Dagbók: apríl 2007

Mánudagur, 30. 04. 07. - 30.4.2007 22:02

Í dag 30. apríl eru rétt 16 ár frá því að Davíð Oddsson myndaði fyrsta ráðuneyti sitt og síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með forystu landsmála. Er þetta glæsilegasta framfaraskeið Íslandssögunnar.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sat fyrir svörum í Kastljósi í kvöld. Spyrlar héldu sig við þá furðulegu spurningatækni að hafa þann formála að flestum spurningum sínum, að nú hefði Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í 16 ár og samt ætti eftir að gera þetta eða hitt. Hefðu þeir spurt um hið sama fyrir 16 árum, eða 4 árum og þeim er efst í huga núna? Að sjálfsögðu ekki. Viðfangsefnin hafa breyst og eiga í raun ekkert skylt við, hvort flokkur hafi verið 16 ár í stjórn eða bara eitt ár.  Styrkur Sjálfstæðisflokksins felst ekki í því, hve lengi honum hefur verið treyst til forystu, heldur hve vel hefur tekist til við stjórn landsins undir forystu flokksins.

Ég skil ekki, hvers vegna Halldóri Ásgrímssyni er svona illa við EES-samninginn og hvers vegna hann sér ástæðu til þess að vera að hallmæla honum enn einu sinni. Samningurinn hefur dugað okkur Íslendingum mjög vel og hann er í fullu gildi. Nöldur í garð hans eða tal um að enginn viti um tilvist hans breytir engu um mikið gildi hans fyrir okkur og aðra aðila hans. Samingurinn er sérstakur að því leyti, að hann staðnar ekki.

Myndin Good night, Good luck um Ed Murrow hjá bandarísku CBS-sjónvarpsstöðinni og átök hans við Joe McCarthy í upphafi sjötta áratugarins sýnir, að við suma menn þýðir ekki að eiga orðastað en hins vegar hefur áhrif að vekja athygli á starfsaðferðum þeirra. Þá opnast augu manna. Kristján Albertsson beitti þessari aðferð á sínum tíma í baráttunni við Jónas frá Hriflu. Aðferðin dugar best, þegar tekist er á um mál, sem einkennast af ofstækisvilja.

Sunnudagur, 29. 04. 07. - 29.4.2007 18:21

Stundum hef ég vakið athygli á skoðunum Björgvins G. Sigurðssonar, frambjóðanda Samfylkingar í suðurkjördæmi, hér á síðunni. Björgvin segir á vefsíðu sinni hinn 25. apríl:

„Íslandsferðin

Hún lifir eftir landsfund heimsókn þeirra Sahlin og Helle til landsins. Ekki efast ég um að heimsóknin gerði gagn.

Hleypti krafti í baráttu jafnaðarmanna og gerði glæsilegan landsfund ennþá flottari og betri.

En ekki þá síður fyrir Monu Sahlin formann sænskra jafnaðarmanna. Eftir Íslandsferðina mælist fylgi Monu og sænskra jafnaðarmanna nú um 44%.

Það mesta í 12 ár og meira en fylgi allra hægri flokkanna sem stjórnina sænsku mynda samanlagt.

Góð reisa það hjá Mohnu. En að öllu gamni slepptu fer þetta vel af stað hjá henni.

Ríkisstjórn hægri manna í Svíþjóð nær ekki vopnum sínum og fara illa með fjöreggið sem er sænska velferðin. Líklega eitt af merkustu afrekum mannsins.“

Ég hélt, þar til ég las þessa hátíðarhugvekju til stuðnings Mohnu, að hún hefði komið hingað til að styrkja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar. Það er greinilega misskilningur, Samfylkingin var að leggja sænskum krötum lið með því að bjóða Mohnu á landsfund sinn.

Í orðum Björgvins brýst þráin eftir „sænsku velferðinni“ fram af heitri ástríðu, þegar henni er lýst sem einu „af merkustu afrekum mannsins“, hvorki meira né minna. Hvers vegna skyldi Björgvin ekki láta sér nægja að gera íslenska kerfið enn betra í stað þess að vilja skipta því út fyrir hið sænska?

Laugardagur, 28. 04. 07. - 28.4.2007 22:03

Með ólíkindum er að hlusta á vangaveltur í þá veru, að með samkomulaginu við Norðmenn um, að orrustuflugvélar þeirra geti athafnað sig á Keflavíkurflugvelli, sé verið að stíga svipað skref og gert var með Gamla sáttmála árið 1262. Þá er einnig einkennilegt að heyra, að það geti kostað Íslendinga mörg hundruð milljónir að standa við sinn hluta samkomulagsins.

Hvort þessi misskilningur allur á uppruna sinn í norskum eða íslenskum fjölmiðlum, veit ég ekki. Hitt er ljóst, að með vísan til brottfarar varnarliðsins og þó sérstaklega bandaríska flughersins, hafa vaknað spurningar um, hver fyllti tómarúmið eftir bandarísku orrustuvélarnar í íslenskri lofthelgi.

Hermálanefnd NATO var hér á ferð í dymbilvikunni og þá var látið í veðri vaka, að hún myndi fljótt, og jafnvel fyrir páska, taka af skarið um afstöðu sína til öryggisgæslunnar í lofti. Af Morgunblaðinu í morgun mál helst ráða, að innan NATO sé þetta mál enn í lausu lofti.

 

 

 

 

Föstudagur, 27. 04. 07. - 27.4.2007 13:49

Útskrifaður - Bjarni Torfason, skurðlæknir, sagði mig útskrifaðan í morgun, eftir að hann skoðaði mynd af lungunum mínum. Aðgerð hans heppnaðist með öðrum orðum eins vel og vænta mátti og nú er það mitt verkefni að ná þrekinu aftur stig af stigi og án þess að ætla mér um of.

Eftir að hafa verið á sjúkrahúsinu og rætt við Bjarna, fór ég í ráðuneytið og efndi til fundar með fáðuneytisstjóra og skrifstofustjórum eins og ég er vanur að gera á föstudögum. Ég verð að gæta þess, að fara ekki of hratt af stað.

Í DV í dag birtist viðtal Hjördísar Rutar Sigurjónsdóttur við mig, en það tók hún sl. þriðjudag. Hún lætur þess einmitt getið, að það ráðist í dag, hvort ég verði endanlega útskrifaður.

Fimmtudagur, 26. 04. 07. - 26.4.2007 21:50

Í dag var ritað undir samkomulag um öryggismál við Norðmenn og Dani í tengslum við utanríkisráðherrafund NATO-ríkjanna í Ósló. Valgerður Sverrisdóttir ritaði undir fyrir Íslands hönd en utanríkisráðherrar Dana og Norðmanna fyrir hönd ríkja sinna.

