Dagbók: júní 2012

Laugardagur 30. 06. 12 - 30.6.2012 22:55

Fór til Vestmannaeyja í morgun með Herjólfi klukkan 10.00 og kom til baka með honum frá Eyjum klukkan 14.30.Veðrið var eins gott og það getur orðið og það var gaman að fylgjast með pollunum leika knattspyrnu á Hásteinsvelli. Síðan hafði ég smástund til að líta inn í Einarsstofu í Safnahúsinu þar sem þess var minnst að 150 ár eru liðin frá því að bókasafn kom til sögunnar í Vestmannaeyjum.

Eins og augljóst hefur verið frá því að Ólafi Ragnari snerist hugur og hann ákvað að bjóða sig fram að nýju bar hann sigur úr býtum í forsetakosningunum.

Ég hef ekki fylgst náið með baráttunni. Hætti að horfa umræðuþáttinn í sjónvarpinu í gær, leiðinlega var haldið á stjórn hans. Of mikil áhersla á neikvæða þætti. Þetta yfirbragð stuðlaði að lélegri kjörsókn.

Herdís Þorgeirsdóttir sagði réttilega í sjónvarpsþætti í kvöld að tilfinningin hefði orðið sú að stjórnarandstæðingar legðust á sveif með Ólafi Ragnari en stjórnarsinnar Þóru. Við það tók að fjara undan Þóru auk þess sem Ólafur Ragnar sló hana út af laginu strax og hann hóf kosningabaráttu sína.

Föstudagur 29. 06. 12 - 29.6.2012 22:30

Eftir mikla þurrka í Fljótshlíðinni varð skýfall nokkrum sinnum í dag. Græni liturinn skerpist á grasinu. Það var jafnvel farið að gulna sumstaðar. Ég náði að slá blettinn í morgun áður en tók að rigna. Bílar með hús- eða tjaldvagna hafa streymt inn hlíðina eins og jafnan um helgar. Það kemur ekki á óvart að margir greiði atkvæði um forseta utan kjörfundar.

Fimmtudagur 28. 06. 12 - 28.6.2012 22:10

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Steingrímur J.  Sigfússon, þáv. fjármálaráðherra, héldu þannig á viðskiptum við kaup og sölu á Sjóvá að skattgreiðendur sátu uppi með um 4 milljarða króna reikning.

Nú hefur Steingrímur J. beitt sér fyrir því sem sjávarútvegsráðherra að veikja og beinlínis grafa undan rekstri útgerðarfyrirtækja. Í dag bárust fréttir um að Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hefði rekið 31 starfsmann og ætlaði að selja nýjasta skipið sitt vegna ráðstafana gegn sjávarútveginum að frumkvæði ríkisstjórnarinnar og að tillögu Steingríms J.

Þegar fréttir berast um þetta kemur Steingrímur J. fram í fjölmiðlum og segir að það sé fiskur undir steini hjá þeim í Eyjum, þeir séu í pólitískum leik (kannski til heimabrúks eins og óvinir Steingríms J. í ESB?). Það er ekkert að marka það sem forstjóri Vinnslustöðvarinnar segir um ástæður uppstokkunar fyrirtækisins fullyrðir Steingrímur J.

Nú fær hann stuðning frá ekki minni manni en Birni Vali Gíslasyni, þingflokksformanni VG. Þeir félagar segjast vita betur um hag og markmið Vinnslustöðvarinnar en forstjóri hennar, Steingrímur J. sagði á Stöð 2 í kvöld:

„Þannig að ég fæ nú þessar skýringar [hjá forstjóranum] ekki alveg til að ganga upp. Mér finnst þetta lykta af því að fyrirtækið sé að reyna að gera stjórnvöld að blóraböggli fyrir einhverju sem séu nú bara aðstæður í rekstri þessa fyrirtækis sem þar sé verið að takast á við.“

Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG, veit líka betur en forstjóri Vinnslustöðvarinnar hver er vandi fyrirtækisins. Björn Valur segir á vefsíðu sinni í dag:

„Fjárfesting í nýjum skipum hefur því ekki verið fyrirtækinu þungbær til þessa. Vinnslustöðin hefur sömuleiðis átt við ákveðin innanmein að stríða sem hefur kristallast í átökum milli eigenda fyrirtækisins sem staðið hafa yfir í mörg ár.


Hún er því ekki gild sú skýring eigenda fyrirtækisins að kenna aðgerðum stjórnvalda um að þurfa að segja upp tugum starfsmanna sinna.“

Þess eru ekki mörg dæmi utan einræðisríkja að stjórnmálamenn segist vita betur en eigendur fyrirtækja hvernig hag fyrirtækjanna er háttað og hvað sé þeim helst til bjargar,

Miðað við kostnaðinn sem skattgreiðendur sátu uppi vegna viðskipta Más og Steingríms J. með Sjóvá er ástæða til að óttast um þjóðarhag þegar Steingrímur J. og Björn Valur telja sig færa um að segja stjórnendum Vinnslustöðvarinnar að þeir fari með rangt mál þegar þeir taka alvarlega og afdrifríka ákvörðun um málefni fyrirtækis síns.

Í Vestmannaeyjum fóru menn á mis við útrásina, þeir stóðu þó flestir vel af sér hrunið og hafa látið verulega að sér kveða við að færa björg í bú. Þeir hagnast í samræmi við erfiði sitt og útsjónarsemi. Þeir Steingrímur J. og Björn Valur sjá ofsjónum yfir þessu. Þeir vega að fyrirtækjum en segja þau illa rekin þegar gripið er til ráðstafana til að verjast atlögunni.

Miðvikudagur 27. 06. 12 - 27.6.2012 22:41

Í dag ræddi ég við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur, í þætti mínum á ÍNN og má horfa á hann á miðnætti, 02.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun. Hanna Birna er skelegg að venju.

