Dagbók: nóvember 2010

Þriðjudagur 30. 11. 10. - 30.11.2010

Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri, gaf til kynna í samtali við fréttastofu RÚV, að úrslitin í stjórnlagaþingskosningunum væru einskonar 101-úrslit, það er bundin við elítu í Reykjavík sem sæti tíðum hjá Agli Helgasyni í sjónvarpssal. Ég get ekki dæmt um réttmæti útlistunarinnar, því að í mörg ár hef ég ekki horft á þætti Egils. Hitt er augljóst að blærinn á stjórnlagaþinghópnum markast í dag af því hvernig menn eins og Þorvaldur Gylfason og Eiríkur Bergmann Einarsson tala. Því má ekki gleyma, að þarna eru 23 þingmenn að auki og hver hefur sitt atkvæði sem er jafnt atkvæði þeirra Þorvaldar og Eiríks.

Vegna orða þeirra félaga er rétt að minna á, að hlutverk stjórnlagaþingsins er ráðgefandi. Það bindur ekki hendur alþingismanna á einn eða annan hátt. Það er til marks um oflæti, þegar gefið er til kynna að árétting á þessari staðreynd jafngildi því að gera lítið úr stjórnlagaþinginu.


Mánudagur 29. 11. 10. - 29.11.2010

Undarlegt er að fylgjast með því, hve embættismönnum utanríkisráðuneytisins og öðrum málsvörum aðildar Íslands að ESB er mikið í mun að ná sér niðri á forystumönnum Bændasamtaka Íslands vegna andstöðu þeirra og bænda við ESB-aðild. Formaður viðræðunefndar Íslands við ESB vék úr vegi í ESB-viðtali við Fréttablaðið fyrir helgi til að skjóta á bændur eins og lýst er á Evrópuvaktinni.

Danilo Turk, forseti Slóveníu, sat fyrir svörum í Hardtalk í BBC í kvöld. Hann á greinilega í vök að verjast heima fyrir við að verja aðild Slóveníu að evru-svæðinu. Þegar Slóvenar tóku upp evru fyrir þremur árum, töldu þeir sig á leið inn í efnahagslegt öryggi. Í stað þess sitja þeir nú uppi með háar greiðslur til að losa Grikkjum og Írum undan þungum ávöxtunarkröfum til bjargar evrunni. Slóveníuforseti tók að sjálfsögðu afstöðu með ESB og ákvörðunum innan þess að kröfu Þjóðverja. Hann huggaði sig við að ESB hefði reynslu af því að breyta „crisis into opportunity“ en með slíkum frösum er almenningur í ESB-löndunum knúinn til að sætta sig við sífellt meiri miðstjórn.Sunnudagur 28. 11. 10. - 28.11.2010

Ég taldi líklegt að fleiri en 37% tækju þátt í stjórnlagaþingskosningunum. Þátttakan er álíka mikil og í flugvallarkosningunni hjá R-listanum um árið. Síðan hefur ekkert gerst í flugvallarmálinu, enda olli kosningaþátttakan vonbrigðum og varð engum hvatning til dáða.

Jónas Kristjánsson, frambjóðandi til stjórnlagaþings, ræðst á kjósendur og fer um þá neyðarlegum orðum fyrir að hópast ekki á kjörstað. Ætli hann telji sig verða utan þingsins?

Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, getur ekki leynt vonbrigðum sínum með kjósendur en minnir á að þingið verði haldið, þótt umbjóðendur þingmanna séu svona fáir. Hún gefur einnig til kynna að stjórnlagaþingið geti sett alþingi afarkosti, þótt það sé aðeins ráðgefandi. Hún telur einnig að „lýðræðisuppeldi“ skorti hjá þjóðinni auk þess sem kynning fyrir kjördag hafi verið misheppnuð.


Eðlilegt er að formaður stjórnlaganefndar leiti einhverra skýringa. Einfaldasta skýringin er að þessar kosningar vöktu einfaldlega ekki  áhuga almennings, af því að menn sjá ekki tilgang þess að eyða fé og tíma til þess að setjast á rökstóla um stjórnarskrána, hún sé ekki mál málanna um þessar mundir.

Réttmætt er að nefna Jóhönnu Sigurðardóttur sérstaklega til sögunnar þegar vikið er að þeim sem hafði frumkvæði að því að stofna til þessara misheppnuðu kosninga til stjórnlagaþings. Henni hefur verið kappsmál um langt árabil að efnt yrði til slíks þings. Þingmenn tókust harkalega á um þessa hugmynd hennar strax eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009. Þá var hugmynd hennar sú að stjórnlagaþingið tæki stjórnarskrárvaldið af alþingi. Til allra heilla var unnt að stöðva þau áform.

Laugardagur 27. 11. 10. - 27.11.2010

Sárafáir voru í Hlíðaskóla þegar við Rut fórum á kjörstað rúmlega 09.30 í morgun. Um klukkan 18.00 var kjörsókn í Reykjavík sögð um 20%. Ég ákvað ekki fyrr en eftir ferð mína til Akureyrar sl. fimmtudag að fara á kjörstað, enda hitti ég þar frambjóðendur, sem mér þóttu eiga erindi á stjórnlagaþing.

Forvitnilegt hefur verið að fylgjast með því hvernig unnið er markvisst að því í fréttum RÚV að ýta undir kjörsóknina. Rætt er við fólk til að minna á að ekki sé of seint að skipta um skoðun og drífa sig á kjörstað, því að flestir þeir, sem við er rætt höfðu ekki ætlað sér að kjósa, en létu sig samt hafa það.

Skrýtin var fréttin um kjörsókn á Akureyri í 18.00 fréttum RÚV. Þar var sagt frá því, að kjörsókn hefði ekki verið minni þar í átta ár og maður fór óhjákvæmilega að velta fyrir sér hvers vegna kjörsókn hefði verið svona lítil þá. Þegar hlustað var á fréttina sjálfa kom í ljós, að sá sem við var rætt hafði aðeins komið að framkvæmd kosninga á Akureyri í átta ár. Nær hefði hefði verið að kynna fréttina á þann veg, að á Akureyri hefði viðmælandi RÚV aldrei kynnst svona lélegri kjörsókn.