Framkvæmdin á þessu samstarfi tekur að sjálfsögðu mið af því, að við Íslendingar ráðum ekki yfir eigin herafla og leggjum ekki annað af mörkum en land og aðstöðu. Þá er rætt um að kostnaður vegna heræfinga lendi á okkar herðum, án þess að sagt sé, hve hann geti verið hár. Okkar er að sjálfsögðu að sjá um nægilegt öryggi á Keflavíkurflugvelli til að hervélar geti athafnað sig á vellinum. Utanríkisráðuneytið annast þennan þátt af framkvæmd samkomulagsins.

Samstarfið byggist á fleiru en aðstöðu fyrir hervélar þessara landa, því að gert er ráð fyrir því, að embættismenn og sérfræðingar hittist og beri saman bækur sínar auk þess sem samvinna verði efld milli lögreglu og landhelgisgæslu auk þess sem litið verði til samstarfs um almannavarnir. Þetta er borgaralegt samstarf á milli stofnana landanna, sem er þegar fyrir hendi, en mun aukast á grundvelli þessara pólitísku viljayfirlýsinga.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, er eins og í öðrum heimi, þegar hann vill þurrka út allt hernaðarlegt samstarf við aðrar þjóðir. Að sjálfsögðu er það út í hött, en samstarfið er sérkennilegt af okkar hálfu, þar sem íslensk stjórnvöld ráða ekki yfir neinum stofnunum, sem sinna hernaðarlegum verkefnum. Á hinn bóginn hefur markvisst verið unnið að því síðustu misseri að efla lögreglu og landhelgisgæslu til að takast á við ný og aukin verkefni.

Að bera samkomulagið við Norðmenn og Dani saman við varnarsamninginn við Bandaríkjamenn er fráleitt - hvorki Danir né Norðmenn ábyrgjast varnir Íslands á hættutímum og á vegum herstjórna þeirra verða ekki gerðar áætlanir um, hvernig verja skuli Ísland.

Miðvikudagur 25. 04. 07. - 25.4.2007 21:39

Reykjavík suður var í brennidepli á Stöð 2 í kvöld og kom á óvart, að fylgi Sjálfstæðisflokksins var samkvæmt könnun félagsvísindastofnunar sagt um 10% minna, eða um 32%, en hjá Gallup fyrir fáeinum dögum. Að sjálfsögðu hafði enginn neina skýringu á þessari sveiflu.

Í tilefni þáttarins höfðu íbúar í Reykjavík suður verið spurðir um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og framtíð hans og vildi meirihlutinn um 52%, að hann yrði kyrr á sínum stað. Snerust umræðurnar við efstu menn á framboðslistunum að verulegu leyti um niðurstöður þessarar könnunar, sem getur þó varla þótt nokkrum tíðindum sæta í aðdraganda þingkosninganna, þar sem ekki er deilt um framtíð flugvallarins, enda verður hann á sínum stað til 2016.

Eiríkur Guðmundsson flutti ávarp í upphafi Víðsjár á rás 1 og sagði kosningabaráttunni þegar lokið, það væri ekki deilt um neitt og ekki annað rætt en úrslit skoðanakannanna. Ég átta mig ekki á því, hvernig Eiríkur telur, að kosningabaráttan eigi að vera - hitt er víst, að í þáttum í sjónvarpi og útvarpi eru það stjórnendur og fréttamenn, sem gefa tóninn og slá taktinn. Einfaldast er auðvitað að ræða um niðurstöður nýjustu könnunar eða taka eitthvert mál, sem er óleyst á líðandi stundu, og láta eins og það sé hneyskli, að úr því hafi ekki verið greitt fyrir 16 eða 12 árum.

Hvoru tveggja skilar jafnlitlu fyrir kósandann. Kosningabaráttunni er auðvitað ekki lokið og kannski nær hún sér á strik, það er þó mest undir stjórnarandstöðunni komið, sem hlýtur að vilja rugga bátnum, að sjálfsögðu þvert á vilka þeirra, sem sitja í ríkisstjórn.

Þriðjudagur, 24. 04. 07. - 24.4.2007 18:18

Sjálfstæðisflokkurinn opnaði nýja og fagmannlega gerða vefsíðu í dag og verður spennandi að fylgjast með því, hvernig hún nýtist í kosningabaráttunni. Ég las í Le Monde, að í fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi hefðu blogg-síður og bloggarar skipt miklu. Mest áberandi fyrir aftan þá Sarkozy og Bayrou, þegar þeir ávörpuðu kjósendur, eftir að úrslit voru kunn, voru vefsíðuheiti þeirra þeirra - sarkozy.fr er vefsíða forsetaefnisins.

Ég átta mig ekki á því, hvort skipulega sé fylgst með notkun netsins í aðdraganda þingkosninganna hér. Þetta hlýtur þó að verða orðin ný vídd í fjölmiðla- og stjórnmálafræði hér eins og annars staðar.

Norskir fjölmiðla gera mikið úr samkomulagi við okkur Íslendinga um öryggismál. Þeir gefa til kynna, að norski flugherinn telji sig geta dýpkað og stóraukið umsvif sín á N-Atlantshafi.  Við skipulag á Keflavíkurflugvelli eftir brottför varnarliðsins hefur verið gert ráð fyrir sérstöku öryggissvæði á vellinum, þar sem aðstaða verður fyrir herflugvélar að athafna sig.

Við leggjum eins og áður fram land og aðstöðu, þegar um hernaðarlegt samstarf við aðra þjóð er að ræða. Lengra verður ekki gengið af okkar hálfu, þar sem lög heimila íslenskum stjórnvöldum ekki að stunda hernaðarlega starfsemi. Gagnkvæmt samstarf af hálfu íslenskra stofnana á sviði öryggismála við stofnanir annarra ríkja er á borgaralegum grunni,  það er við lögreglu og strandgæslu, svo að dæmi séu tekin.

Engu var líkara af fréttum sjónvarpsins en að nýnæmi fælist í samstarfi við danska flotann. Þetta samstarf hefur verið náið um langt árabil og við Sören Gade, varnarmálaráðherra Dana, veittum því nýjan pólitískan grundvöll með samkomulagi, sem ritað var undir 11. janúar 2007.

Ég fjallaði meðal annars um samstarf okkar í öryggismálum við aðrar þjóðir í ræðu á fundi SVS og Varðbergs 29. mars en athygli fjölmiðla og stjórnmálamanna beindist einkum að fáeinum orðum í ræðunni um nauðsyn varaliðs.

Ánægjulegt er að heyra fulltrúa allra flokka fagna eflingu háskólastarfsemi í landinu í sjónvarpsumræðum í kvöld. Það þótti alls ekki sjálfsagt á sínum tíma að veita það frjálsræði í háskólastarfsemi, sem ég beitti mér fyrir sem menntamálaráðherra. Nemendum hefur fjölgað úr 7000 í 18.000 á um einum áratug.

