9.4.2007 16:56

Mánudagur, 09. 04. 07.

Þegar ég fór í sund þennan mánudagsmorgun, annan í páskum, gerðist hið sama og mánudaginn 5. febrúar, að ég komst ekki milli bakka í lauginni fyrir mæði. Hringdi ég í Tómas Guðbjartsson lækni, sem þá var í París, en útvegaði mér sneiðmyndatöku síðdegis. Mér var ekki hleypt heim, eftir að læknar sáu myndina. Kristinn Jóhannsson, skurðlæknir á lungna- og hjartadeild, setti í mig dren til að tæma loftbrjóstið í hægra lunga og ég var lagður inn á sömu deild og áður og mætt af sömu ljúfmennsku og ég hafði þá kynnst.