27.11.1997 0:00

Fimmtudagur 27.11.1997

Klukkan 11 hófst fundur með skólameisturum framhaldsskóla af landinu öllu, en til þeirra er efnt tvisvar á ári. Er þar farið yfir sameiginleg mál og samskipti við ráðuneytið. Ég fór beint af skólameistarafundinum á Grand hótel, þar sem þá var hafið málþing um stráka í skólum, sem Karlanefnd jafnréttisráðs efndi til í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Sóttu um fimm hundruð manns þingið, sem sýnir, að hér er á ferðinni málefni, sem vekur almennan áhuga. Um kvöldið fórum við Rut í Borgarleikhúsið og sáum okkur til ánægju sýningu Íslenska dansflokksins á Trúlofun í St. Dómingó.