Dagbók: ágúst 2009

Mánudagur, 31. 08. 09. - 31.8.2009

Fundarsalur Þjóðminjasafns var þéttsetinn í hádeginu í dag, þegar Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Varðberg, ásamt Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Stofnun stjórnmála og stjórnsýslu í Háskóla Íslands boðuðu til fundar til kynningar á Svartbók kommúnismans í þýðingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

Göran Lindblad, þingmaður frá Svíþjóð og formaður stjórnmálanefndar þings Evrópuráðsins í Strassborg, flutti erindi á fundinum. Hann leiddi í ársbyrjun 2006 ályktun um fordæmingu á ofbeldisverkum alræðisstjórna kommúnista til samþykktar á þinginu. Sagði hann þetta fyrstu ályktun af þessum toga, sem samþykkt hefði verið á alþjóðavettvangi. Fjölmargar ályktanir hefðu verið samþykktar gegn gyðingaofsóknum nasista og harðstjórn þeirra. Einkennilegt væri, hve umburðarlyndi væri miklu meira gagnvart voðaverkum kommúnista en nasista. Bannað væri að hafa nasistamerki í frammi í mörgum löndum en tákn kommúnista væru seld sem minjagripir.

Að lokinni ræðu þingmannsins flutti Jón Baldvin Hannibalsson umsögn um hana og Svartbókina og síðan var orðið gefið laust. Undir lok fundar svaraði Lindblad og sleit ég fundi klukkan 13.00 með þeim orðum, að síðar yrði efnt til fleiri funda vegna útgáfu bókarinnar og tímamóta, sem snerta kommúnismann. Í ár eru 70 ár liðin frá griðasáttmála Hitlers og Stalíns, sem gat síðari heimsstyrjöldina af sér. Þá eru 20 ár liðin frá því að íbúar Eystrasaltslandanna mótmæltu sovésku ofríki með því að taka höndum saman í orðsins fyllstu merkingu og mynda 600 km langa keðju. Loks eru 20 ár liðin frá hruni Berlínarmúrsins.

Sunnudagur, 30. 08. 09. - 30.8.2009

Í dag hitti ég Göran Lindblad, þingmann frá Svíþjóð og formann stjórnmálanefndar þings Evrópuráðsins. Hann er hér á landi til að flytja fyrirlestur í hádegi á morgun, 31. ágúst, í tilefni af útkomu bókarinnar Svartbók kommúnismans, glæpir, ofsóknir, kúgun  í þýðingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála, frá því að hún kom út í Frakklandi 1997. Bókin er nauðsynleg öllum, sem vilja kynnast mestu hörmungum 20. aldarinnar af völdum stjórnmálastefnu við hlið nasismans.

Lindblað var framsögumaður á þingi Evrópuráðsins í janúar 2006, þegar samþykkt var ályktun um Need for international condemnation of crimes of totalitarian communist regimes þörfina fyrir alþjóðlega fordæmingu á glæpum alræðis-kommúnistastjórna. Kom í Lindblads hlut að leiða ályktunina til afgreiðslu á þinginu.

Lindlad hefur á sænska þinginu frá 1997 og er tannlæknir að mennt. Erindi sitt flytur hann í fundarsal Þjóðminjasafnsins klukkan 12.00. Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál (SVS) standa að fundinum með öðrum.

Ég ætla að ræða við Hannes Hólmstein um bókina í næsta þætti mínum á ÍNN, miðvikudaginn 2. september. Telst til verulegra tíðinda, að 828 blaðsíðna bók um stjórnmála- og heimssögu 20. aldar komi út hér á landi. 

Laugardagur, 29. 08. 09. - 29.8.2009

Einkennilegt er, að heyra Steingrím J. Sigfússon endurtaka frasann „til heimabrúks“. Þetta sagði hann einnig eftir símtal hollenska utanríkisráðherrans til Össurar Skarphéðinssonar, þar sem hann hafði í hótunum vegna Icesave fyrir ráðherrafund ESB um aðildarumsókn Íslands. Símtalið átti að vera til heimabrúks í Hollandi, þótt annað kæmi í ljós.

Steingrímur J. veit líklega stjórmálamanna best, hvað í frasanum felst, því að eins og kunnugt er hefur hann kynnt margt til heimabrúks gagnvart kjósendum vinstri-grænna en síðan sagt allt annað, eftir að hann náði því að verða ráðherra. Tvöfeldni hans er einstök í íslenskum stjórnmálum og þótt víðar væri leitað. 

Bjarni Benediktsson leitar lausna á stjórnmálavettvangi á allt annan veg en Steingrímur J. gerir. Bjarni færir skýr rök fyrir afstöðu sinni og dregur ályktanir á grundvelli þeirra. Steingrímur J. slær hann hvorki út af laginu með innantómum og yfirlætisfullum frösum né formælingum í garð Sjálfstæðisflokksins. Frasar og formælingar eru helstu vopnin í búri Steingríms J. en þau verða sífellt bitminni.

Hér er svo orðið hrím í nútíma ensku:

A.Word.A.Day

with Anu Garg

rimy

PRONUNCIATION:

(RY-mee)

MEANING:

adjective: Covered with frost; frostlike.

ETYMOLOGY:

From rime (frost), from Old English hrim

Föstudag, 28. 08. 09. - 28.8.2009

Icesave-málinu lauk á alþingi í dag með því að stjórnarflokkarnir samþykktu það. Tveir sjálfstæðismenn, allir framsóknarmenn og þrír, sem kjörnir voru undir nafni Borgarahreyfingarinnar voru á móti. Ég hefði vænst þess, að fleiri sjálfstæðismenn yrðu á móti. Á hinn bóginn er ljóst, að samstarf þingmanna Sjálfstæðisflokksins og hóps innan vinstri-grænna undir forustu Ögmundar Jónassonar leiddi til þess, að Icesave-málið gjörbreyttist í meðförum þingsins.

Helsta stjórnmálafrétt RÚV klukkan 18.00 var síðan kafli úr ræðu Steingríms J. Sigfússonar á fundi flokksráðs vinstri-grænna á Hvolsvelli, þar sem hann jós úr skálum reiði sinnar yfir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hélt áfram með sama skítkastið og hann mun stunda, þar til hann sér þann eina kost til að halda völdum, að eiga samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Steingrímur J. talar jafnilla um Sjálfstæðisflokkinn núna og hann talaði um aðild að ESB, þar til hann samþykkti hana, og um Icesave-samningana, þar til hann gaf Svavari Gestssyni heimild til að skrifa undir þá.

Í raun er makalauast að sama dag og Icesave-málið fer í gegn um alþingi, sem ekki hefði verið gerst án atbeina sjálfstæðismanna, ræðst flutningsmaður Icesave-þingmálsins á sjálfstæðismenn með svívirðingum. Fréttamaðurinn, sem flutti fréttina, setti hana ekki í þessa samhengi heldur birti hana sem mikilvæga pólitíska frétt.

Eva Joly, sérlegur ráðgjafi vegna sakarannsóknar á bankahruninu, sagði Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ástunda sýndarmennsku með tillögu sinni um nefnd til að kanna skaðabórakröfu á hendur þeim, sem bera ábyrgð á hruninu. Honum væri nær að styðja þá, sem þegar væru farnir af stað til að rannsaka málið.

Fimmtudagur, 27. 08. 09. - 27.8.2009

Icesave-umræðunni er að ljúka á alþingi. Frumvarp ríkisstjórnarinnar hefur tekið stakkaskiptum vegna klofnings í röðum hennar og frumkvæðis stjórnarandstöðunnar til að bjarga því, sem bjargað verður undir forystu ráðherra án þreks til að taka mál þjóðarinnar að nýju upp við Breta og Hollendinga. Ég ítreka þá skoðun, að stjórnarflokkarnir eigi að bera alla ábyrgð á lokaafgreiðslu málsins.

