Dagbók: september 2013
Mánudagur 30. 09. 13
Þjóðverjar þurfa hugsanlega að bíða fram í janúar 2014 eftir að ný ríkisstjórn setjist að völdum. Angela Merkel ætlar bæði að ræða við jafnaðarmenn og græningja. Hún getur myndað stjórn með hvorum sem er, hana vantar aðeins fimm þingmenn til að hafa hreinan meirihluta í Bundestag, neðri deild þýska þingsins.
Í dag var skýrt frá því að Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn, flokkarnir lengst til hægri í Noregi, ætli að mynda minnihlutastjórn undir forsæti Ernu Solberg, formanns Hægriflokksins. Kristilegir og Venstre eru aðilar að samstarfssamningi að baki stjórninni og hafa tryggt framgang nokkurra höfuðmála sinna.
Kosningar voru í Austurríki í gær, stjórnarflokkarnir, stóru flokkar landsins, töpuðu fylgi en hafa enn meirihluta á þingi. Hægriflokkar gagnrýnir á ESB og evru-samstarfið unnu á í kosningunum.
Stjórnarkreppa er á Ítalíu. Í þinginu miðvikudaginn 2. október verður reynir á það hvort meirihluti þingmanna stendur að baki stjórninni. Silvio Berlusconi vill stjórnina feiga en stuðningsmenn hans eru ekki allir á sama mála. Sumir þeirra segja hann aðeins hugsa um eigin hag, leið til að verða ekki sparkað af þingi vegna dóms um skattsvik. Líklegt er að Berlusconi-flokkurinn klofni í atkvæðagreiðslunni á miðvikudag.
Af þessu fernu er stjórnarmyndunin i Noregi sögulegust. Einangrun Framfaraflokksins er lokið eignist hann menn í ríkisstjórn.
Þetta kann að verða fordæmi annars staðar, til dæmis í Danmörku þar sem Danski þjóðarflokkurinn mælist nú stærri en jafnaðarmannaflokkurinn, flokkur Helle Thorning Schmidt forsætisráðherra sem á mjög undir högg að sækja. Þá kann stjórnarmyndunin í Noregi einnig að hafa áhrif í Frakklandi þar sem deilt er um hvort rjúfa beri einangrun Þjóðfylkingarinnar, flokks Le Pen-fjölskyldunnar sem leggst gegn evrunni og frjálsri för fólks.
Mest hætta stafar af stjórnarkreppunni á Ítalíu. Hún getur hæglega gert að engu allar vonir um viðsnúning til hins betra á evru-svæðinu.
Sunnudagur 29. 09. 13
Atli Rafn Sigurðarson sýnir mikil tilþrif í Englum alheimsins í Þjóðleikhúsinu. Leikgerðin er vel heppnuð og leikstjórnin öguð, aldrei er farið út fyrir hófleg mörk. Mögnuð sýning gerð úr einstæðum efniviði frá Einari Má Guðmundssyni. Ég kynntist sögupersónuninni lítillega þegar ég vann á Morgunblaðinu á sínum tíma. Hann kom stundum með efni þangað og tókum við vinsamlegt tal saman.
Í tíu fréttunum í kvöld heyrði ég loks sagt frá siglingu skipsins Nordic Orion norðvesturleiðina . Er ánægjulegt að á fréttastofu ríkisútvarpsins skuli vera einhver sem telur þetta fréttnæma siglingu. Eins og ég gat um hér á síðunni í gær er hún í raun einstæð.
Vegna komandi fjárlaga segir fréttastofa ríkisútvarpsins ekki lengur fréttir í tíma klukkan 18.00 heldur eru raktar raunir þeirra sem telja að of langt verði gengið í aðhaldi í fjárlögunum. Fréttastofan leggur sig fram um að mála skrattann á vegginn. Enginn veit í raun í hvaða mynd hann birtist í fjárlagafrumvarpinu. Þá er jafnframt minnt á hver hafi verið kosningaloforð Framsóknarflokksins og jafnframt vitnað í Vigdísi Hauksdóttur, framsóknarkonuna í formennsku fjárlaganefndar alþingis.
Undir niðri er verið að búa hlustendur fréttastofunnar undir loforðasvik framsóknarmanna og einkum Vigdísar Hauksdóttur. Fréttastofunni er sérstaklega í nöp við Vigdísi af tveimur ástæðum: Hún er á móti ESB, hún fer óvirðulegum orðum um ríkisútvarpið. Fólk í þessari skúffu á ekki upp á pallborð stjórnenda fréttastofu ríkisútvarpsins, um það er þagað þegar ekki er reynt að gera það tortryggilegt.
Laugardagur 28. 09. 13
Undanfarin ár hafa fréttir um siglingar flutningaskipa í norðurhöfum snúist um ferðir þeirra fyrir norðan Rússland, norðausturleiðina svonefndu. Tugir skipa hafa siglt leiðina hvert sumar í fáein ár. Öðru máli gegnir um norðvesturleiðina fyrir norðan Kanada.
Í september 1969 sigldi bandaríska skipið Manhattan frá Atlantshafi til Kyrrahafs. Það var olíuskip sem hafði verið styrkt sem ísbrjótur. Tilgangurinn var að flytja olíu frá Alaska til Mexíkóflóa. Eftir tvær ferðir skipsins var fallið frá öllum slíkum áformum og lögð olíuleiðsla um Kanada til Bandaríkjanna.
Frásagnir af Manhattan settu mikinn svip á fréttir á sínum tíma. Minna fer fyrir fréttum núna af siglingu flutningaskipsins Nordic Orion um norðvesturleiðina. Það er á leiðinni með kol frá Vancouver í Kanada til Pori í Finnlandi. Skipafélagið Nordic Bulk Carriers í Danmörku á skipið sem er 73.700 lestir, 225 metra langt, smíðað í Japan árið 2011 og skráð i Panama.
Sé nafn skipsins slegið inn á Google má sjá hvar það er statt. Fyrir tveimur dögum var það undan vesturströnd Grænlands skammt frá höfuðborginni Nuuk. Það er því komið í gegnum ísinn og er á leiðinni suður fyrir Grænland og þaðan tekur það stefnu til Finnlands. Hve nærri það siglir Íslandi er óljóst.
Fréttir af Nordic Orion hafa birst á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér.
Föstudagur 27. 09. 13
Þóra Arnórsdóttir fór fram úr sjálfri sér þegar hún ræddi við Franklin Graham í Kastljósi kvöldsins. Í fyrsta lagi hefði hún átt að sjá miklu fyrr í þættinum að hún fengi ekki þokað Graham þótt hún skellti því á hann hvað eftir annað að íslenska þjóðin væri ekki á sama máli og hann. Í öðru lagi gekk hún of langt sem sjálfskipaður talsmaður þjóðarinnar andspænis viðmælanda sínum. Í þriðja prédikaði hún sjálf of mikið og lengi. Hafi ætlun hennar verið að koma höggi á Graham var það vindhögg.
Strax að loknu Kastljósi birtist Þóra í Útsvari sem hefur tekið á sig nýja mynd. Það er mikill vandi að halda lífi í þætti sem þessum. Breytingin er ekki til batnaðar. Að stjórnendur sjónvarpsins feli starfsmönnum sínum að vera í hlutverki Þóru í Kastljósi og stjórna síðan spurningarþætti er umhugsunarefni. Þóra og Sigmar Guðmundsson njóta sín illa í þættinum af því að spurningarnar eru leiðinlegar og þátturinn gefur ekki færi á miklum tilþrifum.
