Dagbók: júní 2015
Þriðjudagur 30. 06. 15
Nú hefur komið í ljós að unnt er að ljúka þingstörfum án þess að starfsáætlun þingsins sé í gildi. Um tíma fluttu þingmenn ræður og örvæntu um framtíðin af því að þá vantaði starfsáætlun! Af þeim kvörtunum og ummælum þingfréttaritara ríkisútvarpsins mátti ráða allt væri í hers höndum vegna þess að starfsáætlun alþingis hefði runnið sitt skeið. Myndin sem dregin er upp af alþingi með þessu tali er hvorki stofnuninni né þingmönnum til framdráttar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði í þingræðu mánudaginn 22. júní:
„Sú krafa er eðlileg sem hér er uppi að við fáum starfsáætlun fyrir sumarþing. Það er eðlilegt að við fáum að vita hvenær ætlunin er að svara undirbúnum fyrirspurnum, eða þurfum við að fara að spyrja þeirra í óundirbúnum fyrirspurnum? Verða sérstakar umræður? Það sér hver maður að enginn bragur er á þinghaldinu eins og það hefur verið undanfarnar þrjár vikur. Því fyrr sem við fáum einhverja framtíðarsýn í þeim efnum þeim mun betra, þeim mun betra fyrir Alþingi.“
Birgitta Jónsdóttir, kapteinn pírata, sagði:
„Það er ljóst að erfiðlega gengur að koma saman einhvers konar samkomulagi um þinglok, því tel ég að það sé nauðsynlegt að við fáum starfsáætlun. Það er líka ljóst að forseti virðist vera í einhverjum erfiðleikum með að koma starfsáætlun til okkar og ég býðst hreinlega til þess með þingmönnum minni hlutans að koma fram með einhvers konar starfsáætlun ef það reynist svona erfitt fyrir forseta að gera það.[…] Það gengur ekki að við séum hér í óvissuferð, eins og einhver nefndi áðan, viðstöðulaust. Það er mjög vond stjórnsýsla. […] Ég skora á forseta að koma með starfsáætlun.“
Birgitta Jónsdóttir flutti ræðu á alþingi í dag, þriðjudaginn 30. júní, og hvatti til stuðnings við málstað Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, af því að ESB hefði hvatt Grikki til að fara gegn honum en„sömu aðilar og studdu okkur Íslendinga, þegar við vorum að berjast í bökkum og vorum í áfalli í því mikla hruni sem gekk yfir okkur, hafa lýst yfir stuðningi við grísku þjóðina, aðilar eins og Stieglitz og Krüger og margir fleiri,“ sagði þingmaðurinn „Krüger“ er líklega Paul Krugman Nóbelsverðlaunahafi. Hún dró í efa að Grikkir væru „latir og skattsvindlarar“.
Mánudagur 29. 06. 15
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði á blaðamannafundi í Brussel að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefði blekkt sig og þar með boðað þjóðaratkvæðagreiðslu um afarkosti þríeykisins í óþökk sinni. Hann hvatti Grikki til að samþykkja tilboð þríeykisins í atkvæðagreiðslunni 5. júlí sem jafngildir ósk um að Grikkir hreki Tsipras frá völdum. Haldi Tsipras velli grær ekki auðveldlega um heilt milli hans og Brusselmanna.
Árum saman hafa ESB-aðildarsinnar hér á landi talið sér trú um að endalausar viðræður við ESB muni að lokum brúa óbrúanlegt bil milli fulltrúa ESB og Íslands – það þurfi aðeins að tala meira saman til að leysa eitthvað sem er óleysanlegt nema farið sé að vilja Brusselmanna. Þetta er hið sama og Grikkir héldu þar til þeim var nóg boðið og Alexis Tsipras ákvað að leggja málið í dóm kjósenda.
Þegar allt er komið í óefni milli ríkisstjórnar Grikklands og Brusselmanna og svikabrigslin ganga á víxl segir Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, á eyjan.is:
„Málið er því í erfiðum hnút. Eina mögulega leiðin virðist vera sú að halda áfram viðræðum, finna millileiðir til skemmri tíma og vinna svo að langtímalausnum í betra ráðrúmi. Minna má á að unnið var úr skuldavanda Íra með slíkum hætti; á endanum var búinn til skuldbreytinga- og afskriftapakki sem gerði að verkum að ríkissjóður Írlands getur nú fjármagnað sig sjálfur á skuldabréfamörkuðum á góðum kjörum.
Að hætta viðræðum og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta margbrotna mál með viku fyrirvara, eins og Tsipras forsætisráðherra gerði, gagnast grískum almenningi lítt, að mínu mati. Nær væri að álykta að þar sé Tsipras að leika sér að eldinum.“
Vilhjálmur heldur með Brusselmönnum gegn grísku ríkisstjórninni. Sama viðhorf til gagnsemi viðræðna við ESB réð hjá samfylkingarforystunni fram í janúar 2013 þegar Össur Skarphéðinsson utanríkis- og umsóknarráðherra gerði hlé á viðræðunum án þess að leita samþykkis alþingi. Að ímynda sér að setja megi Íra og Grikki í sömu skúffu sýnir hefðbundið óraunsæi forystumanna Samfylkingarinnar þegar ESB á í hlut. Afstaðan er með ESB en ekki viðkomandi ríkjum – á það ekki líka við um Ísland?
Sunnudagur 28. 06. 15
Á mbl.is má lesa að í morgun hafi Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, svarað spurningum í útvarpsþætti sem heitir Á Sprengisandi. Í fréttinni segir:
„Hann [Árni Páll] sagði að í huga fólks væri Samfylkingin einn af fjórflokkunum, sem hún væri þó alls ekki. Flokkurinn hefði verið stofnaður á sínum tíma til höfuðs fjórflokkunum.
Hann viðurkenndi að hann, og flokkurinn, hefði ekki gert nóg til að „rjúfa þá ímynd í huga fólks að við séum kerfisflokkur“.
Hann nefndi að fylgistap flokksins á umliðnum árum væri áfellisdómur. Þróunin hefði hafist með stofnun Bjartrar framtíðar og haldið síðan áfram. Þegar Björt framtíð fór að tapa fylgi, þá hefði það ekki farið yfir til Samfylkingarinnar, heldur horfði fólk nú til Pírata.
„Og þetta er áfellisdómur yfir Samfylkingunni sem hún verður að bregðast við,“ sagði hann. Flokkurinn þyrfti að „hætta að tala sem gamaldags flokkur og hætta að vinna sem gamaldags flokkur“.
Hann sagði að fólk hefði engan áhuga á því að „hlusta á ræður okkar um eigin ágæti“ eða lesa yfirlýsingar um „hvað við séum æðisleg. Fólk vill samtal og geta haft áhrif á það hvert við séum að stefna, hafa áhrif á einstök stefnumál, og við sem flokkur þurfum að bregðast við því“, sagði hann.
Fólk væri orðið þreytt á hinum „hefðbundnu“ flokkum. Þeim flokkum gengi illa, en það væri sérstakt vandamál ef Samfylkingin væri í þeim hópi. „Hún á ekki að vera í flokki með gömlu kerfisflokkunum.“ Samfylkingin væri umbótahreyfing.“
Þarna er viðurkennt að Árna Páli og öðrum sem leitt hafa Samfylkinguna frá 2000 til 2015 hafi mistekist. Það er beinlínis rangt að draga aðra flokka inn í þessa mynd með talinu um „fjórflokkinn“ – enginn kýs þann flokk enda engir frambjóðendur í boði.
Orðræða Árna Páls ber sama einkenni og ræðurnar sem oftast eru fluttar á þingi, þær snúast ekki um neitt efni heldur um umræðuna sjálfa. Flokkur í þeirri kreppu sem Árni Páll lýsir hér að ofan kemst ekki úr henni með því að tala um sjálfan sig heldur með því að móta stefnu og markmið. Hver eru þau hjá Samfylkingunni eftir að ESB-málið er úr sögunni?
Laugardagur 27. 06. 15
Umræður um skýrslu Rögnunefndarinnar og flugvöll í Hvassahrauni bera með sér að aldrei verði ráðist í að leggja nýjan flugvöll á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Eðlilegast er að líta á niðurstöðu nefndarinnar sem hugmynd um að láti menn eins og hvorki Reykjavíkurflugvöllur né Keflavíkurflugvöllur séu starfræktir og ekki sé unnt að stunda flugrekstur frá Miðnesheiði eða Vatnsmýri sé Hvassahraun besti kosturinn.
Það undirstrikar að hér sé í raun aðeins um akademíska æfingu að ræða að athyglin beinist að aukaatriðum eins og tímamælingu á ferð sjúkrabíls frá hugsanlegu flugvallarstæði til Landspítalans – að mæla umferðarhraða við aðstæður án flugvallarins og allra mannvirkja í tengslum við hann er að sjálfsögðu markleysa.
