Dagbók: nóvember 1997
Sunnudagur 30.11.1997
Um kvöldið vorum við Rut flytjendur á aðventukvöldi í Víðistaðakirkju í Hafnarfirðu, hún lék á fiðlu sína og ég flutti ræðu .
Laugardagur 29.11.1997
Þennan dag var flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins haldinn að Hótel Sögu, en slíka fundi sækja álíka margir eða fleiri og sitja landsfundi annarra stjórnmálaflokka. Fyrir hádegi var rætt um sjávarútvegsmál og sat ég fundinn síðdegis. Sátum við ráðherrar flokksins fyrir svörum fundarmanna.
Laugardagur 29.11.1997
Síðdegis fórum við á madrigala-tónleika Hamrahlíðarkórsins í Listasafni Íslands
Föstudagur 28.11.1997
Um hádegisbilið flugum við Ásdís Halla og Árni Johnsen með Flugfélagi Íslands til Vestmannaeyja. Var tvísýnt um, hvort veður leyfði ferðina. Í Eyjum heimsóttum við Framhaldsskólann, grunnskólana og Listaskólann auk þess sem efnt var til almenns fundar um mennta- og menningarmál. Fórum við síðan með vél frá Flugfélagi Vestmannaeyja til Selfoss og vorum komin heim um níuleytið
Fimmtudagur 27.11.1997
Klukkan 11 hófst fundur með skólameisturum framhaldsskóla af landinu öllu, en til þeirra er efnt tvisvar á ári. Er þar farið yfir sameiginleg mál og samskipti við ráðuneytið. Ég fór beint af skólameistarafundinum á Grand hótel, þar sem þá var hafið málþing um stráka í skólum, sem Karlanefnd jafnréttisráðs efndi til í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Sóttu um fimm hundruð manns þingið, sem sýnir, að hér er á ferðinni málefni, sem vekur almennan áhuga. Um kvöldið fórum við Rut í Borgarleikhúsið og sáum okkur til ánægju sýningu Íslenska dansflokksins á Trúlofun í St. Dómingó.
Miðvikudagur 26.11.1997
Klukkan 17 efndi málefnanefnd Sjálfstæðisflokksins um upplýsingamál til málþings um tölvunarfræðslu. Var þetta fróðlegur fundur, sem snerist um það, hvernig skólakerfið getur brugðist með markvissum hætti við nýjungum og svarað breyttum kröfum. Um kvöldið fór ég í Laugardalshöllina og sá landsleik Íslands og Hollands í körfuknattleik. Var hann skemmtilegur og stóðu okkar menn sig með prýði, þótt ekki tækist þeim að sigra.
Þriðjudagur 25.11.1997
Klukkan 17 fór ég í Apple-búðina og tók þar þátt í útgáfuhátíð geisladisksins eða marmiðlunarbókarinnar Stafakarlar eftir Bergljótu Arnalds en þar er að finna gagnvirka sögu, sem er hugvitsamlega samin og gerð.
Mánudagur 24.11.1997
Mér brá þegar ég sá fyrirsögn á viðtali við konu í Degi, að hún væri eins og Björn Bjarnason. Við nánari athugun kom í ljós, að hún hafði gaman að því eins og ég að horfa á spennumyndir á borð við Die Hard. Þetta mánudagskvöld skaust ég í Kringlubíó og sá vel gerða lögreglumynd frá Los Angeles. Minnti andrúmsloftið á það, sem mátti kynnast í sögum Raymonds Chandlers, þótt blóðsúthellingarnar væru meiri þarna en hjá honum.
Sunnudagur 23.11.1997
Sunnudaginn 23. nóvember klukkan 13.30 var séra Karl Sigurbjörnsson vígður til biskups yfir Íslandi í mikilli athöfn í Hallgrímskirkju. Vorum við Rut komin í kirkjuna um 13.15 og hún var rétt fyrir 16.00, þegar við gengum út úr henni og sýnir það eitt, hve umfangsmikil athöfnin var. Gaf það henni nýtt yfirbragð, að hún skyldi fara fram í Hallgrímskirkju. Þótt ég skilji vel áhuga Dómkirkjumanna á því að halda fram hlut sinnar kirkju og tel rök þeirra mæla með því, að slíkar athafnir fari þar fram, gefur valið á Hallgrímskirkju færi á að hefja athöfn sem þessa upp í annað veldi, ef ég má orða það svo. Glaður var ég, að sjá vin minn séra Þóri Stephensen í kór Hallgrímskirkju með öðrum prestum, því að ég heyrði hann flytja í útvarp sannfærandi rök fyrir hönd Dómkirkjunnar og lýsa efasemdum um, að sér gæfist færi á að taka þátt í vígsluathöfninni vegna anna í Viðey. Þegar mikill mannfjöldi kemur saman til stórhátíðar í stórri kirkju eins og Hallgrímskirkju skapast einstakt andrúmsloft og er ánægjulegt, að við höfum nú aðstöðu til að kynnast kraftinum, sem í felst í þessum hátíðum með aðstoð stórorgels og frábærra tónlistarmanna og kóra. Það hefur gildi í sjálfu sér að nýta sér slíka aðstöðu, þótt virða beri trúarlegar og sögulegar hefðir.
Laugardagur 22.11.1997
Laugardag 22. nóvember sótti ég þann hluta málþings um Kristni í þúsund ár, sem snerist um hlut Þingvalla.
Föstudagur 21.11.1997
Föstudag 21. nóvember var efnt til lokaðs málþings í menntamálaráðuneytinu um samræmd próf og setti ég það með ræðu .
Miðvikudagur 19.11.1997
Miðvikudagskvöld 19. nóvember fórum við Rut á gestaleiksýningu frá Litla leikhúsinu í Vilníus og Þjóðleikhúsinu í Litháen á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Var þetta glæsileg sýning á Grímudansleiknum - Maskarad eftir Mikhaíl Lermontov.
Laugardagur 1.11.1997
Klukkan 10 hófst Íþróttaþing í nýjum og glæsilegum sal í Grand hótel. Var hann þéttsetinn enda fyrsta þing hins nýja Íþrótta- og ólympíusambands Íslands. Flutti ég þar ávarp.