Dagbók: apríl 2011

Laugardagur 30. 04. 11. - 30.4.2011

Í dag eru 20 ár liðin frá því að Davíð Oddsson myndaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Hún leiddi til mikilla framfara í þjóðfélaginu. Þær voru í hróplegri andstöðu við stöðnunina sem ríkir um þessar mundir og birtist meðal annars í dauðahaldi seðlabankans og ríkisstjórnarinnar í gjaldeyrishöftin. Þau eru ekki til framfara frekar en ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J.

Aflinn, félag gi gong iðkenda á Íslandi, efndi til stefnumóts við orkuna í Kaffi Flóru í Grasagarðinum í Laugardal í morgun í tilefni af 13. alþjóðadegi qi gong sem haldinn er síðasta laugardag í apríl. Hann hófst klukkan 10.00 að morgni í Nýja Sjálandi og þokaðist síðan áfram yfir jarðarkringluna með æfingum í ólíkum löndum.

Við ætluðum að æfa utan dyra en urðum að hætta við það vegna slyddu. Í staðinn fengum við inni í Kaffi Flóru, þar sem Gunnar Eyjólfsson leiddi hugleiðslu.







Föstudagur 29. 04. 11 - 29.4.2011

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af því að aðstoðarseðlabankastjóri varð að skrifa undir bréf með staðgengli forstöðumanni gjaldeyriseftirlitsins til að Samherji og sölufyrirtæki hans geti notað eigin gjaldeyri til að kosta ferð starfsmanna á sjávarútvegssýningu í Brussel.

Þetta dæmi sýnir hvert stefnir hér á landi undir fyrstu tæru vinstri stjórninni og seðlabankastjóra sem vill sitja yfir hlut einstaklinga og fyrirtækja í krafti gjaldeyrishafta. Hið undarlegasta við þessa þróun er að stjórnarandstaðan nær ekki þeim tökum á ríkisstjórninni og stjórnarháttum hennar sem duga til að sýna í eitt skipti fyrir öll hve illa hún stendur að málum.

Ég hef áður sagt að í 20 ár hafi Íslendingar ekki kynnst stjórnarháttum eins og þeim sem nú ríkja í landinu. Þetta á ekki aðeins við um fjölmiðlamenn heldur einnig aðila vinnumarkaðarins og alla aðra sem eiga samskipti við stjórnvöld. Gjaldeyrisreglurnar og framkvæmd seðlabankans á þeim er aðeins eitt einkenna hins sýkta stjórnarfars.

Hið sérstæða við þetta ástand núna er að ríkisstjórninni hefur tekist að viðhalda þeirri blekkingu að yfir stjórnarháttum sé yfirbragð jákvæðra umbóta vegna bankahrunsins og skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Málum er alls ekki þannig háttað, stjórnarháttum hefur hrakað, stækkun ráðuneyta er misráðin og breyting á lögum um stjórnarráðið bætir ekki stjórnsýsluna. Stjórnlagaráð verður til vegna sniðgöngu við ákvörðun hæstaréttar.


Fimmtudagur 28. 04. 11. - 28.4.2011

Enn skýrist að ríkisstjórnin hefur staðið í vegi fyrir að samkomulag takist á vinnumarkaði. Ótrúlegt er að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur láta eins og aðför hennar að sjávarútvegi hafi engin áhrif á afstöðu manna til stefnu ríkisstjórnarinnar.

Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru svo ótrúleg að menn hafa ekki kynnst öðru eins í 20 ár. Er það kannski skýringin á því hve fréttamenn eiga erfitt með að fóta sig á því hve illa ríkisstjórnin heldur á málinu. Engu er líkara en þeir telji eðlilegt að ráðherrar segi eitt í dag og annað á morgun og kenni síða Samtökum atvinnulífsins um það sem miður hefur farið.

Alvarlegur þáttur í vanda við stjórn landsins eru lélegir fjölmiðlar sem halda annað hvort ekki þræði í málum eða láta spunaliða stjórna því sem þeir segja. Vandinn er verstur þegar litið er til RÚV og hvernig tekið er á stórmálum þar.

Miðvikudagur 27. 04. 11. - 27.4.2011

Í dag hringdu þeir í mig í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, Kristófer og Þorgeir, og spurðu mig um Schengen-samstarfið. Skýrði ég fyrir þeim að það snerist um annað og meira en vegabréfaeftirlit. Taldi ég fróðlegt að vita hvort það héldi aftur af afbrotamönnum að koma frá Bretlandi hingað að þurfa að fara í genum vegabréfaskoðun. Bretar glíma við alþjóðlega glæpastarfsemi ekki síður en við, þótt þeir séu ekki í Schengen. Þeir njóta hins vegar góðs af lögreglusamstarfi undir merkjum Schengen af þvi að þeir eru í ESB.

Ég sé hins vegar á vefmiðlum að orð mín um Schengen vöktu ekki athygli annarra heldur það sem ég hafði að segja um Baugsbókina sem ég er að ljúka og verður um 400 bls. og kemur út í maí ef allt gengur að óskum. Baugsmálið var ekki aðeins rekið fyrir dómstólum heldur einnig á vettvangi stjórnmála og fjölmiðla. Þann þátt málsins rek ég ítarlega í bók minni. Hún spannar mikið umrót í þjóðlífinu árin 2002 til 2008 og segir jafnframt sögu Baugs og Baugsmiðlanna.

Þetta er spennandi viðfangsefni sem varpar ljósi á viðskiptalíf og stjórnmálalíf og þar sem sagt er frá valdabaráttu sem er mögnuð og harðskeytt þegar hún er dregin saman á þann hátt sem ég geri í þessari bók. Mér þætti ekki ólíklegt að ýmsir líti þjóðlífið öðrum augum eftir að hafa lesið hana.