Mánudagur, 23. 04. 07. - 23.4.2007 21:58

Sagan geymir dæmi um, að fyrir kosningar hafi stjórnmálamenn nefnt ákveðna hundraðstölu um væntanlegt fylgi og sagt, að næðu þeir ekki þeirri tölu, ætluðu þeir ekki að setjast í ríkisstjórn að kosningum loknum - þeir ætluðu þess í stað að sleikja sárin og hugsa sinn gang, án þess að bera ábyrgð á landstjórninni. Yfirlýsingarnar eru gefnar í trausti þess, að þær hvetji kjósendur til fylgis við þann, sem gefur þær og styrki hann. Þetta gerist þó ekki alltaf og dæmi eru um, að vegna fljótræðis af þessu tagi sitji menn með sárt enni að kosningum loknum, séu í mun verri stöðu en úrslitin sjálf skapa þeim.

Nýjasti þátturinn í sápuóperu Samfylkingarinnar snýst um, að þau Össur og Ingibjörg Sólrún hafi sæst heilum sáttum og hún hafi jafnvel velt því fyrir sér að hætta í stjórnmálum, eftir að hún hrökklaðist frá sem borgarstjóri til að hefja afskipti af landsmálum.

Þáttur um þetta efni mun hafa sýndur á Stöð 2 í kvöld, samkvæmt fréttum stöðvarinnar. Hvaða áhrif skyldu þessar játningar hafa á Jón Baldvin Hannibalsson, samvisku Samfylkingarinnar? Eykst áhugi hans á að kjósa flokkinn? Við hljótum að frétta af því í næsta þætti af Silfri Egils eða næsta uppgjörsviðtali Korlbrúnar Bergþórsdóttur í Blaðinu.  Þeir, sem eru að verða miður sín af spennu, geta huggað sig við, að þáttaröðinni um Samfylkinguna lýkur 12. maí.

 

 

Lesa meira

Sunnudagur, 22. 04. 07. - 22.4.2007 21:00

Þegar ég gekk í Öskjuhlíðinni í dag heyrði ég í fyrsta sinn á þessu vori í lóu, en sá þó enga.

Fylgdist með franska kosningasjónvarpinu, þegar sagt var frá sigri Nicolas Sarkozys í fyrri umferð forsetakosninganna með um 30% atkvæða en Ségolene Royal varð í öðru sæti með um 25%. Næstu vikur verða spennandi, þegar frambjóðendur reyna að tryggja sér stuðning þeirra frambjóðenda, sem ekki náðu markmiði sínu í fyrri umferðinni.

Kommúnistar, vinstri/græn og aðrir til vinstri meða frambjóðenda voru fljót að lýsa yfir stuðningi við Royal. Francois Bayrou lenti í þriðja sæti með um 18% atkvæða, hann bauð sig fram sem miðjumaður en fylgi hans er fremur hægra megin en til vinstri, hið sama er að segja um fylgi Jean Marie le Pen, sem fékk um 11%, en enginn vill neitt með hann hafa að gera.

Þau Sarkozy og Royal fluttu langar þakkarræður, þar sem þau áréttuðu stefnumál sín og höfðuðu til samstarfs við aðra. Mönnum finnst stundum nóg um þjóðernistóninn í ræðum íslenskra stjórnmálamanna, en ég fullyrði, að hann er veikur miðað við það, hvernig franskir stjórnmálamenn tala um land sitt og þjóð á stundum sem þessum, þótt ekki þylji þeir ættjarðarljóð eða nefni þjóðskáld til sögunnar.

Mér þótti Sarkozy mælast betur en Royal fyrir utan hvað hún virkar köld og fjarlæg, þótt brosið sé bjart og hlýlegt.

Vandi franskra sósíalista er hinn sami og við blasir hér á landi um þessar mundir. Þeir eru sjálfum sér sundurþykkir og greinir á um of mörg mál innbyrðis til að vera trúverðugir út á við.

Mér er sagt, að í dag hafi Jón Baldvin Hannibalsson haldið áfram að tala niður til Samfylkingarinnar í Silfri Egils. Í gær birtist enn eitt einhvers konar uppgjörsviðtalið við hann í Blaðinu, sem Kolbrún Bergþórsdóttir, ævisagnaritari hans, skráði. Þar var einnig vegið að Samfylkingunni. Þá mun hafa komið fram í Silfri Egils, að þeir Jón Baldvin og Egill Helgason séu sammála um, að Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra og bankastjóri, skuli boðinn fram sem fjármálaráðherraefni Samfylkingarinnar. Í því felst ekki mikil trautsyfirlýsing þeirra félaga við forystu Samfylkingarinnar.

Laugardagur, 21. 04. 07. - 21.4.2007 19:06

Merkilegur liðsmaður bættist í hóp netverja í dag, þegar Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, opnaði vefsíðu sína: matthias.is Í Lesbók Morgunblaðsins birtist tveggja opna grein eftir Matthías af þessu tilefni en hana er einnig að finna á vefsíðunni. Þá hefur Matthías sett dagbókarbrot inn á síðuna og sá ég þar meðal annars færslu frá því í janúar 2001, þegar hann segir frá kvöldverði hjá okkur Rut með Þórunni og Vladimir Ashkenazy og fleiri góðum gestum.

Efstu menn á listum í kjördæmi mínu, Reykjavík suður, hittust í sjónvarpssal í dag og ræddu málin vegna kosninganna. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir endurtók hið sama og hún sagði á morgunvakt rásar 1 á föstudag, að Geir H. Haarde hefði sem fjármálaráðherra komið í veg fyrir, að samkomulag, sem hún og Jón Kristjánsson, þáv. heilbrigðis- og tryggingarráðherra, rituðu undir rétt fyrir borgarstjórnarkosningar 2002 um byggingu hjúkrunarrýma. Geir brást hárrétt við þessum sérikennilega gjörningi, þegar hann sagði hann innistæðulausan af hálfu ríkisins, enda hefði Jón Kristjánsson ekki samþykkt ríkisstjórnar fyrir honum. Í þættinum í dag sagði hann, að þetta hefði verið kosningaryfirlýsing en ekki samningur í nafni ríkisins.

Hinn ómerkilegi strengur í stjórnmálabaráttu Ingibjargar Sólrúnar, sem birtist nú í því að reyna að klína þessu vandræðamáll hennar og Jóns Kristjánssonar á Geir H. Haarde, á ríkan þátt í vandræðum Samfylkingarinnar um þessar mundir og deilunum innan flokksins.

Í sjónvarpsumræðunum reyndi hún að afsaka undirskrift sína og Jóns rétt fyrir kjördag 2002 með því, að ráðherrar færu nú um allt og skrifuðu undir innistæðulausa samninga. Ég skora á Ingibjörgu Sólrúnu að birta dæmi um slíkar undirskriftir.

