Dagbók: maí 2015
Sunnudagur 31. 05. 15
Flogið var um Stavanger frá Bergen með Icelandair í dag. Þessi vél var ein af fáum Icelandair-vélum með laus sæti til landsins þennan sunnudag. Þátttakendur í Smáþjóðaleikunum, sem hefjast á morgun, streyma til landsins og þess vegna eru flugvélar frá Evrópu fullsetnar. Meðal farþega voru nokkrir sem höfðu beðið í sex tíma á Sóla-flugvelli við Stavanger, þeir voru sendir þangað frá Kaupmannahöfn til að komast heim í dag.
Bergen/Stavanger-vélin var á undan áætlun. Henni var þó ekki lagt við rana á flugstöð Leifs Eiríkssonar heldur var okkur ekið í rútum af flughlaðinu. Frá inngangi í stöðinni fórum við upp stiga og síðan í gegnum matstaði í meginsal byggingarinnar og þaðan niður aftur til að ná í töskurnar. Hver er skýringin á þessum króki? Hvers vegna er ekki gengið beint af flughlaðinu inn í töskusalinn? Er það bannað af öryggisástæðum? Eða er þetta bráðabirgðalausn?
Smáþjóðaleikarnir voru í fyrsta sinn hér á landi um þetta leyti árs 1997. Í aðdraganda leikanna þá var hlaupið með kyndil hringinn í kringum landið til að vekja athygli á þeim. Ekkert slíkt hefur verið gert núna og leikarnir setja ekki sama svip á mannlífið og sjá hefur mátt erlendis.
Frá setningu leikanna á Laugardalsvelli árið 1997 er vafalaust fleirum en mér minnisstætt hve kalt var þann dag og veður hryssingslegt. Það horfir betur á morgun, spáð glampandi sólskini og 11 stiga hita.
Laugardagur 30. 03. 15
Í dag var tilkynnt í Bergen hverjir hefðu verið tilnefndir til tónlistarverðlauna Norðurlanda árið 2015. Kammersveit Reykjavíkur annars vegar og Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari hins vegar voru tilnefnd af Íslands hálfu. Verðlaunin verða veitt í Reykjavík í október 2015. Kjartan Ólafsson tónskáld er í dómnefndinni af Íslands hálfu. Ég tók mynd við athöfnina í dag og má sjá hana hér.
Í kvöld var úrslitakeppni um Den norske solistpris 2015 og fór hún fram í Hákonarhöll. Danska konan Eva Kruse Steinaa sem leikur á óbó sigraði. Eva Þórarinsdóttir fiðluleikari tók þátt fyrir Íslands hönd og stóð sig með mikilli prýði.
Keppnin var tekin upp af NRK2 og verður sýnd í þættinum Hovedscenen sunnudaginn 7. júní en margir horfa reglulega á hann á Íslandi. Þá kann upptakan einnig að verða sýnd í ríkissjónvarpinu.
Föstudagur 29. 05. 15
Margt er skoða í Bergen. Kode-listasafnið geymir ýmsa dýrgripi eftir Munch og aðra stórmálara. Þá má kynnast starfi og starfsaðstæðum Hansakaupmanna í safni um þá í Bergen. Loks segir borgarsafnið sögu Bergen og þar má einnig sjá víkingaminjar, til dæmis kjöl 30 m og 9 til 10 m breiðs víkingaskips.
Fyrir fáeinum dögum var látið eins og ekkert blasti við nema svartnættið á almennum vinnumarkaði vegna verkfalla. Nú hafa stærstu félögin samið um rúmlega 30% hækkun á næstu þremur árum. Þá taka menn við að lýsa áhyggjum vegna verðbólgu. Allt er þetta gamalkunnugt.
Undarlegast er að menn kenni íslensku krónunni um ef illa fer, sérstaklega þegar forystumenn ASÍ vilja frekar evruna. Krónan er ekki annað en andlag þeirra sem takast á um kaup og kjör. Hún ræður ekki ferðinni heldur þeir. Að skella skuldinni á krónuna er ekki annað en hlaupast undan ábyrgð þegar þeir sem semja um kaup og kjör eiga í hlut.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hefur boðað róttækar breytingar á skattalögum. Hann vindur hiklaust ofan af sósíalískum skattabreytingum Steingríms J. Sigfússonar frá vorinu 2009. Enginn vafi er á að skattalagabreytingarnar verða til að blása nýju lífi í efnahagsstarfsemina.
Ríkisstjórnin boðar gamalkunnar ráðstafanir í tengslum við kjarasamningana: átak til að auðvelda tekjulágum til að koma yfir sig húsnæði og stofnun þjóðhagsráðs. Þetta var reynt af viðreisnarstjórninni á sjöunda áratugnum.
Fimmtudagur 28. 05. 15
Nýlega er lokið endurnýjun á tónleikasalnum við hið gamla heimili Griegs á Trollhaugen skammt utan við miðborg Bergen. Þetta er einstaklega fallegur salur sem lagar sig fullkomlega að náttúrulegu umhverfi og tengist vatninu fyrir neðan og komponisthúsinu, það er smáhýsi sem Grieg notaði til tónsmíða.
Í hádeginu í dag lék Eva Þórarinsdóttir fiðluleikari í þessum fagra sal í 60 mínútur við mikinn fögnuð áheyrenda. Eva er fulltrúi Íslands í keppni um Den norske solistpris en úrslit hans verða á laugardagskvöld sem hluti af Listahátíðinni í Bergen sem hófst í gær. Hér má sjá mynd frá tónleikunum.
Meðal þeirra sem standa að þessari solistakeppni er NRK2 undir merkjum þáttarins Hovedscenen. Hitti ég Arild Erikstad, stjórnanda þáttarins, fyrir tilviljun að tónleikunum loknum og náði að þakka honum margar ánægjustundir. Það virtist koma honum á óvart að NRK2 næðist á Íslandi. Arild Erikstad tók viðtal við Evu og birtist það vafalaust í þætti hans um keppnina.
Síðdegis sat ég fund hjá Kim Fordyce Lingjærde, ræðismanni Íslands, í skrifstofu hans í Bryggen, hinum gömlu Hansakaupamannahúsum í Bergen. Þar komu saman nokkrir einstaklingar sem hafa áhuga á að halda minningu Snorra Sturlusonar á loft og rækta tengsl við Ísland.
Um kvöldið lék síðan danskur kvartett í Hákonarhöll. Var eins og jafnan áður hátíðlegt að koma í hallarsalinn. Höllin og virkið við hana sprakk í loft upp árið 1944 með skipi hlöðnu sprengiefni í höfninni í Bergen. Hún var endurreist og lauk því verki formlega í september 1961 en einmitt þá kom ég þangað með foreldrum mínum í hinni frægu ferð Heklu þegar styttan af Ingólfi Arnarsyni var afhjúpuð í Rivedal.
Miðvikudagur 27. 05. 15
Í kvöld kl. 20.00 verður á ÍNN sýnt samtal mitt við Ágúst Þór Árnason, kennara við lagadeild Háskólans á Akureyri og forstöðumann heimskautaréttarseturs við skólann. Við ræðum meðal annars um Grænland og Grænlendinga en Dönum er ekki ljúft að missa landið.
Ágúst Þór skrifaði nýlega blaðagrein um hvort efna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi um rýniskýrslu ESB. Hann vísaði þar til þess að viðræðurnar við ESB um aðild Íslands sigldu í strand vorið 2011 þegar ESB skilaði ekki rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Ágúst Þór segir réttilega að tilgangslaust sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna nema tillögumenn um framhald viðræðnanna vilji breyta um stefnu Íslands í sjávarútvegsmálum í viðræðunum og laga hana að kröfum ESB.
Flokkarnir sem nú flytja tillögu á alþingi um að kosið skuli um framhald viðræðnanna voru á móti slíkri atkvæðagreiðslu um umsóknina sumarið 2009. Þá var unnt að leggja fyrir þjóðina spurningu um umsókn með hreint borð, ef svo má segja, það er hver og einn gat getið sér til um viðbrögð ESB og mælt með aðildarviðræðum eftir eigin hugmyndaflugi.