Þriðjudagur 26. 04. 11. - 26.4.2011

Á morgun 27. apríl er eitt ár liðið frá því að við Styrmir Gunnarsson hleyptum vefsíðunni www.evropuvaktin.is af stokkunum. Hvern dag síðan höfum við sett nýtt efni inn á síðuna auk þess sem hún hefur þróast frá því að snúast eingöngu um málefni tengd ESB og ESB-aðild Íslands til þess að verða víðtækari vettvangur um stjórnmál.

Þetta ár hefur verið viðburðaríkt í málefnum ESB og frá nógu að segja. Raunar er spennan innan sambandsins meiri en fyrir ári og vaxandi.

Á vettvangi innan lands hafa línur skýrst og nú er Samfylkingin eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur aðild á stefnuskrá sinni. Flokkurinn stendur illa að vígi vegna sívaxandi óánægju með forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.

Mánudagur 25. 04. 11. - 25.4.2011

Það var vetrarlegt snemma í morgun í Fljótshlíðinni en um hádegisbil hafði veðrið blíðkast og ég heyrði og sá lóu. Vorið er að koma enda er grænn litur að setja svip á túninn.

Það er allur annar blær á öllu núna í hlíðinni en fyrir ári þegar allra augu beindust að Eyjafjallajökli og enginn vissi hvað þar gerðist næst. Þá datt engum að ganga til vorverka á sama hátt og við gerðum um helgina með því að ráðast í dálitla jarðvinnu.

Sunnudagur 24. 04. 11. - 24.4.2011

Gleðilega páska!

Fórum í páskamessu í Marteinstungukirkju í Rangárþingi ytra þar sem sr. Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur, prédikaði. Að messu lokinni var okkur boðið í kirkjukaffi í safnaðarheimili við kirkjuna.

Þess er minnst að 23. apríl voru 10 ár liðin frá því að Fréttablaðið kom til sögunnar. Sumarið 2002 lá við að blaðið yrði gjaldþrota en þá seldu Gunnar Smári Egilsson og Ragnar Tómasson hrl. það til Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi. Hvíldi leynd yfir eignarhaldi hans á blaðinu þar til í maí 2003. Í mars 2003 birti blaðið rúmlega ársgamlar glefsur úr fundargerðum stjórnar Baugs til að koma höggi á Davíð Oddsson fyrir þingkosningarnar þá um vorið. Jón Ásgeir þóttist þá koma af fjöllum vegna uppjóstrana blaðsins sem voru liður í áróðrinum um að Baugsmálið byggðist á pólitískum ofsóknum. Samfylkingin lagði Baugsmönnum lið í þeim áróðri í kosningabaráttunni 2003 og þar til Baugsmálinu lauk í júní 2008.

Fréttablaðið hefur verið þungamiðja Baugsmiðlanna síðan 2002. Því var beitt af miklum þunga í fjölmiðlamálinu 2004. Óljóst er um eignarhald á því um þessar mundir fyrir utan að Ingibjörg S. Pálmadóttir lagði útgáfunni til stórfé fyrir um það bil ári.

Laugardagur 23. 04. 11. - 23.4.2011

Sannir Finnar og formaður þeirra Timo Soini hafa verði úthrópaðir  víða utan Finnlands og rætt er um þá í sömu andrá og hvers kyns öfgamenn í evrópskum stjórnmálum. Nú hefur Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, tekið upp hanskann fyrir Timo Soini þar sem honum blöskrar hið illa umtal.

Hefur nokkur heyrt hósta eða stunu frá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra Íslands, í tilefni af því hvernig tveir fyrrverandi utanríkisráðherrar Danmerkur töluðu um Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands? Annar þeirra Mogens Lykketoft er flokksbróðir Össurar í danska jafnaðarmannaflokknum. Skyldu hvorki Össur né Jóhanna Sigurðardóttir sjá ástæðu til að skjalda forseta Íslands þegar vegið er að honum á þann hátt sem gert var?

Samfylkingin stendur að stuðningi við Jón Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík, sem fer sjálfur um heiminn og vekur á sér undrun án lítils framdráttar fyrir virðingu Reykvíkinga eða Reykjavíkur.

Föstudagur 22. 04. 11. - 22.4.2011

Fréttir berast af Jóni Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík, í sjónvarpsviðtali í New York þar sem hann heldur áfram að hæla sjálfum sér og hallmæla pólitískum andstæðingum sínum í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann minnir á útrásarvíkingana sem fóru um heiminn til að kynna honum að þeir væru klárari en aðrir og Ísland væri eiginlega of lítið fyrir þá, enda ættu þeir í höggi við heimóttarlega stjórnmálamenn sem áttuðu sig ekki á hæfileikum þeirra.

Ég fagna því að Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hefur sagt skilið við forsetastól borgarstjórnar þar sem hún vildi sitja til að stuðla að samhug og samvinnu um stjórn borgarmála. Hvorki Jón Gnarr né Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, mátu þennan samstarfsvilja nokkurs.

Samfylkingin ber ábyrgð á Jóhönnu Sigurðardóttur í embætti forsætisráðherra og Jóni Gnarr í embætti borgarstjóra. Að flokkur sem vill að hann sé tekinn alvarlega skuli standa að baki slíkum forystumönnum sýnir ekki mikinn metnað. Hitt er vera að borgarbúar og þjóðin súpa seyðið af þessu.

Fimmtudagur, 21. 04. 11. - 21.4.2011


Gleðilegt sumar!

Samtal mitt við Sigríði Andersen á ÍNN miðvikudaginn 20. apríl er komið á netið og má sjá það hér.

