8.4.2011

Eva Joly taka 2 - varðstaða um rétt Íslands

Eva Joly, þingmaður á ESB-þinginu og fyrrverandi ráðgjafi íslenskra stjórnvalda um saksókn efnahagsbrota,  telur að með því að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl geti Íslendingar þvingað fram umræður um lýðræðislegan rétt skattgreiðenda gegn kröfum stjórnvalda og fésýslumanna um að almenningur beri kostnað af því ef fjármálastofnanir og skuldabréfaeigendur standi ekki í skilum.

Hvetur Eva Joly til þess að snúið verði af þeirri braut sem mótuð hefur verið innan evru-svæðisins að knýja fram beiðnir um neyðarlán til að skella skuldinni síðan á skattgreiðendur í stað þess að afskrifa skuldir og láta lánveitendur sitja upp tap af gálausu framferði sínu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Eva Joly kveður sér hljóðs til varnar Íslendingum í Icesave-málinu. Hún ritaði grein í Morgunblaðið, Aftenposten, The Daily Telegraph og  Le Monde 1. ágúst 2009, þar sem hún tók upp hanskann fyrir Íslendinga í Icesave-málinu. Hún rifjaði  meðal annars upp hvernig staðið hefði verið að því að þvinga íslensk stjórnvöld til að beygja sig undir vilja ríkisstjórnar Gordons Browns í Bretlandi og sagði:

„Gordon Brown gaf þannig í skyn í breska þinginu að hann „ynni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum“ til að ná fram kröfum sínum gagnvart Íslandi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfti því að fresta því að lána Íslandi og setti afar hörð skilyrði fyrir veitingu lánsins. Það á við um þau markmið að ná jafnvægi í fjárlögum á Íslandi í síðasta lagi árið 2013, markmið sem ekki er gerlegt að ná, en kemur engu að síður til með að leiða til gríðarlegs niðurskurðar í grundvallarmálaflokkum á borð við menntakerfið, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, o.s.frv. Afstaða Evrópusambandsins og annarra Evrópuríkja var lítið skárri. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók strax í nóvember skýra afstöðu með Bretlandi þegar forseti hennar lét að því liggja að aðstoð myndi ekki berast frá Evrópu meðan Icesavemálið væri enn ófrágengið; raunar má segja að Barroso, sem þá var allur með hugann við eigin kosningabaráttu og dauðhræddur við að styggja helstu stuðningsmenn sína, Breta, hafi þá eins og fyrri daginn algerlega verið búinn að missa stjórn á atburðarásinni. Sama má segja um Norðurlöndin, sem þó eru ötulir talsmenn alþjóðasamstöðu, en afreka það nú helst að bregðast ekkert við þeirri kúgun sem Ísland er beitt – nokkuð sem dregur úr trú manna á raunverulegan vilja þeirra til þess að veita Íslandi stuðning.“

Grein Evu Joly vakti mikil og sterk viðbrögð. Þannig sagði Friðrik Pálsson, hótelhaldari og með mikla reynslu af alþjóðaviðskiptum, í grein í Morgunblaðinu 5. ágúst, að langt væri síðan hann hefði lesið grein í blaði, sem hefði vakið með honum jafn mikla von og grein Evu Joly  um sýn hennar á stöðu okkar Íslendinga eftir hrun bankanna á dögunum. Það hefði verið tímamótaumfjöllun. Grein sinni lauk Friðrik á þessum orðum: „Ég legg jafnframt til að ríkisstjórn Íslands óski eftir því við Sameinuðu þjóðirnar að skipaður verði sáttasemjari í þessu máli. Alþjóðlegir sáttasemjarar hafa verið skipaðir í mörgum mun veigaminni málum en því sem hér um ræðir.“

Gleðin var ekki eins mikil í herbúðum ríkisstjórnarinnar en um þessar mundir vann hún að því að fá þingmenn til að samþykkja Icesave I sem þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon kynntu 5. júní 2009 og töldu að rynni umræðulítið í gegnum þingið. Icesave I, Svavarssamningurinn, hefur síðan hlotið þá einkunn að hann sé versti milliríkjasamningur sem íslensk stjórnvöld hafi gert frá stofnun íslenska lýðveldisins árið 1944. Hann hefur þó æ síðan verið viðmið Steingríms J. í Icesave-málinu.

