Dagbók: nóvember 2014

Sunnudagur 30. 11. 14 - 30.11.2014 19:00

Svissneskir kjósendur höfnuðu í dag með yfirgnæfandi meirihluta (77%) í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu um að Seðlabanki Sviss skyldi jafnan sjá til þess að 20% af varasjóði hans væri í gulli. Svissneski þjóðarflokkurinn stóð að baki tillögunni til að minnka evru-eign bankans en hann hefur safnað hundruð milljarða evra síðan bankastjórnin ákvað árið 2011 að evran skyldi ekki skráð á minna en 1,20 svissneskan franka til að standa vörð um svissneskan útflutning. Evran hefur lækkað gagnvart dollar og pundi.

Nú eru 522 milljarðar frankar í varasjóði bankans og rúmlega helmingur hans er í evrum en 7,5% í gulli. Í tillögunni sem var felld fólst að seðlabankinn flytti allt gull í eigu sinni til Sviss, 20% af varasjóðnum væri gull og bankinn mætti ekki selja meira gull. Hefði tillagan hlotið samþykki hefði bankinn orðið að kaupa 1.700 lestir af gulli – 70% af árlegri heimsframleiðslu – fyrir um það bil 70 milljarða franka til að ná 20% markinu árið 2019.

Í dag höfnuðu Svisslendingar einnig (74%) tillögu um að setja enn strangari skorður en áður við búsetu innflytjenda í landinu. Var tillagan flutt í nafni umhverfisverndar. Fjölgun fólks reyndi á veika innviði og spillti náttúrunni.

Þriðja tillagan sem var felld í Sviss í dag með 60% atkvæða var um að svipta  5.729 erlenda auðmenn sem samið hafa um skattgreiðslur við yfirvöld í landinu sérréttindum þeirra. Hér er um að ræða um 1 milljarð franka (830 milljónir evra) sem þessir einstaklingar greiða í Sviss til að komast hjá hærri skattgreiðslum í heimalöndum sínum. Vinstrisinnar fluttu tillöguna í nafni jafnréttis en henni var andmælt með þeim rökum að Svisslendingar myndu einfaldlega fara á mis við þessar tekjur með samþykkt hennar og yrðu að greiða hærri skatta sjálfir til að brúa bilið.

Allt eru þetta verðug álitaefni og mikilvægt að fá úr þeim skorið svo að þau séu ekki að þvælast fyrir öðrum viðfangsefnum á borði stjórnenda Sviss. Í íslenskum stjórnmálum eru nokkrir draugar sem ganga aftur hvað eftir annað. Væri vissulega æskilegt að geta kveðið þá niður með þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún krefðist þess að kjósendur kynntu sér málavöxtu og hvaða dilk atkvæði þeirra drægi á eftir sér. Hér skulu nefnd þrjú mál: fiskveiðistjórnun, ákvörðun um virkjanakosti og ESB-málið.

 

Laugardagur 29. 11. 14 - 29.11.2014 18:00

Þegar stjórnarandstaðan tók í vikunni að ræða vönduð vinnubrögð vegna rammaáætlunar um virkjanakosti minnti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á lýsingu í bók Össurar Skarphéðinssonar, fyrrv. utanríkisráðherra, á stjórnmálunum árið 2012 og þar á meðal hrossakaupunum innan ríkisstjórnar Jóhönnu um að VG styddi ESB-umsóknina en Samfylkingin rammaáætlunina. Að þessi hrossakaup hafi bundið alþingi um aldur og ævi eða núverandi ríkisstjórn er fráleitt.

Af ræðum stjórnarandstæðinga á þingi fimmtudaginn 27. nóvember má ráða að vísan Bjarna í Össur hitti þá illa og féllu forvitnileg ummæli af því tilefni. Oddný G. Harðardóttir, flokkssystir Össurar, sem sat með honum í ríkisstjórn árið 2012 sagðist ekki hafa lesið það sem hún kallaði „ævisögu“ Össurar. Lilja Rafney Magnúsdóttir (VG) talaði um „skáldsögu“ Össurar og síðan „einhver[n] samsetning á skáldsögu í bland við æviminningar fullorðins manns“. Svandís Svavarsdóttir (VG) sagði ríkisstjórnina ekki hafa „aðrar heimildir en jólabókaflóðið í fyrra máli sínu til stuðnings“  og það væri „náttúrlega alveg afskaplega vandræðalegt“.

Róbert Marshall (Bf), fyrrverandi flokksbróðir Össurar, átti erfitt með að hemja sig eins og þessi orð sýna:

Þvílíkt kjaftæði. Þvílíkt rugl. Þvílíkir hræsnarar eru það sem láta slíkt [stjórnarsáttmálann] frá sér og segjast starfa eftir því og koma síðan með svona vinnubrögð hérna inn í þingið. Þvílík hræsni. Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins í þessum þingsal […] af því að einhver annar hefur gert eitthvað sem er líka slæmt. Það er leiðarljósið á borði hæstv. iðnaðarráðherra, bók hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hún er leiðarljós ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Þvílík hræsni og þvílíkt kjaftæði.“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar (Bf), sagði: „Ég hef ekki lesið ævisögu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ef ég les í bókum eitthvað sem mér finnst dæmi um slæm vinnubrögð hugsa ég: Ég ætla ekki að gera svona, ég ætla að gera betur.“

Róbert Marshall og Guðmundur Steingrímsson studdu ríkisstjórn Jóhönnu og fundu aldrei neitt að hrossakaupunum um  ESB og rammaáætlunina. Hve lengi þeir líta á sjálfa sig sem pólitíska hvítvoðunga og komast upp með það er stjórnmálafræðilegt rannsóknarefni.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra (S), sagðist engan hafa heyrt segja að Össur hefði farið rangt með og sagt ósatt í bók sinni. Á því væri hins vegar munur að véla um hluti í bakherbergjum eða leggja fram um þá tillögu til þingsályktunar.

 

Föstudagur 28. 11. 14 - 28.11.2014 21:45

Herta Müller hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2009. Bækur hennar og fyrirlestrar snúast ætíð um einræði og áhrif þess á líf þjóða og einstaklinga. Hún er frá Rúmeníu og bjó lengi undir eftirliti öryggislögreglunnar þar, Securitates.

Nýlega kom út viðtalsbók við Hertu Müller í Þýskalandi undir heitinu Men Vaterland war ein Apfelkern – Föðurland mitt var eplakjarni. Þar ræðir hún við Angeliku Klammer um æsku sína og uppvöxt undir einræði og hvaða áhrif það hafði á hana sem höfund.

Vegna útgáfu bókarinnar hefur Herta Müller veitt þýskum fjölmiðlum viðtöl. Í Der Spiegel sagði hún að bókin og skoðanir sínar í henni ættu brýnt erindi við samtímann vegna framgöngu Vladimírs Pútíns og stjórnarhátta hans. Hún segir að nú geti menn kynnst sambærilegum ógnum og hún bjó við í Rúmeníu í Rússlandi og Úkraínu.

Hún segir að eins og aðrir íbúar Austur-Evrópu hafi hún um langt árabil búið við kúgun af hálfu þvingunarvalds (flokks, hers, lögreglu og leyniþjónustu) að sovéskri fyrirmynd. Liðsmenn hafi hlotið þjálfun í Moskvu og verið stjórnað þaðan fram til ársins 1989. Austur-Evrópubúar hafi mátt þola alltof náin kynni af pólitískri frekju Rússa, þjóðernishroka þeirra og efnahagslegu tillitsleysi í gripdeildum meðal nágranna sinna. Engri þjóð hafi verið leyft að móta eigið svipmót og gæta eigin hagsmuna. Eftir að Sovétríkin hrundu hafi menn andað léttar í þessum löndum í von um að aldrei framar myndu þeir kynnast öðru eins. Þessi von hafi orðið að engu eftir að Pútin hafi farið eins og þjófur inn á Krímskaga og sölsað hann undir sig. Við það hafi óttinn að nýju heltekið þjóðir Austur-Evrópu.

Í augum Hertu Müller er Pútín ekki annað en útsendari KGB sem vill snúa klukkunni aftur til Sovéttímans. Hann og klíka hans hafi alla þræði Rússlands í hendi sér. KGB-hugsunarháttur hans birtist æ oftar og hann sjái óvin í hverju horni. Hann þarfnist óvina til að geta logið upp á þá og þannig þjappað Rússum að baki sér. Hann segist verndari hins slavneska heims sem úrkynjaðir Vesturlandabúar vilji eyðileggja. Honum sé nauðugur einn kostur að veita Rússum erlendis vernd.