Eins og við var að búast hafa forráðamenn ESB og fjármálaráðherrar evru-ríkjanna brugðist illa við tillögu Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, um að bera undir grísku þjóðina hvort hún sætti sig við skilyrði þríeykisins, ESB, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fyrir frekari lánafyrirgreiðslu.
Fjármálaráðherrar evru-ríkjanna höfnuðu ósk Tsipras um greiðslufrest í eina viku eða fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsludaginn 5. júlí – fresturinn rennur út að kvöldi þriðjudags 30. júní. Fari fram sem horfir lýkur þá samstarfi þríeykisins við Grikki, þeim ber að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1,6 milljarða evru afborgun eða allt lán sjóðsins gjaldfellur.
Yannis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, sagði eftir að óskinni um framlengingu hafði verið neitað að með því hefði evru-samstarfið orðið fyrir varanlegu tjóni.
Enn er of snemmt að segja hver verða endalok þessarar evru-rimmu. Tregðan við að leiða hana til lykta á afgerandi hátt hefur verið svo mikil að ekki er unnt að útiloka enn eina ákvörðunina um að halda áfram á gráa svæðinu, þar líður ESB-forystunni best.
Föstudagur 26. 06. 15
Þrjú hryðjuverk voru framin í dag í Lyon í Frakklandi, í Kúvæt og Túnis. Var þetta skipulögð aðgerð eða tilviljun? Hafi verið um samræmda aðgerð að ræða sýnir hún að íslamskir hryðjuvekamenn hafa stigið enn eitt ógnarskrefið, samræmt í þremur heimsálfum.
Leiðtogaráð ESB ræddi um skuldamál ESB í dag en þó með því fororði að ákvörðunin væri í höndum lánardrottna, ESB, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Alexis Tsipras forsætisráðherra sagði stjórn sína ekki geta samþykkt skilyrði lánardrottnanna, þau væru of þrúgandi. Fjármálaráðherrar evru-ríkjanna koma saman síðdegis laugardaginn 27. júní og leita enn sameiginlegrar niðurstöðu með Grikkjum.
Á sama tíma og Tsipras lýsti óánægju sinni sagði Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, að ekki ætti endilega að reikna með að evru-ráðherrafundinum lyki án samkomulags laugardaginn 27. júní. Kom á óvart að gríski fjármálaráðherrann væri bjartsýnni um samkomnulag en forsætisráðherrann
Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði að hún og François Hollande Frakklandsforseti hefðu hvatt Alexis Tsipras að samþykkja „höfðinglegt boð“ lánardrottnanna þriggja. Gríski forsætisráðherrann sagðist fús til að breyta lögum um virðisaukaskatt (hann er sex-þrepa í Grikklandi) og eftirlaunarétt en hann gæti ekki gert það fyrir 1. júlí eins og lánardrottnarnir krefðust. Auk þess sættu Grikkir sig ekki við að aðeins væri um fimm mánaða gálgafrest að ræða.
Í kvöld tilkynnti síðan Alexis Tsipras að hann ætlaði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi sunnudaginn 5. júlí um það sem í boði væri.
Augljóst er að leiðtogar ESB-ríkjanna vilja ekki láta brjóta á sér gagnvart Grikkjum enda kölluðu þeir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til liðs við sig til að Grikkir yrðu að lúta agareglum sjóðsins án beinnar íhlutunar stjórnmálamanna annarra ríkja sem stæðu hins vegar vörð um hag þjóða sinna.
Svo oft hefur verið sagt undanfarna mánuði að um „síðasta tækifæri“ fyrir Grikki væri að ræða án þess að það reyndist rétt að almennt hefur verið álitið að áfram yrði svamlað án þess að taka af skarið. Nú hefur Alekis Tsipras dregið nýja víglínu með ákvörðuninni um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þegar George Papandreou, forveri Tsipras, viðraði hugmynd um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir nokkrum árum sáu valdamenn innan ESB um að koma honum frá völdum.
Fimmtudagur 25. 06. 15
Nú má sjá samtal mitt á ÍNN við Sigríði Snæbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra Klínikinnar ehf., sjá hér. .
Árum saman hefur því verið haldið fram að þáverandi stjórnvöld hafi sýnt alvarlegt andvaraleysi með því að sjá ekki hrun bankanna fyrir og þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde var sakfelldur af meirihluta landsdóms fyrir að bóka ekki umræðu um yfirvofandi hrun bankanna á fundi ríkisstjórnarinnar eða setja málið á formlega dagskrá ríkisstjórnarinnar. Í dag féll sýknudómur í Héraðsdómi Reykjavíkur og hófst frétt um hann á þennan veg í ríkisútvarpinu:
„Héraðsdómur Reykjavíkur hafnar því að fyrrverandi stjórnendur SPRON hafi mátt sjá hrunið fyrir, þegar þeir samþykktu að lána eignarhaldsfélaginu Exista tvo milljarða króna, sex dögum áður en neyðarlögin voru sett árið 2008.“
Ber að skilja þennan dóm á þann veg að stjórnmálamenn hafi átt að hafa betri sýn á stöðu banka en bankamennirnir sjálfir?
Rögnunefndin svonefnda skilaði áliti um besta flugvallarkost í stað Reykjavíkurflugvallar. Þessi kostur er talinn í Hvassahrauni. Af því tilefni er leitað til Ómars Ragnarssonar, fyrrv. fréttamanns og þrautþjálfaðs flugmanns. Ómar sagði að hugmyndir hefðu verið um flugvöll á þessum slóðum fyrir 55 árum. Nálægð svæðisins við fjöll fyrir austan Reykjavík ylli miklu meiri ókyrrð þar en í Vatnsmýrinni. Ómar segir:
„Niðurstaðan var því sú að það yrði hið mesta óráð að hafa flugvöll svona nálægt fjallgarðinum. Hefur Reykjanesfjallgarðurinn fjarlægst og lækkað síðustu 55 árin og hefur vindurinn minnkað?“
Hann telur að rannsaka verði kosti hins nýja vallarsvæðis betur með því að grípa til sama ráðs og gert var fyrir 55 árum að fljúga að og frá báðum vallarstæðunum í algengustu hvassviðrisáttinni á sama tíma. Þessar tilraunir eyddu umræðum um flugvöll í Hvassahrauni á þessum tíma og aftur í upphafi 21. aldarinnar. Erum við komin á núllpunkt?
Friðrik Pálsson, formaður Hjartans í Vatnsmýrinni, sem vill að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað segir að sér sé létt eftir útgáfu skýrslu Rögnunefndarinnar. Öllum markmiðum samtakanna sé náð þar sem vera Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri sé tryggð þar til aðrir kostir hafi verið kannaðir til hlítar.
Miðvikudagur 24. 06. 15
Í dag ræddi ég á ÍNN við Sigríði Snæbjarnardóttur, hjúkrunarfræðing og framkvæmdastjóra fyrirtækisins Klínikin ehf., sem verður opnað innan skamms við Ármúlann í Reykjavík, þar sem skemmtistaðurinn Broadway var áður til húsa. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld og síðan má sjá hann á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun. Á tímaflakki Símans má sjá fundinn hvenær sem er eftir klukkan 20.00.
Fréttir bárust um það fyrir tilstuðlan WikiLeaks þriðjudaginn 23. júní að NSA, Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, hefði hlerað síma þriggja forseta Frakklands: Jacques Chiracs, Nicolas Sarkozys og François Hollandes. Franska ríkisstjórnin mótmælti nú í þriðja sinn við sendiherra Bandaríkjanna að þessi leynistarfsemi væri stunduð. Það var fyrst gert í júlí 2013 og síðan í október 2013 eftir að fréttir bárust um hlerun á símum 35 háttsettra evrópskra embættismanna. Þá kallaði Alexandre Ziegler, aðalráðgjafi Laurents Fabius utanríkisráðherra, á Charles Rivkin, sendiherra Bandaríkjanna, til fundar í utanríkisráðuneytinu á Quai d'Orsay og flutti honum mótmæli stjórnvalda. „Ég heyri hvað þú segir,“ sagði sendiherrann. „Það er einmitt vandamálið,“ svaraði aðalráðgjafinn ef marka má Le Monde.
Í morgun sagði Guðjón Smári Agnarsson ríkisstarfsmaður í grein í Morgunblaðinu:
„Svo munu forsvarsmenn lækna hafa fengið almannatengslafyrirtæki til þess að mata fjölmiðla á vandræðum sjúklinga í skæruverkföllunum sem fóru á undan boðuðu allsherjarverkfalli lækna. Mér sýndist fjölmiðlarnir spila með, a.m.k. ríkisútvarp vinstrimanna (RÚV). Hvort fréttamennirnir létu almannatenglana plata sig eða hvort þeir vildu sjálfir koma höggi á yfirvöld heilbrigðismála og jafnvel alla ríkisstjórnina er erfitt að meta.“
Þessa skýringu á skammstöfuninni RÚV hef ég aldrei séð áður. Ætli það sé algengt að menn skýri hana á þennan hátt? Aldrei hefur fengið viðhlítandi svar við spurningum um hvers vegna útvarpsmenn hættu að tala um ríkisútvarpið og tóku um RÚV í staðinn. Er svarið nú komið?
