Dagbók: júní 2001

Laugardagur 30.6.2001 - 30.6.2001 0:00

Fórum í Reykholt í Borgarfirði og kynntum okkur framkvæmdir við endurnýjun á gamla skólahúsinu þar, sem er að ljúka.

Föstudagur 29.6.2001 - 29.6.2001 0:00

Kl. 18.00 tókum við Rut þátt í athöfn til minningar og heiðurs þeim, sem hinn 29. júní 1951 unnur sigur í Reykjavík í knattspyrnulandsleik við Svía og í frjálsum íþróttum í Osló í landskeppni við Norðmenn og Dani. Flutti ég ræðu í hófi af þessu tilefni.

Fimmtudagur 28.6.2001 - 28.6.2001 0:00

Kl. 16.00 opnaði ég gagnagrunninn Ísmús við athöfn í Þjóðarbókhlöðuni en þar hafa Bjarki Sveinbjörnsson og félagar safnað miklum upplýsingum um íslenska músik fyrri tíma.

Miðvikudagur 27.6.2001 - 27.6.2001 0:00

Kl. 13.30 var efnt til ríkisráðsfundar að Bessastöðum til að ljúka formlegri staðfestingu á lögum vorþingsins. Fréttamenn gátu sér þess til, að eitthvað meira væri á seyði, en það reyndist ekki á rökum reist.

Laugardagur 23.6.2001 - 23.6.2001 0:00

Kl. 13.00 hófst brautskráning nemenda frá Háskóla Íslands í Laugardalshöll og var Bjarni Benedikt meðal þeirra sem luku BA-prófi í íslensku. Héldum við fjölmennt hóf að því tilefni síðdegis og fórum beint úr því í Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu, þar sem verið var að opna sýningu á verkum Erró.

Föstudagur 22.6.2001 - 22.6.2001 0:00

Fór kl. 16.00 í Háskóla íslands, þar sem sálfræðiskor fagnaði 30 ára afmæli.

Miðvikudagur 20.6.2001 - 20.6.2001 0:00

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman í Valhöll klukkan 15.00. Höfðu hina einkennilegustu umræður farið fram í tilefni af þessum fundi og andstæðingar flokksins meðal annars getið sér þess til, að hann væri haldinn til að Davíð Oddsson hæti boðað afsögn sína sem forsætisráðherra. Einnig hafði ég heyrt, að ég myndi segja af mér til að verða sendiherra Íslands í Washington. Er undarlegt, hvernig sögur af þessu tagi komast á kreik.

Þriðjudagur 19.6.2001 - 19.6.2001 0:00

Klukkan 7.30 var ég í morgunþætti Rásar 2 og ræddi meðal annars um tillögur um íþrótta- og ólympíumiðstöð á Laugarvatni. Klukkan 13.30 tilkynnti Rannís um úthlutun styrkja til umhverfis- og upplýsingatækniverkefna við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Í framhaldi af henni rituðum við Páll Skúlason háskólarektor undir samning um samstarf á sviði tungutækni. Um kvöldið fórum við í Fella- og Hólakirkju, þar sem opnuð var sýning á listilegum kirkjumunum og skreytingum.

Sunnudagur 17.6.2001 - 17.6.2001 0:00

Klukkan 9.00 vorum við Odda, hús Háskóla Íslands, þar sem afhjúpuð var höfuðmynd af dr. Björgu C. Þorláksson. Klukkan 10.30 vorum við á Austurvelli og hlýddum á ræðu forsætisráðherra og fjallkonuna flytja frumsamið ljóð Matthíasar Johannessens, síðan fórum við í messu. Klukkan 12.00 var 90 ára afmælis Háskóla Íslands minnst í sal alþingis og var ég þar meðal ræðumanna.

Laugardagur 16.6.2001 - 16.6.2001 0:00

Klukkan 14.00 opnaði ég sýninguna Skáldað í tré í Ljósafosstöðinni við Sogn.

Föstudagur 15.6.2001 - 15.6.2001 0:00

Flugum heim frá Osló um hádegið.

Fimmtudagur 14.6.2001 - 14.6.2001 0:00

Síðdegis ég sýningu íslenskra opnaði myndlistarmanna í Henie Onstad- safninu í Osló.

Miðvikudagur 13.6.2001 - 13.6.2001 0:00

Flugum til Osló klukkan 7.35 en síðdegis tók ég þátt í því með norska menningarmálaráðherranum, Ellen Horn, að opna norsk-íslenska menningardaga í Akershus-kastala í Osló.

Þriðjudagur 12.6.2001 - 12.6.2001 0:00

Klukkan 16.00 var í fyrsta sinn úthlutað úr Menningarborgarsjóði við hátíðlega athöfn í Kornhlöðunni.

Laugardagur 9.6.2001 - 9.6.2001 0:00

Klukkan 14.00 var ég við slit Kennaraháskóla Íslands og flutti þar ávarp.

Föstudagur 8.6.2001 - 8.6.2001 0:00

Klukkan 14.00 var ég við slit Fjölbrautaskólans í Breiðholti á 25 ára afmæli skólans.

Fimmtudagur 7.6.2001 - 7.6.2001 0:00

Fundur menningarmálaráðherra Norðurlandanna fór fram í Helsinki en ég hélt þaðan um kl. 18.00 að finnskum tíma til Kaupmannahafnar og var kominn heim til mín kl. 22.00 ísl. tími.

Miðvikudagur 6.6.2001 - 6.6.2001 0:00

Klukkan 13.00 flaug ég til Helsinki um Kaupmannahöfn til að taka þátt í fundi menningarmálaráðherra Norðurlandanna.

Þriðjudagur 5.6.2001 - 5.6.2001 0:00

Klukkan 15.30 var ég í Kennaraháskóla Íslands og tók þátt í að heiðra þrjá skólamenn vegna framlags þeirra til að efla raungreinakennslu, en Hagsmunafélag þeirra, sem starfa á sviði verkfræði og tækni standa að verðlaununum. Klukkan 17.00 tók ég þátt í kynningarfundi á Nýsköpunarsjóði námsmanna, sem haldinn var í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Mánudagur 4.6.2001 - 4.6.2001 0:00

Fórum um kvöldið á lokatónleika Kirkjulistarhátíðar í Hallgrímskirkju og hlýddum á Mótettukórinn.

Sunnudagur 3.6.2001 - 3.6.2001 0:00

Fórum kvöldið til Hveragerðis og hlýddum á tónleika þar á hátíðinni Bjartar sumarnætur

Föstudagur 1.6.2001 - 1.6.2001 0:00

Sat fund norrænu menntamálaráðherranna til klukkan 16.30, þegar haldið var út á flugvöll og síðan heim í gegnum Kaupmannahöfn.