Dagbók: mars 2012
Laugardagur 31. 03. 12
Hið svonefnda brjóstapúðamál hefur sett mikinn svip á fréttir undanfarnar vikur. Velferðaráðherra tók málið í sínar hendur og landlæknis. Nú hefur persónuvernd lagt mat á málið og komist að niðurstöðu á grundvelli gildandi laga. Þá segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra samkvæmt ruv.is 31. mars:
„Fyrstu viðbrögð eru náttúrulega ákveðin vonbrigði. Það er greinilegt að lagaumhverfið er ekki nógu skýrt. Hver er réttur Persónuverndar og hver er réttur landlæknis í sínu eftirlithlutverki? Þarna blandast inn stjórnarskrárvarinn réttur samkvæmt niðurstöðu Persónuverndar.“
Þetta er dularfullt svar. Hvernig getur „lagaumhverfið“, það er lögin, skort skýrleika úr því að persónuvernd hefur komist að niðurstöðu. Hún fer að lögum. Þegar hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosningarnar ákvað ríkisstjórnin að hafa ákvörðunina að engu og skipaði stjórnlagaráð. Nú segir Álfheiður Ingadóttir, formaður velferðarnefndar alþingis og þingmaður VG, með valdsmannslegum tóni að hún ætli að flytja lagafrumvarp til að hnekkja niðurstöðu persónuverndar. Það yrði eftir öðru að sett yrðu afturvirk lög til að aflétta persónuvernd.
Á sínum tíma fékk Þjóðhátíðarsjóður ítarlegar greinargerðir um hvernig bjarga ætti kútter Sigurfara þegar honum var komið fyrir á safnasvæðinu að Görðum á Akranesi. Veitti sjóðurinn styrki svo unnt væri að grípa til nauðsynlegra ráðstafana. Nú berast þær fréttir að Sigurfari sé svo illa farinn að fljótlega verði að ákveða hvort varðveita eigi skipið eða sætta sig við að það eyðileggist, það verði að byggja yfir hann til að bjarga honum. Engir fjármunir eru fyrir hendi til þess. Kútterinn hefur verið á landi síðan 1975.
Föstudagur 30. 03. 12.
Það er í genum þeirra feðga Reynis og Jóns Trausta ritstjóra DV að jagast í mér. Nú ritar Jón Trausti leiðara þar sem hann býsnast yfir því að alþingi hafi veitt Evrópuvaktinni 4,5 milljónir króna í styrk til að stuðla að umræðum um ESB og Ísland.
Enginn íslenskur fjölmiðill hefur fjallað meira um ESB-mál frá því að Evrópuvaktin hóf göngu sína fyrir tæpum tveimur árum. Þegar auglýst var eftir umsóknum árið 2011 sótti Evrópuvaktin, sem er skráð fyrirtæki, um styrk og fékk hann. Já,Ísland, félagsskapur ESB-aðildarsinna fékk 13,5 m. kr. og Heimssýn 9 m. kr., en Evrópuvaktin 4,5 m. kr. Enginn ræðir þó um annað en styrkinn til Evrópuvaktarinnar. Er stórundarlegt hve lengi menn geta býsnast á þessu.
Jón Trausti reisti leiðara sinn upphaflega á því að ESB hefði veitt þennan styrk en leiðrétti þá villu síðar án þess að það hefði áhrif á dylgjurnar í leiðaranum sem urðu algjör markleysa eftir að villan hafði verið leiðrétt.
Teitur Atlason, ofurbloggari DV, hefur varið allri vikunni til að eltast við mig og Evrópuvaktina vegna þessa styrks. Hann fór villur vega eins og Jón Trausti og taldi hann nema 7 m. kr. auk þess sem um óútfylltan tékka alþingis til okkar Styrmis Gunnarssonar hefði verið að ræða.
Bæði fjárhæðin og fullyrðingin um „óútfyllta tékkann“ voru röng hjá Teiti. Þá trúir hann því ekki að ég hafi sent alþingi skrá yfir 40 viðmælendur mína í ferð til Brussel og Berlínar 11. október til 11. nóvember 2011. Teitur hefur af innsæi sínu komist að þeirri niðurstöðu að ég hafi hitt sex manns. Ég fékk í dag vitneskju um að Teitur hefði sent beiðni til alþingis og krafist þess í nafni upplýsingalaga að fá að sjá listann yfir viðmælendur mína. Ég vona að alþingi svari honum sem fyrst og afhendi skýrsluna frá Evrópuvaktinni svo að þessum ósannindum Teits ljúki.
Ritstörfin sem DV-feðgarnir og Teitur stunda eiga ekkert skylt blaðamennsku eða heiðarleg og opin skoðanaskipti. Þau einkennast af uppspuna og dylgjum. Skrif þeirra eru sjúkdómseinkenni eftir-hrunsáranna og bera keim af einelti sem verður sífellt augljósara um leið og höfundarnir líkjast meira nátttröllum en þátttakendum í samtali líðandi stundar.
Fimmtudagur 29. 03. 12
Miðað við það sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í Kastljósi kvöldsins er erfitt að komast að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hafi framið lögbrot. Þó er þess að gæta að höft og yfirvöld sem hafa það hlutverk að setja tappa alls staðar þar sem þau telja leka eða hættu á honum sjást ekki alltaf fyrir í málatilbúnaði sínum. Þorsteinn Már fékk því miður ekki tækifæri til að segja frá ágreiningi Samherja við Seðlabanka Íslands vegna gjaldeyrishaftanna. Fréttir af þeim átökum voru sagðar fyrir nokkru og juku ekki á virðingu seðlabankans. Þá var ekki vikið að því í þættinum hvort tilviljun réði því að gerð var húsleit hjá Samherja að ósk seðlabankans þegar ríkisstjórnin hóf aðför að útgerðinni með enn einu misheppnaða frumvarpinu um stjórn fiskveiða.
Á Evrópuvaktinni má lesa þau orð sem Jóhanna Sigurðardóttir lét falla um Jón Bjarnason sem duglausan sjávarútvegsráðherra og svar Jóns og gagnrýni á Jóhönnu. Hið furðulega í málinu er að Jón skuli styðja ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu. Jón verður jafn marklaus og Steingrímur J. Sigfússon er orðinn sem stjórnmálamaður ef hann heldur áfram að styðja ríkisstjórn undir forsæti stjórnmálamanns sem hann hefur lýst sem friðarspilli. Jón lýsti Jóhönnu á þann veg.
Ég les á mbl.is klukkan 21.25 í kvöld: „Eftir skoðanakönnunina um síðustu helgi, sem að benti til að meirihluti þjóðarinnar óskaði eftir endurnýjun í forsetaembættinu, hefur stór hópur haft samband við mig og í þeim hópi eru meðal annars einstaklingar sem áður hafa haft samband. Þetta ber brátt að en ég ber mikla virðingu fyrir þessu fólki og af sjálfsögðu þá íhuga ég þetta og tek ákvörðun alveg á næstunni,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Taki Kristín ákvörðun um að bjóða sig fram tel ég að Ólafur Ragnar megi fara að passa sig.
Miðvikudagur 28. 03. 12
Í dag birti Evrópuvaktin frétt um skiptingu styrkja sem alþingi veitti á síðasta ári til að ýta undir umræður með og á móti um Evrópusambandið. Þar kemur fram að Já, Ísland, samtök aðildarsinna, fengu 13,5 m. kr., Heimssýn 9 m. kr. og Evrópuvaktin 4,5 m.kr. Ég hafði samband við skrifstofu alþingis til að fá þessar tölur á hreint vegna þess að mér blöskraði hvernig Teitur Atlason, bloggari í Gautaborg og ESB-aðildarsinni, ritaði um málið í bloggi sínu þar sem hann hélt áfram að ráðast á mig og sakaði okkur Styrmi Gunnarsson auk þess um að hafa fengið 7 m.kr. óútfylltan tékka frá alþingi sem við hefðum ráðstafað að eigin vild.