Nú er hins vegar ljóst að ekkert framhald verður á viðræðum nema þjóðin segi já og slegið verði af kröfunni um ráð yfir 200 mílunum, kröfunni um að Íslendingar semji um flökkustofna og að þeir einir eigi útgerðarfyrirtæki. Nálgist menn ekki málið af slíku raunsæi munu þeir vaða í villu og reyk eins og ríkisstjórn Jóhönnu gerði sumarið 2009. Ágúst Þór segir þá sem stóðu að umsókninni 2009 ekki hafa unnið heimavinnu sína – í Brussel þekki menn ekki umsókn um að „kíkja í pakkann“, hún sé hvergi til í bókum ESB.
Samtal okkar Ágústs Þórs verður frumsýnt kl. 20.00 – eftir það má sjá það hvenær sem er á flakkara Símans og á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun á ÍNN.
Þriðjudagur 26. 05. 15
Viðtal mitt við Lindu Rós Michaelsdóttur menntaskólakennara á ÍNN 20. maí er komið á netið og má sjá það hér. Þarna ræðum við skaðvænleg áhrif þess að skylda alla framhaldsskóla til að bjóða aðeins þriggja ára nám til stúdentsprófs. Þá er undarlegt að Menntaskólanum í Reykjavík skuli bannað að taka við nemendum úr 9. bekk grunnskóla en það sé leyft í Menntaskólanum á Akureyri. Hvað veldur?
Verði litlir framhaldsskólar úti á landi gerðir að annexíum stærri skóla leiðir það til upprætingar á þeim. Sjálfstæð málsvörn þeirra hverfur. Af fréttum má ráða að barátta um þetta sé hafin á norðaustur-landi. Á sínum tíma sagði skólameistari á Húsavík skorinort við mig: Lokir þú framhaldsskólanum hér rýfur þú brjóstvörn gegn atgervis- og byggðaflótta!
David Cameron, forsætisráðherra Breta, leggur nú land undir fót til að kynna stefnu stjórnar sinnar gagnvart ESB og undirbúning vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB, í síðasta lagi fyrir árslok 2017. Að lokum lendir þetta mál á borðinu hjá Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem leggur áherslu á þagmælsku og smáskref.
Hvað sem því líður hefur verið lekið til franska blaðsins Le Monde trúnaðargögnum sem sýna að Angela Merkel og François Hollande Frakklandsforseti hafa sammælst um að dýpka evru-samstarfið og auka miðstýringu á vettvangi þess. Þeim verður þetta auðveldara þegar Bretar fjarlægjast ESB og huga að eigin málum en ekki annarra. Þau vilja ekki neinar sáttmálabreytingar til að þóknast Bretum.
Í ljós kemur hverju verður klastrað saman í von um að David Cameron styðji áfram aðild Breta að ESB. Vegna forsetakosninga í Frakklandi vorið 2017 og þingkosninga í Þýskalandi haustið 2017 er allra hagur að viðræðum við Breta verði flýtt á ESB-vettvangi í um von um að þeir greiði þjóðaratkvæðið fyrir árslok 2016.
Sigur íhaldsmanna í Bretlandi veldur verulegum titringi innan ESB þótt allt sé gert til að yfirbragð samstarfsins sé sem best. ESB-andstæðingar sækja hart að Cameron innan hans eigin flokks og knúðu hann meðal annars til að ákveða að 1,5 milljón manna frá ESB-löndum utan breska samveldisins fengi ekki að taka þátt í atkvæðagreiðslunni – það þýðir að Maltverjar og Kýpverjar í Bretlandi mega kjósa þrátt fyrir ESB-aðild.
Mánudagur 25. 05. 15
Á vefsíðu Samfylkingarinnar segir að Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, sé „framkvæmdastýra“ Samfylkingarinnar. Hún stjórnar því daglegu starfi flokksins sem gerir tilkall til að teljast helsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Sérkennilegt er að þessa sé ekki getið þegar Þórunn eys úr skálum reiði sinnar yfir Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í fjölmiðlum.
Þórunn sagði í samtali við ríkisútvarpið laust fyrir miðnætti á hvítasunnudag að svo virtist sem forsætisráðherra áliti að BHM hefði ekki „sjálfstæðan samningsrétt“. Þessi undarlega skoðun er flokkspólitísk en ekki fagleg. Henni er lýst til að gera lítið úr ráðherranum og espa fólk gegn ríkisstjórn hans.
Leikriti formanns BHM var haldið áfram mánudaginn 25. maí, annan í hvítasunnu, á fundi hjá sáttasemjara ríkisins. Eftir þann fund sendi BHM frá sér fréttatilkynningu þar sem m. a. segir:
„Þar [á fundinum] kom skýrt fram að ummæli forsætisráðherra hefðu sett viðkvæmar kjaraviðræður í uppnám. Því fór formaður samninganefndar ríkisins af fundinum með það verkefni að fá svör við því hvort samninganefndin hefði umboð til að gera sjálfstæðan kjarasamning við BHM.“
Engum nema flokkspólitískum andstæðingum ríkisstjórnarinnar dettur í hug að láta eins og þeir hafi sent formann samninganefndar ríkisins heim til föðurhúsanna með svo vitlausa spurningu.
Forystumenn BHM eru álíka ráðvilltir og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sem vonaði að árás á forsætisráðherra dygði til að blása forystumönnum innan ASÍ verkfallsvilja í brjóst. Annað kom í ljós í dag – verkföllum var frestað í fimm daga. Að óreyndur formaður Verslunamannafélags Reykjavíkur ætli að leiða félagsmenn sína í verkfall með aðeins 14% stuðningi þeirra jafngildir ávísun á vantraust og upplausn,
BHM-forystan hefur staðið fyrir skæruhernaði með verkfallsaðgerðum sínum. Þær bitna á þeim sem síst skyldi og valda forystunni sjálfri nú sívaxandi vandræðum.
Almannatengsl inn á fréttastofu ríkisútvarpsins og reiðilestur yfir forsætisráðherra leysa ekki kjaradeilu BHM. Skynsamlegt skref til lausnar er að flytja stjórn verkfallsins af skrifstofu Samfylkingarinnar.
Sunnudagur 24. 05. 15
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, situr undir vaxandi ámæli innan eigin raða vegna þess hve sundurlyndi er þar mikið. Skortur er á samstöðu. Forystumenn einstakra félaga eða sambanda vilja leysa málin fyrir sinn hóp í stað þess að leiða hann út í verkfall. Innan Verslunarmannafélags Reykjavíkur vilja til dæmis aðeins 14% að stofnað sé til verkfalls til að knýja á um kjarasamninga. Þar situr óreyndur formaður sem sveiflast hefur í yfirlýsingum sínum um hvort stefni í rétta eða ranga átt í kjaraviðræðunum.
Hina sundruðu stöðu í baklandi ASÍ-forystunnar verður að hafa í huga þegar Gylfi sækir fram á völlinn í fréttum ríkisútvarpsins klukkan 18.00 sunnudaginn 24. maí og ræðst á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fyrir „að magna fram einhver mestu verkföll sem hér hafa verið í nær 40 ár“, hvorki meira né minna. Þá sýnist Gylfa „á öllu að honum [Sigmundi Davíð] takist að gera það ef hann heldur svona áfram“.
Hvað gerði Sigmundur Davíð? Hann kaus að hafa vaðið fyrir neðan sig og sagði í útvarpssamtali sunnudaginn 24. maí að leiddu kjarasamningar til aukins kostnaðar ríkissjóðs vegna verðbólgu þýddi það „einfaldlega“ að ríkið þyrfti meiri tekjur auk þess sem ríkið yrði að leitast við að slá á verðbólgu en ekki ýta undir hana.
Þetta var orðað á þann veg í fréttum ríkisútvarpsins að forsætisráðherra teldi koma til greina „að hækka skatta á almenning ef kjarasamningum lyki með miklum launahækkunum og verðbólga fylgdi í kjölfarið“. Allt eru þetta alkunn sannindi sem ættu síst af öllu að koma forseta ASÍ í opna skjöldu. Hann sagði hins vegar „fáheyrt að forsætisráðherra hóti fólki skattahækkunum, fylgi það eftir sínum hagsmunum, tveimur dögum áður en víðtök verkföll hefjist“. Gylfi sagði orðrétt: „Ég held að þetta hafi ekki gerst hér á Íslandi í marga marga áratugi og ég skil ekki hvers vegna forsætisráðherra er að gera þetta.“
Vissulega er vandasamt fyrir forsætisráðherra, hver sem hann er, að sigla á milli skers og báru á tíma eins og nú ríkir. Líklega er skynsamlegast fyrir Sigmund Davíð að segja sem minnst opinberlega um kjaramál á þessum viðkvæma tíma. Að ráðast á ráðherrann á þann veg sem forseti ASÍ gerði er hins vegar út í hött og skýrist aðeins af veikri stöðu Gylfa Arnbjörnssonar.