Þriðjudagur 23. 06. 15
Látinn er í Frakklandi 87 ára að aldri Jacques Mer sem var sendiherra Frakka á Íslandi árin 1988 til 1992. Hann hafði mikinn áhuga á íslenskum málefnum, ekki síst stjórnmálum og efnahagsmálum. Skrifaði hann mikið um þau meðal annars ritið Portrait de l‘Islande. Að loknu starfi sínu í frönsku utanríkisþjónustunni hóf hann útgáfu á Fréttum frá Íslandi á frönsku, fjölfaldaði þær reglulega og sendi þeim sem hann vildi fræða um íslensk málefni. Eftir að heilsu hans hrakaði hvatti hann Michel Sallé til að taka við keflinu af sér og heldur hann Cronique islandaise úti á netinu og sendir mánaðarlega ítarleg fréttabréf um það sem gerist hér á landi.
Ég kynntist Jacques Mer þegar hann var hér sendiherra og hitti hann nokkrum sinnum í París eftir það. Ávallt kom ég fróðari og margsvísari af hans fundi ekki síður um íslensk málefni en annað því að hann greindi atburði hér af mikilli skarpskyggni og setti í annað samhengi en aðrir. Blessuð sé minning þessa góða Íslandsvinar.
Hér velti ég fyrir mér á mánudag hvernig stæði á misræmi í frásögn af eignarhaldi á Vísindagörðum Háskóla Íslands ehf. eftir því hvort lesið er um það á vefsíðu Háskóla Íslands eða Reykjavíkurborgar. Í Morgunblaðinu í morgun birtist frétt um að Reykjavíkurborg hefði eignast nokkur prósent í hlutafélaginu um síðustu áramót. Það er því rangt á vefsíðu HÍ að félagið sé 100% í eigu háskólans.
Einkennilegt er að í fréttum um að CCP tölvuleikjafyrirtækið sé að flytja á land HÍ sem ráðstafað hefur verið til vísindagarðanna skuli ekki getið um hvaða fasteignafélag fékk umrædda lóð. Augljóst er að CCP verður leigutaki þarna með fleirum í væntanlegu stórhýsi.
Að morgni mánudags 22. júní var Birna Þórðardóttir, gömul íslensk andófskona, með tónlistarþátt á rás 1. Henni brást ekki bogalistin heldur flutti stuttan inngang um Salvador Allende, forseta Síle, sem féll eigin hendi 11. september 1973 þegar uppreisn var gerð gegn honum. Birna gaf til kynna að hann hefði verið myrtur að undirlagi Bandaríkjamanna – hann gerðist sekur um að tryggja að börn fengju mjólk, fyrir það hlaut hann að deyja sagði Birna í þessum tónlistarþætti. Hvorki hún né rás 1 brugðust hlustendum sínum.
Mánudagur 22. 06. 15
Tiltölulega skammt er síðan svonefnd starfsáætlun kom til sögunnar á alþingi. Þeir sem fylgjast með umræðum á þingi nú eða fréttum af þingstörfum gætu ætlað að án slíkrar áætlunar væri alþingi óstarfhæft. Frétt á mbl.is í dag hefst á þessum orðum:
„Þingmenn stjórnarandstöðunnar stigu hver á fætur öðrum í pontu í upphafi þingfundar á Alþingi í dag og kölluðu eftir því að lögð yrði fram starfsáætlun fyrir sumarþingið. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði að þingið hefði verið í „óvissuferð“ í þrjár vikur.“
Þessar ræður stjórnarandstæðinga sanna enn einu sinni að þeim er ókleift að takast á við málefnin sem fyrir alþingi liggja og vilja helst ekki ræða um annað en almanakið. Að þingsköp leyfi innantómt raus af þessu tagi dögum saman ber í besta falli vott um rúma lögskýringu.
Fyrir rúmum tveimur áratugum sat ég á Evrópuráðsþinginu og stjórnaði þar fundum oftar en einu sinni. Þar var aginn meiri en á alþingi og þingmenn virtu úrskurð forseta sem slökkti einfaldlega á hljóðnemanum væri ekki farið að fyrirmælum hans. Hér hefur þróunin orðið á allt annan veg og forseti alþingis líður að hundruð eða þúsundir ræða séu fluttar um fundarstjórn hans þótt ræðurnar snúist í raun um allt annað.
Virðing þingsins ber oft á góma í þessum umræðum sem sannar best að þar kveða menn gjarnan öfugmælavísur. Umræður um almanakið og að tíminn líði eru síst til þess fallnar að auka virðingu alþingis. Stjórnarandstöðuflokkarnir sem ráða yfir fleiri en þremur þingmönnum til að taka þátt í þessari misnotkun á málfrelsinu tapa fylgi í skoðanakönnunum.
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, hefur til dæmis leitt flokk sinn þannig á þingi að hann fengi nú ekki neinn kjörinn yrði gengið til kosninga – samt heldur Róbert áfram að tala um almanakið.
Sunnudagur 21. 06. 15
Fimmtudaginn 18. júní var skrifað undir samkomulag um að hátæknifyrirtækið CCP sem gerir tölvuleiki fái aðstöðu í húsi sem rís á landi Háskóla Íslands sem ætlað er undir svonefnda vísindagarða. Á vefsíðu Háskóla Íslands segir:
„Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf. er félag í 100% eigu Háskólans. Félagið var stofnað til að efla samstarf fyrirtækja, rannsóknastofnana og háskóla um nýsköpun og skapa aðstöðu fyrir frumkvöðla. Félagið hyggst reisa miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar á lóð sem það hefur til umráða.“
Á vefsíðu Reykjavíkurborgar segir í tilefni af þessum atburði segir:
„Vísindagarðar Háskóla Íslands er félag sem er að stærstum hluta í eigu háskólans en einnig Reykjavíkurborgar.“
Hvort er rétt? Hver er hlutur Reykjavíkurborgar í hlutafélaginu um vísindagarða?
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fjallaði um gerð þessa samkomulags í vikulegu bréfi sínu á netinu. Mátti skilja frásögn hans á þann veg að hér væri um verk borgarstjórans að ræða. Dagur B. segir að við undirritunina hafi Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, rifjað upp að líklega væru10 ár síðan Dagur hefði fyrst stungið upp á að CCP flytti sig í návígi við Háskóla Íslands. „Það er hins vegar aðeins hált ár síðan ég hitti forsvarsmenn fyrirtækisins vegna áforma þeirra um að flytja og auka nýsköpunartengsl fyrirtækisins,“ segir borgarstjóri og einnig: „Það er frábært að þessir mikilvægu samningar séu nú í höfn því það er alls ekki sjálfsagt að við höldum í fyrirtæki af þessu tagi.“
Hér skal því ekki haldið fram að borgarstjóri skreyti sig með fjöðrum annarra. Hitt er ljóst að hlutur Reykjavíkurborgar er á gráu svæði. Skipulagslega mun byggingin sem kemur til með að hýsa CCP ná yfir svæði sem nú er skipulagt sem tvær lóðir. Borgaryfirvöld þurfa því að samþykkja skipulagsbreytingu áður en framkvæmdir hefjast.
Frásögn Dags B. má skilja á þann veg að framtíð CCP hér landi ráðist af húsnæðismálum. Undanfarin ár hefur forstjóri CCP þó sagt að aðild að ESB og upptaka evru skipti sköpum fyrir framtíð CCP á Íslandi. Fagna ber að þetta hefur breyst.
Laugardagur 20. 06. 15
Ástæðan fyrir að efnt er til athafnar við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli 17. júní ár hvert er að á sínum tíma var ákveðið að fæðingardagur hans skyldi verða stofndagur lýðveldisins Íslands og þjóðhátíðardagur Íslendinga. Athöfnin ber yfirbragð hins tvíþætta hlutverks, minnst er Jóns Sigurðssonar og lýðveldisins.
Að fámennum, háværum hópi hafi í ár tekist að varpa skugga á þessa athöfn er fyrst og síðast dapurlegur vitnisburður um skeytingarleysi mótmælenda í garð þess samfélags sem gerir þeim kleift að haga sér á þennan forkastanlega hátt. Nokkra undrun hefur vakið að lögregla skuli ekki hafa skipað þeim sem komu til athafnarinnar til að setja hana úr skorðum að halda sig á einum stað á vellinum þar sem minnst truflun yrði fyrir þá sem sóttu athöfnina til að fylgjast með dagskrá hennar. Langlundargeð hins almenna borgara gagnvart þeim sem skemma og spilla er ekki takmarkalaust.