Alþingi setti ströng skilyrði til styrkþega, meðal annars um eftirlit með ráðstöfun fjárins, og hefur Evrópuvaktin uppfyllt öll þau skilyrði innan þeirra tímamarka sem sett hafa verið. Skrif Teits hafa hins vegar vakið þær ranghugmyndir meðal lesenda hans að um algjört aðhaldsleysi af hálfu alþingis sé að ræða. Loks telur hann sér fært að fara í saumana á því sem ég hef skrifað til að sanna að ég hafi ekki rætt við nema sex manns í mánaðarferð minni til Brussel, Berlínar og Frankfurt 11. október til 11. nóvember 2011. Listi yfir um 40 viðmælendur hefur verið kynntur alþingi.
Það er með nokkrum ólíkindum en lærdómsríkt að lesa þessi skrif Teits og viðbrögðin við þeim hjá lesendahópi síðu hans. Uppdiktaðar kenningar verða að stórasannleika sem vekur hneykslan og leiðir til ónota og reiðilesturs yfir mönnum sem hafa í einu og öllu farið að settum reglum. Þetta er svo sem í ætt við margt annað í hinum brengluðu umræðum sem setja sterkan svip á þjóðlífið. Hitt er síðan eftirtektarvert að hvorki hjá Teiti né nokkrum öðrum ESB-aðildarsinna er gerð minnsta tilraun til að skýra hvernig sá sem fékk hæsta styrkinn, Já, Ísland, notaði hann.
Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um stjórnlagaumræðurnar á alþingi. Segja má að stjórnarisinnar hafi verið teknir í bólinu vegna málsins í orðsins fyllstu merkingu aðfaranótt miðvikudags 28. mars þegar svo margir þeirra sváfu á sínu græna eyra heima að ekki var unnt að afgreiða það til nefndar. Að kenna það við klæki að þingmenn noti rétt sinn samkvæmt þingsköpum er til marks um rökþrot.
Þriðjudagur 27. 03. 12
Lengi hef ég ætlað mér að sjá hvernig efna má til umræðu á fésbókinni og greip tækifærið í dag þegar ég sá vikið að Evrópuvaktinni og styrk alþingis til hennar á vefsíðu Teits Atlasonar í Gautaborg. Þeir sem gera athugasemdir á síðu hans eru sumir ákafir ESB-aðildarsinnar, aðrir sjá að því er virðist rautt þegar ég er annars vegar, sýnist mér Teitur skipa þessa flokka báða.
Þátttaka í samræðunum staðfesti að skynsamlegt sé að hafa góða stjórn á tímanum sem varið er til að koma skoðunum sínum á framfæri á samskipta- eða samfélagssíðum.
Framkvæmd gjaldeyrishaftanna tók á sig nýja mynd í dag þegar fulltrúar sérstaks saksóknara fóru að ósk seðlabankans að hvatningu Kastljóss til húsleitar í höfuðstöðvum Samherja. Tilgangurinn virðist sá að sanna að Samherji hafi notað fisk til að komast framhjá gjaldeyrishöftunum.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í þingnefnd í gær að bankinn þyrfti ný tól til að takast á við efnahagsmálin, í þeim orðum fólst ef til vill fyrirboði þess sem gerðist í Samherja í dag.
Þá er ekki unnt að slíta þessa atburði og tímasetningu úr samhengi við að í gær kynntu Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða. Útgerðarmenn og aðrir sem eiga beinna hagsmuna að gæta líta á tillögur ríkisstjórnarinnar sem aðför að hagsmunum sínum.
Ríkisstjórn og seðlabanki halda áfram að grafa dýpri holu í stað þess að brjótast úr viðjunum. Tæra vinstri stjórnin sýnir engan vilja til slíkra átaka til að virkja krafta fyrirtækjanna. Churchill sagði: Socialism is about equal sharing of misery. Réttmæti orða hans sannast hér á landi, jöfnuðurinn er niður á við, ofan í holu stjórnvalda.
Mánudagur 26. 03. 12
Gísli Baldvinsson, bloggari Samfylkingarinnar á Akureyri, verður sífellt vondaufari um velgengni flokks síns og baráttumálsins mikla um aðild að ESB sem átti að verða lokið sumarið 2010 að mati sérfræðingsins Baldurs Þórhallssonar sjá hér.
Gísli er tekinn til við að búa sig undir kosningar með ESB-málið að leiðarljósi. Hann veðjar á að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur ályktað gegn aðild að ESB, styðji að lokum ESB-stefnu Samfylkingarinnar. Þetta er enn eitt dæmið um óraunsæi ESB-aðildarsinnanna í Samfylkingunni. Nú vilja þeir gefa VG upp á bátinn og efna til ófriðar innan Sjálfstæðisflokksins til að ná markmiði sínu.
Gísli lifir í þessari von: „En nú skal vona að Björn Bjarnason sé fortíð en Þorgerður Katrín eigi sér framtíð. Öllum er auðvitað ljóst að lokaáfanganum verður ekki náð nema með stuðningi Sjálfstæðisflokksins.“
Gísli veðjar með öðrum orðum á að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur takist að leiða þingflokkinn gegn ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá því í nóvember 2011 þar sem mælt er fyrir um að hlé verði gert á ESB-viðræðunum og þær ekki hafnar að nýju fyrr en að heimild hafi fengist til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu. Gísla verður ekki að ósk sinni. Hvers vegna í ósköpunum skyldi sjálfstæðismönnum detta í hug að hefja samstarf við Samfylkinguna til að Ísland verði aðili að ESB?
Ruglið vegna hinnar vanhugsuðu ESB-umsóknar magnast eftir því sem málið er lengur í höndum Samfylkingarinnar. Össur hefur klúðrað málinu frá sjónarhóli stuðningsmanna sinna, hann á það ekki inni hjá sjálfstæðismönnum að þeir bjargi honum úr klípunni. Heimtufrekja samfylkingarfólks er hins vegar takmarkalaus. Það sveik hins vegar Sjálfstæðisflokkinn á örlagastundu í janúar 2009.
Sunnudagur 25. 03. 12
Qi gong kyrrðardögunum í Skálholti lauk klukkan 13.00 í dag. Séra Egill Hallgrímsson messaði klukkan 11.00 og lagði út af guðspjallinu á boðunardegi Maríu. Í tilefni dagsins efndi Hörður Áskelsson til orgeltónleika í Hallgrímskirkju ásamt fimm manna karlakór sem söng á móti orgelinu í orðsins fyllstu merkingu.
Sagnfræðikunnátta Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, ritstjóra málgagns VG, Smugunnar, er ekki mikil þegar hún segir í fyrirsögn á vefsíðunni „Björn tekur McCarthy á forsetaframbjóðanda“. Með þessari undarlegu yfirlýsingu víkur Þóra full hneykslunnar að því sem ég sagði á Evrópuvaktinni laugardaginn 24. mars eftir að könnun sýndi að Þóra stæði næst því að koma Ólafi Ragnari frá Bessastöðum. Ég sagði:
„Þóra Arnórsdóttir er vinstrisinnuð kona, ýmsir hafa spáð henni formennsku í Samfylkingunni, en nú vill formaður fulltrúaráðs flokksins í Reykjavík [Kjartan Valgarðsson] hana frekar sem forseta. Þóra mun ekki hafa roð við Ólafi Ragnari leggi hún til atlögu við hann. Hún kann hins vegar ef til vill að hafa lokið ferli sínum á sjónvarpi ríkisins með því að ljá máls á framboði.
Þeir sem ætla að ýta Ólafi Ragnari frá Bessastöðum verða að bjóða betri nöfn en birtast þessum lista.“
Þeir sem kenna þessi orð við McCarthy hafa brenglaða sýn á söguna, viti þeir nokkuð um hana. Viðfangsefni mitt er: 1. Samfylkingin vill Þóru í forsetaframboð. 2) Hún hefur verið nefnd sem formannsefni í flokknum og er því vinstrisinnuð. 3. Hún hefur ekki roð við Ólafi Ragnari. 4. Hve langt geta frétta- eða fréttaþáttamenn RÚV gengið í virkri þátttöku í þjóðfélagsbaráttu án þess að fyrirgera rétti sínum til að starfa hjá RÚV?
