Sjálfstæðismenn brjótast úr herkví með vantrauststillögu
Ríkisstjórnin naut stuðnings 32 þingmanna en 30 lýstu vantrausti á hana við atkvæðagreiðslu miðvikudaginn 13. apríl, einn sat hjá, Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Naumari getur meirihluti ríkisstjórnar ekki verið. Klofningur innan vinstri-grænna hefur aukist. Vantrauststillagan, sem flutt var af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins naut stuðnings þingmanna úr öllum flokkum nema Samfylkingu.
Færri þingmenn en lýstu vantrausti á ríkisstjórnina vildu þingrof og nýjar kosningar 22 en 36 voru á móti.
Fyrir utan Guðmund Steingrímsson studdu allir þingmenn Framsóknarflokksins tillöguna um vantraust. Þrír þingmenn Hreyfingarinnar lýstu vantrausti á ríkisstjórnina auk þess Ásmundur Einar Daðason, þingmaður vinstri grænna (VG) og Alti Gíslason og Lilja Mósesdóttir, sem sögðu sig úr þingflokki VG hinn 25. mars sl.
Ásmundur Einar greiddi atkvæði gegn ríkisstjórninni vegna ESB-málsins. Steingrímur J. Sigfússon vék að honum óvinsamlegum orðum í sjónvarpi að lokinni atkvæðagreiðslunni, sagðist aldrei hafa kynnst öðrum eins vinnubrögðum því að Ásmundur Daði hefði sagt annað um afstöðu sína á þingflokksfundi en fram kom í atkvæði hans.
Þingmenn Samfylkingarinnar, Magnús Orri Schram, Skúli Helgason og Björgvin G. Sigurðsson tóku sérstaklega fram við skýringu á atkvæði sínu, að þeir styddu stjórnina vegna ESB-stefnu hennar.
Þórs Saari í Hreyfingunni sagðist hafa viljað breyta vantrauststillögunni á þann veg að hún snerist aðeins um forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Þeir ættu að víkja en aðrir ráðherrar, sumir að minnsta kosti, mættu sitja áfram. Sér hefði verið svarað að ekki væri unnt að flytja vantrauststillögu gegn tveimur ráðherrum samkvæmt bók eftir Ólaf Jóhannesson, lagaprófessor og fyrrverandi forsætisráðherra. Taldi Þór þetta enn eina sönnun þess hve störf á alþingi væru á skjön við kröfur líðandi stundar.
Þór Saari sagði ekki hverjir gáfu honum þetta lærða svar. Hitt er staðreynd að á þingi hafa verið fluttar tillögur um vantraust á einstaka ráðherra. Þess vegnar er erfitt að sjá að ekki megi eins flytja vantraust á tvo ráðherra. Hvað sem þessu líður og þrátt fyrir magnaða óvild Þórs í garð Sjálfstæðisflokksins, ætlar Þór að greiða tillögunni um vantraust atkvæði sitt.
Í upphafi þingfundar 13. apríl las forseti lista yfir fjarverandi þingmenn og bréf frá þingflokksformönnum. Hið óvenjulega kom fram að kallað hefði verið á varamenn fyrir hvern þann þingmann sem var fjarverandi og rituðu þrír varaþingmenn undir drengskaparyfirlýsingu, þar sem þeir höfðu aldrei fyrr verið kallaðir til þingsetu. Voru þessar tilkynningar til marks um að stjórnarflokkar og stjórnarandstaða töldu miklu skipta að manna hvert sæti í þingsalnum við atkvæðagreiðsluna í kvöld. Tóku 63 þingmenn þátt í atkvæðagreiðslunni.
Á þingflokksfundi vinstri-grænna fyrr þennan dag, 13. apríl, tilkynnti Árni Þór Sigurðsson, sem kjörinn var formaður þingflokksins 10. apríl, að hann segði af sér. Árni Þór hefur sætt mikilli gagnrýni vegna kjörsins. Hann hrifsaði formennskuna frá Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem var að koma úr fæðingarorlofi. Fór ekki á milli mála að með afsögn sinni vildi Árni Þór gera tilraun til að þétta raðirnar innan þingflokksins fyrir atkvæðagreiðsluna um vantraustið. Guðfríður Lilja studdi ríkisstjórnina í atkvæðagreiðslunni um vantraustið.
Tilgangur Bjarna Benediktssonar var að sameina alla sem hefðu fengið nóg af ráðaleysi ríkisstjórnarinnar. Var hann ánægður með árangurinn að lokinni atkvæðagreiðslunni. Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði réttilega í ræðu sinni að Jóhanna Sigurðardóttir hefði byggt málflutning sinn á fortíðarhyggju og í óvild í garð Sjálfstæðisflokksins þegar framtíðin kallaði. Jóhanna hélt sér jafnvel meira við Sjálfstæðisflokkinn og skammir í hans garð en Steingrímur J. sem hefur verið iðinn við þann kola.
