15.4.1999 0:00

Fimmtudagur 15.4.1999

Fyrir hádegi efndi ég til fundar með fulltrúum frá Smithsonian-stofnuninni í Bandaríkjunum um hina miklu víkingasýningu, sem þar verður á næsta ári. Síðan fór ég á kynningarfund hjá Reykjavíkurakademíunni, það er samstarfshópi sjálfstætt starfandi fræðimanna, sem hafa búið um sig í húsi Jóns Loftssonar. Var mjög fróðlegt að kynnast þeim sjónarmiðum, sem þar komu fram. Er ljóst, að það eru að skapast nýjar aðstæður á þessu sviði atvinnulífsins eins og öðrum. Einstaklingar og félög eða samtök þeirra eru tilbúnir til þess að láta að sér kveða með nýjum hætti. Ber að virkja þessa sjálfstæðu krafta og endurskilgreina opinbera starfsemi til að þeir fái sem best notið sín. Ég lýsti þeirri sannfæringu minni, að fleiri og betri tækifæri væru nú en nokkru sinni til að rannsaka og kynna íslenska menningu á alþjóðavettvangi.