Hinn 2. mars þegar Advice-hópurinn hélt blaðamannafund í Þjóðmenningarhúsinu til að kynna upphaf skipulagðrar baráttu sinnar gegn Icesave III kom enginn fjölmiðlamaður á fundinn. Sigríður segir að það hafi ekki dregið kjarkinn úr hópnum. Þá segir hún að þau hafi aðeins hist tvisvar á hefðbundnum fundi, annars hafi þau ráðið ráðum sínum í gegnum Skype, Dropbox og Google.docs, svo að ég vitni einnig í samtal okkar eftir að upptöku lauk.

Meira en 10.000 manns opnuðu og kynntu sér fyrirlestur Reimars Péturssonar, hrl., um Icesave á netinu. Hann var tekinn upp í Háskóla Íslands á snjallsíma og síðan settur á netið.

Ég tel að barátta Advice sé fyrsta kosningabaráttan sem háð er á rafrænan hátt og án þess að byggjast á kynningarfundum með aðgangi að fjölmiðlum. Netið og þau tæki og sú tækni sem því tengjast sönnuðu þarna gildi sitt í baráttu til stuðnings flóknum málstað sem átti undir högg að sækja þegar hafist var handa við að sannfæra almenning um ágæti hans.

Auglýsingar Advice voru mun málefnalegri og betur gerðar en boðskapur Áfram-hópsins sem sagði já. Hræðsluáróður já-hópsins var ömurlegur og sannast með hverjum degi að hann átti ekki við rök að styðjast. Er óskiljanlegt hve margir alþingismenn létu blekkjast af þessum ósannindum. Ég fjallaði um þetta á leiðara á Evrópuvaktinni í dag og hann má lesa hér.

Miðvikudagur 20. 04. 11. - 20.4.2011

Í dag ræddi ég við Sigríði Andersen, héraðsdómslögmann, í þætti mínum á ÍNN um Icesave-kosningarnar en hún var í forystu fyrir hópnum Advice sem sem barðist gegn Icesave III með glæsilegum árangri. Við minnumst meðal annars á hræðsluáróður já-manna sem byggðist mjög á því að með því að segja nei yrði lánshæfismat Íslands lækkað.

Eftir að við tókum upp þáttinn bárust fréttir um að matsfyrirtækið Moody's  hefði staðfest óbreytt lánshæfismat íslenska ríkisins, Baa3. Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna hafði Moody‘s lagst á sveif með já-mönnum og sagði að hafnaði þjóðin Icesave-lögunum hefði það að líkindum neikvæð áhrif á lánshæfismatið.

Rökstuðningur Moody's fyrir því að halda lánshæfismatinu óbreyttu er þríþættur: 1. Kosningarnar hafi ekki ekki áhrif á útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans. 2. Moody's telur að samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins muni halda. 3. Yfirlýsingar nágrannalanda gefi til kynna að lánasamkomulag verði virt.

Um síðustu helgi var látið eins og Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason hefðu lagt sig fram um það í Washington að hafa áhrif á matsfyrirtækin og hindra lækkun á lánshæfismatinu.  Taki þessi fyrirtæki mark á því sem ráðherrar í ríkisstjórninni segja, gera þau ekki miklar kröfur til heimildarmanna sinna. Ætli það sé ekki einsdæmi að ríkisstjórn sitji eins og ekkert hafi í skorist, þótt lögum hennar um lykilmál hafi verið hafnað tvisvar sinnum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það væri forvitnilegt að heyra álit matsfyrirtækja á því.

 

Þriðjudagur 19. 04. 11. - 19.4.2011

Strax sunnudaginn 10. apríl bloggaði Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Dana, yfirlætislega um niðurstöðuna og talaði niður til okkar Íslendinga. Skrif hans báru ekki vitni um mikla þekkingu á Icesave-málinu þótt hann telji sig færan um að setjast þar í dómarasæti.

Í kvöld sýndi sjónvarpið brot úr þætti á TV2 þar sem þeir segja álit sitt á því sem helst er í fréttum Uffe og Mogens Lykketoft, fyrrverandi formaður danskra jafnaðarmanna.  Uffe fór óvinsamlegum eða réttara sagt dónalegum orðum um Ólaf Ragnar og Lykketoft lét einnig óvinsamleg orð falla.

Þessi framganga hinna fyrrverandi dönsku stjórnmálaforingja var þeim lítt til sóma og afsannar allar kenningar um að stjórnmálaumræður hér séu á lægra plani en í útlöndum. Hvers vegna þessum mönnum er svona uppsigað við það sem gerst hefur hér vegna Icesave er erfitt að skilja. Tónninn í þeim er allur annar og verri en til dæmis í leiðara The New York Times í dag sem telur okkur Íslendinga hafa farið betur að ráði okkar en Írar hafi gert.

Eftir þingkosningar 2007 krafðist Steingrímur J. Sigfússon þess af ungum framsóknarmönnum að þeir bæðu sig afsökunar á skopmynd eða skopmyndum sem þeir birtu af honum. Ég vissi aldrei af hvað þessar myndir sýndu. Nú fara menn mikinn og þar á meðal Landssamband framsóknarkvenna vegna skopmyndar af Siv Friðleifsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu og hefur teiknarinn beðið Siv afsökunar.

Europol birti í dag lýsingu á hryðjuverkum og hættunni á þeim í Evrópu. Þar eru skopmyndir af Múhameð spámanni talin helsta kveikjan að slíkum ógnarverkum.

Þegar ég vann á Morgunblaðinu var stundum kvartað undan teikningum Sigmund. Hann stóð hins vegar fast á rétti sínum til að teikna eins og hann sjálfur taldi best og vafalaust hafa einhverjar mynda hans sært sömu tilfinningar og myndin af Siv gerir. Ég man þó aldrei eftir sambærilegum upphrópunum og nú eða ákalli til eigenda blaðsins vegna skopteikninga fyrr en nú.

