9.9.2013 22:45

Mánudagur 09. 09. 13

Erna Solberg, formaður Hægri, verður næsti forsætisráðherra Noregs. Flokkur hennar jók þingmannafjölda sinn um 18 í kosningunum í dag en Verkamannaflokkur Jens Stoltenbergs forsætisráðherra tapaði níu þingmönnum. Stoltenberg tilkynnti í kvöld að hann mundi biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 14. október eftir að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 hefði verið lagt fyrir stórþingið.

Borgaraflokkarnir hafa afdráttarlausan meirihluta í stórþinginu 96 þingmenn gegn 72. Stoltenberg hefur verið forsætisráðherra í átta ár og segir að hin langa stjórnarseta hafi átt þátt í að flokkurinn og ríkisstjórnin náði ekki betri árangri þá hafi flokknum ekki tekist að virkja kjósendur sína á nógu öflugan hátt.

Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, segir að hún vilji semja um aðild að ríkisstjórn og flokkur hennar stigi hið sögulega skref að eignast ráðherra.

Þegar leiðtogar norsku flokkanna hittust í sjónvarpssal að kvöldi kjördags var óljóst hvort sósíalíski vinstriflokkurinn kæmist yfir 4% þröskuldinn inn í stórþingið.

Þetta eru söguleg úrslit í mörgu tilliti. Nú er til dæmis aðeins ein vinstristjórn á Norðurlöndunum, í Danmörku. Ríkisstjórnin þar hefur lagt Barack Obama Bandaríkjaforseta öflugastan stuðning í Sýrlandsmálinu.