Föstudagur 26. 11. 10. - 26.11.2010

Fyrsta regla allra seðlabankastjóra í heiminum er að gera allt sem verða má til að njóta trausts og trúverðugleika. Frá því áður en Már Guðmundsson varð seðlabankastjóri hefur hann gengið á svig þessa reglu, því að ekki hefur verið upplýst með viðunandi hætti hvernig staðið var að samningum um launakjör hans. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra settu á svið blekkingarleik um málið eins og hér er lýst.

Nú fer Már undan í flæmingi vegna framgöngu sinnar varðandi söluna á Sjóvá. Reynir Traustason, ritstjóri DV, er helsti bandamaður hans. Eykur það ekki á trúverðugleikann.

Stóra spurningin er, hvernig Már ætlar að endurvekja trúverðugleika sinn og  þar með seðlabankans. Eins og skömmtunarstjóra er siður telur hann sig hafa tögl og hagldir í krafti opinberra haftareglna. Öllum er ljóst, að hann hefur minnstan áhuga allra á að afnema höftin, enda yrði han valdalaus án þeirra, eftir að vaxtavaldið hefur verið tekið úr höndum hans.

Fimmtudagur 25. 11. 10. - 25.11.2010

Flaug klukkan 07.15 til Akureyrar þar sem ég sat allan daginn ráðstefnu um norðurslóðir á vegum Háskólans á Akureyri og stofnana innan hans og Nexus, nýstofnaðs fræða- og rannsóknarfélags við Háskóla Íslands um öryggismál.

Mér þótti forvitnilegt að kynnast því hve fræðimenn úr Háskóla Íslands, Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri eru vel að sér um alla þróun mála  er varðar norðurskautið og Norður-íshaf.  Augljóst er að ríki vinna að því að treysta stöðu sína gagnvart svæðinu með endurskipulagningu á herafla sínum.

Ég vakti máls á því að þverstæða væri í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um að láta að sér kveða sem strandríki á norðurslóðum og stefna jafnframt að aðild að Evrópusambandinu. Með aðild yrði ESB strandríki í stað Íslands.

Ég sagðist hafa skilning á þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að ríkin fimm innan Norðurskautsráðsins ættu ekki að hittast sérstaklega heldur ættu ríkin átta í ráðinu jafnan að hittast. Mér þættu hins vegar rök fyrir því að ríkin fimm (Bandaríkin, Kanada, Grænland/Danmörk, Noregur og Rússland) hittust, þar sem þau ættu land að Norður-Íshafi en ekki hin þrjú (Ísland, Svíþjóð og Finnland).

Ég hafði ekki komið í Háskólann á Akureyri eftir að hann flutti í fullbyggt skólahúsið. Það er glæsilegt og skapar skólastarfinu góða umgjörð.


Miðvikudagur 14. 11. 10. - 24.11.2010

Þegar sagt er að ljúka verði viðræðum við ESB til að unnt sé að bera niðurstöðuna undir Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu er jafnframt sagt við ESB-viðmælendurnar að íslensk stjórnvöld séu til þess búin að slá svo mikið af kröfum sínum, að draga megi upp eitthvert sameiginlegt skjal. Þess vegna er íslensk uppgjafarstefna í ESB-viðræðunum eðlislægur hluti af kröfunni um að „málið verði klárað“ og gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Eru þeir sem þannig tala til dæmis reiðubúnir til að færa strandríkisrétt Íslands til ESB?

Í umræðum um fjárgreiðslur til meðferðarheimilisins Árbótar í Kastljósi í kvöld var hlaupið yfir valdníðslu Steingríms J. Sigfússonar þegar hann sagði í tölvupósti að hann mundi bregða fæti fyrir fjárveitingar í þágu barnaverndarstofu ef ekki yrði farið að kröfum hans varðandi Árbót. Þá var þess einnig látið ógetið að hann sakaði barnaverndarstofu um að leka einkapósti sínum þegar stofan gerði ekki annað en bregðast við óskum fjölmiðils samkvæmt upplýsingalögum.


Þriðjudagur 23. 11. 10. - 23.11.2010

Flutti erindi í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins um ESB-málefni og öryggismál.

Ritaði í morgun leiðara á Evrópuvaktina um evru-vandann og Íra. Það er óskiljanlegt að hér á landi skuli ESB-aðildarsinnar láta eins og Írum sé sérstakur greiði gerður með því að knýja þá til að þiggja alþjóðlega fjárhagsaðstoð með ströngum skilyrðum til að bjarga evrunni.

Ef þetta er svona mikið fagnaðarefni, hvers vegna hlaupa Írar ekki fagnandi út á götur? Hvers vegna hefur írska stjórnin þá sprungið vegna málsins? Hvers vegna er líklegt að Fianna Fáil flokkurinn, stjórnarflokkurinn, sem haft hefur undirtökin í írskum stjórnmálum síðan 1930 berjist fyrir lífi sínu í næstu þingkosningum?

Allt tal um að nú geti Írar prísað sig sæla fyrir að hafa evruna og njóta skjóls frá Seðlabanka Evrópu hljómar eins og hrein öfugmæli í eyrum Íra.

Ég sá ekki betur en Steingrímur J. hlypi niður tröppurnar við stjórnarráðshúsið eftir ríkisstjórnarfund í morgun í stað þess að sperra sig fyrir framan hljóðnema ljósvakamiðlanna. Nú vill hann ekki láta spyrja sig, af því að hann veit upp á sig skömmina vegna ráðstöfunar á fé til meðferðarheimilis í kjördæmi hans, þegar hann sýndi þá fáheyrðu stjórnsýslutakta að hóta að taka fjárhagsleg málefni barnaverndarstofu í gislingu nema farið yrði að kröfum hans, og beit síðan hausinn að skömminni og réðst á stjórnendur stofunnar fyrir að fara að upplýsingalögum.

