Dagbók: ágúst 2012

Föstudagur 31. 08. 12 - 31.8.2012 23:05

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um flokksþing repúblíkana.

Engum sem fylgst hafa með megininntaki í flokksstarfi vinstri-grænna undanfarin misseri ætti að koma á óvart að hart sé sótt að Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra á flokksvettvangi eftir að hann lenti undir öxinni hjá kærunefnd jafnréttismála. Ögmundur segist að vísu ekki taka nefndarniðurstöðuna nærri sér, samviska sín sé hrein og það dugi sér hvað sem aðrir segi. Hann sá ástæðu til að taka síðar fram að ekki bæri að túlka orð sín á þann veg að honum bæri ekki að fara að landslögum.

Á síðasta landsfundi VG voru samþykktar fimm ályktanir undir fyrirsögninni Kvenfrelsi. Við stofnun flokksins tók til starfa sérstök hugmyndasmiðja um málefni kvenna og liggur fyrir langt skjal um það mál. Af öllu má ráða að áhugamenn um þessi málefni innan VG telji Ögmund hafa gert atlögu að einni af grunnstoðum flokksins með ákvörðun sinni.

„Menn hljóta að taka svona niðurstöðu alvarlega," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, á visir.is. Hann segir niðurstöðuna ákveðið áfall en vill ekki ganga svo langt að segja að Ögmundur eigi að segja af sér vegna málsins. Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður VG, er svipaðrar skoðunar en vill fá frekari skýringar innanríkisráðherra áður en hann tekur afstöðu til málsins. Afstaða hans er með öðrum orðum skilorðsbundin, hann kann að krefjast afsagnar Ögmundar.

Ögmundur fær engan stuðning eigin flokksmanna í þessu máli. Hann flýtur áfram í ríkisstjórninni af því að hann er á sama báti í jafnréttismálum og Jóhanna Sigurðardóttir, jafnréttis- og forsætisráðherra. Ögmundur hlýtur þó að velta fyrir sér hvers vegna hann er tekinn miklu harðari tökum en Jóhanna á sínum tíma. Er engu líkara en feministum og öðrum þyki frekar ástæða til gagnrýni þegar kærunefndin setur ofan í við karlmann en konu – hvar er jafnréttið í því?

Fimmtudagur 30. 08. 12 - 30.8.2012 21:54

Í dag skrifaði ég á Evrópuvaktina um stækkun ráðuneyta og ráðningu starfsmanna í ný embætti þar í tilefni af ríkisráðsfundinum sem haldinn var klukkan 14.00 í dag. Ég sé að einhverjir bloggarar undrast að ég sé þeirrar skoðunar að óskynsamlegt sé að fækka ráðuneytum af því að stækkun ráðuneyta hafi verið samþykkt á landsfundi sjálfstæðismanna 2007.

Ég hef aldrei verið talsmaður stórra ráðuneyta. Ég tel til dæmis fráleitt að einn ráðherra sé ábyrgur fyrir helmingi ríkisútgjalda eins og velferðarráðherrann. Þá er ég ekki þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að þrengja hina pólitísku ábyrgð á of fáar herðar. Aðhald í stórum opinberum einingum er minna en litlum. Sérþekking er eyðilögð og stöðum fækkað sem auðvelda ríkinu að keppa um fólk í fremstu röð við einkaaðila.

Það er til marks um heimskuleg rök fyrir því sem er að gerast núna að vitna til ályktana Sjálfstæðisflokksins frá 2007. Breytingarnar nú ber að setja í samband við ESB-aðildarumsóknina eins og allt annað sem þessi ríkisstjórn gerir. Hefði breytingin ekki fallið að umsókninni hefði hún ekki verið gerð, svo einfalt er það.

Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra veitist hart að Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra vegna ummæla hans um að hann hafi hreina samvisku vegna skipunar í embætti sýslumanns á Húsavík þrátt fyrir áfellisdóm kærunefndar jafnréttismála. Kannski er það misminni en ég minnist þess ekki að Kristín hafi tekið slíka syrpu þegar nefndin fann að skipan jafnréttisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur á embættismanni forsætisráðuneytinu og hlaut síðan dóm vegna málsins. Varla gerist jafnréttisstýra sek um ójafnrétti milli ráðherra?

 

Miðvikudagur 29. 08. 12 - 29.8.2012 23:00

Í dag ræddi ég við Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúa þjóðgarðsins á Þingvöllum, um í þætti mínum á ÍNN um svonefnt þing-verkefni, það er samvinnu forráðamanna fornra þingstaða við Norður-Atlantshaf þar sem segja má að Þingvellir séu þungamiðja vegna sögu sinnar. Þáttinn má næst sjá á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til og með klukkan 18.00 á morgun.

Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi brotið jafnréttislög við skipun sýslumanns á Húasvík. Ögmundur hafnar niðurstöðunni og telur hana ranga.

Ögmundur má fagna að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur ekki aðeins sætt sömu örlögum hjá kærunefndinni heldur hefur héraðsdómari einnig talið hana brjóta jafnréttislögin við ráðningu manns í ráðuneytið hjá sér.

Sæti Jóhanna ekki upp með þetta jafnréttislagabrot hefði hún krafist afsagnar Ögmundar til að vera samkvæmt sjálfri sér.

Þriðjudagur 28. 08. 12 - 28.8.2012 22:30

Fulltrúar sjómanna frá Noregi og ESB-ríkjum gengu á fund Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, mánudaginn 27. ágúst til að hvetja hana til dáða í makrílviðræðunum við Íslendinga og Færeyinga. Af fréttum má ráða að sjómennirnir telji að minna af makríl sé á  Íslandsmiðum en áður. Segja þeir að tvær rannsóknir styðji þá niðurstöðu sem kemur ekki heim og saman við rannsóknir á vegum Hafrannsóknarstofnunar sem lauk 10. ágúst.

Þá hafa verið birt 11 atriði sem sjómennirnir vilja að haldið sé til haga í viðræðunum. Fyrri tilboð séu dregin til baka af ESB og Normönnum er fyrsta skilyrðið. Kröfur Íslendinga og Færeyinga eiga ekki við nein rök að styðjast. Íslendingar fái engan aðgang að miðum ESB og Noregs. Tíminn vinnur gegn Íslendingum. Samið til skamms tíma. ESB og Noregur grípi til refsinga. Gert verði hlé á aðildarviðræðum við Íslendinga. Samningar um kolmunna verði endurskoðaðir. Grænland fái ekki stöðu strandríkis og ekki verði samið við það.

Haft er eftir fulltrúum sjómannanna að fundurinn með Damanaki hafi verið jákvæður.

Rætt var við Steingrím J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra um fyrirhugaðar makrílviðræður í London 3. september í  22 fréttum sjónvarps í kvöld. Framkoma hans var á þann veg að mér sýnist líklegt að hann sé alveg eins á þeim buxum að verða við kröfum ESB og Norðmanna á fundinum í London.  Það yrði í samræmi við framgöngu hans í Icesave-málinu.

Í fyrri fréttum sjónvarps veittist Steingrímur J. að Morgunblaðinu fyrir að ræða við Ragnar Arnalds VG-mann sem sagðist efast um lögmæti ályktana flokksráðsfundar VG vegna fámennis. Það var skrýtið að fréttamaður skyldi láta Steingrím J, ráðast á miðilinn sem sagði frá viðhorfi Ragnars án þess að benda flokksformanninum á að um orð Ragnars var að ræða en ekki Morgunblaðsins.

Mánudagur 27. 08. 12 - 27.8.2012 22:50

Nú má sjá viðtal mitt við Jóhann Sigurjónsson, forstjóra Hafrannsóknarstofnunarinnar, á vefsíðu ÍNN. Þeir sem vilja fræðast um makríl og þorsk við landið ættu að hlusta á samtalið.