Vegna þess, sem ég sagði hér á síðunni í gær um umræður í Kastljósinu segir Egill Helgason á vefsíðu sinni í dag:

„Útrásarvíkingurinn sem skuldar íslenska bankakerfinu 250 milljarða, tók stórar stöður gegn gjaldmiðlinum um leið og hann var að lána löndum sínum í erlendri mynt í gegnum eignaleigufyrirtæki sitt, hefur sett sparisjóði kringum landið á hausinn og tæmt lífeyrissjóði og dómsmálaráðherra hrunstjórnarinnar sem setti tvo vanhæfa menn til að rannsaka hrunið, menn sem áttu að rannsaka syni sína, skar niður í efnahagsbrotadeildinni, en kom loks á stofn embætti saksóknara með 50 milljón króna fjárveitingu eru sammála um hvað sé mesta vandamálið á Íslandi:

Bloggið.

Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað.“

Egill Helgason fer með rangt mál, þegar hann segir, að ég hafi „sett“ þá Valtý Sigurðsson og Boga Nilsson til að rannsaka bankahrunið. Ég gerði það ekki. Þá er einnig rangt, að ég hafi skorið niður í efnahagsbrotadeildinni. Ég setti sérstakan ríkissaksóknara til að ljúka Baugsmálinu og var sakaður um fjáraustur af því tilefni. Í þriðja lagi er rangt, að ég hafi ætlað sérstökum saksóknara 50 milljónir til að rannsaka bankahrunið. Það var fyrsta fjárveiting til að koma embættinu af stað. Egill sannar með þessum dæmalausu rangfærslum, að bloggið er vandamál fyrir suma. Mesta vandamálið fyrir bloggið er hópurinn, sem notar það undir nafni eða nafnlaust til að fara með ósannindi um annað fólk. Vefsíða Egils er akur fyrir slíka iðju og sjálfur gefur hann tóninn, eins og hér sannast enn og aftur.

Nafnlaus skrif eiga rétt á sér á netinu eins og annars staðar, enda innan marka velsæmis og hvorki uppspuni né tilraun til að svipta fólk ærunni.

 

Miðvikudagur, 26. 08. 09. - 26.8.2009

Kastljós sjónvarpsins var óvenjulegt að því leyti í kvöld, að þar voru menn í viðtölum, sem veittu viðspyrnu með rökum og af sannfæringu. Báðir ræddu þeir við Þóru Arnórsdóttur, sem heldur vel á hlut sínum sem spyrjandi.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, var fyrri viðmælandi Þóru. Hann fylgdi eftir ræðu sinni á aðalfundi félagsins í morgun, þar sem hann reifaði leiðir til að félagið gæti starfað áfram. Hann segir óvissu um það ráðast af afstöðu þeirra, sem fara með stjórn eða slit gamla Kaupþings og Glitnis. Samið hafi verið við alla stóra erlenda lánardrottna. Lýður snerist einnig gegn þeim hér í netheimum, sem ráðast að mönnum í skjóli nafnleyndar. Sú gagnrýni hans er bæði tímabær og réttmæt. Þessar nafnlausu svívirðingar eru sama eðlis og árásir skemmdarvarga á eignir manna í skjóli myrkurs. Þeirra, sem skemma eignir er leitað, hinir, sem skemma mannorð manna, ærast séu þeir gagnrýndir.

Ross Beaty, stjórnarformaður Magma Energy, sem hefur áhuga á að eignast OS Orku eða kaupa þar stóran hlut, var seinni viðmælandi Þóru. Ég ritaði um Magma hér á síðuna í síðustu viku og viðtalið við Beaty staðfesti þá skoðun, sem ég fékk við að kynna mér viðhorf hans með aðstoð Google, að hér væri á ferð einlægur áhugamaður um að fjárfesta í jarðvarmaorku og þekkingu Íslendinga á henni til hagsbóta fyrir Íslendinga og eigið fyrirtæki. Um er að ræða að beina 70 til 100 milljörðum króna inn í íslenskt hagkerfi. Bláfátækur fjármálaráðherra stórskuldugs ríkissjóðs og þjóðar þarf að hafa góð rök til að standa gegn því.

Báðir þessir athafnamenn tala á þessari stundu til þjóðar, sem er full tortryggni í garð þeirra, sem telja betra að treysta athafnamönnum fyrir fjármunum en stjórnvöldum og stjórnmálamönnum.

Í þætti í BBC World Service í gær benti einhver fræðimaður á, að annað væri að treysta kapítalistum, sem skapa arð af framleiðslu og verklegum framkvæmdum, en þeim kapitalistum, sem vildu aðeins skapa arð af fjármagni og tilfærslu þess. Hinir síðarnefndu hefðu ekki reynst traustsins verðir.

Ég setti í dag pistil á síðuna, þar sem ég ræði stöðu mála í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins.

 

Þriðjudagur, 25. 08. 09. - 25.8.2009

Nú eru fjórar vikur liðnar, frá því að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu fór frá ráðherraráði þess til umsagnar hjá framkvæmdastjórn sambandsins. Í aðdraganda þess, að alþingi samþykkti umsóknina, var því haldið blákalt fram, að hún ein yrði til þess að styrkja gengi krónunnar. Ef ég veit rétt hefur gengið fallið um 10% á þessum fjórum vikum. Hvar eru þeir allir spekingarnir, sem sögðu, að hið gagnstæða mundi gerast? Hefur enginn ESB-fjölmiðill áhuga á að leita skýringa á þessu?

Fjárlaganefnd afgreiddi Icesave-málið frá sér í annað sinn, það er nú milli annarrar og þriðju umræðu í þinginu, í dag. Þingmenn allra flokka nema framsóknarmenn standa að áliti nefndarinnar, sem sagt er, að herði enn á fyrirvörum. Ef ráðherrar og stjórnarliðar túlka þessa niðurstöðu nefndarinnar á þann veg, að ekki þurfi að taka málið upp að nýju við Breta og Hollendinga, sé ég ekki til hvers allir þessir fundir hafa verið í fjárlaganefnd.

 

 

Mánudagur, 24. 08. 09. - 24.8.2009

Fyrsti þáttur minn á ÍNN er kominn á netið. Viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra frá 19. ágúst. Þáttinn má skoða hér.

Í kvöld var ég á fundi hjá utanríkisnefnd Sambands ungra sjálfstæðismanna og svaraði spurningum, sem snerust um Evrópusambandið og Ísland.

Icesave-málið sýnir í hnotskurn, hvað gerist, ef of mikil fljótaskrift er á niðurstöðu í samningum milli ríkja um mikilvæg hagsmunamál. Þingflokkar Samfylkingar og vinstri-grænna héldu, að unnt yrði að sigla Icesave tiltölulega lygnan sjó í gegnum alþingi.  Raunin er önnur, vegna þess að spilin voru ekki lögð á borðið og sýnt fram á, að allir þræðir málsins hefðu verið raktir til enda.

ESB-málið er í svipuðum farvegi og Icesave, því að þótt alþingi hafi samþykkt aðildarumsókn er hún bæði slaklega undirbúin og naut of lítils stuðnings á þingi til að reynsluboltarnir í Brussel trúi því, að Íslendingar muni samþykkja aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sunnudagur, 23. 08. 09. - 23.8.2009

Frá því að Reykjavíkurborg kallaði lögreglu til náins samstarfs um mannfjöldastjórn á menningarnótt hefur umferð verið greiðari en áður og engin stórvandræði orðið. Sannar þetta enn, að gott skipulag af hálfu lögreglu skilar góðum árangri. Einnig hefur komið í ljós, að greining lögreglunnar á höfuborgarsvæðinu leiddi til þess, að upprætt var pólskt þjófagengi og síðan hafa ekki verið fréttir af innbrotum á svæði lögreglunnar.

Fjármálaráðuneytið hefur ákveðið, að sparnaður lögreglu skuli verða 10% við gerð fjárlaga ársins 2010, 7% í menntakerfinu og 5% í félagslega- og heilbrigðiskerfinu. Auðvelt er að færa fyrir því rök, að skipa eigi lögreglu og menntakerfi á sama bás við þessar ákvarðanir. Fjármálaráðuneytið hefur áður fallist á slíka skipan.

