Dagbók: apríl 2006

Sunnudagur, 30. 04. 06. - 30.4.2006 18:22

Skálholtskvartettinn hélt klukkan 17.00 tónleika í klausturkirkjunni í Messey, smábæ milli Vierzon og Bourges, og voru um 300 manns í þéttsetinni kirkjunni og fögnuðu kvartettinum með innilegu lófataki. Síðan var opnuð sýning á íkonum og trúarlegum mósaíkmyndum en þar mælti Tómas Ingi Olrich, sendiherra í Frakklandi, nokkur orð fyrir hönd íslensku þátttakendanna í þessum hátíðarhöldum.

Laugardagur, 29. 04. 06. - 29.4.2006 18:16

Bókasafnið í Les Murs er eitt hið stærsta, sem ég hef séð í einkaeign og kennir þar margra grasa, þannig að mér leiddist ekki á meðan kvartettinn var að æfa sig. Hitinn var ekki mikill miðað við árstíma milli 10 og 15 gráður en gott var að sitja í sólinni innan múra sveitasetursins, sem má rekja allt aftur til 100 ára stríðsins eða sex til sjö hundruð ár aftur í tímann. Þar er myndarlegur dúfnaturn en stærð slíkra turna gefur til kynna landareign þess, sem setrið átti, því að dúfurnar voru notaðar til að afla frétta og flytja fyrirmæli landeigandans til leiguliðanna.

Auk þess að kynna mér bókasafnið reyndi ég að átta mig á Clearstream-málinu, sem nú ber hæst í frönskum stjórnmálum.

Föstudagur, 28. 04. 06. - 28.4.2006 18:07

Fór með lest klukkan 12.50 til Vierzon um 200 km beint í suður af París og þaðan til smábæjarins Meneau, þar sem Skálholtskvartettinn var að æfa í Les Murs, sveitasetri Jaap Schröder fiðluleikara en auk hans eru Rut, kona mín í kvartettinum, Svava Bernharðsdóttir, víóluleikari, og Sigurður Halldórsson, sellóleikari, í kvartettinum.

Fimmtudagur, 27. 04. 06. - 27.4.2006 13:16

Klukkan 11.00 fundur með Michele Alliot-Marie varnarmálaráðherra í skrifstofu hennar, eftir að við höfðum hlýtt á þjóðsöngva landanna og gengið fram hjá heiðursverði sveita úr landher, sjóher og flugher Frakka.

Miðvikudagur, 26. 04. 06. - 26.4.2006 13:13

Fundir í París frá kl. 09. 30 til 19.15 með: Yfirmanni lögreglusveitar gegn skipulagðri glæpastarfsemi, yfirmönnum öryggislögreglunnar DST, Brice Hortefeux, varainnaríkisráðherra, yfirmönnum útlendingaeftirlits (OFORA) og yfirmanni landamæralögreglunnar.

Þriðjudagur, 25. 04. 06. - 25.4.2006 13:09

Flugum frá París til Brest á Bretagne-skaga og kynntumst starfsemi flotastöðvar Frakka þar, björgunarmiðstöð, lögreglustörfum á hafinu og björgunarhlutverki öflugs dráttarbáts. Komum aftur um klukkan 22.30 til Parísar

Mánudagur, 24. 04. 06. - 24.4.2006 13:06

Flaug til Parísar og lenti þar um 13.30. Sat klukkan 16.00 fund með fulltrúum frá Eurocopter til að ræða þyrlumál landhelgisgæslunnar.

Sunnudagur, 23. 04. 06. - 23.4.2006 22:21

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar kynntu í dag stefnu sína í málefnum fjölskyldu og skóla. Stefnan er samhljóma málflutningi okkar í borgarstjórn á þessu kjörtímabili og einkennist af viðleitni til að skapa borgurum val í stað þess, að þeim sé skammtað eitthvað af yfirvöldum eins og vinstrisinnum er svo tamt að gera, enda telja þeir sig margir hverjir vita betur, hvað einstaklingnum sé fyrir bestu heldur en einstaklingurinn sjálfur.

Stefnan skiptist í fjóra meginþætti:

  • Tími til að tryggja val um örugga vistun frá því fæðingarorlofi lýkur.
  • Tími til að tryggja börnum okkar betri menntun.
  • Tími til að samræma skólanám barna og íþrótta- og tómstundastarf.
  • Tími til að tryggja fjölskyldum fyrsta flokks borgarumhverfi.
  • Auðvelt er að kynna sér hana á vefsíðunni www.betriborg.is

Laugardagur, 22. 04. 06. - 22.4.2006 22:27

The Economist birtir nú um helgina sérstaka úttekt á því, sem blaðið kallar nýja miðla. Þar er sagt frá upphafi bloggsins og enska orðið blog rakið til ársins 1997, þegar Jorn Barger kallaði vefsíðuna sína „weblog“. Árið 1999 fór annar vefsíðumaður í orðaleik og braut orðið í tvennt með því að segja „we blog“ - síðan varð til nýtt fagorð - blog - sem bæði er sögn og nafnorð á ensku. Á íslensku segjum við blogg og að blogga.

Fagorðið vísar til vefsíðu, þar sem eigandinn færir reglulega inn nýtt efni, oft stutt, en ekki endilega, og með vísunum í annað blogg eða vefsíður.

Við skilgreiningu á bloggi er einnig vísað til efnistaka. The Economist nefnir Dave Winer, hugbúnðarfræðing, til sögunnar, þar sem hann telji sig allra manna lengst hafa haldið úti samfelldu bloggi eða frá árinu 1997. Hann lýsir bloggi á þann veg, að það sé „óritstýrð rödd eins manns“- helst leikmanns. Blogg einkennist með öðrum orðum almennt af hráum upprunaleika og sérkennum höfundarins. Með þessu er því hafnað, að síður frá fyrirtækjum, almannatengslafólki og dagblöðum falli undir blogg. Winer segir, að komi ritstjóri að því að ákveða efni á síðunni sé ekki lengur um blogg að ræða.

