Dagbók: júní 2004
Miðvikudagur, 30. 06. 04
Lentum í Shanghai rétt fyrir klukkan 08.00 að kínverskum tíma, þá var klukkan 12.00 á Íslandi. Kínversk stúlka, sem kallar sig Elinor á ensku og stundar meistaranám í viðskiptafræðum í Hollandi, tók á móti okkur á flugvellinum ásamt Sigurði K. Oddssyni þjóðgarðsverði, bíl og bílstjóra. Elinor var fylgdarmaður okkar á meðan við dvöldumst í Suzhou en þangað ókum við í tæpa tvo klukkutíma frá flugvellinum.
Eftir að hafa hvílst og borðað hádegisverð fórum við í nýja ráðstefnuhöll, sem var vígð með 28. fundi heimsminjanefndar UNESCO, og hittum þar hina íslensku fulltrúana Margréti Hallgrímsdóttur, þjóðminjavörð, og Ragnheiði Þórarinsdóttur, sérfræðing í menntamálaráðuneytinu, en þær höfðu setið fundinn ásamt Sigurði frá því að hann hófst mánudaginn 27. júní. Þarna voru einnig Herdís Tómasdóttir, eiginkona Sigurðar, og Arndís og Kolbrún, dætur Margrétar.
Tilefni farar okkar var að taka þátt í afgreiðslu tillögu um að Þingvellir yrðu samþykktir á heimsminjaskrána.
Þriðjudagur 29. 06. 04
Flugum klukkan 07.45 frá Keflavík til Kaupmannahafnar og þaðan klukkan 15.15 með SAS til Shanghai í tæpa 11 klukkutíma.
Mánudagur, 28. 06. 04.
Klukkan 16.00 tók ég þátt í athöfn í Skógarhlíð við undirritun samnings um Vaktstöð siglinga og flutti þar ávarp.
Fimmtudagur, 24. 06. 04.
Borgarstjórnarfundur klukkan 14.00.
Klukkan 17.00 var ég við athöfn í Ráðherrabústaðnum í boði Davíðs Oddssonar vegna endurútgáfu á tveimur fyrstu bindum Sögu stjórnarráðsins eftir Agnar Kl. Jónsson.
Miðvikudagur, 23. 06. 04.
Ókum frá Höfn í Fljótshlíðina.
Þriðjudagur 22. 06. 04.
Fundarhöld með norrænum dómsmálaráðherrum á Höfn, farið á Skálafellsjökul og um kvöldið fylgst með leik Svía og Dana í EM í knattspyrnu.
Mánudagur, 21. 06. 04
Ókum úr Fljósthlíðinni til Hafnar í Hornafirði en um kvöldið hófst þar fundur norrænna dómsmálaráðherra.
Laugardagur, 19. 06. 04.
Fórum á háskólahátíð í Laugardalshöll, þar sem Bjarni Benedikt brautskráðist með ágætiseinkunn á meistaraprófi í kennslufræðilegri íslensku.
Veisla haldin Bjarna Benedikt til heiðurs.
Fimmtudagur, 17. 06. 04.
Fórum um klukkan 10.00 í alþingishúsið og þaðan í fylkingu út á Austurvöll, þar sem Davíð Oddsson flutti 14. þjóðhátíðarávarp sitt í þessari lotu sem forsætisráðherra.
Rut fór til Vestmannaeyja til að halda tónleika, áður en messan hófst en herra Karl Sigurbjörnsson biskup prédikaði þar.
Klukkan 14.00 sté ég í stólinn í þéttsetinni Þingvallakirkju í messu hjá séra Kristjáni Vali Ingólfssyni.
Miðvikudagur, 16. 06. 04.
Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna hittist á löngum fundi síðdegis og ræddi stefnumál í borgarstjórnarstarfinu.
Þriðjudagur, 15. 06. 07.
Fundur dómsmálaráðherra Eystrasaltsríkjanna stóð fram yfir hádegi í Kaupmannahöfn og flaug ég heim með kvöldmatarvél.
Mánudagur, 14. 06. 04.
Flaug um hádegisbil til Kaupmannahafnar á dómsmálaráðherrafund Eystrasaltsríkjanna, sem þar var haldinn.
Laugardagur 12.06. 04
Klukkan 13.00 lögðum við nokkrir 40 ára stúdentar í ferð austur að Þingvöllum til að minnast stúdentsafmælsins. Hittumst við í Menntaskólanum í Reykjavík, okkar gamla skóla, og fórum á Sal. Síðan var ekið austur að Þingvallavatni og þáðar veitingar í bústað skólasystur okkar Guðrúnar Sveinsdóttur og manns hennar Jóns Stefánssonar.