Laugardagur 23. 05. 15
Fyrir tæpu 31 ári lögðu starfsmenn ríkisútvarpsins niður vinnu. Það varð til þess að frjálsar útvarpsstöðvar komu til sögunnar og öllum varð ljóst að ríkisútvarpið var ekki ómissandi. Þetta kemur í hug núna þegar fréttir berast af ýmsum erfiðleikum sem verða vegna verkfalls opinberra eftirlitsmanna. Þeir eru jafnvel að endurtaka eftirlit sem unnið hefur verið annars staðar.
Tvöfalt eftirlit af þessu tagi innan EES er með nokkrum ólíkindum. Þar til fyrir skömmu var til dæmis tvöfalt vopnaeftirlit við komuna til Íslands frá Bandaríkjunum– annars vegar þegar menn fóru frá flugvelli í Bandaríkjunum og hins vegar þegar þeir komu til Keflavíkurflugvallar. Þessu tvöfalda eftirliti var hætt eftir að samið var um afnám þess milli Bandaríkjanna og ESB.
Hvers vegna skyldi til dæmis ekki mega flytja hunang til landsins án þess að opinber eftirlitsmaður setji stimpil sinn á það? Hefur það ekki þegar verið stimplað í öðru landi?
Opinber eftirlitsiðnaður hefur vaxið sér yfir höfuð. Hann er nú nýttur af opinberum starfsmönnum til að valda sem mestum usla í samfélaginu og þá kemur í ljós hve hann er víðtækur.
Föstudagur 22. 05. 15
Óskiljanlegt er hvernig starfsáætlun alþingis hefur orðið að ásteytingarsteini og látið er eins og um mikilsverð tíðindi sé að ræða að frá henni sé vikið. Hún er ekki annað en rammi utan um störf þingsins. Getið er um kjördæmavikur, nefndavikur, dagsetningar umræðna um fasta liði eins og venjulega í þingstörfum. Allt hefur þetta gengið eftir á þinginu sem nú situr annað en dagsetning fyrir eldhúsdagsumræður þar sem þingmenn gera hreint fyrir sínum dyrum í lok þings.
Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, hefur tilkynnt að eldhúsdagumræður frestist enda verði þinglok síðar en ætlað var. Ríkisstjórnin ætlar að leggja fram mikilvæg frumvörp sem tengjast afnámi fjármagnshafta.
Athygli beinist þó mest að því núna að minnihlutinn á alþingi vill ekki að þar sé rætt um virkjanir af því að það stangist á við það sem nefnt er rammaáætlun. Þar er um áætlun að ræða eins og starfsáætlun alþingis, áætlun sem hlýtur að lúta vilja alþingis sé um opinbert mál að ræða. Að láta eins og unnið sé skemmdarverk taki meirihluti alþingis ákvörðun um breytingar á þessari rammaáætlun og óhjákvæmilegt sé að setja störf alþingis í uppnám af þessum sökum er hrein firra.
Það er skiljanlegt láti stjórnarflokkarnir hjá líða að koma til móts við stjórnarandstöðuna vegna kröfugerðar hennar og árása á forseta alþingis. Vilji stjórnarandstaðan draga upp þessa mynd af alþingi og störfum þess á að leyfa henni það og halda fundi sólarhringum saman ef svo ber undir. Þetta var gert á þinginu 1991, sællar minningar.
Fimmtudagur 21. 05. 15
Framgangur stjórnarandstöðunnar á alþingi er á þann veg að æ fleirum verður ljóst að hún er með öllu ótæk til málefnalegs samstarfs þar sem virtar eru almennar leikreglur. Engu er líkara en runnið hafi á stjórnarandstæðinga æði sem mótast af fylgisaukningu Pírata. Þeir sækja illa fundi þingnefnda og taka helst ekki afstöðu til mála í atkvæðagreiðslum af því að þeir hafa ekki kynnt sér þingmálin. Rökrétt skref fyrir þá sem líta þingstörf þessum augum er að standa í ræðustól og tala ekki um annað en fundarstjórn forseta af því að þeir neita að hlíta henni.
Sjá má hér á dagbókarsíðunni að hinn 13. maí vitnaði ég til þess sem Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR), sagði við fréttamann ríkisútvarpsins daginn áður þegar hún taldi atvinnurekendur hafa veitt henni mikinn glaðning við samningsborðið.
Á ruv.is sagði einnig hinn 12. maæi 2015:
„Ólafía kveðst vera frekar bjartsýn. „Enda líka verðum við að vera það. Við verðum að fara að vinna þetta mál með þeim hætti að það leiði hér til einhverra samninga. Annað á bara ekki að vera í boði.““
Nú liggur fyrir að aðeins 14% félagsmanna VR veita Ólafíu umboð til verkfalls. Bjartsýni hennar um nýjan samning hvarf allt í einu eins og dögg fyrir sólu. Miðvikudaginn 20. maí var haft eftir Ólafíu á forsíðu Morgunblaðsins að atvinnurekendur hefðu hafnað tillögum verkalýðshreyfingarinnar, upp úr viðræðunum hefði slitnað. Samtök atvinnuveganna sögðu þetta rangt hjá Ólafíu.
Ætli Ólafía B. Rafnsdóttir og félagar að steypa umbjóðendum sínum í verkfall á þeim veika grunni sem við blasir í málflutningi þeirra og litlum verkfallsstuðningi innan einstakra félaga sannast enn sú kenning að hér sé ekki um annað en flokkspólitískar æfingar að ræða.
Vegna sundurlyndis ákvað Starfsgreinasambandið að fresta boðuðum verkföllum. Vilji Ólafía B. Rafnsdóttir halda VR sameinuðu að baki sér ber henni að semja en ekki ganga fram á völlinn með misvísandi yfirlýsingar sem eru til þess eins fallnar að gera illt verra.
Það er sama hvort litið er til alþingis eða verkalýðshreyfingarinnar, stjórnarandstæðingar heyja örvæntingarfulla baráttu án þess að nokkur sé nokkru nær um markmið þeirra – annað en að vera á móti og koma illu til leiðar.
Miðvikudagur 20. 05. 15
Í dag ræddi ég á ÍNN við Lindu Rós Michaelsdóttur, kennara við Menntaskólann í Reykjavík (MR). Tilefni þess að ég bað hana að koma í þáttinn til mín er ákvörðunin um að framhaldsskólanám eigi að vera þrjú ár. Á grundvelli hennar fær MR nú í síðasta sinn heimild til að rita inn nemendur í fjögurra ára nám til stúdentsprófs.
Mér er undrunarefni hve litlar opinberar umræður hafa orðið um þessa breytingu á framhaldsskólanum. Hún var vissulega til skoðunar þegar ég var menntamálaráðherra fyrir 20 árum. Við fyrstu sýn þótti mér hún góðra gjalda verð en snerist síðan hugur við nánari athugun vegna þess að ég taldi sveigjanleika og frjálsræði innan framhaldsskólans mikilvægara markmið. Að því sé kastað fyrir róða í þágu einsleitni er miður eins og rækilega kemur fram í samtali okkar Lindu Rósar.
Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 og er hann síðan á dagskrá á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun, þeir sem eru með flakkara Símans geta horft á hann hvenær sem þeir vilja eftir klukkan 20.00 í kvöld.
Þegar ég ræddi við Lindu Rós kom í hugann hve takmarkaðar opinberar umræður eru um þessar mundir um meginstefnuna í menntamálum. Fréttir berast um að ákvarðanir séu teknar um framtíð skóla í eigu ríkisins án þess að þeir sem hlut eiga að máli sem kennarar og nemendur hafi verið með í ráðum svo að ekki sé minnst á bæjar- eða sveitarstjórnir eins og kemur fram í umræðum um Iðnskólann í Hafnarfirði eða sameiningu skóla á norðurlandi eystra.
Þetta eru stórpólitískar ákvarðanir um fjölmenna opinbera vinnustaði. Þær ganga ekki upp án samráðs og samvinnu. Buslugangurinn í kringum Fiskistofu og flutning hennar ætti að vera ráðherrum og ráðuneytum víti til varnaðar.