Það dregur að forsetakosningum. Fréttastofa RÚV keppist í dag við að flytja fréttir um að kreppan „sé búin“ hér á landi og það styttist í að allt komist í samt lag á efnahagssviðinu. Það skyldi þó ekki tengjast viðleitni til að búa í haginn fyrir forsetaframbjóðanda sem nýtur stuðnings fréttastofunnar og velþóknunar ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar?

Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Steingrímur J. Sigfússon, þáv. fjármálaráðherra, lögðu saman krafta sína í viðskiptum ríkisins með Sjóvá. Nú hefur ríkisendurskoðun litið á hvernig þeir stóðu að málum. Heildartap ríkisins vegna þessara viðskipta nemur á bilinu 3,4 – 4,8 milljörðum króna að mati ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni segir að tapið komi ekki á óvart enda hafi ríkið greitt 11,6 milljarða króna fyrir eignarhlut í félagi sem í reynd hafi verið gjaldþrota.

Sérkennilegt er að ríkisendurskoðun sér ekki tilefni til að gera athugasemdir við söluferlið eða ákvarðanir forsvarsmanna seðlabankans vegna viðskiptanna. Hvers vegna skyldi það ekki gert?

Er það í samræmi við kröfur um aukið eftirlit og aðhald stofnana á borð við ríkisendurskoðun í rannsóknarskýrslu alþingis að ekki er lagt mat á vinnubrögð þeirra Más og Steingríms J.?

Þriðjudagur 26. 06. 12 - 26.6.2012 18:45

Í morgun fór ég í qi gong í Grasagarðinum í Laugardal klukkan 11.10 en þar voru tæplega 60 manns í sumarblíðunni.  Æfingarnar í garðinum hófust 5. júní og eru tvisvar í viku, þriðjudaga og fimmtudaga. Margir nýir iðkendur bætast í hópinn við þessar æfingar utan dyra. Þær gefa þeim einnig mikið. Félagar í Aflinum leiða æfingarnar.

Ég skrifaði grein í Fréttablaðið í dag og svaraði Jóhanni Haukssyni, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, sem hann hafði tekið upp hanskann fyrir húsbónda sinn Jóhönnu Sigurðardóttur vegna brots hennar á jafnréttislögunum. Grein mína má lesa hér.

Mánudagur 25. 06. 12 - 25.6.2012 22:41

Í dag tók ég ungan mann frá Québec, frönskumælandi fylkis í Kanada, í bíl minn á Hvolsvelli og ók honum að tjaldstæðinu í Laugardal. Hann var að ljúka ferð í kringum landið og hafði ferðast á puttanum allan hringinn og að auki til Ísafjarðar. Hann sagðist hafa leigt sér bíl með nokkrum öðrum til að skoða Snæfellsnes. Það hefði kostað 17.000 krónur að fara í slíka ferð með rútu og því hefði verið ódýrara að finna ferðafélaga og leigja sér bíl auk þess sem það skapaði meira ferðafrelsi.

Honum þótti dýrt að fara á veitingastaði og segist hafa orðið undrandi á tjaldstæði þar sem kostað hefði 500 kr. að kaupa sig inn á netið í 20 mínútur.

Sunnudagur 24. 06. 12 - 24.6.2012 23:20

Um kvöldmatarleytið flaug glæsileg svört þyrla í Fljótshlíðina. Síðan hélt mikil fylking af stað með fjölda fjórhjóla. Sögusagnir eru um að þarna hafi sjálfur Tom Cruise verið á ferð með liði sínu. Hann hafi viljað kynnast Eyjafjallajökli í návígi.

Í dag skrifaði ég langan pistil um hremmingar Jóhönnu Sigurðardóttur í jafnréttismálum. Má lesa hann hér.

Laugardagur 23. 06. 12 - 23.6.2012 17:50

Þegar Janus Palludan var sendiherra Dana hér á landi á áttunda áratugnum buðu þau Anne árlega á bóndadaginn fjölda manns til kvöldverðar í bústað sínum við Hverfisgötu. Þar dönsuðu gestir lancier fram eftir nóttu og nutu mikillar gestrisni. Lancier er ekki einfaldur dans og sumir gestanna tóku sig til og lærðu hann eða æfðu nokkrum sinnum fyrir boðið. Nafnið á dansinum lanciers‘ er greinilega franskt að uppruna og tónlistin sem leikin er undir honum minnir á stóra speglasali í höllum kónga og aðalsmanna.

Á vefsíðunni jp.dk er í dag sagt frá því að lancier sé nú á tímum í raun danskur dans frekar en franskur. Lancier sé aðeins dansaður í Danmörku og hvergi annars staðar. Danir stigi hann í stúdentaveislum og við önnur skemmtileg tækifæri. Vísar blaðið til rannsókna Inger Damsholt á Institut for Kunst og Kulturvidenskab við Københavns Universitet á lancier.

Hún segir að lancier sé eitt af því sem greini Dani frá öðrum þjóðum án þess að þeir átti sig á því að dansinn sé aðeins stiginn af Dönum. „Í Danmörku álítum við að fólk dansi einnig lancier annars staðar í Evrópu og á Norðurlöndunum. Við erum þó eina þjóð heims þar sem dansinn er stiginn eins og ekkert sé sjálfsagðara og oft á ári,“ segir Inger Damsholt.

Hún segir að utan Danmerkur séu það aðeins dans-nördar sem reyni að dansa lancier. Þeir reyni í fræðilegum tilgangi að endurlífga 18. aldar dans evrópska aðalsins.

Málum sé öðru vísi háttað í Danmörku þar sem allir stúdentar kunni lancier og Danir líti dansinn eins og hverja aðra skemmtun. Hann tengist því þegar fólk vilji gleðjast, til dæmis fagna því að hafa lokið stúdentsprófi. Inger Damsholt hefur kannað viðhorf danskra menntaskólanema. Í ljós kemur að tvær ástæður eru fyrir því að þeir dansa lancier: vitneskjan um að þeir séu að viðhalda hefð og áhugi á að nútímavæða dansinn.