Í dag var efnt til málþings um tengsl Íslands og NATO á vegum Alþjóðamálastofnunar HÍ, Nexus, rannsóknavettvangs um öryggismál, og Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns. Málþingið var vel sótt. Sérstaklega var fróðlegt að hlusta á erindi um hvernig tengsl Íslands og NATO hafa þróast og hve mikilvægu hlutverki Landhelgisgæsla Íslands gegnir í því tilliti. Þetta á bæði við um verkefni tengd loftrýmisgæslu og aðgerðir á sjó eða við sprengjueyðingu.
Fimmtudagur 26. 09. 13
Tónlistar- og ráðstefnuhús Reykjavíkur, Harpa, vann til verðlauna sem besta opinbera menningarbyggingin á árlegri verðlaunahátíð alþjóðlegra samtaka arkitekta í Evrópu (LEAF) segir í Morgunblaðinu í dag. Stofnað var til verðlaunanna, sem nefnast The Emirates Glass LEAF Awards árið 2001 og eru þau veitt á hverju ári arkitektum sem hafa nýjungar og framsækni að leiðarljósi í sinni hönnun. Verðlaunaðar eru byggingar þar sem hönnunin er talin marka þáttaskil í byggingarlist komandi kynslóða. Alls voru 52 verkefni tilnefnd til verðlauna í 16 flokkum. Í dómnefnd sitja nokkrir af virtustu arkitektum Evrópu.
Í umsögn dómnefndar segir að Harpa sé sláandi bygging sem umbreyti og blási nýju lífi í Reykjavíkurhöfn, auk þess að skapa nýja tengingu milli hafnar og borgar. Glerhjúpur Ólafs Elíassonar, sem innblásinn sé af íslensku landslagi, endurkasti birtu frá borgarljósunum, hafi og himni á heillandi hátt.
Ástæða er að staldra sérstaklega við síðustu setninguna í fréttinni um endurkast birtunnar. Frá því að þeir sem verðlaunin veittu skoðuðu Hörpu hefur verslun tekið til starfa í því horni hússins sem snýr að Ingólfsgarði og Sæbraut. Þar sést ekki aðeins varningur inn um glugga heldur er lampi í horni hússins sem raskar öllu endurkasti. Verslunin spillir með öðrum orðum glerhjúpnum – ætli Ólafur Elíasson eða arkitektar hússins hafi samþykkt þetta?
Miðvikudagur 25. 09. 13
Í dag ræddi ég við Erlend Sveinsson, forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands, í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má sjá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Nokkuð uppnám varð við tilkynningu Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra um að hann ætlaði að fara yfir ný náttúruverndarlög sem samþykkt voru fyrir kosningar með gildistöku 1. apríl 2014. Var það orðað þannig af ráðuneyti ráðherrans að hann hefði „afturkallað“ lögin. Það er ekki á hans valdi. Hann getur hins vegar lagt fram frumvarp að nýjum lögum sem afnema lögin fyrir gildistöku þeirra enda samþykki alþingi það.
Um það var deilt fyrir þinglok hvort afgreiða ætti frumvarp að náttúruverndarlögum og niðurstaðan varð, til að málið næði fram að ganga, að gildistakan yrði ekki fyrr en 1. apríl 2014. Þessari aðferð er beitt við afgreiðslu mála rétt fyrir kosningar til að nýju þingi gefist færi á að skoða umdeild mál að nýju, aðferðinni er beitt til að koma til móts við stjórnarandstöðu. Hún sigraði í þingkosningunum 27. apríl 2013 og ekki óeðlilegt að hún nýti rétt sinn til að fara yfir málið áður en hin nýju lög taka gildi.
Orðbragðið sem Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, og talsmenn umhverfisamtaka nota um ákvörðun Sigurðar Inga ber vott um yfirgangssemi og virðingarleysi fyrir lýðræðislegum vinnubrögðum.
Gunnar Gunnarsson, fréttamaður Spegils ríkisútvarpsins, fór á kostum í dag þegar hann ræddi við fortstjóra Marorku og reyndi að fá hann til staðfesta að fyrirtækið ætlaði að flýja land og krónan væri ónýt. Forstjórinn sagði fyrirtækið ekki á förum og krónan væri nýtileg. Hann féllst ekki á fordóma Gunnars.
Þriðjudagur 24. 09. 13
Eftir að Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, kynnti Jón Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík, sem mannréttindafrömuð sem nyti sérstakrar virðingar meðal erlendra rithöfunda hef ég hlustað á fréttir um stöðu mála í Reykjavíkurborg á annan hátt en áður. Ég hef vakið athygli á Anna Kristinsdóttir, mannréttindafulltrúi Reykjavíkurborgar, gat ekki gefið neina haldbæra skýringu í síðustu viku á lokun kaffihússins GÆS sem fólk með þroskahömlun rak í húsakynnum Reykjavíkurborgar.
Í dag má sjá tvær fréttir á ruv.is sem snerta mannréttindamál og Reykjavíkurborg.
Óútskýrður munur er á heildarlaunum kynjanna hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkur. Hann er tíu prósent samkvæmt kjarakönnun félagsins. Má áætla með nokkurri vissu að konur séu með á bilinu fimm til fimmtán prósent lægri heildarlaun en karlar hjá Reykjavíkurborg. Óútskýrður launamunur innan félagsins í var 11,8% á árinu 2012.
Þá er sagt frá því að í raun ríkti „neyðarástand“ í Reykjavík vegna þess hve mörgum yrði að vísa frá gistiskýlinu í Þingholtsstræti í Reykjavík. Skýlið hýsir 20 manns og er „neyðarúrræði“ fyrir heimilislaus karlmenn.
Yfirmaður skýlisins er Þórir Haraldsson hjá Samhjálp, sem rekur gistiskýlið ásamt Reykjavíkurborg. Hann segir við fréttastofu ríkisútvarpsins:
„Allt árið í fyrra þurftum við að vísa frá 24 sinnum. Frávísanirnar í ár eru komnar út úr öllum kortum. Það eru sennilega þrjár vikur síðan við tókum það saman og þá voru þær komnar í 440 og nú eru þær nærri fimm hundruð.
Það er nú kannski ekki mikið sem við getum gert nema að krossa fingur og vona að það verði enginn úti. Ég játa það að maður horfir fram á að það með kvíðboga þegar fer að kólna og gerir vond veður en við höfum í rauninni engin ráð.“
Hvers vegna skyldi enginn spyrja Jón Gnarr um þessa þróun?
Mánudagur 23. 09. 13
Angela Merkel gekk ekki til kosninganna í Þýskalandi með langan loforðalista. Þvert á móti var lögð meiri áhersla á fortíðina en framtíðina í kosningabaráttu kristilegra demókrata. Athyglinni var beint að hve vel hefði til tekist við stjórn Þýskalands undir forystu Merkel. Í leiðara franska blaðsins Le Monde um úrslitin í Þýskalandi sagði meðal annars:
„Kanslarinn [Angela Merkel] er betri holdgervingur skoðana þjóðar sinnar en nokkur annar þýskur stjórnmálamaður við upphaf 21. aldar. Heiðarleg, raunsæ og sífellt í leit að samstöðu er hún á sömu bylgjulengd og samborgarar hennar. Hún er hinn dæmigerði fulltrúi miðjustefnu í Þýskalandi þar sem menn þola ekki neitt áreiti öfgamanna – hvorki frá vinstri né hægri. Til allrar hamingju fyrir þjóðina en undantekning í Evrópu!“
Í þýskum fjölmiðlum er Angela Merkel þegar sett í hóp „stóru“ kanslaranna og þar með á bekk hjá Konrad Adenauer, Helmut Schmidt og Helmut Kohl svo að þrír séu nefndir. Hún jók fylgi flokks síns um átta prósentustig á milli kosninga og komst nálægt því að fá hreinan meirihluta í neðri deild þýska þingsins. Bundestag. Árið 1957 tókst Adenauer að fá hreinan meirihluta á þýska þinginu en engum öðrum eftir það.