Þessir stjórnarhættir hjá fjármálaráðherra eru sem betur fer einsdæmi en endurspegla valdhroka Steingríms J. sem magnast jafnt og þétt. Engir geta sett honum skorður nema hans eigin flokksmenn en þá beitir hann líklega svipuðu bolabrögðum og birtust í tölvubréfinu vegna meðferðarheimilisins.

Mánudagur 22. 11. 10. - 22.11.2010

Ég ók upp í Reykholt í Borgarfirði á fund um hádegisbilið. Undir Hafnarfjalli var niðaþoka en hún hvarf smátt og smátt þegar ég nálgaðist Reykholt og fagur fjallahringurinn blasti að lokum við með jöklana í austri.

Fréttablaðið birti í dag forsíðufrétt um sérkennileg afskipti Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, af uppsögn á samningi af hálfu barnaverndarstofu við meðferðarheimili í kjördæmi ráðherrans. Steingrímur J. krafðist þess að meira yrði greitt til eigenda heimilisins en barnaverndarstofa vildi og hótaði henni að skrúfa fyrir frekari fjárveitingar til meðferðarheimila yrði ekki farið að vilja hans og eigendunum greiddar 30 milljónir króna.

Í þingræðu gaf Steingrímur J. til kynna að barnaverndarstofa hefði lekið einkatölvupósti hans til fjölmiðla. Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður stofunnar, sagði hana aðeins hafa farið að upplýsingalögum! Ráðherrann greip þarna til tvöfaldrar valdníðslu annars vegar við ráðstöfun á opinberu fé og hins vegar til að þagga niður í opinberum embættismanni sem fór að lögum.

Morgunblaðið
birti í dag forsíðufrétt um að tilboðsgjafar í kaup á Sjóvá hefðu dregið tilboð sitt til baka vegna þess hve Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði dregið lengi að skrifa undir sölusamninginn. Þar eru 10 milljarðar í húfi fyrir ríkissjóð. Á alþingi sagðist Steingrímur J. ekkert vita um málið. Már sagðist ekkert mega segja um það. Þá blandaði fjármálaeftirlitið sér allt í einu í málið og sagðist ekki hafa lokið skoðun þess. Hvers vegna? Hvaða máli skipti að upplýsa það, eftir að tilboðið hafði verið dregið til baka?

Þetta er óneitanlega einkennileg stjórnsýsla hjá seðlabankastjóranum og þó enn skrýtnari hjá FME sem að jafnaði upplýsir ekki um mál til meðferðar hjá sér. Hvers vegna er sagt frá máli sem er lokið af hálfu þeirra sem hlut eiga að máli en ólokið hjá FME?

Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina um fjárhagsvanda Íra og má lesa hann hér.

Sunnudagur 21. 11. 10. - 21.11.2010

Stundum er spurt að því blöðum, hvað menn telja bestu eða verstu fjárfestingu sína. Ég var á dögunum að sækja ábyrgðarbréf og bók í pósthúsið við Síðumúla. Þá mundi ég eftir að mig vantaði pappír í prentarann og velti fyrir mér, hvert ég ætti að aka til að ná í hann. Þegar ég hins vegar sá pappírspakka til sölu í pósthúsinu tók ég einn og keypti. Ég greiddi tæpar 1.800 kr. fyrir pakkann. Þótti mér það að vísu nokkuð hátt verð en úr því að ég sparaði mér ferð annað lét ég slag standa.

Ég sé á auglýsingu í Morgunblaðinu laugardaginn 20. nóvember, að ég hefði betur hugsað mig um tvisvar. Þar auglýsir N1 sama magn á pappír og ég keypti á 480 kr.  Líklega er þar svar N1 við ákvörðun Office1 um að selja bók Jónínu Ben. á hálfvirði með skilarétti.

Ég hafði rangt fyrir mér í gær, þegar ég taldi, að stjórnarflokkarnir stæðu saman að baki Jóhönnu Sigurðardóttur á leiðtogafundi NATO, þar sem hún samþykkti nýja grunnstefnu NATO og eldflaugavarnir.  Taldi ég víst að Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, hefði komið að undirbúningi og stefnumörkun af Íslands hálfu enda hafði Össur Skarphéðinsson sagt á þingi að um náið samráð við utanríkismálanefnd hefði verið að ræða. Nú kemur í ljós að um bullandi ágreining er að ræða milli Össurar og Árna Þórs. Vill Árni Þór kalla þau Jóhönnu og Össur á teppið hjá utanríkismálanefnd og krefja þau svara um hvað í ósköpunum þau hafi verið að gera í Lissabon.

Það reyndist sem sagt ekki að ástæðulausu að ég velti fyrir mér hvort fjölmiðlamenn ætluðu ekki að fjalla um þau miklu þáttaskil í utanríkis- og öryggismálasögu þjóðarinnar að „hrein“ vinstri stjórn styddi nýja grunnstefnu NATO og eldflaugavarnir.

Sú furðulega skýring Össurar að nú sé í lagi að styðja eldflaugavarnir í þágu NATO-ríkjanna af því að Rússar séu ekki á móti þeim dugar honum ekki til að hafa Árna Þór góðan.Laugardagur 20. 11. 10. - 20.11.2010

Flokksráð vinstri-grænna samþykkti í dag moðsuðu um ESB-mál til þess að halda flokki sínum saman og tryggja að hann geti átt samstarf við Samfylkinguna í ríkisstjórn. Ljóst er að ESB-bröltinu verður ekki hætt á meðan þessi ríkisstjórn situr með Steingrím J. innan borðs. Annað hvort verður að ýta honum til hliðar eða sprengja ríkisstjórnina.

Merkilegt er að enginn í flokksráði vinstri-grænna virðist hafa vakið máls því að sama dag og ráðið sat á rökstólum í Hagaskólanum í Reykjavík og lýsti ofurtrú sinni á ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sat sjálf Jóhanna leiðtogafund NATO í Lissabon og samþykkti fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar nýja grunnstefnu NATO og áform um eldflaugavarnir - í grunnstefnunni felst meðal annars stuðningur við kjarnorkuvopn undir forsjá NATO.