Af þessari frásögn á jp.dk má ráða að það var vel við hæfi hjá Palludan-sendiherrahjónunum að bjóða gestum til veislu og kenna þeim jafnframt að dansa lancier. Þau lögðu með því rækt við hefð sem hvergi hefur varðveist nema í Danmörku. Víst er að margir íslensku gestanna lærðu lancier og dönsuðu hann glæsilega. Hvort þeir hafi haldið sér í þjálfun veit ég ekki. Veislurnar eru hins vegar ógleymanlegar þeim sem til þeirra var boðið.

Föstudagur 22. 06. 12 - 22.6.2012 22:41

Gott er að njóta lífsins í Toskana og á ströndinni við Viareggio en alls ekki síðra að komast í Laugardalslaugina og Fljótshlíðina.

Hinn 20. júní birtist á ÍNN viðtal mitt við Guðrúnu Nordal, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar, og má sjá það hér.

Fimmtudagur 21. 06. 12 - 21.6.2012 22:50

Flugum í dag heim með Icelandair frá München. Allt var á áætlun. Hins vegar verð ég að draga í land varðandi hrifningu af flugvellinum í München. Þar til í dag hafði ég aðeins farið um Terminal 2, þann hluta vallarins sem Lufthansa hefur til afnota. Þar er allt nýtt og með miklum glæsibrag.

Hið sama verður ekki sagt um Terminal 1 sem er til afnota fyrir önnur flugfélög en Lufthansa. Þar er allt með frekar slitnu og gömlu yfirbragði. Langar biðraðir eru við innritun, öryggishlið frumstætt og einnig aðstaðan í biðsalnum fyrir brottför.

Lufthansa hefur þann hátt á að senda þeim sem bókað hafa flug á netinu tölvubréf eða sms-boð 23 tímum fyrir brottför og segja þeim að frá og með þeim tíma geti þeir innritað sig í flugið og síðan er bent á að hvaða innritunarhliði ber að fara á viðkomandi flugvelli til að skila af sér farangri og fá hann innritaðan.

Unnt er að netinnrita sig hjá Icelandair en ekki á öllum flugvöllum. Í Leifsstöð geta þeir sem hafa innritað sig á netinu og prentað úr brottfararspjald notað það til að nálgast innritunarmiða á ferðatöskur og síðan farið með þær í innritunarhliðið þar sem tekið er við innrituðum töskum. Hjá Lufthansa setja starfsmenn flugfélagsins innritunarmiða á töskurnar.

Þjóðverjar glíma við vanda á flugvöllum þriggja stærstu borga sinna. Nýr flugvöllur átti að koma til sögunnar í Berlín í vor en það frestast um næstum ár að hann verði nothæfur. Pólitískur ágreiningur um ábyrgð á þeim töfum magnast.

Í Frankfurt hafa verkföll truflað umferð um flugvöllinn og deilt er um næturflug. Í München er ágreiningur nýja flugbraut.

Miðvikudaginn 13. júní ræddi ég við Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, á ÍNN um utanríkisstefnu Kínverja og Grímsstaði á Fjöllum. Má sjá viðtalið hér.

Miðvikudagur 20. 06. 12 - 20.6.2012 21:54

Í morgun sáum við  morgunsýningu í hinu fræga Cuvilliés-leikhúsi í München , óperu eftir Tékkann Leos Janacek sem á þýsku nefnist Das schlaue Füchslein, Hin kæna yrðlingur. Þetta var skólasýning. Datt okkur í hug á síðustu mínútu að reyna að fá miða sem tókst.

Í kvöld fórum við í Kreuzkappelle í Jesúítakirkju St. Michaels og hlýddum á prófessor Nimrod Guez flytja einleiksónötur á fiðlu[r] og víólu eftir Bach, Max Reger og Eugène Ysaÿe. Hann ætlaði að leika á barokkfiðlu sónötu nr. 2 eftir Bach en í öðrum þætti slitnaði strengur svo að hann hóf leik sinn að nýju á nútímafiðlu sem hann hafði annars aðeins ætlað að nota í sónötu nr. 4 eftir Ysaÿe. Svítu nr. 3 eftir Reger lék hann á víólu.

Staðfest var í héraðsdómi Reykjavíkur í dag að Jóhanna hefði brotið jafnréttislög á Önnu Kristínu Ólafsdóttur og ekki nóg með það, hún hefði einnig gengið þannig á hlut hennar í opinberri yfirlýsingu ráðuneytisins að Önnu voru dæmdar þær miskabætur sem hún krafðist.

Í tilefni af þessu segir í yfirlýsingu sem forsætisráðuneytið birti í dag að „fallist [sé] á sömu fjárhæð miskabóta og forsætisráðuneytið hafði þegar boðið stefnanda í kjölfar úrskurðar kærunefndar jafnréttismála“.

Þetta er í samræmi við aðra hundalógík Jóhönnu í málinu. Hún er dæmd til að borga miskabætur vegna ummæla sem hún lét falla en lætur nú í veðri vaka að héraðsdómur hafi verið að taka undir einhver sjónarmið sín.

Hvenær bindur þingflokkur Samfylkingarinnar enda á þetta rugl í forsætisráðuneytinu undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur?

Þriðjudagur 19. 06. 12 - 19.6.2012 21:00

Í morgun var haldið fljúgandi með skrúfuþotu Dólómíta-flugfélagsins í umboði Lufthansa yfir Alpana frá Flórens til München, glæsilegrar höfuðborgar hins auðuga Bæjaralands. Franz-Joseph Strauss flugvöllurinn í München er meðal hinna bestu í heimi en nú eru hér hatrammar deilur um hvort leggja eigi þriðju flugbrautina. Það vekur athygli á götum borgarinnar hve margar konur klæðast búrkum og eru svartar frá toppi til táar svo að aðeins sést í augun.