Þegar ég las þessa lýsingu, sá ég, að ég hef haldið blogg-síðu samfellt úti lengur en Dave þessi Winer, því að eins og lesendur bjorn.is geta staðfest með því að fara inn á pistlana mína, var hinn fyrsti þeirra settur á síðuna 19. febrúar 1995. 

Ég fann Dave Winer á netinu og síðuna, sem hann hefur haldið úti síðan í apríl 1997 undir veffanginu http://www.scripting.com . Lesendur geta því kynnt sér hana sjálfir. 

Föstudagur, 21. 04. 06. - 21.4.2006 21:47

Um kvöldmatarleytið voru atkvæðagreiðslur í þinginu til að koma frumvarpi félagsmálaráðherra um frjálsa för verkafólks til nefndar. Afgreiðsla málsins þarf að vera hröð, þar sem hinar nýju reglur eiga að taka gildi 1. maí. Áður en gengið var til atkvæðagreiðslunnar lauk annari umræðu um frv. til laga um RÚV.

Í blöðum birtast nú auglýsingar frá 365-miðlum (Baugsmiðlunum) gegn RÚV-frumvarpinu og eru þar birtir neikvæðir kaflar úr umsögnum Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins um frumvarpið. Óvenjulegt er, að gripið sé til þessara ráða í því skyni að hafa áhrif á þingmenn við afgreiðslu mála, svo að ekki sé nú minnst á, hve þetta er sérstakt, þegar auglýsandinn ræður yfir allt að 70% fjölmiðla í landinu og hefur lagt undir sig allt sviðið eins og ég benti á í pistli mínum á dögunum.

Sumir stóreignamenn eira engum keppinauti sínum neins og leggja ofurþunga á hagsmunagæslu sína, ef þeir telja minnstu líkur á, að staða keppinautarins styrkist, þótt markaðshlutdeild hans sé ekki mikil.

Félagar mínir í þinginu, sem hafa fylgst með umræðunum um RÚV, eru undrandi á því, hve langt vinstrisinnar ganga til að hefta framgang þessa frumvarps um RÚV og velta fyrir sér, hvernig á því standi, að þeir vilji ekki, að RÚV fái tækifæri til að ná áttum við gjörbreyttar markaðsaðstæður.

Ég hef áður hér á síðunni vakið máls á því, að ekki sé það neinum málstað sérstaklega til framdráttar, að Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, taki hann upp á sína arma, en í þessu máli mun Björgvin einmitt hafa gengið lengst í að enduróma 365 boðskapinn.

 

Fimmtudagur, 20. 04. 06. - 20.4.2006 22:53

Gleðilegt sumar!

Rut heyrði í lóu í Öskjuhlíðinni í gær og í dag sáum við lóubreiðu á túni í Fljótshlíðinni auk þess voru tjaldshjónin komin í hlað. Mér var sagt, að önnur gimbrin mín væri með lambi, svo að nú hef ég hag af því, ef þingi lýkur fyrir sauðburð og get sett mig í spor þeirra, sem þess óska. Líklega er það þó borin von, þar sem málþóf er vegna RÚV og svo krefst Ögmundur Jónasson, vinstri/grænum þess, að öllum málum verði ýtt til hliðar og tekið til við að ræða um efnahagsmálin.

Ég sé að Berlingske Tidende heldur áfram að ræða um íslensk efnahagsmál og ræðir í dag um, að sumir Íslendingar telji evruaðild allra meina bót, þar á meðal forsætisráðherrann og nú sé betra tækifæri en nokkru sinni til að ræða um aðild að evrulandi, af því að Davíð Oddsson hafi eftir margra ára stjórnarforystu orðið seðlabankastjóri, en hann hafi sem flokksformaður og forsætisráðherra verið „arg modstander af EU og fælles valuta.“

Blaðið telur þó líklegt að allt tal um evruaðild sé draumsýn. Rætt er við Carsten Valgreen, aðalhagfræðing Danske Bank, sem segir alls ekki í hendi að taka upp evru, það krefjist aðildar að Evrópusambandinu og langs aðdraganda, þar sem umsækjandinn sanni, að hann geti  tryggt stöðugleika.

Undarlegt er, að enginn hafi skýrt rækilega út fyrir okkur, hvers vegna Danske Bank hefur svona mikinn áhuga á íslensku efnahagslífi og er svona ákafur við að gefa álit á þróuninni hér. Skyldi hann vera með smásjána á fleiri ríkjum? Er hann að búa sig undir viðskipti hér á landi? Eða hefur hann áhuga á hlutabréfum í íslenskum banka, eftir að þau hafa lækkað? Stendur honum stuggur af vaxandi ítökum íslenskra banka í Danmörku? Hefur spurningum af þessum toga verið svarað einhvers staðar?

Miðvikudagur, 19. 04. 06. - 19.4.2006 21:32

Hitti blaðamann frá Aftenposten í Noregi, sem er hér að safna efni í mikla grein um öryggis- og varnarmál.

Var síðdegis í heimsókn með starfsmönnum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hjá tölvumiðstöð ráðuneytisins, TMD, í Skógarhlíð.

Ef ég heyrði rétt er það tillaga frambjóðenda Samfylkingarinnar í Reykjavík undir forystu Dags B. Eggertssonar að stofna félag með ríkinu um framtíð Vatnsmýrarinnar.

Þegar ég lét þá skoðun í ljós í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum, að nauðsynlegt væri að fulltrúar ríkis og borgar settust niður og kæmu sér saman um framtíð Vatnsmýrarinnar, ætlaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, núverandi formaður Samfylkingarinnar, varla að geta hamið sig af undrun og hneykslan, hvernig nokkrum manni dytti þetta í hug. - Reykvíkingar hefðu jú ákveðið framtíð Vatnsmýrarinnar í atkvæðagreiðslu nú ætti bara að setjast niður með ríkinu - ha! ha! ha!

Skyldi Ingibjörg Sólrún samþykk því, að stofnað verði félag með ríkinu um framtíð Vatnsmýrarinnar? Fjölmiðlamenn hljóta að spyrja hana. Einnig ættu þeir að spyrja hana um ákvörðun Gísla S. Einarssonar, varaþingmanns Samfylkingarinnar, um að verða bæjarstjóraefni sjálfstæðismanna á Akranesi.