 

 

Laugardagur, 22. 08. 09. - 22.8.2009

Klukkan 10.30 var ég í Norræna húsinu og hitti 20 ritstjóra, blaðamenn og útgefendur frá Molde í Noregi. Ræddum við saman til klukkan 12.00 um stöðu mála hér á landi. Aðstaða til slíks fundar í sal Norræna hússins er eins og best verður á kosið og var vel að öllu staðið af hússins hálfu.

Ég var meðal annars spurður um Norðmann í stöðu seðlabankastjóra hér á landi og hvernig hann hefði reynst miðað við það, sem áður hefði verið. Sagði ég setningu hans hafa vakið spurningar um lögmæti samkvæmt sjálfri stjórnarskránni.  Hann hefði sagt meginverkefni sitt verða að styrkja gengi krónunnar. Við starfslok hans, hefði gengi krónunnar verið lægra en nokkru sinni áður. Það væri greinilega ekki heiglum hent að stjórna Seðlabanka Íslands.

Að Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri-grænna, hafi úr forsetastóli á alþingi vítt Tryggva Þór Herbertsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að hafa notað orðið „vítavert “ í þingræðu er með ólíkindum. Þessi siðavendni Álfheiðar er í hróplegri andstöðu við framgöngu hennar sjálfrar í ræðustól þingsins eða á göngum þinghússins á liðnum vetri, þegar efnt var til mótmæla innan þess og utan. Þá var hún í liði með þeim, sem sýndu alþingi og störfum þess svo mikla óvirðingu, að lögregla varð að skerast í leikinn.

Föstudagur, 21. 08. 09. - 21.8.2009

Nú er verið að leggja mörg hundruð spurningar fyrir íslenska embættismenn og eiga svör þeirra að auðvelda framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) að leggja mat á aðildarumsókn Íslands. Jafnframt er boð látið berast, að ekki megi ráða fleira fólk til starfa í stjórnarráðinu. Ráðuneytum beri að halda sig innan ramma fjárlaga, sem verði enn þrengdir á árinu 2010.

Eitt er, að ríki sæki um aðild að ESB, annað að gera það á vitlausasta tíma fyrir ríkið sjálft og á óvissutímum innan ESB. Þennan tíma valdi alþingi undir forystu Samfylkingarinnar til að leggja inn umsókn Íslands.

Staðfest er í skýrslu Evrópunefndar frá mars 2007, að Íslendingar hafa ekki nýtt sér kosti EES-samningsins til áhrifa á gerðir og tilskipanir á EES-svæðinu. Til þess skorti fé og mannafla, meira að segja á meðan ríkissjóður blómstraði. Nú verða gerðar enn strangari kröfur til þátttöku Íslands eigi aðildarumsóknin að vera marktæk. Enn hefur ekki verið lögð fram áætlun um, hvernig staðið skuli að aðildarviðræðunum af Íslands hálfu og viðræðunefnd hefur ekki verið skipuð.

Um þetta gildir hið sama og um alltof margt hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að hin mikilvægustu mál eru unnin án fyrirhyggju. Sannast það vel í Icesave-málinu, þar sem engin samstaða er um túlkun á því, sem alþingi er að samþykkja, þótt hið óljósa orðalag hafi dugað til að sameina stjórnarflokkana á bakvið málið.

Óskiljanlegt er, hvers vegna stjórnarandstaðan sameinast ekki um að láta stjórnarflokkana bera ábyrgð á Icesave-samningum ríkisstjórnarinnar. Aðstoð stjórnarandstöðunnar hefur dugað til að samstaða náðist milli stjórnarflokkanna - snerist hjálparstarfið ekki um að gera Ögmundi Jónassyni kleift að styðja ríkisstjórn, þar sem hann á sjálfur sæti?

Mikill misskilningur er, að einhver styrkur felist í því út á við, að allir flokkar á þingi standi sameiginlega að niðurstöðu, sem menn síðan túlka út og suður.

 

Fimmtudagur, 20. 08. 09. - 20.8.2009

Eins og ég rakti hér í gær sá Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, tilefni til að ræða um „skrímsladeild“ Sjálfstæðisflokksins vegna skoðana minna. Smáfuglarnir á vefsíðunn www.amx.is ræða málið í dag og segja meðal annars:

Smáfuglarnir minnast þess, að í sjónvarpsþættinum Næturvaktin, þar sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson birtist einu sinni sem leikari hafi hugtakið „skrímsladeild“ verið notað. Afgreiðslumaðurinn, Georg Bjarnfreðarson, montinn, en vansæll vinstri maður með ótal háskólapróf, segir við Hannes Hólmstein, að hann sé fulltrúi „skrímsladeildarinnar“. Smáfuglarnir velta fyrir sér, hvort líta beri á Gunnar Helga Kristinsson sem fyrirmynd Georgs eða eftirlíkingu.

Myndbrotið með Hannesi Hólmsteini var sett á Youtube og bloggaði Valgeir Helgi Bergþórsson þannig um það á síðu sína 9. desember 2007:

„Þetta brot er þegar Hannes Hólmsteinn Gizzurarson kemur á bensínstöðina og fær þessa þvílíku úthýðingu frá Georgi (Jón Gnarr). Ég verð að segja að þetta er með því fyndnara sem ég hef séð, enda verð ég að hrósa honum Hannesi fyrir að hafa svona mikin húmor fyrir sjálfum sér.“

Ég tek undir með Valgeiri Helga, að þetta er bráðfyndið myndbrot. Yfirlæti Georgs birtist í ýmsum myndum þessa dagana og ræði ég það meðal annars í pistli mínum í dag, þegar ég vík að Steingrími J. Sigfússyni.

Miðvikudagur, 19. 08. 09. - 19.8.2009

Í kvöld var fyrsti þáttur minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN og ræddi ég við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra.

Eins og lesendum síðu minnar er kunnugt hef ég lýst undrun minni á því, hve langt þingmenn Sjálfstæðisflokksins ganga til að aðstoða ríkisstjórnina við að koma stórmálum í gegnum alþingi. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, stjórnmálafréttaritari mbl.is og spunameistari í þágu ríkisstjórnarinnar, misnotar þessa afstöðu mína til að koma höggi á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, vegna kröfu hans um, að Icesave-samningarnir verði teknir upp og gengið til nýrra viðræðna við Breta og Hollendinga. Á mbl.is 19. ágúst má lesa:

„Margir ráku upp stór augu þegar Bjarni Benediktsson sakaði ríkisstjórnina um að stórskaða hagsmuni landsins með því að kynna ekki fyrirvara við Icesave-samninginn sem gagntilboð. Sjálfstæðismenn stóðu að samþykkt fyrirvaranna í fjárlaganefnd.

Málið skýrðist nokkuð þegar Björn Bjarnason kallaði stjórnandstöðuna hjálparsveit ríkisstjórnarinnar á heimasíðu sinni. Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur bendir á að það sé frekar óvanalegt í íslenskum stjórnmálum að  stjórnandstöðuflokkur láti frá sér tækifæri til að koma höggi á ríkisstjórnina.

Hann bendir á að ríkisstjórnin hafi líka teygt sig frekar langt í samkomulagsátt. Svo langt að það sé næstum því á gráu svæði hvort fyrirvararnir séu í raun gagntilboð. Sjálfstæðisflokkurinn sé í raun klofinn í afstöðu sinni til málsins. Atvinnurekendur í röðum þeirra hafi til að mynda verið orðnir óþreyjufullir að ljúka málinu.

Ákveðinn hópur innan flokksins sem sé stundum kallaður skrímsladeildin sé ósáttur við að flokkurinn hafi gengist inn á stefnu ríkisstjórnarinnar. Þegar ríkisstjórnin kalli þetta fyrirvara en ekki gagntilboð sé hún að koma formanninum í bobba gagnvart þessum armi. Hún sé í raun að segja að það hafi ekki verið gengið að kröfu Bjarna Benediktssonar um nýjar samningaviðræður.