Kannski hefur vinstri-grænum þótt best að þegja um NATO og nýja stefnu þess með samþykki ríkisstjórnarinnar eins og þeir þögðu um Icesave-samninga Steingríms J. og Svavars Gestssonar bæði á þessum flokksráðsfundi og þeim sem efnt var til í janúar.

Ég skrifaði um NATO fundinn hér á síðuna í dag og einnig á Evrópuvaktina eins og hér má sjá.

Föstudagur 19. 11. 10. - 19.11.2010

Nú er viðtalsþáttur minn af ÍNN frá því á miðvikudaginn þegar ég ræddi við Björgvin G. Sigurðsson um nýja bók hans Storm komin á vefinn og má sjá hann hér.

Á sínum tíma þegar ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur var okkur einu sinni gerð grein fyrir miklu rafeinda- og tölvuverkefni undir heitinu smart-kort sem átti að leiða til þess að notendur þjónustu hjá borginni ættu að geta keypt kort sem veitti þeim aðgang að þjónustu á vegum borgarinnar meðal annars í strætó og sundi. Ég man ekki hvað var talað um mörg hundruð milljóna króna kostnað við þetta verkefni. Ég man hins vegar að lýsingar á kostum þess voru hástemmdar. Ég var hugsi yfir því þá hvort óhjákvæmilegt væri að leggja í þennan kostnað til að ná því markmiði sem að var stefnt, hvort ekki mætti semja við einhverja erlendis, sem leyst hefðu málið og kaupa forrit og tækjakost af þeim.

Enn var mér hugsað til þessa á dögunum í New York þegar sá hve snurðulaust allt aðgengi að jarðlestum borgarinnar var með þeim smart-kortum sem menn gátu keypt og veittu þeim rétt til mismargra ferða í lestunum. Þeim var rennt hratt í gegnum rauf fyrir framan hlið sem síðan opnaðist fyrir korthafa. Í öll þau skipti sem ég notaði mitt 7-daga-kort lenti ég aðeins einu sinni í vandræðum, líklega vegna þess að ég var ekki nógu fljótur að ýta á slá hliðsins þegar orðið go birtist á því, næst þegar ég renndi í gegn komu orðin just used og varð ég að biðja vörð um að opna hliðið fyrir mig.

Í Laugaradalsundlauginni eru tvö hlið sem unnt er að opna með smart-kortum, kortunum er ekki rennt í gegn heldur lögð á hliðstólpa. Annað hliðið hefur verið lokað vikum saman og á því er hálf hallærislegt blað sem á er krotað á íslensku og ensku rafeindabúnaðurinn sé bilaður. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þessi hlið séu afrakstur smart-verkefnisins sem kynnt var í borgarráði fyrir sex til sjö árum. Þá er hitt líka umhugsunarefni hvers vegna ekki er gert við bilaða hliðið. Það gæti að minnsta kosti verið í ábyrgð svo skammt er síðan það kom til sögunnar.


Fimmtudagur 18. 11. 10. - 18.11.2010

Matthew Lynn, sem er dálka- og bókahöfundur um fjármál, skrifar grein í nýjasta hefti breska vikuritsins The Spectator þar sem hann ræðir um stöðu Íslands eftir bankahrunið. Hann segir að íslenska ríkið hafi ekki haft efni á því að dæla peningum í bankana haustið 2008 til að halda þeim gangandi. Þess í stað hafi ríkið slegið eign sinni á þá, innlendir innlánseigendur hafi verið verndaðir en erlendir lánadrottnar hafi verið látnir sigla sinn sjó. Allt öðru vísi hafi verið brugðist við í Bretlandi, Bandaríkjunum og Írlandi, þar sem ríkið hafi dælt milljörðum af skattfé almennings inn í fjármálastofnanir.

Lynn segir að íslenska aðferðin hafi ekki reynst sem verst. Vextir hafi lækkað og krónan sé tekin að styrkjast að nýju, hún hafi hækkað um 19% á þessu ári gagnvart evru. Í raun veki reynsla Íslendinga ógnvekjandi spurningu fyrir aðrar þróaðar þjóðir. Ef til vill hefðu þær ekki þurft að dæla svo háum fjárhæðum í banka sína. Ef til vill hefðu þær átt að láta þá fara á hausinn?

Hann telur að Íslendingar standi að mörgu leyti betur að vígi en Írar og Grikkir. Þeir séu jafnvel í betri stöðu en Bretar sem viti ekki hvað Royal Bank of Scotland eða Loyds-HBOS muni kosta þá að lokum. Íslendingar hafi sýnt að ekki sé endilega að dæla peningum inn í banka í vanda. Grein sinni lýkur hann á því að fylgdu Bretar í fótspor Íslendinga kynni efnahagur þeirra að lagast á tiltölulega skömmum tíma.

Hér má sjá greinina eftir Matthew Lynn í heild.

Miðvikudagur 17. 11. 10. - 17.11.2010

Heimferðin frá New York gekk vel með Icelandair og lentum við rúmlega 6 í morgun eftir 4.45 tíma flug. Ég hef ekki flogið frá Bandaríkjunum síðan tekið var að losa farþega til Íslands við öryggisskoðun í Leifsstöð með því að aka þeim í rútu frá passaskoðun inn að töskubeltunum. Þetta er einföld lausn hjá flugstöðinni og dregur úr kvörtunum, því að mörgum var misboðið með nýrri öryggisskoðun við komu til landsins. Hún býður hins vegar þeirra farþega sem halda áfram með flugi inn á Schengen-svæðið.

Síðdegis tók ég upp samtal í þátt minn á ÍNN við Björgvin G. Sigurssðon, alþingismann og fyrrverandi ráðherra, vegna bókar hans, Storms, þar sem hann lýsir reynslu sinni vegna bankahrunsins og eftirleik þess.