Við hlið leiðara Fréttablaðsins birtist ritstjórnardálkur sem hér er oft nefndur húskarlahornið vegna skrifa sem þar til að þóknast eigendum blaðsins. Hinn 17. júní ritar Kolbeinn Proppé blaðamaður í hornið og segir meðal annars:
„Nonni Sig á afmæli í dag og gengur líklega nakinn í vínrauðum slopp um íbúð sína í handanheimum. Íslendingar eru svo stoltir af Jóni að við höfum gert afmælisdaginn hans að okkar þjóðhátíðardegi. Það er ekki að ástæðulausu að afmælisdagur Jóns varð fyrir valinu. Hann er holdgervingur sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, þegar Íslendingar stóðu keikir gegn oki erlends yfirvalds og brutust til síns réttborna sjálfstæðis. Eða þannig vill þjóðernissinnaða söguskoðunin hafa það. Og vissulega barðist Jón fyrir auknum réttindum Íslendingum til handa, þótt hann hafi verið meira í reikninga- og fjármálum en að berjast fyrir aðskilnaði við Dani. Jón var afskaplega leiðinlegur penni, en tvö frægustu orð sem hann lét út úr sér voru „Ég mótmæli,“ en sjaldan fylgir sögunni að næstu orð í setningunni voru „…í nafni konungs…““
Virðingarleysið sem birtist í þessum texta er í ætt við gauraganginn í mótmælendunum á Austurvelli. Hvers á Jón Sigurðsson að gjalda? má spyrja. Fullyrðingagleði eins og að Jón hafi verið „afskaplega leiðinlegur penni“ er í anda hinnar rakalausu óvildar sem oft birtist í þessu horni og er höfundi sínum til lítils sóma.
Föstudagur 19. 06. 15
Þess er minnst á verðugan hátt í dag að 100 ár eru liðin síðan konur fengu kosningarétt á Íslandi. Er það þjóðlífinu til blessunar hér eins og hvarvetna þar sem konur njóta sambærilegs réttar og karlar.
Lýsing á stefnu BHM gegn ríkinu vegna laga um verkfall á félagsmenn BHM ber með sér að Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrv. framkvæmdastjóri og þingmaður Samfylkingarinnar, vilji leggja pólitískan ágreining undir dómara. Dómarar hafa ekkert lýðræðislegt umboð til að taka pólitískar ákvarðanir. Þeim ber að virða þrískiptingu valdsins. Stefnan staðfestir enn pólitískt eðli aðgerða forystumanna BHM. Þeir nota verkfallsvopnið til að lemja á ríkisstjórn sem þeir styðja ekki.
Undarlegt er að félagsmenn líði forystumönnum sínum þessar pólitísku æfingar mótmælalaust. Röksemdirnar snúast um að gera lítið úr þjóðfélagslegu mikilvægi starfa BHM-félaga.
Í gær hringdi Kristófer einn stjórnanda þáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í mig með ósk um að ég ræddi við hann spurningu hans um hvort nýtt kalt stríð væri hafið og hvaða áhrif það hefði á öryggi Íslands. Ég varð við ósk Kristófers og hér má hlusta á samtal okkar.
Á vefsíðunni visir.is hafa þrír brugðist neikvætt við því sem ég sagði. Einn þeirra þorir ekki að segja rétt til nafns og læt ég orð hans liggja á milli hluta. Hafi menn ekki hugrekki til að koma fram undir réttu nafni í umræðum í netheimum eru þeir ekki svara verðir.
Maður að nafni Hilmar Thor. segir vegna orða minna: „Varðberg viðheldur Rússagrýlunni.“ Hilmar er sagður búa í Múrmansk í Rússlandi og nefnir Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, til sögunnar vegna þess að í Bylgjunni var ég kynntur sem formaður félagsins. Varðberg hefur í meira en hálfa öld sinnt öryggis- og utanríkismálum.
Um nokkurt skeið hef ég leitast við að birta daglega á vefsíðunni vardberg.is fréttir um öryggis- og utanríkismál. Af nógu er að taka í Evrópu einni.
Það eru dæmigerð viðbrögð frá Rússlandi að halda því fram að frásagnir af þessum málum séu liður í því að viðhalda Rússagrýlunni. Ummælin endurspegla andrúmsloft sem alið er á um þessar mundir á vegum Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og hans manna. Því er haldið að almennum borgurum að Rússland sé umlukið óvinum sem vilji ógna öryggi þeirra og niðurlægja þjóðina.
Fimmtudagur 18. 06. 15
Þegar þetta er skrifað hafa um 60% atkvæða verið talin í dönsku þingkosningunum og er því spáð að bláablokkin, hægrimenn, fái 92 þingmann og rauðablokkin, vinstrimenn, 83 þingmenn. Það verði því stjórnarskipti í Danmörku.
Hinn einstæði atburður gerðist að DF, Danska þjóðarflokknum, er spáð meira fylgi en Venstre, hinum gamalgróna forystuflokki bláublokkarinnar.
Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre, hefur verið forsætisráðherra og var forsætisráðherraefni bláublokkarinnar. Innan hennar hafa DF-menn látið sér lynda að tryggja samstarflokkunum stuðning á þingi án þess að eiga ráðherra í ríkisstjórn. Hvað gerist nú verði þingflokkur DF stærri en Venstre? Spáð er að DF fái 38 þingmenn en Venstre 35? Er frambærilegt að halda DF utan ríkisstjórnar? Flokkurinn vinnur að líkindum 16 þingsæti en Venstre tapar 15.
Fyrir nokkrum mánuðum barðist Lars Løkke Rasmussen fyrir lífi sínu sem formaður Venstre eftir að fréttir birtust sem voru á þann veg að efast mátti um dómgreind hans þegar skýrt var frá meðferð hans á opinberum eða hálfopinberir fjármunum. Rasmussen hélt formannssætinu en ekki er vafi á að flokkur hans tapar atkvæðum á framgöngu hans. Að hann sitji áfram stangast á við allar fullyrðingar íslenskra álitsgjafa um að í útlöndum víki stjórnmálamenn frekar sæti vegna ámælisverðra atvika en gerist hér á landi. Líklegt er að ekki líði á löngu þar til hann dregur sig í hlé.
Stóra spurningin er: Hver verður næsti forsætisráðherra Dana?
Fyrir þann sem fylgst hefur með talningu atkvæða og kynningu á úrslitum í ríkisútvarpinu hér á landi er eftirtektarvert að í Danmörku eru fréttamenn ekki að burðast með neina álitsgjafa úr háskólum heldur er lögð áhersla á að ræða við stjórnmálamennina sjálfa auk þess sem tveir þrautþjálfaðir fréttamenn halda utan um útsendinguna af miklu öryggi og þekkingu á mönnum og málefnum.
Þess verður ekki heldur vart að í Danmörku leggi fréttamenn DR áherslu á að bera úrslitin saman við niðurstöður skoðanakannanna sem hvílir þungt á íslenskum fréttamönnum – þeir mættu læra af starfsbræðrum sínum hjá DR.
Miðvikudagur 17. 06. 15
Hvað vildi þetta hávaðasama fólk yfirgnæfa núna? Meðal annars þennan boðskap Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra:
„Við lýðveldisstofnun árið 1944 skorti Íslendinga ekki sjálfstraust og samheldni, ekki frekar en þegar þeir ákváðu að verða fullvalda þjóð, um aldarfjórðungi fyrr.
En þrátt fyrir áræði og trú á landinu þorðu líklega fáir að vona, að fáeinum áratugum seinna yrði Ísland orðið að fyrirmynd í samfélagi þjóðanna. Að velferðarmælikvarðar sýndu framúrskarandi árangur á flestum sviðum; að almennt heilbrigði hefði aukist stórkostlega, að hér væru lífslíkur einar þær bestu í veröldinni, atvinnuleysi minna en annars staðar og kynjajafnrétti hvergi meira.
Að í alþjóðlegum samanburði væri Ísland talið öruggasta land í heimi, Ísland væri í þriðja sæti á lista yfir þau lönd þar sem best þætti að búa, að jöfn réttindi allra væru betur tryggð en annars staðar og að Íslendingar væru að mati Sameinuðu þjóðanna sú þjóð sem, fremur en nánast allar aðrar þjóðir heims, hefði ástæðu til að vera hamingjusöm, sama til hvaða mælikvarða væri litið.
Þessar staðreyndir alþjóðlegs samanburðar sýna að trúin á framtíðina hefur skilað okkur langt.[…]
Síðustu misseri hafa gefið okkur enn frekari ástæðu til að líta björtum augum fram á veginn. Ísland stendur nú á ný upprétt í samfélagi þjóða eftir að hafa sigrast á mestu efnahagserfiðleikum síðari tíma með elju og einlægum ásetningi.“
Þriðjudagur 16. 06. 15
Í byrjun september gefst einstakt tækifæri til að kynnast qi gong undir leiðsögn þess manns sem hefur lagt sig mest fram um að kynna kínversku lífsorkuæfingarnar fyrir vestrænum mönnum. Bandaríkjamaðurinn Ken Cohen hefur nokkrum sinnum áður heimsótt Ísland. Hann var hér síðast fyrir tveimur árum og verður nú að nýju með námskeið að Kvoslæk í Fljótshlíð. Hér má fræðast um námskeiðið og bóka sig á það, best er að gera það sem fyrst því aðeins 30 komast þangað. Námskeiðið er kynnt innan lands og utan.