Föstudagur, 20. 04. 07. - 20.4.2007 15:00

Bjarni Torfason læknir skrifaði mig út af LSH í dag og nú er ég kominn heim að nýju. Batinn styrkist dag frá degi.

Nú hef ég síðan 5. febrúar með tiltölulega stuttu hléi dvalist fyrst í hálfan mánuð og síðan í 11 daga á deild 12 E á LSH við Hringbraut. Metnaðarfullt starf deildarinnar og framganga alls starfsfólks hennar vekur aðdáun og dagleg umönnun hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er einstaklega alúðleg og góð. Hitt vita allir, að enginn fer á þessa deild eða aðra í skjúkrahúsi ótilneyddur, að baki sjúkrahúsdvölinni býr allan tímann vonin um skjótan bata og að geta komist heim til sín alheill sem fyrst. 

Ég er margsvísari um mannlífið, eftir að hafa dvalist þessa daga á LSH. Reynsla sem þessi hefur áhrif á lífsviðhorf og gildismat. Ef mér tekst að vinna úr henni á jákvæðan hátt, hef ég ekki aðeins náð góðri heilsu að nýju heldur einnig stækkað sjóndeildarhringinn.

Fimmtudagur, 19. 04. 07. - 19.4.2007 20:14

Gleðilegt sumar!

Undarlega var til orða tekið hjá fréttastofu hljóðvarps í hádeginu, þegar sagt var, að varaformenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar „viðurkenndu“, að landsfundir flokkanna hefðu átt þátt í auknu fylgi þeirra samkvæmt skoðanakönnun Gallups, sem var gerð á dögum landsfundanna. Af orðalaginu mætti ætla, að þetta væri eitthvað, sem vefðist fyrir varaformönnunum að játast undir. Raunar virðist hafa verið  spurt á þann veg af hálfu fréttamannsins, að kallað væri eftir þessari „viðurkenningu.“

Hefðu landsfundirnir ekki breytt neinu um fylgi flokkanna, hefði þurft að kalla talsmenn þeirra fyrir og fá skýringu. Hitt liggur í augum uppi, að með fundunum var stefnt að því að auglýsa flokkana og draga að þeim meira fylgi. Könnunin sýnir, að það hefur tekist og er gleðiefni fyrir þá, sem hlut eiga að máli.

Af fréttum má ráða, að þessir tveir fundir hafi verið sambærilegir. Enginn fjölmiðill hefur talið sér skylt að upplýsa viðskiptavini sína um, að hér var í raun um tvo gjörólíka atburði að ræða, þótt Samfylkingin hefði kosið að reyna að hafa yfirbragðið sem líkast og sjálfstæðismenn hafa gert um árabil. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins er tekist á um menn og málefni, bæði í nefndum og á fundinum sjálfum. Mörg hundruð manns taka þátt í atkvæðagreiðslum um ályktanir og við kjör á formanni og varaformanni er gengið til atkvæða í óbundinni kosningu.

Landsfundur Samfylkingarinnar var leiksýning með erlendum gestum og fólki utan flokksins, sem fengið var til að fylla dagskrána, svo að sem minnst yrði um almennar umræður. Þegar kom fram ósk um að ræða eitt mál, eftirlaunamálið svonefnda, efnislega á fundinum var óskinni einfaldlega hafnað. Lófatak en ekki lýðræði réð stuðningi fundarmanna við formann og varaformann.

Fundir eins og þessir segja mikla sögu um innri styrk og raunverulegt afl stjórnmálaflokka til að takast á við pólitísk úrlausnarefni og velja sér forystumenn. Einmitt þess vegna skiptir miklu að segja frá inntaki, skipulagi og eðli fundanna. Einstakt tækifæri gafst til þess, þegar Samfylkingin ákvað að velja sömu daga og Sjálfstðisflokkurinn í von um að geta notað afl hans sem vogarstöng rétt fyrir kosningar.

Miðvikudagur, 18. 04. 07. - 18.4.2007 20:17

Borgarmynd Reykjavíkur breyttist í dag, þegar gömul hús á horni Austurstrætis og Lækjargötu brunnu, sögufræg hús, sem báru þó lítil sem engin merki fornrar frægðar, þegar þessi stórbruni varð. Slökkviliðið vann þrekvirki og lögreglan tryggði því þá öruggu umgjörð, sem þarf að mynda, þegar slíkir atburðir gerast.

Brunarústir mega ekki standa lengi í hjarta borgar, en hins vegar þarf að vanda vel, sem gert verður á þessum stað. Norðan Lækjartorgs er að rísa nýr kjarni í miðborg Reykjavíkur með tónlistarhúsi og ráðstefnumiðstöð.  Torgið allt hlýtur að fá á sig nýjan svip, þegar byggt verður norðan og sunnan við það.

Í dag kom út nýtt hefti af Mannlífi  með forsíðuviðtali Bergljótar Davíðsdóttur við mig. Viðtalið var tekið, áður en ég veiktist alvarlega í annað sinn. Bergljót spurði mig ekki mikið um stjórnmál líðandi stundar heldur hafði hún meiri áhuga á persónulegri þáttum. Bergljót vann viðtalið af mikilli alúð, vonandi fellur niðurstaðan lesendum í geð.

Þriðjudagur, 17. 04. 07. - 17.4.2007 20:59

Í dag voru drenin tekin úr brjóstholinu á mér. Loftlekinn hefur með öðrum orðum verið stöðvaður. Það er mikill léttir að vera laus við drenin en um tíma voru þau fjögur til að örugglega yrði sogað út allt aðskotaloft í brjóstholinu.

Með þetta allt í sér og tengdur við sogkerfi í vegg er maður alveg öðrum háður varðandi allar ferðir úr rúminu. Það er í sjálfu sér ekki erfitt með þá góðu þjónustu og umhyggju, sem hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sýna sjúklingum hér á LHS.

Allan sólarhringinn eru hjúkrunafræðingar og sjúkraliðar boðnir og búnir til að bregðast við og leysa úr því, sem að höndum ber.  Ábyrgðin er mikil, þegar glímt er við allt, sem upp getur komið og fjöldi sjúklinga er mikill.

Mánudagur, 16. 04. 07. - 16.4.2007 19:52

Nú er vika liðin frá því að ég lagðist hingað inn á LSH að nýju. Margt hefur verið gert fyrir mig síðan af frábærum læknum og samstarfsfólki þeirra. Sjúklingurinn er líka allur að hressast. Ég þakka öllum, sem hafa sent mér kveðjur og góðar óskir.

Þegar lesin eru skrif Jóns Baldvins Hannibalssonar og Stefáns Jóns Hafstein um Samfylkinguna, mætti halda, að kosningum væri lokið og kjósendur hefðu veitt Samfylkingunni ráðningu. Spurningin, sem þeir félagar eru að velta fyrir sér, snýst um það, hvort skynsamlegt hafi verið að stofna Samfylkinguna á sínum tíma, að minnsta kosti hafi ekki tekist að sameina vinstri menn á þann hátt.