Björgvin G. er einlægur í lýsingum sínum og honum tekst vel að draga mynd af hinni mögnuðu atburðarás frá sínum sjónarhóli. Ég er ekki sammála honum um allt eins og fram kemur í samtali okkar.

Þriðjudagur 16. 11. 10. - 16.11.2010

Dagur íslenskra tungu hefur áunnið sér fastan sess og þróast á þann hátt sem við væntum sem tókum ákvörðun um að minnast fæðingardags Jónasar Hallgrímssonar á þennan hátt. 

Að þessu sinni er ég í New York og bý mig undir að fljúga heim með Icelandair í nótt. Augljóst er að spænska ryður sér æ meira rúms í borginni. Prentaðar viðvaranir í lestum borgarinnar eru til dæmis bæði á ensku og spænsku, þótt lestarstjórar flytji boð sín aðeins á ensku.


Mánudagur 15. 11. 10. - 15.11.2010

Vísir.is sýndi af sér afspyrnulélega blaðamennsku með því að túlka tölvubréf sem ég sendi Jónínu Benediktsdóttur árið 2005 á þann veg að ég hafi átt í einhverju leynimakki með Baugsmönnum á tíma Baugsmálsins. Gunnar Smári Egilsson sem starfaði nokkur ár í þjónustu Baugsmanna lagði þannig út af þessu bréfi að ég hefði rætt við Jón Ásgeir Jóhannesson um að hann seldi Baugsmiðlana og Baugsmálið hyrfi úr sögunni. Þetta er dæmalaust rugl. Vísir.is hefur leiðrétt frétt sína, enda byggðist hún á hugarburði þess sem skrifaði hana. Gunnar Smári segir hins vegar að engu skipti þótt fréttin hafi verið röng hann hafi samt rétt fyrir sér!

Jónína strikar út nafn þegar hún birtir tölvubréfið. Sá maður sem bauð mér með sér til Baugsmanna var Ragnar Tómasson hrl., sem stóð að því með Gunnari Smára sumarið 2002 að selja Baugsmönnum Fréttablaðið og tryggði þar með Gunnari Smára lykilstöðu í fjölmiðlaveldi Baugs.

Ragnar var einlægur í þeirri skoðun sinni að óheppilegt væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn annars vegar og Baug hins vegar að menn gætu ekki hist og rætt saman. Að Ragnar hafi boðið mér að kynnast starfsemi Baugs í því skyni að hafa áhrif á gang réttvísinnar er af og frá. Án þess að ég muni nákvæmlega hvenær ég sat þennan kynningarfund hjá Baugi finnst mér ekki ólíklegt að það hafi verið fyrir þingkosningarnar vorið 2003, þegar ég sat utan ríkisstjórnar.

Að ég hafi gert eitthvað á hlut Gunnars Smára er mér hulin ráðgáta. Ég sagði frá skiptum okkar hér á síðunni gær. Hann kýs að leggja þannig út af orðum mínum að ég sé að gera lítið úr honum. Við það fæ ég ekki ráðið. Hann ræður sjálfur sínum penna. Óskiljanlegt er hvers vegna hann kýs að hafa það sem sannara reynist að engu þegar hann leitast við að þvo af sér Baugsstimpilinn.

Sunnudagur 14. 11. 10. - 14.11.2010

Hlustuðum á Anne-Sophie Mutter, fiðluleikara, Yuri Bashmet, lágfiðluleikara, og Lynn Harrell, sellóleikara, flytja þrjú tríó eftir Beethoven í Avery Fisher Hall í Lincoln Center. Í einu orði stórbrotnir tónleikar sem vöktu mikla hrifningu gesta í þéttsetnum salnum.

Veðrið í New York hefur verið einstaklega gott dagana sem við höfum dvalist hér. Er ævintýri líkast að fara um Manhattan og kynnast margbreytileika borgarinnar eftir mismunandi hlutum hennar.

Gunnar Smári Egilsson notar vefsíðu Egils Helgasonar til að birta ósannindi um samskipti mín og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þegar ég var menntamálaráðherra kom Gunnar Smári einu sinni á minn fund. Hann gaf þá út blað sem hét Fjölnir. Átti hann í fjárhagserfiðleikum. Mig minnir að ég hafi leitast við að létta eitthvað undir með honum með styrk af ráðstöfunarfé ráðherra. Þetta var áður en hann fór að ráðstafa sjóðum Baugsmanna. Næst þegar ég hitti Gunnar Smára var hann rótari eða ráðstefnustjóri á fundi hjá SÁÁ í Von við Efstaleiti. Það var eftir störf hans hjá Baugsmönnum. Þau hafa ekki farið vel með hann. Skrýtið hvað hann þarf að kasta miklum skít í aðra við að hreinsa sig af þeim.

Laugardagur 13. 11. 10. - 13.11.2010

Les á visir.is að Jónína Benediktsdóttir segi mig hafa átt fund með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni árið 2005 og hún hafi tölvubréf frá mér því til staðfestingar. Hér fer eitthvað á milli mála. Ég man ekki eftir að hafa nokkru sinni heilsað Jóni Ásgeiri og því síður hitt hann að máli.

Þessi frétt á visir.is verður Sigurjóni M. Egilssyni tilefni til að hnýta í mig í þágu Gunnars Smára, bróður síns. Segist Sigurjón M. hafa orðið vitni að því í þinghúsinu fyrir tæpum tuttugu árum, að ég hafi sagt þingfréttaritara Morgunblaðsins hvaða fyrirsögn hann ætti að hafa á frétt um þingræðu eftir mig. Mér hafi orðið eitthvað um að Sigurjón M. yrði vitni að samtali mínu og þingfréttaritarans. Ætli það hafi ekki verið minn gamli vinur og herbergisfélagi af Morgunblaðinu  Stefán Friðbjarnarson. Fráleitt er líta þannig á að ég hafi sagt honum fyrir verkum.