Þá staldraði ég við þann þátt í stefnu samfylkingarfólks í Reykjavík, sem snýst um sjálfstæða skóla en þar segir, að Samfylkingin vilji draga enn frekar úr miðstýringu í menntakerfinu og auka sjálfstæði einstakra skóla til að móta eigin aðferðir og áherslur. Aukinn sveigjanleiki í skólastarfi sé lykilatriði. Hvers vegna skyldi Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs, ekki hafa tekið undir sjónarmið okkar sjálfstæðismanna um minni míðstýringu og sjálfstæða skóla á kjörtímabilinu, sem nú er að líða? Hvers vegna snýr Samfylkingin við blaðinu í skólamálum nú mánuði fyrir kosningar?

Þriðjudagur, 18. 04. 06. - 18.4.2006 21:56

Á fundi ríkisstjórnarinnar kl. 09. 30 lagði ég fram tillögu um leigu á tveimur þyrlum fyrir landhelgisgæsluna vegna yfirvofandi brottfarar þyrlusveitar varnarliðsins og var hún samþykkt.

Er þetta fyrra skrefið af tveimur, það er bráðabirgðalausn, þar til gengið verður frá kaupum á þyrlum til frambúðar en það tekur sinn tíma að ljúka þeim viðskiptum og fá þyrlur afhentar.

Ég tek undir með félögum mínum í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna, að það er heldur lágkúrulegt hjá frambjóðendum framsóknar til borgarstjórnar að halda því fram, að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson telji lagningu Sundabrautar „sjálfhætt í bili“ eins og þeir orða það, þegar Vilhjálmur gerir ekki annað en lýsa þeim langa tíma, sem enn á eftir að líða, þar til í lagningu brautarinnar verður ráðist, vegna þess að framsóknarmenn og aðrir R-listamenn hafa ekki getað komist að niðurstöðu um skipulagsmál vegna brautarinnar.

Mér sýnist á yfirboðunum, sem einkenna kosningaloforð framsóknarmanna vegna borgarstjórnarkosninganna, að þeir vilji nú fara dýrustu leiðina yfir Elliðavoginn, eða í botngöngum. Þá velja þeir einnig Löngusker fyrir nýjan flugvöll, sem kostar sinn skilding. Hvernig skyldu þeir ætla að fjármagna þetta og allt hitt, sem þeir lofa?

Annars var mér bent á það í dag, að engu sé líkara en frambjóðendur Framsóknarflokksins til borgarstjórnar vilji alls ekki hampa nafni flokks síns, því að hans sé hvergi getið í auglýsingum þeirra eða tilkynningum, þar sé aðeins talað um X-B eða exbé. Ég hef ekki kynnt mér til hlítar, hvort þetta sé rétt, en í tilkynningunni til árása á Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson er aðeins talað um B-listann en ekki minnst á Framsóknarflokkinn.

 

Mánudagur, 17. 04. 06. - 17.4.2006 17:50

Íslendingum má í léttu rúmi liggja, þótt Donald Rumsfeld verði látinn fjúka sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Við höfum líklega ekki átt þar neinn hauk í horni. Rumsfeld sætir vaxandi gagnrýni málsmetandi hershöfðingja fyrir þvermóðsku og hroka, auk þess sem  þeir telja hann hafa sýnt litla fyrirhyggju vegna eftirleiks innrásarinnar í Írak. Henry Kissinger lýsir  Rumsfeld í endurminningum sínum sem snillingi í því að halda sínu í stöðugri valdabaráttu innan bandaríska stjórnkerfisins. Nú reynir enn einu sinni á þennan hæfileika hans.

Rumsfeld kýs að tala niður til hershöfðingjanna, sem gagnrýna hann og lætur eins og þeir séu bitrir eftirlaunamenn að draga að sér athygli. Þegar Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði nýlega á blaðamannafundi í Bretlandi, að ýmislegt hefði vissulega farið úrskeiðis í Írak eftir innrásina, svaraði Rumsfeld henni frekar kaldhæðnislega.

Rumsfeld hefur fylgt þeirri stefnu bæði vegna hernaðarins í Afganistan og Írak, að hernaðaðgerðin eigi að ráða því, hverjir séu kallaðir til þátttöku í henni, en þátttakendurnir eigi ekki að ráða því, hvort gripið sé til aðgerðarinnar. Einstefna af þessu tagi er ekki til þess fallin að laða fram samstarfsvilja annarra.

George W. Bush forseti sá ástæðu til þess í páskaleyfi sínu í Camp David að ræða við blaðamenn til að lýsa fullum stuðningi við Rumsfeld vegna gagnrýni hershöfðingjanna. Bandaríkjaforseti leggur ekki slíka lykkju á leið sína, nema hann telji mikið í húfi.

 

Sunnudagur, 16. 04. 06. - 16.4.2006 17:10

Síðasti Dublin-dagur að þessu sinni. Fórum niður í miðborgina og fylgdumst í tæpa tvo tíma með hersýningu í tilefni af 90 ára afmæli páskauppreisnarinnar 1916. Skoðuðum einnig kirkju heilags Patreks.

Haldið heim til Íslands klukkan 19.30 og lent 20.50 á íslenskum tíma á Keflavíkurflugvelli eftir 2.20 klst. flug.

Laugardagur, 15. 04. 06. - 15.4.2006 17:05

Héldum áfram að skoða Dublin og fórum meðal annars í bókasafn Trinity College og skoðuðum Kells-bók og handrit og myndir frá Samuel Beckett.

Föstudagur, 14. 04. 06. - 14.4.2006 16:49

Fórum í gönguferð um nokkra garða í Dublin áður en við tókum Dart-lest út til Howth, sem er höfði norður af borginni - orðið Howth gæti raunar verið umskrift á orðinu höfði en við hann eru tvær eyjar: Lambeye og Ireland's eye - en augljóst er, að nöfnin eru norræn frá tímum víkinganna: Lambey og Írlandsey.