Á leiðinni í Valhöll var viðdvöl í fræðslumiðstöðinni við Hakið og þar var farið yfir sögu og náuttúrufræði Þingvalla. Fáir gengu niður Almannagjá vegna þess hve það gekk á með miklum skúrum.
Snæddur var kvöldverður í Valhöll og síðan dansað fram yfir miðnætti.
Þriðjudaginn 15. júní birtist ósanninda pistill um það í DV að fáleikar hefðu verið með okkur skólasystkinunum Hjördísi Björk Hákonardóttur og mér í ferðinni. Þetta er hin argasti uppspuni eins og ferðafélagar geta borið. Enn eitt dæmið um þá iðju DV að birta uppspuna og ósannindi, sem tengjast mér.
Miðvikudagur, 09. 06. 04.
Klukkan rúmlega níu lögðum við af stað frá dómsmálaráðuneytinu vestur í Stykkishólm, þar sem við heimsóttum Ólaf K. Ólafsson, sýslumann Snæfellinga, og samstarfsfólk hans og kynntum okkur aðstæður þess og lögreglunnar.
Sýslumenn frá Búðardal, Borgarnesi og Akranesi komu til Stykkishólms og að loknum sameiginlegum hádegisverði ritaði ég undir árangursstjórnunarsamninga við þá og sýslumann Snæfellinga.
Við ókum síðan með Ólafi sýslumanni til Grundarfjarðar og skoðuðum lögreglustöðina þar.
Þá héldum við að Kvíabryggju og kynntum okkur aðstæður í opna fangelsinu þar og þágum við hinir eldri góðar veitingar á meðan þeir yngri í hópnum léku fótbolta við vistmenn. Okkur var sagt, að skömmu áður hefðu eftirlitsmenn á vegum Evrópuráðsins verið á staðnum til að kynna sér aðstæður og hefðu haft á orði, að þeir vissu ekki um neitt fangelsi annað en Kvíabryggju með níu holu golfvöll.
Loks var ekið til Ólafsvíkur, þar sem opnuð var ný lögreglustöð við hátíðlega athöfn með þátttöku Kristins Jónassonar bæjarstjóra.
Á heimleiðinni sýndu Kristinn og Björg Ágústsstjóri, bæjarstjóri á Grundarfirði, okkur nýjan framhaldsskóla, sem Loftorka í Borgarnesi er að reisa fyrir Snæfellinga.
Veður var hið fegursta allan daginn í þessari ánægjulegu og fróðlegu ferð en klukkan var um 19.00 þegar komið var aftur að dómsmálaráðuneytinu.
Þriðjudagur 08. 06. 04
Ríkisstjórnin kom saman til fundar á venjulegum tíma klukkan 09.30. Var þetta fyrsti fundur hennar, eftir að Ólafur Ragnar hafði tilkynnt synjuna á fjölmiðlalögunum. Lagt var á ráðin um að þing kæmi saman 5. júlí og atkvæðagreiðagreiðslan færi fram fyrsta eða annan sunnudag í ágúst. Jafnframt var ákveðið hvaða fjórir lögfræðingar ættu að sitja í nefnd, sem semdi tillögur að lagafrumvarpi um atkvæðagreiðsluna.
Um kvöldið fórum við Rut í Iðnó, þar sem Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, efndi til útgáfuteitis í tilefni af því, að hann var að gefa út hljómdisk með eigin píanóleik.
Mánudagur 07. 06. 04.
Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman í Valhöll klukkan 14.00 en ekki var unnt að funda í alþingishúsinu, þar sem verið er að endurgera húsið. Rætt var um stöðuna, sem hefur skapast eftir að Ólafur Ragnar hefur synjað fjölmiðlalögunum. Ríkti mikill einhugur á fundinum um málsmeðferð og varðandi stuðning við Davíð Oddsson og afstöðu hans.
Laugardagur, 05. 06. 04.
Klukkan 09.30 var aðalfundur Aflsins, félags qi gong iðkenda á Íslandi, í kaffihúsinu grasagarðinum í Laugardal. Vorum við endurkjörin, sem höfum setið í stjórn frá stofnfundi félagsins, sem haldinn var á sama stað árið 2002. Félagsmönnum hefur fjölgað síðan og vandi okkar í stjórn er helst sá að finna nógu stórt hús til æfinga.
Miðvikudagur, 02. 06. 04
Klukkan 14.00 efndi Þingvallanefnd til blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu og kynnti nýja stefnu fyrir þjóðgarðinn til ársins 2024.
Klukkan 16.15 efndi Ólafur Ragnar Grímsson til blaðamannafundar á Bessastöðum og skýrði frá því, að hann ætlaði að synja fjölmiðlalögunum svonefndu.