Pútín hafi hafið árás í krafti rússnesku leyniþjónustunnar með því að senda rússneskar sérsveitir á vettvang. Hann ætli að grafa undan stjórnvöldum í Úkraínu – undirróður sé orðinn fastur liður í utanríkisstefnu Pútíns.

Þetta eru sterk varnaðarorð sem hafa ber í huga þegar framvinda mála í Úkraínu, Georgíu og Moldóvu er metin.  Þá er augljóst að undirróður Pútíns á hljómgrunn vestar í Evrópu og á hinum  ólíklegustu stöðum.

Fimmtudagur 27. 11. 14 - 27.11.2014 18:45

Í dag fluttu Hákon L. Åkerlund og Ægir Þórðarson, öryggissérfræðingar Landsbankans fyrirlestur á fundi Varðbergs um ógnir sem steðja að tölvum Íslendinga um þessar mundir. Hér er um brýnt viðfangsefni að ræða því að í netheimi er háð stöðugt stríð sem teygir sig inn í tölvu hvers einasta manns eins og sannaðist í máli þeirra félaga. Blaðamaður Morgunblaðsins var á fundinum og skrifaði um hann á mbl.is og má lesa hana hér.

Líklega eru margir sem telja að Íslendingar þurfi ekki að sýna aðgát vegna hernaðarins og glæpastarfseminnar sem háð er í netheimum. Andvaraleysi í þessu efni kallar hins vegar hættur yfir alla tölvueigendur. Í máli öryggissérfræðinganna kom fram að lög hér á landi til verndar notendum í netheimi væru ófullnægjandi og stæðust ekki samanburð við það sem væri í öðrum löndum.

Eins og nýlegar umræður sanna láta margir eins og ástæðulaust sé fyrir íslensk yfirvöld að vera við öllu búin vegna hættu af hryðjuverkamönnum Íslamska ríkisins eða öðrum. Nú hefur Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, gengið fram og kynnt að lögregla þurfi að aukinn vopnabúnað og vísað til vaxandi hættu að mati yfirvalda í öllum Evrópulöndum. Hér má sjá frétt um þetta

Fréttin er af vefsíðu ríkisútvarpsins ruv.is en af afstöðu starfsmanna þess má álykta að þeir telji ekki þörf á að gera hér sérstakar öryggisráðstafanir á sama hátt og gert er í nágrannaríkjum. Má sjá dæmi um þá skoðun hér. 

Séu menn þeirrar skoðunar að ástæðulaust sé að leggja sama mat á hryðjuverkahættu hér og gert er annars staðar telja þeir líklega einnig að ekki sé ástæða til að verja eigin tölvur og annarra, hættan sé önnur hér en annars staðar. Á Varðbergsfundinum í dag bentu öryggissérfræðingar Landsbankans á að hættulegasta viðhorfið væri að láta eins og þetta gerðist aldrei hér – það gerðist nefnilega oft á dag og í sífellu að ráðist væri á tölvur Íslendinga til komast yfir persónupplýsingar og fjármuni.

 

Öryggissérfræðingar Landsbankans hafa fingurinn á púlsinum og átta sig nákvæmlega á gangi mála. Þeir standa að þessu leyti jafnfætis starfsbræðrum erlendis og bregðast oft fyrr við hættu en þeir. Lögreglan stendur hins vegar verr að vígi en starfsbræður erlendis, ekki aðeins vegna skorts á vopnum heldur einnig vegna skorts á upplýsingum af því að hér á landi er engin leyniþjónusta.

 

 

 

Miðvikudagur 26. 11. 14 - 26.11.2014 21:00

Hinn 19. nóvember ræddi ég við Ragnar Jónasson rithöfund á ÍNN og má sjá þáttinn hér.

Í dag ræddi ég hins vegar við Sigríði Hjartar í Múlakoti um áformin um að endurgera gamla bæinn þar og hinn sögufræga garð á staðnum.  Má sjá samtalið klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Stofnuð hefur verið sjálfseignarstofunun um framtakið og unnið er að því að koma á fót vinafélagi til að skapa sjálfseignarstofnuninni umgjörð stuðningsmanna.

Fjármálaráðuneytið kynnti í dag tillögu um ráðstöfun á fjármunum sem ekki voru á hendi þegar unnið var að fjárlagafrumvarpinu sl. sumar. Ákveðið hefur verið að matarskattur hækki úr 7% í 11% en ekki 12% eins og fyrir liggur í frumvarpi til fjárlaga. Við þessa breytingu fallast þingmenn Framsóknarflokksins á hækkun skattsins.

Tilkynningin um 11%  matarskattinn varð fréttamanni ríkisútvarpsins tilefni til einhverra fullyrðinga frá eigin brjósti í hádegisfréttum sem fjármálaráðuneytið leiðrétti síðan með sérstakri yfirlýsingu síðar í dag.

Í kvöldfréttum ræddi fréttamaður ríkisútvarpsins við Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar alþingis, um ákvörðun stjórnarflokkanna um að hækka framlag til Landspítala um einn milljarð króna. Fréttamaðurinn nálgaðist viðfangsefnið á þann veg að þessi hækkun væri bara sjálfsögð af því að landsmenn lifðu lengur og þyrftu því meiri umönnun. Vigdís minnti hann á að þróunin hefði einnig verið á þennan veg á síðasta kjörtímabili og þá hefði framlag til spítalans verið lækkað.

Þessi tvö dæmi um efnistök fréttamanna ríkisútvarpsins eru nefnd hér vegna þess að þau eru til stuðnings því sem fram kemur í grein sem Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar um ríkisútvarpið í Morgunblaðið í dag og lesa má hér.

Það er engin tilviljun að dragi úr áhorfi á sjónvarpsfréttir ríkisins og Kastljós. Tilgangur fréttamanna virðist frekar vera að skapa viðmælendum sínum vandræði en að afla frétta og miðla upplýsingum.

Þriðjudagur 25. 11. 14 - 25.11.2014 19:30

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu, kynnti þá reglu að aðstoðarmenn ráðherra geti einungis óskað eftir gögnum sem varða pólitísk störf ráðherra eða stefnumótun. Friðrika Benónýsdóttir, leiðarahöfundur Fréttablaðsins, segir af þessu tilefni í leiðara blaðsins í dag að það sé „innantómt froðusnakk og píslarvættisvæl“ hjá Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, að bera fyrir sig að sér hafi verið skylt að verða við tilmælum aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánasdóttur um gögn varðandi Tony Omos hælisleitanda.

Leiðari Friðriku einkennist af stóryrðum og fordómum. Engu er líkara en stefna Fréttablaðsins sé að leiðarar skuli skrifaðir án þess að sjálfstætt mat sé lagt á sannleiksgildi fullyrðinga sem við er stuðst til að draga þá ályktun sem fellur að ofstækisfullri afstöðu hverju sinni.

Skilgreining Ragnhildar Hjaltadóttur á störfum umboðsmanns er nýmæli. Hvar hefur sú regla verið mótuð eða birt sem hún lýsir?

Ómar H. Kristmundsson er prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Árið 2005 birti hann grein í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla sem ber heitið: Bakgrunnur aðstoðarmanna ráðherra og má lesa hana hér.

Ómar segir ekki allt ljóst varðandi skipulagslega stöðu aðstoðarmanns ráðherra og um hana geti skapast ágreiningur, fyrst og fremst varðandi verkaskiptingu aðstoðarmanns og ráðuneytisstjóra, til dæmis ef aðstoðarmaður beini erindum til undirmanna ráðuneytisstjóra án hans vitundar, komi fram fyrir hönd ráðuneytis fremur en ráðuneytisstjóri og aðstoðarmaður komist í þá stöðu að vera eins konar milliliður ráðherra og embættismanna.

Af greininni má ráða af stöðu aðstoðarmanns sem sérstaks trúnaðarmanns ráðherra geti hvorki ráðuneytisstjóri né aðrir starfsmenn ráðuneyta sagt honum fyrir verkum.  Þeim sé hins vegar skylt að láta honum í té gögn og upplýsingar, sem hann þarf á að halda til þess að geta unnið þau störf, sem ráðherra felur honum.