Mánudagur 18. 04. 11. - 18.4.2011

Samfylkingin þrífst ekki nema hún hafi eitt mál á döfinni sem sameinar flokkinn. Árin 2003 til 2007 skipaði hún sér með Baugsmönnum gegn Sjálfstæðisflokknum og naut stuðnings Baugsmiðlanna. Síðan kom ESB-aðildin og knúið var á hana með vaxandi þunga eftir hrun bankanna, þegar flokkurinn gat ekki stuðst lengur við Baug. Ríkisstjórnin var mynduð með VG til að vinna að ESB-aðildinni. Nú verður ekki gengið lengra á þeirri braut. Þá tekur Össur Skarphéðinsson til við að ræða um kvótamálið og vill gera það að höfuðmáli með kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sé ætlunin að halda lífi í ríkisstjórninni með kröfunni um að kollvarpa kvótakerfinu, er tímabært að hefja umræður um þá staðreynd, að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sátu í ríkisstjórninni 1990 þegar kvótakerfið var fest í sessi með því heimila sölu á kvóta.


Sunnudagur 17. 04. 11. - 17.4.2011

RÚV gerði Tíma nornarinnar ekki neinn greiða með því að sýna þættina sama kvöld og dönsku þættina Lífverðirnir. Ég tel fullvíst að bók Árna Þórarinssonar sé skemmtilegri aflestrar en að horfa á sjónvarpsþættina. Framvindan var hæg og endirinn stóð ekki undir nafni.

Tjaldurinn er kominn í Fljótshlíðina og hrossagaukurinn. Nú er bara að bíða lóunnar.



Laugardagur 16. 04. 11. - 16.4.2011

Þegar ég setti hér texta á síðuna í gærkvöldi hélt ég að náðst hefðu kjarasamningar til skamms tíma. Svo var ekki og er líklegt að ekki verði samið á meðan Jóhanna Sigurðardóttir þvælist fyrir niðurstöðu. Er einsdæmi að forsætisráðherra hagi sér eins og Jóhanna gerir gagnvart Samtökum atvinnulífsins. 

Jóhanna og fylgismenn hennar láta eins og atvinnurekendur hafi ekki heimild til þess að óska eftir því að festa skapist í rekstrarumhverfi sjávarútvegs áður en þeir rita undir kjarasamning.  Þvermóðska Jóhönnu vegna kjarasamninganna er aðeins enn eitt dæmið um hve óhæf hún er til að gegna embætti forsætisráðherra. Skömm Samfylkingarinnar af því að halda henni í embættinu magnast með hverjum degi sem líður.


Föstudagur 15. 04. 11. - 15.4.2011

Nú berast fréttir um að samið hafi verið til tveggja mánaða eða svo. Ástæðan er ekki Icesave, ekki heldur deila um fiskveiðistjórnun heldur að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að skuldbinda ríkissjóð til langs tíma. Hún hefur ekki vald á málum til lengri tíma heldur en fram yfir næstu helgi, eins og kunnugt er.

Spenna magnast innan þingflokks Samfylkingarinnar eins og birtist í þingsalnum í dag þegar þær tókust á um þingsköpin flokkssysturnar Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis, og Ólína Þorvarðardóttir.  Ólína er einörð í stuðningi sínum við Jóhönnu Sigurðardóttur. Innan þingflokks Samfylkingarinnar vaxa efasemdir um skynsemi þess að slá skjaldborg um Jóhönnu, þar sem ekki þjóni neinum tilgangi lengur að halda lífi í ríkisstjórninni. Dauðastríð stjórnarinnar verði aðeins til að auka á vanda Samfylkingarinnar.

Fimmtudagur 14. 04. 11. - 14.4.2011

Í kvöld sat ég aðalfund Heimssýnardeildarinnar í Rangárþingi eystra. Hann var haldinn í gólfskálanum Strönd. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, flutti framsögu ásamt mér og síðan svöruðum við fyrirspurnum.

Mér er óskiljanlegt að ríkisstjórnin haldi ESB-viðræðunum áfram, eftir útreiðina í vantraustsumræðunum. Þó er borin von að hún hætti á meðan Jóhanna Sigurðardóttir heldur um stjórnvölinn. Þvermóðska hennar leyfir það ekki eða á ég frekar að segja dómgreindarleysi. Þingmenn Samfylkingarinnar treysta sér ekki til að reyna að hafa vit fyrir henni. Jóhanna situr á þeirra ábyrgð.

Tveir þingmenn Framsóknarflokksins hrópa á Jóhönnu og bjóða henni stuðning. Hún hefur ekki einu sinni sveigjanleika til að taka þeim fagnandi heldur segist vita af þeim og ætla að nota þá, þegar hún þurfi á þeim að halda. Meiri lítilsvirðingu gat hún ekki sýnt þeim samt halda Siv Friðleifsdóttir og Guðmundur Steingrímsson áfram að gera hosur sínar grænar fyrir Jóhönnu. Sýnir það hve mjög þau óttast kosningar. Þau gera sér grein fyrir að þeim verður ekki tekið fagnandi í prófkjörum Framsóknarflokksins.

Jón Gnarr hefur enn afhjúpað hve óhæfur hann er að koma fram fyrir Reykvíkinga. Nú leggur hann rækt við friðarást sína með því að neita að sýna yfirmönnum þriggja þýskra herskipa í Reykjavíkurhöfn þá kurteisi sem þeim ber. Eitt er að þjóna lund sinni á þennan hátt, annað að gera það fyrir opnum tjöldum með því að láta fjölmiðla vita af því og opinbera þannig dónaskapinn. Ég er sannfærður um að meirihluti borgarbúa hefur skömm á þessari sýndarmennsku Jóns Gnarrs.

Miðvikudagur 13. 04. 11. - 13.4.2011

Ég hef ekki fylgst með þingumræðum fyrr en í dag að ég hafði annað augað á umræðum um vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins á ríkisstjórnina. Í tilefni af afgreiðslu hennar skrifaði ég pistil sem má lesa hér. Þar færi ég rök að því að sjálfstæðismenn á þingi hafi komist úr herkví með stuðningi manna úr öðrum flokkum við tillögu þeirra.