Yfirbragð þýska kosningasjónvarpsins bar með sér hve vel er að öllu staðið af hálfu Þjóðverja og allt í góðum skorðum auk þess sem menn ræða saman af virðingu og klæðaburður er í samræmi við það. Fréttamenn tveggja stöðva ARD og ZDF ræddu sameiginlega við forystumenn flokka sem fengu menn kjörna á þing í sjónvarpssal að kvöldi kjördags.
Þjóðverjar taka alvarlega hlutverk sitt sem öflugasta þjóð Evrópu. Með því að tryggja Angelu Merkel stórsigur segja þeir öðrum evru-þjóðum að þær skuli ekki vænta þess að dælt verði til þeirra peningum frá Þýskalandi.
Sunnudagur 22. 09. 13
Veðrið var gott í Fljótshlíðarréttum í dag. Eyjafjallajökull gnæfði í austri, skjannahvítur og fegurri en þegar askan setti svip á hann. Á dögunum snjóaði til fjalla og Þríhyrningur var hvítur niður í miðjar hlíðar en nú er snjórinn á brott. Það gekk greiðlega að draga féð enda lögðu margir leið sína í réttirnar.
Angela Merkel vann stórsigur í þingkosningunum í dag. Flokkur hennar jók fylgi sitt um 8% og var henni jafnvel spáð hreinum meirihluta á þinginu í Berlín. Þegar þetta er skrifað er henni spáð 301 þingmanni af 606 (þarf 304 til að mynda meirihluta). Hún talaði af þungri alvöru um áhrif úrslitanna í sjónvarpsþætti með öðrum forystumönnum flokka sem fengu kjörna þingmenn. Hún fagnaði sigri af mikilli varúð vegna framtíðarinnar, megi orða það svo.
Að líkindum kemur til skipta á forystumönnum í tveimur þýskum stjórnmálaflokkum eftir kosningarnar. Peer Steinbrück varð kanslaraefni jafnaðarmanna fyrir um það bil einu ári en honum tókst ekki að rétta hlut flokks síns sem hefur tapað fyrir Merkel þrisvar í röð. Samstarfsflokkur Merkel, FDP, hlaut verstu útreið í sögu sinni og engan þingmann. Rainer Brüderle var í forystu FDP í kosningabaráttunni og líklegt er hann og Philipp Rösler flokksformaður verði að víkja.
Laugardagur 21. 09. 13
Veðrið var bjart og kyrrt þegar Fljótshlíðingar smöluðu í dag. Ég gekk um Þríhyrningshálsa og var hugsað til Njálu. Af hálsunum sést til allra átta og þaðan er unnt að fylgjast vel með mannaferðum, skjól er af Þríhyrningi í norðri og leiðin upp á hálsana er um mýrlendi sem ekki er auðvelt yfirferðar á hestum. Oft hef ég gengið í þúfum en aldrei jafnstórum og erfiðum og á hluta leiðarinnar suður af hálsunum.
Skýrt var frá niðurstöðu Gallup-könnunar sem sýnir að Besti flokkurinn er nýtur mest stuðnings flokka í Reykjavík. Nú hefur Jón Gnarr tekið til við að saka þá um einelti sem láta þess getið hvers son hann er og segir Jón það framhald á einelti Sjálfstæðisflokksins í garð föður síns sem hafi verið kommúnisti og þess vegna ekki fengið þann frama innan lögreglunnar sem honum bar. Sumum finnst þetta hugvitsamleg flétta. Hún er hins vegar bæði langsótt og út í hött. Henni er aðeins ætlað að draga athygli frá kjarna málsins í gagnrýni manna á Jón Gnarr, að hann hafi haldið þannig á málum sem borgarstjóri að ekki sé til neinnar fyrirmyndar. Hann gerir lítið úr þeim sem eru honum ósammála í því skyni að setja þá út af laginu í von um eiga síðasta orðið. Enginn stjórnmálamaður hefur áður gengið fram á þennan hátt.
Föstudagur 20. 09. 13
Í gær sagði ég frá aðdáun Kolbrúnar Bergþórsdóttur á Jóni Gnarr borgarstjóra fyrir ást hans á mannréttindum. Hann væri annars eðlis en íslenskir stjórnmálamenn vegna ríks skilnings á málefnum þeirra sem ættu undir högg að sækja. Erlendir rithöfundar hefðu flykkst að honum í veislu vegna einstæðs málflutnings hans um mannréttindamál.
Daginn eftir að lofgrein Kolbrúnar birtist í Morgunblaðinu birtist frétt á ruv.is um að mannréttindi væru brotin á fólki með þroskahömlum í sjálfri borg hins lofaða borgarstjóra.
Kaffihúsinu GÆS sem hafði verið rekið af fólki með þroskahömlun var lokað vegna þess að ekki náðust samningar við rekstraraðila hússins um áframhaldandi starfsemi. Kaffi GÆS var starfrækt í Tjarnarbíói af Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa sem rekur Tjarnarbíó fyrir Reykjavíkurborg sem á húsið.
Anna Kristinsdóttir, mannréttindafulltrúi Reykjavíkurborgar, sagði við fréttastofu ríkisútvarpsins að hjá borginni væri vilji til til að halda rekstri kaffihússins áfram en það flækti málin að Reykjavíkurborg styrkti kaffi GÆS og væri því í samkeppni við önnur kaffihús í miðbæ Reykjavíkur.
Að sögn Önnu fælist vandinn þó einkum í að það vantaði húsnæði. Í frétt ríkisútvarpsins sagði: „Lokun GÆSar kom starfsfólki kaffihússins í opna skjöldu.“
Mannréttindafulltrúi Reykjavíkurborgar er ráðalaus vegna þess að fólki með þroskahömlum er bannað að reka kaffihús í húsnæði Reykjavíkurborgar.
Að sjálfsögðu á mannréttindafulltrúinn ekki síðasta orðið í þessu máli heldur borgarstjórinn, Jón Gnarr. Hann kýs hins vegar að skýla sér á bakvið skrifstofuvaldið þótt hann sé auðvitað ekki kerfiskarl heldur mannréttindafrömuður.
Fimmtudagur 19. 09. 13
Í morgun flutti Knud Bartels, formaður hermálanefndar NATO, erindi í Norræna húsinu og sagði ég frá því á Evrópuvaktinni eins og lesa má hér.
Í dag efndi Heiðar Guðjónsson til hófs í tilefni af útgáfu bókar sinnar Norðurslóðasókn – Ísland og tækifærin. Þar er brugðið ljósi á breytingar á norðurslóðum og tækifæri Íslands sem miðstöðvar. Þá er lýst kerfisgöllum sem óhjákvæmilegt sé að huga að á íslenskum heimavelli svo að þessi tækifæri nýtist.