Hefði leiðarahöfundur Fréttablaðsins gefið sér tóm til að kynna sér málavöxtu áður en tekið var til við að kasta rýrð á lögreglustjóra fyrir að bregðast við tilmælum aðstoðarmanns vegna máls sem lögreglustjórinn mátti ætla að væri til meðferðar hjá ráðherra hefði málatilbúnaðurinn kannski orðið annar. Þarna helgaði tilgangurinn hins vegar meðalið. Ætlunin er að vega að lögreglustjórnum og heiðri Sigríðar Bjarkar.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur einnig hoggið í þennan sama knérunn, til dæmis gerði Tryggvi Aðalbjörnsson fréttamaður það í hádeginu í dag raunar með tilvísun í Fréttablaðið.

ps

í upphaflegri útgáfu var ályktun mín birt sem bein tilvitnun í grein Ómars og er beðist velvirðingar á þeim mistökum.

 

Mánudagur 24. 11. 14 - 24.11.2014 19:23

Í dag ræddi ég við Þorgeir og Kristófer í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um stöðu aðstoðarmanns og fleira varðandi stjórnsýsluna vegna árása á Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Má hlusta á samtal okkar hérna. 

Reynt hefur verið að afflytja hlut Sigríðar Bjarkar í þessu máli með fréttum um að óeðlilegt hafi verið að hún brygðist við tilmælum aðstoðarmanns innanríkisráðherra um upplýsingar. Einkennilegt var að ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins skyldi segja að aðstoðarmaður hefði brotið reglur með ósk um upplýsingar um málefni sem bar hátt í fjölmiðlum á þeim tíma sem beiðnin var lögð fyrir lögreglustjórann á Suðurnesjum.

Stjórn Lögreglustjórafélags Íslands hefur ekki fengið nein boð um að félagsmenn þess eigi ekki að svara tilmælum frá aðstoðarmanni innanríkisráðherra. Í ályktun stjórnarinnar í dag kemur fram að hún lítur svo á að ekki þurfi að efast um umboð starfsmanna innanríkisráðneytisins til samskipta við lögreglustjóra. Lögreglustjórar hafi talsverð samskipti við starfsmenn innanríkisráðuneytisins og aldrei hafi það gerst að efast hafi þurft um heimild starfsmanna ráðuneytisins.

Í tilkynningu lögreglustjóranna segir að samskipti Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys Valdórssonar, þáv. aðstoðarmanns, hafi verið gerð tortryggileg. „Er það gert með því að láta að því liggja að lögreglustjórinn beri með einhverjum hætti ábyrgð á aðkomu aðstoðarmannsins og því að hann vistaði ekki minnisblaðið í skjalasafni ráðuneytisins,“ segir í ályktun stjórnar félags lögreglustjóra.

Fréttir sem snerta Sigríði Björk bera með sér að lekið hafi verið upplýsingum úr rannsóknargögnum er varða mál Gísla Freys. Það hlýtur að vera sérstakt rannsóknarefni rannsóknarblaðamanna hvaða rannsóknargögnum má leka án þess að saksóknari krefjist rannsóknar.

 

 

Sunnudagur 23. 11. 14 - 23.11.2014 21:15

Í hinum ágæta sjónvarpsþætti Orðbragði var í kvöld fjallað um þá staðreynd að ýmis starfsheiti eru karlkyns og hvort eigi að una því. Deila um þetta er ekki bundin við íslensku. Hún náði nýjum hæðum í Frakklandi fyrir skömmu þegar þingmaður var sektaður fyrir að fara ekki að þingsköpum þegar hann ávarpi konu á forsetastóli.

Frá 1998 gilda þau þingsköp í Frakklandi að það beri að féminiser eða kvengera öll ávörp í þingsalnum segja Madame la députée (frú þingkona) eða Madame la présidente (frú forseti) hið sama gildir um nefndarformenn eða fundarstjóra. Reglan nær hins vegar ekki til þess þegar ráðherra er ávarpaður. Þingmaður má því segja Madame le ministre þegar hann ávarpar ráðherra þótt hann sé kona.

Umræður um þetta verða ekki einfaldari í Frakklandi við það að Académie française, franska akademían, æðsti dómstóll franskrar tungu, er andvíg því að embætti séu kvengerð. Á vefsíðu hennar má sjá að akademían telur miður að heiti æ fleiri embætta hafi verið kvengerð hin síðari ár. Akademían leggur áherslu á að um sé að ræða embætti en ekki einstaklinga og embættið beri kyn án tillits til þess hver gegnir því og þess vegna sé eðlilegt að halda sig við eitt kyn, karlkyn sem sé í þessu tilliti hlutlaust.

Hér á landi vottar fyrir tilhneigingu til að kvengera stöðu- eða embættisheiti, einkum þegar orðið „stjóri“ á í hlut sbr. framkvæmdastýra eða jafnréttisstýra. Karlkyn starfsheita er hins vegar ráðandi: forseti, ráðherra, dómari, læknir, prestur, lögfræðingur, kennari og rithöfundur svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Á alþingi ávarpa menn konu á forsetastóli almennt „frú forseti“, Ólafur Þ. Þórðarson heitinn hélt þó fast við ávarpið „herra forseti“ þótt kona sæti á forsetastóli. Nú er algengt að heyra fliss í þingmönnum noti einhver þetta ávarp þegar kona stjórnar fundi.

 

Laugardagur 22. 11. 14 - 22.11.2014 19:00

Miðað við atgang Sunnu Valgerðardóttur fréttamanns gagnvart Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í hádegisfréttum ríkisútvarpsins í dag lítur fréttastofan á Sigríði Björk sem aðila að lekamálinu. Nú snýst það um símtöl milli Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys Valdórssonar, þáv. aðstoðarmanns innanríkisráðherra, fyrir réttu ári.

Sporgöngumenn fréttastofunnar fara af stað, þeirra á meðal Ólafur Arnarson álitsgjafi sem skorast ekki undan að ala á tortryggni í garð Sigríðar Bjarkar meðal annars með fullyrðingu um að ég hafi skipað hana lögreglustjóra á Suðurnesjum „án auglýsingar“. Þessi fullyrðing er röng.

Embættið á Suðurnesjum var auglýst og sóttu fjórir um það í nóvember 2008: Alda Hrönn Jóhannsdóttir, löglærður fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum, Ásgeir Eiríksson, fulltrúi og staðgengill sýslumannsins í Keflavík, Halldór Frímannsson, sérfræðingur og lögmaður á fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri.

Í sömu andrá og Ólafur Arnarson fer rangt með ofangreinda staðreynd segir hann: „Vonandi varpar athugun á þætti núverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu ljósi á upphaf lekamálsins.“ Hvað er álitsgjafinn að fara með þessum orðum? Við hvaða tímasetningar miðar Ólafur?

Þeim þætti lekamálsins sem snertir Sigríði Björk er lekið úr stjórnkerfinu. Að það teljist stjórnsýslu-afglöp lögreglustjóra að bregðast við erindi úr ráðuneyti eða honum beri að athuga með fyrirspurn til ráðuneytis umboð aðstoðarmanns felur í sér óvenjulega kröfu.

Í stjórnarráðslögunum frá 2011 segir að hver ráðherra geti haft tvo aðstoðarmenn og ríkisstjórnin þrjá að auki. Aðstoðarmaður ráðherra heyrir beint undir ráðherra. Meginhlutverk hans er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra. Að afla gagna um mál sem eru á borði ráðherra hverju sinni eru meðal mikilvægustu verkefna hans.

Persónuvernd birti á vefsíðu sinni bréf til lögregluembættisins á Suðurnesjum frá 19. nóvember 2014 vegna frétta „um samskipti lögreglunnar á Suðurnesjum og annars af aðstoðarmönnum innanríkisráðherra hinn 20. nóvember 2013“ Vitnað er í lagaskilyrði í bréfinu og síðan segir að ákveðið hafi verið á stjórnarfundi persónuverndar að lögreglustjóraembættið skýri frá hvaða upplýsingum var miðlað til innanríkisráðuneytisins með sendingu umræddrar greinargerðar. […] Jafnframt er þess óskað að afrit af umræddri greinargerð verði sent Persónuvernd.“

Næsta skref er að greinargerðin verði birt opinberlega svo að allur almenningur geti áttað sig á efnisatriðum lögreglurannsóknar á hendur Tony Omos. Til slíkra rannsókna er ekki gripið nema að gefnu tilefni.

