Sunnudagur 09. 12. 14
Í dag er þess minnst að 25 ár eru liðin frá falli Berlínarmúrsins. Furðulegt er að Mikhaíl Gorbatsjov, síðasti leiðtogi sovéska kommúnistaflokksins, skuli nota afmælið til að ráðast á Vesturlönd og saka þau um að koma illu af stað. Þau hafi í raun egnt Vladimír Pútín Rússlandsforseta til illverka en ekki eigi að túlka skammir hans um Bandaríkin og NATO eftir orðunum sem falla heldur búi þar að baki samstarfsvilji.
Í sömu andrá kvartar Gorbatsjov undan því að andi kalda stríðsins láti aftur á sér kræla. Afmælisræða hans í Berlín var þó dæmigerð fyrir aðferðina sem Kremlverjar notuðu til að koma illu af stað á tíma kalda stríðsins. Hálfkveðnar vísur og skírskotun til þeirra afla á Vesturlöndum sem þeir vissu eða töldu að mundu leggja málstað þeirra lið. Á meðan þeir hertu tökin á stjórn mála heima fyrir reyndu þeir að misnota lýðræðið í löndum þar sem rödd fólksins fær að heyrast til að koma ár sinni fyrir borð eða illu af stað.
Aðfaranótt 9. nóvember hófu vinir Rússa í austurhluta Úkraínu stórskotaárás með þungavopnum sem þeir hafa fengið frá Rússlandi. Eftirlitsmenn Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) láta við það sitja að telja herflutningabíla og skriðdreka og senda frá sér tölur í tilkynningum á meðan Rússar og vinir þeirra fara sínu fram. Þessa stofnun telur Gorbatsjov einmitt hina bestu til að gæta að öryggi Evrópuþjóða.
Mikhaíl Gorbatsjov er 83 ára og á við vanheilsu að stríða. Með því að bera lof á Pútín og gagnrýna Vesturlönd í Berlín býr hann í haginn fyrir eftirmæli sín hjá valdhöfunum í Kreml sem gjarnan hafa vegið að honum fyrir að ganga að Sovétríkjunum dauðum en fall þeirra telur Pútín hörmulegasta atburð 20. aldarinnar. Það er því ekki skálað í kampavíni í Kreml í dag til að fagna falli múrsins.