Við hlið leiðara í Morgunblaðinu í dag þar sem fundið er að skorti á andspyrnu gegn Jóni Gnarr og félögum í borgarstjórn Reykjavíkur birtist lofgrein um Jón Gnarr eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur bóka- og þjóðfélagsrýni. Hún gefur sér þá forsendu að pólitískir andstæðingar Jóns Gnarrs gefi „hvað eftir annað í skyn að hann sé að sóa dýrmætum tíma með því að leggja svo ríka áherslu á mannréttindi, hann eigi að hafa merkilegri hluti fyrir stafni“. Hvar hefur þessum skoðunum verið haldið á loft?
Síðan segir Kolbrún að í veislu í ráðhúsinu sem Jón Gnarr hélt vegna bókmenntahátíðar og PEN-þings hafi erlendir gestir virst skynja „mannlega og hlýja taug“ borgarstjórans og „samúð með þeim sem eru beittir harðræði og/eða eru minni máttar, […] Erlendu gestirnir virtust skynja þetta og hópuðust til borgarstjóra til að taka í hönd hans og fá tekna af sér mynd með honum. Margar fréttir hafa verið sagðar af hrifningu útlendinga á hinum íslenska borgarstjóra og eftir að hafa orðið vitni að hrifningu og áhuga erlenda bókmenntafólksins þá efast maður ekki um að þær séu hárréttar og alls ekki ýktar“.
Án þess að lítið sé gert úr upplifun Kolbrúnar á nokkurn hátt er þessi lýsing á framkomu gesta í borgarastjóraveislu ekkert einsdæmi. Henni finnst Jón sýna af sér heimsborgarabrag með því að berjast gegn kúgun í stað þess að „skoða fjárhagsáætlanir“. Það hafi „illilega farið fram hjá mörgum íslenskum stjórnmálamönnum“ að mannréttindabarátta snúist um „að gera heiminn betri“. Jón Gnarr hafi „breytt ýmsu í íslenskri pólitík og ruglað þá rækilega í ríminu sem telja að stjórnmálamenn eigi að vera hæfilega miklir kerfiskallar“.
Þegar ég kom að þessu um „kerfiskallana“ datt mér í hug að Kolbrún væri í aðra röndina að gera grín að Jóni Gnarr. Enginn borgarstjóri hefur hlaðið meira undir kerfið en einmitt hann. Í hans tíð hefur skrifstofuveldi borgarinnar orðið einskonar virkisveggur á milli borgarstjóra og borgarbúa. Kerfisvæðinguna má greina á öllum sviðum, hún verður seint flokkuð undir dálæti á mannréttindum.
Miðvikudagur 18. 09. 13
Í dag kom út nýtt hefti að tímaritinu Þjóðmálum, fyrsta hefti tíunda árgangs. Ég hef lagt tímaritinu lið frá fyrsta hefti þess og birt þar margar greinar um stjórnmál auk umsagna um bækur. Nú skrifa ég um bókina Ísland ehf. Jakob F. Ásgeirsson ritstýrir Þjóðmálum af metnaðí og þrautseigju. Í þessu hefti brýnir hann sjálfstæðismenn í Reykjavík til að vanda val á frambjóðendum til borgarstjórnar en ekki láta klíkur innan flokksins í höfuðborginni ráða ferðinni.
Hér má fræðast um þetta hefti Þjóðmála.
Tilkynnt var í dag að Seðlabanki Bandaríkjanna (Fed) mundi halda áfram að prenta 85 milljarða dollara á mánuði eins og hann hefur gert síðan í september 2012 til að styðja við bakið á bandarísku efnahagslífi. Á hverjum mánuði kaupir bankinn veðskuldabréf (Mortgage-Backed Security eða MBS) fyrir 40 milljarða dollara og ríkisskuldabréf fyrir 45 milljarða dollara. Aðgerðin eykur peningamagn í umferð og er henni ætlað að koma í veg fyrir skort á reiðufé á tímum kreppu. Með því að spýta þessum peningum inn í bankana auðveldar það þeim að lána fé á lágum vöxtum til heimila og fyrirtækja og stuðla þannig að neyslu og fjárfestingu.
Áður en tilkynningin barst í dag væntu þess flestir að Fed mundi draga saman seglin og minnka það sem á ensku er kallað Quantitative easingþar sem bankamönnum, hagfræðingum og stjórnmálamönnum finnst ekki við hæfi að lýsa fyrirbærinu sem peningaprentun. Stefna seðlabankans í Bandaríkjunum fellur ekki að skoðunum þýskra ráðamanna sem eiga síðasta orðið um stefnuna á evru-svæðinu. Þjóðverjar óttast afleiðingar of mikils peningamagns í umferð, verðbólguna, af dýrkeyptri reynslu millistríðsáranna.
Óvenjulegar efnahagsaðstæður ríkja í heiminum og ekki sést enn fyrir endann á þeim. Hér á landi halda stjórnvöld að sér höndum í skjóli hafta og skilin á milli þess sem var í tíð tæru vinstri stjórnarinnar og þess sem við skyldi taka með nýrri ríkisstjórn að kosningum loknum eru of óljós til að átta sig á að ný stjórn hafi tekið upp nýja stefnu þótt væntingar standi að sjálfsögðu til að hún hafi gert það.
Þriðjudagur 17. 09. 13
Nú er viðtal mitt við Einar K. Guðfinnsson, forseta alþingis, á ÍNN 11. september komið á netið og má sjá það hér.
Það er ekki eitt heldur allt sem vekur undrun þegar sagðar eru fréttir af gangi mála undir stjórn Jóns Gnarrs borgastjóra. Fréttir um mikinn launamun körlum í hag meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar stangast á við allt sem Samfylkingin hefur hreykt sér af við stjórn borgarinnar. Er varla unnt að draga aðra ályktun af þessum fréttum en að undir stjórn Jóns Gnarrs hafi hallað verulega á ógæfuhlið í jafnréttismálum og það hljóti að vera fyrir áhrif frá Besta flokki borgarstjóra í óþökk Samfylkingar – eða hvað?
Mánudagur 16. 09. 13
Frönsk íslensk sinfóníuhljómsveit kom fram á tónleikum í Norðurljósum Hörpu í kvöld stjórnandi var Amine Kouider. Tónleikarnir voru helgaðir minningu þeirra sem fórust með franska rannsóknaskipinu Pourquoi pas? í ofviðri á Faxaflóa og fórst við Álftanes á Mýrum aðfaranótt 16. september 1936, aðeins einn maður bjargaðist.
Jean Baptiste Charcot heimskautakönnuður stjórnaði leiðangrinum og var frú Anne-Marie Vallin-Charcot, barnabarn Charcots, á tónleikunum í kvöld og flutti stutt ávarp. Pourquoi pas? var frá hafnarborginni St. Malo á Bretagne-skaga og þangað fór ég sem menntamálaráðherra með afsteypu af styttu Einars Jónssonar til minningar um Pourquoi pas? og stendur hún nú við hafnarmynni borgarinnar.
Andvirði aðgangseyris tónleikanna rann til Slysavarnafélagsins Landsbjargar í þakklætisskyni fyrir björgun frönsku stúlkunnar Jeanne Francois Maylis sem var týnd í byrjun júní á þessu ári á hálendinu á milli Skötufjarðar og Mjóafjarðar og fannst eftir rúmlega þrjátíu klukkustunda leit.
Fransk-íslenska sinfóníuhljómsveitin (FIFO) er skipuð hljóðfæraleikurum úr Kammersveit Reykjavíkur og Alþjóðlegu fílharmóníusveitinni hjá UNESCO í París. Fyrstu tónleikar hljómsveitarinnar voru í gær í Grundarfirði. Næst kemur hún fram vorið 2014 í höfuðstöðvum UNESCO í París.