 

Föstudagur 21. 11. 14 - 21.11.2014 19:15

Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði af sér embætti innanríkisráðherra í dag en situr áfram sem þingmaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að ástæðan fyrir afsögninni væri persónuleg en ekki pólitísk. Hún orðar þetta á þennan veg:

Til að skapa frið um störf ráðuneytisins og til að hlífa þeim sem þetta mál [lekamálið svonefnda] hefur bitnað illa á hef ég nú tilkynnt formanni Sjálfstæðisflokksins að ég óski eftir að hætta sem ráðherra og sækist ekki lengur eftir að gegna embætti innanríkisráðherra. Hann sýndi þeirri beiðni minni skilning, enda miklu frekar um persónulega en pólitíska ákvörðun að ræða.“

Í yfirlýsingunni kemur fram að málið hefur lagst þungt á fjölskyldu Hönnu Birnu og nú ætlar hún að taka sér frí frá þingstörfum fram að áramótum og koma þá til starfa á hinum pólitíska vettvangi á nýjan leik.

Við aðstæður sem þessar skiptir máli hvernig aðrir þátttakendur á hinum pólitíska vettvangi taka á málum. Þegar Albert Guðmundsson hvarf úr ráðherraembætti og Þorsteinn Pálsson var formaður Sjálfstæðisflokksins hélt Þorsteinn þannig á málinu í sjónvarpsviðtali að Albert stofnaði stjórnmálaflokk til höfuðs Þorsteini og Sjálfstæðisflokknum.

Margt bendir til að innan Samfylkingarinnar haldi Árni Páll Árnason formaður þannig á málinu að hann hafi ekki af því neinn sóma. Píratar eru frekar bjálfalegir í viðbrögðum sínum Birgitta Jónsdóttir segir eitt og Helgi Hrafn Gunnarsson annað en það hlakkar þó í þeim báðum. Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, sýndi af sér drengskap í orðum sínum.

Þeir sem mest hafa lagt sig í framkróka um að sverta Hönnu Birnu eru blaðamennirnir Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson á DV. Rætt er við Jóhann Pál á visir.is og hann segir:

„Já, auðvitað hlýtur maður að fagna þessu. Ráðherrann hefur barist um á hæl og hnakka í heilt ár, grafið undan trausti og trúverðugleika hverrar stofnunarinnar á fætur annarri, kastað skít og drullu yfir landlaust fólk, embættismenn og blaðamenn, allt með dyggum stuðningi tveggja stjórnmálaflokka sem gáfu valdníðslu hennar heilbrigðisvottorð, ýmist með beinum eða óbeinum hætti. Þegar litið er yfir árið vona ég að einhverjir skammist sín.“

Hugarfarið sem býr að baki þessum gífuryrðum minna á orð þessa sama blaðamanns að hann fyrirliti sjálfstæðismenn. Jóhann Páll bætir ekki hlut sinn með þessum viðbrögðum. Þau eru honum ekki til neins sóma.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur fullan sóma af sínum viðbrögðum í dag.

 

Fimmtudagur 20. 11. 12 - 20.11.2014 18:00

Átti leið í Kringluna í dag og leit þar inn í bókabúð og blaðaði í jólabókunum. Rakst meðal annars á bók Reynis Traustasonar, fyrrv. ritstjóra DV, sem heitir Afhjúpun. Skoðaði nafnaskrána og fletti upp á nokkrum nöfnum. Mín er getið á þremur stöðum.

Reynir lætur eins og ég hafi verið settur til höfuðs Jónasi Kristjánssyni þegar hann var ritstjóri Vísis. Þetta stenst engan veginn. Ég starfaði í nokkra mánuði á Vísi sumarið 1974 við ritun erlendra frétta. Minnist ég ekki annars en góðs samstarfs við Jónas sem var afskiptalítill nema á fundum með blaðamönnum. Menn vissu hvert verkefni þeirra var og skiluðu því innan settra tímamarka eins og blaðamönnum ber að gera.

Þá segir Reynir að ég hafi tapað meiðyrðamáli sem Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi höfðaði gegn mér vegna prentvillu í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi. Villu sem ég leiðrétti. Hæstiréttur sneri við dómi héraðsdóms og dæmdi mig ekki fyrir meiðyrði.

Í þriðja lagi lætur Reynir orð falla vegna ummæla minna um að Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, hefði komið fram undir merkjum samtakanna No Borders sem vilja að hælisleitendur geti farið sínu fram og í raun tekið lög og reglur í eigin hendur. Reynir segir hins vegar ekki frá áformum sínum um að fara í meiðyrðamál við mig vegna þessa en lögfræðingur hans sendi mér bréf sem mátti túlka sem undanfara stefnu. Hún barst hins vegar aldrei.

Þessi þrjú litlu dæmi afhjúpa fyrir mér að varla er mikill fengur í þessari bók vilji menn leita að trúverðugri samtímaheimild um menn og málefni.

Miðvikudagur 19. 11. 14 - 19.11.2014 21:00

Í dag ræddi ég við Ragnar Jónasson, rithöfund og lögfræðing, í þætti mínum á ÍNN. Hann er höfundur bókarinnar Náttblindu og er hún sjötta bók hans og gerist í Siglufirði. Lögreglumaðurinn Ari er höfuðpersóna bókarinnar eins og í fjórum fyrri bóka Ragnars. Næsta bók Ragnars verður án Ara og gerist ekki í Siglufirði. Sjá má samtal okkar klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þriðjudagur 18. 11. 14 - 18.11.2014 23:55

Flugum um Kaupmannahöfn frá Madrid. Allt var á áætlun og við sáum eldstöðvarnar í Holuhrauni þegar flogið var fyrir sunnan Vatnajökul.

Mánudagur 17. 11. 14 - 17.11.2014 18:30

Prado-safnið í Madrid er meðal glæsilegustu listasafna heims. Að ætla sér að skoða það á einum degi er vonlaust. Þó má fá nasasjón af því merkasta.

Sunnudagur 16. 11. 14 - 16.11.2014 21:20

Toledo er aðeins í um 30 mínútna fjarlægð frá Madrid sé farið með hraðlest. Greinilegt var að margir fóru í lestarferð þennan sunnudaginn til hinnar sögufrægu borgar. Hún var höfuðborg Spánar fyrr á öldum og geymir margar minningar úr spænskri sögu og af átökum kristinna manna og mára. Þá er þar einnig unnt að skoða pyntingartól og klefa rannsóknarréttarins.

Í borginni hefur verið endurgert hús með fallegum garði og er það látið vera sem heimili Grikkjans, málarans fræga El Greco. Þar má sjá nokkur af málverkum hans en einnig annars staðar í Toledo og ekki síst í hinni glæsilegu dómkirkju. Hún er  meðal djásna kristinnar byggingarlistar. Þar er eitt frægasta málverk eftir El Greco sem sýnir þegar Kristur er klæddur úr rauða kirtlinum á Golgata. Er mikil helgi í návist málverksins þótt hópar ferðamanna sveifli þar símum og myndavélum. Andrúmsloftið var rafmagnað í orðsins besta skilningi.

Það kostar 8 evrur að fara inn í dómkirkjuna en í verðinu fylgir tæki til hljóðleiðsagnar. Ferðamenn greiða frekar slíkt gjald með glöðu geði en einhvern skatt við komuna til Spánar sem sagt er að renni í sjóð og hann verði notaður til að vernda dómkirkjuna í Toledo. Hver veit það?

Við kirkju heilags Tómasar (Santo Tomé) er grafhýsi greifans af Orgaz sem andaðist 1323. Helgisögn varð til vegna dauða hans og þar segir að þegar hann hafi verið lagður til hinstu hvílu hafi sá óvænti atburður gerst að heilagur Ágústínus og heilagur Stefán hafi stigið af himnum ofan, tekið líkama greifans og lagt í gröfina. Þeir sem voru við athöfnina heyrðu rödd segja: „Þannig er þeim launað sem þjóna Guði og dýrlingum hans.“

El Greco var í mars árið 1586 fenginn til að mála mynd sem sýnir þennan atburð og lauk hann verkinu á níu mánuðum. á jólum. Nú er unnt að skoða þetta listaverk þar sem það hangir yfir gröf greifans og kostar 2,50 evrur að ganga inn í grafhýsið og líta myndina augum.

 

Laugardagur 15. 11. 14 - 15.11.2014 21:15

Það hefur verið ánægjulegt að kynnast mannlífinu í Madrid á löngum gönguferðum um borgina í dag. Mikill fjöldi fólks alls staðar á ferð.

Hér má sjá viðtal mitt við Svanhildi Bogadóttur borgarskjalavörð sem birtist á ÍNN miðvikudaginn 12. nóvember.