Í aðdraganda landsfundar Samfylkingarinnar gengu hinir hefðbundnu stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar, menn á borð við Einar Kárason rithöfund og Torfa Túliníus prófessor, fram á ritvöllinn, eftir að hafa uppfært  lofgreinar sínar um hana. Ingibjörg Sólrún skyldi koma ósködduð frá landsfundi eigin flokks. Á fundinum var þess gætt, að engin atkvæði yrðu greidd um formann eða varaformann - nú var það lófatakið eitt, sem talaði í nafni lýðræðis.

Væri vindur í seglum Samfylkingar ræddu hugsjónamiklir jafnaðarmenn ekki um flokkinn eins og þeir Jón Baldvin og Stefán Jón. Þessi neyðarlegu skrif birtast sömu daga og landsfundur átti að valda straumhvörfum í brösulegri kosningabaráttu Samfylkingarinnar, snúa henni til betri vegar.  Nú beinist gagnrýni flokksmanna ekki lengur aðeins að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur heldur að sjálfum tilvistargrundvelli flokksins.

 

Sunnudagur, 15. 04. 07. - 15.4.2007 15:34

Landsfundi sjálfstæðismanna lauk síðdegis. Kosið var til miðstjórnar fyrir hádegi og voru 11 fulltrúar kjörnir. Átta konur náðu kjöri og þrír karlar en 25 gáfu kost á sér. 1.012 landsfundarfulltrúar greiddu atkvæði. Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, hlaut flest atkvæði 709 eða 70,4%

Geir H. Haarde var endurkjörinn formaður flokksins með 95,8% atkvæða og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var endurkjörin varaformaður með 91,3% atkvæða. Þetta er glæsileg niðurstaða og sýnir mikla samstöðu og eindrægni innan flokksins. Þeir, sem sátu fundinn og hafa fært mér fréttir af honum, segja að mikill og góður hugur hafi verið í fundarmönnum.

Ég var fjarri góðu gamni vegna legu minnar hér á LSH, þar sem bati minn eykst dag frá degi. Varð ég að láta mér nægja að senda fundarmönnum þessa kveðju.

Landsfundurinn styrkir og eflir flokkinn inn á við og út á við.

Laugardagur, 14. 04. 07. - 14.4.2007 16:53

Þær ræddu í Kastljósi að kvöldi 13. apríl um setningarræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á landsfundi Samfylkingarinnar fyrr um daginn Kristrún Heimisdóttir Samfylkingu og Ragnheiður Elín Árnadóttir Sjálfstæðisflokki undir stjórn Sigmars Guðmundssonar. Framganga Kristrúnar var á þann veg, að allar venjulegar reglur í slíkum þáttum voru brotnar. Ragnheiður hafði varla sagt hálfa setningu, fyrr en Kristrún greip af henni orðið. Þá veifaði Kristrún einhverjum bæklingum, sem ekki voru á dagskrá þáttarins. Undir lok hans sagðist stjórnandinn ekki hafa komið því að, sem hann vildi. Hvers vegna er allur þessi æsingur nauðsynlegur, þegar Samfylkingin eða málstaður hennar á í hlut? Hvers vegna er ekki reynt að hafa hemil á þessu fólki, sem telur sig yfir aðra hafið og ekki eiga að lúta neinum almennum leikreglum?

Hallgrímur Helgason, samfylkingarmaður, skáld og málsvari Baugsveldisins, kveður sér hljóðs í Morgunblaðinu í dag vegna óánægju sinnar yfir því, að í Kastljósi þar sem rætt var forystumenn framboða og um utanríkismál hafi ekki verið minnst á Íraksstríðið og telur þetta megi rekja til þess, sem skipaði útvarpsstjóra auk þess sem hann ræðst á fréttamenn RÚV og telur sig getað skipað þeim fyrir verkum.

Síðan kemur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að loknum landsfundi Samfylkingarinnar og heldur áfram gamla söngnum um, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi í raun ekki tilverurétt frá sjónarhóli jafnaðarmanns. Það sé eitthvert norrænt vandamál, að Sjálfstæðisflokkurinn njóti mikils fylgis hér á landi.  Því minna sem fylgi Samfylkingarinnar verður hér á landi þeim mun meira talar Ingibjörg Sólrún um norræna jafnaðarmenn og ágæti þeirra. Þeir njóta þó hvorki í Svíþjóð né Danmörku nægilegs trausts til setu í ríkisstjórn.

Föstudagur, 13. 04. 07. - 13.4.2007 19:25

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti þá stefnu í setningarræðu 37. landsfundi flokksins, að fólk eldra en 70 ára gæti unnið launaða vinnu án þess að það skerti lífeyri frá Tryggingastofnun. Í kvöldfréttum sjónvarps í dag var rætt um málið við Margréti Margeirsdóttur, forystukonu eldri borgara, og sá hún ástæðu til að láta þess getið, að stefnan væri kynnt á elleftu stundu fyrir kosningar, en málið hefði lengi verið á stefnuskrá eldri borgara. Var helst að skilja, að Margréti þætti þessi tímasetning einkennileg. Hvar á að kynna stefnumál Sjálfstæðisflokksins annars staðar en á landsfundi hans? Hvenær á að kynna kosningamál, ef ekki rétt fyrir kosningar?

Nú er 20 ára afmælis flugstöðvar Leifs Eiríkssonar minnst með því að tvöfalda stærð hennar. Skyldi þessi stækkun verða túlkuð sem mál á elleftu stundu fyrir kosningar? Fyrir 20 árum áttu þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Baldvin Hannibalsson varla nægilega sterk orð til að lýsa hneykslan sinni á því, að flugstöðin væri opnuð rétt fyrir kosningar, auk þess væri hún alltof stór og yrði aldrei annað en baggi á ríkissjóði og skattgreiðendum.

Vinstri græn töldu sér misboðið, þegar fréttist, að Alcan kostaði kryddsíldina á Stöð 2 á gamlársdag. Þeim þótti hins vegar sjálfsagt að sækja sjálf um 300 þúsund króna styrk til Alcans.

Fimmtudagur, 12. 04. 07. - 12.4.2007 17:16

Loftlekinn í lunganu hefur verið stöðvaður. Hann var farinn að hafa þau áhirf, að ég þandist út, vegna þess að loft fór undir húðina, meðal annars í andlitinu. Endurhæfing eftir aðgerðina hófst í dag.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er settur í dag og verð ég fjarri góðu gamni í fyrsta sinn síðan ég man eftir mér.