Bjarni sé hinsvegar að segja við sína eigin flokksmenn ekki síður en almenning, að þetta sé það róttæk breyting að hún jafngildi gagntilboði og það muni þurfa að semja upp á nýtt.“

Hafi margir rekið upp stór augu, þegar Bjarni lýsti skoðun sinni á þingi, held ég, að enn fleiri reki upp stór augu, þegar þeir kynna sér þennan undarlega samsetning á mbl.is. Í fyrsta lagi er spuni Þóru Kristínar til marks um, að enginn faglegur metnaður ríkir lengur við ritstjórn mbl.is.  Í öðru lagi

 

 

 

Lesa meira

Þriðjudagur, 18. 08. 09. - 18.8.2009

Í dag, á afmælisdegi Reykjavíkurborgar, fórum við Rut í Borgarskjalasafnið. þegar Guðfinna Guðmundsdóttir, ekkja Þórðar Björnssonar, ríkissaksóknara og bæjarfulltrúa, afhenti ferðabókasafn manns síns, liðlega 2000 titla, skjalasafninu til varðveislu og Hann Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, þakkaði gjöfina.

Í tilefni afhendingarinnar var sýning á hluta af skjalasafni Þórðar opnuð og kennir þar margra grasa. Hann hefur meðal annars fengið úrklippufyrirtæki erlendis í þjónustu sína við að safna blaðagreinum um Ísland. Er ólíklegt, að slíkt úrklippusafn sé víða aðgengilegt.

Guðfinna, ekkja Þórðar, hefur skráð bókasafnið og er skráin: Erlendar frásagnir um Ísland - Ferðabókasafn Þórðar Björnssonar alls 94 síður.

Bragi Kristjónsson, bóksali, ritar formála að bókaskránni og segir meðal annars:

„Söfnun Þórðar Björnssonar stóð yfir í rúma hálfa öld. Útsjónarsemi hans og elja, heiðarleiki og vöndugleiki öfluðu honum góðra sambanda í fornbókaheiminum, bæði hérlendis og erlendis og hafði hann víða forgang vegna þess, hve þekkt safn hans varð í fyllingu tímans. Var honum þó víðsfjarri allt skrum og sýndarmennska og nær er mér að halda, að aðeins örfáir menn hafi litið safn hans augum meðan hann lifði og vann að öflun þess.“

Ég man eftir því, þegar Sigurður Benediktsson var með bókauppboð í Þjóðleikhúskjallaranum og Þórður var þar í fremstu röð bjóðenda. Þótti okkur félögum gaman að fylgjast með og velta fyrir okkur verðgildi bóka og bókasafna. Nú þegar bankabækur eru ekki hafðar í jafnmiklum hávegum og verið hefur um nokkurt skeið, kann áhugi á annars konar bókum og verðmæti þeirra að aukast. Fréttir herma, að spurn vaxi eftir lopa og ull. Hið sama á kannski eftir að gerast með gamlar bækur.

Mánudagur, 17. 08. 09. - 17.8.2009

Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, segir á vefsíðu sinni í dag, að þrír flokkar standi að ríkisstjórninni: Samfylking, vinstri-grænir og Liljurnar - þar vísar hann til tveggja þingmanna v/g Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Lilju Mósesdóttur. Liljurnar telja ríkisstjórninni helst til tekna, að þær fái að viðra skoðanir sínar. Mörður er allt annarrar skoðunar.

Smáfuglarnir á www.amx.is segja í tilefni af þessum orðum Marðar, að ekki sé aðeins þrífótur undir ríkisstjórninni heldur styðjist hún að auki við hækju frá stjórnarandstöðunni í mikilvægum málum.

Ríkisstjórnin hefði hvorki komið ESB-málinu í gegnum þingið né Icesave á þann stað, sem málið er núna, án stuðnings frá stjórnarandstöðunni. Í báðum málum hefur verið meginboðskapur ríkisstjórnarinnar, að ESB-umsókn og afgreiðsla Icesave skipti sköpum um stöðu ríkisins gagnvart öðrum.

Hinn 16. ágúst var sagt frá því á vefsíðu The Financial Times að bresk lögmannsstofa, Norton Rose, hefði kannað hug 60 stærstu fjármálastofnana til Íslands. Ríflega 90% sögðu að það væri „ólíklegt" og „mjög ólíklegt" að þær myndu fjárfesta á ný á Íslandi. Yfirgnæfandi fjöldi bjóst við löngu óvissutímabili í íslensku fjármálakerfi. Alls 98% svarenda töldu íslensk yfirvöld ekki hafa komið fram af sanngirni gagnvart alþjóðlegum lánastofnunum.

Ímyndi ríkisstjórnin sér, að þessi afstaða lykilþátttakenda í endurreisn íslenska hagkerfisins breytist vegna ESB-aðildarumsóknar á brauðfótum eða með því að Íslendingar beygi sig undir Icesave afarkostina, sannar það enn, hve ranga sýn ráðherrar hafa á stöðu mála.

Æ fleiri taka undir það sjónarmið, að ESB-aðildarumsókn nú frá Íslandi sé tímaskekkja bæði vegna ástandsins hér og innan ESB. 76% svarenda í könnun Norton Rose töldu Ísland ekki hæft til aðildar að ESB.  Vilji Íslendingar skipta um gjaldmiðil til að breyta stöðu sinni nú, verða þeir að gera það einhliða. Icesave-afarkostunum verður ekki aflétt án nýrra samninga við Breta og Hollendinga.

Að stjórnarandstaða telji sér og þjóð sinni til framdráttar að styðja ríkisstjórn eins og þá, sem nú situr, og stuðla að því, að hún geti haldið áfram á sömu braut, byggist ekki á umhyggju fyrir þjóðarhag og er í raun óskiljanlegt. Í könnun bresku lögmannsstofunnar kom fram, að 91% svarenda báru ekki traust til ríkisstjórnar Íslands. Varla heldur stjórnarandstaðan á alþingi, að besta leiðin til að efla traust á Íslandi sé að lengja líf þessarar máttlitlu ríkisstjórnar?

 

Sunnudagur 16. 08. 09. - 16.8.2009

Til að ná fram ESB-aðildarumsókn á þingi þurfti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á aðstoð stjórnarandstöðuþingmanna að halda. Til að komast að niðurstöðu í Icesave-málinu í fjárlaganefnd þurfti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á aðstoð stjórnarandstöðu að halda.

Stjórnarandstaðan er einskonar hjálparsveit ríkisstjórnarinnar í hennar erfiðustu málum. Hvers vegna? Til að framlengja líf ríkisstjórnar, sem þykist styðjast við meirihluta á þingi en hefur hann ekki, þegar mest á reynir?  Hafa þau Jóhanna, Steingrímur J. og félagar sýnt og sannað, að þau séu trausts stjórnarandstöðunnar verð?

Í Listasafni Árnesinga í Hveragerði er sýning á verkum Nínu Tryggvadóttur og Gerðar Helgadóttur en Skálholtskirkja hýsir glæsileg verk þeirra beggja og má kynnast gerð þeirra á sýningunni.

Laugardagur, 15. 08. 09. - 15.8.2009

Fjárlaganefnd gekk frá textum með fyrirvörum við Icesave-samningana á þriðja tímanum aðfaranótt laugardagsins, án þess að framsóknarmenn stæðu að þeim. Þeir ætluðu enn að hugsa málið. Bjarni Benediktsson sagði í hádegisfréttum RÚV, að fyrirvararnir jafngiltu því, að samningi Svavars Gestssonar væri hafnað. Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sögðu í kvöldfréttum, að fyrirvararnir væru umgjörð um samningana. Það þýðir, að samningarnir standi óbreyttir og Bretum og Hollendingum sé tilkynnt um afstöðu alþingis, án þess að hróflað sé við samningnum. Þannig vill Svavar Gestsson, að staðinn sé vörður um meistarastykki hans.