Ég setti smá-athugasemd inn á FB-síðu mína um greiðan aðgang Helgu Völu Helgadóttur lögfræðings að fréttatímum ríkisútvarpsins og má sjá hana hér auk þess fjölda ummæla sem fallið hafa vegna hennar. Sum ummælin hljóta að vekja undrun vegna þess ofstækis sem í þeim felst. Ég leyfi þeim að standa til að lesendur FB-síðu minnar sjái hvert menn teygja sig til að mótmæla skoðun sem þeir eru ósammála.

DV gerði frétt úr þessar FB-færslu og þar hafa áhangendur vefsíðu blaðsins náð sér á strik með ummælum sem eru á þann veg vegna orðalags og hugarfars að þau hljóta að ganga fram af öllu venjulegu fólki þótt þau séu innan ritstjórnarramma DV. Ástæða er til að velta fyrir sér hvað þeim gengur til sem ausa yfir annað fólk skít og skömm á opinberum vettvangi þótt þeir séu annarrar skoðunar en viðkomandi. Þarna fljúga ekki aðeins fúkyrði heldur hreinn uppspuni og lygar. Mikil skömm er að því fyrir DV að breytast í holræsi af þessari gerð.

Föstudagur 14. 11. 14 - 14.11.2014 23:55

Góður og fróðlegur dagur í Madrid.

Fimmtudagur 13. 11. 14 - 13.11.2014 23:13

Flugum til Madrid um Bristol með EasyJet. Allt á áætlun. Við aðflug í Bristol var of mikill hliðarvindur og hætt var við lendingu á síðustu stundu og skipt um braut.

Miðvikudagur 12. 11. 14 - 12.11.2014 20:10

Í dag ræddi ég við Svanhildi Bogadóttur borgarskjalavörð í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Hér má sjá þátt minn frá 5. nóvember þar sem ég ræddi við höfunda Tebókarinnar.

Í dómi í lekamáli Gísla Freys Valdórssonar sem birt var í dag segir:

„Við ákvörðun refsingar verður haft í huga að ákærði játaði ekki brot sitt fyrr en komið var að aðalmeðferð og eftir að komið höfðu fram ný gögn í málinu. Í minnisblaðinu, sem ákærði kom á framfæri við fjölmiðla, var að finna viðkvæmar persónuupplýsingar eins og í ákærunni greinir. Hins vegar er ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á að ákærði hafi komið minnisblaðinu á framfæri í því skyni að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings, hvorki fjárhagslegs né annars. Þá hefur ákærði hreint sakavottorð. Samkvæmt þessu verður refsing ákærða ákveðin 8 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði greinir.“

Gísli Freyr ákvað að áfrýja ekki dóminum.

Þar með er þessum áfanga lekamálsins lokið, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði við fréttastofu ríkisútvarpsins að hún ætlaði að klára þetta kjörtímabil í pólitík. Það gætu alltaf orðið breytingar í ríkisstjórninni sem yrðu til þess að hún tæki að sér önnur verkefni.  

Umboðsmaður alþingis tók samskipti innanríkisráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til athugunar og á eftir að skila áliti sínu.

Hanna Birna reiknaði ekki með að álit umboðsmanns breytti hennar stöðu. „Ég mun fyrst og fremst læra af því og vonandi kemur hann með tillögur til úrbóta,“ sagði hún við fréttastofu ríkisútvarpsins.

Leki á fréttum úr hinu opinbera kerfi er fastur liður í opnum, lýðræðislegum samfélögum. Að telja þennan leka vegna Tonys Omos alvarlegri en margt annað sem hefur lekið úr ráðuneytum eða frá öðrum opinberum aðilum er óhjákvæmilegt að rökstyðja betur en gert hefur ef þetta mál á ekki að verða fordæmi fyrir ákæruvaldið til að stofna til rannsóknar og taka afstöðu til hvort kæra beri í fleiri tilvikum þar sem lekið er upplýsingum sem skulu fara leynt.

Nú liggur fyrir saksóknara að taka afstöðu til kæru vegna leka úr mennta- og menningarmálaráðuneytinu í tengslum við Hraðbraut þegar Katrín Jakobsdóttir var ráðherra. Þá hefur oftar en einu sinni verið vakið máls á því hér að rannsaka beri hver lak upplýsingum um vopnaðbúnað í gámi á lokuðu öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli.

 

 

 

Þriðjudagur 11. 11. 14 - 11.11.2014 21:00

Spennusagnahöfundi hefði aldrei dottið í hug að semja bók sem lyktaði á þann veg sem birtist í Kastljósi í kvöld þegar þeir ræddu saman Helgi Seljan þáttarstjórnandi og Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Ráðherrann rak Gísla Frey í dag þegar hún frétti að í tæpt ár hefði hann sagt ósatt um hlut sinn í lekamálinu svonefnda – hann lak skjalinu fræga um Tony Omos og bætti inn í það setningu sem var hugarburður Gísla Freys.

„Maður kem­ur á ein­hverj­um tíma­punkti á enda­stöð þar sem maður átt­ar sig á því að maður get­ur ekki sagt ósatt leng­ur. Ég er er bara svo­lítið kom­inn þangað núna,“ sagði Gísli Freyr í Kastljósinu.

Í yfirlýsingu Hönnu Birnu sagði:

Trúnaðar­brot Gísla Freys gagn­vart mér, ráðuneyt­inu og al­menn­ingi öll­um er al­gjört og al­var­legt.  Gísli Freyr hef­ur ít­rekað haldið fram sak­leysi sínu, ekki aðeins gagn­vart yf­ir­völd­um og fjöl­miðlum, held­ur einnig gagn­vart sam­starfs­fólki sínu og yf­ir­mönn­um í ráðuneyt­inu.

Í fram­haldi af játn­ingu Gísla Freys var hon­um fyr­ir­vara­laust vikið úr störf­um í ráðuneyt­inu.

Ég harma brot Gísla Freys, ekki aðeins gagn­vart þeim sem brotið var gegn með lek­an­um sjálf­um, held­ur einnig gagn­vart því sam­starfs­fólki sem trúað hef­ur yf­ir­lýs­ing­um hans um sak­leysi og því hvernig at­hæfi hans hef­ur varpað skugga á störf ráðuneyt­is­ins um margra mánaða skeið.

Sú staðreynd að fyrr­ver­andi aðstoðarmaður minn hafi brotið svo al­var­lega á trúnaði gagn­vart mér sem ráðherra, sem ít­rekað hef haldið uppi vörn­um fyr­ir hann í því trausti að hann hefði skýrt mér og öðrum satt og rétt frá, kem­ur mér al­gjör­lega í opna skjöldu og er þyngri byrði fyr­ir mig en ég get lýst í fáum orðum.“

Það er ótrúlegt að hafa komið sér og öðrum í þann vanda sem Gísli Freyr gerði með framkomu sinni og ósannindum.

Næst hefur réttvísin sinn gang í málinu. Gísli Freyr sagði í Kastljósinu að hann hefði valið þennan tíma til að leysa frá skjóðunni af því að hann vildi ekki hlusta á samstarfsfólk sitt bera blak af sér í góðri trú um að hann hefði ekki brotið af sér. Hið óskiljanlega er að hann skyldi ekki hafa sagt sannleikann strax 20. nóvember 2013.

 

Mánudagur 10. 11. 14 - 10.11.2014 20:20

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu í dag niðurstöður skuldaleiðréttingarinnar á fundi í Hörpu. Aðgerðin vegur þyngst fyrir fólk undir meðaltekjum, sem var innan við fertugt við hrun, á lítið eigið fé í húsnæði sínu og skuldar á bilinu 15 til 30 milljónir króna. Leiðréttingin lækkar höfuðstól íbúðalána um 150 milljarða króna á næstu 3 árum og við fullnýtingu leiðréttingar lækkar höfuðstóll íbúðalána um allt að 20%. 

Með beinu  og óbeinu framlagi ríkisins er öll verðbólga umfram 4% á árunum 2008-2009 leiðrétt til fulls. Eiginfjárstaða 56.000 heimila styrkist með beinum hætti og um 2500 heimili færast úr því að eiga ekkert eigið fé í fasteign sinni yfir í jákvæða eiginfjárstöðu.