Þriðjudagur 19. 05. 15
Í dag var efnt til málstofu í Norræna húsinu um öryggismál Norðmanna ég segi aðeins frá því sem þar kom fram á endurgerðri vefsíðu Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, vardberg.is og má lesa frásögn mína hér.
Páll Steingrímsson kvikmyndagerðarmaður skrifar í Morgunblaðið í dag 19. maí 2015:
„Hvar er komið smekk og dómgreind þeirra sem stýra Ríkissjónvarpinu? Hverjum dettur í hug að bjóða almennum áhorfanda upp á aulaklambur eins og Hraðfréttir? Það hefur stundum heyrst að dagskrá RÚV standist vel samanburð við útsendingar skandinavísku ríkisstöðvanna og annarra Vestur-Evrópu-stöðva. Ef það hefur einhvern tíma verið þá er það liðin tíð. Gelgjuklám og vandræðaklastur getur hugsanlega höfðað til einhverra, en það ristir grunnt og er lítið uppbyggjandi. Enn færa höfundarnir sig upp á skaftið, útsendingar fara í loftið, þar sem við er haft grófasta klám, eins og tíðkaðist á togurum og annars staðar þar sem menn voru krepptir af kynþörf. Hefur nokkurn tíma verið athugað hverjir horfa á Hraðfréttir? Það læðist að manni sá grunur að enginn njóti þeirra eins og höfundarnir. Hvað um það. RÚV er menningarstofnun og ætti ekki að ýta undir ómerkilegt hnoð. Ási í Bæ kallaði slíkt hjal „neðanþindarþrugl“ og fannst það ekki dýrt yrkisefni. Ekkert leikfélag mundi setja þetta á svið.“
Er nokkur von til þess að stjórnendur ríkisútvarpsins taki mark á þessari gagnrýni? Verður hún ekki afgreidd sem hvert annað nöldur? Stöð sem hefur ráð á að framleiða efni af þessu tagi er ekki á flæðiskeri stödd. Þarf hún að vera á framfæri skattgreiðenda?
Spyrja má til hvaða áhorfenda ríkissjónvarpið ætlar að höfða með þætti eins og Páll lýsir hér að ofan – sé það til ungs fólks mælir það ekki með dómgreind þeirra sem þættina gera eða ritstýra dagskránni. Hefur metnaði í dagskrárgerð verið ýtt til hliðar? Ekki er unnt að kenna peningaskorti um skort á dómgreind eða virðingu fyrir áhorfendum.
.
Mánudagur 18. 05. 15
Sérstakur saksóknari hefur krafist þungra refsinga yfir þeim sæta ákæru fyrir markaðsmisnotkun í Kaupþingi á árinu 2008. Þetta var bankinn sem ríkisstjórn og seðlabanki vildu reyna að bjarga í október 2008 þegar Glitnir og Landsbanki Íslands voru komnir á vonarvöl. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og aðrir sem fjölluðu sérstaklega um málefni bankanna á vettvangi ríkisstjórnarinnar töldu miklu skipta að einn öflugur viðskiptabanki lifði áfram.
Megi marka það sem fram hefur komið í réttarhöldunum sem staðið hafa undanfarna daga lifðu stjórnendur bankans í eigin blekkingarheimi og lögðu sig fram um að draga aðra inn í hann.
Magnús Guðmundsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, hefur hlotið dóm í Al Thani-málinu og situr enn í réttarsal. Hann hefur oftar en einu sinni talið það til marks um að farið sé offari í nafni réttvísinnar að í greinargerð í frumvarpi til laga um sérstakan saksóknara, sem ég flutti haustið 2008, sé talað um að „sefa reiði“. Að láta eins og það sé eitthvað óeðlilegt að lögum sé breytt eða þau sett í þessu skyni og til að skapa ró og öryggi í samfélaginu sýnir einkennilega afstöðu til lagasmíði eða lagasetningar.
Í greinargerð með frumvarpinu um sérstakan saksóknara var vitnað í ræðu sem ég flutti í Háskóla Íslands í tilefni 100 ára afmæli lagakennslu á Íslandi 17. október 2008 þar sem ég sagði meðal annars:
„Skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar. Þá er skilvirk og réttlát meðferð slíkra mála til þess fallin að efla lífsnauðsynlegt traust umheimsins í garð íslensks fjármálakerfis.
Á þessari stundu er ekki unnt að fullyrða neitt um það, hvort og hvernig fall bankanna kemur inn á borð þeirra, sem gæta laga og réttar.“
Að málum hafi verið hagað á þann veg innan Kaupþings sem nú er komið í ljós var utan þess sem mig gat grunað og á það vafalaust við um fjölmarga aðra. Það er skiljanlegt að þeir sem hlut áttu að máli vilji láta kyrrt liggja.
Sunnudagur 17. 05. 15
Þau ár sem ég sat í ríkisstjórn virtu allir ráðherrar þá reglu að stofna ekki til ágreinings á opinberum vettvangi um mál sem voru til afgreiðslu á vettvangi hennar. Þeir fóru eftir settum reglum til dæmis varðandi kostnaðarmat á vegum fjármálaráðuneytisins. Þessi regla virðist ekki lengur í gildi ef marka má framgöngu Eyglóar Harðardóttur velferðarráðherra vegna frumvarpa um húsnæðismál.
Fyrir nokkrum vikum greip velferðarráðherra til þess óvenjulega ráðs að senda orkubita í fjármálaráðuneytið og gaf þar með til kynna að embættismenn fjármálaráðherra skorti orku til að leggja mat á kostnað vegna frumvarpa hennar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir á ruv.is sunnudaginn 17. maí að ráðuneyti sitt geri ekki kostnaðarmat á frumvörpum sem enn séu að taka breytingum. Það eigi við um frumvarp Eyglóar um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt leiguhúsnæði.
Eygló Harðardóttir sagði í fréttum ríkisútvarpsins laugardaginn 16. maí að hún hefði hafnað ósk fjármálaráðuneytisins um að afturkalla frumvarpið. Á ruv.is hinn 17. maí segir:
„Bjarni segir ráðuneyti sitt ekki hafa farið fram vegna þess að efnislegar athugasemdir hafi verið gerðar við frumvarpið heldur sé það gert í samræmi við það verklag eða gera ekki kostnaðarmat fyrr en frumvarp er tilbúið. Það gildi um þetta mál eins og önnur að þau verði að vinnast í réttri röð.
Eygló sagði líka í fréttum í gær að fjármálaráðuneytið hefði sent drög að kostnaðarmati um húsaleigubótafrumvarpið og beðið væri eftir endanlegu kostnaðarmati frá ráðuneytinu. Bjarni segist ekki vita betur að kostnaðarmatið, sem hafi verið sent, hafi verið endanlegt.“
Fyrir þá sem fylgjast með því hvernig velferðarráðherra ræðir þessi mál er erfitt að henda reiður á efnisatriðum þeirra. Miðað við alla orkuna sem árum saman hefur farið í að finna heppilegt húsnæðiskerfi kemur mest á óvart hve oft menn virðast í raun á byrjunarreit – má minna á að Jóhanna Sigurðardóttir sat meira en 30 ár á þingi og húsnæðismálin voru hennar hjartans mál – samt má skilja umræður á þann veg að allt sé í kalda koli. Er það í raun svo?
Laugardagur 16. 05. 15
Þegar ekið er að bensínstöð og að minnsta kosti ein dælan er biluð og síðan hefur karlaklósettið verið lokað að því er virðist minnst í eina viku veltir maður fyrir sér hvort fyrirtækið sem á og rekur stöðina sé á fallanda fæti. Þetta er hvað sem öðru líður í andstöðu við ímyndina sem nokkurt þjónustufyrirtæki vill skapa sér. Þetta flaug í hug mér þegar ég yfirgaf Olís-stöðina á Selfossi þar sem seldur er góður ís.
Í Svínahrauni, skammt fyrir ofan Litlu kaffistofuna, eru bílhræ á stöpli sem ber tvo svarta krossa og inn í þá er rituð tala sem sýnir fjölda látinna í umferðarslysum ár hvert. Þess er vel gætt að færa inn nýja tölu við hvern sorgaratburð á vegunum. Um nokkurt skeið hefur þetta ekki verið gert á krossinn sem blasir við vegfarendum sem koma að austan. Líklega hefur óveður í vetur skemmt krossinn þar. Miðað við alúðina sem umsjónarmenn hafa jafnan sýnt því sem birtist á stöplinum kemur á óvart að ekki skuli gert við þennan kross.