Augljóst er að forráðamenn og spunaliðar Samfylkingarinnar hafa ákveðið að fara ekki að ráðum þeirra sem telja óskynsamlegt að flokkurinn einskorði sig við ESB-málin og leggi allt undir vegna þeirra. Í dag birtast að minnsta kosti þrjár greinar og frásögn af einni ræðu þar sem samfylkingarmenn mæla ESB-aðild bót og finna andstæðingum hennar allt til foráttu.

Björgvin G. Sigurðsson og Árni Páll Árnason, alþingismenn og fyrrverandi ráðherrar, rita greinar í Fréttablaðið, Árni Páll flytur ræðu hjá samtökunum með hógværa nafninu, Sterkara Ísland, og Jóhann Hauksson, upplýsingastjóri Jóhönnu, leggja allir áherslu á að ekki megi hlusta á nöldrið í VG-liðinu sem leggur áherslu á að endurmeta stöðu ESB-viðræðnanna.

 

Sunnudagur 26. 08. 12 - 26.8.2012 21:54

Í dag fórum við í Hlíðarendakirkju í Fljótshlíð þar sem þess var minnst að 120 ár eru liðin frá fæðingu Nínu Sæmundsson myndhöggvara. Séra Önundur Björnsson prédikaði. Að lokinni guðsþjónustunni gengum við í minningarlundinn um Nínu á fæðingarstað hennar. Ég var þar síðast fyrir 12 árum og vakti undrun nú hve trjágróður hefur dafnað vel í lundinum á þessum árum. Við ókum síðan að Sögusetrinu á Hvolsvelli þar sem sjá mátti hina frægu styttu Hafmeyjuna eftir Nínu sem nú er í eign Ingibjargar Pálmadóttur og Haralds Sturlaugssonar á Akranesi en verður næstu tvær vikur til sýnis á Hvolsvelli.

Lilja Mósesdóttir þingmaður segir á vefsíðu sinni sunnudaginn 26. ágúst:

„Ég vil ljúka þessari umfjöllun um blogg Stefáns [Ólafssonar prófessors við Háskóla Íslands] með því að hvetja hann til að vanda málflutning sinn. Starfsfólk Háskóla Íslands er vant að virðingu sinni eins og nýleg höfnun á beiðni um að ég fengi að stýra málstofu við stofnunina ber með sér. Beiðninni var hafnað með þeim rökum að ég væri of pólítískur málstofustjóri. Ég geri því þá kröfu til einstaklinga sem starfa við HÍ að gæta þess að vera ekki of pólitískir í skrifum sínum um fagsvið mitt og beita staðreyndum, þekkingu og haldbærum rökum.“

Á Evrópuvaktinni benti ég í gær á hvernig Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, skrifar um Ólaf Þ. Stephensen og segir að trúa megi sér af því ríkið borgi henni laun en Ólafur Þ. fái laun frá eigendum Fréttablaðsins.

Sigurbjörg og Stefán eru stuðningsmenn Samfylkingarinnar í hópi háskólakennara og telja sig greinilega þurfa að vega persónulega að þeim sem lýsa sjónarmiðum sem þau álíta andstæð hagsmunum flokksins og ríkisstjórnarinnar.

Innan Háskóla Íslands starfar siðanefnd sem ber að sjá til þess að ekki falli kusk á heiður háskólasamfélagsins. Skyldi hún kalla Sigurbjörgu og Stefán á sinn fund?

Laugardagur 25. 08. 12 - 25.8.2012 19:20

Fyrir réttum tveimur vikum tóku stjórnmálafréttir ríkisútvarpsins kipp og settu svip sinn á þjóðmálaumræðurnar af því að fréttamenn spurðu stjórnmálamenn efnislegra spurninga um eitthvað sem máli skiptir. Ráðherrar og þingmenn VG svöruðu málefnalegum spurningum um ESB-málið. Þá hefur fréttastofa ríkisútvarpsins einnig dögum saman sagt frá deilum forseta Íslands og forsætisráðherra um hlutverk eða hlutskipti handhafa forsetavalds. Nú stendur það mál þannig að þau deila um hve mörg hundruð þúsund krónur Jóhanna fær fyrir að hlaupa í skarðið fyrir Ólaf Ragnar án þess að fara út á flugvöll til að kveðja hann.

Í dag og í gær hafa stjórnarflokkarnir VG og Samfylking efnt til funda í æðstu stofnunum sínum á milli landsfunda. Þá bregður svo við að fréttir ríkisútvarpsins verða málefnalega geldar og taka að snúast um að Jóhanna Sigurðardóttir ætli að bæta álit alþingis út á við með því að semja við stjórnarandstöðuna. Öllum er þó ljóst nema líklega fréttastofu RÚV að Jóhanna er upphaf og endir allrar þrætu á þinginu með yfirgangi sínum og frekju.  Hver á von á að það breytist fyrir kosningar? Gott ef Jóhanna ætlar ekki að stytta ræðutíma á þingi til að ná málum fram. Hverjum dettur í hug að slíkt gerist á kosningaþingi? Fréttamanni ríkisútvarpsins?

Jóhanna Sigurðardóttir segir að ekki sé víst að hún gefi kost á sér til endurkjörs í komandi þingkosningum sem þýðir að sjálfsögðu að hún íhugi að hætta. Þegar flokksformaður og forsætisráðherra talar á þann veg eru pólískir dagar hans taldir. Nema Jóhanna fái sinn Baldur og Guðna til að hvetja sig til að halda áfram. Eru líkur á því?

Stjórnmálafréttar ríkisútvarpsins eru í anda fréttatilkynninga stjórnarflokkanna þegar sagt er frá þessum funda þeirra, ekki hin minnsta tilraun gerð til að auðvelda áheyrendum að átta sig á  stöðu mála. Augljóst er að gjá breikkar milli flokkanna í ESB-málum og efasemdir eru um hvort forystumenn þeirra leiði þá í kosningabaráttunni.

Hið eina fréttnæma í ríkisútvarpinu var spurningin til Steingríms J. Sigfússonar um hvort hann sé á förum úr pólitíkinni sem hann taldi af og frá. Ekki hefði verið spurt að tilefnislausu? Skyldi það hafa verið einhver úr VG eða Samfylkingunni sem ýtti undir spurninguna?

Föstudagur 24. 08. 12 - 24.8.2012 23:55

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, kaus að setja ekki flokksráðsfund sem hófst í dag til að leggja drög að samstöðu í flokki hans fyrir framboð og kosningavetur. Aðdragandi fundarins einkenndist af deilum innan þingflokks VG um ESB-málin þar sem níu þingmenn af 12 snerust gegn ESB-stefnu ríkisstjórnarinnar. Björn Valur Gíslason þingflokksformaður skipaði sér við hlið Steingríms J. á móti meirihlutanum og einnig Þráinn Bertelsson sem sækir ekki flokksráðsfundinn og talar niður til hans.

Í fjarveru Steingríms J. setti Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, flokksráðsfundinn og sagði meðal annars:

„Stærstu vonbrigði mín á kjörtímabilinu eru að sú samstaða og samheldni sem einkennt hefur okkar hreyfingu frá upphafi hefur horfið. Í staðinn hafa komið illdeilur og átök.“

Skyldi þetta vera ástæðan fyrir að Steingrímur J. kaus að vera fjarverandi við upphaf flokksráðsfundarins. Treysti hann sér ekki til að flytja setningarræðuna af ótta við að ýta frekar undir illdeilur og átök en lægja öldur og stuðla að samstöðu?

Einkunnin sem Katrín gefur flokksstjórnarháttum Steingríms J. er ekki há. Hún fellur hins vegar að stjórn hans á málefnum sem falla undir ráðherraembætti hans. Þar er síður en svo allt sem sýnist.