Mánudagur 18. 06. 12. - 18.6.2012 17:20

Á Pressunni má í dag lesa að breytingar hafi orðið hjá DV ehf, sem rekur dagblaðið DV og vefmiðil með sama nafni. Lilja Skaftadóttir, sem var í framboði fyrir Borgarahreyfinguna 2009, hefur látið af stjórnarformennsku í félaginu og Ólafur M. Magnússon tekið. Hann hefur löngum verið kenndur við Sól í Hvalfirði og síðan Mjólku. Þá segir Pressan að Lilja sé útgáfustjóri vefritsins Smugunnar, sem er málgagn vinstri-grænna. Lilja á hlut þar eins og í DV. Hún ætlar ekki að selja DV-hlutinn (26,9%), næstur henni er Reynir Traustason, ritstjóri DV, með 24,7% hlut, samtals eiga þau því 51,6% í DV ehf. Ólafur M. á innan við 1% í félaginu að sögn Pressunnar.

Persónulegar ástæður eru fyrir því að Lilja segir sig frá formennsku í DV ehf. að sögn Pressunnar en þar er haft eftir Lilju:

„Hvað varðar Smuguna þá fóru Björg Eva Erlendsdóttir og Hlynur Hallsson í stjórn RÚV og ég sem almennur stjórnarmaður varð að taka við stjórninni. Það mun þó breytast á næstu dögum eða eftir aðalfund.“

Vissulega eru tíðindi að Lilja Skaftadóttir dragi sig frá daglegri stjórn íslenskra fjölmiðla. Hún lýsti háleitum markmiðum í þeirra þágu meðal annars í viðtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu. Varla verður með sanni sagt að draumar hennar um þau markmið hafi ræst á DV en samt ætlar hún að halda áfram að standa að baki útgáfunni.

Hitt er síðan athyglisvert að tómarúm hafi skapast við stjórn Smugunnar af því að Björg Eva og Hlynur tóku að sér að stjórna RÚV í umboði VG. Ekki heyrist hljóð úr horni starfsmanna RÚV vegna þessa og er annar háttur á viðhorfi þeirra til þessara pólitísku fulltrúa en áður hefur verið. Hvað veldur?

Sunnudagur 17. 06. 12 - 17.6.2012 21:10

Um borgina Lucca er sagt að innan fornra múra hennar hafi íbúunum tekist best allra að varðveita fornt yfirbragð ítalskra bæja. Ferð til Lucca á sunnudegi er skemmtilegri en ella vegna þess að þá er hluta gamalla gatna breytt í antík-markað. Þúsundir manna nutu skuggans og andvarans í þröngum götum Lucca í rúmlega 30 stiga hita í dag.

Ég skrifaði pistil í tilefni þess að í dag flutti Jóhanna Sigurðardóttir síðustu þjóðhátíðarræðu sína. Pistilinn má lesa hér.

Grísku flokkarnir sem vilja náið samstarf við evru-ríkin geta myndað meirihluta eftir þingkosningarnar þar í dag. Margir leiðtogar evru-ríkjanna anda léttar vegna þessa. Róðurinn til bjargar evrunni verður erfiður áfram og framtíð Grikkja er áfram svört.

Sósíalistar fá hreinan meirihluta á franska þinginu eftir kosningarnar í dag. Það lofar ekki góðu fyrir efnahag Frakka, Líklegt er að lánshæfiseinkunnin lækki fyrr en seinna. Andstæðingar sósíalista eiga hins vegar verk að vinna í eigin herbúðum.

Laugardagur 16. 06. 12 - 16.6.2012 16:00

Sumir miðlar gangast upp í firringu og furðulegheitum. Merki um það mátti sjá á dv.is í dag. Þar stóð:

„Hallgrímur Helgason rithöfundur er einstaklega meðvitaður þegar kemur að pólitík. Hann var einn helsti andófsmaðurinn á valdatíma Davíðs Oddssonar og sætti ógnunum fyrir vikið eins og bláa höndin vísar til. Þá barði Hallgrímur bíl Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, að utan þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst. Nú beinir skáldið spjótum sínum að Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. „Hann er orðinn rammruglaður af langri setu á Bessastað og illa haldinn af messíasarkomplexum,“ segir Hallgrímur á Facebook.“

Hallgrímur gaf tóninn í september 2002 um að lögreglurannsókn á Baugi væri reist á pólitískri andúð Davíðs Oddssonar á Baugsmönnum og hvatti til pólitískrar baráttu í þeirra þágu. Til að færa áróður sinn í þágu auðmanna í skáldlegan búning bjó hann til hugtakið „bláa höndin“.

Reynir Traustason, ritstjóri DV, tók upp þráðinn frá Hallgrími í Fréttablaðinu með því að birta í mars 2003 fundargerðir frá Baugi. Jón Ásgeir lét eins og hann vissi ekkert um hvernig Reynir hefði fengið þær í hendur. Jón Ásgeir var þó leynilegur eigandi Fréttablaðsins á þessum tíma. Reynir vildi með fréttum sínum styðja við bakið á Samfylkingunni fyrir þingkosningar vorið 2003.

Vorið 2004 börðust þeir Hallgrímur, Reynir og Ólafur Ragnar hlið við hlið í þágu Baugsmanna og fjölmiðlaveldis þeirra gegn fjölmiðlalögunum. Þegar þeim var hafnað jókst svigrúm Baugsmanna í viðskiptaheiminum til mikilla muna.

Hallgrímur hefur sagt að hann hafi lifað í blekkingu um eðli Baugsmiðlanna. Nú afneitar hann Ólafi Ragnari.

Föstudagur 15. 06. 12 - 15.6.2012 21:00

Sólin skein áfram blíð í Toskana í dag. Þess verður ekki vart á götum lítilla bæja að fólk hafi áhyggjur af framtíð evrunnar þótt þær leggist þungt á ráðamenn í Róm. Fréttir herma að allir stjórnarherrar á evru-svæðinu séu í viðbragðsstöðu vegna þingkosninganna í Grikklandi á sunnudag. Hræðsluáróður er orðinn svo magnaður að þeir sem sakaðir eru um að ætla að splundra evru-svæðinu í Aþenu keppast við að votta evrunni hollustu sína. Angela Merkel sagði í gær að ekki þýddi að sýna neina meðalmennsku til bjargar evrunni. Þetta er sérkennileg yfirlýsing frá leiðtoga sem aldrei tekur nema hálft skref í einu – er það ekki einmitt meðalmennska.

