17.8.2009

Mánudagur, 17. 08. 09.

Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, segir á vefsíðu sinni í dag, að þrír flokkar standi að ríkisstjórninni: Samfylking, vinstri-grænir og Liljurnar - þar vísar hann til tveggja þingmanna v/g Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur og Lilju Mósesdóttur. Liljurnar telja ríkisstjórninni helst til tekna, að þær fái að viðra skoðanir sínar. Mörður er allt annarrar skoðunar.

Smáfuglarnir á www.amx.is segja í tilefni af þessum orðum Marðar, að ekki sé aðeins þrífótur undir ríkisstjórninni heldur styðjist hún að auki við hækju frá stjórnarandstöðunni í mikilvægum málum.

Ríkisstjórnin hefði hvorki komið ESB-málinu í gegnum þingið né Icesave á þann stað, sem málið er núna, án stuðnings frá stjórnarandstöðunni. Í báðum málum hefur verið meginboðskapur ríkisstjórnarinnar, að ESB-umsókn og afgreiðsla Icesave skipti sköpum um stöðu ríkisins gagnvart öðrum.

Hinn 16. ágúst var sagt frá því á vefsíðu The Financial Times að bresk lögmannsstofa, Norton Rose, hefði kannað hug 60 stærstu fjármálastofnana til Íslands. Ríflega 90% sögðu að það væri „ólíklegt" og „mjög ólíklegt" að þær myndu fjárfesta á ný á Íslandi. Yfirgnæfandi fjöldi bjóst við löngu óvissutímabili í íslensku fjármálakerfi. Alls 98% svarenda töldu íslensk yfirvöld ekki hafa komið fram af sanngirni gagnvart alþjóðlegum lánastofnunum.

Ímyndi ríkisstjórnin sér, að þessi afstaða lykilþátttakenda í endurreisn íslenska hagkerfisins breytist vegna ESB-aðildarumsóknar á brauðfótum eða með því að Íslendingar beygi sig undir Icesave afarkostina, sannar það enn, hve ranga sýn ráðherrar hafa á stöðu mála.

Æ fleiri taka undir það sjónarmið, að ESB-aðildarumsókn nú frá Íslandi sé tímaskekkja bæði vegna ástandsins hér og innan ESB. 76% svarenda í könnun Norton Rose töldu Ísland ekki hæft til aðildar að ESB.  Vilji Íslendingar skipta um gjaldmiðil til að breyta stöðu sinni nú, verða þeir að gera það einhliða. Icesave-afarkostunum verður ekki aflétt án nýrra samninga við Breta og Hollendinga.

Að stjórnarandstaða telji sér og þjóð sinni til framdráttar að styðja ríkisstjórn eins og þá, sem nú situr, og stuðla að því, að hún geti haldið áfram á sömu braut, byggist ekki á umhyggju fyrir þjóðarhag og er í raun óskiljanlegt. Í könnun bresku lögmannsstofunnar kom fram, að 91% svarenda báru ekki traust til ríkisstjórnar Íslands. Varla heldur stjórnarandstaðan á alþingi, að besta leiðin til að efla traust á Íslandi sé að lengja líf þessarar máttlitlu ríkisstjórnar?