Ég hef undanfarið lesið margt af því, sem þeir bræður Gunnar Smári og Sigurjón M. skrifuðu til varnar Baugsmönnum á tíma Baugsmálsins. Ég er viss um að mörgum verður eins og mér við þann lestur að undrast hve lágt þeir lögðust til að þjóna húsbændum sínum á þeim tíma.


Föstudagur 13. 11. 10. - 12.11.2010

Á göngu um New York sé ég að bókabúðum og vítamínbúðum hefur stórfækkað. Viðskiptin hafa færst inn á netið. Í húsinu þar sem við búum sækja íbúarnir kassa frá Amazon í pósthólf sín við heimkomu á kvöldin. Afsláttur og ókeypis hraðsendingar eru í boði ef pantað er á vissum tímum og afhendingardegi lofað. Ég þorði ekki að treysta á það og hef litast um í tveimur Barnes & Noble bókaverslunum við Lincoln Center og á Fifth Avenue. Fyrirtækið er sagt í kröggum. Hyrfu verslanir þess yrði skarð fyrir skildi.

Fimmtudagur 11. 11. 10. - 11.11.2010

Össur Skarphéðinsson lætur eins og það sé stórfrétt að skjöl utanríkisráðuneytisins sýni að þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins hafi efast um lögmæti innrásarinnar í Írak, þar sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefði ekki lagt blessun sína yfir hana. Að lögfræðingar deildu um lögmætið er síður en svo nýmæli.  Þá er gefið til kynna að forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands hafi ekki vitað hvað fólst í samþykki þeirra við að Ísland yrði á lista yfir hinar viljugu þjóðir eins og þær voru nefndar. Skjöl utanríkisráðuneytisins sýna einmitt hvað í samþykkinu fólst, pólitískur stuðningur en ekki hernaðarlegur.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, sem hefur kynnt sér skjölin á vefsíðu utanríkisráðuneytisins segir að flest þeirra séu greinar eða frásagnir í fjölmiðlum. Þar komi ekkert fram sem sýni tengsl á milli ákvörðunar ráðherranna og dvalar varnarliðsins. Mátti skilja Guðna Th. að gögn um það kynnu að vera trúnaðarmál í utanríkisráðuneytinu eða embættismenn hefðu ekki skráð neitt um þennan þátt málsins. Á meðan skjölin eru ekki lögð fram er ekkert unnt að fullyrða að varnir Íslands hafi ráðið ákvörðun ráðherranna.

Ég sat ekki í ríkisstjórn í mars 2003 en var hins vegar í utanríkismálanefnd þar sem rætt var um þessi mál en þingmenn voru vissulega með hugann við annað, því að kosið var til þings vorið 2003 auk þess sem allt var á öðrum endanum á þessum tíma vegna umræðna um fund þeirra Davíðs Oddssonar og Hreins Loftssonar í London. Davíð sagði frá honum í útvarpsviðtali að morgni 3. mars 2003.

Miðvikudagur 10. 11. 10. - 10.11.2010

Af yfirlýsingu Óðins Jónssonar, fréttastjóra RÚV má ráða að Þórhallur Jósepsson hefði ekki verið rekinn úr starfi fréttamanns ef hann hefði tekið viðtöl við mig sem fyrrverandi ráðherra og gefið út á bók af því að ég hef ekki verið í fréttum undanfarna mánuði. Þórhallur var hins vegar rekinn fyrir að skrá viðtöl við Árna M. Mathiesen af því að Árni var undir smásjá sem fyrrverandi fjármálaráðherra.

Fram kemur að Þórhallur sagði Óðni frá því að hann væri með viðtalsbók við fyrrverandi ráðherra í smíðum. Óðinn vissi hins vegar ekki hver ráðherrann var og brást ókvæða við fréttum um það. Félag fréttamanna á RÚV lætur sig málið ekki varða.

Allt er þetta til marks um sérkennilegt andrúmsloft meðal fréttamanna RÚV sem endurspeglast í efnistökum þeirra við meðferð sífellt fleiri mála. Um þessar mundir fylgist ég mest með því, hvernig fjallað er um ESB-aðildina. Þar er dreginn taumur aðildarsinna og sagt frá málum frá þeirra sjónarhóli og ESB.

Í dag bárust fréttir um að Láru Hönnu Einarsdóttur hefði verið sagt upp störfum sem pistlahöfundur á RÚV af því að hún bloggaði á Smuguna, vefsíðu vinstri-grænna. Ég hef aldrei hlustað á Láru Hönnu í útvarpinu og veit því ekki hvaða boðskap hún flutti. Brottrekstur hennar á ekki upphaf sitt í orðum hennar á RÚV heldur bloggi á vefsíðu vinstri-grænna.

Sá starfsmaður RÚV sem sætir mestri gagnrýni fyrir hlutdrægni er þáttastjórnandinn Egill Helgason. Fyrir utan að stjórna tveimur þáttum í sjónvarpi, þar sem annars vegar er fjallað um stjórnmál og hins vegar bókmenntir bloggar Egill í gríð og erg á launum frá vefsíðunni Eyjunni og veitist að mönnum vegna afstöðu þeirra og vegna þess hverjir þeir eru. Hlutdrægni Egils byggist ekki aðeins á málefnum heldur einnig hinu hvaða einstaklingur á í hlut.

Fréttastofa RÚV fer ekki aðeins í manngreinarálit þegar fréttamenn velja sér viðmælendur vegna bókarskrifa. Hún leggur einnig ólíkt mat á vefsíður. Egill heldur áfram að stjórna þáttum af því að hann bloggar á Eyjuna. Lára Hanna er rekin af því að hún bloggar á Smuguna.

Allar ákvarðanir stjórnenda RÚV um mannahald byggjast auðvitað á vilja þeirra og viðleitni til að verja trúverðugleika stofnunarinnar.
Þriðjudagur 09. 11. 10. - 9.11.2010

Flaug síðdegis til New York. Allt á áætlun hjá Icelandair. Kominn inn á miðja Manhattan rúmlega 19.00 á staðatíma, 24.00 íslenskan.

