26.5.2015 19:00

Þriðjudagur 26. 05. 15

Viðtal mitt við Lindu Rós Michaelsdóttur menntaskólakennara á ÍNN 20. maí er komið á netið og má sjá það hér. Þarna ræðum við skaðvænleg áhrif þess að skylda alla framhaldsskóla til að bjóða aðeins þriggja ára nám til stúdentsprófs. Þá er undarlegt að Menntaskólanum í Reykjavík skuli bannað að taka við nemendum úr 9. bekk grunnskóla en það sé leyft í Menntaskólanum á Akureyri. Hvað veldur?

Verði litlir framhaldsskólar úti á landi gerðir að annexíum stærri skóla leiðir það til upprætingar á þeim. Sjálfstæð málsvörn þeirra hverfur. Af fréttum má ráða að barátta um þetta sé hafin á norðaustur-landi. Á sínum tíma sagði skólameistari á Húsavík skorinort við mig: Lokir þú framhaldsskólanum hér rýfur þú brjóstvörn gegn atgervis- og byggðaflótta!

David Cameron, forsætisráðherra Breta, leggur nú land undir fót til að kynna stefnu stjórnar sinnar gagnvart ESB og undirbúning vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB, í síðasta lagi fyrir árslok 2017. Að lokum lendir þetta mál á borðinu hjá Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem leggur áherslu á þagmælsku og smáskref.

Hvað sem því líður hefur verið lekið til franska blaðsins Le Monde trúnaðargögnum sem sýna að Angela Merkel og François Hollande Frakklandsforseti hafa sammælst um að dýpka evru-samstarfið og auka miðstýringu á vettvangi þess. Þeim verður þetta auðveldara þegar Bretar fjarlægjast ESB og huga að eigin málum en ekki annarra. Þau vilja ekki neinar sáttmálabreytingar til að þóknast Bretum.

Í ljós kemur hverju verður klastrað saman í von um að David Cameron styðji áfram aðild Breta að ESB. Vegna forsetakosninga í Frakklandi vorið 2017 og þingkosninga í Þýskalandi  haustið 2017 er allra hagur að viðræðum við Breta verði flýtt á ESB-vettvangi í um von um að þeir greiði þjóðaratkvæðið fyrir árslok 2016.

Sigur íhaldsmanna í Bretlandi veldur verulegum titringi innan ESB þótt allt sé gert til að yfirbragð samstarfsins sé sem best. ESB-andstæðingar sækja hart að Cameron innan hans eigin flokks og knúðu hann meðal annars til að ákveða að 1,5 milljón manna frá ESB-löndum utan breska samveldisins fengi ekki að taka þátt í atkvæðagreiðslunni – það þýðir að Maltverjar og Kýpverjar í Bretlandi mega kjósa þrátt fyrir ESB-aðild.