Samfylkingin er með landsþing á morgun. Fyrir fundinn er kynnt stefna flokksins í efnahagsmálum, samin af Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi ráðherra og bankastjóra Norræna fjárfestingabankans. Þegar Jón var í framboði hafði hann öruggt sæti, þótt aðrir þyrftu að hafa fyrir sínu með prófkjöri eða á annan lýðræðislegan hátt. Nú er efnahagsstefna Samfylkingarinnar samin og kynnt af Jóni tveimur dögum fyrir landsþing, þar sem sagt er, að móta eigi flokksstefnuna. Jafnaðarmennskan tekur á sig ýmsar myndir.

Miðvikudagur 11. 04. 07. - 11.4.2007 17:04

Bjarni Torfason, yfirlæknir á lungna- og hjartadeildinni, skar mig. Ætlunin var að hefjast handa síðdegis en aðstæður breyttust og klukkan var 11.45, þegar ég sofnaði á skurðarborðinu og síðan vaknaði ég á gjörgæsludeild klukkan 16.00 og var farinn þaðan rétt fyrir vaktaskipti kl. 23.00. Bjarni var ánægður með árangurinn en hann fór í gegnum bringubeinið, þannig að skurðurinn líkist þeim, sem gerðir eru á hjartasjúklingum.

Þriðjudagur, 10. 04. 07. - 10.4.2007 16:58

Farið var yfir sjúkrasögu mína og lagt mat á lungað og sú niðurstaða dregin, að það væri með svo stórum loftbólum, að ekki dygði annað til varanlegs bata en uppskurður.

Mánudagur, 09. 04. 07. - 9.4.2007 16:56

Þegar ég fór í sund þennan mánudagsmorgun, annan í páskum, gerðist hið sama og mánudaginn 5. febrúar, að ég komst ekki milli bakka í lauginni fyrir mæði. Hringdi ég í Tómas Guðbjartsson lækni, sem þá var í París, en útvegaði mér sneiðmyndatöku síðdegis. Mér var ekki hleypt heim, eftir að læknar sáu myndina. Kristinn Jóhannsson, skurðlæknir á lungna- og hjartadeild, setti í mig dren til að tæma loftbrjóstið í hægra lunga og ég var lagður inn á sömu deild og áður og mætt af sömu ljúfmennsku og ég hafði þá kynnst.

Sunnudagur, 08. 04. 07 - páskadagur. - 8.4.2007 22:32

Fór í morgun í hátíðarmessu í Kristskirkju.

Á murinn.is las ég þetta:

„Þessa dagana falla vel í kramið hugmyndir Margrétar Pálu Ólafsdóttur um að leið til að frelsa konur frá launamisrétti sé að breyta rekstrarfyrirkomulagi ríkisrekinna almenningsskóla og umönnunarstofnana. Gott ef satt væri en er málið svo einfalt?

Tökum dæmi um laun kennara í skólakerfinu í Bandaríkjunum en bent hefur verið á að skólakerfið á Íslandi hafi að mörgu leyti þróast með sambærilegum hætti og það bandaríska en formbreytingar eigi sér stað hér 10-20 árum síðar.“

Margrét Pála hefur kynnt þessi sjónarmið sín víða og talar um málin frá eigin reynslu hér á landi. Hvers vegna kýs höfundurinn á murinn.is af því tilefni að fara að tala um Bandaríkin? Hvað hefur hann fyrir sér, um að þróun íslenska skólakerfisins sé að þessu leyti eða öðru 10 til 12 árum á eftir hinu bandaríska? Búa einhverjar rannsóknir að baki þeirri fullyrðingu? Er ekki einfaldara að taka bara mark á því, sem Margrét Pála segir og huga að því, sem hér er að gerast?

Samfylkingin talar eins og Ísland verði að að breytast í eitthvert Norðurlandanna, annars sé voðinn vís, og vinstri/grænir á murinn.is láta eins og hið hræðilegasta gæti gerst, ef Ísland yrði eins og Bandaríkin. Hvers vegna dugar þessum flokkum ekki að tala um Ísland eins og það er og þróun íslensks samfélags eftir eigin leiðum?

Íslendingar hafa átt gott samstarf við Norðurlöndin og Evrópuríki á sama tíma og tengslin við Bandaríkin hafa verið mikil og náin. Innan þessara marka hafa framfarir orðið hér örar og hagur þjóðarinnar batnað ár frá ári. Við þurfum hvorki dollar né evru til að njóta okkar og við breytumst heldur aldrei og verðum eins og Bandarjamenn eða þjóðir annars staðar í Evrópu.

Hér hefur komið í ljós hin síðari ár, að breyting á ríkisrekstri með einkavæðingu hefur valdið þáttaskilum í efnahags- og atvinnumálum. Þá sanna dæmi héðan, að aukin hlutdeild einkaframtaksins í háskólarekstri hefur valdið þáttaskilum í háskólastarfsemi. Margrét Pála hefur sýnt og sannað hið sama með einkaframtaki við rekstur leikskóla og grunnskóla. Við þurfum hvorki að fara til Bandaríkjanna né annað til að sannreyna þetta. Hið eina sem þarf er vilji til að halda áfram á sömu braut á fleiri sviðum og með eigin reynslu að leiðarljósi.

Laugardagur, 07. 04. 07. - 7.4.2007 19:07

Rúmlega 55% landsmanna hafa jákvætt viðhorf til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, en tæplega 19% eru neikvæð gagnvart honum. Þetta kemur m.a. fram í símakönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 28. mars til 2. apríl um viðhorf til formanna stjórnmálaflokkanna. Fleiri höfðu jákvæða afstöðu en neikvæða gagnvart tveimur öðrum formönnum stjórnmálaflokka; Steingrími J. Sigfússyni formanni Vinstri grænna og Ómari Ragnarssyni formanni Íslandshreyfingarinnar. Steingrímur er sá formaður sem kemur næstur Geir í vinsældum en jákvæði gagnvart honum mældist rúm 50%.

Fleiri höfðu neikvæða afstöðu en jákvæða gagnvart þremur formönnum stjórnmálaflokka; Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins, og Guðjóni A. Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins. Ingibjörg Sólrún er sá formaður sem flestir voru neikvæðir gagnvart eða rúm 50%.

Spurning er, hvað Samfylkingin gerir núna. Fyrr í vetur beitti hún sér fyrir greinaskrifum til að sýna og sanna, að Ingibjörg Sólrún sætti ómaklegum ofsóknum. Þá var tekið til við að hallmæla Staksteinahöfundi Morgunblaðsins, og var honum lýst sem upphafi og endi alls hins illa um Ingibjörgu Sólrúnu. Nú síðustu daga hefur verið leitast við að lyfta Ingibjörgu Sólrúnu á fundi með Össuri Skarphéðinssyni.  Árangur þessarar baráttu er greinilega lítill sem enginn. Eftir viku verður leitast við að hefja Ingibjörgu Sólrúnu á nýjan stall með því að kalla forystukonur jafnaðarmanna í Danmörku og Svíþjóð til að styrkja hana á þingi Samfylkingarinnar. Ingibjörg Sólrún ætti að gleðjast yfir því, að upphefð hennar kemur að utan. Hitt er einnig vitað, að jafnaðarmenn á Íslandi hafa einkum glaðst yfir sigrum erlendis undanfarin misseri.