Ég les í Fréttablaðinu ljóðaþing Kínversk-íslenska menningarsjóðsins, sem átti að halda í Kirkenes í Noregi í sumar,  hafi verið fellt niður af því að kínversku skáldin fengu ekki fararleyfi. Á sama tíma heimsækir forsætisráðherra Kína Ísland og Svíþjóð og Kínaforseti Danmörku. Um 2.000 kínverskir farandverkamenn bíða þess eins að komast til Grænlands til að hefja vinnslu á járngrýti fyrir 240 milljarða íslenskra króna.

Kínverjar óska eftir að fá fasta áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og með leyfi kínverskra yfirvalda sækist Huang Nubo eftir að ná fótfestu á Íslandi. Í nýjasta hefti Þjóðmála er löng úttekt sem lýsir því hvernig sveitarstjórnarmenn á norð-austurhorninu hafa bitið á Kínaöngulinn. Þar birtist dæmisaga um það sem ég hef kallað „social engineering“ hér á síðunni.

Ólafur Þ. Stephensen segir í leiðara Fréttablaðsins í dag að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi ekki haft döngun í sér til að styðja afstöðu norskra stjórnvalda gegn fastri áheyrnaraðild Kínverja að Norðurskautsráðinu heldur telji hann sig hafa hlutverki að gegna sem sáttasemjari milli Kína og Noregs. Hvernig væri að Össur sýndi fyrst mátt sinn með því að redda ljóðaþinginu í Kirkenes fyrir Huang Nubo og Hjörleif Sveinbjörnsson?

Í nýjasta þætti mínum á ÍNN  ræði ég um sókn Kína á norðurslóðir við Einar Benediktsson sendiherra sem efast ekki hvað fyrir kínverskum stjórnvöldum vakir og varar við því.

Fimmtudagur 14. 06. 12 - 14.6.2012 21:45

Veðrið breyttist til hins betra hér við ströndina í Toskana í dag, það lægði og sólin skein. Spáin er í þessa veru næstu daga og þá verður lítið annað gert en að sleikja sólina.

Ég fékk nýjasta hefti Þjóðmála sent sem pdf.skjal í dag og hef hlaðið það niður á iPadinn og get því lesið fróðlegar greinar undir sólhlífinni. Nú geta menn verið áskrifendur að hvaða tímariti sem er og fengið það sent til sín hvar sem þeir eru staddir og í tölvusambandi.

Ég get einnig hlustað á rás 2 á iPadinum á sérstöku appi - er ekkert íslenskt orð til? - mig undrar hins vegar að ekki sé unnt að hlusta á rás 1, það gat ég fyrir nokkrum vikum en síðan datt hún út - hvað veldur? Ég viðurkenni að ég hlusta ekki mikið á RÚV hér í suðlægri blíðu heldur nýti mér aðra miðla sem ég hef við fingurgómana.

Í dag setti ég langa grein úr The Economist inn á Evrópuvaktina og má lesa hana hér.

 

Miðvikudagur 13. 06. 12 - 13.6.2012 21:30

Í dag var ég í tæpa sjö tíma í Flórens og skoðaði einkum borgarhlutann handan árinnar Arno, Oultroarno, meðal annars Palazzo Pitti og Banacci-kapelluna. Fyrir nokkrum árum skoðaði ég hið merkasta þeim megin við ána þar sem dómkirkjan er.

Pitti fjáraflamaður byggði stærri höll en Medici-fjölskyldan átti en sprakk á limminu og keyptu Medici-menn þrotabúið og þar með höllina þar sem fjölskyldan bjó síðan við mikinn íburð.

Í Banacci-kapellunni má sjá merkilega fresku um ævi Péturs postula eftir Masaccio Masolino og Filippion Lippi. Kapellan er hluti af kirkjunni Santa Maria del Carmine og geymir því einnig merkan kafla í sögu Karmel-reglunnar og framlags hennar til dýrðar dottni og heimsmenningarinnar.

Þriðjudagur 12. 06. 12 - 12.6.2012 20:45

Í dag fór ég í borgina Carrera í Toscana sem er heimsfræg fyrir marmaravinnslu úr fjöllunum umhverfis hana. Sagan segir að Michelangelo hafi verið tíður gestur i borginni á sínum tíma og valið þar marmara í ódauðleg listaverk sín.

Verk úr marmara setja svip á miðborgina, í útjaðri hennar eru vinnslustöðvar fyrir marmarann, hvít marmarafjöllin gnæfa yfir borginni og efst í þeim má sjá stórvirkar vinnuvélar. Niður við höfnina er marmaranum skipað um borð í skip sem flytja hann um víða veröld.

Enn berst mér fræðsla um helgi 10. júní og þakka ég hana:

Helgidagurinn Corpus Christi heitir Dýridagur á íslensku, stórhátíð hins allrahelgasta líkama og blóðs Krists.

Jesús neytti hinstu kvöldmáltíðar við hlið lærisveina sinna á skírdag og breytti brauði og víni í líkama sinn og blóð sitt.  Skírdagur og föstudagurinn langi eru tengdir písl Jesú. Dýridagur er haldinn heilagur til að minnast hins mikla leyndardóms kvöldmáltíðarinnar, hann er fimmtudagurinn eftir Þrenningarhátíð. Á Íslandi er hann á sunnudegi eins og á Ítalíu.

Í kaþólskum löndum eru helgigöngur með altarissakramenti í monstrans, börn (stúlkur) strá blómum á götu fyrir framan Hostíu í monstrans og strákar hringja litlum bjöllum af miklum krafti. 

Hér í Toskana hafði blómum verið dreift á götur fyrir gönguna og má sjá myndir af blómabreiðum í  bæjum.

Í sumum löndum er farið í helgigöngur á hverjum degi í viku eftir Dýradag.