Veitingastaðir eru margir lokaðir í dag en þeir, sem eru opnir mega ekki selja áfengi - til að minnast krossfestingarinnar. Nokkrar verslanir eru opnar en flestar virðast lokaðar - að minnsta kosti utan ferðamannastaða.

Við vorum í Christ Church dómkirkjunni klukkan 15.30 en þá hófst það, sem á ensku er nefnt: 15.30 Choral Evensong and Proclamation of the Cross. Kórinn söng og prestar lásu úr ritningunni og fóru með bænir auk þess að bera kross inn kirkjugólfið að altarinu, þar sem þeir lögðu hann. Var stundinn hátíðleg og söngurinn frábær en sagt er að kórinn eigi rætur aftur til ársins 1493.

Víða má sjá merki um sýningar og viðburði, sem tengjast 100 ára afmæli Samuels Becketts. Við urðum að láta okkur nægja að sjá myndir af honum í gegnum glugga á ljósmyndasafninu, því að það er lokað yfir hátíðarnar.

Fimmtudagur, 13. 04. 06. - 13.4.2006 18:21

Flugum klukkan rúmlega níu í morgun frá Keflavík til Dublin ásamt fjölda annarra íslenskra ferðalanga í vél Loftleiða - flugið sjálft tók ekki nema 1.45 klst. - en tæknilegar tafir urðu á brottför og við þurftum að vera í biðflugi við Dublin, svo að í allt tók ferðin um 2.30 klst.

Ég hef aldrei komið til Dublin áður. Í dag fórum við í skoðunarferð í opnum tveggja hæða strætisvagni og sáum hið merkasta í borginni - það var heldur svalt að sitja á efri hæð vagnsins og hér er óvenjulega kalt miðað við árstíma, en þurrt og bjart.

Spurt hefur verið oftar en einu sinni undanfarin misseri og ekki síst undanfarna daga: Hvaða ógn steðjar að Íslandi? Hverjum dettur í hug að gera okkur einhvern óleik? Hvers vegna er nauðsynlegt að grípa til öryggisráðstafana í þessu friðsæla landi? Eru ekki öryggisráðstafanir frekar til þess fallnar að kalla á árás - gera okkur að skotmarki?

Íslendingar verða eins og aðrar þjóðir að tryggja öryggi sitt á fleiri sviðum en áður og ekki aðeins með varnarsamningi. Við verðum til dæmis að verja opið hagkerfi okkar á tímum alþjóðavæðingar á annan hátt en áður. Í því efni getum við ekki treyst á aðra og einkavæddir bankar með viðskipti um allar jaðrir verða að hafa varnaráætlanir á takteinum, sem taka mið af umsvifum þeirra.

Hver hefði spáð því, að olíusjóður Norðmanna mundi taka fjandsamlega stöðu gagnvart íslensku krónunni? Eða að greiningarstjóri Den Danske Bank yrði til þess að mála svörtustu myndina af íslensku bankakerfi? Eða að það yrði talinn veikleiki í íslensku fjármálakerfi, að starfsmenn fjármálaeftitlitsins væru ekki nógu góðir í ensku?

Sá á BBC að Íslendingar eru samkvæmt OECD best nettengda þjóð heims - það er í gegnum háhraðanet. Reuters segir af þessu tilefni:

In Iceland, 26.7 percent of citizens have a subscription to an always-on broadband Internet connection, compared with 25.4 percent in South Korea, 25.3 percent in the Netherlands and 25 percent in Denmark, the Organisation for Economic Co-operation and Development (OECD) said in a study.

The number of broadband connections in Iceland grew to 78,017 by the end of 2005, from a penetration rate of 18.2 percent a year earlier, when it lagged Korea, the Netherlands and Denmark.

The number of broadband subscriptions throughout the OECD countries grew to 158 million by December 2005 from 136 million six months earlier. This is an average of 13.6 subscribers per 100 inhabitants in the entire OECD.

The United States, with 16.8 percent broadband penetration, counted 49.39 million subscribers in 2005, compared with 22.52 million in Japan which has 17.6 percent penetration.

 

Miðvikudagur, 12. 04. 06. - 12.4.2006 21:35

Klukkan 11.30 ritaði ég undir samstarfssamning dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við Ólafs Daðasonar, forstjóra Hugvits um þróun á GoPro málaskrárkerfi fyrir stofnanir ráðuneytisins en hér er um einstakt verkefni að ræða og með lausn þess er unnið brautryðjendastarf á heimsvísu.

Klukkan 14.30 voru mér afhentir listar með nöfnum þeirra, sem vilja að sr. Sigfús B. Ingvason verði sóknarprestur í Keflavík en valnefnd og biskup hafa mælt með sr. Skúla S. Ólafssyni.

Í gær var tilkynnt, að Geir H. Haarde, settur dómsmálaráðherra, hefði skipað Hjördísi Björk Hákonardóttur dómstjóra hæstaréttardómara. Ég sagði mig frá þessari skipan, þar sem ég hafði samið við Hjördísi að tilmælum kærunefndar jafnréttismála, sem taldi hana órétti beitta, þegar ég skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson hæstaréttardómara. Þetta er í annað sinn sem Geir skipar hæstaréttardómara vegna vanhæfis míns, en þegar Jón Steinar Gunnlaugsson var skipaður, sagði ég mig frá þeirri skipan vegna óleystrar deilu minnar og Hjördísar, sem þá sagðist vera að undirbúa mál á hendur ríkinu. Það hefði hún varla áformað, ef álit kærunefndar jafnréttismála hefði verið endanlega niðurstaða um það, hvort ég braut jafnréttislög eða ekki. NFS,  fréttasjónvarpsstöðin innan Baugsmiðlaveldisins hefur hins vegar hvað eftir annað fullyrt í fréttum, að ég hafi brotið jafnréttislög á Hjördísi og borið fyrir sig álit kærunefndarinnar. Í nóvember 2005 sömdum við Hjördís um, að hún færi í námsleyfi í eitt ár en eftir skipun hennar í hæstarétt lýkur því hinn 1. maí næstkomandi. Ég hef undrast vangaveltur í fjölmiðlum um þetta námsleyfi og kostnað við það, þar sem alltaf er verið að veita ríkisstarfsmönnum námsleyfi og  ákvæði um slíkt leyfi er hluti af kjarasamningi margra þeirra. Ég man ekki eftir, að fjölmiðlar séu almennt að tíunda kostnað við slík leyfi, til dæmis hjá þeim, sem starfa við Háskóla Íslands.