Fjármögnunartími aðgerðanna verður styttur úr þremur árum í eitt. Það tryggir betri nýtingu fjármuna  sem ella hefðu farið í vaxtagreiðslur til fjármálastofnana og gerir stjórnvöldum kleift að greiða hærri fjárhæðir inn á höfuðstól lána. Verða 40 milljarðar greiddir inn á leiðréttingarlánin á þessu ári, 20 milljarðar í upphafi næsta árs og 20 milljarðar í byrjun árs 2016.

Eftir að hafa hlustað á Sigmar Guðmundsson ræða þetta mál við forsætisráðherra í Kastljósi þar sem spyrjandinn gaf ráðherranum varla svigrúm til að svara og ýtti undir þá skoðun að ætlunin væri að hygla hinum betur stæðu sannast enn að fréttastofa ríkisútvarpsins lítur ekki á það sem meginhlutverk sitt að upplýsa og skýra. Markmiðið virðist vera að skapa úlfúð. Í þeim tilgangi hefur jafnan reynst heilladrjúgt að ýta undir öfund.

Boðað var til mótmæla klukkan 17.00 í dag á Austurvelli. Fréttamaður ríkisútvarpsins var í beinni útsendingu í fréttum á slaginu 17.00. Var heldur dauft yfir frásögninni vegna þess hve fáir voru á vellinum þótt einhverjir hefðu tekið til við að berja í eitthvað. Fréttamaðurinn huggaði sig og hlustendur við að lögreglumaður hefði sagt sér að fólk kæmi yfirleitt ekki fyrr en klukkan 17.30! Því var sem sagt komið á framfæri að allt í lagi væri að koma of seint. Klukkan 17.30 sagði fréttastofan á ruv.is að 1.500 manns hefðu komið saman á Austurvelli.

Sunnudagur 09. 12. 14 - 9.11.2014 19:30

Í dag er þess minnst að 25 ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins. Furðulegt er að Mikhaíl Gorbatsjov, síðasti leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, skuli nota afmælið til að ráðast á Vesturlönd og saka þau um að koma illu af stað. Þau hafi í raun egnt Vladimír Pútín Rússlandsforseta til illverka en ekki eigi að túlka skammir hans um Bandaríkin og NATO eftir orðunum sem falla heldur búi þar að baki samstarfsvilji.

Í sömu andrá kvartar Gorbatsjov undan því að andi kalda stríðsins láti aftur á sér kræla. Afmælisræða hans í Berlín var þó dæmigerð fyrir aðferðina sem Kremlverjar notuðu til að koma illu af stað á tíma kalda stríðsins. Hálfkveðnar vísur og skírskotun til þeirra afla á Vesturlöndum sem þeir vissu eða töldu að mundu leggja málstað þeirra lið. Á meðan þeir hertu tökin á stjórn mála heima fyrir reyndu þeir að misnota lýðræðið í löndum þar sem rödd fólksins fær að heyrast til að koma ár sinni fyrir borð eða illu af stað.

Aðfaranótt 9. nóvember hófu vinir Rússa í austurhluta Úkraínu stórskotaárás með þungavopnum sem þeir hafa fengið frá Rússlandi. Eftirlitsmenn Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) láta við það sitja að telja herflutningabíla og skriðdreka og senda frá sér tölur í tilkynningum á meðan Rússar og vinir þeirra fara sínu fram. Þessa stofnun telur Gorbatsjov einmitt hina bestu til að gæta að öryggi Evrópuþjóða.

Mikhaíl Gorbatsjov er 83 ára og á við vanheilsu að stríða. Með því að bera lof á Pútín og gagnrýna Vesturlönd í Berlín býr hann í haginn fyrir eftirmæli sín hjá valdhöfunum í Kreml sem gjarnan hafa vegið að honum fyrir að ganga að Sovétríkjunum dauðum en fall þeirra telur Pútín hörmulegasta atburð 20. aldarinnar. Það er því ekki skálað í kampavíni í Kreml í dag til að fagna falli múrsins.

Laugardagur 08. 11. 14 - 8.11.2014 19:30

Í dag var efnt til málstofu um varðveislu Múlakots í Fljótshlíð í félagsheimili okkar Fljótshlíðinga, Goðalandi. Hófst dagskráin raunar í Múlakoti sjálfu klukkan 14.00 með kynningu á garðinum, bæjarhúsunum og því sem þau hafa að geyma. Þar var fjöldi fólks þrátt fyrir kalda norðangjóluna, lofthiti var um 2° C en þurrt sem auðveldaði kynningu á gömlu húsunum. Þau hefðu farið illa ef allur þessi fjöldi hefði farið um þau á blautum skóm – en fyrir ári var alhvít jörð hér í Fljótshlíðinni 8. nóvember.

Margir fluttu stutt erindi í málstofunni sem stóð frá 15.20 til 17.30 og sóttu hana tæplega 100 manns. Pétur Ármannsson, arkitekt við Minjastofnun Íslands, ræddi gildi varðveislu minja á borð við Múlakot. Hjörleifur Stefánsson arkitekt færði skýr rök fyrir gildi þess að varðveita húsin, þau má í raun rekja aftur í aldir. Dagný Heiðdal listfræðingur hjá Listasafni Íslands sagði frá málverkum í eigu safnsins sem tengjast Múlakoti. Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari Garðyrkjuskóla Íslands, fjallaði um Múlakotsgarðinn. Vibeke Nörgaard Nielsen, rithöfundur frá Danmörku, sagði frá sambandi Johannes Larsens myndlistarmanns við Múlakot og Ólaf Túbals listmálara sem þar bjó. Larsen myndskreytti útgáfu Íslendingasagna á dönsku 1930 í tilefni 1000 ára afmælis alþingis. Hefur frú Nielsen ritað bók um ferðir Larsens og er hún væntanleg á íslensku. Þá töluðu þeir Sverrir Magnússon, framkvæmdastjóri Skógasafns, og Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra, en safnið og sveitarfélagið eru aðilar að sjálfseignarstofnuninni Gamli bærinn í Múlakoti sem formlega var stofnuð í lok málstofunnar með þátttöku hjónanna Sigríðar Hjartar og Stefáns Guðbergssonar sem gefa mannvirkin í Múlakoti og 0,5 hektara lands. Þau töluðu bæði í málstofunni en Sigríður hefur ritað BA-ritgerð í sagnfræði um Múlakot.

Augljóst er af hinni miklu þátttöku í þessum viðburði að mikill áhugi er víða á að Múlakot verði varðveitt enda eiga margir minningar þaðan og saga húsanna þar tengist mjög samgöngusögu þjóðarinnar því að vísi að hótelrekstri þar má rekja til ferða yfir Markarfljót með ferjum áður en það var brúað árið 1933. Þá tel ég að þar eigi að minnast aðgerða sem gripið var til um svipað leyti með gerð varnargarða við Markarfljót sem stöðvuðu rennsli þess vestur með Fljótshlíðinni.

Föstudagur 07. 11. 14 - 7.11.2014 19:10

Í dag var ég meðal viðmælenda í þættinum Víðsjá  á rás 1 og ræddum við um hrun Berlínarmúrsins, aðdraganda og eftirleik, eins og heyra má hér.

Menn ættu að ímynda sér hvernig ríkisfréttastofan hefði látið ef borgarstjóri úr Sjálfstæðisflokknum hefði skrifað undir samkomulag við ráðherra nokkrum dögum áður ráðherrann gekk til kosninga og síðan hefði samkomulagið verið látið liggja óstaðfest í 18,5 mánuði og ekkert með það gert fyrr vakið var máls á því í fjölmiðlum. Þá lá borgarstjóra svo mikið á að kynna samkomulagið í borgarráði að hann hafði ekki tíma til að sitja sameiginlegan fund þingnefnda til að kynna sjónarmið Reykjavíkurborgar til þess máls sem var til umræðu, flugvallarmálsins.

Í Morgunblaðinu segir í dag hinn 7. nóvember:

„Þótt meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur hafi í fyrradag samþykkt breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda í Vatnsmýri, sem felur það í sér að neyðarflugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verður að víkja, er afgreiðslu málsins ekki lokið af hálfu borgarinnar.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á sæti í borgarráði. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að næsta stig málsins væri að afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs kæmi til umfjöllunar og afgreiðslu í borgarráði. „Það stendur þannig á að málið fer ekki til afgreiðslu í borgarráði á fundi þess í næstu viku, eins og til hefði staðið, vegna þess að það verða ekki staddir á landinu allir embættismennirnir sem eiga að fylgja málinu eftir, hvað varðar kynningu í borgarráði,“ sagði Júlíus Vífill.

