8.4.2006 18:28

Laugardagur, 08. 04. 06.

Ók með Ingimundi Sigfússyni frá Akureyri uppúr hádegi eftir að hafa hlustað á fróðlegar ræður um málefni aldraðra á fundi sjálfstæðismanna í Brekkuskóla. Við heimsóttum lögreglustöðina á Blönduósi, þar sem Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar er að hefja starfsemi undir stjórn Bjarna Stefánssonar sýslumanns og Ernu Jónmundardóttur lögreglukonu. Síðan héldum við að Þingeyrum í björtu og fallegu veðri.

Ég heyrði í fréttum, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefði flutt einhvern reiðilestur um Sjálfstæðisflokkinn á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar. Raunar er undarlegt, að þetta skuli hafa verið hið fréttnæmasta úr ræðu formannsins, það er neikvætt og frekar fúllynt nöldur um andstæðinga Ingibjargar Sólrúnar. Spyrja má: Er það almennt fréttnæmt, að Ingibjörg Sólrún hallmæli Sjálfstæðisflokknum? Það væri hins vegar stórfrétt, ef hún léti flokkinn njóta sannmælis!