30.6.2004 0:00

Miðvikudagur, 30. 06. 04

Lentum í Shanghai rétt fyrir klukkan 08.00 að kínverskum tíma, þá var klukkan 12.00 á Íslandi. Kínversk stúlka, sem kallar sig Elinor á ensku og stundar meistaranám í viðskiptafræðum í Hollandi, tók á móti okkur á flugvellinum ásamt Sigurði K. Oddssyni þjóðgarðsverði, bíl og bílstjóra. Elinor var fylgdarmaður okkar á meðan við dvöldumst í Suzhou en þangað ókum við í tæpa tvo klukkutíma frá flugvellinum.

Eftir að hafa hvílst og borðað hádegisverð fórum við í nýja ráðstefnuhöll, sem var vígð með 28. fundi heimsminjanefndar UNESCO, og hittum þar hina íslensku fulltrúana Margréti Hallgrímsdóttur, þjóðminjavörð, og Ragnheiði Þórarinsdóttur, sérfræðing í menntamálaráðuneytinu, en þær höfðu setið fundinn ásamt Sigurði frá því að hann hófst mánudaginn 27. júní. Þarna voru einnig Herdís Tómasdóttir, eiginkona Sigurðar, og Arndís og Kolbrún, dætur Margrétar.

Tilefni farar okkar var að taka þátt í afgreiðslu tillögu um að Þingvellir yrðu samþykktir á heimsminjaskrána.