Júlíus Vífill segir að málið verði bersýnilega einnig afgreitt í ágreiningi í borgarráði, og muni því koma til sérstakrar afgreiðslu í borgarstjórn, væntanlega 2. desember nk.“

Athyglisvert er að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gat ekki skroppið af borgarráðsfundi til þingnefnda í gær af því að hann lagði þar fram 18,5 mánaða gamalt samkomulag. Í næstu viku getur borgarráð ekki tekið glænýja samþykkt í hinu mikilvæga flugvallarmáli til umræðu af því að „allir embættismennirnir“ verða ekki á fundinum.

Það kemur alltaf betur og betur í ljós að tilburðir borgarstjóra í flugvallarmálinu miða að laumulegri afgreiðslu þess á vettvangi borgarstjórnar. Því ber að fagna að sjálfstæðismenn eru hættir að taka þessum vinnubrögðum þegjandi.

Fimmtudagur 06. 11. 14 - 6.11.2014 18:00

Miðvikudaginn 5. nóvember samþykkti meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur tillögu sem minnihlutinn telur að leiði til þess að öryggi Reykjavíkurflugvallar verði „óásættanlegt“ auk þess sem bíða eigi eftir að nefnd undir formennsku Rögnu Árnadóttur um framtíð flugvallar í eða við Reykjavík skili áliti.

Ríkið er aðili að öllum ákvörðunum vegna flugvallarins og í framhaldi af meirihluasamþykkt nefndar Reykjavíkurborgar var samfylkingarmönnunum Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Hjálmari Sveinssyni nefndarformanni snarlega boðið á sameiginlegan fund tveggja þingnefnda, atvinnuveganefndar annars vegar og umhverfis- og samgöngunefndar hins vegar. Hvorugur þáði boðið. Bar borgarstjóri því við að fundarboð bærist með of skömmum fyrirvara auk þess sem borgarráð kæmi saman þegar þingnefndirnar funduðu.

Fyrir borgarráð fimmtudaginn 6. nóvember lagði Dagur B. tillögu um að ráðið staðfesti samkomulag sem Jón Gnarr og Ögmundur Jónasson rituðu undir hinn 19. apríl 2013 en ég vakti máls á því hér á síðunni mánudaginn 27. október sl. að samkomulagið væri óundirritað. Varð það m. a. tilefni fréttar Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu laugardaginn 1. nóvember. Fékk Agnes aldrei svar frá Degi B. hvers vegna hann hefði ekki sem formaður borgarráðs lagt samkomulagið fyrir ráðið í apríl 2013 eftir að það var undirritað. Dagur B. hunsaði Agnesi og fór undan í flæmingi.

Að Dagur B. hafi ekki haft tíma til að sitja fund tveggja þingnefnda um málefni Reykjavíkurflugvallar af því að hann þurfti að leggja 18,5 mánaða gamalt samkomulag um flugvöllinn fyrir borgarráð segir allt sem segja þarf um hve illa er haldið á flugvallarmálinu af hálfu Dags B. og félaga.

Þeir pukrast með flugvallarmálið af því að þeir vita um andstöðu mikils meirihluta fólks við stefnu sína og gjörðir. Ætlunin er að láta almenning standa frammi fyrir orðnum hlut. Að sjálfstæðismenn í borgarstjórn Reykjavíkur hafi auðveldað þeim þessi vinnubrögð hefur í raun minnst með flugvallarmálið að gera heldur vekur spurningar um hvort farið sé með fleiri mál á þennan laumulega hátt innan bogarstjórnar í nafni „fjölskyldustemmningar“ svo að brúkað sé orðið sem Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur notar um andrúmsloftið í hæstarétti.

Vegna samkomulagsins frá 19. apríl 2013 var skipaður starfshópur sem dó drottni sínum af því að Jón Gnarr gerði nýtt samkomlag við nýjan innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, í október 2013. Verður nú blásið lífi í þann hóp að nýju? Hafist handa við að lækka grenitré í Öskjuhlíðinni? Reisa nýja flugstöð?

Ruglið tekur engan enda. Hvernig væri að semja svarta hvítbók um flugvallarmálið frá því að R-listinn tók að berjast gegn Reykjavíkurflugvelli?

 

Miðvikudagur 05. 11. 14 - 5.11.2014 18:40

Í dag ræddi ég við Árna Zophoníasson og Ingibjörgu Jónu Friðbertsdóttur í þætti mínum á ÍNN en þau sendu nýlega frá sér Tebókina, fallega bók um te og tedrykkju.

Þáttur minn með Þórhalli Ólafssyni, forstjóra Neyðarlínunnar, frá 29. október er kominn á netið og má sjá hann hér.

Úrslit kosninganna Bandaríkjunum þriðjudaginn 4. nóvember eru mikið áfall fyrir Barack Obama og Demókrataflokk hans. Repúblíkanar fengu meirihluta í öldungdadeild Bandaríkjaþings, juku meirihluta sinn í fulltrúadeildinni og fjölguðu ríkisstjórum sínum. Þá vekur athygli að innan flokks repúblíkana var félögum í Tea Party ýtt til hliðar í kosningunum og mega þeir sín ekki eins mikils og áður enda lítt til þess fallnir að tryggja nokkrum stjórnmálaflokki almennan stuðning meðal kjósenda þótt sjónarmið þeirra eigi rétt á sér í pólitískum og hugmyndafræðilegum umræðum.

Í kosningabaráttunni vildu frambjóðendur demókrata sem minnst af Obama vita og ekki var sóst eftir honum sem ræðumanni á kosningafundum, litið var á hann sem atkvæðafælu. Það er síðan dæmigert um spuna stjórnmálanna að nú láta málsvarar Obama þau boð út ganga að hið slæma gengi flokks hans megi rekja til þess að honum hafi verið haldið víðs fjarri!

Ég skrifaði í dag pistil á Evrópuvaktina um fráleita stjórnsýslu í málefnum Reykjavíkurflugvallar undir stjórn borgarstjóranna Jóns Gnarrs og Dags B. Eggertssonar. Ætlunin er að þrengja að flugvellinum með aðferðum eins og þeim að láta undir höfuð leggjast að sneiða ofan af grenitrjám í Öskjuhlíð þar sem þó er stunduð grisjun.  Pistilinn má lesa hér.

Einkennilegt er að heyra Steingrím J. Sigfússon, fyrrv. fjármálaráðherra, kvarta undan því á alþingi að Már Guðmundsson seðlabankastjóri lýsi stöðu efnahagsmála í landinu á þann veg að aðrar þjóðir öfundi okkur. Á meðan Steingrímur J. var ráðherra leið varla vika án þess að hann flytti ekki fréttir af eigin afrekum við stjórn efnahagsmála sem vektu ekki aðeins öfund heldur einnig spurn eftir honum sjálfum með óskum um að hann tæki að sér að bjarga öðrum þjóðum.

Steingrímur J. ákvað að láta reyna á alþjóðlegt traust til sín á vettvangi Norðurlandaráðs fyrir skömmu og bauð sig fram til forseta þings ráðsins gegn Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni Framsóknarflokksins. Steingrímur J. gjörtapaði fékk níu atkvæði en Höskuldur 52.

Þriðjudagur 04 11. 14 - 4.11.2014 18:00

Yf­ir­menn lög­regl­unn­ar sátu í morgun fyr­ir svör­um í stjórnskipunar- og eftirlistnefnd alþingis vegna sam­an­tekt­ar sem Geir Jón Þóris­son, fyrrv. yfirlögregluþjónn, vann um skipu­lögð mót­mæli á ár­un­um 2008-2011. Þingmenn vildu vita um upplýsingar í gagnagrunni lögreglu, hvort þar yrðu varðveittar upplýsingar um stjórnmálaskoðanir og fjölskyldutengsl einstaklinga.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði ákvörðun um efni gagnagrunnsins væri tekin af embætti ríkislögreglustjóra í samráði við persónuvernd.

Þá segir á mbl.is hún hafi einnig verið spurð hvort farið hefði verið að hvatningu Geirs Jóns um að varðveita ljósmyndir og myndbandsupptökur af mótmælunum. Vissi lögreglustjóri ekki til þess. Lög­regl­an héldi ekki gagna­grunn um mót­mæl­end­ur eða stjórn­mála­skoðanir fólks. Hins veg­ar væri alltaf skráð hverj­ir boðuðu til mót­mæla, hversu marg­ir mættu til þeirra og sak­næm at­vik ef ein­hver væru.