Furðulegt hve túnin eru fljót að taka á sig grænan svip um leið og rignir. Raunar mátti frekar tala um skýfall austur í Fljótshlíð í dag. Jaðarkaninn er kominn og tekinn til við að kroppa fræ og skordýr við húsið. Þetta er örugglega sami fuglinn sem kemur ár eftir ár til að spígspora um túnblettinn og tylla sér á staura. Ratvísin er mikil, að finna ávallt rétta blettinn eftir flugið frá Bretlandseyjum.
Föstudagur 15. 05. 15
Erfitt er að fá botn í um hvað deilurnar á alþingi um rammaáætlunina snúast. Helst má ætla að þær séu um að alþingismenn hafi framselt vald um ákvarðanir varðandi nýtingu náttúruauðlinda eða vernd þeirra til nefndar manna utan þings og þess vegna megi þingnefnd ekki mynda sér skoðun á málinu eða leggja fram tillögu í eigin nafni. Sé þessi skilningur réttur gengur hann gegn hugmyndum um fulltrúalýðræðið og vald þeirra sem kjósendur velja til að fara með stjórn mála sinna. Hvert sækir nefnd um rammaáætlun umboð sitt? Hvar er það skráð í stjórnlög að alþingi megi ekki hrófla við niðurstöðum hennar?
Furðulegt er að stjórnarandstaðan setji öll störf alþingis í uppnám til að koma í veg fyrir að meirihluti alþingis geti fylgt fram máli sem í eðli sínu er rammpólitískt og stöðvun málsins sé vegna þess að það eigi að liggja í höndum sérfræðilegra ráðgjafa en ekki að lokum hjá þingmönnum. Upphrópanirnar og bægslagangurinn vekur grunsemdir um veikan málstað þeirra sem vilja hindra að alþingi taki afstöðu til málsins.
Í þingræðu í dag sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pirata, stærsta stjórnmálaflokksins ef marka má kannanir:
„Ég mótmæli dagskrá þingsins í dag. Ég mótmæli þessari forgangsröðun, ég mótmæli því að forseti setji í óþökk þingflokksformanna hér mál á dagskrá sem er stríðsyfirlýsing á svo viðkvæmum tímum þar sem stórir hópar í samfélaginu hafa fundið sig knúna til að fara og nýta sér verkfallsréttinn. Það er neyðarástand á Landspítalanum, það er neyðarástand víða um land. Og í staðinn fyrir að við finnum tíma til að finna einhverjar leiðir sem við getum veitt aðkomu að kjarabaráttunni, í gegnum skattleysismörk eða eitthvað annað, erum við hér að karpa um eitthvað sem á ekki að karpa um því að það er búið að setja ramma og ramminn skal standa, forseti.“
Þetta er dæmigerð málþófsræða. Ræðumaður telur brýnna að ræða eitthvað annað en hann ræðir. Hver knýr Birgittu Jónsdóttur til að tala um eitthvað allt annað en hún vill ræða?
Fimmtudagur 14. 05. 15
Þáttur minn á ÍNN frá í gær þar sem ég ræði við Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjón á Suðurnesjum, er kominn á netið og má sjá hann hér.
„Trúir fólk því í alvöru að verðbólga verði 2,5% til lengdar þegar laun eru að hækka um tugi prósenta?“ spurði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, við kynningu á vaxtaákvörðun peningastefnunefndar miðvikudaginn 13. maí.
Sagt er frá ummælunum í Morgunblaðinu í dag og þau eru borin undir Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, sem sagði að gagnrýni frá seðlabankanum á launakröfur „vinnumarkaðarins“ eins og segir í blaðinu væri „ekki ný af nálinni“ og hann vísaði henni á bug með þessum orðum:
„Það er dálítið skrítið að heyra þetta núna. Þetta hefur verið í gangi síðan í mars í fyrra. Ekki heyrðist mikið í Seðlabankanum á meðan ríki og sveitarfélög sömdu við hluta sinna starfsmanna um svona hækkanir. Það er of seint í rassinn gripið hjá bankanum að fara að vekja þetta mál upp núna.
Bankinn hefur alltaf sagt að ef allir sitji hjá þá sé það allt í lagi. Það er veruleiki sem hann getur talið sér trú um að sé til einhvers staðar, ég þekki ekki þann veruleika. Þetta er þá einhver staða sem stjórnvöld hafa komið okkur í. Almennt launafólk er ekki tilbúið til að axla þennan kaleik eitt. Hafi Seðlabankinn haft af þessu áhyggjur þá finnst mér það heldur seint fram komið.
Ef bankinn ætlar að verða trúverðugur þá væri mjög gott ef hann væri samkvæmur sjálfum sér. Það hefur hann ekki verið á undanförnum árum. Ég sé ekki neina breytingu á því.“
Þetta eru furðulega illskeytt viðbrögð við ábendingu frá þeim sem er skylt að líta á fjármálastöðugleika og segja álit sitt á hvert stefnir í þjóðarbúskapnum. Boðskapur Gylfa um að allt færi hér til betri vegar ef gengið yrði í ESB hefur oft verið undarlegur og innantómur. Þá hefur hann lengi talað niður krónuna eins og það sé eitthvað náttúrulögmál að hún veikist, staðreynd er að hún sveigist, bognar og brotnar undan álagi á hana af þeim sem tala eins og Gylfi gerir í hinum tilvitnuðu orðum. Allt er einhverjum öðrum að kenna er hann þó í forystu fyrir öðrum aðilanum sem nú hefur í hendi sér að gera kjarasamning sem setur ekki allt á annan endann.
Miðvikudagur 13. 05. 15
Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt á ÍNN viðtal mitt við Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjón og stjórnanda flugstöðvardeildar embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum. Undir Jón Pétur fellur dagleg stjórn landamæravörslu, þá er hann varamaður í stjórn Frontex, Landamærastofnunar Evrópu, auk þess sem hann fór sem háseti um borð í varðskipið Tý á Miðjarðarhafi fyrir nokkrum mánuðum. Það er því nóg um að ræða. Samtalið er endursýnt á tveggja tíma fresti. Þeir sem eru með tímaflakk Símans geta horft á það þegar þeim hentar.
Í hádegisútvarpi ríkisins þriðjudaginn 12. maí sagði að Samtök atvinnulífsins (SA) hefðu þá um morguninn lagt fram tilboð í viðræðum við stærsta samningahóp launafólks, 55 þúsund manns, þar á meðal Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR). Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagði við fréttastofuna:
„Fundurinn gekk bara ágætlega í morgun og menn eru bara opnir og jákvæðir fyrir því að skoða þetta tilboð sem að SA hefur lagt fram. Og vonandi náum við eftir daginn í dag að koma með einhverjar ábendingar sem við skilum bara inn í fyrramálið. Já, það er bara ýmislegt í þessu sem að við viljum skoða og horfum á með jákvæðum hætti og síðan er bara að sjá hvort að það virki þegar við erum búin að reikna þetta allt út, hvort að niðurstöðurnar eru jafnmyndarlegar og menn vilja vera láta. Það er ekki alveg víst að svo sé þegar við erum búin að reikna dæmið út til enda.“
Á ruv.is segir einnig:
„Ólafía kveðst vera frekar bjartsýn. „Enda líka verðum við að vera það. Við verðum að fara að vinna þetta mál með þeim hætti að það leiði hér til einhverra samninga. Annað á bara ekki að vera í boði.““
Í þessum orðum fólst of mikill samningsvilji að mati gamalreyndra verkalýðsforkólfa. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, sló á putta Ólafíu og sagði í kvöldfréttum að tillaga SA væri „hugleiðingar“. Hann taldi „nokkuð ljóst“ að „mikil vinna“ væri „eftir áður en menn eru búnir að finna einhvern enda í samning“.
Vonandi tekst verkalýðsforystunni að stilla saman strengi og koma í veg fyrir að metingur innan raða hennar bitni á launþegum og þjóðarbúinu.
Þriðjudagur 12. 05. 15
Þýski jafnaðarmaðurinn Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands, kom hingað í stutta heimsókn og flutti meðal annars erindi í Norræna húsinu mánudaginn 11. maí auk þess að ræða við blaðamenn. Samtöl hans vekja fleiri spurningar en þau svara.