Það hefði verið meira spennandi að Smugan hefði leitað álits Bjargar Evu Erlendsdóttur, stjórnarformanns RÚV, á stöðu Þóru Arnórsdóttur en að jagast með fúkyrðum í mér. Hæg eru heimatökin, Björg Eva var hluthafi í Smugunni.
Ég styð ekki Ólaf Ragnar til endurkjörs, ég leita ekki heldur að neinum frambjóðanda til að fella hann. Enginn þeirra sem nefndur hefur verið til sögunnar sem andstæðingur hans hefur roð við honum. Hagur þeirra vænkast ekki með furðulegum málflutningi Þóru Kristínar eða annarra sem hallast að málstað krúttkynslóðarinnar sem nú getur fræðst um marxisma-lenínisma undir merkjum VG, eiganda Smugunnar.
Laugardag 24. 03. 12
Qi gong kyrrðardagarnir héldu áfram í Skálholti í dag. Gunnar Eyjólfsson var að leika í Fanney og Alexander í gærkvöldi en mætti í Skálholtsskóla í dag og efndi til hugleiðslu með hópnum og ræddi grunnstef qi gong.
Séra Axel Árnason Njarðvík, sóknarprestur í Stóra-Núpsprestakalli og héraðsprestur í Suðurprófastsdæmi, var með okkur í gærkvöldi og flutti hugleiðingu.
Í dag kynnti séra Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholti, okkur sögu staðarins og kirkjunnar. Við gáfum okkur einnig tíma til rúmlega klukkustundar gönguferðar og létum rokið ekki aftra okkur að njóta góða veðursins, einkennilegt mistur lá yfir Suðurlandi og sást fjallahringurinn ekki.
Mikið fjölmenni lagði leið sína í Skálholtsdómkirkju. Ferðamenn í stórum hópum auk jarðarfarar.
Föstudagur 23. 03. 12
Fimmtudagur 22. 03. 12
Í dag var þess minnst á ÍNN að fimm ár eru frá því að stöðin fór í loftið að frumkvæði Ingva Hrafns Jónssonar og hefur hann haldið henni úti síðan af miklum dugnaði og forsjálni. Ég kom að stöðinni í ágúst 2010 þegar Ingvi Hrafn bað mig að annast þátt á tveggja vikna fresti, það er annan hvorn miðvikudag og hef ég gert það síðan. Í nýjasta þættinum ræddi ég við Stefán Mána rithöfund og má sjá hann hér. Markmið mitt er ekki að stilla viðmælendum upp við vegg heldur fræðast af þeim.
Furðulegt var að sjá Helga Hjörvar, formann efnahagsnefndar alþingis, láta á þingi í gær eins og um eitthvert myrkraverk hefði verið að ræða þegar Seðlabanki Íslands lánaði Kaupþingi fé í október 2008 með veði í danska FIH bankanum. Þegar frumvarpið að neyðarlögunum var fyrst kynnt var ákvæði um þessa ráðstöfun í texta þess en síðan hvarf það á brott þar sem ekki þótti ástæða til að lögfesta neitt um málið. Þingmönnum hefur því verið kunnugt um þessar ráðstafanir frá fyrsta degi.
Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir á vefsíðu sinni að Helgi hafi vakið máls á þessu til að draga athygli frá vaxtahækkun seðlabankans fyrr þennan sama dag. Ég dreg ekki þessa skýringu í efa þótt ég telji aðra nærtækari. Hún er sú að samfylkingarfólki hafi ekki þótt takast sem skyldi í yfirheyrslum í landsdómsmálinu og nú þurfi að grípa til sérstakra aðgerða til að gera þá Davíð Oddsson og Geir H. Haarde tortryggilega.
Þessa skoðun reisi ég á endurteknum fréttum í RÚV um að símtöl seðlabankamanna séu hljóðrituð og eru þar endurtekin ummæli Helga Hjörvars sem birt voru í fréttatíma. Ætlunin virðist vera að knýja fram umræður um eða kannski birtingu á símtali þeirra Davíðs og Geirs. Takist það ekki að stofna til spuna í kringum samtalið og gera það tortryggilegt.
Miðvikudagur 21. 03. 2012
Í dag ræddi ég við Stefán Mána rithöfund í þætti mínum á ÍNN. Hann er höfundur bókarinnar Svartur á leik en samnefnd kvikmynd slær aðsóknarmet í kvikmyndahúsum landsins um þessar mundir. Við ræddum bókina og myndina en auk þess nýjustu bók Stefáns Feigð sem er ekki síður mögnuð en Svartur á leik. Samtal okkar er dagskrá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun, fimmtudag.
Enn sannaðist á þingi í dag að Hreyfingin er gengin í lið með ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmenn flokksins studdu hina fráleitu tillögu að stjórnarskrármálið skyldi afgreitt með afbrigðum.
Jóhanna er á sama stigi nú og fyrir kosningar 2009 þegar hún réð ekki við ofsa sinn í stjórnarskrármálinu og tapaði umræðu um það á þingi. Þeir sem læra ekki af sögunni lenda í ógöngum að óþörfu. Er með ólíkindum að þingmenn ríkisstjórnarinnar láti Jóhönnu leiða sig út í foraðið að nýju, málstaðurinn er meira að segja enn verri en hann var fyrir kosningar 2009.
Þriðjudagur 20. 03. 12
Ingvi Hrafn Jónsson ræddi við Stefán Hauk Jóhannesson, formann ESB-viðræðunefndar Íslands, í þætti sínum Hrafnaþingi í kvöld.
Stefán Haukur keppist að sjálfsögðu við að halda hlutleysi sínu. Það birtist meðal annars í samræðum þeirra um gjaldmiðlamálin. Ingvi Hrafn fór orðum um vandræðin og upplausnina á evru-svæðinu. Stefán Haukur sagði hlutverk sitt og samstarfsmanna sinna að fara að ályktun alþingis og áliti meirihluta utanríkismálanefndar þingsins sem miðaði að því að Ísland yrði hluti af gjaldmiðlasamstarfi ESB undir merkjum ERM II. Lét hann eins og sama hvað gerðist innan ESB að þessu skyldi unnið.
Þessi faglega eða staðnaða afstaða formanns viðræðunefndarinnar er til marks um blindgötu ESB-viðræðnanna. Það er sama hvað gerist hér innan lands eða innan ESB, áfram skal haldið eins og ekkert hafi í skorist. Skynsamlegast er auðvita að staldra við og halda ekki af stað á ný nema með umboði frá þjóðinni.
Í dag bárust fréttir um að sjávarútvegsráðherra Íra ætlaði að beita sér gegn því að hafnar yrðu viðræður um sjávarútvegsmál við Íslendinga nema samningar næðust í makríldeilunni. Steingrímur J. brást fyrst þannig við ummælunum á alþingi að af þeim gæti ekki leitt annað en uppnám í ESB-viðræðunum. Í seinna svari sínu brá hann hins vegar á það ráð að veika gildi orða ráðherrans með því að segja þau „til heimabrúks“.
Málflutningur Stefáns Hauks hljómar oft eins og honum sé meira í mun að skýra afstöðu ESB og setja hana í vinsamlegt ljós en skerpa afstöðu Íslands. Hann sagði til dæmis að vissulega kæmu ákveðin sjónarmið í sjávarútvegsmálum fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar en nú væri unnið að samningsmarkmiðunum undir forystu viðræðunefndarinnar. Í þessu felst að viðræðunefndin mátar skilyrði Íslands inn í ramma ESB áður en þau eru kynnt Íslendingum opinberlega.