Í höfuðstöðvum UNESCO sat ég marga eftirminnilega fundi á sínum tíma og stjórnaði einum sem snerist um lífsýni og friðhelgi mannsins. Þetta var þegar íslenskir ráðherrar lögðu sig í líma við að skýra löggjöfina sem skapaði starfsgrundvöll deCode og Íslenskrar erfðagreiningar. Ein röksemdin var að allt íslenska heilbrigðiskerfið kæmist á hærra og hagkvæmara stig með skrásetningu upplýsinga um Íslendinga í sameiginlegan gagnagrunn. Hefur það gengið eftir? Heyrir einhver talað um það nú þegar sverfur að heilbrigðiskerfinu vegna fjárskorts?
FIFO lék með glæsibrag í Norðurljósum. Áður en lokaverk tónleikana hófst, Serenaða fyrir strengi í C-dúr eftir Tsjakovskíj, voru veggtjöld dregin upp í salnum til að auka hljómburðinn. Minnti það á hve mikil alúð var lögð við að tryggja sem bestan hljómburð í tónleikasölum Hörpu enda eru þeir meira nýttir en nokkur gat gert sér í hugarlund og hið sama má segja um hinn mikla fjölda fólks sem heimsækir hið einstæða hús.
Sunnudagur 15. 09. 13
Miðað við andstöðuna við flutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni er einkennilegt að enginn stjórnmálamaður sem hyggst leita eftir stuðningi í kosningunum 2014 skuli ganga fram fyrir skjöldu og lýsa eindreginni andstöðu við aðalskipulagið sem nú er á döfinni. Engu er líkara en á þessu kjörtímabili hafi tekist að breyta borgarstjórn í hluta af skrifstofuveldi borgarinnar í stað þess að þar takist menn á um ólík sjónarmið á þann veg að skýrist fyrir borgarbúum hvaða kostir eru í stöðunni.
Nú eru brátt 20 ár liðin frá því að R-listinn kom til sögunnar og sjálfstæðismenn misstu meirihluta sinn í Reykjavík. Síðan hafa meira og minna sömu málin verið á döfinni án þess að nokkur afgerandi afstaða hafi verið tekinn af stjórnendum borgarinnar. Fyrir um það bil tólf árum var látið eins og ákvörðun væri tekin í málefnum flugvallarins í atkvæðagreiðslu sem reyndist ekki annað en tilraun til að komast hjá að taka ákvörðun. Þá var Sundabraut einnig á döfinni og látið eins og allt færi í óefni yrði ekki ráðist í lagningu hennar alveg á næstu árum, Deilurnar stóðu meðal annars um hvort gera ætti brú yfir Elliðavoginn úr Sundahöfn eða ekki.
Þá var varað við að stefnt væri í óefni með því ráðslagi sem ríkti í Orkuveitu Reykjavíkur og einkenndist annars vegar af stórmennsku og hins vegar minnimáttarkennd gagnvart Landsvirkjun. Enn þann dag í dag hefur ekki verið undið ofan af röngum ákvörðunum sem teknar voru í málefnum orkuveitunnar og reynast dýrkeyptar.
Það er í samræmi við þessa þróun alla að nú skuli sitja borgarstjóri í Reykjavík, Jón Gnarr, sem forðast hin raunverulegu verkefni borgarstjóra en beitir sér í málum eins og banni við að herskip komi til Reykjavíkurhafnar og veikir mjög málstað þeirra sem vilja efla öryggi sjófarenda í norðurhöfum með því að gera Ísland að miðstöð leitar og björgunar.
Laugardagur 14. 09. 13
Þess er minnst um þessar mundir að á árinu 2007 spáði Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, að Norður-Íshafið yrði íslaust árið 2013. Þegar hann tók við friðarverðlaunum Nóbels 10. desember 2007 vitnaði Gore í bandaríska loftslagsfræðinginn Wieslaw Maslowski sem hafði spáð að sumarísinn á norðurskauti mundi „hverfa með öllu“ árið 2013 vegna hlýnunar jarðar af völdum útblásturs kolefnis.
Nú mæla gervitungl meiri ísbreiðu á Norður-Íshafi en nokkru sinni síðan 2006. Séu bornar saman myndir teknar í ágúst 2012 og ágúst 2013 sýna myndir í ár um 60% meiri útbreiðslu íss en í fyrra. Þá segir í fréttum að ekki sé unnt að sigla norðvesturleiðina, það er fyrir norðan Kanada, í ár vegna þess hve ísinn er þykkur.
Nýlega birti BBC frétt um að útbreiðsla íssins segði ekki alla söguna. Gervitungl hefðu í þrjú ár mælt þykkt íssins og þiðnaði hann jafnt og þétt á Norður-Íshafi sem mundi leiða til samdráttar hans áður en langt um liði.
Þessar fréttir segja það eitt að enginn getur fullyrt með nokkurri vissu hvernig ísinn hagar sér. Í jarðsögulegu tilliti ná mælingar til svo skamms tíma að þær segja í raun ekki annað en túlkendur upplýsinganna ákveða hverju sinni. Þeir vita að dramatískar lýsingar á framtíðinni eiga greiðasta leið í fjölmiðla.
Föstudagur 13. 09. 13
Gríska ríkisstjórnin greip til þess árs árið 1989 að umbuna opinberum starfsmönnum sem unnu lengur en fimm klukkustundir á dag við tölvu með sex auka-frídögum. Þessi einkennilega ráðstöfun var ekki afturkölluð fyrr en nú í byrjun september 2013. Það þurfti efnahagshrun Grikklands og þrýsting frá neyðarlánveitendum til að grísk stjórnvöld afnámu regluna um tölvu-frídagana sex. Þá hefur einnig verið ákveðið að hætta að greiða mönnum kaupauka fyrir að koma í vinnuna og reglan um að ógift dóttir erfi eftirlaunarétt föður síns hverfur einnig úr sögunni.
Þessi þrjú dæmi eru til marks um hvílík óstjórn ríkti í Grikklandi og hve erfitt er að hverfa frá henni. Þarna er lýst þætti ríkisútgjalda. Ekki var staðið betur að opinberri tekjuöflun. Skattheimta var í molum.
Að ríki sem þannig var rekið skuli hafa verið hleypt inn í myntbandalagið innan ESB lýsir hve illa var staðið að þróun bandalagsins, meiri áhersla var á að fjölga aðildarríkjum en gæta að innviðum þeirra og hæfni til þátttöku í bandalaginu.
Að ESB-aðildarsinnar á Íslandi skuli telja boðskapinn um að Íslendingar verði að fara í þennan hóp til að kynnast góðri efnahagsstjórn besta bragðið til að búa í haginn fyrir ESB-aðild sýnir hve málefnafáteikt þeirra er mikil enda galt málstaðurinn afhroð í þingkosningunum 27. apríl 2013.
Fimmtudagur 12. 09. 13
Í Viðskiptablaðinu í dag segir að tímagjald slitastjórnar Kaupþings hafi hækkað úr 27 þúsund krónum í 32.500 á árinu 2012. Fjórir slitastjórnarfulltrúar vinni um 97 til 125 prósent vinnu fyrir slitastjórnina, fyrir utan það sem þau vinni á sínum föstu lögmanns- og endurskoðunarskrifstofum. Hinn hæst launaði hafi fengið 79 milljónir króna greiddar og hafi því unnið 2.615 stundir fyrir slitastjórnina á árinu 2012. Segir blaðið að 40 klukkustunda vinnuvika allar 52 vikur ársins – án allra fría um jól, páska o.s.frv. – sé 2080 tímar. Aðrir slitastjórnarmenn hafi fengið greitt á bilinu 61-65 milljónir króna og allir hafi unnið meira en 2.000 tíma fyrir slitastjórnina, meðfram þeirra hefðbundnu störfum.