Þriðjudagur, 11. 04. 06. - 11.4.2006 9:36

Fór í þinghúsið uppúr miðnætti og um klukkan 01.30 flutti ég framsöguræðu um frv. um landhelgisgæsluna, síðan um fullnustu norrænna refsidóma, það er flutning innheimtu vegna þeirra á Blönduós, og loks fyrir frv. um afnám einkaréttar happdrættis Háskóla Íslands sem flokkahappdrættis til að greiða út vinninga í peningum, það er að flokkahappdrættin DAS og SÍBS fengju einngi heimild til að greiða vinninga í peningum. Lauk umræðum um málin um kl. 03.00.

Ríkisstjórn kom saman klukkan 09.30.

Klukkan 16.00 var ég í útlendingastofnun og flutti þar ávarp vegna nýrrar heimasíðu, sem verið var að opna.

Var kominn á alþingi rúmlega 16.30 og rétt fyrir 17.00 hófust umræður um fjögur mál, sem ég flutti: framsal sakamanna; starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga innan EES; dómstóla og meðferð einkamála, og breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga.

Umræður urðu mestar um síðasta málið og lauk þeim ekki fyrr en rúmlega 19.30. Þar með hef ég flutt framsögu fyrir öllum málum, sem ég hef hug á að koma til allsherjarnefndar á þessu þingi. Næstu vikur kemur í ljós, hvernig nefndarmönnum, undir formennsku Bjarna Benediktssonar, gengur að afgreiða málin. Bjarni er farsæll nefndarformaður og laginn við að ná samkomulagi innan nefndarinnar. Málafjöldi í nefndinni er mikill en hún tekur til meðferðar mál frá forsætisráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra.

Lesa meira

Mánudagur, 10. 04. 06. - 10.4.2006 21:24

Las í Fréttblaðinu að fundir Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sl. laugardag hefðu leitt í ljós, að flokkarnir væru „öndverðum meiði um hvernig varnarmálum þjóðarinnar skuli háttað í framtíðinni. Kom það dyggilega í ljós hjá leiðtogum flokkanna á flokksráðsfundum um helgina.“

Í pistli mínum hér á síðunni í gær benti ég á, að enginn grundvallarmunur hefði komið fram í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins annars vegar og ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, hins vegar, það er að forgangsverkefni væri að láta reyna á varnarsamninginn við Bandaríkin. Í dag lýsti Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra síðan sömu skoðun í ræðu í Háskóla Íslands.

Fréttablaðið sækir heimildir fyrir skoðun sinni til Baldurs Þórhallssonar, dósents í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Ef hann telur grundvallarmun á afstöðu Sjálfstæðisflokks og skoðana formanns Samfylkingarinnar, þegar litið er til afstöðunnar til varnarsamningsins við Bandaríkin, átta ég mig ekki á því við hvaða heimildir hans styðst.

Í samtali við Fréttablaðið lýsir Baldur stefnu Samfylkingarinnar á þennan veg: „Sú stefna felur í sér að Ísland taki þátt í varnarstefnu sambandsins og utanríkis- og öryggismálastefnu þess. Felur hún meðal annars í sér sameiginlegar varnarskuldbindingar ef Evrópusambandsríkin verða fyrir hryðjuverkaárás.“

Vegna þessara orða dósentsins er ástæða til að spyrja: Hvar er þessar „sameiginlegu varnarskuldbindingar“ að finna? Hvar eru þær skráðar? Hver á að hrinda þeim í framkvæmd?´

Í leiðara Blaðsins í dag er fjallað um þau ummæli Ingibjargar Sólrúnar í flokksstjórnarræðu hennar, að Íslendingar hlytu „að stefna að því í framtíðinni að eiga öryggissamfélag með Evrópu fremur en Bandaríkjunum.“ Segir Blaðið réttilega af þessu tilefni: „Ekki verður annað greint en að ákveðins misskilnings gæti í þessari yfirlýsingu formanns Samfylkingarinnar..“ Blaðið telur, að það öryggissamfélag sem Ísland tilheyri grundvallist á tengslum Evrópu og Bandaríkjanna og segir síðan: „Ekkert hefur breyst í þeim efnum og mun tæpast gera það um fyrirsjáanlega framtíð.“

Sunnudagur, 09. 04. 06. - 9.4.2006 21:55

Skoðaði í morgun nýtt þjónustuhús, sem er í smíðum við Þingeyrakirkju undir leiðsögn Erlendar Eysteinssonar á Stóru-Gilja. Síðan ókum við Ingimundur Sigfússon til Reykjavíkur.

Sérkennilegt að Samfylkingin skuli telja það sér til tekna að saka sjálfstæðismenn að hafa verið í 10 ára setuverkfalli í málefnum aldraðra og við séum fyrst að taka við okkur í þeim málum nú rétt fyrir kosningar. Í fyrsta lagi er einkennilegt, að stjórnmálamenn undrist, að aðrir stjórnmálamenn kynni kjósendum stefnu sína rétt fyrir kosningar. Í öðru lagi er engin innistæða fyrir þessum yfirlýsingum samfylkingarfólksins með vísan til stefnumörkunar okkar sjálfstæðismanna í áranna rás og til dæmis fyrir síðustu borgarstjórmarkosningar - þegar R-listinn glutraði þessum málum niður með óðagotssamningi rétt fyrir kjördag. Í þriðja lagi er það persónuleg móðgun við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson að láta eins og hann hafi ekki haft áhuga á málefnum aldraðra eftir allt hið mikla starf, sem hann hefur unnið sem einn af forystumönnum hjá Eir.