Mánudagur 11. 06. 12 - 11.6.2012 21:00

Ég lét þess ekki getið í gær að á ítölskum veitingastað þar sem ég fékk mér kvöldverð snerist allt um knattspyrnuleik Ítala og Spánverja. Þjóninn spurði hvort við værum nokkuð spænsk. Ef svo væri skyldum við fara annað! Mér sýndist bærileg gleði ríkja vegna úrslitanna.

Nú er spurning, eftir að spænskir bankar hafa fengið neyðarlán, hvort fjárfestar taki Ítali næst á taugum. Greinilega er ekki allt sem sýnist varðandi Spán. Eitthvert leikrit hefur verið sett á svið svo að allir haldi andlitinu. Þeirri sýningu mun þó ljúka brátt og kaldur veruleiki markaðsaflanna segja til sín af fullum þunga að nýju.

Sunnudagur 10. 06. 12 - 10.6.2012 20:00

Í morgun gekk ég í miðbæinn í litla ítalska þorpinu og sá að tvær megingötur voru þaktar rósum. Blasti við að þetta væri í tilefni brúðkaups enda lá blómastígurinn að kirkjunni. Þegar þangað kom var messu að ljúka en kirkjan eitt blómahaf að innan. Taldi ég víst að nú kæmu brúðhjónin á vettvang. Svo var ekki því að kirkjugestir stigu út með helgigripi og gengu syngjandi og flytjandi bænir með prestinum nokkurn spöl eftir blómum prýddum götum að minnismerki um fallna hermenn. Þar var helgistund áður en gengið var aftur til kirkju. Hinn 10. júní 1940 hófu Ítalir þátttöku í síðari heimsstyrjöldinni og réðust inn í Frakkland. Ég hef aldrei séð neinar  blómaskreytingar í líkingu við þær sem þarna voru.

Ps.fáfræði opinberuð. Glöggur lesandi síðu minnar í Þýsklandi sendi mér eftirfarandi mánudaginn 11. júní:

Þessi blómadýrð á götum ítalska þorpsins á sér mjög einfalda skýringu: sú hátíð kaþólskra, sem helguð er líkama drottins (Corpus Christi á latínu, Fronleichnam á þýsku) og haldin er á 60. degi eftir páskadag (þ.e. ávallt á fimmtudegi), er á Ítalíu færð yfir á sunnudaginn næsta á eftir (og heitir þar Corpus Domini). Þetta hefur sem sagt ekkert með þátttöku Ítala í seinni heimsstyrjöldinni að gera.

Ég þakka þessa góðu leiðréttingu og fræðslu. Mér þótti einnig sú ályktun undarleg að fólk kæmi saman og fagnaði með blómum vegna upphafs styrjaldar.


Laugardagur 09. 06. 12 - 9.6.2012 17:00

Nýjasti þáttur minn á ÍNN er kominn á netið, þar ræði ég  við Kolbrúnu Friðriksdóttur, aðjúnkt í íslensku sem öðru tungumáli við Háskóla Íslands. Þáttinn má sjá hér.

Ég vek athygli á grein á Evrópuvaktinni eftir hinn kunna breska blaðamann Charles Moore um vandræðin á evru-svæðinu og leiðina úr honum. Greinina má lesa hér.

Spánverjar sem mynda fjórða stærsta hagkerfi evru-svæðisins bættust í dag í hóp þeirra þjóða sem þurfa á fjárhagslegri aðstoð annarra að halda til að bjarga bankakerfi sínu. Evru-vandinn snýst ekki lengur aðeins um jaðarlönd. Augljóst er að myntsamstarfið syngur sitt síðasta í núverandi mynd. Hver hengir bjölluna á köttinn?

Föstudagur 08. 06. 12 - 8.6.2012 22:50

Heimsótti í dag  Cinque Terre klettóttan hluta ítölsku rivierunnar í Liguria-héraði fyrir norðan Toscana. Þetta eru fimm lítil þorp fyrir norðan La Spezia, þau heita Monterosso al Mare, Venazza, Corniglia, Manarola og Riomaggiore.

Strandlengjan með þorpunum fimm og hlíðarnar í kring hafa verið skráð á heimsminjaskrá UNESCO.

Hinn 25. október 2011 féllu aurskriður á þorpin fimm en tjónið vegna þeirra varð mest í Venazza og þar er enn unnið að endurreisn húsa eftir hamfarirnar.

Þorpin fimm eru geysivinsæll áfangastaður ferðamanna. Unnt er að ferðast á milli þeirra sjóleiðis, í lest eða fótgangandi. Í dag viðraði ekki til sjóferða, sum okkar tóku lestina í báðar áttir, aðrir gengu aðra leiðina og tóku lest til baka.

Fimmtudagur 07. 06. 12 - 7.6.2012 21:20

Við sem fylgjumst náið með fréttum af því sem gerist innan ESB sjáum að allar hræringar í þýskum stjórnmálum eru undir smásjá þeirra sem vilja geta sér til um framvindu mála innan sambandsins. Stjórnarháttum Angelu Merkel hefur verið lýst á þann veg að hún tileinki sér í stjórnmálum sömu aðferðir og notaði sem vísindamaður: að stíga eitt lítið skref í einu, meta áhrif þess og síðan að búa sig undir hið næsta.

Nú hefur Merkel tekist að tryggja sér aukinn meirihluta í þýska þinginu fyrir ríkisfjármálasamningi ESB. Hún beitti sér fyrir því með Nicolas Sarkozy, þáv. Frakklandsforseta, að þessi samningur var gerður. Meirihlutann í þinginu fær Merkel með því að semja við stjórnarandstöðuna og leika um leið á hinn stjórnarflokkinn,  það er Frjálsa demókrata, þeir eru andvígir fjármagnsfærsluskattinum sem Merkel ætlar að innleiða með stjórnarandstöðunni.