Sé um slíkan grundvallarágreining að ræða milli formanns Sjálfstæðisflokksins og formanna ríkisstjórnarflokkanna, er borin von, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins samþykki að veita ríkisstjórninni umboð til að halda á málinu eins og Jóhanna og Steingrímur J. vilja. Þau eru ábyrg fyrir Icesave-samningunum. Töfin á afgreiðslu þingmálsins stafar af ágreiningi milli stjórnarflokkanna. Nú segjast Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ögmundir Jónasson ánægð. Er málið þá ekki í höfn?

Á göngu minni við rætur Þríhyrnings hef ég fundið golfkúlur og furðað mig á þeim. Hrafninn hefur flutt þær af golfvellinum á Hellishólum. Haldið sig vera með egg.

 

Föstudagur, 14. 08. 09. - 14.8.2009

Undarlegt var að hlusta á stjórnarþingmennina Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformann vinstri-grænna, og Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingar, tala fjálglega um nauðsyn þess í Kastljósi kvöldsins, að nú þyrfti að leggja rækt við ný vinnubrögð í stjórnmálunum og laða sem flesta til samstarfs í mikilvægum málum, þingið yrði að fá góðan tíma til að ræða Icesave og skoða allar hliðar málsins.

Halda einhverjir, að þau hefðu talað svona, ef stjórnarflokkarnir væru ekki í bullandi vandræðum með málið og kæmu sér ekki saman um, hvernig ætti að afgreiða það?

Skemmst er að minnast ESB-aðildarumsóknarinnar, sem Samfylkingin þröngvaði í gegnum þingið með vísan til þess, að vinstri-grænir hefðu myndað ríkisstjórnina með loforði um, að styðja ESB-aðilidina.

Ágreiningurinn á alþingi um Icesave er þess eðlis, að annað hvort hefjast viðræður við Breta og Hollendinga aftur eða ekki er um samkomulag við stjórnarandstöðuna að ræða.

Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, var heiðursgestur á 10 ára afmæli vinstri-grænna. Nú hefur hún ákveðið að hlutast til um íslensk innanlandsmál  og flokksdeilur vinstri-grænna og sagt þeim að styðja Steingrím J., AGS og Icesave, annars fái Íslendingar ekki norskt fé að láni. Halvorsen bregst þannig við ummælum Ögmundar Jónassonar í norskum fjölmiðlum. Þetta sannar enn, að Steingrímur J. sækir stuðning helst til þeirra, sem setja Íslendingum afarkosti, í stað þess að fá þá til að falla frá þeim.

Fimmtudagur, 13. 08. 09. - 13.8.2009

Loks kom að því, að Jóhanna Sigurðardóttir lét í sér heyra vegna Icesave á erlendum vettvangi, en grein eftir hana birtist á vefsíðu The Financial Times (FT) í dag. Þar segir meðal annars:

„The FT has reported how the Dutch opposed the IMF lending to Iceland in order to enforce their demands on Icesave, claiming the UK and Germany as allies. The perception is that Treasury officials in the UK and the Netherlands used their bargaining power against a much weaker party when the Icesave deal, now being debated in the Icelandic parliament, was struck.

Í FT hefur verið lýst, hvernig Hollendingar beittu sér gegn láni AGS til Íslendinga til að knýja fram kröfur sínar vegna Icesave, að sögn með aðstoð Breta og Þjóðverja. Álitið er, að embættismenn breska og hollenska fjármálaráðuneytisins hafi beitt ofríki í samningaviðræðum við mun veikari viðmælanda, þegar Icesave-samningurinn, sem nú er til umræðu á alþingi, var gerður.

This has made it difficult for Iceland's government to convince the parliament and Icelanders that an agreement on Icesave accounts with the UK and the Netherlands is un-avoidable. Parliament is looking into ways to attach conditions to the state guarantee to ensure the economic survival and sovereignty of Iceland. Here we need to stress the mutual interest of all three nations in Iceland's capacity to fulfil its debt obligation.

Vegna þessa hefur reynst erfitt fyrir ríkisstjórn Ísland að sannfæra þinhmenn og Íslendinga um, að óhjákvæmilegt sé að gera samning um Icesave-reikningana við ríkisstjórnir Bretlands og Hollands. Þingmenn eru að skoða leiðir til að setja skilyrði fyrir ríkisábyrgð til að tryggja, að efnahagur þjóðarinnar lifi samninginn og hann vegi ekki gegn fullveldi hennar. Í þessu tilliti þurfum við að leggja áherslu á gagnkvæma hagsmuni allra þriggja ríkjanna af því að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar.“

Frá mínum bæjardyrum séð er ekki nægilega fast að orði kveðið í grein Jóhönnu. Hún gefur ekki rétta lýsingu á hinni miklu reiði hér og kröfunni um, að viðræður verði teknar upp að nýju. Kröfu, sem vex fylgi með hverjum degi, sem líður. Þá var ekki traustvekjandi að hlusta á Jóhönnum í sjónvarpsfréttum í kvöld, þegar hún lét eins og samkomulag væri að nást milli allra flokka um eitthvað, sem leiddi ekki til þess, að hefja þyrfti nýjar viðræður. (Innan sviga lýsi ég undrun á því, að í grein Jóhönnu er sagt, að hér hafi verið kosið til þings í maí. Það var gert 25. apríl.)

 

Miðvikudagur, 12. 08. 09. - 12.8.2009

Það er vel af sér vikið hjá hinum ungu mönnum, sem halda úti vefsíðunni netvarpid.is, að birta þannig viðtal við rússneska sendiherrann á Íslandi, að veki þjóðarathygli og örugglega einnig út fyrir landsteinana.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna í tilefni af viðtalinu en margt fleira merkilegt kemur þar fram en ég nefni.  Sendiherrann kvartar undan, að Eva Joly sé af gamla skólanum, þegar hún ræðir um Rússland. Sjálfur er hann einnig af gamla skólanum, því að hann missti út úr sér Soviet Union í stað Rússlands, þegar hann var að réttlæta ofríki Pútin-stjórnarinnar gegn Georgíu.

Þá, sem standa að netvarpid.is, langaði að gera eitthvað skemmtilegt í sumarleyfi frá námi. Fengu lánaða starfræna tökuvél og hljóðnema og lögðu land undir fót. Þeir komu tveir heim til mín síðdegis mánudaginn 10. ágúst, ræddu við mig í hálftíma og birtu um níu mínútna viðtal á netinu morguninn eftir. Viðtalið við mig snýst að nokkru um hið sama og við rússneska sendiherrann. Ég hafði hins vegar ekki vitneskju um þá skoðun sendiherrans, að stóru láni Rússa hefði verið hafnað af þeirri ríkisstjórn, þar sem ég sat sl. haust.

Fréttavinkill hinna hefðbundnu fjölmiðla er svo þröngur, að óreyndir, áhugasamir skólanemar eiga auðvelt með að bregða nýju og forvitnilegu ljósi á mál, sem hafa verið lengi til umræðu. Þegar ríkisstjórn spólar jafn lengi í sama farinu og stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur á Icesave-svellinu, hljóma fréttir fljótt eins og slitin plata. Hvað skyldi oft hafa verið rætt við Guðbjart Hannesson í RÚV  til að fá það eitt fram, að fjárlaganefnd fundi áfram? Hvernig nenna fréttamenn alltaf að vera að tönnlast á þessu sama? Af hverju er ekki leitað að nýjum fleti? Til dæmis sagt frá því, hve oft þessi sami Guðbjartur hefur sagt, að málið þokist í rétta átt í fjárlaganefnd?

The Financial Times birti leiðara í dag til stuðnings málstað Íslendinga (ekki ríkisstjórnar Íslands) í Icesave-málinu. Hið sama á við um leiðarann og grein Evu Joly 1. ágúst, hann fer líklega í taugarnar á forsætisráðherra og fjármálaráðherra, því að höfundur hans hvetur til þess, að málstaður Íslands verði tekinn upp að nýju við hollensk og bresk stjórnvöld.