Fimmtudagur 23. 08. 12 - 23.8.2012 18:45

Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, heldur úti vefsíðu þar sem hann vekur athygli á misfellum í fjölmiðlum og nefnir stundum fleira til sögunnar eins og í pistli sínum í dag þegar hann segir um sex ára gamalt atvik sem tengist Árna Johnsen og handhöfum forsetavalds: „Hann [Ólafur Ragnar] er líklega búinn að gleyma því að þeir [handhafarnir] lögðu mikla vinnu í að náða fingralangan alþingismann svo hann gæti farið í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir ekki svo ýkja mörgum árum.“ Þessi fullyrðing á ekki erindi á vandaða vefsíðu sem snýst um að fjölmiðlamönnum  beri að segja satt og rétt frá málum. Handhafarnir lögðu enga vinnu í að náða Árna Johnsen því að engin tillaga um það var lögð fyrir þá. Árni átti hins vegar lögbundinn rétt til þess eins að fá uppreist æru. Forseti eða handhafar rita undir slík skjöl og brjóta einfaldlega rétt á viðkomandi sé því neitað. Það er ósæmilegt að halda öðru fram og einelti að nefna þar aðeins einn mann til sögunnar. Ég fjallaði nokkrum sinnum um þetta mál hér á síðunni á sínum tíma eins og til dæmis má sjá hér.

Ein undarlegasta þráhyggja í umræðum um áhrif breytinga á norðurslóðum er sú skoðun að tómt mál sé að tala um að umskipunarhöfn verði á Íslandi.  Fyrir því eru mun sterkari rök að svo verði en ekki. Scott Borgeson sem ritaði fræga grein um norðurskautið í Foreign Affairs 2008 sagði við mig að Ísland gæti orðið Singapore norðursins. Hann átti við að skipaumferðin gæti orðið af þeim toga á þessum slóðum, kannski sá hann fyrir að áhugi Kínverja yrði mikill á eyjunum í Norður-Atlantshafi ekki síður en á Suður-Kínahafi og þeir mundu fjölmenna til þeirra eins og til Singapore.

Vissulega er umhugsunarefni hvort áhugi Kínverja á að skapa sér aðstöðu hér á landi tengist ESB-aðildarumsókn Íslands og viðleitni til að spilla fyrir henni. Engir stjórnmálamenn hafa lagt sig meira fram um að búa í haginn fyrir Huang Nubo en Samfylkingarfólk sem stefnir jafnframt að aðild Íslands að ESB. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hreykir sér af þingsályktun um norðurslóðastefnu Íslands. Hann er einnig helsti talsmaður ESB-aðildar. Þeir sem segja að umræður um Nýja norðrið sé „blanda af hugarleikfimi og pólitískri áróðurstækni“ gegn ESB verða að rökstyðja skoðun sína.

Miðvikudagur 22. 08. 12 - 22.8.2012 21:10

Í dag ræddi ég við Jóhann Sigurjónsson, forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um makrílstofninn og sókn hans á Íslandsmið og einnig um þróun þorskstofnsins og ýsustofnsins. Þátturinn verður næst sýndur klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til og með klukkan 18.00 á morgun.

Í Morgunblaðinu í dag birtist forsíðufrétt um sex konur frá Nígeríu sem hefðu leitað hælis hér á skömmum tíma, vanfærar eða með börn. Þótt hvergi sé vikið að því í fréttinni má álykta af henni að um skipulagða sókn til Íslands sé að ræða með það að markmiði að komast hér í skjólið sem innanríkisráðherra hefur boðað fyrir hælisleitendur. Ef til vill verður upplýst við meðferð hælisumsóknanna hvort sami aðili standi að baki komu kvennanna hingað til lands.

Á þessu sviði er um skipulagða,  arðbæra starfsemi að ræða. Óhjákvæmilegt er að draga athygli að þeirri hlið í umræðum um málefni hælisleitenda til að almenningur sjái alla myndina.

Þriðjudagur 21. 08. 12 - 21.8.2012 18:45

Furðulegasta uppákoman í samskiptum forseta Íslands og handhafa forsetavalds til þessa er fjarvera Ólafs Ragnars frá ríkisráðsfundi 1. febrúar 2004 þegar minnst var 100 ára afmælis heimastjórnar á Íslandi. Ólafur Ragnar var á skíðum í Bandaríkjunum af því að honum þótti sér ekki gert nógu hátt undir höfði á afmælishátíðinni í Þjóðmenningarhúsinu.

Vorið 2004 óttuðust vinir Baugsmanna og miðla þeirra að alþingi samþykkti fjölmiðlalögin á meðan Ólafur Ragnar dveldist erlendis og handhafarnir mundu rita undir þau. Birtist neyðarákall til hans um að koma heim á forsíðu DV. Ólafur Ragnar hlýddi kallinu og lét undir höfuð leggjast að sitja brúðkaup Friðriks, ríkisarfa Danmerkur. Hann neitaði að rita undir lögin og sagðist með því vilja brúa gjá milli þings og þjóðar.

Í þessu ljósi koma á óvart fréttir um að Ólafur Ragnar telji handhafa forsetavalds ekki gera annað en kveðja sig í Leifsstöð. Staðreynd er, að þeir hafa einfaldlega forsetavald á meðan hann dvelst erlendis. Varla telur hann það einskis virði?

Hér var varað við því að hatrömm barátta um forsetaembættið eftir að Ólafur Ragnar ákvað að bjóða sig fram í fimmta sinn kynni að skaða embættið og draga úr virðingu þess. Ófréttnæm umræða fréttastofu ríkisútvarpsins um forsetaembættið og handhafa forsetavalds er angi af þessari baráttu.  Hún er engum til sóma og dregur úr virðingu forsetaembættisins.

Mánudagur 20. 08. 12 - 20.8.2012 23:05


Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um þrjú mál þar sem ég tel að Ögmundur Jónasson sé á röngu róli auk þess sem ég fjalla um grein Skúla Helgasonar sem birtist á dv.is.

Í kvöld má lesa á ruv.is að Steingrímur J. Sigfússon hafi skrifað pistil á vefsíðu breska blaðsins The Financial Times  að íslenska leiðin vegna hruns fjármálakerfisins hafi verið erfið en hún geti þó verið góður leiðarvísir fyrir aðrar þjóðir sem leita nú lausna við efnahagskreppunni.

Á ruv.is segir:

„Þetta kemur fram í pistli sem Steingrímur J. Sigfússon, skrifar á vef fjármálatímaritsins (svo!) Financial Times. Þar hvetur hann þjóðarleiðtoga til að kynna sér hvernig íslenskur efnahagur hefur náð sér á strik eftir algjört efnahagshrun. Steingrímur segir að neyðarlögin, sem voru lögð fram á sínum tíma af ríkisstjórn Geirs H. Haarde, hafi leikið lykilhlutverk í uppgangi Íslands.“

Skyldi Steingrímur J. geta þess í pistlinum að hann sat hjá við atkvæðagreiðslu um neyðarlögin á þingi mánudagskvöldið 6. október 2008? Frá því er skýrir fréttastofa ríkisútvarpsins ekki.

Þá er spurning hvort Steingrímur J. ráðleggi annarra þjóða mönnum að draga þá ráðherra fyrir dóm sem hafa ekki aðeins staðið varnarlausir gagnvart fjármálahruni heldur einnig ráðalausir eftir að það verður.

Steingrímur J. hefur dundað sér við að skrifa pistil fyrir vefsíðu The Financial Times á meðan hann var í fríi í Frakklandi og vildi ekki svara fyrirspurnum íslenskra fjölmiðla um ESB-uppnámið í eigin flokki og milli stjórnarflokkanna.

 

Sunnudagur 19. 08. 12 - 19.8.2012 19:45

Framhaldsskólarnir hefjast í vikunni af því tilefni ræddi ég við Atla Harðarson, skólameistara Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi (FVA) í þætti mínum á ÍNN miðvikudaginn 15. ágúst og nú má sjá þáttinn hér.

