Dagbók: júlí 1998
Sunnudagur 26.7.1998
Klukkan 16.00 kom það í minn hlut að afhjúpa sérkennilegan, glæsilegan og umhverfisvænan, eins manns bíl, sem nemendur við Myndlista- og handíðaskólann hafa hannað og smíðað, verður hann sendur til Stokkhólms, menningarborgar Evrópu og tekur þar um miðjan ágúst þátt í keppni við verk frá 13 lista- og hönnunarskólum á Norðurlöndunum, sem boðið var að keppa um listilega hannað, umhverfisvænt ökutæki. Athöfnin fór fram í fjörunni í Nauthólsvík í góða veðrinu. Mega norrænu keppinautarnir vera snjallir, ef þeir slá þessu farartæki við.
Laugardagur 25.7.1998
Við fórum í Skálholt og hlýddum á Árna Heimi Ingólfsson flytja erindi um tvísöng í íslenskum sönghandritum eftir siðaskipti, tónleika Margrétar Bóasdóttur söngkonu, Jörgs Sondermanns orgelleikara og Noru Kornblueh sellóleikara og síðast en ekki síst hlýddum við á tónleika Andrews Manze, sem leikur á barokkfiðlu af miklu lisfengi og flytur góðar og markvissar skýringar um tilurð og gildi verkanna, sem hann leikur. Gafst þarna því einstakt tækifæri til þess að hlýða á fagra tónlist og fræðast um tónlistarsöguna.
Föstudagur 24.7.1998
Klukkan 15.00 fór ég til Hafnarfjarðar og tók þar þátt í því með Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Magnúsi Gunnarssyni bæjarstjóra að rita undir fyrsta samninginn um einkaframkvæmd í skólamálum og raunar fyrsta samning þessarar gerðar. Hann felst í því, að samið verður við einkaaðila að hanna, fjármagna, reisa og reka nýtt húsnæði fyrir Iðnskólann í Hafnarfirði, einnig tekur þessi sami aðili að sér að reka mötuneyti og tölvukerfi skólans, sjá um ræstingu og öryggisgæslu.
Fimmtudagur 23.7.1998
Þennan dag voru hér tveir fulltrúar frá Microsoft, tölvufyrirtæki Bills Gates. Komu þeir hingað til viðræðna um þýðingu á hugbúnaði fyrirtækisins. Lofa viðræðurnar góðu um framhaldið, sem ræðst þó mest af því, að viðskiptalegar forsendur séu fyrir að ráðast í þetta mikla verk. Verður lagt mat á það næstu vikur og síðan lagt á ráðin að nýju.
Miðvikudagur 15.7.1998
Við Rut flugum til Barcelona, tókum okkur bíl á leigu og ókum um Pyreneafjöllin í fimm daga. Fórum meðal annars litla fjallalandið Andorra, þá heimsóttum við pílagrímabæinn Lourdes í Frakklandi. Þar gerðist það frá febrúar fram í júlí 1858, að fjórtán ára stúlka, Bernadette, sá heilaga guðsmóður, Maríu mey, átján sinnum. Nú koma rúmlega fimm milljónir manna árlega, einkum á tímanum frá páskum fram að allra heilagra messu, 1. nóvember, til Lourdes sem pílagrímar. Margir eru mjög veikir og leita sér lækninga, aðrir óska eftir að komast á þennan helga stað fyrir dauða sinn og svo eru hinir, sem vilja efla trú sína með þátttöku í bænahaldi og trúarathöfnum. Er ógleymanleg reynsla að heimsækja Lourdes og fá örlitla tilfinningu fyrir því heita trúarlífi, sem þar ríkir. Fyrir nokkrum árum fórum við til helsta pílagrímastaðar Pólverja í Jasna Gora, þar sem er mynd af hinni svörtu Madonnu, drottningu Póllands og verndara gegn óvinum lands og þjóðar. Þar var allt annars konar andrúmsloft en í Lourdes, þangað sem menn koma einkum til að leita sér lækninga og sáluhjálpar. Til Jasna Gora streymdu Pólverjar til að staðfesta ættjarðarást sína og trú. Á þessum fáu dögum gafst aðeins tími til að sjá lítinn hluta fjallanna, sem eru mjög tignarleg. Við snerum aftur heim 22. júlí.