Steingrímur J. Sigfússon getur ekki lengur látið eins og hann leggi þann skerf af mörkum til stjórnarsamstarfsins að hann sé trúverðugur samstarfsmaður Samfylkingarinnar. Hroki Steingríms J. gagnvart Ásmundi Einari Daðasyni í sjónvarpsviðtali að lokinni atkvæðagreiðslunni um vantraustið er dæmalaus. Þar skammaði hann þingmanninn fyrir að fylgja sannfæringu sinni í ESB-málinu með því að styðja ekki ríkisstjórnina og sagði hann ósannindamann. Skyldi Ásmundur Einar nú taka skrefið yfir til Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur og yfirgefa Steingrím J. og félaga?

Árni Þór Sigurðsson sagði af sér formennsku í þingflokki VG í dag að milda Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og tryggja stuðning hennar við ríkisstjórnina. Skyldi hann segja af sér formennsku í utanríkismálanefnd alþingis og hætta stuðningi við ESB-stefnu Samfylkingarinnar til að bjarga VG frá upplausn?

Þriðjudagur 12. 04. 11. - 12.4.2011

Viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur við vantrauststillögu Bjarna Benediktssonar og annarra sjálfstæðismanna á þingi voru eins og við var að búast: hallærisleg. Líklega átti ræða Jóhönnu að vera fyndin en henni tókst ekki að leyna ergelsi sínu.

Það verður sorglegt að verða vitni að því þegar þingmenn Samfylkingarinnar taka höndum saman til að styðja Jóhönnu áfram sem forsætisráðherra. Það er undir þingflokki Samfylkingarinnar komið en ekki stjórnarandstöðunni hve lengi þessi ömurlega ríkisstjórn situr. Með því að fella vantrauststillögu sjálfstæðismanna sanna þingmenn Samfylkingarinnar það eitt, að þeir treysta sér ekki til að leita eftir nýju umboði, þótt allt sé komið í óefni í stjórnarsamstarfinu.

Nú hefur fjármálaráðherra Hollands tekið af skarið um að Íslendingar komast ekki inn í ESB nema að greiða Icesave-skuldina sem aðgönguverð. Spurning er hvernig Össur Skarphéðinsson og undirmenn hans í utanríkisráðuneytinu ætla að tala sig frá þessari staðreynd. Ég ræddi um blekkingar þeirra um þetta í leiðara á Evrópuvaktinni í morgun áður en fréttin um ummæli hollenska fjármálaráðherrann barst. Hér má lesa leiðarann.

Samþykki vinstri-grænna á kröfu Samfylkingarinnar um aðildarumsókn að ESB var lykillinn að þessu stjórnarsamstarfi. Það var alls ekki ætlun þeirra Steingríms J. og Svavars Gestssonar að halda svo illa á Icesave-málinu að það setti aðildarviðræðurnar í uppnám. Þegar upp er staðið verður það kannski talið eina jákvæða framlag þeirra til Icesave-málsins.

Mánudagur 11. 04. 11. - 11.4.2011

Össur Skarphéðinsson hafði í dag mikilvægan fyrirvara í svari sínu á alþingi, þegar hann svaraði spurningu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingflokksformanns sjálfstæðismanna, um Icesave og ESB-aðildarviðræðurnar. Hann sagði að ekki væri um „formleg“ áhrif af Icesave að ræða.  Svarið var í takt við annað frá utanríkisráðuneytinu um ESB-viðræðurnar, að formlega séu þær í óbreyttum farvegi, þótt efnislega hlaðist upp óleyst og erfið mál.

Hvarvetna erlendis, þar sem minnst er á Icesave í tengslum við ESB-aðildarviðræður okkar Íslendinga er tekið fram að Bretar og Hollendingar hafi neitunarvald og geti hvenær sem er stöðvað viðræðurnar með beitingu þess. Að ekki skyldi minnst á þetta atriði í þingumræðunum er undarlegt.

Framkvæmdastjórn ESB stendur að viðræðunum vegna óska Íslendinga og heldur þeim áfram á meðan hún hefur pólitísk fyrirmæli þess efnis. Þetta felst í yfirlýsingu tveggja framkvæmdastjórnarmanna ESB sem birt var í dag. Þeir geta ekki stöðvað viðræður við Ísland nema að ósk einhvers ESB-ríkis eða ráðherraráðs ESB.

Blekkingartal stuðningsmanna Icesave byggðist á því fyrir helgi að í dag mundi himinninn brotna yfir Íslandi eða réttara sagt lánstraust þjóðarinnar hverfa ef sagt yrði nei við hinum löglausu kröfum. Ekkert slíkt hefur gerst. Af fréttum RÚV má helst ráða að svo sé vegna þess að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, fór á fund í Stjórnarráðshúsinu og ræddi við Moody's matsfyrirtækið. Þetta er sami Már og flutti heimslitaboðskap á ársfundi Seðlabanka Íslands í síðustu viku til að hræða fólk til stuðnings við Icesave.

Hvenær skyldi renna upp fyrir fréttamönnum RÚV að vandamálið er ríkisstjórnin og þeir sem með henni spila en ekki Icesave, þegar hugað er að samskiptum við Ísland?

Sunnudagur 10. 04. 06. - 10.4.2011

Úrslitin um Icesave urðu 60% á móti og 40% um 75% þátttaka. Glæsileg niðurstaða fyrir okkur sem börðumst gegn Icesave III. Ríkisstjórnin lætur eins og hún geti haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist sem er út í bláinn.