Eins og menn muna fjaraði undan mótmælunum 2009 eftir að Samfylking og VG mynduðu ríkisstjórn enda áttu þau að hluta flokkspólitískar rætur. Ég var dómsmálaráðherra á meðan lögreglan stóð í mestum stórræðum vegna mótmæla og bar lof á störf hennar eins og sjá má hér á síðunni.

Eftir að ég frétti að Geir Jón hefði tekið saman þetta yfirlit um mótmælin spurði ég þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu hvort ég fengi að lesa skýrsluna. Svarið var afdráttarlaust, það fengi ég ekki og enginn utan lögreglunnar sjálfrar, þetta væri vinnuplagg hennar og yrði farið með það eins og önnur trúnaðarskjöl.

Að sjálfsögðu virti ég þessa afstöðu en það gerði Eva Hauksdóttir ekki. Hún steig meðal annars nornadans á flötinni fyrir framan Stjórnarráðshúsið í mótmælaskyni veturinn 2008/2009 og fór í fylgd Geirs Jóns á fund Davíðs Oddssonar í Seðlabankahúsinu. Fyrir tilstuðlan opinberrar nefndar um upplýsingamál knúði Eva fram birtingu skýrslunnar, skyldu nöfn einstaklinga yfirstrikuð í hinni opinberu útgáfu en það fór í handaskolum.

Undrun vekur eftir að skýrslan er birt kveinki nafngreindir mótmælendur sér undan því að þeir þekkist. Sumir aðgerðasinna voru að vísu með hulin andlit en almennt virtist fólk ekki skammast sín neitt fyrir þátttöku í mótmælunum. Óljóst er hvernig skýra á viðkvæmni núna fyrir því að nöfn þeirra sem þekkjast séu skráð eða haldið sé til haga ljósmyndum og öðrum gögnum um mótmælin.

Frásögn Geirs Jóns er heimild sem að sjálfsögðu ber að varðveita og hið sama gildir um ljósmyndir og myndbandsupptökur. Úr því að áform lögreglustjóra um að hafa þetta aðeins sem innanhúss-skjal röskuðust er skynsamlegast að birta skjalið eins og Geir Jón skilaði því án allra yfirstrikana.

 

Mánudagur 03. 11. 14 - 3.11.2014 19:15

Í dag var efnt til kynningar á vegum Hins íslenska fornritafélags á Háskólatorgi vegna útgáfu á Eddukvæðum I-II. Jónas Kristjánsson og Vésteinn Ólason önnuðust útgáfuna með inngangi og skýringum en Þórður Ingi Guðjónsson er ritstjóri. Vésteinn flutti erindi og Svanhildur Óskarsdóttir las um Guðrúnu Gjúkadóttur úr Eddukvæðum.

Eins og jafnan þegar miðaldarmenning er kynnt almenningi í Háskóla Íslands var fjölmenni við athöfnina. Sætir vissulega tíðindum að útgáfa Eddukvæða með ítarlegum skýringum skuli koma út á íslensku. Til þessa hafa fræðimenn helst leitað í þýskar útgáfur kvæðanna til að fá fræðilegar skýringar.

Jónas heitinn Kristjánsson ritaði skýringarnar í nýju útgáfuna og sagði Vésteinn ómetanlegt að jafn orðhagur maður og hann hefði komið að því verki. Vésteinn ritar tæplega 300 blaðsíðna formála að útgáfunni og gerir þar grein fyrir alþjóðlegum og innlendum rannsóknum á Eddukvæðum og niðurstöðum þeirra.

Í kynningu Fornritafélagsins segir:

„Eddukvæðin hafa lengi verið talin meðal gersema heimsbókmenntanna. Í þeim birtast skáldlegar sýnir, stórbrotin tilfinningaátök, djúp speki og hárbeitt skop í hnitmiðuðu en þó frjálslegu formi. Kvæðin eiga sér eldfornar rætur í trúarbrögðum norrænna þjóða og söngum og kvæðum af hetjum allt frá öld þjóðflutninga. Varðveitta mynd hafa þau fengið á víkingaöld eða síðar.“

Dr. Jóhannes Nordal, fyrrv. seðlabankastjóri, er forseti Hins íslenska fornritafélags.

Sunnudagur 02. 11. 14 - 2.11.2014 22:20

Kjarninn miðlar ehf. tilkynnti í dag að félagið hefði lokið við að auka hlutafélag sitt og Hjálmar Gíslason, sem föstudaginn 31. október seldi DataMarket til bandaríska fyrirtækisins Qlik, kæmi inn í hluthafahóp félagsins og yrði stjórnarformaður. Söluverðið á DataMarket var á bilinu 11,8 - 13,5 milljónir Bandaríkjadala, eða 1.439-1.647 milljónir króna að sögn Viðskiptablaðsins.

Auk Hjálmars sitja Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, og Guðrún Inga Ingólfsdóttir, hagfræðingur og starfsmaður eignastýringar Gildis lífeyrissjóðs, í stjórn hlutafélagsins.

Upphaflega var ætlunin að Kjarninn yrði miðill á spjaldtölvum og farsímum en honum hefur nú verið breytt í venjulegan fréttavef.

Þá hefur verið stofnað sérstakt ráðgjafaráð sem verður stjórnendum og stjórn Kjarnans innan handar. Ágúst Ólafur Ágústsson lögfræðingur og fyrrum varaformaður Samfylkingarinnar, er meðal ráðgjafanna.

Af þessu má ráða að samhliða því sem fjárhagur Kjarnans er bættur fær hann á sig svipmót málgagns fyrir Samfylkinguna.

Þessi tilkynning um Kjarnann berst daginn eftir að Kristjón Kormákur Guðjónsson var ráðinn ritstjóri  vefblaðsins Pressunnar í eigu Vefpressunnar sem einnig á Bleikt og Eyjuna. Kristjón Kormákur tók við af Birni Inga Hrafnssyni sem verður útgefandi allra miðla Vefpressunnar en hann er aðaleigandi hennar.

Laugardaginn 1. nóvember sagði ríkisútvarpið frá því að viðræður væru hafnar milli Vefpressunnar og útgáfufélags DV um samruna. Björn Ingi staðfesti réttmæti fréttarinnar í samtali við Vísi í dag. Málið mundi skýrast á allra næstu dögum. Björn Ingi sagði að eigendur DV hefðu nálgast eigendur Vefpressunnar vegna málsins og sjálfsagt aðra fjölmiðla líka

Björn Ingi Hrafnsson var á sínum tíma aðstoðarmaður Halldórs Ágrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, og síðar sat hann í borgarstjórn fyrir Framsóknarflokkinn. Í vikunni var sagt frá því að framsóknarmenn hefðu borið víurnar í DV á meðan blaðið var í höndum Reynis Traustasonar.

Laugardagur 01. 11. 14 - 1.11.2014 22:00

Á mbl.is í dag segir:

„Lög­regl­an á Þórs­höfn greip til skot­vopna til að tryggja aðstæður þegar maður gekk um bæ­inn vopnaður hagla­byssu í morg­unn. Skot­vopn­in voru ekki í lög­reglu­bíln­um, enda er bíll­inn ekki bú­inn þar til gerðum hirsl­um, held­ur þurfti að sækja skot­vopn á lög­reglu­stöðina.

Maður­inn hef­ur að sögn lög­regl­unn­ar á Húsa­vík áður komið við sögu lög­reglu.“

Sérsveitarmenn eru á Akureyri og lögðu þeir af stað klukkan 07.29 til Þórshafnar, 260 km leið, maðurinn var handtekinn kl. 11.00. Lögregla frá Húsavík hélt einnig vopnuð til Þórshafnar.

Atvik eins og þetta fellur að umræðunum undanfarið um vopnabúnað lögreglunnar, aðgang að honum og beitingu hans. Vopnageymsla er ekki í bifreiðum lögreglu á Húsavík. Við þetta útkall kynni að hafa orðið að aka úr Mývatnssveit til Húsavíkur eftir vopnum og þaðan til Þórshafnar.

Menn geta talað sig hása um að lögregla verði að sætta sig við hindranir í vopnabúnaði. Að sjálfsögðu eiga að gilda skýrar reglur um hann. Menn tala sig hins vegar ekki frá raunveruleikanum sem blasir við lögreglumönnunum eða þeim sem leita öryggis hjá þeim. Reglurnar um vopnabúnað lögreglu verða að taka mið af raunveruleikanum en ekki tali þeirra sem vilja ekki horfast í augu við hann.