Mánudagur 08. 11. 10. - 8.11.2010

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, sagði ranglega í svari á alþingi í dag að ég hefði ráðið danska arkitekta til að teikna fangelsi á Hólmsheiði við Reykjavík. Nokkru seinna leiðrétti hann svar sitt.

Ég hafði ekki ráðið neina arkitekta, danska eða íslenska, til að teikna þetta fangelsi Á hinn bóginn hafði verið farið í smiðju til danskra arkitekta sem eru sérhæfðir í gerð fangelsa, enda eru nokkur nýleg í Danmörku, við frumathugun á móttökuhúsi á Litla Hrauni í ráðherratíð minni. Þá hafði verið leitað til þeirra um ráðgjöf vegna nýs fangelsis í Reykjavík í ráðherratíð Rögnu Árnadóttur. Allt þetta mál er í raun byggt á misskilningi, ef talið er, að af minni hálfu eða Rögnu hafi verið unnið að því að halda íslenskum arkitektum frá því að teikna nýtt fangelsi. Málið snýst um að fá sem besta ráðgjöf við gerð útboða.

Nú er að sjá, hvort tekst að finna lóð undir nýja fangelsið, þegar á reynir. Ég var kominn á þá skoðun að reisa ætti fangelsi og lögreglustöð saman. Taldi ég besta staðinn vera við Bústaðaveg, þar sem veðurstofan er og yfirgefin stjórnstöð raforkukerfisins.

Í magar áratugi hefur legið fyrir, að bandaríska sendiráðið gerði sérstakar ráðstafanir til að gæta eigin öryggis. Hér hafa verið og eru kannski enn „marines“ til sendiráðsgæslu. Þetta á ekkert skylt við „njósnir“.  Njósnir í þágu erlendra ríkja eru ólögmætar hér á landi. Á meðan íslensk yfirvöld skortir forvirkar rannsóknarheimildir eru þau ekki í stakk búinn til að snúast gegn njósnum af þeim þunga sem kann að vera nauðsynlegur.

Ögmundur Jónasson hefur nú beðið ríkislögreglustjóra um öryggisráðstafanir á vegum bandaríska sendiráðsins. Spennandi verður að fylgjast með því hvort afstaða Ögmundar til forvirkra rannsóknarheimilda breytist vegna þessarar skýrslugerðar.


Sunnudagur 07. 11. 10. - 7.11.2010

Heimildarmyndin um Alþjóðabjörgunarsveitina í sjónvarpinu í kvöld staðfesti enn og aftur hve mikils virði sjálfboðaliðastarf þeirra er sem helga krafta sína verkefnum á þessu sviði.

Merkilegt er að sjá hve mikil áhersla er á sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar í niðurstöðum þjóðfundarins sem birtar voru í dag. Ef ekki er veitt heimild til framsals á fullveldi verður ekkert af aðild Íslands að Evrópusambandinu. Með áherslunni á fullveldi endurspeglar þjóðfundurinn viðhorfið sem birtist í niðurstöðum skoðanakannana þegar meirihlutinn lýsir andstöðu við ESB-aðild.

Í niðurstöðum þjóðfundarins kemur einnig fram að þátttakendur nefna sérstaklega samstarf Íslendinga með norðlægum þjóðum. Hefði áhugi fundarmanna beinst að aðild að Evrópusambandinu hefðu niðurstöður þeirra orðið aðrar en þær sem sagt er frá í fréttum.

Laugardagur 06. 11. 10. - 6.11.2010

Fór niður í Landeyjar á Vorsabæ með nágrönnum mínum Viðari og Ásgeiri og sóttum þangað grábotnótta á mína með einu lambi, sem þau Margrét og Björgvin kalla Björnsbotnu. Hún fór þangað einnig fyrir tveimur árum og bar þá þremur lömbum og komst í Bændablaðið þegar hjónin á Vorsabæ áttuðu sig á því að ég væri ætti gripina. Þegar þau sáu ána komna til sín aftur hringdu þau og létu vita af henni.Björnsbotna

Við ókum ánni og lambinu í Fljótshlíðina og heim til Ásgeirs sem ætlar að gæta þeirra í vetur. Ærin hljóp beint úr bílnum inn í fjárhúsið og naut þess greinilega að vera þar á kunnuglegum slóðum.

Þetta er ekki hin sama og sneri til byggða sl, vor þegar askan lagðist yfir allt í Þórólfsfelli.

Þær eru báðar forystuær frá Fljótsdal og fara sínu fram.

Föstudagur 05. 11. 10. - 5.11.2010

Í morgun sat ég strandríkjaráðstefnu Heimssýnar og flutti þar erindi sem hér birtist.

Mér finnst broslegt að fylgjast með því, hvernig leitast er við að mála Heimssýn út í horn sem félagsskap þröngsýnna afturhaldsmanna sem óttist allar umræður um nýja utanríkisstefnu. Ég fullyrði að það er mun frjórri hugsun í umræðum um utanríkismál og framtíðarstöðu Íslands í Heimssýn en meðal þeirra sem sjá þá leið eina fyrir Ísland að gerast aðili að Evrópusambandinu.

Með því að sjá ekki annað en aðild Íslands að ESB eru menn í raun að loka á allar umræður um beina hlutdeild Íslendinga sjálfra í mótun samfélags strandþjóðanna við N-Atlantshaf. Allar leiðir íslenskra stjórnmálamanna og embættismanna munu liggja til Brussel og þaðan koma síðan embættismenn sem tala fyrir mun Íslendinga gagnvart þeim, sem vilja ræða við gæslumenn hagsmuna Íslands, gæsla strandríkisréttarins flyst frá Reykjavík til Brussel, eins og ég lýsti í erindinu á ráðstefnu Heimssýnar.

Þetta er ótrúlega óspennandi framtíð fyrir þá, sem fara munu með stjórn íslenskra málefna.