Upphaf fréttar Karls Blöndals, aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins, um Roth er á þennan veg:
„Þýsk stjórnvöld harma að stjórn Íslands vilji ekki taka upp viðræður um aðild að Evrópusambandinu á ný, en virða um leið afstöðu íslenskra stjórnvalda. Þetta segir Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands, sem staddur er hér á landi.
Roth var spurður hvort þýsk stjórnvöld litu svo á að Ísland væri enn umsóknarríki. „Stjórn Íslands skrifaði Evrópusambandinu og aðildarríkjum þess bréf um að ríkisstjórn Íslands vildi ekki taka upp aðildarviðræður á ný,“ segir Roth. „Við hörmum þetta. Það hefði glatt mig verulega ef við hefðum getað leitt aðildarviðræðurnar til farsælla lykta. Auðvitað virðum við hins vegar afstöðu núverandi ríkisstjórnar.“
Roth sagði að það væri Íslendinga að átta sig á því hvers vegna ekki hefði tekist að ljúka viðræðunum í tíð fyrri ríkisstjórnar.“
Þetta svar bendir til þess að Evrópuráðherrann hafi ekki fengið réttar upplýsingar um stöðu ESB-málsins því að ástæðulaust er að ætla að hann fari vísvitandi með rangt mál. Þrjú atriði skulu nefnd:
Roth virðist ekki vita að ESB-viðræðurnar sigldu í strand vegna þess að ESB lagði ekki fram rýniskýrslu um sjávarútvegsmál.
Íslenska ríkisstjórnin ritaði ráðherraráði ESB bréf og tilkynnti að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki.
Íslendingar vita nákvæmlega hvers vegna hætt var að ræða við ESB um aðild. Fyrir frekari viðræðum er ekki nægilegur lýðræðislegur stuðningur meðal þjóðarinnar.
Það eykur ekki líkur á að áhugi á viðræðum við ESB aukist þegar talað er á þennan hátt um málið af sérfróðum þýskum stjórnmálamanni. Skýringin á ruglingslegum ummælum hans felst ef til vill í því að hann vilji hressa upp á flokkssystkini sín í ESB-flokknum á Íslandi, Samfylkingunni. Boðskapurinn fellur vel að því hvernig Samfylkingin vill þvæla þessu vonlausa baráttumáli sínu áfram. Að hlutast til um innlend málefni á þennan hátt mælist þó hvergi vel fyrir, hvað sem líður alþjóðasamstarfi sósíalista.
Mánudagur 11. 05. 15
Miðvikudaginn 6. maí ræddi ég á ÍNN við Eggert Skúlason, ritstjóra DV, um nýja bók hans: Andersen skjölin. Viðtalið má sjá hér.
David Miliband hefur gagnrýnt kosningabaráttu Eds, bróður síns, sem sagði af sér eftir að Verkamannaflokkurinn í Bretlandi tapaði kosningunum undir hans forystu í síðustu viku. David segir að flokkurinn hafði skaðast vegna þess að hann hafi ekki lengur staðið fyrir aspirition og inclusion.
Þetta eru orð sem gamlir samstarfsmenn Tonys Blairs nota nú til að skýra muninn á stefnu sinni og vinstri stefnunni sem setti svip sinn á flokkinn undir forystu Eds Milibands. Raunar segja þeir að rót ógæfu flokksins megi rekja til ársins 2007 þegar Gordon Brown tók við sem forsætisráðherra af Blair. David Miliband segir að fráleitt sé að skella skuldinni á kjósendur, þeir hafi ekki skilið boðskap flokksins. Þeir hafi einfaldlega ekki viljað það sem flokkurinn bauð þeim.
Í orðunum aspirition og inclusion felst að í boði sé stjórnmálastefna sem gefi kjósendum kost á að fullnægja metnaði sínum án þess að þeir séu litnir hornauga af samfélaginu. Á íslensku hefur í svipuðu samhengi verið talað um „jöfnuð upp á við“, að öllum sé gefið tækifæri til að njóta sín í krafti eigin vilja og dugnaðar. Boðskapur í þessa veru er greinilega eitur í beinum sósíalistanna í breska Verkamannaflokknum og víðar meðal öfgafullra vinstrisinna.
David Steel (77 ára) var leiðtogi Frjálslynda flokksins í Bretlandi frá 1976 til 1988 þegar flokkurinn breyttist í Frjálslynda lýðræðisflokkinn (Liberal Democrats). Hann birti grein í The Guardian í dag þar sem lýsir sex ástæðum fyrir því að Nick Clegg, fráfarandi formanni flokksins, mistókst að höfða til kjósenda. Hann hafi til dæmis farið alltof hratt í samsteypustjórn með Íhaldsflokknum eftir kosningarnar 2010 og án nægilegs samráðs við sér reyndari menn. Þá hafi það skaðað flokkinn að Clegg gegn stefnu hans um skólagjöld og snerist á sveif með Íhaldsflokknum.
Steel segist vona að meðal frjálslyndra takist mönnum að greina og ræða kosningaúrslitin án reiðinnar og illindanna sem einkenni umræður um málið innan Verkamannaflokksins.
Sunnudagur 10. 05. 15
Þegar hlustað er á sósíalistana sem sviptu Verkamannaflokkinn sigrinum í Bretlandi má einmitt heyra sömu sjónarmið og hjá þeim sem bíta í verkfallsrendurnar hér núna. Þessum öflum var hafnað í Bretlandi og skynsamir menn innan Verkamannaflokksins vilja einnig hafna þeim innan flokksins svo að hann haldi lífi.
Hér á landi er þetta fólk í fremstu röð innan Samfylkingarinnar, meira að segja í stöðu „framkvæmdastýru“ flokksins, megi marka vefsíðu hans. (Kannski er ekki meira að marka Samfylkingarsíðuna en t.d. síðu ESB þar sem Ísland er enn sagt meðal umsóknarríki?)
Laugardagur 09. 05. 15
Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af kosningasigri Íhaldsflokksins á Bretlandi og birti hann hér á síðunni. Traustið í garð breskra íhaldsmanna er reist á þeirri trú kjósenda að ríkisfjármálum og stjórn efnahagsmála sé betur komin í höndum þeirra en Verkamannaflokksins, einkum eftir að hann lenti í höndum sósíalista á borð við Ed Miliband.
Heiftin milli fylkinga innan Verkmannaflokksins sem hallast að mið-vinstristefnu annars vegar og sósíalisma hins vegar er mikil eins og sjá hefur mátt í sjónvarpsþáttum eftir kosningarnar. Þar rifust til dæmis tveir endurkjörnir þingmenn Verkamannaflokksins svo harkalega að varla er skiljanlegt að þeir sitja í sama þingflokki. Þetta stríð magnast næstu mánuði þar til nýr flokksleiðtogi verður kjörinn í september.
Í augum sósíalista er Tony Blair svo mikill skaðvaldur að þeir kenna honum enn um að Verkamannaflokkurinn tapar kosningum þótt hann hafi látið af störfum sem forsætisráðherra árið 2007 eftir 10 ára setu í embættinu. Þessi ágreiningur milli jafnaðarmanna (sósíal-demókrata) og sósíalista minnir á illindin milli jafnaðarmanna og kommúnista á árum áður.
Hér á landi varð þetta grautur í sömu skál þegar Samfylkingin kom til sögunnar fyrir 15 árum þótt vinstri-grænir gættu áfram arfleifðar sósíalista og kommúnista. Tilraunin með Samfylkinguna hefur misheppnast eins og best sannaðist þegar Björt framtíð kom til sögunnar. Eftir að ESB-aðildarmálið varð að engu hvarf límið endanlega úr Samfylkingunni. Forystusveit flokksins skiptist í tvo jafnstóra hópa án þess þó að málefnaágreiningur hafi verið opinberaður.
Nú ganga landskunnir rithöfundar fram fyrir skjöldu og vilja enn einu sinni einhvers konar vinstri uppstokkun hér. Hvort þeir gera þetta að eigin frumkvæði eða tilkvaddir er óljóst. Margrét Tryggvadóttir, fyrrv. alþingismaður, segir í bók sinni útistöðum að Gunnar Steinn Pálsson hafi ráðlagt þingmönnum Borgarahreyfingarinnar að leita til landskunns rithöfundar og biðja hann um að skrifa þingflokkinn frá Borgarahreyfingunni. Gekk það eftir. Skyldi Gunnar Steinn standa að baki greinaskrifum nú frá Samfylkingunni?