Þetta þýska stjórnmálastarf er víðs fjarri frekjulegum stjórnarháttum Jóhönnu Sigurðardóttur enda er hún að kafsigla Samfylkingunni og ríkisstjórninni. Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður vinstri-grænna, er dæmigerður fulltrúi Jóhönnu-stjórnarinnar. Hann ræðst á andstæðinga sína með ásökunum um drykkjuskap í sölum alþingis. Björn Valur er þó skárri en Jóhanna að því leyti að hann biðst afsökunar á dónaskap sínum. Ekkert slíkt kemst að hjá Jóhönnu. Hvenær skyldi þingflokkur Samfylkingarinnar sjá að sér og ýta forsætisráðherra til hliðar?

Þegar minnst er á að þingmenn séu undir áhrifum áfengis í þingsal kemur mér alltaf í hug það sem breski ráðherrann Richard Crossman segir í dagbókum sínum, að hann hafi stundum orðið að átta sig á því með lestri á Hansard, bresku þingtíðindunum, hvað hann sagði kvöldið áður – hann hefði fengið sér of mörg glös með kvöldmatnum.

Það er mikill misskilningur ef menn halda að saga alþingis geymi engin dæmi um að kaupstaðarlykt hafi fundist af þingmönnum í ræðustól. Hitt lýsir ákveðinni tegund af  skepnuskap að úthrópa þingmann vegna þess og enn meiri ótugtarhátt að hafa ekkert fyrir sér í málinu en eigin illvilja.

Miðvikudagur 06. 06. 12 - 6.6.2012 20:35

Skakki turninn í Písa er eitt mannvirkja heims sem allir þekkja. Í dag gekk ég upp á topp hans, það kostar 15 evrur og er vissulega þess virði. Síðast þegar ég kom að turninum biðu menn í svo löngum röðum eftir að fá aðgang að honum að ég varð frá að hverfa. Annað hvort eru færri ferðamenn núna eða skipulagið betra. Unnt var að kaupa aðgang án þess að bíða í röð. Skoðunarferðin hófst síðan um 90 mínútum síðar.

Á VG-vefsíðunni Smugunni er rætt við Einar Kárason rithöfund vegna þess sem ég sagði hér á síðunni í gær að ég íhugaði að fá ummæli sem hann birti eftir Jóhannesi í Bónus dæmd dauð og ómerk auk þess að krefjast miskabóta. Einar er drjúgur með sig í vefsíðusamtalinu og segist ekki áhyggjufullur og undrast að hann eigi að bera ábyrgð á spurningum sem hann spyr. Hann skráði hins vegar viðtalið og viti ég rétt sviptir það menn ekki ábyrgð að mati dómara. Þá segir á Smugunni:  „Hann hefur örugglega efni á því að fara í mál,“ segir Einar. „Þeir eru með svo fín eftirlaun þessir menn.“

Þetta er sérkennileg afstaða til þess að menn höfði mál til að bregðast við ósannindum um sig og verja æru sína: að þeir hafi ekkert annað við peningana sína að gera. Eins og ég sagði hér á síðunni í gær er ekki við því að búast að nein afsökun komi frá þeim sem standa að þessum skrifum í Mannlífi. Viðbrögð Einars sanna það, nær er að kenna þau við forherðingu. Ekki veikir slík afstaða málstað þess sem veltir málshöfðun fyrir sér.

Einar Kárason segist ekki nenna að lesa bók mína Rosabaug yfir Íslandi og sjá tilvitnun sem ég birti þar í skrif hans á tíma Baugsmálsins til stuðnings Baugsmönnum. Hann er ekki hinn fyrsti af þeim sem koma við sögu í bókinni sem látast ekki hafa lesið hana eða ætla ekki að gera það. Skiljanlegt er að þeir vilji stinga hausnum í sandinn þegar þessi tími og afstaða þeirra ber á góma.

Þriðjudagur 05. 06. 12 - 5.6.2012 21:10

Veðrið á ströndinni hér á Ítalíu var eins og best verður á kosið í dag.

Mér bárust fréttir um að hæstiréttur hefði fallist á beiðni Jóns Magnússonar hrl., lögmanns míns, um áfrýjunarleyfi vegna héraðsdóms í meiðyrðamáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugi gegn mér vegna ritvillu sem hefur verið leiðrétt með afsökun, héraðsdómari telur að leiðrétta villan eigi að kosta mig 900.000 krónur. Málið kemur líklega til kasta hæstaréttar næsta haust eða vetur.

Í Leifsstöð fletti ég nýju hefti af tímaritinu Mannlífi þar sem Jóhannes í Bónus skrýðir forsíðu vegna viðtals sem Einar Kárason rithöfundur tekur við hann. Einar ritaði á sínum tíma ævisögu Jóns Ólafssonar í Skífunni. Á tíma Baugsmálsins tók Einar upp hanskann fyrir Baugsmenn eins og má lesa í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi.

Í viðtali þeirra Einars segir Jóhannes að ég hafi sem dómsmálaráðherra birt „níð“ um hann og fjölskyldu hans og „uppnefnt“ þau. Hvort tveggja er alrangt. Vegna málaferla Jóns Ásgeirs út af leiðréttri ritvillu og héraðsdóms honum í vil hvarflar að mér að stefna þeim Einari og Jóhannesi auk útgefanda Mannlífs, krefjast ómerkingar og miskabóta. Fordæmi í héraðsdómi liggur fyrir um að engu skipti hvort leiðrétt sé eða beðist afsökunar, raunar ólíklegt að nokkur sem stendur að þessu viðtali í Mannlífi geri það.

Mánudagur 04. 06. 12 - 4.6.2012 21:06

Flugum til Frankfurt í morgun, brottför Icelandair tafðist um hálftíma vegna biðar eftir tengifarþegum frá Bandaríkjunum, lentum þó aðeins 10 mínútur eftir áætlun í Frankfurt. Sá risavöllur stendur undir nafni sem einn skilvirkasti risaflugvöllur heims.

Það var tilbreyting að sjá hellirigningu í Frankfurt eftir sólina og þurrkinn hjá okkur að Íslandi.