Til marks um reiðina í herbúðum stjórnarsinna má nefna að Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður Jóhönnu, hnýtti í Evu Joly á fésbókarsíðu sinni en dró síðan í land vegna gagnrýni sem hann sætti. Morgunblaðið sneri sér til Jóhönnu Sigurðardóttur  og í blaðinu 5. ágúst 2009 segir:

 „Í greininni gagnrýnir Eva Joly meðal annars harðlega fullyrðingar Gordons Brown, forsætisráðherra Breta, um að ríkisstjórn hans beri enga ábyrgð á málinu. Jóhanna segir að til greina komi að taka upp viðræður við Breta að nýju um málið. „Það getur vel gerst seinna meir ef við teljum það heppilegt fyrir málstaðinn. Icesave-málið er nú í höndum þingsins og stjórnvöld ætla ekki að grípa fram fyrir hendur þess en ég útiloka ekki að viðræður verði teknar upp að nýju síðar.“ Jóhanna segist ennfremur vera sammála því sem Joly sagði í greininni um að aðildarríkin, Bretar og Hollendingar, gætu ekki undanskilið sig allri ábyrgð á því sem gerðist í þeirra eigin lögsögu í Icesave-málinu.“

Í þessari tilvitnun kemur fram það viðhorf Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur einkennt öll hennar afskipti af Icesave-málinu. Hún hefur aldrei „tekið slaginn“. Þarna segir hún málið í „höndum þingsins“ eins og hún hafi ekkert um það að segja. Þá lætur hún eins og síðar telji ríkisstjórnin „það heppilegt fyrir málstaðinn“ vilji hún ekki „útiloka“ nýjar viðræður við Breta. 

Alþingi neyddi þau Jóhönnu og Steingrím J. til að fara með Icesave I að nýju til Breta og Hollendinga. Við svo búið kom Icesave II til sögunnar. Þjóðin hafnaði Icesave II í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars 2010, 98% þeirra sem tóku afstöðu lýstu andstöðu. Enn héldu Jóhanna og Steingrímur J. af stað. Hið einkennilega er að þau létu þó aldrei sjálf sverfa til stáls í viðræðum við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi. Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki gengið fram fyrir skjöldu fyrir málstað þjóðarinnar á sama hátt og til dæmis Enda Kenny, nýr forsætisráðherra Írlands.

Til að viðræður yrðu teknar upp að nýju kröfðust Hollendingar og Bretar þess að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. veitti þeim betri tryggingu fyrir því að hún hefði pólitískt vald á málinu heima fyrir. Þá samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn að setja mann í samninganefnd. Valinn var fulltrúi, Lárus L. Blöndal, hrl., sem hafði getið sér orð í fjölmiðlum fyrir að vilja standa á lögfræðilegum rétti Íslendinga.

Lárus L. lét hins vegar hafa sig í það að fara til viðræðna innan umboðs sem miðaðist við Svavarssamninginn, þar sem allri lögfræði hafði verið ýtt til hliðar og litið var á málið með krónur og aura að leiðarljósi.  Eftir að tókst að lækka vaxtakröfur Breta og Hollendinga snerist Lárus á sveif með samningi, Icesave III, og fylgdi stór hluti þingflokks sjálfstæðismanna honum að málum, illu heilli. Kannanir sýna hins vegar að almennir flokksmenn eru ekki sama sinnis og þingflokkur sjálfstæðismanna. Meirihluti sjálfstæðimanna vill standa á rétti þjóðarinnar, hollir sögulegri arfleifð flokks síns og samþykkt síðasta landsfundar hans sem hafnaði löglausum kröfum Hollendinga og Breta.

Þótt við séum vitni að því hér heima fyrir að lögfræðingar breyti um skoðun á réttarstöðu Íslands, af því vextir lækka á Icesave-kröfunni, á það ekki við um Evu Joly. Hún skrifar nýja grein sína í ljósi þess sem gerst hefur á evru-svæðinu undanfarin misseri og segir í Morgunblaðinu 8. apríl 2011:

„Nú hafa Írar, Grikkir, Portúgalar og aðrar Evrópuþjóðir verið þvingaðar til þess að ganga í ótakmarkaðar ábyrgðir allra lána sem stofnað var til af aðilum á markaði og þannig firrt bæði fjármálastofnanir og skuldabréfaeigendur allri ábyrgð. Af hverju í ósköpunum? Þetta er ákvörðun sem er tekin án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu. Er hugmyndin um að skattgreiðendur eigi að ábyrgjast lánveitingar á frjálsum markaði allt í einu orðin sjálfsögð og viðurkennd hugmyndafræði? Er það ætlunin að ábyrgðarlaus útlánastefna sé án nokkurra afleiðinga? Í stað þess að beita hefðbundnum aðferðum við afskriftir lána, gjaldþrot og uppgjör, virðist allt í einu orðið til þegjandi samkomulag um að enginn eigi að þola tap nema almenningur og það án umræðu.  ... Afleiðingin er að skattgreiðendur á Íslandi og í Evrópu standa frammi fyrir gríðarlegum niðurskurði á opinberri þjónustu, skatthækkunum og hratt vaxandi atvinnuleysi.“