Mánudagur 19. 03. 12
Vef-Þjóðviljinn birtir i dag mynd sem segir meira en mörg orð um hverjir báru pólitíska ábyrgð á bankamálum á Íslandi síðustu áratugina fyrir hrun þeirra. Í landsdómsmálinu hefur verið minnt á að ekki er um sameiginlega ábyrgð ráðherra að ræða heldur ber hver þeirra ábyrgð á sínu sviði. Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. Um tíma við upphaf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar var rætt um að breyta ætti ríkisstjórninni í fjölskipað stjórnvald. Er það lengur á dagskrá?
Eins og sjá má á mynd Vef-Þjóðviljans hafa sjálfstæðismenn ekki setið í embætti bankamálaráðherra áratugum saman eða síðan Matthías Á Mathiesen sat þar í skamman tíma á síðari hluta níunda áratugarins. Þrátt fyrir þetta er látið eins og sjálfstæðismenn hafi ráðið öllu, stóru og smáu, sem leiddi til einkavæðingar bankanna og hruns þeirra.
Ástæðan fyrir því að sjálfstæðismenn stjórnuðu ekki viðskipta- og bankamálaráðuneytinu var sú að samstarfsmenn þeirra í ríkisstjórn töldu að með stjórn á ráðuneytinu gætu þeir styrkt stöðu sína meðal þeirra, kaupsýslumanna og síðar fésýslumanna, sem litið var á sem hefðbundna stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði frá því fyrir landsdómi að Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, hefði hringt í sig á sjúkrabeð í New York og sagt að Samfylkingin ætti ekki fulltrúa á fundi um Glitni í Seðlabanka Íslands. Samfylkingin ákvað að senda Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra á vettvang en ekki Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.
Að Gestur skuli hafa hringt í Ingibjörgu Sólrúnu, formann Samfylkingarinnar, fyrir Jón Ásgeir segir í raun allt sem segja þarf um hvers vegna samstarfsmenn Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn töldu svo miklu skipta að hafa viðskipta- og bankaráðuneytið í sínum höndum.
Sunnudaginn 18. 03. 12
Sigurjón Þórðarson hefur verið formaður Frjálslynda flokksins sem í dag varð formlega hluti af nýjum stjórnmálasamtökum sem nefnast Dögun ef bloggfærsla hans er rétt skilin. Hann lýsir markmiði nýja flokksins á þennan veg:
„Baráttan sem er framundan mun ekki snúast um vinstri eða hægri. Hún mun snúast um hvort að hér verði áfram sérhagsmuna- og klíkusamfélag. Fólk sem vill ná árangri í krafti eigin dugnaðar eða verðleika – hlýtur að vilja róttækar breytingar.“
Þegar Sigurjón kveður sér hljóðs sem siðbætandi stjórnmálamaður rifjast upp fyrir mér hve ákaft hann studdi málstað Baugsmanna á tíma Baugsmálsins eins og sjá má í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi. Það fer slíkum manni ekki vel að þykjast andstæðingur sérhagsmuna- og klíkusamfélags. Önnur eins klíka hefur ekki hreiðrað um sig í íslensku samfélagi og sú sem myndaðist í kringum Baugsmenn. Sigurjón vílaði ekki fyrir sér að taka málstað hennar.
Af fréttum mál skilja að hinn nýi flokkur sé án formanns en búi við talsmenn í einstökum málaflokkum. Skyldi Sigurjón hafa verið valinn til að tala á móti klíkum eða kannski auðhringjum? Hann á að minnsta kosti ekki á hættu að Baugsmenn vilji að hann þegi.
Laugardagur 17. 03. 12
Sat í dag fund flokksráðs sjálfstæðismanna á 20. hæð í Turninum í Kópavogi. Hærra verður ekki komist. Í setningarræðu sinni gagnrýndi Bjarni Benediktsson flokksformaður Jóhönnu Sigurðardóttur harðlega fyrir tal hennar um krónuna eins og sjá má hér. Ólöf Nordal varaformaður sagði að fundurinn boðaði upphaf kosningabaráttu sjálfstæðismanna.
Stjórnir málefnanefnda voru kjörnar í samræmi við nýjar skipulagsreglur. Einnig 2. varaformaður og hlaut höfundur hinnar nýju tilhögunar Kristján Þór Júlíusson alþingismaður kjör í annarri umferð með 167 atkvæðum. Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, hlaut 117 atkvæði. Hann flutti magnaðar hvatningarræður á fundinum. Kjör hans hefði breikkað flokksforystuna.
Eiríkur Jónsson ofurbloggari segir á síðu sinni 16. mars:
„Umsnúningur hefur orðið í framleiðslu á Gettu betur - þáttunum hjá Ríkissjónvarpinu.
Þar sem spyrjandinn réði öllu áður eru dómarar nú farnir að grípa fram í ótt og títt og hefta framvinduna.
Spyrillinn í Gettu betur á að ráða för - ekki dómarar í skartklæðum sem stöðugt grípa fram´í.
Áhorfendum er alveg sama um álit dómara - á hinu og þessu...!“
Ég tek undir þessi orð Eiríks. Dómarar eiga að sitja baksviðs eins og í Útsvari. Spenna dettur niður sé stjórnin ekki markviss. Þegar dómarar grípa fram fyrir hendur spyrjanda til að láta ljós sitt skína eða flissa er spurningaþáttur á villigötum.
Föstudagur 16. 03. 12
Utanríkisráðuneytið hefur birt málsvörn sína í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómstólnum á 75 bls. á vefsíðu utanríkisráðuneytisins eins og sjá má hér.
Af því sem Cristian Dan Preda, formaður Íslandsnefndar utanríkismálanefndar ESB-þingsins, segir í pistli sem birtur er á Evrópuvaktinni í dag má álykta að innan þingsins geri menn sér vonir um að Íslendingar semji sig frá málinu fyrir dómstólnum, sjá hér.
Dan Preda rökstyður ekki þessa skoðun en í ályktun sem hann samdi og samþykkt var á ESB-þinginu 14. mars er litið fram hjá Icesave-málinu sem vandamáli í ESB-aðildarviðræðum Íslands þar sem það sé nú fyrir EFTA-dómstólnum. Breskur þingmaður greiddi atkvæði á móti ályktuninni vegna Icesave-málsins.
Allt er þetta ruglingslegt en ESB-þingmenn og fleiri innan ESB hafa áhuga á málaferlunum í EFTA-dómstólnum. Komist hann að þeirri niðurstöðu að ríkissjóðir EES-ríkja séu ábyrgir komi til bankahruns mun það valda mörgum vandræðum nú á tímum niðurskurðar á ríkisútgjöldum.
Fimmtudagur 15. 03. 12
Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari alþingis, flutti málið gegn Geir H. Haarde í landsdómsmálinu í dag. Á ruv.is má lesa:
„Sigríður sagði að Geir hefði alveg vitað hvernig hann ætti að lesa úr þessu riti, enda væri hann hagfræðimenntaður og hefði meðal annars starfað í Seðlabankanum um árabil. Sigríður sagði að menn hefðu skýlt sér á bak við að í riti Seðlabankans virtist all vera í góðu lagi. Það væri fráleitt. Seðlabankinn hefði sett þetta fram eins skýrt og hægt hefði verið.“
Þessi orð vekja tvær athugasemdir. Í fyrsta lagi að líklega verður aldrei unnt að stefna Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir landsdóm, hún er ekki hagfræðimenntuð, hefur ekki starfað í seðlabankanum og hélt hún væri að lesa Fjármálatíðindi seðlabankans á árinu 2008 þegar útgáfu þeirra hafði verið hætt. Í öðru lagi stangast fullyrðingar saksóknarans á við kenningarnar um að seðlabankinn hafi ekkert aðhafst undir stjórn Davíðs Oddssonar.
