4.4.2011

Mánudagur 04. 04. 11.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna og Evrópuvaktina um ofríki Steingríms J. Sigfússonar, blekkingar hans við embættisfærslu og svik við stefnumál. Ég gerði þetta af því tilefni að Steingrímur J., Björn Valur Gíslason, hnébrúða hans, og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti alþingis, hafa tekið höndum saman til að leyna þjóðina upplýsingum um kostnað við gerð Icesave III samningana.

Á vissu stigi mála í aðdraganda kosninga fer umræðan að snúast um auglýsingar og kynningar á málefnum frekar en málefnið sjálft. Kastljós kvöldsins sýndi að Icesave-málið er á því stigi núna. Þegar já-mennirnir auglýstu hákarl í undirdjúpunum sýndu þeir sitt rétta andlit að margra mati. Sumir já-mann þoldu illa að horfa í þann spegil sjálfir og hallmæla því auglýsingunni. Egill Ólafsson vísaði til þess í auglýsingu sinni að lagðar eru þungar byrðar á ungt fólk og börn með því að axla hina löglausu Icesave-skuld.

Auglýsingar endurspegla hug þeirra sem að þeim standa og hvaða augum þeir líta á málið. Hvort þær kveiki sömu tilfinningu hjá þeim sem verða fyrir áreiti vegna þeirra er annað mál. Já-auglýsingarnar höfða alls ekki til mín, enda er ég þeim ósammála. Auglýsingar nei-manna staðfesta almennt skoðun mína á málinu og er ég því sáttari við efni þeirra. Að ræða efni og gerð auglýsinga er hins vegar álíka tilgangslaust eins og að deila um niðurstöður í skoðanakönnun. Hvoru tveggja er til þess fallið að draga athygli frá kjarna málsins.