4.8.2012 22:50

Laugardagur 04. 08. 12

Árlegur flóamarkaður var hjá okkur í Fljótshlíðinni eftir hádegi í dag. Fjölmenni kom og skoðaði það sem í boði var og margir gerðu góð kaup. Hér eru nokkur þúsund manns allt um kring án þess að sagðar séu sérstakar fréttir af því. Það er rannsóknarefni hve fréttamat um verslunarmannahelgina er staðlað í ríkisútvarpinu. Líkist það helst morgunfréttum um helgar þegar sérstaka stórviðburði þarf til að ýta til hliðar frásögnum af slagsmálum og hávaða í 101 Reykjavík.

Að það skuli teljast fréttnæmt dag eftir dag, ár eftir ár að lesa úr dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir þeim sem kveikja til að hlusta á útvarpsfréttir snemma morguns um helgar er ekki reist á neinu fréttamati heldur á því sem er auðveldast fyrir þann sem semur fréttirnar.

Sigur íslenska landsliðsins yfir Frökkum í handbolta á Ólympíuleikunum í London í dag var glæsilegur og verðskuldaður. Það þarf einbeitni og úthald til að halda sínum hlut og gott betur gagnvart Frökkum við þessar aðstæður. Þeir eru þekktir af öðru en að sýna andstæðingum sínum minnstu miskunn. Unga fólkið sem fylgdist með leiknum hjá mér var ofurstolt af íslenska liðinu.