 

Þriðjudagur, 11. 08. 09. - 11.8.2009

Í dag birtist viðtal við mig á vefsíðunni Netvarp en þar ræðir Sindri M. Stephensen við mig um utanríkismál, Icesave, tengsl við Breta og Rússa. Hér má skoða viðtalið.

Fjölmiðlar flytja nú fréttir af ágreiningi meðal þingmanna vinstri-grænna um ICESAVE-samningana. Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, hefur tekið forystu gegn ICESAVE í þingflokki vinstri-grænna. Hann stillir sér þar upp gegn Steingrími J. Sigfússyni, flokksformanni.

Aðeins fáeinar vikur eru liðnar síðan Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, andmælti stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-málum. Steingrímur J. taldi sjálfsagt og eðlilegt, að Jón hefði sérskoðun á ESB-málum. Skoðun Ögmundar er ekki litin sömu augum og eðlilega er rætt um upplausn stjórnarsamstarfsins, verði ICESAVE-samningum hennar hafnað af alþingi.

Ögmundur Jónasson sagt fyrir svörum í Kastljósi og svaraði Sigmari Guðmundssyni með því einu að ICESAVE málið væri svo stórt, að um það ættu ekki að gilda neinar venjulegar leikreglur stjórnmálanna. Þótt Ögmundur væri að tala þvert á orð Steingríms J. í Kastljósi í síðustu viku sagðist hann ekki vera að gera það og komst upp með slíkar fullyrðingar með því að segja, að hann vildi að ICESAVE færi í gegnum þingið 63:0, af því að málið væri svo stórt!

Kastljósið er kynnt sem raunveruleikaþáttur í sjónvarpi en í meðförum þeirra Sigmars og Ögmundar breyttist Kastljósið í óraunveruleikaþátt. Hið versta er þó, að þessi óraunveruleiki á vaxandi hljómgrunn innan ríkisstjórnarflokkanna sem afsökun þeirra fyrir að afgreiða ICESAVE með og á móti til að ríkisstjórnin haldi lífi.

 

 

 

Mánudagur, 10. 08. 09. - 10.8.2009

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hvetur Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, til þess í grein í Morgunblaðinu í morgun að ræða við leiðtoga annarra landa um Icesave-deiluna og gera þeim grein fyrir því, að samningur þeirra Svavars Gestssonar og Steingríms J. Sigfússonar fái aldrei brautargengi á alþingi. Honum verði að breyta eða leita til dómstóla ella.

Anne Sibert, prófessor í hagfræði í London, ritar 10. ágúst grein á vefsíðuna Vox um Evrópumálefni í tilefni af því, að Grænlendingar hafa tekið stjórn eigin mála í sínar hendur. Prófessorinn telur hæpið, að Grænlendingum sé unnt að treysta fyrir eigin framtíð og nefnir Ísland sem dæmi um, að smáríki eigi erfitt með að fóta sig í veröldinni. Í lok greinar sinnar segir hún:

Mörg mjög lítil ríki eru eyjar, og því einangruð. Erfiðara en ella er fyrir háttsetta embættismenn að ferðast til nágrannalanda, ef þeir búa á afskekktum eyjum en ef þeir búa í Lúxemborg. Þetta leiðir til þeirrar hættu, að þeir, sem móta stefnu á fjarlægum stöðum geti orðið heimalningslegir í hugsun og þeir hafi ekki aðgang að ráðum, sem starfsbræður þeirra í útlöndum kynnu að gefa. Það er þess vegna mikilvægt að háttsettir embættismenn á stöðum úr alfaraleið leggi sig fram um að sækja ráðstefnur og önnur mót sérfræðinga erlendis.

Síst af öllu ætla ég að draga hagfræðilega þekkingu prófessorsins í efa. Þessi almenna athugasemd hennar um nauðsyn þess, að eyjaskeggjar sæki ráðstefnur í öðrum löndum, ber hins vegar ekki vott um mikla þekkingu prófessorsins á því, hvernig málum hefur verið háttað hér á landi. 

Í samanburðinum við Lúxemborg hefði mátt geta þess, að fáein ár eru liðin, frá því að háskóla var komið á fót þar í landi. Var meðal annars kallað á Pál Skúlason, prófessor og fráfarandi rektor Háskóla Íslands, til að taka sæti í ráði hins nýja háskóla og miðla af reynslu sinni.

Þótt íslenskir bankar hafi hrunið, er óþarft að gefa þjóðinni eða embættismannakerfi hennar fáfræðistimpil. Með því er talað á ómaklegan hátt niður til þjóðarinnar. Engar úttektir á þekkingarstigi hér á landi benda til þess, að Íslendingar standi öðrum þjóðum að baki á þann veg, sem prófessorinn gefur til kynna. Þá er barnalegt og ber í besta falli þekkingarskorti vitni að álíta íslenska stjórnmálamenn heimóttarlegri en stjórnmálamenn annars staðar - nema sú stund sé upp runnin nú, þegar ráðherrar taka ekki upp málstað þjóðarinnar á verðugan hátt gagnvart þeim, sem ganga freklega á hlut hennar.

 

 

Sunnudagur, 09. 08. 09. - 9.8.2009

Guðbjartur Hannesson heldur áfram að berja í brestina fyrir ríkisstjórnina í fréttatímum. Hann kallar fjárlaganefnd saman dag eftir dag án þess að komast að niðurstöðu og boðar, að enn meiri fjöldi manna verði kallaður til fundar á morgun en í dag. Furðulegt er, að Guðbjartur skuli ekki átta sig á því, að þetta mál leysist ekki á vettvangi fjárlaganefndar, þótt Jóhanna Sigurðardóttir hafi talið honum trú um það. Málið leysist ekki nema stjórnarflokkarnir komi sér saman um niðurstöðu eða Jóhanna taki pokann sinn og víki fyrir öðrum. Niðurstaða verður að nást í ríkisstjórninni og þingflokkum hennar.

Öllum er ljóst, að Jóhanna vill ekki ræða Icesave við annarra þjóða menn. Hitt kemur hins vegar æ meira á óvart, að hún vilji ekki heldur ræða málið við samherja sína í ríkisstjórn til að finna lausn á því en feli Guðbjarti Hannessyni að gefa innistæðulausar yfirlýsingar. Guðbjartur gegndi þessu hlutverki fyrir Jóhönnu vikum saman sem forseti alþingis og sat að lokum uppi með, að málið, sem Jóhanna vildi í gegn, stjórnarskrármálið, dagaði uppi. Það skyldi þó ekki fara eins fyrir Icesave-málinu undir forystu Jóhönnu?

Spunafólk Samfylkingarinnar skrifar um vandræðin vegna Icesave á sama hátt og um stjórnarskrármálið. Látið er í veðri vaka, að það sé meira en sjálfsagt að sjálfstæðismenn komi Jóhönnu til bjargar, og sé eiginlega hreinn aumingjaskapur ef þeir gera það ekki.

 

Laugardagur, 08. 08. 09. - 8.8.2009

Fréttir eru sagðar af því, að meðal þingmanna vinstri-grænna magnist andstaða við Icesave. Skilyrði þessara þingmanna við samþykkt frumvarps um ríkisábyrgð vegna samninganna um Icesave séu þess eðlis, að samningarnir verði í raun marklausir. Einkennilegt er, að í fjölmiðlum skuli sagt frá þessu án frekari skýringa um áhrif þessarar uppreisnar í þingliði ríkisstjórnarinnar á líf hennar og störf.

Helst mætti ætla, að stjórnmálafréttaritarar fjölmiðlanna telji bara sjálfsagt, að stjórnarandstaðan hlaupi undir bagga með ríkisstjórninni til að bjarga henni frá eigin Icesave-klúðri. Eftir þann björgunarleiðangur geti svo hin óhæfa ríkisstjórn haldið áfram að spóla í sama hjólfarinu, eins og ekkert sérstakt hafi í skorist.