Að Russell Crowe og Patti Smith hafi tekið lagið saman á tveimur stöðum, X-inu 977og KEX hostel, í Reykjavík á menningarnótt verður örugglega fært í annála víðar en hér á landi. Patti Smith (f. 1946) er meðal goðsagna í rokkheiminum og kölluð guðmóðir punksins með því að fella saman rokk og ljóðlist. Á Wikipediu segir að þekktasta lag hennar sé Because the Night sem hún samdi með Bruce Springsteen árið 1978. Hún hefur verið heiðruð vegna framlags síns til tónlistar en einnig fyrir ritstörf sín. Hún fetar í fótspor Bobs Dylans með ævisögunni Just Kids og fékki verðlaun bandarískra bóksala, National Book Award, árið 2010.

Þau Patti Smith og Russell Crowe sungu einmitt saman lagið fræga Because the Night og má sjá þau hér á X-inu 977.

Það er annar blær yfir Russell Crowe hér á landi en Tom Cruise. Umstangið í kringum Cruise er í hróplegri andstöðu við allt hjá Crowe  sem fer ferða sinna án þess að vera umkringdur öryggisvörðum. Hann hefur hjólað hér um Rangárvellina en Cruise lét þyrlu flytja sig og hafði sérstakt fjórhjól með í för þegar hann fór inn að Emstrum.

Laugardagur 18. 08. 12 - 18.8.2012 23:05

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir frá samskiptum sínum við forseta Íslands á meðan hann gegndi forsætisráðherraembættinu í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag. Davíð segir:

„Stundum hefur verið um það rætt að finna þyrfti annað fyrirkomulag fyrir staðgengil eða staðgengla forseta í forföllum hans en nú er. Auðvitað er ekkert að því að skoða slíkt. En þó er það svo að aldrei hafa komið fram neinir annmarkar, svo vitað sé, á núverandi skipan og fyrst svo er, því þá að hringla með það? Nóg er nú hringlið. Svarið, sem stundum er gefið, um að menn geri þetta einhvern veginn öðru vísi í útlöndum, er venjulegt svar á útsöluprís.“

Þetta er kjarni málsins. Þremur vikum eftir fimmtu innsetningu Ólafs Ragnars lekur forsætisráðuneytið til fréttastofu ríkisútvarpsins að á síðasta ári hafi Jóhanna Sigurðardóttir viljað taka upp nýja fylgdarsiði gagnvart forseta Íslands en ekki komist upp með það vegna andstöðu Ólafs Ragnars.

Hér er ekki um neitt fréttaefni að ræða. Samt er málið dag eftir dag í fréttatímum ríkisútvarpsins. Allt er það dæmigert fyrir misnotkun Samfylkingarinnar á tengslum við fréttamenn sem ganga í vatnið af því að þeir vilja gera á hlut Ólafs Ragnars.

Málið fer í möppuna sem geymir axarsköft Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra. Fréttastofan hefur einnig sett niður vegna þjónkunar hennar við þá sem hafa haldið þessu máli að henni.

Föstudagur 17. 08. 12 - 17.8.2012 22:10

Hér var í gær vikið að deilu embættis forseta Íslands og forsætisráðuneytisins um fylgd með forseta Íslands í Leifsstöð þar sem fréttastofa ríkisútvarpsins hefur gegnt lykilhlutverki. Hún gerði það enn í kvöld þegar hún tók að sér að túlka fréttatilkynningu frá forsetaskrifstofunni þar sem skýrt er frá því að málið snúist ekki um hvort forseta sé fylgt á flugvöll eða ekki, heldur um það hvenær og hvernig forsetavaldið færist frá forseta til handhafanna.

Stjórnskipun byggist ekki aðeins á formlegum reglum heldur líka á hefðum sem löng venja hefur helgað, segir forsetaskrifstofan.. Allt frá stofnun lýðveldisins hafi þessi flutningur á forsetavaldinu verið í formi handabands við brottför forseta þar sem ekki hafi fundist annað form sem tryggði jafn vel að enginn vafi væri um stað og stund slíkra breytinga á forsetavaldinu. Hvorki forseti né handhafar geti sett ábyrgðina á aðra, stjórnarskrá lýðveldisins geri ekki ráð fyrir að embættismenn deili ábyrgð sem sé, samkvæmt stjórnarskránni, forseta og handhafanna einna. Því verði þessu fyrirkomulagi ekki breytt nema  stjórnskránni verði breytt eða fram komi haldbærar tillögur um hvernig sé hægt að haga þessum þætti stjórnskipunarinnar með öruggum hætti á annan veg.

Forsætisráðuneytið bar fyrir sig að ekki væri unnt að skrá utanferðir forseta sem skyldi nema reglum um fylgd væri breytt. Nú er ekki lengur minnst á þetta atriði af fréttastofu ríkisútvarpsins heldur var fullyrt í kvöld, án þess að geta heimilda, að tilkynning forsetaskrifstofunnar væri í raun marklaus þar sem forseti færi oft úr landi án þess að honum sé fylgt.

Þetta mál hefur breyst í ágreining milli fréttastofu ríkisútvarpsins og forsetaskrifstofunnar, Spurning er hvort fréttastofan hafi ákveðið að taka Ólaf Ragnar í bakaríið vegna þess hvernig hann talaði um hana í upphafi forsetakosningabaráttunnar. Eins og kunnugt er þagði fréttastofan þunnu hljóði um hina þungu gagnrýni forseta á hana. Í Efstaleitinu finnst mönnum miklu fréttnæmara hvernig forseti er kvaddur við utanferðir en þegar hann gagnrýnir fréttastofuna sjálfa.

Kenning forsetaembættisins um flutning valds með handabandi við brottför forseta úr landi er út í hött. Um er að ræða virðingarvott við embætti forseta Íslands í ætt við virðinguna fyrir íslenska fánanum, þjóðsöngnum eða öðrum táknum lýðveldisins.

Fimmtudagur 16. 08. 12 - 16.8.2012 21:50

Það er einkennilegt að fréttastofa ríkisútvarpsins skuli birta eins og sjálfsagða staðreynd fullyrðingar forsætisráðuneytisins um að auðveldara yrði að skrásetja utanferðir forseta Íslands ef handhafar forsetavalds hættu að fylgja honum í Leifsstöð. Hvaða rök eru fyrir þessu? Nákvæmlega engin.

Lögregla fylgir forseta Íslands jafnan í Leifsstöð og þar tekur fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum á móti honum og fylgir honum út að flugvél. Þá er örugglega búið þannig um hnúta að viðhafnarstofa flugstöðvarinnar er opnuð fyrir forsetann og þar bornar fram veitingar. Að allt þetta yrði betur skráð ef handhafarnir hættu að kveðja forsetann eða taka á móti honum í flugstöðinni er fráleitt. Þá eru einnig skráðar launagreiðslur til handhafanna á meðan forsetinn dvelst erlendis auk þess sem sagt er frá ferðum hans í Stjórnartíðindum.

Líklega er ekki fylgst betur með utanferðum nokkurs Íslendings en forsetans. Nú segist forsætisráðuneytið hafa fundið upp betra skráningarkerfi með því að minnka umstangið og fréttastofa ríkisútvarpsins gleypir það athugasemdalaust.

Allt snýst þetta um eitt: að stríða Ólafi Ragnari Grímssyni eða lítillækka hann af því að Jóhanna Sigurðardóttir studdi hann ekki í forsetakosningunum.  Forsætisráðuneytið hefur aldrei lagst lægra í samskiptum við embætti forseta Íslands.

Miðvikudagur 15. 08. 12 - 15.8.2012 17:00

Viðtal mitt á ÍNN við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, miðvikudaginn 8. ágúst er komið á netið og má skoða það hér.