Vert er enn og aftur að vekja athygli á því, hvernig Dagur B. Eggertsson, efsti maður Samfylkingarinnar, reynir að slá óþægileg mál út af borðinu með frösum eða tilraunum til að vera fyndinn á kostnað andstæðinga sinna. Raunar er hann frekar hlægilegur við þennan málflutning sinn en fyndinn.

 

Laugardagur, 08. 04. 06. - 8.4.2006 18:28

Ók með Ingimundi Sigfússyni frá Akureyri uppúr hádegi eftir að hafa hlustað á fróðlegar ræður um málefni aldraðra á fundi sjálfstæðismanna í Brekkuskóla. Við heimsóttum lögreglustöðina á Blönduósi, þar sem Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar er að hefja starfsemi undir stjórn Bjarna Stefánssonar sýslumanns og Ernu Jónmundardóttur lögreglukonu. Síðan héldum við að Þingeyrum í björtu og fallegu veðri.

Ég heyrði í fréttum, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefði flutt einhvern reiðilestur um Sjálfstæðisflokkinn á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar. Raunar er undarlegt, að þetta skuli hafa verið hið fréttnæmasta úr ræðu formannsins, það er neikvætt og frekar fúllynt nöldur um andstæðinga Ingibjargar Sólrúnar. Spyrja má: Er það almennt fréttnæmt, að Ingibjörg Sólrún hallmæli Sjálfstæðisflokknum? Það væri hins vegar stórfrétt, ef hún léti flokkinn njóta sannmælis!

Föstudagur, 07. 04. 06. - 7.4.2006 18:10

Flaug klukkan 14.00 norður á Akureyri, þar sem haldinn var flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundur sjálfstæðismanna og hófst hann klukkan 16.00 með ræðu Geirs H. Haarde, formanns flokksins. Hópurinn fór einnig í Háskólann á Akureyri, þar sem Þorsteinn Gunnarsson rektor kynnti starfsemi skólans, sem hefur stækkað ört hin síðari ár.

Þetta er í fyrsta sinn í 77 ára sögu flokksins, sem fundur af þessu tagi er haldinn utan Reykjavíkur og aðstaða í Brekksukóla eins og best verður á kosið til slíkra fundarhalda.

Fimmtudagur, 06. 04. 06. - 6.4.2006 21:11

Rætt var um utanríkismál á þingi í dag og snerust umræður að mestu um varnarmálin eins og við var að búast, enda gaf ræða Geirs H. Haarde utanríkisráðherra tilefni til þess. Ef marka má fréttir af umræðum eftir ræðu Geirs, kom ekkert fréttnæmt fram í þeim.

Á forsíðu Fréttablaðsins er mynd frá því, þegar Carol Van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna, afhenti Baldri Þórhallssyni, dósent við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og formanni stjórnar Alþjóðamálastofnunar háskólans, til varðveislu í Landsbókasafni Íslands-Háskólabóksafni bókagjöf á sviði alþjóða-, varnar- og oryggismála. Þær Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, og Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður eru með sendiherranum og Baldri á myndinni og í texta segir: „Baldur sagði kankvís að bækurnar væru vel fjögurra þotna virði.“ Annars staðar var sagt, að Bandaríkjastjórn hefði gefið 200 bækur að þessu sinni og ætlaði að bæta við gjöfina árlega.

Það var haft á orði við mig í sundinu í morgun, að nú mætti ég hafa mig allan við að lesa og þegar ég kváði, var vísað til þessarar gjafar Bandaríkjastjórnar. Síðan heyrði ég lagt út af bókagjöfinni í Víðsjá á rás 1. Þessi bandaríska gjöf hefur þannig vakið meiri athygli en venja er, þegar sendiráð gefa bækur til landsbókasafnsins og er það vegna efnisvalsins.

Ég er fáfróður um bókakost Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, enda kaupi ég að jafnaði bækur, sem vekja áhuga minn, og er áskrifandi að tímaritum, sem til mín höfða. Sé raunin sú, að í safninu eða í fórum alþjóðamálastofnunar hafi ekki verið til bækur um herfræðileg efni eða öryggismál, er Bandaríkjastjórn að bæta úr brýnni þörf - hvað sem líður öllum orrustuþotum.

Miðvikudagur, 05. 04. 06. - 5.4.2006 22:05

Svaraði þremur fyrirspurnum um kl. 18. 30 á alþingi um boðun í neyðartilvikum til heyrnarlausra og almennings og um flutning verkefna Þjóðskrár til sýslumanna í Siglufirði og Ólafsfirði.

Ég var ekki á þingfundi fram undir klukkan 06.00 í morgun, en um nóttina hafði Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri/grænna, talað í rúma sex klukkutíma til að andmæla frumvarpi um að breyta ríkisútvarpinu í hlutafélag í eigu ríkisins. Ögmundur má ekki heyra minnst á orðið hlutafélag á þingi, án þess að rjúka upp til handa og fóta.

Ég sá þá í Kastljósi í gærkvöldi Ögmund og Sigurð Kára Kristjánsson, þingmann sjálfstæðismanna, og þar vakti Sigurður Kári athygli á því, hvernig Ögmundur sveiflar sér á milli þess að vera þingmaður v/g og formaður BSRB og nýtir sér formennskuna, þegar svo ber undir í flokkspólitískum tilgangi. Sætir undrun æ fleiri þingmanna, að einstök félög eða félagsmenn innan BSRB láti þessar flokkspólitísku æfingar yfir sig ganga. Þegar vatnalögin voru til umræðu á þingi, kom í ljós, að í félagasyrpu, sem átti að standa með BSRB að því að að andmæla frumvarpinu, voru félög, sem mótmæltu því, að nafni þeirra væri veifað á þennan hátt.