Steingrímur J. þorir ekki annað en skipta um formann í þingflokki sínum, setur Guðfríði Lilju af án aðdraganda og lætur kjósa Árna Þór Sigurðsson í staðinn. Þeir Steingrímur J. og Árni Þór hafa siglt VG frá hverju málefninu eftir annað í þágu aukinna valda. Nú gera þeir atlögu að feministum í flokknum.

Jóhanna Sigurðardóttir talar eins og hún hafi óskorað vald á þingflokki Samfylkingarinnar. Undir þingmönnum flokksins er komið hve lengi hin dáðlausa, fylgi rúna ríkisstjórn situr.  Úr því sem komið er hlýtur að saxast jafnt og þétt af fylgi Samfylkingarinnar. Helsta baráttumál hennar, ESB-aðildin, er í raun strandað á skeri vegna hins óleysta Icesave-máls. Eftir flokksþing framsóknarmanna er Samfylkingin auk þess eini stjórnmálaflokkurinn sem telur Íslandi betur borgið innan en utan ESB.

Ríkisstjórnin segist hafa miklar áhyggjur af áliti þjóðarinnar út á við eftir að hún tapaði Icesave í þriðja sinn. Tvennt getur gert tafarlaust til að bæta úr álitshnekkinum. Viðurkennt ósigur og sagt af sér, lagt ESB-umsóknina á ís.

Ólafur Ragnar Grímsson efndi til blaðamannafundar klukkan 15.00 í dag. Þegar hann tók að lýsa stöðu Icesave og hvernig taka ætti til varna fyrir málstað Íslands, sást glöggt hve ömurlega illa Jóhanna og Steingrímur J. halda á málinu. Augljóst er að Ólafur Ragnar ætlar að enn að nýta Icesave til afskipta af stjórnmálum innan lands og utan.

Ég vona að stjórnarandstaðan láti Jóhönnu ekki draga sig til einhverra viðræðna um eitthvað sem ekkert er en þjónar þeim eina tilgangi að beina athygli frá úrræðaleysi hennar og ríkisstjórnarinnar. Hún lætur nú eins og öllu skipti að flokkar stilli saman strengi sína. Þótt þeim dytti í hug að gera það breytir það engu ef skilyrðið er að Jóhanna og Steingrímur J. sitji áfram með alla þræði í hendi sér. Þau eru meiri skaðvaldur nú fyrir hagvöxt og umsvif í landinu en Icesave.

Ég skrifaði pistil um Icesave og ESB á Evrópuvaktina og hann má lesa hér.





Laugardagur 09. 04. 11. - 9.4.2011

Þegar þetta er skrifað um miðnætti er ljóst að nei-ið hefur sigrað í Icesave-atkvæðagreiðslunni. Ég fagna þeim sigri. Hann fellur vel að málflutningi mínum. Ég tel málstað Íslands góðan og sjálfsagt sé að láta á hann reyna hjá ESA og EFTA-dómstólnum. Ég treysti ríkisstjórninni hins vegar ekki fyrir málinu og tel viðbrögð Jóhönnu og Steingríms J. við úrslitunum í sjónvarpssal enn til marks um ósvífni þeirra.

Spunaliðar Samfylkingarinnar á Eyjunni hafa gert því skóna að Ögmundur Jónasson og Jón Bjarnason hafi sagt nei í atkvæðagreiðslunni og þess vegna beri þeim að víkja úr ríkisstjórninni. Ögmundur skrifaði hollustuyfirlýsingu við Steingrím J. á vefsíðu sína til að verjast spunanum.  Einkennilegt er að leifar vinstri-grænna sem enn standa að ríkisstjórninni skuli hvað eftir annað leyfa Samfylkingunni að vaða svona yfir sig á skítugum skónum. Skýringin er einföld: Steingrímur J. er tilbúinn að láta allt yfir sig ganga haldi hann í ráðherravöldin; nú hefur hann tapað tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og situr samt. Samfylkingin veit þetta og gengur einfaldlega á lagið. Samfylkingin mun hins vegar halda áfram að tapa fylgi á meðan Jóhanna skipar leiðtogasæti hennar. Aumari getur forsætisráðherra ekki orðið.

Bjarni Benediktsson telur að þingrof og kosningar séu eina leiðin í stöðunni. Ég er sammála honum um það. Forysta Sjálfstæðisflokksins þarf hins vegar að stilla sig inn á bylgjulengd flokksmanna. Vonandi tekst henni það hratt og vel.

Framsóknarflokkurinn samþykkti nýja stefnu í ESB-málum á flokksþingi sínu í dag, þegar hann ályktaði að það væri hag Íslands fyrir bestu að standa utan Evrópusambandsins. Þar með er horfin skilyrðastefnan óskiljanlega sem samþykkt var á flokksþinginu snemma árs 2009 þegar Sigmundur Davíð hlaut kosningu sem formaður. Með því að taka af skarið á þennan hátt hefur ESB-sjónarmiðum sem Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir leiddu til öndvegis í flokknum fyrir rúmum áratug og Jón Sigurðsson fylgdi í formennsku sinni verið vikið til hliðar. Samfylkingin er nú einangruð í stuðningi sínum við ESB-aðild. Valdaþrá Steingríms J. Sigfússonar gerir henni kleift að fylgja stefnu sinni fram með stuðningi meirihluta þingmanna.

Föstudagur 08. 04. 11. - 8.4.2011

Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi í viðræðum við Sigmund Davíð Gunnlaugsson um Icesave: „Menn eiga að reyna að verða menn orða sinna sé þess nokkur kostur“, eftir að hann lét orðin falla, minntist ég þess hve oft Steingrímur J. hefur gengið á bak orða sinna til að halda í ráðherrastólinn. Það er ekki að marka eitt orð sem maðurinn segir, þegar völd hans eru annars vegar. Hann taldi til dæmis rangt hjá Sigmundi Davíð að yrði höfðað mál til greiðslu Icesave-skuldarinnar yrði hún greidd í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðli.

