22.11.2010

Mánudagur 22. 11. 10.

Ég ók upp í Reykholt í Borgarfirði á fund um hádegisbilið. Undir Hafnarfjalli var niðaþoka en hún hvarf smátt og smátt þegar ég nálgaðist Reykholt og fagur fjallahringurinn blasti að lokum við með jöklana í austri.

Fréttablaðið birti í dag forsíðufrétt um sérkennileg afskipti Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, af uppsögn á samningi af hálfu barnaverndarstofu við meðferðarheimili í kjördæmi ráðherrans. Steingrímur J. krafðist þess að meira yrði greitt til eigenda heimilisins en barnaverndarstofa vildi og hótaði henni að skrúfa fyrir frekari fjárveitingar til meðferðarheimila yrði ekki farið að vilja hans og eigendunum greiddar 30 milljónir króna.

Í þingræðu gaf Steingrímur J. til kynna að barnaverndarstofa hefði lekið einkatölvupósti hans til fjölmiðla. Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður stofunnar, sagði hana aðeins hafa farið að upplýsingalögum! Ráðherrann greip þarna til tvöfaldrar valdníðslu annars vegar við ráðstöfun á opinberu fé og hins vegar til að þagga niður í opinberum embættismanni sem fór að lögum.

Morgunblaðið
birti í dag forsíðufrétt um að tilboðsgjafar í kaup á Sjóvá hefðu dregið tilboð sitt til baka vegna þess hve Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði dregið lengi að skrifa undir sölusamninginn. Þar eru 10 milljarðar í húfi fyrir ríkissjóð. Á alþingi sagðist Steingrímur J. ekkert vita um málið. Már sagðist ekkert mega segja um það. Þá blandaði fjármálaeftirlitið sér allt í einu í málið og sagðist ekki hafa lokið skoðun þess. Hvers vegna? Hvaða máli skipti að upplýsa það, eftir að tilboðið hafði verið dregið til baka?

Þetta er óneitanlega einkennileg stjórnsýsla hjá seðlabankastjóranum og þó enn skrýtnari hjá FME sem að jafnaði upplýsir ekki um mál til meðferðar hjá sér. Hvers vegna er sagt frá máli sem er lokið af hálfu þeirra sem hlut eiga að máli en ólokið hjá FME?

Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina um fjárhagsvanda Íra og má lesa hann hér.