Í dag ræddi ég við Atla Harðarson, skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, og má sjá þáttinn klukkan 20.00 í kvöld á ÍNN og síðan á tveggja stunda fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Fyrir fáeinum dögum ræddi ég skrif Reynis Traustasonar, ritstjóra DV, um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og sagði þau minna mig á þjónustu Reynis við Baugsmenn á Fréttablaðinu í mars 2003 þegar vegið var að Davíð Oddssyni. Hvatti ég til þess að Bjarni losaði sig við hælbítana.

Samfylkingarvefsíðan Eyjan telur að með þessu hafi ég verið að vara við Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Er rifað upp í ritstjórnardálki síðunnar, Orðinu á götunni, þriðjudaginn 14. ágúst að Guðlaugur Þór fékk 25 milljónir króna haustið 2006 í styrki frá Baugi og fleirum til framboðs gegn mér – háði hann þá dýrustu prófkjörsbaráttu allra tíma.

Í dag birtist annar ritstjórnardálkur um sama efni á Eyjunni og er hann skrifaður fyrir þrýsting frá stuðningsmönnum Guðlaugs Þórs sem hefur þótt ritstjóri Eyjunnar gert á hlut þingmannsins með því að segja hann hælbítinn.  Ritstjórinn segir:

„Orðið á götunni er að Guðlaugur Þór og stuðningsmenn hans láti sér slíkt [að Eyjan hafi kallað hann hælbít] í léttu rúmi liggja. Í fyrsta lagi búi Guðlaugur Þór að ótrúlega öflugu stuðningsneti í borginni, sem sé ómetanlegt afl í prófkjörum og í annan stað sé þingmaðurinn með þeim duglegri sem starfa á Alþingi Íslendinga og án efa meðal öflugustu þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það verði því þrautin þyngri fyrir Björn og Styrmi að fella Guðlaug Þór úr forystusveit íhaldsins í borginni, en þangað vilja þeir einmitt koma Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að í prófkjöri flokksins á vetri komanda…“

Þá vitum við það, ég veit hins vegar ekki til þess að Styrmir Gunnarsson eigi hinn minnsta hlut að skrifum mínum um Reyni Traustason hvað þá heldur að ég hafi hafi sett samnefnara milli Reynis og Guðlaugs Þór og síst af öllu að þetta snerti eitthvað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.  Skrif ritstjóra Eyjunnar sýna hins vegar mikla spennu meðal þeirra sem hvetja hann til dáða í þessu máli – jafnvel óttafulla spennu.

 

Þriðjudagur 14. 08. 12 - 14.8.2012 22:50

 

Að baki ákvörðunum um að gera vændiskaup refisverð býr ekki heilbrigð skynsemi heldur pólitísk rétthugsun. Hún varð að veruleika hjá sósíal-demókrötum í Svíþjóð. Skömmu eftir að ég varð dómsmálaráðherra kom fulltrúi þeirra hingað til lands og reyndi að selja mér hugmyndina. Ég keypti hana ekki og hafnaði henni þann tíma sem ég sat sem ráðherra. Sætti ég þungri gagnrýni á alþingi vegna þess og voru brýn mál á sviði refsiréttar tekin í gíslingu í þinginu til að knýja fram stefnubreytingu af minni hálfu í þessu máli.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði ekki setið lengi þegar sænska refisreglan var leidd í lög hér á landi. Við greiddum þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins atkvæði gegn lögunum, Jón Magnússon og Kjartan Ólafsson auk mín. Aðrir þingmenn flokksins greiddu ekki atkvæði. Nú sýna rannsóknir í Noregi sem vitað var að vændi færist í skúmaskot vegna reglunnar, melludólgar blómstra og mansal. Afbrotafræðingur, kennari við Háskóla Íslands, vill ekkert segja um áhrif refsivæðingarinnar hér, engin fræðileg rannsókn hafi verið gerð á vændi. Fulltrúi Stígamóta veit hins vegar allt um málið og virðist hafa tekið við af sænskum sósíal-demókrötum að boða fagnaðarerindi refisgleðinnar víða um lönd. Hvað ætli hún hafi fyrir sér um reynsluna frá Íslandi? Helst að lögregla láti ekki nóg að sér kveða. Í Noregi eru rannsóknir reistar á könnun meðal vændiskvennanna sjálfra.

 

 

Mánudagur 13. 08. 12 - 13.8.2012 20:00

Þegar dró að þingkosningum vorið 2003 gekk Reynir Traustason, þáverandi blaðamaður á Fréttablaðinu, erinda Baugsmanna, leynilegra eigenda blaðsins, og  birti glefsur úr fundargerðum stjórnar Baugs frá því snemma árs 2002. Þær áttu að sanna að Davíð Oddsson hefði sem forsætisráðherra lagt á ráðin um að brjóta upp Baugsveldið. Var þetta liður í kosningabaráttu Samfylkingarinnar en skömmu fyrir birtingu frétta Reynis í þágu Baugsmanna og Samfylkingarinnar hafði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, flutt ræðu í Borgarnesi um óvild Davíðs í garð Baugs.

Davíð brást við þessum ásökunum af mikilli hörku og sagði frá fundi sínum með Hreini Loftssyni í London í janúar 2002. Davíð afhjúpaði tilganginn með „fréttamennsku“ Reynis Traustasonar. Samfylkingunni tókst ekki að fella ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Líkur á að boðað verði til kosninga fyrr en síðar aukast vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar um ESB-málin.

Reynir Traustason stundar pólitíska blaðamennsku gegn núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni. Í þessu efni gengur Reynir erinda Samfylkingarinnar og VG í DV. Óhróðri Reynis er ætlað að skaða Bjarna persónulega á sama hátt og vegið var að Davíð Oddssyni persónulega í mars 2003. Nú eins og þá er óhjákvæmilegt fyrir formann Sjálfstæðisflokksins að losa sig við hælbítana.

Sunnudagur 12. 08. 12 - 12.8.2012 22:41

Í The Sunday Telegraph í London birtist grein í dag um Ólympíuleikana og kemst höfundur að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið mestu „greatest“ leikar sögunnar fyrir utan að vera „greatest“ leikar Breta sjálfra vegna þess hve mörg þeir gull keppendur þeirra hlutu og að þeir skyldu verða með þriðju flestu gullverðlaun á leikunum, 29, á eftir Bandaríkjunum (46), Kína (39). Bandaríkjamenn fengu flest verðlaun í London: 104, Kínverjar 87, Rússar 82 (24 gull) og Bretar 65. Þjóðverjar voru í fimmta sæti með 11 gull og 44 verðlaun alls.

Hinn virti dálkahöfundur Charles Moore sem hafði allt á hornum sér vegna leikanna áður en þeir hófust leggur undir lok þeirra út af þeim á þann veg að þeir hafi stóreflt þjóðarstolt Breta og hljóti að sanna þeim að hver sé sinnar gæfu smiður og þeir njóti sín best á eigin forsendum en ekki í hafti yfirþjóðlegs valds.

Bretum er óskað til hamingju með hve vel hefur til tekist og að sigrast hafi verið á öllum hrakspám um að leikarnir færu á einn eða annað hátt í handaskolum. Athafnirnar í upphafi og lok leikanna voru einstæðar að fjölbreytileika og allri útfærslu.

Íslensku fulltrúarnir stóðu sig með ágætum, þau eru jákvæðar og góðar fyrirmyndir eins og sjá mátti í sjónvarpinu í kvöld. Loks tek ég undir með Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem sagði í Morgunblaðinu laugardaginn 11. ágúst:

„Það er mikil og góð skemmtun að fylgjast með Sigurbirni Árna Arngrímssyni lýsa keppni í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum.

Sigurbjörn er maður að mínu skapi því hann er óhræddur við að vera hann sjálfur. Ef hann gerir mistök, sem er auðvitað óumflýjanlegt í vandasömum lýsingum, þá viðurkennir hann það fúslega og heldur bara áfram.