Föstudagur 08. 05. 15
Breski Íhaldsflokkurinn vann góðan sigur í þingkosningunum í gær og hlaut hreinan meirihlutara. Hann er sætari fyrir þá sök að skoðanakannanir, álitsgjafar og bloggarar höfðu spáð svipuðum úrslitum og fyrir fimm árum þegar enginn flokkur fékk umboð kjósenda til að mynda meirihlutastjórn og David Camereon myndaði samsteypustjórn með frjálslyndum.
Íhaldsflokkurinn fékk 330 þingmenn en Verkmannaflokkurinn 232. Þetta er minnsti þingmannafjöldi Verkamannaflokksins síðan 1987. Helsta skýringin á honum er algjört hrun flokksins í Skotlandi þar sem Skoski þjóðarflokkurinn hlaut 56 af 59 þingsætum. Þann ótrúlega árangur má rekja til reiði Skota í garð fyrrverandi forystumanna Verkamannaflokksins, Gordons Browns og Alistairs Darlings, sem beittu sér af hörku gegn sjálfstæði Skotlands í þjóðaratkvæðagreiðslunni 18. september 2014.
Fyrir hádegi í dag höfðu þrír flokksformenn sagt af sér vegna þeim hafði mistekist að tryggja flokkum sínum viðunandi úrslit: Ed Miliband í Verkamannaflokknum, Nick Clegg í Frjálslynda lýðræðisflokknum og Nigel Farage í UKIP, flokki sjálfstæðissinna. Allir fengu þeir og flokkar þeirra höfnun af hálfu kjósenda. Þegar Cameron ávarpaði þjóðina eftir að hafa rætt við drottningu og staðfest setu sína áfram sem forsætisráðherra fór hann hlýlegum orðum um Miliband og Clegg en minntist ekki á Farage.
Það segir sína sögu um kosningakerfið í Bretlandi að UKIP fékk um 13% atkvæða en aðeins einn þingmann en Skoski þjóðarflokkurinn fékk tæp 5% og 56 þingmenn.
Íhaldsmenn lögðu höfuðáherslu á að afla sér fylgis í kjördæmum þar sem sameina mátti krafta flokksmanna þeirra, frjálslyndra og UKIP til að fella frambjóðanda Verkamannaflokksins. Þetta var einkum gert með þeim rökum að hætta væri á samsteypustjórn Verkamannaflokksins og Skoska þjóðarflokksins.
Ken Livingstone, fyrrv. borgarstjóri Verkamannaflokksins í London, sagði úrslitin sanna þá kenningu sína að flokkurinn væri enn að súpa seyðið af fráhvarfi Tonys Blairs frá hefðbundinni stefnu Verkamannaflokksins í þágu vinnandi fólks. Ed Miliband hefði ekki farið nógu langt til vinstri með flokkinn. Hann væri hins vegar á réttri leið og ætti að halda áfram með enn róttækari stefnu. Miliband varð ekki við áskorun manna með þessa skoðun og sagði af sér frá og með deginum í dag en varaformaður flokksins leiðir hann fram að þingi hans haustið 2015.
Fimmtudagur 07. 05. 15
Samtal mitt á ÍNN frá 29. apríl við Arnar Þór Jónsson, lektor í lögfræði í Háskólanum í Reykjavík, er nú komið á netið og má sjá það hér.
Á netinu hafa undanfarið verið reifuð sjónarmið til að greina á milli hægri og vinstri á stjórnmálavettangi í ljósi fullyrðinga um vinstri slagsíðu í félagsfræði 303 í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hér verður ekki tekin afstaða til deilunnar en vitnað í það sem Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, hafði fram að færa. Hann sagði meðal annars:
„Ég hef ekki tekið eftir að dæmigerðir hægri (íhalds-) flokkar séu mikið að hafa áhyggjur af mannréttindum; áherslan er miklu fremur á þjóðaröryggi og varnir ýmis konar, þar á meðal til dæmis hleranir og „forvirkar rannsóknarheimildir“ sbr. Björn Bjarnason.“
Þetta er hrokafullur málflutningur. Hér á síðunni má sjá hvaða sjónarmið ég hef kynnt varðandi öryggismál og forvirkar rannsóknarheimildir. Að í orðum mínum felist óvirðing við mannréttindi er ekki annað en ómerkilegur, órökstuddur áróður.
Sé tekið mið af orðum Vilhjálms eru mestu hægrimenn Evrópu nú við völd í Frakklandi. Manuel Valls, forsætisráðherra sósíalista, flutti sjálfur frumvarp til laga um stórauknar forvirkar rannsóknarheimildir franskra njósna- og öryggisstofnana sem neðri deild franska þingsins samþykkti með miklum meirihluta sama dag og Vilhjálmur vildi lýsa sig og aðra sósíalista meiri mannréttindavini en hægri menn. Seinheppni forystumanna Samfylkingarinnar ríður ekki við einteyming.
Miðvikudagur 06. 05. 15
Í dag ræði ég við Eggert Skúlason, ritstjóra DV, í þætti mínum á ÍNN. Hann sendi nýlega frá sér bókina Andersen skjölin Rannsóknir eða ofsóknir? Margir álitsgjafar hafa gagnrýnt Eggert fyrir bókina, má þar nefna Egil Helgason, Þórð Snæ Júlíusson, Jón Trausta Reynisson og Pál Vilhjálmsson. Aðrir hafa hrósað henni og nefni ég þar sérstaklega Jón Magnússon hrl.
Egill gagnrýnir að Eggert segi rangt frá ýmsu varðandi Evu Joly og komu hennar til landsins. Þórður Snær segir á Kjarnanum: „Eitt megin einkenni skoðunar Eggerts á eftirhrunsárunum er að ákveðið pólitískt hólf álitsgjafa og stjórnmálamanna séu einhverskonar gerendur í þeim ofsóknum sem margir hafa orðið fyrir. Á meðal þeirra sem hann telur til eru Guðmundur Andri Thorsson, Þorvaldur Gylfason, Hallgrímur Helgason, Gylfi Magnússon, William Black og auðvitað ætluð forsetahjón múgæsingarinnar, þau Egill Helgason og Eva Joly.“
Jón Trausti gerir bókina tortyggilega vegna þess hverjir standa að Almenna bókafélaginu, útgefanda hennar. Páll Vilhjálmsson segir: „Myndin sem Eggert dregur upp af falli Gunnars [Andersens] er að þar fékk þrjóturinn makleg málagjöld. Eggert viðurkennir að verkefnið var að gera Gunnar að skúrki.“
Jón Magnússon segir: „Bókin er vel skrifuð og læsileg. Margar nýjar upplýsingar í bókinni sem eiga virkilega erindi í umræðuna í lýðræðisþjóðfélagi. En það er eðlilegt að þeir sem stóðu að hatursáróðrinum og glæpamannavæðingunni og lýstu Gunnari Anderssen sem „crime buster“ nagi sig nú í handarbökin þegar búið er að svipta af þeim fyrstu hulunni. Þær verða fleiri áður en yfir lýkur.“
Það er sem sagt af ýmsu að taka.
Samtalið má sjá kl. 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti. Þeir sem hafa tímaflakk Símans geta séð þáttinn hvenær sem þeir kjósa eftir kl. 20.00 í kvöld og í raun fram yfir helgina.
Þriðjudagur 05. 05. 15
Vilji menn meta hvort hugur fylgi máli hjá þeim sem nú bera ábyrgð á að leysa úr ágreiningi á launamarkaði er auðveldast að gera það með því að hlusta á hverjir láta oftast ljós sitt skína í fjölmiðlum og spá því að hörmungar séu í vændum verði ekki orðið við kröfum þeirra. Að sjálfsögðu verður ekki samið á öldum ljósvakans heldur þegar menn setjast niður með þeim ásetningi að leysa málin. Skyldi það gerast fyrr en almannatenglarnir hafa fengið það sem þeir telja sér bera fyrir sinn snúð?
Það er einkennileg skilgreining á frétt að eitthvað kunni að gerast sé ekki orðið við hótun um hitt eða þetta. Að sjálfsögðu er hér ekki um frétt að ræða heldur hræðsluáróður í því skyni að knýja viðmælanda til að ganga að kröfum. Kaupmáttur er mikill um þessar mundir og öruggasta leiðin til að grafa undan honum er kollsteypa í kjaraviðræðum.