Ósannindaröð Icesave-yfirlýsinga Steingríms J. hlýtur einhver að birta, þegar fram líða stundir.

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af grein Evu Joly um Icesave-málið í Morgunblaðinu í dag. Framlag hennar til umræðna um Icesave-málið byggist á meiri víðsýni og þekkingu en þeirra hér á landi sem láta eins og við munum afla okkur vinsælda og virðingar með því að leggjast í duftið og láta traðka á okkur í stað þess að gæta réttar okkar.

Hin síðari ári hefur alþjóðasamfélagið ákveðið að virkja dómstóla meira en áður til að fjalla um mál þeirra sem níðast á samborgurum sínum í krafti valds síns. Í Haag eru fyrrverandi þjóðhöfðingjar eða stjórnmálaleiðtogar kallaðir fyrir alþjóðlegan sakadóm. Í viðkomandi löndum eru alltaf einhverjir sem hafna slíkum málaferlum og reyna að höfða til þjóðernis-tilfinninga málstað sínum til framdráttar. Það eigi að sporna gegn málaferlum af því að þau spilli áliti viðkomandi þjóða. Sem betur fer eru slíkar kröfur um skálaskjól að engu hafðar.

Fráleitt er að láta eins og málaferli vegna Icesave fyrir EFTA-dómstólnum sé einhver blettur á heiðri Íslendinga. Ég átta mig ekki á því hvaða útlendinga þeir Íslendingar umgangast sem tala á þann veg til þjóðar sinnar. Almenna reglan er að menn öðlast virðingu fyrir að standa á rétti sínum. Á hún ekki við í Icesave-málinu?

Hér má sjá viðtal mitt við Reimar Pétursson hrl. sem sýnt var á ÍNN 6. apríl. Við ræðum dómstólaleiðina og hinn góða málstað Íslands í Icesave-málinu.

Fimmtudagur 07. 04. 11. - 7.4.2011

Í morgun klukkan 08.00 tók ég þátt í umræðum á Bylgjunni, Ísland í bítið, með Eiði Guðnasyni. Við vorum á öndverðum meiði um Icesave.

Ég velti fyrir mér eftir þáttinn þverstæðunni í þeirri afstöðu já-manna að skammast annars vegar yfir því að bankarnir hafi verið einkavæddir og afhentir mönnum sem þeir telja að hafi ekki kunnað að reka þá og síðan telja sjálfsagt að skattgreiðendur borgi tapið eftir að bankarnir eru farnir á hausinn. Með einkavæðingu bankanna var horfið frá ríkisábyrgð á þeim. 

Í Bretlandi og Hollandi tóku viðskiptavinir Icesave meiri áhættu en aðrir til að ná í hærri vextir en í öðrum bönkum. Eiga íslenskir skattgreiðendur að standa straum af aðgerðum breskra og hollenskra stjórnvalda við að tryggja þessu fólki að það tapi ekki á því að taka þessa áhættu?

Þegar bent er á að ekki hvíli nein lögbundin skylda á íslenskum skattgreiðendum í þessu efni, segja já-menn að siðferði þeirra bjóði þeim að endurgreiða hollenska og breska ríkinu. Við þessum sjónamiðum segi ég nei.

Ég segi einnig nei við því að ekkert sé hættulegra í þessu máli en láta reyna á rétt Íslendinga fyrir dómstóli eða dómstólum.

Enn segi ég nei við því að láta matsfyrirtæki ráða afstöðu minni. Þau njóta sífellt minna álits og eru í raun óútreiknanleg. Þau blekktu í lýsingum sínum á styrkleika íslensku bankanna fram undir hrun.

Loks segi ég almennt nei við hræðsluáróðrinum vegna Icesave án samninga. Hann hefur reynst rangur í rúm tvö ár eða frá því að Steingrímur J. tók að beita honum.

Ég ítreka hvatningu mína um að segja nei og fella Icesave-lögin.

Miðvikudagur 06. 04. 11. - 6.4.2011

Að þessu sinni ræði ég við Reimar Pétursson hrl. í þætti mínum á ÍNN. Hann er fyrst á dagskrá klukkan 20.00 í dag og síðan á tveggja tíma fresti í sólarhring. Við ræðum um Icesave og dómstólaleiðina.

Já-menn vegna Icesave eru iðnir við að vitna í orð sem ég lét falla hér á síðunni 16. nóvember 2008 og lesa má hér. Benedikt Jóhannesson vitnar í þessa dagbókarfærslu í Fréttablaðinu í morgun. Ég sendi grein til blaðsins fyrir hádegi þar sem ég bregst við grein Benedikts, því að ég vil alls ekki að sú mynd sé gefin af skoðun minni að ég sé hlynntur Icesave III. Þvert á móti, ég segi nei í atkvæðagreiðslunni.

Síðdegis skoðaði ég amx.is og sá þá þetta. Þarna er vitnað í orð af fésbókarsíðu Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, þar sem hann lýsir yfir stuðningi við Icesave III og birt tilvitnun sem sögð er af síðunni. Mér þótti hún kunnuleg og við athugun sá ég að um beina tilvitnun í orð mín frá 16. nóvember 2008 er að ræða. Nú hef ég ekki skoðað síðu Árna sjálfs og veit ekki hvort hann lætur þess getið að hann sé að vitna í mig eða ekki.

Sæki já-menn orð af síðu minni til stuðnings atkvæði sínu er hið minnsta að þeir láti heimildar getið, þá óska ég eftir því að þeir slíti ekki orð mín úr samhengi og loks að þeir taki rækilega fram að ég sé á móti Icesave III. Er sú afstaða í fullu samræmi við orð mín frá 16. nóvember 2008, því að grunntónn þeirra er að setja skuli hinn lagalega rétt framar öðru.

