeir fái sem best notið sín. Ég lýsti þeirri sannfæringu minni, að fleiri og betri tækifæri væru nú en nokkru sinni til að rannsaka og kynna íslenska menningu á alþjóðavettvangi.
Miðvikudagur 14.4.1999
Klukkan 16.00 fór ég á fund með starfsmönnum og nemendum Tækniskóla Íslands og ræddi um stöðu skólans. Innan hans er bæði boðið nám á háskólastigi og svonefnd frumgreinanám, sem er á framhaldsskólastigi. Skólinn hefur starfað í 35 ár og er nauðsynlegt að skilgreina stöðu hans með hliðsjón af nýjum lögum um háskólastigið. Hef ég látið vinna mikið í málefnum skólans og semja frumvarp um Tækniháskóla Íslands en ekki lagt það fram, af því að ég tel, að allir, sem að skólanum starfa þurfi að fá nægan tíma til að átta sig á stöðu hans í ljósi hins nýja starfsumhverfis. Klukkan 17.30 talaði ég á fundi um menntamál í kosningamiðstöð Sjálfstæðisflokksins við Skipholt í Reykjavík.
Þriðjudagur 13.4.1999
Ritaði eftir hádegi undir samninga við Fræðsluráð málmiðnaðarins um að það taki að sér verkefni af menntamálaráðuneytinu varðandi sveinspróf og fleira. Er þetta fjórði samningurinn af þessu tagi, sem ég rita undir. Er þetta liður í því að virkja atvinnulífið meira en áður í þágu skólastarfs og menntunar. Síðan hitti ég rektora Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands og ræddi við þá um úrræði til að draga úr skorti á réttindakennurum.
Mánudagur 12.4.1999
Fyrir hádegi sótti ég stefnuþing MENNTAR og flutti þar ræðu um samstarfs atvinnulífs og skóla í hefðbundnum stíl. Skömmu fyrir hádegi héldum við Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Vesturlandi, í bíl hans vestur á Snæfellsnes. Á leiðinni slógust þau Guðjón Guðmundsson alþingismaður og Helga Halldórsdóttir, sem skipar þriðja sæti á listanum í för með okkur. Fórum við sem leið lá í Lýsuhólsskóla, sem hafði fagnað 30 ára afmæli sínu laugardaginn, 10. apríl. Þar slógust forystumenn í Snæfellsbæ í hópinn. Eftir að hafa notið gestrisni skólastjóra og samstarfsmanna hans héldum við til Ólafsvíkur, þar sem við heimsóttum grunnskólann. Þar hitti ég skólastjóra og kennara á fundi og einnig nemendur í 10. bekk, sem voru að búa sig undir samræmdu prófin. Stjórnendur skólans í Ólafsvík, kennarar, nemendur og foreldrar hafa ákveðið að taka höndum saman um að bæta skólastarfið. Var skemmtilegt að kynnast þeim góða baráttuanda, sem þar ríkti. Næst lá leiðin til Hellisands, þar við heimsóttum grunnskólann. Við ókum síðan í kringum Snæfellsjökul með viðkomu í skemmtilegu Fjörhúsinu á Hellnum. Um kvöldmatarleytið vorum við í Grundafirði og heimsóttum grunnskólann þar. Einnig gafst tækifæri til að ræða um samstarf heimamanna, menntamálaráðuneytisins, Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Verkmenntaskólans á Akureyri um tölvuvætt framhaldsnám í Grundarfirði.
Sunnudagur 11.4.1999
Klukkan 14.00 til 15.30 bein útsending á umræðum forystumanna framboða í Reykjavík úr sjónvarpssal.
Laugardagur 10.4.1999
Klukkan 9 flyt ræðu á Menntaþingi frjálsra félagasamtaka. Klukkan 11.45 flogið til Vestmannaeyja og tekið þátt í fundi þar um menntamál á vegum Eyverja. Klukkan 17.30 komið aftur frá Vestmannaeyjum og farið í kosningamiðstöð sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem opnuð var klukkan 17.00
Föstudagur 9.4.1999
Klukkan 13.00 fundur frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins af öllu landinu.
Fimmtudagur 8.4.1999
Klukkan 10.30 fundur í bóksasafni Bandaríkjaþings um íslenska sýningu þar. Klukkan 15.00 blaðamanna- og kynningarfundur í Smithsonian-safninu á sýningunni Víkingar, Norður-Atlantshafssaga. Klukkan 20.45 haldið af stað frá Baltimore til Íslands.
Miðvikudagur 7.4.1999
Klukkan 10.30 blaðamannafundur í leikskólanum Mánabrekku á Seltjarnarnesi til að kynna meginstefnu Enn betri leikskóla. Klukkan 17.00 flogið til Baltimore og haldið þaðan til Washington klukkan 19.00 að amerískum tíma..
Fimmtudagur 1.4.1999
Fórum á tónleika kórs Lanholtskirkju og hlýddum að H-moll messu Bachs.