Mánudagur 15. 06. 15
Skuldaþrengingar Grikkja hafa nú sett svip sinn á störf og stefnu Evrópusambandsins í sex ár. Spurningin er hvort nú sé loks komið að skuldadögunum. Allir viðmælendur Grikkja virðast hafa fengið nóg af samtölum við þá. Má þar til dæmis nefna Sigmar Gabriel, leiðtoga þýskra jafnaðarmanna (SPD) og efnahagsmálaráðherra Þýskalands.
Gabriel sagði árið 2012 að stæðu menn ekki með Grikkjum í þrengingum þeirra kynni að verða stjórnmálaöngþveiti í landinu. Nú segir hann að innan ESB og í Þýskalandi láti menn ekki undan þrýstingi „og við munum ekki láta þýska verkamenn og fjölskyldur þeirra standa undir yfirboðum og kosningaloforðum ríkisstjórnar sem að hluta er skipuð kommúnistum“.
Süddeutsche Zeitung segir að forystumenn evru-hópsins og Seðlabanka evrunnar (SE) smíði nú tillögur um fjármagnshöft í Grikklandi þau verði hluti af úrslitakostum gangvart Grikkjum. Kýpverjar settu fjármagnshöft árið 2013 þegar SE hótaði að stöðva neyðargreiðslur til banka landsins. Innan evru-svæðisins verða einstök ríki að eiga frumkvæði að fjármagnshöftum. Fréttir frá Grikklandi herma að öfl innan stjórnarflokksins, Syriza, vilji engin höft, án þeirra neyðist SE að dæla peningum í gríska bankakerfið og leggi þannig þyngri byrðar að evru-þjóðir segi Grikkir skilið við evruna.
Sjónarmið vinstrisinna í skattamálum er að hærri skattar skili ríkissjóði auknum tekjum. Þetta var ástæðan fyrir því að vinstri flokkar í Sviss lögðu fyrir þjóðina að samþykkja 20% erfðafjárskatt – tekjur af honum ættu að jafna kjörin, þeim ætti að verja í þágu eftirlaunaþega og þær ættu að taka frá hinum ríku. Rúmlega 70% kjósenda hafnaði tillögunni. Andstæðingarnar sögðu að enginn græddi á sértækum aðgerðum gegn auðugu fólki – það stæði undir atvinnulífinu. Með aðför að því yrðu allir fátækari.
Þessi viðhorf eru í hróplegri andstöðu við skoðanir þeirra sem telja íslensku þjóðinni helst til bjargar að ganga af sem mestri hörku fram gegn útgerðarfyrirtækjum.
Sunnudagur 14. 06. 15
Hinn 28. ágúst 2011 birtist grein í Morgunblaðinu um sameiginlegt átak Háskóla Íslands, Norræna hússins og Reykjavíkurborgar um að gera friðlandið í Vatnsmýri að meira aðlaðandi stað fyrir varpfugla, votlendisgróður og mannfólkið.
Samkvæmt aðgerðaáætluninni átti meðal annars að tryggja fuglunum á Reykjavíkurtjörn öruggt varpland með gerð síkja og þá átti að gefa vísbendingu um þann gróður sem einkenndi svæðið fyrr á tímum með því að fjarlægja ágengar plöntur eins og hvönn og kerfil.
Hinn 27. júlí 2013 birti ríkisútvarpið frétt þar sem sagði;
„Skipulögð herferð er gegn útbreiðslu kerfils í Seltjarnarnesbæ. Garðyrkjustjóri bæjarins hefur áhyggjur af fuglalífi við Bakkatjörn en þar er ágangur kerfilsins mikill og hefur hann verið sleginn oftar en einu sinni í sumar. Í Reykjavík hefur hins vegar ekki verið ráðist gegn kerflinum með markvissum hætti.
Snorri Sigurðsson, sérfræðingur hjá umhverfissviði Reykjavíkur segir umhverfissviðið vera að skoða málið: „Við erum að skoða þetta vandlega. Erum að hefja að kortleggja útbreiðsluna hér innan Reykjavíkur, sem fer ört vaxandi. […]
Vatnsmýrin er ekki friðlýst en er á náttúruminjaskrá, þannig að hún er svæði sem við vöktum mjög vandlega. Þannig að við skoðum það líka en það hafa ekki verið ákveðnar neinar aðgerðir þar, alla vega ekki í sumar.“
Á Seltjarnanesi er markvisst unnið að eyðingu kerfils við Bakkatjörn. Svo virðist sem rannsóknir standi enn yfir í Reykjavík. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur aðeins áhuga á að losna við flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, honum er sama um allt annað – hvað með HÍ eða Norræna húsið?
Laugardagur 13. 06. 15
Þegar fréttir voru kynntar í ríkisútvarpinu í dag var sagt að sænska ríkissjónvarpið ætlaði að senda í níu klukkustundir frá brúðkaupi prinsins Karls Filipps og Sofíu í Svíþjóð þrátt fyrir óvinsældir sænsku konungsfjölskyldunnar. Þetta var einkennileg kynning án þess að heimildarmanns væri getið, mátti helst halda að það væri skoðun fréttastofunnar, að óþarfi væri að eyða þessum tíma í þennan atburð vegna þess hverjir áttu þar hlut að máli. Líklega er þó ekkert sjónvarpsefni vinsælla en þetta.
Í dag var efnt til tónleika í Norðurljósasal Hörpu til að fagna 70 ára afmæli Tónskáldafélags Íslands. Kjartan Ólafsson, fráfarandi formaður félagsins, setti athöfnina. Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti hátíðarræðu. Jakob Frímann Magnússon, varaformaður STEFs, afhenti Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara og Magnúsi Þór Jónssyni (Megasi), gullna heiðursmerki STEFs. Hjálmar H. Ragnarsson tónskáld kynnti tónlistarsjóð Jóns Leifs,. Ragnheiður Þórarinsdóttir, deildarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, flutti kveðju ráðherrans og afhenti 500 þús. kr, gjöf í hinn nýja tónlistarsjóð. Mestu skipti þó tónlistin sem flutt var af Caput, Kammersveit Reykjavíkur og Hamrahlíðarkórnum – allt tónlist eftir íslensk tónskáld.
Tvennt vakti sérstaka athygli mína á þessari ágætu afmælishátíð: (1) að ríkisútvarpið sá ekki ástæðu til að taka hana upp – forráðamenn tónskáldafélagsins til margra ára: Jón Leifs, Páll Ísólfsson og Jón Þórarinsson höfðu allir mótandi áhrif á menningarhlutverk ríkisútvarpsins sem forystumenn við dagskrárgerð, þeir áttu ríkan þátt í að ávinna stofnuninni sess sem burðarstólpa í íslensku menningarlífi. Sé áhugaleysi stofnunarinnar á þessari hátíð notað sem mælikvarði á menningaráhuga núverandi stjórnenda hennar falla þeir á prófinu. (2) Jakob Frímann fór ákaflega lofsamlegum orðum um ræðu Ólafs Ragnars á dögunum yfir þátttakendum í alþjóðamóti höfunda kvikmyndatónlistar sem þegið hefðu boð til Bessastaða –þaðan hefðu þeir haldið upptendraðir af boðskap forseta – yrði nokkur sambærilegur vandfundinn ef Ólafur Ragnar hyrfi úr embættinu – væri nú leitað grannt að einhverjum verðugum.
Föstudagur 12. 06. 15
Þátt minn á ÍNN frá miðvikudegi 10. júní þar sem ég ræði við Kristin Andersen prófessor má nú sjá hér.
Einkennilegir atburðir gerast í æðstu valdaröðum í Kína.
Föstudaginn 11. júní var Zhou Yongkang (72 ára), fyrrverandi yfirmaður lögreglu, dómsmála og leyniþjónustu einræðisríkisins, dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir spillingu og fyrir að hafa lekið ríkisleyndarmálum. Dómarinn las dóminn og spurði hinn sakfellda sem stóð gráhærður og niðurlútur: „Ákærði Zhou Yongkang, skiljið þér dóminn?“ Hinn ákærði: „Já.“ Dómarinn: „Ákærði Zhou Yongkang, viljið þér segja réttinum eitthvað?“ Hinn ákærði: „Ég sætti mig við dóminn og áfrýja ekki. Ég viðurkenni afbrot mín og að ég hef margoft brotið lög og reglur flokksins sem hefur valdið flokknum miklum skaða og haft alvarleg neikvæð áhrif á samfélagið. Ég lýsi mig sekan og iðrast.“
Þessi orðaskipti voru sýnd í sjónvarpi og minntu á atriði í sakamálamynd en í augum kínverskra áhorfenda var um einstakan, sögulegan stóratburð að ræða – aldrei fyrr hefur svo háttsettur maður innan kommúnistaflokksins verið dæmdur sekur fyrir spillingu – í fimm ár 2007 til 2012 átti hann sjálfur síðasta orðið innan réttarkerfisins. Enginn efast um að fyrst hafi æðstu menn flokksins fundið hann sekan áður en dómarinn kom til sögunnar. Í fjörutíu ára sögu Kína eftir að Maó sleppti valdataumunum og geðþóttastjórn hans lauk hefur enginn fyrrverandi félagi í fastanefnd flokksins (hinni sameiginlegu æðstu flokkstjórn) hlotið refsidóm. Í Le Monde segir að á Weibo, vinsælasta bloggvef Kína, hafi mest kveðið að undrun yfir að sléttgreitt tinnusvart hár Zhous hafði vikið fyrir gráum hárum.