Mér skilst, að sem formaður BSRB hafi Ögmundur staðið fyrir ályktun almenns starfsmannafundar RÚV um Ríkisútvarpið hf., sem send var þingmönnum í gær. Þar segir meðal annars: „Við teljum okkur vera í vinnu hjá þjóðinni og landsmenn eigi rétt á því að vita hvert stefni með fjölmiðil þeirra.“ Það hlýtur að vera þeim vonbrigði, sem sömdu þennan yfirlætisfulla texta, að svo virðist sem þjóðin og landsmenn láti sér það auðvitað í léttu rúmi liggja, þótt ríkið ákveði að breyta eign sinni úr stofnun í hlutafélag. Menn þurfa að vera mjög sérstaklega hugmyndafræðilega innréttaðir nú á dögum til að komast í uppnám vegna slíkrar breytingar - sérstaklega þegar markmið hennar er að styrkja stöðu viðkomandi ríkisfyrirtækis í samkeppni við einokun einkaaðila á almennum fjölmiðlavettvangi.

Í þessari ályktun segir einnig: „Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa sýnt mikla þolinmæði á löngu og leiðinlegu breytingaskeiði stofnunarinnar. Það hefur verið von þeirra að betri tímar gætu runnið upp að því loknu. Eitt það versta sem fyrir getur komið er áframhaldandi óvissa næstu árin, af því að lög hafi ekki verið nóg (svo!) vel úr garði gerð. Starfsmenn skora á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina með skiljanlegum lögum sem duga.“

Mín reynsla af samskiptum við forystumenn starfsmanna RÚV á þeim tíma, sem ég leitaðist við að færa rekstrarform RÚV inn í nútímann, var ekki, að þeir sýndu mikla þolinmæði. Mér þótti frekar, að þeir vildu engu breyta, allt mundi bjargast með því að hækka afnotagjöldin og útiloka kjörna fulltrúa, útvarpsráð, frá því að sinna lögbundnum skyldum sínum.

Þriðjudagur, 04. 04. 06. - 4.4.2006 21:10

Umræður í borgarstjórn Reykjavíkur voru stuttar og skrýtnar í dag - fundurinn stóð innan við tvo tíma. Fyrst var rædd tillaga okkar sjálfstæðismanna um árlega barnahátíð í Reykjavík og gerði borgarstjóri tilraun til að vísa henni á fölskum forsendum til umsagnar í einhverju ráði borgarstjórnar. Þá var rætt um málefni Háaleitishverfis. Síðan átti að ósk R-listans ræða um Sundabraut en Alfreð Þorsteinsson, forseti borgarstjórnar, gerði sér lítið fyrir og tók málið af dagskrá. Hann sagði aðspurður, að þetta hefði hann gert, því að sig skorti gögn í málinu! Sundabraut hefur verið til umræðu um langt árabil - Alfreð Þorsteinsson skortir hins vegar gögn til að ræða hana!

Þá andmæltu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þeirri ákvörðun að flytja bensínstöð ESSO úr Geirsgötu í hornið á milli Njarðargötu og Sóleyjargötu, norðan Hringbrautar. Töldu þeir, að með þessu væri enn verið að stunda bútasaum í Vatnsmýrinni og með hliðsjón af nýjum viðhorfum vegna þess hvernig til hefði tekist með Hringbrautina ætti að leita samkomulags um annan stað fyrir þessa bensínstöð. Borgarstjóri taldi þetta nú í góðu lagi allt saman, enda væru sjálfstæðismenn svo vitlausir að halda, að þetta horn væri í Vatnsmýrinni - það kæmi henni bara ekkert við. Gísli Marteinn Baldursson benti þá á, að væri þetta ekki í Vatnsmýrinni þá væri hornið einfaldlega í Hljómskálagarðinum og ekki væri betra að breyta honum í athafnasvæði bensínstöðvar. Borgarstjóri brást illa við og sagði sjálfstæðismenn greinilega vilja hafa bensínstöð í anddyri tónlistarhússins, úr því að ekki mætti flytja hana á þennan stað!

Í yfirlýsingu Jóns Ásgeir Jóhannessonar, forstjóra Baugs, í Morgunblaðinu í morgun í tilefni af ákæru, sem honum var birt 3. apríl 2006 segir meðal annars:

„Orð dómsmálaráðherra um að dómstólar skyldu hafa síðasta orðið í málinu hafa nú fengið merkingu í reynd enda ljóst að hinn sérstaki saksóknari hefur fengið skýr skilaboð til framkvæmda.“

Séu ummæli forstjóra Baugs um aðra þætti hins svonefnda Baugsmáls og nýja ákæru vegna þess byggð á sambærilegri virðingu fyrir staðreyndum og lýsir sér í útleggingu hans á orðum mínum hér á síðunni frá 10. október 2005, er rík ástæða til að lesa orð forstjórans með þeirri varúð að skoða frumheimildir til að glöggva sig á gildi þeirra.

Settur ríkissaksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, fyrrverandi héraðsdómari og formaður dómstólaráðs, er fullkomlega sjálfstæður í starfi sínu og tekur ákvarðanir sínar á grundvelli lögheimilda án minna afskipta.

 

Mánudagur, 03. 04. 06. - 3.4.2006 22:19

Frá því var skýrt í dag, að Eiríkur Hjálmarsson, aðstoðarmaður borgarstjóra, yrði upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur eftir borgarstjórnarkosningar í vor. Áður hafði Hjörleifur Kvaran borgarlögmaður ráðist til starfa sem lögmaður orkuveitunnar. Má því segja, að tveir lykilstarfsmenn Reykjavíkurborgar hafi flutt sig úr ráðhúsinu í höfuðstöðvar orkuveitunnar á tiltölulega skömmum tíma.

Í ráðhúsinu velta menn því fyrir sér, hvort Helga Jónsdóttir, yfirmaður stjórnsýslu borgarinnar, muni halda sömu leið, en heldur er það talið ólíklegt, að minnsta kosti á meðan Alfreð Þorsteinsson heldur um stjórnartauma orkuveitunnar, því að litlir kærleikar séu á milli hans og Helgu. Þeirri spurningu hefur raunar einnig verið varpað fram, hvort embættismenn séu að leita starfa utan ráðhússins vegna valda Helgu innan þess.

ps. Að kvöldi mánudags hafði ég sett á vefsíðuna, að Anna Skúladóttir hefði látið af störfum sem fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og tekið að sér fjármálastjórastarf hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Ég þurrkaði færsluna hins vegar út, þegar ég fann hvorki tilkynningu um vistaskiptin á vefsíðu Reykjavíkurborgar né orkuveitunnar auk þess sem Anna er enn kölluð fjármálastjóri á starfsmannaskrá á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Eftir að ég kynnti mér málið í ráðhúsinu, fékk ég staðfestingu á þessum vistaskiptum Önnu og að Birgir Finnbogason væri nú fjármálastjóri Reykjavíkurborgar.