Á ruv.is segir einnig:
„Sigríður fór í gegnum ríkisstjórnarfundi sem haldnir voru árið 2008, fram að hruni, og sagði þá bera með sér að lítið hefði verið rætt um þá vá sem var uppi í fjármálakerfinu. Hún sagði alveg ljóst að hættan sem steðjaði að bankakerfinu og um leið íslenska ríkinu hefði verið slík að hún flokkaðist sem mikilsvert stjórnarmálefni. Þess vegna hefði verið ástæða til að halda fundi um þetta og nefndi hún sérstaklega Glitnishelgi í þessu samhengi.“
Þeir sem þekkja sögu stjórnarráðsins og þá staðreynd að um langt árabil voru engar fundargerðar skráðar í ríkisstjórn hljóta að undrast að nú sé talið refsivert þegar ekki er bókað um hvað ráðherrar ræða undir liðnum önnur mál og það jafngildi því að mál hafi ekki verið rætt. Þetta er ótrúleg grunnhyggni eða öfgafullur formalismi.
Mikilsverð stjórnarmálaefni eru rædd á ríkisstjórnarfundum hvort sem það er bókað í fundargerð eða ekki. Geir Haarde hafði samband við ráðherra um Glitnishelgina svonefndu og hafði umboð þeirra til þeirra aðgerða sem þá voru ákveðnar. Menn ættu að lesa bókina Þingræði á Íslandi til að átta sig á því hvernig samskiptum ráðherra og alþingis er háttað en gagnvart þinginu bera ráðherrar ábyrgð en ekki gagnvart landsdómi þegar um pólitískar ákvarðanir er að ræða.
Tímaritið Þjóðmál, vorhefti 2012, fyrsta hefti áttunda árangs. Ég skrifa þar umsögn um bókina Þingræði á Íslandi og tel hana skyldulesningu fyrir þá sem vilja átta sig á meginatriðum stjórnskipunar Íslands.
Miðvikudagur 14. 03. 12
Í gær vakti ég máls á því hér á síðunni að Guðrún Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalagsins, hefði hneykslast á því vorið 1995 að ég hefði tekið upp tölvusamskipti sem menntamálaráðherra á netinu. Guðrún skrifaði grein um þessi ósköp í Morgunblaðið 12. maí 1995 og sagði meðal annars:
„Á þessu skipulagi [tölvusamskiptum menntamálaráðherra] er aðeins einn smágalli. Til er fólk eða svona milliliðir í landinu sem annt er um íslenska menningu, en hefur aldrei vanist tölvuskriftum. Því fólki fer þó fækkandi og mikill fjöldi manna hefur fjárfest í heimilistölvu og kann að nota hana. En ekki nægir að eiga tölvu til að skrifa ráðherranum, heldur þarf einnig að festa kaup á viðbótarhlut sem kallaður er mótald og hann kostar einhverja tugi þúsunda. Þetta er nauðsynlegt að menn viti sem áhrif vilja hafa á mennta- og menningarmálastefnu ráðherrans.
Ekki er að efa að öll ríkisstjórnin á eftir að fara að dæmi menntamálaráðherrans, svo og Alþingi allt, og losa sig þannig við sauðsvartan almúgann sem vílar ekki fyrir sér að trufla þingmenn og ráðherra í tíma og ótíma með ólíklegasta kvabbi og hafa skoðanir á öllum málum. Það er dagljóst að kraftar þingmanna duga miklu betur ef þeir þurfa aldrei að sjá kjósendur sína í eigin persónu sína eða eyða tíma sínum í að hlusta á rausið í þeim en geta þess í stað einbeitt sér við að „leitast við að svara“ bréfum. Milliliðalaus samskipti manna er það sem koma skal.“
Já, þannig skrifaði þingamaður um tölvusamskipti fyrir 17 árum. Þá voru hvorki Facebook né Twitter komin til sögunnar sem gera mönnum kleift að senda boð hvaðan sem er úr síma eða tölvu. Arftökum Guðrúnar Helgadóttur á þingi er nóg boðið, noti þingmenn þessa tækni til að lýsa skoðun sinni af nefndarfundi.
Þingmenn hafa orðið að laga sig að byltingunni á sviði upplýsingatækni. Vitlausasta leiðin til þess er að leggja stein í augu [hér á auðvitað að standa götu en ekki augu - en ég leyfi þessu að haldast þar sem mér er sagt að túlka megi þetta sem stílbragð með vísan til orða sem falla í ræðustól alþingis] málfrelsisins enda sé ekki brotið á neinum með að nota það. Gerði Vigdís Hauksdóttir það með því að segja skoðun sína á því sem hún heyrði á nefndarfundi? Að sjálfsögðu ekki, til þess eru fundirnir að auðvelda þingmönnum að mynda sér skoðun.
Ég svaraði Guðrúnu Helgadóttur í grein í Morgunblaðinu 13. maí 1995 og má lesa hana hér.
Þriðjudagur 13. 03. 12
Í dag skrifaði ég pistil þar sem ég leit á frönsku forsetakosningarnar og ESB-umræður hér og þar. Má lesa pistilinn hér.
Á árinu 1995 þegar ég tók til að nota tölvuna til að miðla upplýsingum um störf mín sem stjórnmálamanns og síðar sem ráðherra vakti það undrun og jafnvel hneykslan. Guðrún Helgadóttir, þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, var í hópi þeirra sem gagnrýndi mig fyrir að leyfa mér að ætla að nota tölvu til að hafa samband við kjósendur. Ég minnist þess einnig að á fyrstu árum mínum í þinginu sagði ég opinberlega frá því sem gerðist á fundi þar sem rætt var um dagskrá þingsins af því að mér blöskraði að ekki var við það staðið. Varð þessi upplýsingamiðlun mín til þess að ráðist var á mig í upphafi þingfundar fyrir að brjóta reglur og jafnvel þingsköp.
Fjarskiptum og tölvutækni hefur fleygt fram síðan þetta var og nú rjúka þingmenn upp á nef sér og skamma þingmann fyrir að sitja á nefndarfundi og segja frá því sem gerist á fundinum með því að senda efni inn á fésbókina. Var þingmaðurinn, Vigdís Hauksdóttir Framsóknarflokki, tekin á beinið í upphafi þingfundar og gekk forseti svo langt að ætla að neita henni að verja hendur sínar. Þingmaður hlýtur að mega segja frá því sem hann telur að hafi komið fram á þingnefndarfundi þótt hann vitni ekki beint í þann sem miðlaði vitneskjunni. Hvers vegna skyldi bannað að gera það á meðan fundur er haldinn?
Þegar bannað var að senda beint í hljóð og mynd frá landsdómi gripu fjölmiðlamenn til þess ráðs að tísta (senda beint út á samskiptasíðuna Twitter) og lýsa því sem gerðist. Forseti dómsins bannaði ekki þessa starfsemi og mér heyrist í kynningu á Spegli RÚV að sérfræðingur hans í hruninu, Sigrún Davíðsdóttir, fari yfir tístið í New York og gefi síðan álit sitt á því sem gerst hefur í Þjóðmenningarhúsinu í símtali við umsjónarmann Spegilsins.
Mánudagur 12. 03. 12
Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir ráðherrum snemma árs 2008 að hætta sé á ferðum innan íslenska bankakerfisins. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður annars stjórnarflokkanna og utanríkisráðherra, segir við fréttamenn 12. mars 2012 að hún hafi tekið þessu með fyrirvara af því að Davíð hafi sagt það auk þess sem hann hafi hallmælt íslenskum bankamönnum á þann veg að henni blöskraði.
Sigmar Guðmundsson, stjórnandi Kastljóss, blæs á þessa dæmalausu lýsingu á því hvers vegna Ingibjörg Sólrún tók ekki mark á alvarlegum viðvörunarorðum með því að láta orð falla á þann veg að svona sé að hafa stjórnmálamenn sem seðlabankastjóra. Að afgreiða málið á þann veg er dæmigert fyrir hvernig slett er í góm í fjölmiðlum og skautað fram hjá málum eftir því sem mönnum þykir sér henta.