 

 

Föstudagur, 06. 04. 07. - 6.4.2007 18:44

Föstudagurinn langi hefur tekið á sig annan blæ en fyrr, en þó ekki, því að mikil helgi hvílir yfir deginum, þrátt fyrir að meira sé leyfilegt að lögum en áður. Að velja þennan dag til að fá niðurstöðu um fyndnasta mann ársins segir mér það eitt, að þeir hafa ekki skemmtilegan húmor, sem að slíku standa. Raunar benda ummæli Odds Eysteins Friðrikssonar, sem stendur fyrir keppninni, til þess að hann skilji alls ekki, hvaða hughrif fylgja föstudeginum langa hjá flestum Íslendingum - eða virðing hans fyrir atburðinum, sem dagurinn er helgaður, sé mikl.

Ég ók austan úr Fljótshlíð í blíðskaparveðri í dag og var stöðugur straumur bíla á austurleið. Umferðin var miklu meiri en ég hef til dæmis kynnst um verslunarmannahelgi, samt hefur ekki verið eins mikið látið með hana í fjölmiðlum og þá. Hraðinn virtist jafn og ökumenn sýndu tillitssemi, þótt ekki hefði verið hvatt til hennar með látlausum útvarpsþáttum kvölds og morgna marga daga fyrir helgina. Á leiðinni sá ég þrjár lögreglubifreiðir við eftirlitsstörf.

Rut Heiðarsdóttir, dótturdóttir mín, vann það afrek í dag að velta sér í fyrsta sinn af bakinu á magann við mikinn fögnuð viðstaddra.

Fimmtudagur, 05. 04. 06. - 5.4.2007 10:17

Samkvæmt niðurstöðum könnunar, sem birti er í dag og gerð var fyrir Morgunblaðið og RUV, er Sjálfstæðisflokkurinn með 40,6% atkvæða, en mældist með 36,7% fylgi í síðustu könnun fyrir viku. Vinstri grænir mælast með 21,1% og minnkar fylgi þeirra um tæp þrjú prósentustig frá síðustu könnun. Samfylkingin mælist með 19,5% og minnkar fylgi hennar lítilsháttar frá síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn mælist með 8,1%. Frjálslyndi flokkurinn er með 5,4%. Íslandshreyfingin mælist núna með 4,5% fylgi og minnkar fylgið úr 5,2% frá því fyrir viku.

Hvað hefur gerst síðan síðasta könnun var gerð? Jú, þar ber hæst atkvæðagreiðlsuna í Hafnarfirði. Fagnandi viðbrögð forystumanna vinstri/grænna hafa ekki orðið til að auka þeim fylgi. Sífellt fleiri eru að átta sig á því, að neikvæð stöðvunarstefna flokksins á flestum sviðum og krafa um þungar viðjar ríkisvaldsins er síst til þess fallin að stuðla að framförum.

Frá því að síðasta könnun var gerð hafa einnig orðið nokkrar umræður um ræðu mína um öryggis- og varnarmál fyrir réttri viku. Þær hafa ekki spillt neinu fyrir Sjálfstæðisflokkinn nema síður sé.

Skrýtnasta pólitíska frétt dagsins birtist á forsíðu Fréttablaðsins:

„Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, óskaði eftir að Alcan í Straumsvík styrkti flokkinn um þrjú hundruð þúsund krónur fyrir komandi alþingiskosningar.

Drífa Snædal, framkvæmdastýra VG, segir ekki óeðlilegt að flokkurinn óski eftir fjárstuðningi frá álfyrirtækinu. „Við sendum bréf á hundrað stærstu fyrirtækin í landinu og báðum um fjárstyrk. Annars er gengið mismunandi hart eftir þessu, við höfum til dæmis ekki ítrekað beiðnina við Alcan."

Fulltrúar VG börðust síðastliðna helgi gegn stækkunaráformum Alcan í Hafnarfirði.

Drífa leggur áherslu á að þótt flokkurinn þiggi peninga frá fyrirtækjum hafi það engin áhrif á stefnu hans. „Við erum í þeirri aðstöðu að vera upp á náð og miskunn fyrirtækja komin, og úrtakið okkar var hundrað stærstu fyrirtækin á Íslandi. Alcan er eitt þeirra."“

 

Miðvikudagur, 04. 04. 07. - 4.4.2007 8:59

Framsóknarflokkurinn tapar tveimur þriðju af fylgi í Norðausturkjördæmi, en Sjálfstæðisflokkur bætir við sig um níu prósenta fylgi. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2 í Norðausturkjördæmi. Vinstri grænir auka fylgi sitt um átta prósent og Samfylkingin bætir við sig tveimur prósentum. Íslandshreyfingin mælist með tæplega sex prósenta fylgi en frjálslyndir aðeins með um tvö prósent.

Ég samfagna með flokkssystkinum mínum í kjördæminu, þetta er lofandi sveifla í fylgi til þeirra og megi hún haldast til kosninga. Vinstri/græn eru farin að dala, en framsókn virðist glíma við tilvustarvanda.

Samfylkingin í Reykjavík gaf út blaðið Reykjavík í dag og þar birtist langt viðtal við tvíeykið Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össur Skarphéðinsson. Athygli vekur, að meginhluti viðtalsins snýst um, hvort þau ISG og Össur geti unnið eða jafnvel talað saman. Viðtalið endurspeglar þannig vel hinar miklu áhyggjur samfylkingarfólksins í Reykjavík - flokkur þeirra sé í raun klofinn ofan í rót. Hver gengur vígreifur til kosninga í vafa um, hvort foringjar í flokknum geti talað saman?

Í Samfylkingarblaðinu fá margir að láta ljós sitt skína, þó ekki Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins, annar á listanum í Reykjavík suður. Honum sést hvergi bregða fyrir í blaðinu. Þar má hins vegar sjá mynd af Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðingi, en eftir henni er meðal annars haft: „Og því miður höfum við í meira en tólf ár búið við stjórnarfar sem skipar menntun ekki í öndvegi...“

Vilji Kristrún láta taka mark á sér í stjórnmálbaráttunni, ætti hún að vanda yfirlýsingar sínar betur. Árangur í menntamálum undanfarin 12 ár ber þess einmitt merki, að málaflokkurinn hefur verið settur í öndvegi - árangurinn er meiri og betri en nokkurn gat grunað - hvar sem borið er niður, hefur miklu verið áorkað.

Hér ætla ég, að ítreka þá skoðun mína, að flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna bar minni árangur en ég vænti, vegna þess að R-listinn stjórnaðí í Reykjavík og stóð gegn einkaframtaki í skólastarfi. Ef hann hefði tekið Margréti Pálu á sama veg og Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ, og hennar sjálfstæðisfólk gerði, væri árangurinn enn meiri á grunnskólastiginu. Þá væru kjör kennara og þar með einkum kvenna betri en þau eru núna.