Spurningunni um hvort þetta séu endalok hreinsana nýrra valdhafa eða upphaf að frekari hreinsunum getur enginn utan hins lokaða valdakjarna svarað. Þannig er háttað stjórn annars mesta efnahagsveldis heims sem lætur æ meira að sér kveða um heim allan og munar ekki um að grípa til landfyllinga á kóralskerjum í Suður-Kínahafi til að ögra nágrönnum sínum með kröfum um yfirráð sem ganga á rétt þeirra.
Fimmtudagur 11. 06. 15
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja til við alþingi að verkfalli BHM verði frestað til 1. júlí. Þetta er mildari leið við lagasetningu til að binda enda á ófremdarástandið sem skapast hefur vegna verkfallsins en að vísa deilunni til dæmis til gerðardóms og banna verkfallið.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er áfellisdómur yfir forystumönnum verkfallsmanna en sumum þeirra var fyrir lagt að hverfa frá vinnu fyrir tveimur og hálfum mánuði. Þá lét Páll Halldórsson verkfallsstjóri eins og mótuð hefði verið einhver strategía sem mundi skila hámarksárangri. Hún hefur hins vegar einfaldlega reynst leið inn í öngstræti.
Ástandið innan BHM batnaði ekki við að Þórunn Sveinbjarnardóttir, „framkvæmdastýra“ Samfylkingarinnar, tók við formennsku í BHM. Fyrir henni vakir fyrst og síðast að koma höggi á ríkisstjórnina eins og þessi orð hennar sem birtust á mbl.is að kvöldi 11. júní sýna:
„Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar sannar það sem okkur í BHM hafði grunað lengi, það að það átti að reyna að svelta okkur til hlýðni í samningaferlinu. Það tókst þeim ekki og þess vegna ímynda ég mér að ríkisstjórnin fari þessa leið. En ég vona að með þessum fresti sem gefinn er til 1.júlí til að ná samningum fylgi einlægur ásteningur ríkisstjórnarinnar um að semja og leggja eitthvað til þeirra kjarasamninga.“
Af orðum Þórunnar sést að henni dettur ekki í hug að leggja neitt af mörkum til að samningar náist, allri skuld er skellt á viðsemjandann. Að félagsmenn BHM láti bjóða sér þessa framkomu af hálfu forystumanna sinna kemur verulega á óvart. Á mbl.is sagði Þórunn einnig:
„Ég hef fengið fregnir af uppsögnum og það má alveg búast við því að það haldi áfram miðað við tóninn í fólki og hvernig því líður eftir tíu vikur í verkfalli.“
Svo er að sjá að hún skilji ekki þessar uppsagnir sem vantraust á sig og samningamenn BHM. Engum kemur í sjálfu sér á óvart að fólk ákveði að segja sig frá störfum sem knýr það til aðildar að félagi sem stjórnað er á þann hátt sem gert er undir forystu Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Páls Halldórssonar.
Miðvikudagur 10. 06. 15
Í dag ræddi ég við Kristin Andersen, prófessor, formann Verkfræðingafélagsins og bæjarfulltrúa sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, í þætti mínum á ÍNN. Þáttinn má næst sjá klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun – hann er einnig aðgengilegur nú á tímaflakki Símans.
Eitt hið sérkennilegasta sem heyrist úr ræðustól alþingis eru kveinstafir Steingríms J. Sigfússonar (VG) yfir því að ekki sé talað nægilega virðulega um hann. Jón Gunnarsson (S) benti á að Lilja Rafney Magnúsdóttir (VG) hefði ekki verið sannfærandi þegar hún ræddi nauðsyn þess að virða ákvæði ívilnunarlaga vegna nýfjárfestinga, Það hefði „þurft sérákvæði“ til að ívilnanir vegna framkvæmda á Bakka við Húsavík stæðust lög þrátt fyrir ívilnunarlögin. Þetta hefðu VG-þingmenn stutt þar sem Steingrímur J. hefði flutt málið sem snerti kjördæmi hans.
Af því að þessi orð Jóns Gunnarssonar féllu undir liðnum „störf þingsins“ stóð Steingrímur J. upp eldrauður af reiði og bað um orðið undir liðnum „fundarstjórn forseta“. Steingrímur J. sagði:
„Það er auðvitað ekki boðlegt að þingmenn þurfi að sæta því, og sitja undir því, dauðir eins og það er kallað í umræðu, og geta ekki borið hönd yfir höfuð sér. Auðvitað kippi ég mér ekki mikið upp við skítadreifarana frá háttvirtum þingmanni Jóni Gunnarssyni og ég mun hafa tækifæri síðar til að jafna þá reikninga ef svo ber undir. En mér er meira umhugað um það að svona lagað sé ekki látið líðast hérna í störfum þingsins. Að svona lágkúra og ódrengskapur að vega að mönnum sem ekki geta svarað og hafa ekki ræðurétt í umræðu sé látin viðgangast en auðvitað er skömmin háttvirts þingmanns.“
Þessi viðbrögð Steingríms J. bera fyrst og síðast vott um mikla vanstillingu hans. Hvar er „lágkúran og ódrengskapurinn“ í ræðu Jóns? Vill Steingrímur J. að forseti alþingis slái í bjölluna í hvert sinn sem hann er nafngreindur í ræðum um störf þingsins?
Umræður um þessar umræður þingmanna stóðu í 15 mínútur miðvikudaginn 10. júní 2015.
Þriðjudagur 09. 06. 15
Viðkvæmni ESB-sinna á Íslandi er meiri en almennt í öðrum löndum sé litið fram hjá embættismönnum ESB og áköfustu sambandssinnum á ESB-þinginu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ræddi við Sky-sjónvarpið um afnám haftanna mánudaginn 8. júní. Hann lýsti þar þeirri skoðun að það hefði skipt sköpum fyrir Íslendinga að vera ekki í ESB. Þessi orð fóru fyrir brjóstið á álitsgjafanum Agli Helgasyni sem segir á vefsíðu sinni þriðjudaginn 9. júní:
„Þessi yfirlýsing [forsætisráðherra] er einhvern veginn alveg óþörf …“
Engu er líkara en Egill fylgist ekki með erlendum fjölmiðlum þar sem fjallað er um aðgerðir íslensku ríkisstjórnarinnar. Þær eru jafnan bornar saman við það sem gerst hefur í ESB- eða evru-löndum frá hruni fjármálamarkaðanna haustið 2008.
Í The New York Times segir þriðjudaginn 9. júní:
„Its [Íslands] economy has recovered nicely, although problems remain. Iceland is expected to grow 2.7 percent this year. Unemployment is 3.1 percent, lower than in both the European Union and the United States.
These results stand in stark contrast to Greece and other countries in southern Europe, which use the euro and do not have their own currency to manage. As Greece still scrambles to deal with its debt problems, concerns are rising that the country will have to exit the currency union.“
Ummæli forsætisráðherra um ágæti þess að Ísland sé utan ESB og evru fellur vel að ofangreindri niðurstöðu blaðamanna NYT. Yfirlýsing forsætisráðherra um Ísland utan ESB var alls ekki óþörf heldur þarft framlag til umræðna um stöðu smáþjóða innan ESB. Auk þess hittir hún í mark hjá Bretum sem búa sig undir átök við ESB um leiðir til að bæta réttarstöðu sína gagnvart miðstjórnarvaldi ESB og átök innbyrðis um hvort þeir eigi að vera áfram í ESB eða ekki.
ESB-sinnar á Íslandi eru einfaldlega kaþólskari en páfinn og þola ekki að orðinu sé hallað um hin helgu vé sambandsins. Sárindi þeirra fyrir hönd ESB hafa aukist eftir því sem betur kemur í ljós að aðildarferlið frá 16. júlí 2009 fram til 13. janúar 2013 var sannkölluð hrakför. Hún er nú víti til að varast eins og sést af tillögu ESB-flokkanna um að henni verði ekki haldið áfram nema þjóðin samþykki í atkvæðagreiðslu.