Slitastjórnir tóku við af skilanefndum bankanna. Fjármálaeftirlitið skipaði skilanefndirnar haustið 2008 en verkefni þeirra voru falin slitastjórnum á árinu 2011. Engin lagaákvæði giltu um skilanefndirnar en þær störfuðu lögum samkvæmt í umboði fjármálaeftirlitsins. Hinn 15. apríl 2009 voru samþykkt lög sem settu heildarrammi um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Var þá lögfest heimild til að setja slitastjórnir yfir fjármálafyrirtæki að tilteknum skilyrðum uppfylltum, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, og kemur það í hlut héraðsdómara sem tekur fjármálafyrirtæki til skipta að skipa því slitastjórn. Hefur slitastjórnin flestar sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús, eins og nánar er lýst í lögunum.
Samkeppniseftirlitið birti í byrjun júní 2011 skýrslu sem heitir Samkeppni eftir hrun. Í tilkynningu um skýrsluna sagði að nokkrir hvatar væru í kerfinu sem toguðu í ranga átt og tefðu ferlið við endurskipulagningu fyrirtækja og endurreisn atvinnulífsins. Þar er fyrst nefndur þessi hvati:
„Umsýsluvandi“ (Freistnivandi I). Hann endurspeglast í því að þeir aðilar sem starfa við að leysa úr vandamálunum hafa af því talsverðar tekjur og byggja lifibrauð sitt á því. Þrátt fyrir góðan ásetning vinna hagsmunir þeirra af tekjuöflun og atvinnuöryggi gegn hagsmunum samfélagsins af hraðri úrlausn. Hér eiga í hlut skilanefndir, starfsmenn í úrlausnarferlum bankanna, starfsmenn viðkomandi fyrirtækja o.fl.
Haustið 2011 tóku slitastjórnir við af skilanefndum bankanna. Þegar vakið er máls á háum launum slitastjórnarmanna er brugðist við á þann veg að kröfuhafar standi undir kostnaðinum. Á þennan hátt er leitast við að drepa umræðum á dreif með slíku tali. Miklu nær er að huga að ábendingum samkeppniseftirlitsins um „umsýsluvandann“ það er hag fólks af því að draga lausn mála á langinn vegna eigin hagsmuna en gegn hagsmunum samfélagsins.
Ber enginn ábyrgð á að bregðast við ábendingu samkeppniseftirlitsins um umsýsluvandann?
Miðvikudagur 11. 09. 13
Í dag ræddi ég við Einar K. Guðfinnsson, forseta alþingis, í þætti mínum á ÍNN. Næsta útsending samtals okkar er á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Allir sem hafa áhuga á störfum alþingis ættu að hlusta á Einar lýsa hugmyndum sínum um hvað þar megi betur fara.
Það var undarlegt að lesa á Eyjunni að Björg Eva Erlendsdóttir sem situr nú í stjórn ríkisútvarpsins fyrir vinstri græna og hefur stundað fjölmiðlastöf fyrir þá undanfarin ár segir mig sem menntamálaráðherra hafa kallað á hana á heimili mitt að lokinni fréttavakt til að veita henni ákúrur vegna starfa hennar á fréttastofu ríkisútvarpsins á þeim tíma. Þetta er einfaldlega ímyndun hennar. Ég hef aldrei haft húsbóndavald yfir fréttamönnum útvarpsins og aldrei mér hefur aldrei dottið í hug slíkt feilspor að kalla þá á fund heim til mín í því skyni að ræða störf þeirra.
Ef menn slá inn sem leitarorði hér á síðunni nafninu Björg Eva Erlendsdóttir og lesa það sem ég hef sagt frá henni á undanförnum árum sjá þeir að mér hefur þótt margt af því sem hún hefur sagt og gert harla undarlegt. Hinn 18. nóvember 2008 birti ég til dæmis þetta hér á síðunni:
„Björg Eva Erlendsdóttir var meðal annars þingfréttari fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Hún sat fyrir svörum á NASA-fundinum í gær og á vefsíðunni Nei segir:
„Björg Eva Erlendsdóttir sagðist ætla að reyna að skýra hvers vegna fjölmiðlar séu ekki sterkari en raun ber vitni. Því miður hafi spillingin náð inn í fjölmiðlana – auðmenn hafi haft afskipti af ritstjórn. „Einn ætlaði að kaupa blað til að leggja það niður,“ sagði hún. „forysta Sjálfstæðisflokksins hefur árum saman haft puttana í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins. Sjálfstæðisflokkurinn fór mikinn á Ríkisútvarpinu ár eftir ár, fyrst sjónvarpinu en svo í fréttaflutningi öllum, svo liggur við að fréttastofan hafi orðið málgagn flokksins. Þeir sem ekki tóku þátt voru lagðir í einelti. Sumir hrökkluðust burt en aðrir þrauka þarna enn. Það hefur verið nauðsyn á flokksskírteinum á fréttastofum Sjónvarpsins síðasta áratug. Afskiptunum lauk aldrei.““
Ég skora á Björg Evu að rökstyðja þessa fullyrðingu sína um afskipti Sjálfstæðisflokksins með dæmum, því að þarna gefur hún til kynna að samstarfsmenn hennar hafi starfað sem handbendi Sjálfstæðisflokksins við flutning frétta.“
Í þessum orðum í nóvember 2008 hafði hún fólk fyrir rangri sök eins og hún vegur nú að mér án þess að færa nokkrar sönnur á mál sitt.
Þriðjudagur 10. 09. 13
Það hefur verið spennandi og fróðlegt að fylgjast með atburðarásinni frá því í gær þegar John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði eins og í framhjáhlaupi á blaðamannafundi í London að samþykktu Sýrlandsstjórn að láta öll efnavopn sín af hendi kynni það að koma í veg fyrir hefndarárás Bandaríkjamanna fyrir efnavopnaárásina 21. ágúst sem varð 1429 manns að bana. Um svipað leyti og talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði að Kerry hefði bara viljað vekja máls á þessu til að skapa umræður bárust fréttir frá Moskvu um að Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefði breytt lauslegri hugmynd í tillögu og utanríkisráðherra Sýrlands litist vel á hana. Síðan tóku Angela Merkel og David Cameron í sama streng og um kvöldið var Barack Obama kominn í hóp þeirra sem vildu kanna málið til hlítar.
Bæði Vladimir Pútín og Barack Obama hafa hag af umræðum um tillöguna og að þessi leið verði farin til að refsa fyrir efnavopnaárásina. Pútín tekst með þessu að skipa Rússlandi við hlið Bandaríkjanna sem áhrifaríki á alþjóðavettvangi, ríki sem hafi alþjóðlegan slagkraft. Þetta var á sínum tíma æðsti draumur sovéskra ráðamanna. Obama gefst tækifæri til að skapa sér svigrúm í stöðu sem benti til að hann kynni að verða undir á Bandaríkjaþingi vegna Sýrlandsmálsins.
Menn hafa velt fyrir sér hvort atburðarásin hafi verið eftir handriti eða leikin af fingrum fram. Ég hallast að síðari skoðuninni. Þótt menn hafi rætt um þessa leið eins og Rússar segja að Pútín hafi gert við Obama í St. Pétursborg ber framvinda málsins með sér að leikið sé af fingrum fram fyrir opnum tjöldum.