Samfylkingarmaðurinn Björgvin G. Sigurðsson er því miður farinn að senda frá sér fréttatilkynningar um fangelsismál. 

Lesa meira

Þriðjudagur, 03. 04. 07. - 3.4.2007 9:27

Í Fréttablaðinu í dag eru rifjuð upp gömul ummæli Össurar Skarphéðinssonar um íbúakosninguna í Hafnarfirði. Össur sagði, að Gestur Svavarsson vinstri/grænn heimtaði kosninguna og bætti við „Svo mínir menn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir hleypa þessu lengra.“

2. apríl 2007 segir Össur á vefsíðu sinni:

„Ég er stoltur af þessari lýðræðislegu tilraun Samfylkingarinnar í Hafnarfirði um íbúalýðræði. Íbúalýðræði er skilgetið afkvæmi Samfylkingarinnar. Ég lagði sjálfur sem formaður Samfylkingarinnar fram á flokkstjórnarfundi á Akureyri skömmu upp úr 2000 tillögu um íbúalýðræði.“

Hvað skyldi Össur segja eftir fáeina daga, þegar hann áttar sig á afleiðingum þessa fljótræðis fyrir Samfylkinguna? Ætli hann fari aftur að tala um vitleysuna í Gesti Svavarssyni? Hafi vinstri/græn í Hafnarfirði ætlað að skapa vanda fyrir Samfylkinguna, tókst þeim það svo sannarlega.

Samfylkingin nötrar nú stafna á milli í Hafnarfirði vegna þess hve Lúðvík Geirsson bæjarstjóri misreiknaði sig herfilega. Lenínaðdáandinn ætlaði bæði að éta kökuna og eiga hana. Hann var sannfærður um, að deiliskipulagið yrði samþykkt, þótt hann hreyfði ekki litla fingur. Honum mistókst ætlunarverkið og stendur nú frammi fyrir fjöldaúrsögnum úr Samfylkingunni í Hafnarfirði. Hver eru viðbrögðin? Jú, Lúðvík er tekinn að spinna um aðrar leiðir fyrir ALCAN , deiliskipulagið hafi bara verið deiliskipulag, álverið geti aukið framleiðslu sína, hvað sem því líður.  

Össur Skarphéðinsson hefur dregið í land í varaliðsmálinu.

Lesa meira

Mánudagur, 02. 04. 07. - 2.4.2007 5:05

„Lýðræðið sigraði“ segja þau Steingrímur J. Sigfússon og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í Morgunblaðinu um úrslitin í Hafnarfirði. Gott ef Lúðvík Geirsson bæjarstjóri telur það ekki líka merkilegast við úrslitin um deiluskipulagið, sem hann lagði fram og var hafnað með 88 atkvæðum.

Ég vissi ekki, að það væri verið að kjósa um lýðræðið í Hafnarfirði - að það skyldi vera kosið er hins vegar til marks um, að lýðræði sé í Hafnarfirði og breyttist ekkert við kosninguna. Kannski hafa þau Steingrímur J. og Ingibjörg Sólrún verið með hugann við gömul ummæli Lúðvíks? Í viðtali við málgagn Alþýðubandalagsins, Vikublaðið, 20. maí árið 1997 var Lúðvík spurður að því á hvaða stjórnmálamanni hann hefði mest álit. Ekki stóð á svari: Lenín. Sagan segir, að Lenín hafi ekki hlynntur lýðræði, þótt Lúðvík hafi nú borið deiliskipulag undir Hafnfirðinga - í ljósi afstöðu Leníns er það vissulega sigur fyrir lýðræðið.

Í Hafnarfirði var kosið um deiliskipulag, sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar vann undir stjórn Lúðvíks, en hann hefur sagt, að vegna lýðræðisins vilji ekki hann segja, hvaða skoðun hann hefur á skipulaginu. Úr því að hann hafi ekki gert það fyrir kosningar, sé það hvort sem er of seint núna.

Í stað þess skipulags, sem var hafnað með 88 atkvæðum, þarf að koma nýtt - verður það einnig borið undir atkvæði? Stjórnmálafræðingur hefur sagt, að ný bæjarstjórn í Hafnarfirði geti ekki hrundið niðurstöðu kjósenda, en getur sama bæjarstjórn ákveðið nýtt deiliskipulag á þessu svæði, án þess að bera það undir kjósendur?

Í sama mund og úrslitin með 88 atkvæða muninum berast, er sagt frá því, að á vettvangi Evrópusambandsins vilji menn banna tölurnar 8 og 88 á bolum og jökkum, af því að þær séu ekki tákn lýðræðis heldur nasisma og séu misnotaðar af nýnasistum. Innflytjenda- og kynþáttaóvild tekur á sig ýmsar myndir og birtist á fleiri stöðum en í auglýsingum frá Frjálsynda flokknum.

Mér blöskrar hvernig Egill Helgason ræðir öryggis- og varnarmál og rökstyð það hér:

 

Lesa meira

Sunnudagur, 01. 04. 07. - 1.4.2007 18:07

Þess var minnst klukkan 11.00 með hátíðarmessu, þar sem herra Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði, að 50 ár voru liðin frá vígslu Neskirkju.

Nýlega las ég í The Spectator dagbókarbrot eftir Andrew Roberts, sagnfræðing og blaðamann, um ferð hans til Bandaríkjanna, þar sem hann var að kynna bók sína History of the English-Speaking Peoples Since 1990, sem er framhald á fjögurra binda verki Winstons Churchills um sama efni. Dagbókin sýndi, að vel hafði verið tekið á móti Roberts og hitti hann margt stórmenni. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, bauð honum meðal annars til hádegisverðar og málstofu í Hvíta húsinu 27. febrúar.

Ég hafði áhuga á forvitnast meira um þetta og sá þá á netinu, að þessi hádegis-málstofa hafði leitt til orðaskipta í The Weekly Standard á milli tveggja gesta, sem þangað voru boðnir, en þar koma við sögu Irwin M. Stelzer, sem skrifar reglulega í blaðið, starfar við Hudson-stofnunina og skrifar reglulega í Sunday Times í London, og Michael Novak, sem fjallar um trúmál, heimspeki og stjórnmál við American Enterprise Institute.

Ég ætla ekki að endursegja þessi orðaskipti en bendi á, hvar unnt er að nálgast þau. Hér er grein Stelzers og hér er grein Novaks (þess má geta, að fyrir mörgum árum kom Novak hingað til lands og minnist ég þess að hafa hitt hann í boði bandaríska sendiherrans á þeim tíma.)

Þá rakst ég á þessa frásögn af Latabæ á vefsíðu The Economist.