23.6.2012 17:50

Laugardagur 23. 06. 12

Þegar Janus Palludan var sendiherra Dana hér á landi á áttunda áratugnum buðu þau Anne árlega á bóndadaginn fjölda manns til kvöldverðar í bústað sínum við Hverfisgötu. Þar dönsuðu gestir lancier fram eftir nóttu og nutu mikillar gestrisni. Lancier er ekki einfaldur dans og sumir gestanna tóku sig til og lærðu hann eða æfðu nokkrum sinnum fyrir boðið. Nafnið á dansinum lanciers‘ er greinilega franskt að uppruna og tónlistin sem leikin er undir honum minnir á stóra speglasali í höllum kónga og aðalsmanna.

Á vefsíðunni jp.dk er í dag sagt frá því að lancier sé nú á tímum í raun danskur dans frekar en franskur. Lancier sé aðeins dansaður í Danmörku og hvergi annars staðar. Danir stigi hann í stúdentaveislum og við önnur skemmtileg tækifæri. Vísar blaðið til rannsókna Inger Damsholt á Institut for Kunst og Kulturvidenskab við Københavns Universitet á lancier.

Hún segir að lancier sé eitt af því sem greini Dani frá öðrum þjóðum án þess að þeir átti sig á því að dansinn sé aðeins stiginn af Dönum. „Í Danmörku álítum við að fólk dansi einnig lancier annars staðar í Evrópu og á Norðurlöndunum. Við erum þó eina þjóð heims þar sem dansinn er stiginn eins og ekkert sé sjálfsagðara og oft á ári,“ segir Inger Damsholt.

Hún segir að utan Danmerkur séu það aðeins dans-nördar sem reyni að dansa lancier. Þeir reyni í fræðilegum tilgangi að endurlífga 18. aldar dans evrópska aðalsins.

Málum sé öðru vísi háttað í Danmörku þar sem allir stúdentar kunni lancier og Danir líti dansinn eins og hverja aðra skemmtun. Hann tengist því þegar fólk vilji gleðjast, til dæmis fagna því að hafa lokið stúdentsprófi. Inger Damsholt hefur kannað viðhorf danskra menntaskólanema. Í ljós kemur að tvær ástæður eru fyrir því að þeir dansa lancier: vitneskjan um að þeir séu að viðhalda hefð og áhugi á að nútímavæða dansinn.

Af þessari frásögn á jp.dk má ráða að það var vel við hæfi hjá Palludan-sendiherrahjónunum að bjóða gestum til veislu og kenna þeim jafnframt að dansa lancier. Þau lögðu með því rækt við hefð sem hvergi hefur varðveist nema í Danmörku. Víst er að margir íslensku gestanna lærðu lancier og dönsuðu hann glæsilega. Hvort þeir hafi haldið sér í þjálfun veit ég ekki. Veislurnar eru hins vegar ógleymanlegar þeim sem til þeirra var boðið.