Landsvirkjun hélt ársfund sinn í dag. Þegar sagt var frá því hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag að væntingar væru um tíu til tuttugu milljarða króna arðgreiðslur úr Landsvirkjun á ári taldi fréttamaður ástæðu til að bera það undir Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Hvers vegna? Jú, til þess að hann gæti hneykslast á þeim sem seldu ríkinu hlut borgarinnar í Landsvirkjun árið 2006. Sagðist Dagur B. hafa viljað fá hærra verð fyrir hana! „Hann [hluturinn] var seldur fyrir algjört smánarverð miðað við framtíðarverðmæti fyrirtækisins,“ sagði borgarstjóri enda hefðu sjálfstæðismenn farið með stjórn borgarinnar.
Þessi einhliða fréttamennska er með ólíkindum miðað við heiftina og öfundina sem ríkti hjá R-listanum í garð Landsvirkjunar og hvernig talað var niður til fyrirtækisins til að upphefja Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á kostnað þess, einmitt á árunum þegar óráðsían var sem mest hjá OR. Reykvíkingar og aðrir súpa enn seyðið af henni á sama tíma og Landsvirkjun skilar eiganda sínum vaxandi arði. Borgarstjóri ætti að þakka fyrir að Landsvirkjun hafi ekki flutt heimili sitt á brott frá Reykjavík heldur greiði þar enn skatta og skyldur.
Mánudagur 04. 05. 15
Sunnudagur 03. 05. 15
Úlfar hafa verið friðaðir innan ESB frá 1992. Nú óttast Torsten Nilsen, borgarstjóri í Viborg á norðurhluta Mið-Jótlands, að úlfar ógni börnum í bænum og byggðinni í kring. Vill hann að fengin verði heimild frá ESB til að skjóta úlfa í Danmörku.
Talið er að fimmtudaginn 30. apríl hafi úlfur verið á vappi nærri leikvelli barna í miðbæ Viborgar. Staðfest er að úlfur hafi sést skammt frá frístundarhúsi í útjaðri Randers fyrir austan Viborg.
Borgarstjórinn hefur sérstakar áhyggjur vegna þess að hann telur úlfa í Danmörku hafa sloppið úr úlfabúum og kunni þeir því ekki að bjarga sér eins og villtir úlfar og séu því hættulegri mönnum en ella væri. Þá segir hann að fjölgun úlfa í Danmörku úr einum árið 2012 í 19 árið 2015 kalli hættu yfir bústofn bænda.
Thomas Secher Jensen, sérfræðingur við Aarhus Universitet og Naturhistorisk Museum í Árósum, segir ótta borgarstjórans ástæðulausan. Bændur geti varið sauðfé sitt með girðingu sem kostuð sé af opinberum sjóði. Reynslan sýni auk þess að úlfar ráðist sjaldan á nautgripi. Þá segir hann að villtir úlfar flækist til Danmerkur, þeir séu því ekki eins varasamir og borgarstjórinn láti.
Frétt um þetta birtist í dag á vefsíðu Jyllands-Posten. Þar var nýlega birt myndband sem þýskur bóndi tók af úlfahjörð úr traktor sínum fyrir sunnan landamæri Þýskalands og Danmerkur.
Sérfræðingar við háskólann í Varsjá segja um 12.000 úlfa í 22 löndum í Evrópu. Talið er að úlfar úr skógum Póllands hafi lagt land undir fót til Þýskalands og þaðan til Danmerkur. Pólskar rannsóknir benda til þess að úlfar þarfnist stórs yfirráðasvæðis, 200 til 350 ferkílómetra. Í Svíþjóð telja menn að hver hjörð úlfa ráði yfir 1.000 ferkílómetra svæði.
Laugardagur 02. 05. 15
Síminn sendir beint út frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Á frönsku sjónvarpsstöðinni MezzoliveHD er klassísk tónlist í fyrirrúmi.
Í dag var Valkyrjan eftir Wagner í uppfærslu Metropolitan-óperunnar til dæmis sýnd þar og meðal þeirra sem sungu voru Siegmund: Jonas Kaufmann Sieglinde: Eva-Maria Westbroek, Hunding: Hans-Peter König, Óðinn: Bryn Terfel og Brynhildur: Deborah Voigt. James Levine stjórnaði en Robert Leparge annaðist uppsetninguna sem er ueinstaklega glæsileg. Á morgun má sjá Parsifal eftir Wagner á MezzoliveHD einnig í uppfærslu Metropolitan með Jonas Kaufmann í aðalhlutverki.
Þetta var útúrdúr. Útsendingarnar frá tónleikum sinfóníunnar í Hörpu hafa vakið þá spurningu hjá mér hvort heppilegt sé að hafa svartan lit á senugólfinu í Eldborg. Yfirbragðið verður mun drungalegra þegar mynd birtist af sviðinu en þegar gólf senunnar er með ljósum lit.
Salur tónlistarhússins í Luzern í Sviss, sem oft sést í Mezzo-stöðinni, er hvítur, sem er verri kostur en litur veggjanna í Eldborg. Í Luzern er ljós litur á senugólfinu og er bjartara yfir öllu þegar sést til hljómsveitarinnar en í Eldborg.
Síminn stundar nú tilraunasendingar frá sinfóníutónleikum. Sendingarnar á ekki aðeins að nýta til að huga að tækni heldur einnig umbúnaði á sviði og framgöngu hljóðfæraleikara og stjórnanda. Hér er að skapast ný vídd í starfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem ber að nýta á sama hátt og gert hefur verið hjá hljómsveitum í frábærum tónleikasölum annars staðar.
Föstudagur 01. 05. 15
Nú er tæp vika þar til Bretar ganga að kjörborðinu og talið er víst að hvorugur stóru flokkanna, Íhaldsflokkurinn eða Verkamannaflokkurinn, fái hreinan meirihluta. Spáð er samsteypustjórn að nýju. Tveggja flokka kerfið í Bretlandi gengur sér til húðar eins og margt annað í stjórnmálum líðandi stundar. Sterkasta þriðja stjórnmálaaflið er Skoski þjóðarflokkurinn (SNP). Sumir spámenn segja að hann sigri í öllum kjördæmum Skotlands. Það bitnar verst á Verkamannaflokknum þegar litið er til gamalgrónu flokkanna.
Í Frakklandi hefur kosningakerfið átt að tryggja að annað hvort sitji við völd sósíalistar og aðrir vinstrisinnar eða hægri- og miðjumenn. Þar eins og í Bretlandi hefur þriðja stjórnmálaaflið sótt í sig veðrið, Þjóðfylkingin, sem oftast er rætt um sem flokk lengst til hægri þótt margt í stefnu hans sé alls ekki dæmigert fyrir hægri flokk. Tveggja fylkinga kerfið hefur riðlast í Frakklandi, að minnsta kosti þegar kosið er til annars en sjálfs þjóðþingsins.
Víðar í Evrópu er hefðbundið mynstur stjórnmálanna í uppnámi og þurfum við ekki að fara út fyrir landsteinana til að kynnast því. Nýjasta könnun hér sýnir Pírataflokkinn með um 30% fylgi á kostnað allra annarra flokka sem hafa dregist langt aftur úr honum. Áminningin er alvarlegust fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, stjórnarflokkana. Fyrir utan að fara nú sameiginlega með stjórn landsins standa þeir auk þess dýpri rótum í stjórnmálasögunni en aðrir flokkar sem alla má í raun kenna við 21. öldinni sé litið til sögu þeirra.
Framsóknarmenn fagna 100 ára afmæli flokks síns á næsta ári þótt stefna flokksins sé nú allt önnur en þegar samvinnustefnan og Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) var þungamiðjan í starfi og stefnu flokksins.
Samhengið er mest í sögu Sjálfstæðisflokksins frá því að hann var stofnaður árið 1929 með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins um klassíska mið-hægri stefnu með áherslu á að stétt skyldi starfa með stétt og allir landsmenn njóta sín án tillits til búsetu samhliða baráttu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og heiðarleika: Gjör rétt þol ei órétt, var eitt af meginslagorðum flokksins.
Sjálfstæðisflokkinn hefur því miður borið af leið og ímynd hans skekkst. Þess sjást dapurlega lítil merki að innan hans sé rætt um leiðir til að rétta kúrsinn.