14.6.2015 17:00

Sunnudagur 14. 06. 15

Hinn 28. ágúst 2011 birtist grein í Morgunblaðinu um sameiginlegt átak Háskóla Íslands, Norræna hússins og Reykjavíkurborgar um að gera friðlandið í Vatnsmýri að meira aðlaðandi stað fyrir varpfugla, votlendisgróður og mannfólkið.

Samkvæmt aðgerðaáætluninni átti meðal annars að tryggja fuglunum á Reykjavíkurtjörn öruggt varpland með gerð síkja og þá átti að gefa vísbendingu um þann gróður sem einkenndi svæðið fyrr á tímum með því að fjarlægja ágengar plöntur eins og hvönn og kerfil.

Hinn 27. júlí 2013 birti ríkisútvarpið frétt þar sem sagði;

„Skipulögð herferð er gegn útbreiðslu kerfils í Seltjarnarnesbæ. Garðyrkjustjóri bæjarins hefur áhyggjur af fuglalífi við Bakkatjörn en þar er ágangur kerfilsins mikill og hefur hann verið sleginn oftar en einu sinni í sumar. Í Reykjavík hefur hins vegar ekki verið ráðist gegn kerflinum með markvissum hætti. 

Snorri Sigurðsson, sérfræðingur hjá umhverfissviði Reykjavíkur segir umhverfissviðið vera að skoða málið: „Við erum að skoða þetta vandlega. Erum að hefja að kortleggja útbreiðsluna hér innan Reykjavíkur, sem fer ört vaxandi. […]

Vatnsmýrin er ekki friðlýst en er á náttúruminjaskrá, þannig að hún er svæði sem við vöktum mjög vandlega. Þannig að við skoðum það líka en það hafa ekki verið ákveðnar neinar aðgerðir þar, alla vega ekki í sumar.“

Á Seltjarnanesi er markvisst unnið að eyðingu kerfils við Bakkatjörn. Svo virðist sem rannsóknir standi enn yfir í Reykjavík. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur aðeins áhuga á að losna við flugvöllinn úr Vatnsmýrinni, honum er sama um allt annað – hvað með HÍ eða Norræna húsið?