Samfylkingarfólk, sumt að minnsta kosti, hafði greinilega ekki hæfileika til að líta hlutlægt á mál vegna fordóma í garð embættismanna og þar var Davíð Oddsson fremstur í flokki eins og sannaðist best á því að lögum um Seðlabanka Íslands var breytt strax eftir Jóhanna Sigurðardóttir varð ráðherra seðlabankamála, hún rak þrjá seðlabankastjóra á einu bretti og réð Norðmann til bráðabirgða sem þriggja manna maka þar til Már Guðmundsson hafði tíma til að koma í bankann, óðagotið var þó svo mikið að ekki vannst tími til að semja um laun Más á viðundandi hátt eins og kjaradeilan fyrir héraðsdómi sýnir.
Spurning er hvaða áhrif það hafði á meint aðgerðarleysi Geirs H. Haarde sem nú hefur leitt til landsdómsmáls gegn honum að Ingibjörg Sólrún tók ekki mark á Davíðs Oddssyni. Í samsteypustjórn ræðst forsætisráðherra ekki til atlögu við bankakerfið nema báðir stjórnarflokkar standi að henni.
Sunnudagur 11. 03. 12
Hvarvetna á Norðurlöndum glíma þeir sem eru lengst til vinstri og sitja í ríkisstjórn við mikinn vanda, jafnvel tilvistarvanda.
Fréttir frá Danmörku benda til þess að vandræði í ríkisstjórninni aukist jafnt og þétt með síminnkandi fylgi í skoðanakönnunum. Af stjórnarflokkunum þremur er helst sótt að Sósíalíska þjóðarflokknum (SF) en Villy Søvndal, formaður flokksins og utanríkisráðherra, sækir harðri gagnrýni eigin flokksmanna. Hann var til skamms tíma vinsælasti stjórnmálamaður Danmerkur.
Fréttir af Sósíalíska vinstriflokknum (SV) einum stjórnarflokkanna í Noregi benda ekki til þess að honum hafi farnast vel í ríkisstjórninni. Kristin Halvorsen menntamálaráðherra hvarf úr formennsku flokksins laugardaginn 10. mars og tók Audun Lysbakken við af henni en hann neyddist til að segja af sér sem ráðherra fyrir nokkrum dögum þegar skýrt var frá því að hann hefði hyglað eigin flokksmönnum með fjárstuðningi sem jafnréttisráðherra.
Öllum er ljóst hve illa ríkisstjórnarsetan hefur leikið vinstri-græna (VG) hér á landi. Fylgið hefur hrunið af flokknum samkvæmt skoðanakönnunum og er nú 12%. Flokkurinn er klofin ofan í rót vegna ESB-málsins og Steingrímur J. Sigfússon og klíka hans halda völdum í flokknum með þöggun og banni við því að erfið mál séu tekin umræðu á vettvangi hans.
Laugardagur 10. 03. 12
Leikritið Dagleiðin langa eftir Eugene O‘Neill í Kassanum í Þjóðleikhúsinu er klassískt leikrit, nú flutt í þriðja sinn í Þjóðleikhúsinu og í þriðju þýðingu, hinni fyrstu 1959 eftir Svein Víking, annarri 1982 eftir Thor Vilhjálmsson og nú eftir Illuga Jökulsson. Blótsyrði eru örugglega fleiri í þessari þýðingu en hinum tveimur fyrri. Hin dramatísku samtöl eru kjarni verksins. Allt gengur þetta upp í meðförum frábærra leikara sem skila textanum af öryggi. Spurning er hvort ofsi og hraði eða þagnir og þungi eru betri leið til að koma efni og boðskap verksins á framfæri. Hér er valinn ofsi og hraði, stundum með of miklum hávaða og látum, um er að ræða samtöl innan lítillar fjölskyldu.
Nú er samtal mitt á ÍNN við Skúla Magnússon, ritara EFTA-dómstólsins, komið inn á netið og má sjá það hér.
Föstudagur 09. 03. 12
Á dögunum velti einhver fyrir sér eftir að ég hafði nefnt myndina Borgríki hér á síðunni og sagt hana endurspegla íslenskan veruleika hvort ég mundi kannski segja hið sama um myndina Svartur á leik. Nú þegar ég hef séð hana segi ég það enda er þar meðal annars vísað beint til afbrota sem framin voru á þeim tíma sem sagan gerist. Svartur á leik er enn eitt dæmið um eftirminnilegan árangur í íslenskri kvikmyndagerð – persónusköpunin var sterk í einmanaleik sínum, tilgangsleysi og grimmd; leikurinn stenst ströngustu kröfur; stundum hefði talsetningin mátt vera skýrari. Handritið eftir Stefán Mána skapar myndinni öryggi og festu.
Mér var enn hugsað til þess sem við heyrðum á Varðbergsfundinum í gær um skipulagða glæpastarfsemi og hvernig hún grefur um sig á róttækari hátt en áður. Hún er sýnileg í mótórhjólagengjum en líklega enn alvarlegri á öðrum sviðum. Mótórhjólagengin gætu verið toppurinn á ísjakanum.
Lesendur síðu minnar vita að um nokkurra ára skeið hef ég verið með Gunnari Eyjólfssyni leikara á qi gong kyrrðardögum i Skálholti. Hef ég fengið að sinna þessu gefandi verkefni án þess að sæta áreiti vegna þess. Nú bregður hins vegar svo við að Reynir Traustason ritstjóri á DV sér ástæðu til þess að grípa til hefðbundinnar neikvæðni í minn garð vegna þessara kyrrðardaga.
Reynir gerir þetta í anda meistara síns Jóns Ásgeirs Jóhannessonar Baugsmanns. Um nokkurra ára bil var Reynir handlangari hans á Baugsmiðlunum og tekur nú upp þráðinn gegn mér í tilefni af því að ég var dæmdur til að greiða 900.000 krónur vegna leiðréttrar ritvillu í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi þar sem þeir Jón Ásgeir og Reynir koma við sögu. Reynir hefur meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að bæturnar sem mér er gert að greiða Jóni Ásgeiri séu of lágar til að ég geti áfrýjað málinu hæstaréttar. Reynir hefur vafalaust viljað gleðja Jón Ásgeir með þessari uppgötvun sinni – að sjálfsögðu get ég áfrýjað málinu. Raunar ættu blaðamenn og rithöfundar að fagna því að leitað sér álits hæstaréttar hvort það sé lagaregla hér á landi að unnt sé að dæma menn til að greiða stórfé vegna ritvillu sem þeir leiðrétta með afsökun.
Ég er hættur að kippa mér upp við títuprjóna Reynis, undrast mest að hann telji sér til framdráttar að vera stöðugt á þessu lága plani, líklega er hann þó einmitt ráðinn til þess.
Fimmtudagur 08. 03. 12
Í hádeginu í dag efndi Varðberg til fundar í ráðstefnusal Þjóðminjasafns þar sem Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, og Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ræddu um skipulagða glæpastarfsemi og viðbrögð lögreglu við henni.
Fundurinn var vel sóttur og kom mörgum örugglega á óvart að kynnast því sem ræðumenn höfðu fram að færa því að ekki er algengt að lögregla komi fram á fundum sem þessum. Löggæsla er ekki lengur takmörkuð af landamærum ríkis heldur er hún alþjóðlegt samstarfsefni ef lögregla á að geta haldið í við þróunina meðal afbrotamanna.
Þeir sem halda að allan vanda við íslenska löggæslu megi uppræta með því að ganga úr Schengen og taka upp landamæravörslu hefðu átt að sitja þennan fund og hlusta á Jón F. Bjartmarz. Engum fundarmanni datt í hug að spyrja hvort ástæða væri til að taka þátt í Schengen-samstarfinu að loknu erindi hans. Lögreglan mundi einfaldlega einangrast verulega við brottför úr Schengen og vegabréfaskoðun fyllti það skarð alls ekki.
Karl Steinar lagði áherslu á að starfsumhverfi íslenskrar lögreglu yrði að vera sambærilegt við það sem tíðkast í öðrum löndum, án þess vildi lögregla annarra landa ekki starfa með hinni íslensku. Í því sambandi nefndi hann til dæmis heimildir til gæsluvarðhalds og afhendingu á gögnum til verjenda og sakborninga. Hér hafa refsiréttarfræðingar smíðað sértækar íslenskar reglur um þessi atriði og þeim hefur tekist að sannfæra þingmenn um gildi þeirra.