Þessi atburðarás öll vegna efnavopnanna verður örugglega tekin sem skólabókardæmi í alþjóðastjórnmálum þar sem gífurlega mikið er í húfi í ákaflega flókinni stöðu. Besta nýting á herafla fæst ef hótun um að beita honum leiðir til nýrrar og betri stöðu. Hefur það ekki gerst hér? Hitt er síðan óvíst hvort sá sem hótar fær umboð á heimavelli til að láta til skarar skríða ef á þarf að halda.
Mánudagur 09. 09. 13
Erna Solberg, formaður Hægri, verður næsti forsætisráðherra Noregs. Flokkur hennar jók þingmannafjölda sinn um 18 í kosningunum í dag en Verkamannaflokkur Jens Stoltenbergs forsætisráðherra tapaði níu þingmönnum. Stoltenberg tilkynnti í kvöld að hann mundi biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 14. október eftir að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 hefði verið lagt fyrir stórþingið.
Borgaraflokkarnir hafa afdráttarlausan meirihluta í stórþinginu 96 þingmenn gegn 72. Stoltenberg hefur verið forsætisráðherra í átta ár og segir að hin langa stjórnarseta hafi átt þátt í að flokkurinn og ríkisstjórnin náði ekki betri árangri þá hafi flokknum ekki tekist að virkja kjósendur sína á nógu öflugan hátt.
Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, segir að hún vilji semja um aðild að ríkisstjórn og flokkur hennar stigi hið sögulega skref að eignast ráðherra.
Þegar leiðtogar norsku flokkanna hittust í sjónvarpssal að kvöldi kjördags var óljóst hvort sósíalíski vinstriflokkurinn kæmist yfir 4% þröskuldinn inn í stórþingið.
Þetta eru söguleg úrslit í mörgu tilliti. Nú er til dæmis aðeins ein vinstristjórn á Norðurlöndunum, í Danmörku. Ríkisstjórnin þar hefur lagt Barack Obama Bandaríkjaforseta öflugastan stuðning í Sýrlandsmálinu.
Sunnudagur 08. 09. 13
Leikritið Rautt í Borgarleikhúsinu eftir John Logan í fagmannlegri þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur þar sem Jóhann Sigurðarson leikur listmálarann Mark Rothko (1903-1970) og Hilmar Guðjónsson aðstoðarmann hans Ken undir leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur lýsir innri baráttu listmálara í New York undir lok sjötta áratugarins og ást hans á eigin verkum. Allt fellur vel saman og gerir kvöldstundina eftirminnilega. Leikurinn var góður og sveiflur í verkinu markvissar. Þegar Rothko tekur syrpuna gegn samtímalistamönnum sínum eins og Andy Warhol var ég sammála honum, ég hef aldrei áttað mig á dálætinu á Warhol.
Laugardagur 07. 09. 13
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor birti í gær í Morgunblaðinu opið bréf með fimmtán spurningum til Roberts Wades prófessors frá London. Wade hefur ásamt dr. Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, núverandi lektor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, skrifað ýmsar greinar um íslensk málefni eftir hrun í erlend blöð og tímarit. Á sínum tíma vakti til dæmis grein þeirra í Le Monde athygli mína vegna þess hve fullyrðingagjörn hún var og reist á hleypidómum.
Spurningar Hannesar Hólmsteins lúta einmitt að fullyrðingum í þessum greinum. Í grein á Pressunni í gær segir Hannes að hann hafi sótt opna málstofu þann sama dag. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hélt hana með Wade. Þar fékk Hannes góðfúslegt leyfi fundarstjóra til að bera fram eina spurningu við Wade. Hannes spurði:
„Þú [Wade] hefur skrifað í New Left Review og Huffington Post, að íslenska hagstofan hafi verið kúguð til að stinga undir stól upplýsingum um þróun í átt til ójafnari tekjudreifingar. Hver eru gögn þín fyrir þessari alvarlegu ásökun á hendur hagstofunni, og ef þú getur ekki lagt fram nein gögn, ertu þá reiðubúinn að draga þessa ásökun til baka?“
Wade neitaði að svara spurningunni, þetta væri ekki umræðuefni fundarins. Þögn Wades er til marks um að hann og dr. Sigurbjörg fóru út fyrir hófleg mörk í fullyrðingagleði sinni og gættu ekki að grunnreglum um öruggar heimildir. Dr Sigurbjörg hljóp jafnan undir bagga með stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í stjórnartíð hennar. Skoðun hennar og Wades á hruninu og afleiðingum þess er flokkspólitísk en ekki fræðileg.
Föstudagur 06. 09. 13
Það þarf mikinn styrk, andlegan og líkamlegan, til að jafna eftir að hafa verið undir 4:1 fram í síðari hálfkeik. Íslenska landsliðinu í knattspyrnu tókst þetta á Stade de Suisse leikvanginum í Bern í kvöld. Glæsilega gert!
Kvikmyndin Burn After Reading eftie Coen-bræður með Brad Pitt, Frances McDormand, George Clooney og John Malkovich í aðalhlutverkum var sýnd á DR 2 í kvöld. Hún var setningarmynd á Feneyja-kvikmyndahátíðinni árið 2008. Myndin ber skýr höfundareinkenni, gráglettinn húmor í ótrúlegri atburðarás.
Fimmtudagur 05. 09. 13
Í gær taldi ég augljóst að fréttastofa ríkisútvarpsins vildi gera forseta Íslands tortryggilegan þegar hún tíundaði í frétt um svikahrapp að forseti hefði náðað hann. Af viðbrögðum venjulegra hlustenda mátti ráða að hér lægi fiskur undir steini enda var framsetning fréttastofunnar á þann veg. Ég lýsti því gangi náðunarmála hér á síðunni.
Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur ekki séð ástæðu til að biðja forseta Íslands afsökunar heldur birti hún „frétt“ í hádeginu í dag um náðanir þar sem sagði meðal annars:
„Sækja þarf sérstaklega um náðun og starfar þriggja manna náðunarnefnd á vegum innanríkisráðuneytisins sem fer yfir allar beiðnir. Nefndin leggur mat á þær og gerir tillögu um afgreiðslu til ráðherra. Endanleg ákvörðun er á valdi ráðherra og þarf undirskrift hans og forseta til að náðunin taki gildi. Almennt mun farið eftir niðurstöðu nefndarinnar og hefur hvorki ráðherra né forseti neitað að undirrita tillögur nefndarinnar um náðun samkvæmt úttekt fréttastofu í fyrra. […] Að sögn innanríkisráðuneytisins hafa allar náðanir verið veittar á grundvelli alvarlegra veikinda. Á síðastliðnum áratug hefur einn maður þurft að afplána fangelsisdóm þrátt fyrir náðun, þar sem hann hélt ekki skilyrði náðunar.
Mikil leynd ríkir um hverjir fá náðun. Beiðnum fréttastofu um slíkar upplýsingar hefur verið hafnað þegar þær hafa verið sendar. Hefur þá verið vísað til þess að í slíkum skjölum sé að finna viðkvæmar persónuupplýsingar, meðal annars um heilsu viðkomandi.“
Aðeins sérfræðingar í Efstaleitisfræðum skilja hvaða erindi þessi „frétt“ átti við hlustendur – er „fréttin“ að fréttastofan hafi gert einhverja úttekt í „fyrra“?! Eða að leynd hvíli yfir nöfnum þeirra sem eru náðaðir? Það hefði verið frétt ef fréttastofan hefði skýrt frá hvar hún fékk staðfestingu á að svikahrappurinn hefði verið náðaður og hvenær. Auðvitað var og er þetta engin frétt heldur aumlegt yfirklór manna sem hafa ekki þrek til að biðja forseta Íslands afsökunar þegar þeir hlaupa á sig.