Mánudagur 08. 06. 15
Þegar hlustað er lýsingar Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, á aðferðinni sem beitt hefur verið í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til að losa þjóðina úr viðjum fjármagnshafta skýrist enn betur en þó var áður ljóst hve illa ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hélt á þessu máli eins og svo mörgum öðrum.
Af hálfu Steingríms J. Sigfússonar og VG var enginn áhugi á að losa um höftin, þau féllu vel að ofstjórnarstefnu flokksins. Í skjóli haftanna var Steingrími J. auðveldara en ella að stunda hinar hroðalegu fjármálasviptingar sem leiddu meðal annars til þess að kröfuhafar fengu nýju bankana í hendur án nauðsynlegs gegnsæis.
Samfylkingarfólkið vildi nota höftin til að troða þjóðinni inn í ESB og evrunni upp á þjóðina. Hversu oft var ekki fullyrt, ekki síst af Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, að ekki væri unnt að afnema höftin nema með inngöngu í ESB?
Hið merkilega er að hvorki Steingrímur J. né Árni Páll höfðu hina minnstu hugmynd um hvernig þeir ætluðu að leysa vandann – þeir sáu ekki málið í heild af því að þeir létu aldrei vinna það starf sem gert hefur verið undir forystu Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Rannsakað hefur verið af mikilli elju hver var aðdragandi hrunsins og lagt mat á hver hefðu átt að vera viðbrögð stjórnvalda sem gátu ekki frekar en aðrir sagt fyrir um framtíðina. Eftir hrunið var verkefnið að vinna á fortíðarvanda. Í rúm fjögur ár frá 1. febrúar 2009 sat hér ríkisstjórn sem tók ekki á þessum vanda heldur jók á hann með röngum ákvörðunum og forkastanlegri stefnu. Það er tímabært að rýna í þá þróun alla á skipulegan hátt.
Sunnudagur 07. 06. 15
Í kvöld má sjá í þættinum Hovedscenen á NRK2 úrslitin í keppninni Den norske solistprisen sem fóru fram í Hákonarhöll í Bergen laugardagskvöldið 30. maí og ég sagði frá hér á síðunni eftir að hafa verið á tónleikunum – Eva Þórarinsdóttir fiðluleikari keppti fyrir Íslands hönd. Þáttinn má sjá á tímaflakki Símans næsta sólarhring.
Laugardagur 06. 06. 15
Jóhanna María Sigmundsóttir (f. 1991), þingmaður Framsóknarflokksins, flutti ræðu um störf þingsins föstudaginn 5. júní og sagði:
„Eins og umhverfið hefur verið á þessum vinnustað er það varla orðið boðlegt fyrir fólk að eiga að vinna við það, gróusögur, kýtingar, uppnefni, baktal og leiðindi. Ég hef alltaf verið þakklát fyrir þau gildi sem foreldrar mínir sendu mig með út í lífið, meðal annars að kurteisi kostaði ekkert, að ég ætti að bera virðingu fyrir mér eldra fólki og koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig. Þessi gildi vil ég hafa áfram að leiðarljósi, en því miður gerir hegðun margra hv. þingmanna það mér mjög erfitt fyrir. Ég geri mér ekki miklar vonir um að allt breytist eftir þessa ræðu mína, en ef við eigum að sitja saman í þessum sal verðum við að fara að taka upp betra háttalag. Til að mynda væri það strax til bóta ef maður þyrfti ekki að sitja undir bölvi og dónaskap í sinn garð og flokksfélaga frá næstu sessunautum. Ef hv. þingmönnum líkar svona illa við ákveðið fólk, legg ég til að þeir færi það tal inn á þingflokksfundi sína eða bakherbergi í húsinu. Ef þetta væri einhver annar vinnustaður og mér dytti í hug að kalla samstarfsfélaga mína hryggleysingja, lindýr, talibana, dólga og einræðisherra, ef ég mundi líkja þeim við menn sem framið hafa hræðilega glæpi, fjöldamorð eða annað sem setur svartan blett á heimssöguna, þá væri ekki lengi verið að kalla mig inn á teppið.
Því, herra forseti, legg ég til að hv. þingmenn fari aðeins að skoða gildi sín og mannleg samskipti á þessum vinnustað. Einnig legg ég til að við látum öll af frammíköllum, því að það er jú bara lágmarkskurteisi að grípa ekki frammí fyrir fólki.“
Þetta er neyðarkall til þingmanna frá nýliða sem vill sporna við fæti. Það er ekki lögmál að þinghaldið sé með sama blæ og verið hefur. Þar ræður vilji þingmanna sjálfra og ekkert annað.
Ekkert er í raun tilgangslausara en umræður um umræður. Um það hafa þingstörfin að mestu snúist – nú mánuðum saman.
Föstudagur 05. 06. 15
Rússneska myndin Levíatan var sýnd í Bíó Paradís í dag. Hún hefur verið sýnd þar öðru hverju undanfarna mánuði. Andeij Zvjafintsev er leikstjóri. Myndin var frumsýnd á síðasta ári og er hún allegoría um stjórnarhætti í Rússlandi undir forsæti Pútíns. Ljósmynd af honum hangir að baki gjörspillta bæjarstjóranum í heimskautabæ við Barentshaf. Hið eyðilegða umhverfi, leifar af strönduðum skipum í flæðarmálinu og beinagrind af stórhveli minna á Sovéttímann.
Allt endurspeglar umhverfið erfiða lífsbaráttu á hjara veraldar þar sem konur slægja og snyrta fisk við aðstæður sem ekki þættu boðlegar hér á landi. Karlar hvolfa í sig ómældu magni af vodka. Andstæðan við hina hversdagslegu niðurníðslu eru gljáfægðir glæsivagnar pólitískra og kirkjulegra höfðingja, valdastéttar sem einskis svífist til að ná sínu fram.
Innan þjóðfélagsádeilunnar er sögð önnur enn dramatískari saga einstaklinga sem er þó hálfsögð því að hún endurspeglar mannleg samskipti sem eru svo bæld að það sem að baki býr brýst aldrei fram.
Levíatan er sæskrímsli í Jobsbók. Árið 1651 birti enski heimspekingurinn Thomas Hobbes bók sem hann nefndi Levíatan þar sem einmanalegu lífi mannsins er lýst sem dýrslegu og stuttu, allir berjast við alla, grimman valdsmann þarf til að setja samfélaginu skorður. Þótt hafið sé augljós ógnvaldur í myndinni vísar heiti myndarinnar sterkt til kenninga Hobbes um nauðsyn þess að setja grimmd mannsins og ágirnd skorður – skírskotunin til guðs verður máttlítil vegna ljóssins sem varpað er á kirkjuna.
Þetta er áhrifamikil mynd og að gerð hennar skuli hafa verið styrkt af rússneskum stjórnvöldum á sínum tíma minnir á að ekki er langt síðan að tekið var til við að þrengja markvisst að tjáningarfrelsinu í Rússlandi til að festa Vladimír Pútin og menn hans í sessi þrátt fyrir voðaverkin sem þeir vinna í Úkraínu – þar tvinnast hið veraldlega og kirkjulega vald saman á svipaðan hátt og gerist í kvikmyndinni Levíatan.
Myndin var tekin í bænum Teriberka og reyndu staðaryfirvöld stjórnar og kirkju árangurslaust að koma í veg fyrir að hún yrði sýnd þar. Myndin hefur hins vegar verið bönnuð víða annars staðar í Rússlandi vegna þess að hún varpi skugga á veraldleg og kirkjuleg yfirvöld.
Fimmtudagur 04. 06. 15
Samtal mitt við Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á ÍNN frá því gær er komið á netið og má sjá það hér.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, á í vök að verjast vegna þess hvernig staðið var að ráðstöfun nýju bankanna, Arion-banka og Íslandsbanka, til einkaaðila á árinu 2009 þegar hann var fjármálaráðherra. Dularfyllri einkavæðing er óþekkt utan gömlu kommúnistaríkjanna eftir hrun Sovétríkjanna: „Það varð hrun,“ sögðu valdhafar þá og töldu sig geta farið sínu fram. Hve oft sagði ekki Steingrímur J.: „Það varð hrun“ til að afsaka verk sem nú þola ekki dagsbirtu.