Í máli sumra þingmanna kom fram að þeir töldu miður að Sjálfstæðisflokkurinn hefði flutt þessa tillögu bæði vegna tímasetningar og einnig vegna þess að þeim væri óljúft að leggja máli lið sem kæmi frá flokknum. Eins og niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sýnir var andúðin á ríkisstjórninni meiri en svo að þingmenn utan Sjálfsstæðisflokksins létu skoðun sína á höfundi tillögunnar ráða afstöðu til hennar.
Til marks um óvild í garð sjálfstæðismanna má nefna að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, spurði í ræðu sinni hvort menn vildu kosningar til að fá nýja verkstjórn á rannsókn efnahagsbrotanna . Hann væri nú verkstjórinn og hét þingmönnum, að hann mundi standa vörð um rannsóknina. Á henni væru ýmsar brotalamir sem hann vildi laga, það yrði ekki gert með aðkomu Sjálfstæðisflokksins.
Eins og kunnugt hefur Valtýr Sigurðsson látið af störfum sem ríkissaksóknari en á sínum tíma kallaði Ögmundur hann á sinn fund til að finna að meðferð ákærum í nauðgunarmálum. Hefur Valtýr látið orð falla um óeðlileg pólitísk afskipti af embætti ríkissaksóknara í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Orð Ögmundar benda til þess að hann ætli að hafa slík afskipti af störfum sérstaks saksóknara.
Að ráðherra tali um rannsókn mála hjá lögreglu og ákæruvaldi á þann veg sem Ögmundur gerði í ræðu sinni er einsdæmi. Sýnir þetta best hve langt Ögmundur telur sér nauðsynlegt að seilast til að rökstyðja stuðning sinn við ríkisstjórn, þar sem hann sjálfur situr. Hann þarf að árétta stuðning við sjálfan sig með yfirlýsingu um afskipti sem hann má ekki hafa lögum samkvæmt og geta einfaldlega eyðilagt þau mál sem eru til rannsóknar.
Að víkja með þessum orðum að Sjálfstæðisflokknum vegna starfa hins sérstaka saksóknara er fráleitt með vísan til þess að embættið varð til vegna frumkvæðis sjálfstæðismanna. Ummæli Ögmundar Jónassonar endurspegla tilraun stjórnarflokkanna til að fæla þingmenn frá stuðningi við vantrauststillöguna með vísan til þess að hún hafi verið flutt af sjálfstæðismönnum.
Í umræðunum var því haldið fram meðal annars af Steingrími J. Sigfússyni að vantrauststillagan væri flutt til að berja í brestina sem urðu í Sjálfstæðisflokknum vegna stuðnings meirihluta þingflokks sjálfstæðismanna við Icesave III.
Á þann veg sá Steingrímur J. ástæðu til að þakka liðsinni meirihluta þingflokks sjálfstæðismanna við lagafrumvarp hans um Icesave III. Hafi einhverjir í þingflokki sjálfstæðismanna talið að þeir væru að styrkja einhver tengsl við VG undir forystu Steingríms J. með því að leggja honum lið við að ljúka Icesave-málinu hljóta þeir að sjá, að sá stuðningur er einskis metinn. Steingrímur J. leggur til þeirra ekki síður en annarra þegar völdin eru annars vegar og hefur þessi háttur hans nú leitt til magnaðs klofnings innan hans eigin flokks.
Kveikjan að vantrauststillögunni var að sjálfsögðu viðleitni sjálfstæðismanna til að skerpa skilin milli sín og stjórnarþingmanna. Allir sjálfstæðismenn sameinuðust um hana. Hið sögulega í þessu samhengi er ekki samstaða sjálfstæðismanna heldur hitt að þingmenn annarra flokka stóðu með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þegar á reyndi í átökum milli hans og ríkisstjórnarinnar. Sú staðreynd markar pólitísk þáttaskil þegar tekið er mið af tilraunum til að einangra flokkinn og ýta honum út í horn eftir hrun.
Stóru tíðindin vegna tillögu sjálfstæðismanna um vantraust á ríkisstjórnina er ekki að hún hafi verið felld. Þau felast í því að sjálfstæðismenn stóðu ekki einir og einangraðir í atkvæðagreiðslunni á þingi. Þeir hafa brotist út úr herkvínni þar. Það er stærsti sigur fyrir Bjarna Benediktsson í málinu.