Fimmtudagur 04. 11. 10. - 4.11.2010

Hér er unnt

að nálgast þátt minn á ÍNN sem fyrst var sýndur 3. nóvember. Þar ræði ég við Guðrúnu Pétursdóttur, formann stjórnlaganefndar. um þjóðfundinn sem verður á laugardaginn og fleira sem tengist breytingu á stjórnarskránni.


Ég leit inn í Egilshöll síðdegis og sá hið nýja og glæsilega kvikmyndahús sem Árni Samúelsson var að opna þar, þrír salir Sam-bíóa sem rúma samtals um 900 manns. Í salnum sem ég skoðaði er rýmra á milli sæta en ég hef áður séð í slíkum sal.

Ég skrifaði í dag fréttaskýringu á Evrópuvaktina um viðleitni stuðningsmanna Jóhönnu Sigurðardóttur til að hjálpa henni og ríkisstjórn hennar úr öngstrætinu. Hve alvarleg staða hennar er orðin skýrðist svo betur í dag, þegar Jóhanna hvatti stjórnarandstöðuna til að flytja vantrausttillögu á sig og ríkisstjórnina. Að forsætisráðherra hrópi þannig á stjórnarandstöðuna er í raun ákall um, að stjórnarþingmenn sýni ríkisstjórninni stuðning. Að Jóhanna þurfi á honum að halda er enn til marks um veika stöðu ríkisstjórnarinnar.

Í Kastljósi kvöldsins var rætt við Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing, um utanþingsstjórn. Hann taldi réttilega ógjörlegt fyrir Ólaf Ragnar að skipa utanþingsstjórn. Hér situr engin ríkisstjórn deginum lengur en alþingi samþykkir.Miðvikudagur 03. 11. 10. - 3.11.2010

Fyrir tveimur vikum var Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, gestur minn í ÍNN og má nú sjá þáttinn hér.

Í kvöld verður Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, gestur minn í þættinum. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að vinna úr hugmyndum sem fram koma á þjóðfundi nk. laugardag. Þar koma um 1000 manns saman og ræða um efni nýrrar stjórnarskrár samkvæmt sérhönnuðu umræðukerfi sem á að auðvelda að komast að sjónamiðum hópsins.

Markmið stjórnlaganefndar er að meginsjónarmið á þjóðfundi verði unnt að kynna strax sunnudaginn 7. nóvember. Nefndinni ber hins vegar að leggja sérgreindari hugmyndir eða tillögur fyrir stjórnlagaþing, sem kemur saman í febrúar 2011.

Áhugamenn um það ferli sem nú stendur yfir til að skapa sátt um breytingar á stjórnarskránni ættu að horfa á samtal okkar Guðrúnar. Það er sýnt fyrst klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti næsta sólarhring.

Þriðjudagur 02. 11. 10. - 2.11.2010

Í hádegi flutti Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur, erindi í þéttsetnum ráðstefnusal þjóðminjasafnsins um fornleifagröft og rannsóknir á Skriðuklaustri. Þeim lýkur á næsta ári en hafa þegar stuðlað mjög að því að upplýsa betur en nokkru sinni áður, hvernig klausturhaldi var háttað hér á landi.

Klaustrið á Skriðu var stofnað 1493, síðast 10 klaustra, sem hér voru stofnuð á tímabilinu frá 1133 til siðaskipta. Steinunn telur, að klaustrið hafi lotið stjórn móðurklausturs innan reglu Ágústina á meginlandi Evrópu. Þótt það hafi verið stofnað fyrir forgöngu Skálholtsbiskups hafi hann ekki farið með stjórn þess heldur hafi það lotið skipan eigin reglu. Þetta hafi komið fram í rannsókn séra Heimis Steinssonar á sínum tíma og fellst Steinunn á niðurstöðu hans um þetta efni.

Þetta er í samræmi við stöðu klaustra enn þann dag í dag gagnvart biskupum. Þótt þau séu öll innan biskupsdæma hafa þau eignarlegt og fjárhagslegt sjálfstæði og lúta síðan andlegri forsjá í samræmi við skipan mála innan viðkomandi klausturreglu.

Munkarnir í Skriðuklaustri voru ekki margir að mati Steinunnar, innan við 10. Þeir létu hins vegar að sér kveða gagnvart öðrum landsmönnum en sátu ekki innilokaðir við bænir og bókiðju. Steinunn sagði að þessi skoðun á samfélagslegri þátttöku munkanna stangaðist á við staðalímynd þeirra hér á landi sem mótuð hefði verið af þeim sem hefðu skrifað um klaustur á Íslandi til þessa.  Tímabært væri að breyta þeirri mynd.

Mánudagur 01. 11. 10. - 1.11.2010

Síðdegis hitti ég hóp Norðmanna sem dvelst hér á landi meðal annars til að kynnast viðhorfum til ESB-aðildar. Greinilegt er að þeir eru miklu þjálfaðri í að ræða  ESB-málefni en Íslendingar og vita betur um þá kosti sem fyrir hendi eru. Því miður verður að segja að umræður hér eru of einfeldningslegar um málið. Þetta gerist fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar og þó sérstaklega Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, sem komst að því fyrir 10 árum að Ísland ætti heima í ESB og vinnur að því öllum árum að láta þann draum sinn rætast.

Niðurstöður skoðanakönnunar í dag sýna að ESB-aðildarbröltið styrkir ríkisstjórnina ekki í sessi. Össur hefur skrifað hverja greinina eftir annað til stuðnings ESB-málstaðnum undanfarið og fékk meira að segja Evu Joly í lið með sér. Fylgi Samfylkingarinnar er minna nú en nokkru sinni í níu ár.

ESB-þráhyggja ríkisstjórnarinnar fælir örugglega einhverja frá stuðningi við hana. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að óvinsældirnar ráðist mest af því, að Jóhanna Sigurðardóttir ræður ekki við að gegna embætti forsætisráðherra. Rökstyð ég það í pistli, sem ég skrifaði í dag og má lesa hér.