Ef marka má yfirlýsingar alþingismanna eru þeir áhugasamir um aðgerðir til að auðvelda lögreglu að takast á við skipulagða glæpahópa. Þeir ættu að sýna það í verki með því að taka tillit til óska lögreglunnar um inntak lagaákvæða þegar skýr rök eru að baki óskunum.
Andri Karl blaðamaður á mbl.is hefur skrifað nokkrar fréttir af fundinum eins og lesa má hér.
Miðvikudagur 07. 03. 12
Í dag ræddi ég við Skúla Magnússon, ritara EFTA-dómstólsins, í þætti mínum á ÍNN sem verður sýndur í kvöld klukkan 22.00 og á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00. Við ræddum um stjórnlagabreytingar og meðferð Icesave-málsins fyrir EFTA-dómstólnum en íslenska ríkið á að skila greinargerð sinni vegna málsins á morgun 8. mars. Af samtalinu má ráða að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefði ekki höfðað málið gegn Íslandi nema með samþykki framkvæmdastjórnar ESB, að minnsta kosti ekki í andstöðu við hana.
Icesave-málið mun draga þungan dilk á eftir sér verði niðurstaðan sú að ríkisábyrgð sé á innstæðum banka samkvæmt EES-reglum. Hvernig munu ríkissjóðir stórskuldugra evru-ríkja getað axlað slíka ábyrgð? Verði talið að íslensk stjórnvöld hafi mismunað innstæðueigendum vaknar spurning um hvað felst í þeirri niðurstöðu. Hver mun leita skýringar á því?
Skúli færir skýr rök fyrir því að hreint glapræði sé að halda á stjórnarskrármálinu eins og gert hefur verið undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Stjórnarflokkarnir skutu sér á bakvið þingsályktunartillögu sem flutt var í byrjun október 2011 undir forystu Þórs Saaris til að koma stjórnarskrármálinu aftur í hendur stjórnlagaráðs. Að fallist var á gjörbreytta tillögu Þórs varð til þess að hann og tveir aðrir þingmenn Hreyfingarinnar hétu ríkisstjórninni stuðningi.
Þór Saari tekur varla til máls á alþingi án þess að hallmæla því sem stofnun og öllu sem gerist innan veggja þess, hann telur sig greinilega þess umkominn að bæta stjórnmálin og stjórnarstofnanir. Ég man hins vegar ekki eftir því að geðlæknir, afbrotafræðingur og lögregla hafi talið óhjákvæmilegt að setja ofan í við þingmann á þann hátt sem gert hefur verið við Þór Saari vegna dómgreindarbrests hans sem birtist í skrifum eftir að ráðist var á starfsmann í lögfræðistofu við Lágmúla með hnífi fyrr í vikunni.
Helgi Seljan leitaðist við að fá Þór Saari til að viðurkenna villu síns vegar í Kastljósi kvöldsins. Það var eins og skvetta vatni á gæs. Þór er sannfærður um að hann hafi ekki gert neitt ámælisvert. Helgi lét Þór ekki slá sig út af laginu með forherðingu sinni. Helgi leiddi fram að vegur alþingis vex ekki með því að Þór Saari sitji þar – þvert á móti dregur hann úr virðingu þingsins. Ástæðan fyrir því að Þór styður ríkisstjórnina er sú að hann vill draga í lengstu lög að gengið verði til kosninga – Hreyfingin mælist með 2 til 3% fylgi.
Þriðjudagur 06. 03. 12
Í dag kvað Jón Finnbjörnsson upp dóm í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn mér vegna ritvillu í bók minni um Baugsmálið. Dómurinn kom mér á óvart eins og lesa má hér.
Viðbrögðin sem ég hef fengið hafa öll nema eitt verið á þann veg að menn eiga erfitt með að átta sig á röksemdarfærslunni; hvort ummæli lifi af hlutlægum ástæðum þótt þau séu dregin til baka og þess vegna sé réttlætanlegt að refsa þeim sem setti þau fram upphaflega þótt ekki hafi verið um ásetning að ræða. Þá sé Jón Ásgeir greinilega ekki opinber persóna eins og aðrir sem hafi mátt þola höfnun dómara á kröfum sínum í meiðyrðamálum með vísan til stöðu sinnar í þjóðfélaginu.
Þessum eftirmála Baugsmálsins er ekki lokið frekar en ýmsu öðru sem tengist Jóni Ásgeiri árunum fyrir hrun. Fyrir mér vakti alls ekki við ritun bókar minnar að draga athygli að refsingunni sem Jón Ásgeir hlaut í hæstarétti. Með málshöfðun sinni hefur hann dregið athyglina rækilega að því. Hvað sem afstöðu dómarans líður er örugglega álitamál í huga almennings hvort sé alvarlegra fyrir umsvifamikinn fésýslumann að hljóta dóm fyrir fjárdrátt eða meiriháttar bókhaldsbrot. Samkvæmt lögum er refsiramminn hinn sami fyrir brotin.
Niðurstaða dómarans er þess eðlis að óhjákvæmilegt er að fá niðurstöðu hæstaréttar um hvort hún sé rétt og þess vegna hefur Jón Magnússon hrl., lögmaður minn, ákveðið í samráði við mig að áfrýja málinu.
Mánudagur 05. 03. 12
Landsdómur kemur saman í fyrsta og eina skipti í sögunni og menn hafa ekki einu sinni hugmyndaflug til að búa þannig um þinghaldið að uppfyllt sé frumkröfum nútímalegrar fjölmiðlunar. Að láta sér detta í hug að breyta lestrarsalnum gamla í Þjóðmenningarhúsinu í dómsal fyrir réttarhöldin sjálf er fráleitt.
Það er alls ekki unnt að búast við því að unnt sé að flytja fullnægjandi fréttir í endursögn af því sem gerist í þessum flóknu réttarhöldum þar sem fjallað er um málefni sem snerta ekki aðeins þann sem er að ófyrirsynju ákærður heldur alla þjóðina enda eru málaferlin pólitísk eins og sannaðist enn á alþingi í síðustu viku. Þetta eru ekki aðeins málaferli sem eiga erindi við íslensku þjóðina heldur vekja þau athygli langt út fyrir landsteinana.
Réttarhöldin snúast um hvort hinn ákærði hafi séð hluti fyrir eða staðið rétt að formsatriðum í aðdraganda bankahrunsins. Þeir sem standa að umgjörð réttarhaldanna hafa fallið á prófinu. Þeir eiga að leigja sal í Háskólabíói, koma fyrir upptökuvélum og hljóðnemum og gefa allri þjóðinni tækifæri til að fylgjast með þessum sögulega viðburði í réttar- og stjórnmálasögunni.
Þegar ég les lýsingar á því sem leiddi til uppsagnar Gunnars Þ. Andersens dettur mér í hug saga Jerzys Kosinkis Being There um einfalda garðyrkjumanninn Chance, sem Peter Sellers lék í kvikmynd eftir sögunni.
Sunnudagur 04. 03. 12
Skálholtskvartettinn lék í Hlöðunni að Kvoslæk í dag. Veðrið var fallegt eins og jafnan þegar Rut hefur efnt þar til tónleika.
Ólafur Ragnar Grímsson gaf pólitískar ástæður fyrir því að hann ætlar að bjóða sig fram í fimmta sinn sem forseta. Tvær meginástæður ráða ákvörðun hans: stjórnlagabreytingar og aðildarviðræður við ESB. Í báðum tilvikum er hann andvígur stefnu ríkisstjórnarinnar. Stuðningsmenn hennar bregðast einnig ókvæða við ákvörðun hans. Þeir hljóta að leita logandi ljósi að mótframbjóðanda, líklega hafa þeir augastað á konu. Hún verður að taka afstöðu með stefnu ríkisstjórnarinnar og verða í stakk búin til að etja kapps við Ólaf Ragnar um þessi mál.
