Mánudagur 12. 03. 12
Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir ráðherrum snemma árs 2008 að hætta sé á ferðum innan íslenska bankakerfisins. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður annars stjórnarflokkanna og utanríkisráðherra, segir við fréttamenn 12. mars 2012 að hún hafi tekið þessu með fyrirvara af því að Davíð hafi sagt það auk þess sem hann hafi hallmælt íslenskum bankamönnum á þann veg að henni blöskraði.
Sigmar Guðmundsson, stjórnandi Kastljóss, blæs á þessa dæmalausu lýsingu á því hvers vegna Ingibjörg Sólrún tók ekki mark á alvarlegum viðvörunarorðum með því að láta orð falla á þann veg að svona sé að hafa stjórnmálamenn sem seðlabankastjóra. Að afgreiða málið á þann veg er dæmigert fyrir hvernig slett er í góm í fjölmiðlum og skautað fram hjá málum eftir því sem mönnum þykir sér henta.
Samfylkingarfólk, sumt að minnsta kosti, hafði greinilega ekki hæfileika til að líta hlutlægt á mál vegna fordóma í garð embættismanna og þar var Davíð Oddsson fremstur í flokki eins og sannaðist best á því að lögum um Seðlabanka Íslands var breytt strax eftir Jóhanna Sigurðardóttir varð ráðherra seðlabankamála, hún rak þrjá seðlabankastjóra á einu bretti og réð Norðmann til bráðabirgða sem þriggja manna maka þar til Már Guðmundsson hafði tíma til að koma í bankann, óðagotið var þó svo mikið að ekki vannst tími til að semja um laun Más á viðundandi hátt eins og kjaradeilan fyrir héraðsdómi sýnir.
Spurning er hvaða áhrif það hafði á meint aðgerðarleysi Geirs H. Haarde sem nú hefur leitt til landsdómsmáls gegn honum að Ingibjörg Sólrún tók ekki mark á Davíðs Oddssyni. Í samsteypustjórn ræðst forsætisráðherra ekki til atlögu við bankakerfið nema báðir stjórnarflokkar standi að henni.