Sigurbjörn Árni er mikill karakter og hann er skemmtilegur og ekki síst þess vegna kemst hann upp með að gera mistök í lýsingum sínum.

Sigurbjörn Árni er tilfinningamaður og í hita leiksins á hann til að hrópa og kalla svo glymur í sjónvarpstækinu.

Af íslensku þátttakendunum á Ólympíuleikunum finnst mér Sigurbjörn Árni hafa staðið sig best.“

 

Laugardagur 11. 08. 12 - 11.8.2012 23:05

Í fréttum ríkisútvarpsins í kvöld var sagt frá því að tveir ráðherrar VG til viðbótar Ögmundi Jónassyni, þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, vildu að ESB-aðildarferlið yrði tekið upp að nýju á vettvangi stjórnarflokkanna. Margt hefði farið á annan veg innan ESB og í viðræðunum en talið var líklegt sumarið 2009.

Eins og fram kemur í frétt Evrópuvaktarinnar um þessi ummæli ráðherranna leiðir þetta til einangrunar Steingríms J. í fjögurra manna ráðherraliði VG. Ráðherrar VG finna að fylgið er að skríða frá þeim vegna ESB-afstöðunnar þar sem VG-mennirnir Steingrímur J. og Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, ráða ferðinni með Össuri Skarphéðinssyni.

Flokksráðsfundur VG verður haldinn eftir tvær vikur. Til þessa hafa Steingrímur J. og Árni Þór fengið einhverja loðmullu um ESB samþykkta þar til að ekki skerist í odda við Samfylkinguna. Gerist það enn á ný eða tekur flokkurinn á sig rögg í ESB-málinu?

Fyrir þá sem fylgst hafa með gangi mála innan ESB og hvert stefnir í samskiptum aðildarríkjanna er undrunarefni að ráðherrar á Íslandi skuli ekki fyrr hafa hreyft efasemdum um réttmæti þess að ríkisstjórn Íslands léti eins og ekkert hefði í skorist.

Ögmundur Jónasson er ekki marktækur þegar að slíkum málum kemur á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Hann talar digurbarkalega út á við en lætur aldrei í odda skerast inn á við vegna þess ástfósturs sem hann tók við ráðherrastólinn eftir að hafa einu sinni hrakist úr honum vegna skoðana sinna.

Föstudagur 10. 08. 12 - 10.8.2012 18:20

Þegar ekið er í gegnum Selfoss er þar lítið blátt skilti við veginn frá Nettó en verslunin var nýlega opnuð þar sem Bónus var áður til húsa. Á skiltinu stendur orðið „Open“ og síðan tölur sem sína tímasetningu. Hvers vegna stendur ekki einfaldlega „Opið“? Halda menn hjá Nettó að útlendingar skilji það orð ekki þegar verslun á í hlut og birtar eru tölur sem sýna klukkustundir? Þótt margir ferðamenn á Íslandi komi frá enskumælandi löndum eru það síður en svo allir, íslenska er því bæði eðlilegra og hlutlausara mál þegar kynntur er afgreiðslutími verslunar með einu sagnorði.

Á verslunarhurðum í Færeyjum standa orðin: „Opið er:“ og síðan klukkustundir. Þetta fellur mun betur að íslenskri tungu en hið leiðigjarna orðskrípi: „opnunartími“. Ef menn vilja endilega nota nafnorð, hvers vegna ekki „afgreiðslutími“? Hátíð er sett og þess vegna er eðlilegra að tala um setningarathöfn hátíðar en „opnunarhátíð“, hið sama í við um íþróttaviðburði, setningarathöfn Ólympíuleikanna á betur við en „opnunarhátíð“. Ólympíuleikunum lýkur með lokahátíð en ekki „lokunarhátíð“.

Í fréttabréfi frá Júpiter rekstrarfélagi ehf. sem kom út 9. ágúst segir meðal annars:

„Ef ekki væri fyrir gjaldeyrishöft væri heildarafkoma ríkissjóðs að sama skapi umtalsvert verri en raunin er, en tilvist haftanna hefur haldið fjármagnskostnaði ríkisins talsvert lægri en annars hefði orðið. Óhætt er að halda þessu fram þrátt fyrir orð æðsta stjórnanda Seðlabanka Íslands um að íslenski ríkisskuldabréfamarkaðurinn hafi upp á heimsins bestu ávöxtun að bjóða.“

Gjaldeyrishöftin þrengja fjárfestingakosti íslenskra lífeyrissjóða og kalla hættu yfir eigendur sjóðanna, alla landsmenn. Gjaldeyrishöftin fæla erlenda fjárfesta frá að koma til landsins. Þeir óttast að geta ekki náð eignum úr landi flytji þeir þær hingað. Gjaldeyrishöftin áttu að vera til skamms tíma, nú spá sumir að þau verði að minnsta kosti til 2015. Vinstri-grænir vilja halda í höftin til að geta handstýrt atvinnulífinu og sett einkaframtaki hömlur. Samfylkingin vill halda í höftin til að geta notað þau í ESB-áróðri sínum. Gjaldeyrishöftin leiða til blekkinga við uppgjör á ríkissjóði. Þau nýtast Seðlabanka Íslands til að stunda blekkingarstarf um íslenska ríkisskuldabréfamarkaðinn.

Krónan hefur styrkst. Peningar streyma út af evru-svæðinu af ótta um örlög hennar. Hvers vegna skyldu eigendur íslenskra króna keppast við að flytja þær úr landi ef höftin yrðu afnumin? Málið snýst um pólitískt hugrekki í krafti fastmótaðrar stefnu. Höftin verða því við lýði á meðan Jóhanna og Steingrímur J. sitja við stjórnvölinn.

Fimmtudagur 09. 08. 12 - 9.8.2012 21:10

Nú er unnt að sjá viðtal mitt við Halldór Árnason á ÍNN 1. ágúst á netinu og er það hér. Við ræðum um opinber fjármál leiðir til að ná þeim undir skynsamlega stjórn. Skera verður niður fjármagnskostnað sem er nú meiri á ári en framlög til menntamála og minnkar ekki miðað við fjárlagastefnu Jóhönnu Sigurðardóttur. Þau ætla enn að auka opinber útgjöld fyrir lánsfé. Þá hefur ríkisútvarpið kynnt áform um margföldun virðisaukaskatts á gistingu með þeim rökum að hann snerti ekki Íslendinga af því að útlendingar greiði hann! Þaulvanur fréttamaður las þennan boðskap yfir hlustendum í hádegi miðvikudags 8. ágúst.

Afstaða þeirra sem hlakka yfir halla á rekstri Hörpu og láta eins og að með honum styrkist málstaður þeirra gegn mannvirkinu minnir á andstæðinga Ólympíuleikanna í Bretlandi. Ef hin þröngsýna afstaða gegn framlagi hins opinbera til mannvirkjagerðar réði væru engir Ólympíuleikar. Breskir gagnrýnendur leikanna í London fara sér hægar en ella um þessar mundir vegna hins glæsilega árangurs bresku íþróttamannanna. Nöldrið yfir leikunum mun þó áfram setja svip á málflutning þeirra sem sætta sig ekki við þá. Þeir eiga örugglega eftir að fá einhver neikvæð tíðindi sem gleðja þá og þeir munu nýta þau til að árétta skoðun sína.

Nýjasta hefti hins alþjóðlega tónlistartímarits Gramophone fylgir myndskreytt frásögn á netinu um Hörpu - The magnificent Harpa Hall, Reykjavík - og má sjá hana hér. Í fréttum hefur verið fjallað um nauðsyn þess að fjölga ferðamönnum hér á landi sem skilji meira fé eftir í landinu og til þess að ná til þeirra þurfi að festa fé í mannvirkjum sem hafi aðdráttarafl fyrir þetta fólk. Harpan er slíkt mannvirki. Finna verður leið til að reka hana á hagkvæmari hátt en gert hefur verið á vegum átta stjórna á fyrsta starfsárinu.