Það eru því þrír lykilstarfsmenn í ráðhúsinu, sem hafa ákveðið að hverfa þannig í glæsibyggingu orkuveitunnar.

Sunnudagur, 02. 04. 06. - 2.4.2006 21:29

Hver verða átakamálin í komandi borgarstjórnarkosningum? Svarið við þessari spurningu verður ljósari á komandi vikum kosningabaráttunnar. R-listann og flokka hans er hins vegar unnt að dæma af verkunum í þágu borgarbúa. Í Morgunblaðinu í dag mátti lesa tvo dóma, annars vegar um þróunina í félagslegri þjónustu og hins vegar um ákvarðanir í skipulagsmálum. Feitaletrið er frá mér komið.

Jóhann Björnsson í 8. sæti á lista vinstri/grænna í Reykjavík skrifar:

Ráðaleysið í meðferðarúrræðum [hjá Reykjavíkurborg] og þá ekki síst meðferðarúrræðum barna og unglinga er sá vandi sem brýnast er að takast á við. Af störfum mínum á meðal grunnskólanema undanfarin ár hef ég því miður of oft fengið að kynnast dapurlegum örlögum þeirra sem leiðst hafa út á þá vafasömu braut sem fylgir neyslu vímuefna. Oftar en ekki hafa þessir einstaklingar þurft að bíða vikum og jafnvel mánuðum saman til þess að fá viðunandi meðferðarúrræði. Á meðan á þessari bið stendur, sem sjaldnast er vitað fyrirfram hversu löng er, eru heimilin í uppnámi, skólaganga í molum og þessir ungu einstaklingar sökkva æ dýpra ofan í fen ógæfunnar.“

Magnús Skúlason arkitekt skrifar:

„ Því er þetta sett hér á blað vegna þess að nýlega höfum við horft upp á ein verstu mistök í skipulagsmálum sem gerð hafa verið í Reykjavík, og er þó af nógu að taka, en það er færsla Hringbrautar. Þvílík sóun á landrými hefur vart sézt í þéttbýli. Hvar er draumurinn um stækkun miðborgar í suðurátt út í Vatnsmýri? Hvernig eiga endurnar að komast yfir með ungana? Hvaða umferðarvandamál voru leyst? Sjálf framkvæmdin með tilliti til umferðartækni virðist meira að segja meingölluð með alltof mörgum umferðarljósum í stað ljóslausra afreina.“

Laugardagur, 01. 04. 06. - 1.4.2006 19:35

Mér þótti skrýtið að heyra haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingar, Steingrími J. Sigfússyni, formanni vinstri/grænna, og Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni frjálslyndra, að þau hörmuðu, að ríkisstjórnin hefði ekki lagt fram tillögur um ráðstafanir til að tryggja hervarnir landsins í viðræðum við Bandaríkjamenn föstudaginn 31. mars. Ég varð undrandi, vegna þess að í stjórnmálaumræðum hafa þessir þrír forystumenn aldrei verið til þess búin að ræða hervarnir landsins. Raunar veit ég ekki betur en Steingrímur J. tali í formælingartón og geri lítið úr því, þegar hreyft er hugmyndum um, að hér þurfi að vera hervarnir - það er framlag hans til þessara mála. Ingibjörg Sólrún er gamall herstöðvaandstæðingur, sem talaði á þann veg í kosningabaráttunni 2003, að áheyrendur hennar voru þeirrar skoðunar, að hún teldi varnarsamninginn ekki í gildi! Mér hefur aldrei  þótt hún tala um varnarmál eins og hún hafi kynnt sér þau að nokkru gagni - eins og sannaðist til dæmis þegar hún sagði, að hyrfi bandaríska varnarliðið væri auðvelt að leysa vandann vegna þess í faðmi Evrópusambandsins (ESB).

Þá var í fréttum hljóðvarps ríkisins rætt um væntanlega olíu- og gasflutninga frá Barentshafi til Norður-Ameríku eins og íslensk stjórnvöld hefðu ekki velt því fyrir sér, að þessar siglingar kölluðu á viðbúnað hér á landi. Nýtt varðskip og ný eftirlitsflugvél fyrir landhelgisgæsluna taka einmitt mið af þessum breytingum, eins og rætt hefur verið við undirbúning smíði og kaupa á þessum nýju tækjum.

Tal stjórnarandstöðu um, að í ríkisstjórn séu ekki hugmyndir um það, hvernig tryggja skuli öryggi lands og þjóðar er jafnfráleitt og fréttir um, að ekkert hafi verið hugað að því á vegum íslenskra stjórnvalda, hvernig brugðist skuli við vegna stórflutninga á olíu og gasi yfir Atlantshaf. Frásagnir og fréttir af þessu tagi segja meira um vanþekkingu þeirra, sem flytja þær, en það, sem er að gerast á vegum stjórnvalda í þessum málum.

Össur Skarphéðinsson kemst að þeirri niðurstöðu á vefsíðu sinni, að veika stöðu Framsóknarflokksins í könnunum um fylgi í borgarstjórnarkosningunum megi rekja til samstarfs framsóknarmanna við sjálfstæðismenn í ríkisstjórn! Hvers vegna nefnir Össur ekki augljósustu skýringuna, þegar rætt er um borgarmál, það er að framsóknarmenn hafa verið í 12 ár í R-listasamstarfi í Reykjavík? Össur upplýsir lesendur síðu sinnar ekki um, hvort hann er sammála Degi B. Eggertssyni, fambjóðanda Samfylkingar til borgarstjóra, um tvíbreiða Sundabraut - þetta er þó hið eina eftirtektarverða, sem frambjóðandinn hefur lagt af mörkum til kosningaráttunnar til þessa - gerði Dagur það í samráði við Össur?