Nokkur ókyrrð var í Lufthansa vélinni til Flórens enda hafði gengið á með þrumuveðri í borginni í dag en hafði stytt upp þegar við komum og ókum að strönd Miðjarðahafs í áttina að Pisa.

Sunnudagur 03. 06. 12 - 3.6.2012 16:55

Kvartett Kammersveitar Reykjavíkur efndi til þriðju Jóns Leifs-tónleikanna í dag klukkan 13.00 í Kaldalóni Hörpu, þetta var fyrsti kvartett Jóns, saminn í Berlín við upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar 1939 og snýst um líf og dauða. Hefur hópurinn nú flutt alla þrjá kvartetta Jóns Leifs og er þetta liður í undirbúningi undir útgáfu á hljómdisk með verkunum. Í dag var einnig fluttur septett efir Hauk Tómasson á tónleikunum.

Víst er að Bretar hefðu viljað fá eitthvað af sólskininu og hitanum hjá okkur til London í dag þar sem milljónir manna komu saman við ána Thames og hylltu Elísabetu II. drottningu í tilefni af 60 ára krýningarafmæli hennar. Rigningin jókst eftir því sem leið á daginn og breyttist loks í úrhelli. Drottningin stóð þó sína pligt í skjóli og veifaði þeim sem sigldu á bátum fram hjá henni. Viktoría drottning sat við völd í 63 ár. Miðað við hve Elísabet ber aldur sinn vel er ekki ólíklegt að hún slái það met. Þá er Filippus drottingarmaður ótrúlega ern og teinréttur, hann verður 91 árs 10. júní. Stundum var erfitt að greina á milli þeirra á myndum Filippusar og Karls ríkisarfa sem er tæpum aldarfjórðungi yngri en faðir hans.

Þegar ég leit á þennan viðburð í sjónvarpi þótti mér best að slökkva á talinu. Hin uppskrúfaða mærð sjónvarpsþulanna er ekki í neinu samræmi við lítillætið sem skín af drottningunni og hefur tryggt henni vinsældir langt út fyrir Bretlandseyjar í öll þessi ár.

Laugardagur 02. 06. 12 - 2.6.2012 18:15

Viðtal mitt við Hall Hallsson um útgáfuteiti vegna bókar hans í Westminster-höll  í London er komið á netið og má sjá það hér.

Hér á landi er bloggari með Bilderberg-fundi á heilanum og telur þá upphaf alls ills í heiminum. Um þessa helgi er 60. Bilderberg-fundurinn haldinn, nú í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum. Íslenski bloggarinn huggar sig við að fundarstaðurinn sé svo nálægt umferðargötu að öskur mótmælenda trufli og þreyti fundarmenn.

Því miður situr enginn Íslendingur 60. afmælisfundinn og má segja að ár og dagur sé síðan að þar hafi verið íslenskur fundarmaður. Ég sat þessa fundi nokkrum sinnum og hef aldrei skilið hvers vegna mönnum er meira uppsigað við þá en aðra fundi sem boðað er til í því skyni að gefa fólki tækifæri til að kynnast og bera saman bækur sínar.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um sjö ástæður til að gera hlé á ESB-viðræðunum og hefja þær ekki að nýju fyrr en umboð hefur fengist til þess frá þjóðinni. Þessum málstað er að vaxa fylgi bæði innan veggja alþingis og utan eins og til dæmis grein Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í dag sýnir en til hennar er vitnað á Evrópuvaktinni.

Þorsteinn skrifar sig frá stefnu ríkisstjórnarinnar í ESB-viðræðunum þar sem hann er meðal þátttakenda. Hann áttar sig á að viðræðurnar eru í öngstræti vegna sundurlyndis innan ríkisstjórnarinnar sem forsetaframbjóðendur hafi nú afhjúpað að hans mati. Þá gerir hann sér grein fyrir því að ekki er unnt að átta sig á neinum tímasetningum vegna aðildarinnar.

Föstudagur 01. 06. 12 - 1.6.2012 23:50

Aðalfundur Aflsins var haldinn kl. 08.35 í Von, húsi SÁA við Efstaleiti. Ég flutti skýrslu stjórnar sem lesa má hér. Í tilefni 10 ára afmælis félagsins tilnefndum við máttarstólpa Aflsins í fyrsta sinn þeir eru: Anna S. Valgarðsdóttir, Guðrún Erlendsdóttir, Dagbjartur Sigurbrandsson, Sigurður Guðmundsson og Viðar H. Eiríksson. Elsa Haraldsdóttir var kjörin gjaldkeri félagsins í stað Loga Guðbrandssonar sem óskaði eftir að draga sig í hlé. Að loknum aðlafundarstörfum var boðið upp á súkkulaðitertu frá Jóa Fel og voru henni gerð góð skil.

Jón Bjarnason fór þess á dögunum enn á ný á leit við Jóhönnu Sigurðardóttur að hún ræddi við hann um ESB-mál á alþingi. Jóhanna svaraði:

„Varðandi þá ósk hv. þingmanns að ég taki þátt í umræðunum um ESB í einhverri sérstakri umræðu sem hann boði til verð ég að segja að hv. þingmaður er alveg fullsæmdur af því að utanríkisráðherra sem fer með þetta mál taki umræðuna við hv. þingmann.“

Þetta svar forsætisráðherra sýnir að hún treystir sér einu sinni ekki í þingumræður um ESB-málefni við stjórnarsinna. Það er engin furða að þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýni forsætisráðherra fyrir framgöngu gagnvart þinginu þegar hún sýnir stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar og fyrrverandi ráðherra slíka óvirðingu.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú minna en Framsóknarflokksins. Össur Skarphéðinsson virðist lifa í þeirri trú að hann geti hresst upp á fylgið með árásum á stjórnarandstöðuþingmenn. Hann ætti frekar að taka í lurginn á þingmönnum Samfylkingarinnar og sannfæra þá um nauðsyn þess að ýta Jóhönnu til hliðar.