Laugardagur 11.7.1998
Síðdegis var efnt til mikilla hátíðarhalda í Hvalfirði, þegar göngin undir fjörðinn voru formlega opnuð með ræðum og tónlist. Veðrið gat ekki verið betra og eftir athöfnina við göngin var öllum boðið til móttöku um borð í Akraborginni. Hvalfjarðargöngin eiga eftir að breyta meiru en við getum gert okkur í hugarlund á þessari stundu. Það verður ekki lengra að fara upp á Akranes en til Keflavíkur eða Hveragerðis. Er gleðilegt, hve vel hefur gengið við þessa miklu mannvirkjagerð.
Föstudagur 10.7.1998
Fórum á tónleika Orkester Norden, þar sem rúmlega 100 ungmenni frá öllum Norðurlöndunum sýndu undir stjórn Paavo Järvi hvað mikið býr í þeim.
Fimmtudagur 9.7.1998
Var síðdegis viðstaddur slit Ólympíuleikanna í eðlisfræði og afhenti gullverðlaunin. Var ánægjulegt að heyra, hve vel hinir erlendu gestir létu af allri framkvæmd leikanna hjá okkur. Er greinilegt, að þar hefur verið vel að verki staðið undir forystu þeirra Þorsteins I. Sigfússonar og Viðars Ágústssonar.
Þriðjudagur 7.7.1998
Síðdegis fór ég í Laugardalshöllina og afhenti Margréti Friðriksdóttur, formanni Skólameistarafélagsins, tækjabúnað, sem notaður var í verklega hlutanum á Olympíuleikunum í eðlisfræði. Verður tækjunum dreift til framhaldsskólanna.
Laugardagur 4.7.1998
Klukkan 18.00 fór ég í Grafarvoginn á athafnasvæði Fjölnis, fjölmennasta íþrótta- og ungmennafélags landsins, og tók þátt í að veita verðlaun á unglingalandsmóti UMFÍ. Voru þar tæplega 1000 ungmenni við íþróttaiðkun frá föstudegi fram á sunnudag.
Föstudagur 3.7.1998
Klukkan 10 hófst setningarhátíð Ólympíuleikanna í eðlisfræði í Háskólabíói og setti ég leikana með ræðu. Við Bjarni Benedikt sonur minn höfðum ákveðið að fara saman á frumsýningu á Grease í Borgarleikhúsinu um kvöldið og skemmtum okkur hið besta. Þennan morgun barst svar til ráðuneytisins frá Microsoft, sem lofar góðu um vilja þess til að íslenska hugbúnað sinn. Sendi ráðuneytið frá sér fréttatilkynningu um málið og komu margir fjölmiðlamenn til mín síðdegis.
Fimmtudagur 2.7.1998
Eftir hádegi fór ég í viðtöl við fjölmiðla um fundinn í Ottawa og samskiptin við Microsoft vegna íslenskunar á hugbúnaði þaðan, en óskir okkar í því efni höfðu verið til umræðu í Los Angeles Times og heimsþjónustu BBC-sjónvarpsins.
Miðvikudagur 1.7.1998
Þetta er þjóðhátíðardagur Kanada. Var grenjandi rigning þegar við litum út í morguninn og viðraði því ekki vel til útihátíða. Klukkan 10 hitti ég Sheilu Copps á einkafundi, þar sem við ræddum meðal annars landafundaárið 2000 og kynningu á Íslendingasögunum, nú þegar þær eru allar komnar út á ensku. Klukkan 12.30 hófst hátíð fyrir framan þinghúsið í Ottawa. Var okkur boðið til hennar og sátum við undir regnhlífum og þurfti að hvolfa vatninu úr stólunum áður en við settumst í þá. Sheila Copps flutti ræðu og einnig forsætisráðherrann og landstjórinn, kór söng og listamenn frá einstökum fylkjum Kanada komu fram. Það stytti upp undir athöfninni og eftir hana skoðuðum við þinghúsið og þágum hádegisverð þar. Síðan gengum við til hótelsins og minnti stemmninginn á 17. júní hjá okkur, foreldrar með börn sín, fánar, blöðrur, pylsur og ís, fjölistafólk og hljómsveitir. Síðan var haldið út á flugvöll og flogið heim í gegnum Boston. lentum við á Keflavíkurflugvelli um klukkan 6 að morgni fimmtudagsins 2. júlí.