Þriðjudagur 05. 04. 11. - 5.4.2011

Stundum hvarflar að mér hvort ég hafi gert eitthvað á hlut Egils Helgasonar. Hvað eftir annað kýs hann að draga nafn mitt inn í eitthvert samhengi sem er aðeins til í heilabúi hans en á ekkert skylt við það sem ég hef sagt eða gert.

Í nokkra mánuði þurfti ég að takast á við ósannindi hans um að ég hefði sem dómsmálaráðherra lagt stein í götu þess að hafin yrði sakamálarannsókn vegna bankahrunsins. Hið gagnstæða var sannleikanum samkvæmt, þar sem ég lagði fram frumvarp og fékk samþykkt lög um hinn sérstaka saksóknara. Sá sem tók að sér embættið var hins vegar ekki nógu „fínn“ að mati Egils enda ekki úr 101 heldur ofan að Akranesi.

Nú birtast greinar í blöðum um að sá hópur manna sem helst hvetur til þess að samþykkja Icesave III sé fyrirfólk eða „elíta“. Ég minnist þess ekki að hafa fjallað um málið á þann hátt. Ég hef hins vegar bent á þá staðreynd að margir þeir sem helst báru hagsmuni Baugsmanna fyrir brjósti séu hlynntir Icesave III. Að ég líti á það fólk sem „elítu“ er fjarri sanni.

Egill Helgason dró gjarnan taum Baugsmanna á sinn sérkennilega hátt. Nú rennur honum blóðið til skyldunar og tekur til við að fjargviðrast yfir því að einhverjir segi já-menn við Icesave III „elítu“ og fullyrðir á vefsíðu sinni að ég geri það. Hvar hef ég gert það? spurði ég sjálfan mig þegar ég las þessa útlistun Egils Helgasonar.

Ég spyr enn og aftur hvernig er unnt að líta á mann sem reynir að ná sér niðri á fólki á þann hátt sem Egill gerir í pistlum sínum sem óhlutdrægan þáttastjórnanda á ríkisfjölmiðli. Að slíkt sé gert sýnir aðeins hve illa er komið fyrir íslenskum fjölmiðlum. Hvernig væri að Egill kastaði af sér gærunni og færi bara í framboð eins og margir forverar hans?


Mánudagur 04. 04. 11. - 4.4.2011

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna og Evrópuvaktina um ofríki Steingríms J. Sigfússonar, blekkingar hans við embættisfærslu og svik við stefnumál. Ég gerði þetta af því tilefni að Steingrímur J., Björn Valur Gíslason, hnébrúða hans, og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis, hafa tekið höndum saman til að leyna þjóðina upplýsingum um kostnað við gerð Icesave III samningana.

Á vissu stigi mála í aðdraganda kosninga fer umræðan að snúast um auglýsingar og kynningar á málefnum frekar en málefnið sjálft. Kastljós kvöldsins sýndi að Icesave-málið er á því stigi núna. Þegar já-mennirnir auglýstu hákarl í undirdjúpunum sýndu þeir sitt rétta andlit að margra mati. Sumir já-mann þoldu illa að horfa í þann spegil sjálfir og hallmæla því auglýsingunni. Egill Ólafsson vísaði til þess í auglýsingu sinni að lagðar eru þungar byrðar á ungt fólk og börn með því að axla hina löglausu Icesave-skuld.

Auglýsingar endurspegla hug þeirra sem að þeim standa og hvaða augum þeir líta á málið. Hvort þær kveiki sömu tilfinningu hjá þeim sem verða fyrir áreiti vegna þeirra er annað mál. Já-auglýsingarnar höfða alls ekki til mín, enda er ég þeim ósammála. Auglýsingar nei-manna staðfesta almennt skoðun mína á málinu og er ég því sáttari við efni þeirra. Að ræða efni og gerð auglýsinga er hins vegar álíka tilgangslaust eins og að deila um niðurstöður í skoðanakönnun. Hvoru tveggja er til þess fallið að draga athygli frá kjarna málsins.




Sunnudagur 03. 04. 11. - 3.4.2011

Jörð var alhvít í Skálholti í morgun en sól skein á heiði og bræddi snjóinn þegar leið á morguninn. Þegar við Gunnar Eyjólfsson ókum heim á leið rúmlega 13.00 var jörð orðin auð. Enn einni qi gong helgi var lokið með þakklæti og góðum minningum.

Laugardagur 02. 04. 11. - 2.4.2011

Sólin skein í Skálholti, vor í lofti þegar við fórum í rúmlega klukkustundar göngu eftir hádegi. Það gekk þó greinilega á með byljum í fjöllunum í kring, síðar um daginn skall einn slíkur á Skálholtsskóla og jörð varð hvít.

Föstudagur 01. 04. 11. - 1.4.2011

Hélt í Skálholt síðdegis með Gunnari Eyjólfssyni, þar sem við verðum með qi gong námskeið fram á sunnudag. Það er vor í lofti á hinum helga stað.

Mér finnst ótrúlegt að lesa menn sem vilja láta taka mark á sér í viðskiptalífinu lýsa yfir því að hjólin fari að snúast ef Icesave III hlýtur samþykki þjóðarinnar. Við öllum blasir að þetta er argasta blekking. Ríkisstjórnin og stefna hennar eða réttara sagt stefnuleysi stendur í vegi fyrir því að efnahagur og atvinnulíf dafni. Vísasti vegurinn til að lengja setu þeirra Jóhönnu og Steingríms J. í ráðherrastólunum er að segja já við Icesave.

Með því að segja já við Icesave er löppunum ekki aðeins kippt undan heilbrigðri bankastarfsemi og ábyrgð bankastjórnenda gerð að engu heldur einnig lagður steinn í götu framfara með opnum og heilbrigðum stjórnarháttum.