Dagbók: júlí 2003
Sunnudagur, 27. 07. 03.
Var í Skálholti fram eftir degi fór í staðarskoðun undir leiðsögn sr. Bernharðs Guðmundssonar og einnig í skoðun á fornleifagreftri undir leiðsögn bresks fornleifafræðings, áður en ég hélt aftur í Fljótshlíðina.
Laugardagur, 26. 07. 03.
Hélt enn á ný í Skálholt - að þessu sinni úr Fljótshlíðinni - hlustaði á Rut leika með hinum nýja kvarttett Ultima Thule verkið Sjö orð Krists á krossinum eftir Joseph Haydn, en fyrir tónleikana flutti Jaap Schröder fyrirlestur um verkið. Hlustaði einnig á Guðrúnu Óskarsdóttur semballeikara flytja verk eftir Bach. Kirkjan var þéttsetin á báðum tónleikunum.
Miðvikudagur, 23. 07. 03.
Fór um kvöldið í Borgarleikhúsið og skemmti mér vel á Grease,
Sunnudagur, 20. 07. 03.
Tókum þátt í Skálholtshátíð og flutti ég ávarp á henni, en þess var minnst að 40 ár voru liðin frá vígslu kirkjunnar. Herra Sigurbjörn Einarsson biskup predikaði í messu af þessu tilefni. Héldum heim síðdegis,
Laugardagur, 19. 07. 03
Fórum síðdegis í Skálholt í boði herra Sigurðar Sigurðarsonar vígslubiskups og bjuggum þar í skólahúsinu.
Fimmtudagur, 17. 07. 03.
Fór í kvöldgöngu á Þingvöllum undir leiðsögn Gylfa Gíslasonar myndlistarmanns, sem sagði tæplega 200 manns frá Þingvöllum í verkum myndlistarmanna. Veðrið var einstaklega fagurt en hitinn hafði farið í 26 stig þennan dag.
Sunnudagur 13. 07. 03
Vorum klukkan 15.00 á einleikstónleikum Helgu Ingólfsdóttur í Skálholtskirkju.
Föstudagur, 11. 07. 03
Fór fyrir hádegi í heimsókn í Umferðarstofu og hitti Karl Ragnars forstjóra og samstarfsmenn hans.
Mánudagur, 07. 07. 03.
Klukkan 11.00 fór ég í heimsókn til Kjartans Þorkelssonar, sýslumanns á Hvolsvelli. Fyrst funduðum við með fulltrúum almannavarnaráðs og vísindamanna um áhættumat og hættugreiningu í Rangárþingi vegna hugsanlega eldsumbrota í Mýrdalsjökli eða Eyjafjallajökli. Þá kynnti ég mér starfsemi embættisins og lögreglunnar.
Miðvikudagur, 02. 07. 03
Eins og áður eru almennir viðtalstímar hjá mér í ráðuneytinu fyrir hádegi á miðvikudögum. Umræðuefnin eru annars konar en þegar ég sat í stól menntamálaráðherra.
Þriðjudagur, 01. 07. 03
Á ríkisstjórnarfundi var samþykkt tillaga mín um að farið yrði að óskum almannavarnarnefndar í Rangárþingi um tæplega 20 milljón króna fjárveitingu úr ríkissjóði til að gera áhættumat og hættugreiningu vegna hugsanlegra jarðelda í Goðabungu í Mýrdalsjökli eða Eyjafjallajökli.
Að loknum ríkisstjórnarfundi var haldið að Bessastöðum, þar sem ráðherrar voru í hópi þeirra, sem tóku á móti Johannes Rau, forseta Þýskalands.