Í þessum orðum er vikið að kjarna málsins, þegar litið er til hinnar miklu þverstæðu í umræðunum um Icesave-málið hér á landi. Þeir sem hæst tala um að segja skuli já við kröfum Breta og Hollendinga býsnast í hinu orðinu yfir því að við einkavæðingu bankanna hafi þeir verið afhentir mönnum sem ekki kunnu fótum sínum eða bankanna forráð.  Í stað þess að gæta réttar síns þegar afleiðingar þeirrar óráðsíu birtast, vilja já-menn taka upp veskið og greiða skaðann af henni. Eva Joly spyr réttilega: „Er hugmyndin um að skattgreiðendur eigi að ábyrgjast lánveitingar á frjálsum markaði allt í einu orðin sjálfsögð og viðurkennd hugmyndafræði?“ Þeir sem segja já við Icesave III eru jafnframt að svara þessari spurningu játandi. Þeir eru einnig að taka undir þá skoðun að „ábyrgðarlaus útlánastefna sé án nokkurra afleiðinga“. Þeir eru með öðrum orðum að gefa fjármálastofnunum og skuldabréfaeigendum til kynna að þeir muni ávallt hafa allt sitt á þurru, skattgreiðendur taki á sig tapið í stað þeirra.

Þegar Svavar Gestsson hafði tekið að kynna sér Icesave-málið fann hann það út að líklega væri þetta lítið mál, af því að eignir Landsbanka Íslands í Bretlandi myndu standa undir öllum Icesave-kröfunum. Þetta var hin „glæsilega niðurstaða“ sem Steingrímur J. boðaði eftir samtöl sín við Svavar. Þrátt fyrir þetta gerði Svavar hinn alræmda samning og þrátt fyrir þetta fela Icesave III lög Steingríms J. í sér að íslenska ríkið ábyrgist allt að 650 milljörðum íslenskra króna eða meira ef gengi lækkar gagnvart Bretum og Hollendingum.

Steingrímur J. Sigfússon hefur sýnt svo margháttaða ósvífni sem fjármálaráðherra að hann er í raun hættur að koma á óvart í því efni. Nýjasta dæmið í því safni öllu saman eru orð sem hann lét falla á fundi um Icesave-málið á fundi í Háskóla Íslands 7. apríl og sagt er frá á þennan hátt í Morgunblaðinu 8. apríl:

„Steingrímur J. Sigfússon sagði hugsanlegt að með sölu á verslunarkeðjunni Iceland, sem er ein af verðmætustu eignum þrotabús gamla Landsbankans, gæti Icesave-skuldin þurrkast út. Greint var frá því í morgun að verslunarkeðjan væri komin í söluferli og verðhugmyndir væru 330-370 milljarðar króna.

Þar af á skilanefnd Landsbankans um 67%. „Það þýðir að þarna gætu, með einni sölu, 250 milljarðar bæst í búið og þá væri Icesave-reikningurinn horfinn, vegna þess að í mati skilanefndar á hlutabréfaeignunum eru heildareignirnar metnar á 117 milljarða,“ sagði Steingrímur. „Segjum nú að þetta gengi eftir, að áframhaldandi góð þróun og sala á verðmætum eignum þýddi að þrotabúið ætti að fullu fyrir höfuðstólnum, og gengisstaðan yrði slík þegar þetta yrði gert upp að við fengjum vaxtakostnaðinn líka að mestu leyti til baka. Að Icesave-reikningurinn væri þá orðinn núll. Hvað væri þá unnið með nei-i? Hvers virði væri það?“ sagði Steingrímur.

Það væri ekki Icesave-reikningurinn sem þyrfti að hafa mestar áhyggjur af heldur tafir í efnahagsbatanum og hagvexti sem væru „undrafljótar að henda slíkum fjárhæðum út um gluggann“.“

Hugmynd Steingríms J. um hina „glæsilegu niðurstöðu“ byggðist einmitt á þessari sömu hugsun fyrir tveimur árum. Þá talaði hann einnig um að hann ætlaði að ýta undir efnahagsbata og hagvöxt. Síðan hefur allt farið á verri veg vegna þess hve illa hefur verið stjórnað en ekki vegna Icesave.  Með því að segja nei í kosningunum 9. apríl höfnum við því ekki aðeins að gangast í ábyrgð á skuldum annarra heldur stöndum á rétti okkar og vekjum von meðal þeirra þjóða sem verið er að festa í skuldafjötra vegna ábyrgðarleysis fjármálastofnana og skuldabréfaeigenda. Við einangrum ekki íslensku þjóðina heldur skipum henni í fremstu röð þeirra sem óttast ekki heljartök fjármálavaldsins í hvaða mynd sem það birtist.