Hvers vegna hefur almenningur ekki frelsi til að ákveða hvort hann vill fjármagna þessa starfsemi?
Miðvikudagur 04. 09. 13
Í kvöldfréttum ríkisútvarpsins var sagt frá svikahrappi sem um árabil hefur haft fé af saklausu fólki. Undir lok fréttarinnar sagði: „Samkvæmt heimildum fréttastofu þurfti hann ekki að sitja af sér þann dóm að hluta eða öllu leyti því forseti Íslands náðaði hann.“
Formlega áritar forseti Íslands tillögu um náðun. Hann tekur hins vegar ekki efnislega afstöðu til hennar og ekki heldur ráðherrann sem leggur tillöguna fyrir forseta, hann er bundinn af niðurstöðu þriggja manna nefndar, náðunarnefndar. Ferlinu við náðun er lýst á þennan hátt á vefsíðu innanríkisráðuneytisins:
„Þegar náðunarbeiðni berst ráðuneytinu er Fangelsismálastofnun ríkisins eða innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar tilkynnt um hana og óskað eftir gögnum. Viðkomandi stofnun eru veittar tvær til þrjár vikur til að skila gögnum. Náðunarbeiðnin er síðan send náðunarnefnd sem gerir tillögu til innanríkisráðherra um afgreiðslu málsins. Nefndin fundar að jafnaði einu sinni í mánuði og er málsmeðferð fyrir nefndinni skrifleg. Ef fallist er á náðunarbeiðni er gerð tillaga til forseta Íslands. Ef ekki er fallist á náðunarbeiðni sendir ráðuneytið bréf þar sem synjunin er tilkynnt.“
Sá sem fellst á náðunarbeiðnina er náðunarnefnd. Hún kemst að hinni efnislegu niðurstöðu. Hafi svikahrappurinn verið náðaður á sínum tíma eins og fréttastofan fullyrðir gefur það ekki rétta mynd af málinu að bendla náðunina við forseta Íslands, hann er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, þar á meðal náðunum. Þessi þáttur fréttarinnar ber vott um vanþekkingu, léleg vinnubrögð eða vísvitandi tilraun til að gera undirritun forseta Íslands tortryggilega.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttamenn afflytja mál af þessu tagi af gáleysi eða ásetningi. Það gerðist einnig fyrir nokkrum árum þegar Árni Johnsen fékk uppreist æru og handhafar forsetavalds rituðu undir hana. Þá var afgreiðslan talin til marks um pólitíska spillingu þótt það hefði verið ólögmæt mismunun að verða ekki við ósk lögmanns Árna. Forseti Íslands var erlendis og þess vegna rituðu handhafarnir undir eins og venjulegt er og þykir ekki fréttnæmt hafi fréttamaðurinn ekki óeðlilegt markmið.
Þriðjudagur 03. 09. 13
Í kvöld hófst rússneskur vetur í Kvikmyndasafni Íslands í Bæjarbíói í Hafnarfirði með sýningu á fyrsta hluta kvikmyndar frá 1969, stórmyndarinnar Karamazov-bræðurnir eftir samnefndu meistaraverki Fjodors Dostojevskíjs. Kvikmyndasafnið hefur látið þýða myndina af þessu tilefni og er hún sýnd með íslenskum neðanmálstexta.
Það var gaman að koma í Bæjarbíó og er ómetanlegt að kvikmyndsafnið hafi þessa aðstöðu. Yrði skaði ef salurinn yrði tekinn af safninu til annarrar notkunar.
Kvikmyndin sem sýnd var í kvöld er sígilt listaverk.
Furðulegar eru upphrópanir manna um að svipta eigi þjóðina menningarstofnunum við forgangsröðun ríkisútgjalda. Þeir sem þannig tala átta sig ekki á að þessar stofnanir eru hluti gæða sem stuðla að vellíðan og þar með betri og meiri árangri í daglegum störfum. Að meta þennan hluta mannlífsins til fjár er ekki á allra færi.
Mánudagur 02. 09. 13
Viðtal mitt á ÍNN við Ragnar Axelsson (Rax) ljósmyndara um nýja bók hans, Fjallamenn er komið á netið og má sjá hann hér.
Björn Valur Gíslason er furðulegt fyrirbæri í stjórnmálum og netheimum. Hann er varaformaður VG þótt hann hafi kolfallið í prófkjöri flokks síns Reykjavik. Hann segir meðal annars á vefsíðu sinnig mánudaginn 30. ágúst:
---
„ Morgunblaðið er að stærstum hluta í eigu Íslenskra útgerðarmanna. Morgunblaðinu er ritsýrt af fyrrverandi formanni sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Morgunblaðið er ekki hlutlaust blað. Morgunblaðið er flokksblað. Morgunblaðið er áróðursblað.
Margir skólar (jafnvel flestir?) hafa bannað eða takmarkað mjög dreifi- og kynningarrit utan að komandi aðila í skólum. Þetta á t.d. við um íþróttafélög, trúfélög, stjórnmálaflokka og hverskonar auglýsingar. Hvað margir skólar kenna Morgunblaðið? Í hvað mörgum skólum fá kennarar Morgunblaðið „skólum að kostnaðarlausu“ í hendur sem námsgagn? Hvernig er námsmati háttað við kennslu í Morgunblaðinu?“
---
Heiftin sem birtist í þessum texta er til marks um dæmigerða sósíalíska ritskoðunaráráttu sem ástæða er til að mótmæla. Hver má eiga blað sem lesið er í grunnskólum? Hvernig á að kenna börnum lífsleikni sem mælt er fyrir um í námskrá ef ekki má leyfa þeim að lesa dagblöð? Björn Valur nefnir ekki neitt efni í Morgunblaðinu sem skaðar lesendur heldur eigendur og ritstjóra sem hann treystir ekki til vinnastarf sitt án þess að valda börnum skaða.
Hvernig ætli sé háttað aðgangi nemenda að netheimum? Vill Björn Valur banna þeim aðgang að vefsíðu sinni?
Sunnudagur 01. 09. 13
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Peer Steinbrück, kanslaraefni jafnaðarmanna, háðu sjónvarpseinvígi í kvöld, hið eina í kosningarbaráttunni sem lýkur eftir þrjár vikur. Fjórir umræðustjórar frá jafnmörgum sjónvarpsstöðvum spurðu frambjóðendurna í 90 mínútur og niðurstaðan er að Angela Merkel sigraði. Þetta sýnir könnun á vegum sjónvarpsstöðvarinnar ZDF. Hjá ARD stöðinni voru áhorfendur hlynntari Steinbrück en Merkel þótt munurinn væri ekki mikill.
Frá mínum bæjardyrum séð hafði Merkel betur en Steinbrück, hann vekur ekki þá tilfinningu að hann sé einlægur eða gefi mikið af sér heldur sé hann kaldlyndur flokkshestur.
Eftir að hafa fylgst með Merkel sigla á milli skerja í evru-skuldakreppunni var forvitnilegt að fylgjast með henni verja árangur sinn í þessum þætti. Henni tókst það á yfirlætisfullan hátt en trú starfsháttum sínum nálgaðist hún ekki kjósendur með hástemmdum loforðum.