Við setningu alþingis haustið 2011 hakkaði Ólafur Ragnar tillögur stjórnlagaráðs í sig. Þær hafa ekkert breyst í meðförum þingsins og þeim hefur nú verið skotið aftur til stjórnlagaráðs í skjóli þingsályktunartillögu sem Þór Saari flutti á fyrstu dögum október 2011. Þór fékk samþykkt eigin tillögu í gjörbreyttri mynd sem dúsu fyrir stuðning Hreyfingarinnar við helstu óhæfuverk ríkisstjórnarinnar eins og síðast sannaðist þegar Þór og félagar tóku þátt í því að vísa frá tillögunni um afturköllun landsdómsmálsins.
Ólafur Ragnar segist líklega ekki sitja út kjörtímabilið, hann telur greinilega að með falli ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í þingkosningunum í apríl 2013 ljúki þeirri aðför að stjórnarskránni og fullveldinu sem Jóhanna hefur staðið fyrir frá árinu 2009.
Laugardagur 03. 03. 12
„Sjálfstæðisflokkurinn er stærri en báðir stjórnarflokkarnir samanlagt, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Allir gömlu flokkarnir tapa fylgi. Rúm 11% segjast ætla að kjósa Samstöðu Lilju Mósesdóttur en rúmlega 4% Bjarta framtíð,“ segir á ruv.is 3. mars.
11,3% segjast myndu kjósa Samstöðu þar sem Lilja Mósesdóttir er í forsvari. Framsókn fær 13% en fékk 15% síðast. Vinstri græn fá 12% en fengu 14% síðast. Vikmörk í þessari könnun eru 0,6-1,9% og Samstaða, Framsókn og VG því álíka stórir flokkar, samkvæmt Gallup.
2,7% segjast myndu kjósa Hreyfinguna sem er svipað og síðast. Samfylkingin fær 18,7% - var í 22% síðast. Stjórnarflokkarnir fá því samanlagt um 30,7% í þessari könnun, samanborið við 36 % síðast. Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærstur, með 33,3% fylgi, en var með 36% síðast.
27,1%, meira en fjórðungur þeirra sem náðist í, ætla ekki að kjósa, neita að svara, taka ekki afstöðu eða ætla að skila auðu.
Þegar þessar tölur eru skoðaðar er augljóst að kjósendur telja ríkisstjórnina á alrangri leið, hið versta við könnunina er að hið litla fylgi stjórnarflokkanna og Hreyfingarinnar sem hefur gengið til liðs við stjórnina á alþingi dregur enn úr líkum á því að þing verði rofið og efnt til kosninga. Þær yrðu einskonar pólitísk sjálfsmorðferð stjórnarliða og Hreyfingarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að huga rækilega að því hvers vegna hann nær sér ekki betur á strikFöstudagur 02. 03. 12
Gunnar Þ. Andersen, forstöðumaður fjármálaeftirlitsins, er rekinn 1. mars og kærður til lögreglu. Hann fer sjálfur 2. mars til skýrslugjafar hjá lögreglu. Lögmaður hans segir sig frá honum 2. mars með yfirlýsingu um að nýjar upplýsingar sem komið hafi fram í uppsagnarbréfi til Gunnars 1. mars og skýrst hafi með ákveðnum hætti að kvöldi sama dags, hafi komið sér algjörlega í opna skjöldu og séu til þess fallnar að setja málið í nýjan farveg. Stjórn fjármálaeftirlitsins hafði glímt við að losna við Gunnar og boðið honum starfslokasamning sem hann hafnað. Þá fær hún í hendur upplýsingar um að Gunnar hafi á ólögmætan hátt fengið starfsmann Landsbanka Íslands til að afla gagna sem snerta Guðlaug Þór Þórðarson alþingismann í bankanum.
DV birti 1. mars frétt um að eignarhaldsfélag í eigu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar hafi fengið greiddar tæpar 33 milljónir króna frá Landsbanka Íslands í júní 2003. Greiðslan hafi verið vegna sölu Guðlaugs Þórs á umboði fyrir tryggingamiðlun svissneska tryggingafélagsins Swiss Life sem hann seldi til Landsbankans á þessum tíma. Guðlaugur Þór segir við DV að hann hafi keypt tryggingamiðlunina af Búnaðarbankanum, þar sem hann starfaði, með láni frá bankanum og selt hana skömmu síðar til Landsbankans.
Í hádegi 2. mars leiðréttir RÚV í fréttatíma fyrri frétt sína um að DV vitni í skjöl sem Gunnar Þ. Andersen hafi fengið í Landsbankanum. Ritstjórn DV hafi fullvissað fréttastofu RÚV um að svo væri ekki. Síðdegis 2. mars segir á vefsíðunni Pressunni:
„Samkvæmt upplýsingum Pressunnar óskaði Gunnar eftir því við starfsmann [Lands]bankans að hann fengi upplýsingar um fjármál Guðlaugs Þórs og fengi afhent. Starfsmaður bankans nálgaðist þær upplýsingar og afhenti en þegar starfsmenn bankans sáu þær á forsíðu DV höfðu forsvarsmenn Landsbankans samband við stjórn FME og upplýstu hvernig þær væru tilkomnar. Þar með var ljóst að mati bæði Landsbankamann og stjórnarmanna FME að Gunnar hefði sótt upplýsingar gagngert til að leka þeim í DV. Blaðið hefur síðustu vikur varið Gunnar af mikilli hörku. Umræddur bankamaður í Landsbankanum hefur verið settur í leyfi vegna málsins.“
Sjá framhald með því að ýta á Lesa meira hér fyrir neðan.
Fimmtudagur 01. 03. 12
Þessi vika hefur verið söguleg. Alþingismenn vísuðu í dag frá tillögu um að kalla aftur ákæru á hendur Geir H. Haarde með þeim furðulegu rökum að alþingi ætti ekki að hafa afskipti af dómsmálum – þingið hefur þó stofnað til þessara málaferla og þingmenn hafa hlustað á rök um að ákæra þess sé haldin miklum lögfræðilegum ágöllum. Málaferlin eru einfaldlega pólitísk. Þór Saari varð sér enn einu sinni til skammar í ræðustól þingsins.
Gunnar Þ. Andersen var í dag rekinn úr forstjórastarfi fjármálaeftirlitsins. Lokahnykkurinn er sagður tengjast gögnum varðandi Guðlaug Þ. Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Gunnar Þ. hafi látið sækja þau í Landsbanka Íslands í vikunni til að lesa heima hjá sér. DV birti forsíðufrétt um fjármálagjörninga Guðlaugs Þórs í vikunni, hann segist ekki vita hvaðan á sig stendur veðrið. Gunnar Þ. neitar að hafa séð skjöl varðandi Guðlaug Þór. Nú þurfa rannsóknarblaðamenn að segja okkur hvað þarna er á ferðinni.
Þriðja stórmálið tengist Ólafi Ragnari Grímssyni sem sagði á Bessastöðum mánudaginn 27. febrúar að hann þyrfti svigrúm til að átta sig á því hvort hann ætti að hætta við að hætta sem forseti Íslands. Þá féllu meðal annars þessi gullkorn sem Magnús Geir Eyjólfsson, ritstjóri Eyjunnar, skráði:
„Mín heitasta ósk er sú að ég hefði verið í sömu sporum og fyrirrennarar mínir, að öll staða mála í landinu væri með þeim hætti og með þeim brag að lítið haggaðist, hver sem væri hér á Bessastöðum. En það eru því miður örlög mín og þjóðarinnar að þetta er ekki slíkur tími. […]
Það eru fjölmörg heillandi verkefni og mikilvæg, ekki bara fyrir Ísland, heldur fyrir mannkynið allt, sem kalla eftir að ég komi til liðs við og taki þátt í á alþjóðlegum vettvangi.“
Hvort skyldi Ólafur Ragnar velja litla Ísland eða mannkynið allt?