Miðvikudagur 08. 08. 12 - 8.8.2012 23:50

Í dag ræddi ég við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í þætti mínum á ÍNN. Hann gerði grein fyrir þróun löggæslumála við erfiðar fjárhagslegar aðstæður. Þáttinn má sjá á tveggja tíma fresti fram til klukkan 18.00 fimmtudaginn 8. ágúst.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, ritstjóri vefsíðunnar Smugunnar, skrifar þar í dag:

„Smugan er eini fjölmiðillinn á Íslandi sem hefur kannast við að vera vinstra vefrit og að hluta í eigu stjórnmálaflokks. Vegna þessa hefur hún ítrekað verið kölluð málgagn VG af öðrum miðlum, meðal annars Morgunblaðinu, en þótt það blað sé í eigu stórútgerðarmanna og tali máli ákveðinnar klíku innan Sjálfstæðisflokksins sem stendur vörð um stóreignafólk, er það virðulegra en svo að það kallist málgagn. Útrásarvíkingar hafa líka átt og rekið blöð, en jafnvel á tímum þar sem þeir eru helsta fréttaefnið eru fjölmiðlar þeirra ekki grunaðir um að vera málgagn.“

Mér þykir sérkennilegt að lesa þetta eftir áralanga gagnrýni á mig og aðra sem kölluðum fjölmiðla Baugsmanna einu nafni Baugsmiðla og sættum ámæli ef ekki svívirðingum fyrir. Margir þeirra sem á miðlunum störfuðu töldu vegið að heiðri sínum og jafnvel mannorði þegar sagt var að þeir ynnu á Baugsmiðlum. Viðhorfið breyttist fljótt eftir að þessu fólki var sagt upp störfum og síðan enn meira eftir hrunið. Hallgrímur Helgason rithöfundur sem skrifaði í þágu Baugsmanna allan útrásartímann viðurkenndi meira að segja eftir hrun að sér hefði skjátlast, auðvitað hefðu verið til Baugsmiðlar.

Þriðjudagur 07. 08. 12 - 7.8.2012 18:45

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur ritar grein í Morgunblaðið í dag og segir meðal annars:

„Stjórnvöld hafa hafnað endurnýjun stjórnsýslunnar með notkun upplýsingatækni mest alla þessa öld, en Ísland kemur mjög illa út úr alþjóðlegum mælingum á umbreytingu þjónustu hins opinbera með notkun netsins, er jafnvel lakast í Evrópu. Svarið við ofvöxnu ríkiskerfi felst ekki í beinum niðurskurði þess, þótt það eigi stundum við, enda hefur velferðarkerfið sjaldan sýnt mikilvægi sitt eins greinilega og í efnahagsörðugleikunum.

Hins vegar mættu íslensk stjórnmálaöfl sameinast um að endurbæta vinnubrögð stjórnsýslunnar með notkun upplýsinga- og samskiptatækni og auka með því skilvirkni í opinbera geiranum, minnka umsvif hans og bæta þjónustu. Og setja upp samskiptanet við einkamarkaðinn og reyna að koma á virkum samkeppnismarkaði á sviðum opinberrar þjónustu. Slíkar aðgerðir ynnu vel með efnahagsbatanum sem nú er að hefjast og gætu flutt störf frá ríkinu út á vinnumarkaðinn eftir því sem hann tekur við fleirum.

Fá verkefni eru líklegri til þess að auka samkeppnishæfni Íslands.“

Fyrir 20 árum höfðu margir miklar áhyggjur af því að íslensk stjórnvöld sýndu upplýsingatækni og þróun hennar ekki nægilegan áhuga. Skipulegt átak var gert á þessu sviði undir forystu ríkisstjórnarinnar um miðjan tíunda áratuginn og vissulega hefur margt áunnist.  Á mörgum sviðum hefur starfsumhverfi tekið stakkaskiptum.

Viðvörunarorð Hauks í grein hans eiga við rök að styðjast þegar litið er til hinna alþjóðlegu mælinga. Sem ráðherra menntamála annars vegar og dómsmála hins vegar leitaðist ég við að ýta undir notkun upplýsingatækni og víða var rösklega tekið til hendi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að almenn stefnumótun á vegum ríkisins um nýtingu upplýsingatækni hafi staðnað á einhverjum stað innan stjórnkerfisins vegna skorts á pólitískum áhuga og smákóngaræðis þar sem hver vill gæta þess reits sem hann hefur helgað sér.

Sérfróðir menn verða að skýra betur á opinberum vettvangi hvaða svið það eru í opinberum rekstri sem draga Ísland niður í hinum alþjóðlega samanburði. Þá ber stjórnmálamönnum að taka málið upp á sína arma og fela einkaaðilum að hefja nýja sókn sambærilega við þá sem réð undir lok síðustu aldar og í upphafi hinnar nýju.

 

Mánudagur 06. 08. 12 - 6.8.2012 22:05

Ég er undrandi á því að ekki skuli skýrt frá því í prentaðri dagskrá sjónvarpsins hverjir lýsa beinni útsendingu frá frjálsum íþróttum á Ólympíuleikunum í London. Mér finnst þeir standa sig með miklum ágætum; ekki síst meðleikari fréttamannsins. Hann hefur slegið Ólympíumet að mínum dómi. Ég fór inn á ruv.is og reyndi að finna nöfn þeirra félaga en án árangurs. Þeir eru ekki aðeins fróðir heldur miðlar sérfræðingurinn fróðleik sínum á skýran hátt og á góðu máli. Þá er kostur að þeir skiptast hvorki á fimm-aura-bröndurum né flissa; svo að ég tali nú ekki um blótsyrði eins og heyra mátti ítrekað hjá álitsgjafa um handboltaleikinn við Breta í dag.

Sunnudagur 05. 08 12 - 5.8.2012 23:55

Afréttareigendur á Almenningum, bændur undir Eyjafjöllum, nágrannar Fljótshlíðinga handan Markarfljóts hafa með leyfi sveitarstjórnar Rangárþings eystra ákveðið að nýta Almenninga til beitar fyrir takmarkaðan fjölda fjár miðað við beitarþol. Þá bregður svo við að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins snúast gegn rétti bænda og látið er í veðri vaka að ráðstöfun þeirra ógni sjálfri Þórsmörk.

Stjórn félags afréttareigenda á Almenningum sendi frá sér yfirlýsingu í dag og skýrði málstað sinn. Þar segir að bændur undir Eyjafjöllum sem rekið hefðu fé inn á Almenninga hefðu árið 1989 tekið ákvörðun um að friða það landsvæði fyrir beit og hafið þar uppgræðslu á eigin kostnað og með styrk Landgræðslu ríkisins og fleiri aðila,. Þetta hafi verið gert í samræmi við samning við Landgræðslu ríkisins. Bændurnir sögðu samningnum upp árið 2000 en héldu áfram landgræðslu án þess að beita á Almenningum. Hæstiréttur felldi árið 2007 dóm um eignarhald bænda á afréttinni því fylgir réttur til upprekstrar á fé.

Árið 2009 tilkynntu bændur til Skógræktar ríkisins, héraðsnefndar vegna gróðurverndarnefndar, sveitarstjórnar og landgræðslunnar að þeir hygðust hefja upprekstur fjár inn á Almenninga.

Að beiðni frestuðu bændur upprekstri árið 2010 vegna goss í Eyjafjallajökli. Árið 2011 frestuðu bændur enn upprekstri skv. beiðni og féllust á að taka þátt í úttekt gróðurs með tilliti til beitarþols.