Jóhanna Sigurðardóttir er eins og stikkfrí. Enginn spyr hana um niðurstöðu Icesave-málsins. Í sí og æ er verið að ræða málið við Guðbjart Hannesson, formann fjárlaganefndar. Hann fer með sömu rulluna dögum saman. Málið sé alveg að komast úr nefnd hans, þótt hann viti að vísu ekki hvernig eða hvenær.  Vandræðagangur Guðbjarts endurspeglar ráðleysi ríkisstjórnarinnar.

Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndar alþingis á bankahruninu, dró upp dökka mynd af viðfangsefni nefndarinnar og væntanlegum niðurstöðum í RÚV í dag. Mátti skilja orð hans á þann veg, að bankakerfið hefði ekki aðeins vaxið efnahag þjóðarinnar yfir höfuð heldur einnig stjórnkerfinu. Þegar slík skriða fer af stað í þjóðfélagi, þarf engan að undra, þótt margir láti undan síga og verði meðvirkir. Má enn minna á þá skoðun, sem átti víða hljómgrunn, að stjórnmálamenn og stjórnvöld skyldu halda sér til hlés til að fipa ekki fjármálasnillingana.

Föstudagur, 07. 08. 09. - 7.8.2009

Ég heyrði í útvarpi, að þessi dagur væri sérstakur, þar sem unnt væri að finna þessa tímasetningu: 12.34.56.7.8.9.

Reiptogið um Icesave heldur áfram. Undarlegt er að hlusta á Steingrím J. Sigfússon tala um málið á þann veg, að alþingi geti búið því einhverja umgjörð, sem gildi hér en ekki gagnvart viðmælendum erlendis. Þetta er argasta blekking. Öll skilyrði sett af alþingi snerta samskipti við Breta og Hollendinga.

Miðað við yfirlýsingar stjórnarsinna í hópi vinstri-grænna kemst Icesave ekki út úr alþingi, án þess að stjórnarandstaðan veiti málinu brautagengi. Ætli Steingrími J. Sigfússyni sé þetta ekki ljóst? Heift hans í garð Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi 6. ágúst var ekki til marks um viðleitni til að skapa breiða samstöðu á þingi.

 

Fimmtudagur, 06. 08. 09. - 6.8.2009

Fréttir birtast nú um, að rússneskir kjarnorkukafbátar séu eða hafi verið á svipuðum slóðum undan Atlantshafsströnd Bandaríkjanna og hinir sovésku á tímum kalda stríðsins. Bandarískur sérfræðingur segir, að þetta sé í fyrsta sinn á 15 árum, sem rússneskir kafbátar sigli svo langt suður N-Atlantshaf. Um miðjan júlí var skýrt frá ferðum rússneskra kafbáta í nágrenni Íslands.

Ríkisstjórnin hefur lagt á flótta í Icesave-málinu. Hún hefur hætt að leiða málið og býr sig undir að alþingi taki það í höndum hennar. Steingrímur J. Sigfússon lætur enn eins og aðrir en hann beri pólitíska ábyrgð á þeim samningi, sem gerður hefur verið vegna Icesave.  Ábyrgðin er hans og hefur Samfylkingin verið einstaklega lagin við að árétta það í stjórnarsamstarfinu. Jóhanna Sigurðardóttir fer undan í flæmingi, þegar því er hreyft, að hún eigi að bregða undir sig betri fætinum og ræða við starfsbræður í Bretlandi og Hollandi til að skýra málstað Íslands. Upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins segir ríkisstjórnina ekki hafa mótað neina kynningarstefnu í málinu, enda sé hún klofin í afstöðu til þess.

Ánægjulegt er að lesa fréttir um mikið álit almennings á lögreglunni og traust til starfa hennar. Í dag féll dómur í Papeyjarmálinu ákæruvaldinu í hag, sem sannar enn, hve fagmannlega lögregla stóð að úrlausn þess flókna máls.

 

Miðvikudagur, 05. 08. 09. - 5.8.2009

Einkennilegt er að kynnast því, að álitsgjafinn og RÚV-þáttastjórnandinn Egill Helgason skuli ganga fram fyrir skjöldu og gagnrýna mig fyrir að taka undir með Evu Joly, og ég finni að því, að stjórnvöld nýti sér ekki öfluga málsvörn hennar. Þetta gerði Egill á bloggsíðu sinni í dag og svaraði ég honum með pistli hér á síðunni, en pistill minn birtist einnig á www.amx.is.

Eftir að svar mitt birtist endurtekur Egill sömu rulluna um þá Valtý Sigurðsson og Boga Nilsson í nýju bloggi. Þá talar hann enn niður til Ólafs Þórs Haukssonar og telur það til marks um virðingarleysi fyrir embætti sérstaks saksóknara, að þar þurfi menn að sækja um meiri fjárveitingar og rökstyðja þær. Af þessu ræð ég, að Agli er um megn að leggja óhlutdrægt mat á þær ráðstafanir, sem gripið var til strax eftir hrunið innan réttarvörslunnar.

Þá segir Egill vanda minn þann, að hafa setið í ríkisstjórn á tíma einkavæðingarinnar og gefur til kynna, að þess vegna megi ég ekki hafa skoðun á því, sem nú sé að gerast. Allt sem á daga mína dreif sem ráðherra kemur fram hér á þessum síðum, vefsíðan geymir stjórnmálasögu mína síðan 1995. Þangað á Egill að leita vilji hann gagnrýna störf mín en ekki annað. Að sjálfsögðu gerir hann það ekki heldur fimbulfambar um annað. Þá segir Egill um eigin fordóma:

„Það er einfaldlega staðreynd og kemur hlutdrægni eða óhlutdrægni ekki nokkurn skapaðan hlut við.“

Með þessum orðum er hann að verja stöðu sína sem þáttastjórnandi hjá RÚV, en þeim ber lögum samkvæmt að gæta óhlutdrægni í störfum sínum. Ef þessi skrif Egils eru að hans mati til marks um óhlutdrægni, skilur hann ekki inntak þess orðs. Eða kannski á bara að hafa útvarpslögin að engu, þegar hann á í hlut? Hugsi hann þannig, ferst honum illa að skammast yfir „einkavinavæðingu“ undanfarin ár. Í því hugtaki felst, að hvorki sé gætt óhlutdrægni né farið að lögum.

Seinni pistli sínum lýkur Egill á þessum orðum:

„Björn kallar það dylgjur þegar ég segi að hann og hans menn hafi ekki fagnað aðkomu Evu Joly. En finna menn einhver orð á vefsíðu hans – sem hann uppfærir daglega – eða á vefnum AMX sem benda til annars?“

Egill segir þannig að lokum, að úr því að ekki sé að finna fagnaðarboðskap á vefsíðu minni um „aðkomu Evu Joly“, geti hann haldið því fram, án þess að vera með dylgjur, að ég og „hans menn“, hverjir sem þeir nú eru, hafi ekki fagnað Evu Joly.  Reynsla mín hefur kennt mér, að best sé fyrir mig að láta sem fæst orð falla um ákæruvaldið eða störf þess, þegar rannsókn efnahagsbrota fer fram. Að þeirri varkárni sé snúið á þann veg, sem Egill Helgason kýs að gera, sannar enn rökþrot hans.

Þriðjudagur, 04. 08. 09. - 4.8.2009

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon efndu til blaðamannafundar í dag, án þess að sagt hafi verið frá spurningum til þeirra um viðbrögð vegna greina Evu Joly eða hvort ríkisstjórnin ætli að sigla í kjölfar hennar með baráttu fyrir málstað Íslands. ESB-fjölmiðlum þykir líklega óþægilegt að fylgja sjónarmiðum Joly eftir vegna gagnrýni hennar á framgöngu ESB í garð Íslendinga.

Ef marka má RÚV-fréttir var ekki heldur leitað svara við því hjá ráðherrunum, hvernig unnt væri að samræma þá skoðun Kristínar Árnadóttur, skrifstofustjóra upplýsingmála í utanríkisráðuneytinu, að stjórnarráðið ynni eins og „smurð vél“ að því að kynna málstað Íslands, og skoðun Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, um, að vegna skorts á kynningarstefnu og ágreinings innan ríkisstjórnarinnar gæti stjórnarráðið ekki stundað neitt kynningarstarf.