Vigdís Hauksdóttir (F) lýsti vinnubrögðum Steingríms J. á þennan veg í þingræðu miðvikudaginn 3. júní:
„Það sem gerðist hér undir jól árið 2009 var að fjárlög og fjáraukalög voru samþykkt þann 21. desember. Það var svo klukkan 8 þann 21. desember að kvöldi að komið var með frumvarp í þingið. Það varð að lögum á hádegi daginn eftir þar sem fengin var eftirálagaheimild fyrir þeim gjörningi [að afhenda kröfuhöfum eignarhluti íslenska ríkisins í bönkunum — án lagaheimildar]. Ég spyr því hv. þm Steingrím J. Sigfússon: Hvers vegna var þetta ekki sett inn sem 6. gr. heimild í fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010?“
Steingrímur J. svaraði:
„Svör við spurningum hv. þingmanns eða málflutningi hafa legið fyrir opinberlega, og þar á meðal í þingskjölum, í bráðum 6 ár. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 128/2009 í desember 2008 (svo!) er þetta ágætlega rakið. Þetta eru lög sem heimila staðfestingu niðurstöðu samninga um uppgjör milli gömlu og nýju bankanna og eignarhlutföll í nýju bönkunum. Það frumvarp var samþykkt mótatkvæðalaust, og það má láta þess getið til gamans, herra forseti, vegna umfjöllunar Mogga gamla að undanförnu, að hv. þm. Lilja Mósesdóttir og hæstv. ráðherra Jón Bjarnason greiddu bæði frumvarpinu atkvæði sitt.“
Svarið staðfestir það sem Vigdís Hauksdóttir sagði og einnig Lilja Mósesdóttir og Jón Bjarnason um afgreiðslu þessa máls. Þessi einstæða einkavæðing bankanna til óþekktra kröfuhafa var samþykkt á laumulegan hátt á alþingi. Sagan sýnir að það eru síður en svo meðmæli með málum að þau séu afgreidd án mótatkvæða.
Miðvikudagur 03. 06. 15
Í dag ræddi ég á ÍNN við Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), sem héldu fyrsta ársfund sinn í síðustu viku. Með samtökunum er farið inn á nýjar brautir og þau leggja áherslu á virðiskeðju í þeim tilgangi að leiðin milli veiðimanns og neytanda sé snurðulaus til að tryggja mestu vörugæði og arðsemi.
Fyrir 40 árum minnist ég þess úr forsætisráðuneytinu og á ríkisstjórnarfundum, þar sem ég var ritari, hve harkan var oft mikil (og hrossakaupin) þegar fjallað var um óskir útgerðarmanna um að fá að smíða fiskiskip. Það þurfti leyfi til fjárfestingarinnar og fyrirgreiðslu sem var í höndum stjórnmálamanna. Þá sátu menn einnig löngum stundum og þráttuðu um fiskverð í nefndum og ráðum í nánu samráði við ráðherra. Markmiðið var að samstilla fiskverð og gengi þannig að útgerð og fiskvinnsla yrði réttu megin við núllið.
Með þessa reynslu í farteskinu er mér óskiljanlegt að einhverjum detti í hug að hallmæla núverandi kerfi við fiskveiðistjórn vegna þess að útgerðarmenn og fiskverkendur eða seljendur eigi allt undir stjórnmálamenn að sækja. Í þeim efnum hafa orðið algjör þáttaskil með kvótakerfinu. Blómlegan hag félaga í SFS má fyrst og síðast rekja til þess að þeir þurfa ekki að sækja stórt og smátt undir hið pólitíska vald.
Skaðvænleg áhrif pólitískrar togstreitu um kvótakerfið og fiskveiðistjórnina eru hins vegar augljós. Þessa togstreitu virðist fyrst og síðast mega rekja til þess að stjórnmálamenn telja sig geta veitt einhver atkvæði með því að ala á tortryggni í garð stórfyrirtækja í útgerð, fyrirtæki, sem eru framúrskarandi á heimsmælikvarða.
Fái stjórnmálamenn atkvæði vegna óánægju með kvótakerfið taka þeir til við að hallmæla því eftir á þing er komið. Þess vegna er stöðugt þrátefli um þessi mál og hefur verið í rúm 30 ár. Skaðsemi þessara pólitísku deilna er meðal þess sem veikt hefur álit almennings á alþingi.
Þáttinn með Kolbeini Árnasyni má sjá klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti þar til kl. 18.00 á morgun. Þeir sem eru með tímaflakk Símans ráða sjálfir hvenær þeir horfa á þáttinn.
Fyrir viku ræddi ég við Ágúst Þór Árnason frá lagadeild Háskólans á Akureyri og má sjá þann þátt hérna.
Þriðjudagur 02. 06. 15
Því virðast lítil takmörk sett hvaða leiðir eru farnar til að ná sér niðri á stjórnmálamönnum eða til að vekja umtal og ala á grunsemdum. Þetta sannaðist í dag þegar fréttir bárust af því að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra hefði borist bréf þar sem hótað var að upplýsa um fjárhagslega aðild hans að kaupum á DV í nafni Björns Inga Hrafnssonar, útgefanda og eiganda blaðsins.
Hér skal látið hjá líða að fara ofan í efnisatriði þessa furðulega máls. Gefið er til kynna að þar búi atvik að baki sem eiga ekkert skylt við stjórnmál heldur einkamál bréfritara og Björns Inga. Um sé að ræða tilfinningaleg átök sem hafi farið út fyrir skynsamleg mörk. Um það allt verður vafalaust upplýst í rannsókn lögreglu og með ákvörðunum saksóknara.
Á visir.is mátti hins vegar lesa:
„Birgitta Jónsdóttir, Kapteinn Pírata, mun krefjast svara við því hvernig hugsanlegum tengslum og eignarhaldi forsætisráðherra á fjölmiðlum er háttað. „Mér finnst nauðsynlegt að fá svör við þessu og ætla að leita leiða til að gera það í gegnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða í fyrirspurnartíma,“ segir Birgitta í samtali við Vísi.
Ef fjölmiðlar hafa einhverju „lögformlegu“ hlutverki að gegna í samfélaginu er það að veita valdhöfum aðhald og sinna þannig eftirlitshlutverki. Sé forsætisráðherra að sýsla með eignarhald á fjölmiðlum á bak við tjöldin gæti það talist trúnaðarbrot við almenning.
Málið hefur vakið mikla athygli sem sýnir sig á samskiptamiðlunum. Þannig skrifar Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og þjóðfélagsrýnir á Facebook: „En sé sagan sönn er þetta býsna alvarlegt mál og leiðir hugann að Berlusconi: auðmaður í stóli forsætisráðherra fjármagnar kaup á krítískasta fjölmiðli landsins til að þagga niður í þeirri rödd og eignast enn eitt málgagnið.““
Hafi það verið ætlun höfundar kúgunarbréfsins að draga nafn forsætisráðherra niður í svaðið má segja að það hafi tekist þegar litið er til orða Birgittu og skrifa Guðmundar Andra.
Birgitta er fræg fyrir öfgakennd en ástæðulaus viðbrögð. Guðmundur Andri er þaulsetnasti dálkahöfundur málgagns Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og víkur sæti þóknist Jóni Ásgeiri að taka sjálfur til máls í blaði eiginkonu sinnar.
Mánudagur 01. 06. 15
Opinberar umræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa einkennst af formalisma frá því að Samfylkingin og VG tóku höndum saman um aðildarumsókn á árinu 2009. Efnisatriðin hafa skipt minna máli en formið og tíminn. Hraðferð var á umsókninni af því að einhverjum hafði verið talin trú um að mestu skipti að leggja hana fram seinni hluta árs 2009 þegar Svíar færu með forsæti í ráðherraráði ESB. Þegar á reyndi skipti það engu máli.
Þá var sótt um til að „kíkja í pakkann“ – ESB-menn skildu þetta form aldrei. Það þekkist ekki í reglum ESB.
Viðræðurnar við ESB strönduðu í mars 2011 vegna efnislegs ágreinings um sjávarútvegsmál, hann birtist í því formi að ESB afhenti ekki rýniskýrslu um sjávarútvegsmál. Viðræðurnar voru formlega settar á ís í janúar 2013 og aðild að ESB var hafnað í þingkosningunum 2013. Vegna reynsluleysis og klaufaskapar klúðraði ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formsatriðum í ESB-málinu gagnvart alþingi en greip síðan til þess ráðs að senda ESB formlegt bréf um tilkynna að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki. ESB hefur tekið sér langan tíma til að hrinda þessu formsatriði í framkvæmd.
„Ég lít svo á að Ísland sé umsóknarríki. Það var Alþingi sem ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu og mér finnst það fullkomlega út í hött að utanríkisráðherra skuli halda að það sé hægt að slíta viðræðunum með þessum hætti,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is mánudaginn 1. júní 2015. Hann sættir sig ekki við formið og bætir við: „Kannski fyrir kurteisissakir hefur Evrópusambandið ákveðið að taka nafn Íslands af vefsíðum..“ Nú er sem sé „kurteisi“ einnig orðin að þætti í málinu. Loks segir hann þetta: „Ég held að það sé komin upp sú staða að utanríkisráðherra heldur að hann hafi slitið þessu en ég held að restin af veröldinni viti að hann hafi ekki gert það og þar við situr.“
Guðmundur vill nú að þjóðin samþykki í atkvæðagreiðslu að ræða áfram við ESB. Viðræðurnar snúast um efni en ekki form. Þess vegna sigldu þær í strand og komast ekki af strandstað nema íslenskri fiskveiðilögsögu verði fórnað. Vill Guðmundur Steingrímsson gera það? Restin af veröldinni veit hver skilyrði ESB eru.