Skógrækt ríkisins fer með málefni Þórsmerkur skv. samningi sem bændur í Fljótshlíð gerðu við skógræktina 1931. Í þeim samningi var lögð sú skylda á Skógrækt ríkisins að girða af Þórsmörkina til varnar ágangi búfjár.  Skógræktin ákvað einhliða árið 1990 að taka niður girðinguna og skildi hún „við upprúllaðar girðingar og girðingarleifar í hirðuleysi inn í Þórsmörk og er svo enn eftir rúm 20 ár,“ segir í yfirlýsingu stjórnar afréttareigenda á Almenningum. Þar kemur einnig fram að gróður á Almenningum sé svipaður því sem er á afrétti Fljótshlíðinga. Ég hef farið um hann og veit að þar er gróður meiri en fé getur ógnað.

Laugardagur 04. 08. 12 - 4.8.2012 22:50

Árlegur flóamarkaður var hjá okkur í Fljótshlíðinni eftir hádegi í dag. Fjölmenni kom og skoðaði það sem í boði var og margir gerðu góð kaup. Hér eru nokkur þúsund manns allt um kring án þess að sagðar séu sérstakar fréttir af því. Það er rannsóknarefni hve fréttamat um verslunarmannahelgina er staðlað í ríkisútvarpinu. Líkist það helst morgunfréttum um helgar þegar sérstaka stórviðburði þarf til að ýta til hliðar frásögnum af slagsmálum og hávaða í 101 Reykjavík.

Að það skuli teljast fréttnæmt dag eftir dag, ár eftir ár að lesa úr dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir þeim sem kveikja til að hlusta á útvarpsfréttir snemma morguns um helgar er ekki reist á neinu fréttamati heldur á því sem er auðveldast fyrir þann sem semur fréttirnar.

Sigur íslenska landsliðsins yfir Frökkum í handbolta á Ólympíuleikunum í London í dag var glæsilegur og verðskuldaður. Það þarf einbeitni og úthald til að halda sínum hlut og gott betur gagnvart Frökkum við þessar aðstæður. Þeir eru þekktir af öðru en að sýna andstæðingum sínum minnstu miskunn. Unga fólkið sem fylgdist með leiknum hjá mér var ofurstolt af íslenska liðinu.

 

Föstudagur 03. 08. 12 - 3.8.2012 23:55

Fréttir frá Danmörku um fjölgun hælisleitenda þar eftir að ríkisstjórnin breytti um stefnu í málefnum þeirra koma heim og saman við það sem ég hef sagt hér á síðunni um áhrif stefnubreytingar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í málefnum hælisleitenda. Er með ólíkindum að álitsgjafi um íslensk stjórnmál sé svo forstokkaður í pólitískri rétthugsun að hann átti sig ekki á að um pólitískt átakamál er að ræða.

Samhliða því sem hælisleitendum fjölgar í Danmörku reyna fleiri þeirra að laumast úr landi með Norrænu hingað til lands eins og skýrt var frá í fréttum ríkisútvarpsins í dag. Þessu viðfangsefni verður ekki stungið undir stól hvorki á pólitískum vettvangi né annars staðar.

Í gær ræddi ég umferðina á Suðurlandi. Veðurblíðan í dag dregur ekki úr áhuga manna á ökuferðum um það. Ég taldi að þeir sem héldu umferð niðri gætu ekki síður verið hættulegir en hinir sem aka of  hratt. Glöggur lesandi síðunnar sendi mér þessa ábendingu:

„ Í 3. mgr. 36. gr. umferðarlaga segir:

„Ökumaður má eigi að óþörfu aka svo hægt eða hemla svo snögglega að tefji eðlilegan akstur annarra eða skapi hættu.

Refsiákvæði umferðarlaganna eiga við þessa grein eins og aðrar. Vandamálið fyrir lögregluþjóninn er að hér yrði að styðjast við mat á aðstæðum en ekki er í boði hlutlæg regla um hámarkshraða sem svo má bera saman við mældan hraða. Það er sennilega skýringin á því að sjaldan eða aldrei er sektað fyrir of hægan akstur. (Fyrir nú utan að menn vilja ekki hvetja fólk til að aka hraðar en það ræður við).

En strangt til tekið virðist mega sekta menn sem aka of hægt. Þetta er t.d. mikilvægt ákvæði ef menn tækju upp á því að halda umferð niðri með því að aka á 10 km hraða, t.d. sem einhvers konar „aðgerð“.“

 

Fimmtudagur 02. 08. 12 - 2.8.2012 23:30

Umferðin verður mikil á Suðurlandi um verslunarmannahelgina. UMFÍ-mót á Selfossi laðar að sér á anna tug þúsunda gesta. Hið sama má segja um þjóðhátíð í Eyjum og flestir ferðast þangað með Herjólfi um Landeyjahöfn.

Í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð efna hvítasunnumenn til móts, venjulega eru þar nokkur þúsund gestir. Þá er efnt til mannfagnaðar í Hellishólum í Fljótshlíð og í Múlakoti koma flugáhugamenn saman.

Í fréttum varar lögreglan á Selfossi við umferðarhnútum við hringtorgið hjá Hveragerði og við Ölfusárbrúna. Ekki þarf fjölmenni eins og verður á ferðinni um þessa helgi til að umferðin sé hæg í gegnum Selfoss.

Menn verða að sætta sig við bið og tafir vegna mikillar umferðar hér eins og í öðrum löndum. Við erum hins vegar svo óvön langri bið á vegum úti að lögregla hvetur fólk um að glata ekki góða skapinu í biðröðinni. Erlendur kunningi spurði mig einhvern tíma hvort ég gæti almennt treyst því að verða ekki fyrir töfum vegna mikillar umferðar á akstri mínum milli Fljótshlíðar og Reykjavíkur. Ég sagði svo vera gesti mínum til undrunar. Hann sagðist alltaf þurfa að gera ráð fyrir mismunandi löngum töfum á slíkum ferðum í heimalandi sínu.

Lögregla verður með gæslu á vegum úti og stöðvar þá sem aka of hratt. Þeir eru vissulega hættulegir öðrum og brjóta lög. Hinir eru ekki síður hættulegir í umferðinni sem aka of hægt, þeir mynda biðröð sem erfiðara er að kyngja en því að umferðarmannvirki valdi töfum vegna of mikils álags. Hægfara bílstjórar skapa spennu og auka hættu á slysum. Á leiðinni frá Reykjavík í Landeyjarhöfn þyrfti á fáeinum stöðum að vera 2+1 til að draga úr slíkri spennu og þá mætti lögregla stundum ræða við þá sem aka of hægt þótt ekki geti hún sektað þá.

 

Miðvikudagur 01. 08. 12 - 1.8.2012 21:20

Nú má sjá samtal mitt við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, á ÍNN á netinu með því að fara inn hér. Við Birgir ræddum um stjórnarskrármálið og deilurnar um það. Ólafur Ragnar Grímsson gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í innsetningarræðu sinni í dag fyrir hvernig hún hefur haldið á stjórnarskrármálinu í ágreiningi í stað þess að fylgja hefðinni um breiða samstöðu stjórnmálaflokkanna um stjórnarskrárbreytingar. Ég tek undir þessa gagnrýni Ólafs Ragnars og tel raunar að Jóhanna Sigurðardóttir hafi orðið sér mjög til skammar með málsmeðferðinni fyrir utan að ekki kemur til neinna stjórnarskrárbreytinga á þessu kjörtímabili haldi Jóhanna frekjulegri aðferðinni áfram.

Í dag ræði ég á ÍNN við Halldór Árnason, hagfræðing hjá Samtökum atvinnulífsins. Við ræðum einkum um fjárlögin og fjárlagagerðina en Halldór starfaði í mörg ár í fjármálaráðuneytinu og síðan sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Hann þekkir manna best til fjárlagagerðar og telur pott brotinn hjá ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. í þessu efni eins og öðrum.