Þögnin um þessi mál stafar ekki af því, að lagt hafi verið lögbann við erfiðum spurningum til Jóhönnu og Steingríms J. að loknum ríkisstjórnarfundum.

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var í N-Kóreu í dag og fékk tvær bandarískar blaðakonur lausar úr haldi. Látið er í veðri vaka, að þetta hafi verið einkaheimsókn. Augljóst er, að sá spuni á að milda þessi óvæntu bandarísku samskipti við harðstjórnina í N-Kóreu. Því var spáð, að kjarnorkuvopnaglamur N-Kóreu og handtaka blaðakvennanna mundi leiða til þess, að Kim Jong-Il, harðstjóri, gæti látið mynda sig jafnfætis háttsettum Bandaríkjamanni. Clinton tók að sér að verða á myndinni með Kim Jong-II í höfðuborginni Pyongyang. Blaðakonurnar eru lausar úr haldi. Hvað gerist með kjarnorkuvopnin?

 

Mánudagur, 03. 08. 09. - 3.8.2009

Enginn íslenskur almannatengill hefði getað séð til þess, að grein eftir íslenskan stjórnmálamann birtist í fjórum blöðum samtímis í jafnmörgum löndum líkt og gerðist, þegar Eva Joly birti sama dag grein til varnar Íslandi í Morgunblaðinu, Aftenposten (Ósló), The Daily Telegraph (London), Le Monde (París). Í raun er sjaldgæft að stjórnmálamenn eða aðrir fái slíka samræmda birtingu aðsendrar greinar.

Við því hefði mátt búast, að af hálfu ríkisstjórnarinnar reyndi einhver að sigla í kjölfar Joly til að fylgja málstað Íslands eftir. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Hið eina, sem heyrst hefur úr stjórnarherbúðunum, er nöldur Hrannars B. Arnarsonar í garð Joly. 

Ástæðan fyrir því, að íslensk stjórnvöld nýta sér ekki málflutning Joly, er, að þau eru ósammála Joly. Hin sorglega staðreynd er, að ríkisstjórn Íslands vill ekki berjast fyrir rétti íslensku þjóðarinnar gagnvart Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu með þeim rökum, sem Joly beitir í grein sinni.

Fréttir af umferð um helgina í beinni útsendingu frá leiðum til borgarinnar í kvöldfréttatímum sjónvarpsstöðvanna virðast frekar vera fluttar af gömlum vana en vegna þess að eitthvað fréttnæmt sé að gerast. Umferðin var ekkert meiri en um venjulega helgi.

Fréttir RÚV af þjóðarpúlsi Gallups og fylgi flokka í Reykjavík, þegar Sjálfstæðisflokkurinn eykur fylgi sitt um 11% milli kannanna en Samfylking tapar 10% eru sérkennilegar, svo að ekki sé meira sagt. Þær snúast um, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki náð sama fylgi og hann fékk í kosningum 2006. Fréttapunkturinn er auðvitað sá, að Sjálfstæðisflokkurinn er að sækja í sig veðrið eftir mikla erfiðleika á kjörtímabilinu en Samfylkingin undir forystu Dags B. Eggertssonar, varaformanns flokksins, er á hröðu undanhaldi.

RÚV segir ekki fréttir af fylgi flokka á landsvísu samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Hvað veldur? Að fylgi stjórnarflokkanna hafi hrapað svo hratt síðustu daga könnunarinnar, að hún sé ekki marktæk sé litið yfir 30 daga?

 

Sunnudagur, 02. 08. 09. - 2.8.2009

Frá því var skýrt, að Einar Karl Haraldsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar og verðandi upplýsingafulltrúi Landspítalans, væri kominn til starfa í forsætisráðuneytinu. Líklega til að bæta almannatengsl fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún hafði fyrir Kristján Kristjánsson, blaðafulltrúa, sem sagðist vera tekinn til við að móta skoðanir umheimsins okkur í vil. Loks er Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu. Hann miðlar skoðunum meðal annars á netinu.

Eva Joly tók upp hanskann fyrir málstað Íslands í fjórum blöðum 1. ágúst. Málsvörn hennar var skýr og afdráttarlaus gegn yfirgangi Breta og Hollendinga. Þá bregður svo við að Hrannar B. telur Joly vera að skipta sér af hlutum utan verksviðs síns. Hrannar fær þunga gagnrýni og dregur frekar vesældarlega í land.

Tveir vanir almannatengslamenn, Atli Rúnar Halldórsson og Jón Hákon Magnússon, sögðu í fjölmiðlum 2. ágúst, að kynningarstarf á vegum ríkisstjórnar Jóhönnu væri í molum.

Kynning er eitt, annað hvað er sagt. Hvorki Jóhanna né Steingrímur J. Sigfússon hefðu getað ritað grein í sama dúr og Joly. Þau vilja nefninlega bæði, að Íslendingar sætti sig við afarkosti Breta og Hollendinga og samþykki Icesave. Þau hefðu hvorugt gagnrýnt Evrópusambandið og forseta framkvæmdastjórnar þess á sama hátt og Joly gerði, því að þau eru á biðilsbuxunum gagnvart sambandinu. Þeirra prédikun byggist á því, að án Icesave og ESB bíði Íslendinga ekkert annað en alþjóðleg einangrun. 

Almannatengslamenn og kynningarfulltrúar Jóhönnu halda henni líklega til hlés, af því að þeim finnst betra, að hún þegi en lýsi skoðunum sínum á Icesave og ESB. Þeir eru kannski ekki gagnslausir, þegar öllu er á botninn hvolft. 

Laugardagur, 01. 08. 09. - 1.8.2009

Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara og þingmaður á ESB-þinginu, ritaði grein í Morgunblaðið, Aftenposten, The Daily Telegraph og  Le Monde í dag, þar sem hún tekur upp hanskann fyrir Íslendinga í Icesave-málinu.

Ef rétt er munað höfðu þau Kristján Kristjánsson, fjölmiðlafulltrúi forsætisráðuneytis, og Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytis, á orði, að þeirra höfuðverkefni væri nú að sjá til þess, að málstaður Íslands hlyti kynningu í erlendum fjölmiðlum. Eva Joly hefur svo sannarlega tekið af þeim ómakið. Umbjóðendur þeirra Kristjáns og Urðar, Jóhanna og Össur, hefðu auk þess aldrei viljað leggja nafn sitt við grein, sem skammar forseta framkvæmdastjórnar ESB eða Gordon Brown, forsætisráðherra Breta. Hvorugt samræmist þjónkun þeirra við ESB.

Ríkisstjórn með samfylkingarfólk í embætti forsætisráðherra og utanríkisráðherra getur ekki staðið vörð um málstað Íslands út á við. Samfylkingin er svo ofurseld þránni um aðild að ESB, að hún er ófær um gæslu íslenskra hagsmuna.

Nú sannast enn, hve fráleitt er, að telja bankaleynd eiga að ráða umræðum um aðdraganda hruns íslensku bankanna. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar, dró lappirnar andspænis gagnrýni á bankaleynd um atburði, sem eru hluti af sögu bankahrunsins. Hann flutti ekki frumvarp um breytingu á lögum til að aflétta leyndinni. Gylfi Magnússon, arftaki Björgvins G., stendur einnig vörð um þessa sagnfræðilegu bankaleynd. Í krafti hennar krefst Kaupþing þess, að lánabók þess fyrir hrun sé lokuð og fjölmiðlar fái ekki að segja fréttir úr henni.

Algjör þáttaskil urðu í bankastarfsemi með hruninu í byrjun október 2008. Fráleitt er að láta eins og það, sem gerðist í aðdraganda hrunsins, eigi að lúta lögmálum eðlilegra bankaviðskipta. Ætli okkur verði ekki sagt, að hagsmunir „viðskiptalífsins“ séu í húfi? Ekki kæmi á óvart, að Viðskiptaráð Íslands ályktaði til stuðnings lögbanni á fréttir frá Kaupþingi.