Dagbók: október 2013
Fimmtudagur 31. 10. 13
Á vefsíðunni visir.is segir í dag:
„Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra frá 2009 en lét af embætti við stjórnarskiptin í vor. Hann kannast ekki við að stjórnvöld hafi átt í neinu samstarfi við NSA [Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna]. „Ekki neitt. Ég veit engin dæmi þess að í utanríkisráðuneytinu hafi átt í neinu samstarfi við NSA. Og satt að segja var ég nú á þeim túnbleðli að ég var víðsfjarri því að hægt sé að segja að Ísland hafi verið upp í rassgarnarenda þessara stofnana Bandaríkjanna,“ segir Össur.
Össur telur engar líkur á að meint samstarf hafi getað átt sér stað án þess að utanríkisráðuneytið og innanríkisráðuneytið hefðu um það vitneskju.
„Ég tel að það hefði ekki verið hægt að eiga neitt slíkt samstarf á síðasta kjörtímabili án þess að ég eða þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, myndu af því vita.“
Visir.is ber þetta mál undir Össur vegna þess að fréttir eru um náið samstarf milli leyniþjónustustofnana í ýmsum Evrópulöndum við NSA. Það er vert að hafa í huga í umræðum um stöðu Íslands að hér á landi starfar engin leyniþjónusta. Íslensk stjórnvöld eru einfaldlega ekki gjaldgeng á þessum vettvangi. Össur og Ögmundur vita þetta.
Hefur Gunnar Bragi Sveinsson ekki verið upplýstur um stöðu mála?
Miðvikudagur 30. 10. 13
Jón Gnarr sagðist ekki ætla að bjóða sig fram að nýju til borgarstjórnar. Þá verður flokkur hans ekki til lengur heldur fellur inn í Bjarta framtíð. Það er því allt gert af Jóni og félögum hans til að þeir verði ekki dæmdir af verkum sínum í komandi kosningum.
Samfylkingin býður hins vegar tvo flokka í komandi borgarstjórnarkosningum. Má segja að R-listasamstarfið hafi snúist í andhverfu sína. Tími glundroðakenningarinnar kemur að nýju.
Þriðjudagur 29. 10. 13
Í hádegi á þriðjudögum er unnt að fara í Epiphany-kirkjuna í hjarta Washington og hlýða á 50 mínútna tónleika í boði kirkjunnar. Að þessu sinni lék Francesca Anderegg á fiðlu og Brent Funderburk á píanó - frábærir tónlistarmenn.
Þaðan lá leiðin að Dupont Circle í hina frægu bókabúð og kaffihús Kramerbooks & afterwords og loks í málverkasafnið The Phillips Collection. Þar er einstök sýning á verkum Van Goghs - Repetitions - það er endurtekningar, sýnd eru málverk þar sem listamaðurinn glímir oftar en einu sinni við sama mótífið. Sýningin er mjög hugvitsamlega gerð.
Það sannaðist tvisvar í dag úti á götu í Washington að heimurinn er lítill. Fyrst snemma í morgun þegar kallað var á Rut og skokkandi kom islensk stúlka á leið til vinnu sinnar. Síðdegis stóðum við á strætisvagnastöð og töldum smápeninga þegar fram hjá renndi bíll með kunnuglegt andlit í afturglugga, bílstjórinn ók fyrir horn og út úr bílnum steig íslenskur prófessor í rannsóknarleiðangri.
Mánudagur 28. 10. 13
Það hefur verið eins og besti sumardagur í Washington í dag. Þægilegt gönguveður. Við erum nærri George Washington-háskólanum og fór ég þangað í dag. Miklar framkvæmdir eru á svæðinu og greinilega unnið að því að stækka eða endurbæta skólann.
Sunnudagur 27. 10. 13
Smithsonian sýningarsalirnar og það sem þeir geyma er engu líkt og stærðin á öllu svo mikil að með ólíkindum er. Þótt við værum þarna allan daginn fengum við aðeins nasajón af því sem í boði er.
Hvergi er krafist aðgangseyris og á sunnudegi voru foreldrar með börn á öllum aldri að kynna sér allt milli himins og jarðar og raunar meira en það, safnið sem hýsir allt er tengist geimferðum er hið vinsælasta á svæðinu auk náttúruminjasafnsins.
Laugardagur 26. 10. 13
Föstudagur 25. 10. 13
Tuttugu bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 2014, sem fram fer þann 16. nóvember næstkomandi. Þá tilkynnti stjórn Varðar fimmtudaginn 24. október að allir flokksbundnir sjálfstæðismenn í Reykjavík hefðu atkvæðisrétt í prófkjörinu. Var tímabært að ákveða það daginn áður en framboðsfresti lauk. Í tilkynningu Varðar um kosningaréttinn sér:
„Vegna ákvörðunar sem tekin var á síðasta fulltrúaráðsfundi [Varðarfundi], þann 19. september síðastliðinn, um að einungis fullgildir félagsmenn (þ.e. þeir sem greitt hafa félagsgjöld) megi greiða atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014 komu upp álitamál sem snéru að því hverjir væru á kjörskrá.
Yfirkjörstjórn Varðar beindi því erindi til stjórnar Varðar og miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins. Á meðal þess sem fram kom í svari miðstjórnar var að líta beri svo á að þeir félagsmenn sem, einhverra hluta vegna, eru ekki inntir eftir greiðslu á félagsgjaldi frá sínum félögum, og teljist þar af leiðandi ekki vera í vanskilum með félagsgjöld, hafi þáttökurétt í prófkjörinu.
Á grundvelli svars miðstjórnar hefur yfirkjörstjórn Varðar ákveðið að þeir félagsmenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem ekki eru í vanskilum vegna félagsgjalda séu á kjörskrá. Í samræmi við svar miðstjórnar lítur yfirkjörstjórn Varðar svo á að þótt félagsmaður hafi ekki greitt valkröfu í heimabanka þá sé viðkomandi ekki í vanskilum. Þar sem um valkvæðar greiðslur er að ræða er ljóst að enginn félagsmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík stendur í vanskilum á þeim.“
Þetta er fumleg leið til að komast hjá því að framkvæma skilyrðið sem samþykkt var á fundinum 19. september en samþykktin var gerð að tillögu þeirra sem urðu undir á fundinum þegar greidd voru atkvæði um tillögu um svonefnt leiðtogakjör borgarstjóraefnis. Í reiði vildu þeir þrengja rétt manna til þátttöku í prófkjörinu með skilyrðinu um greiðslu félagsgjalds til að öðlast kosningarétt. Nú hefur verið ákveðið að enginn flokksmaður í Reykjavík sé í vanskilum annars vegar vegna þess að félagsgjöld séu ekki innheimt og hins vegar vegna þess að greiðslur í heimabanka séu valkvæðar.
Fimmtudagur 24. 10. 13
The Guardian upplýsti í kvöld að bandarískar njósnastofnanir hefðu hlerað síma 35 ónafngreindra alþjóðlegra ráðamanna. Í Noregi tóku menn strax að velta fyrir sér hvort sími ráðamanna þar í landi hefði verið hleraður. Þar segja tveir sérfræðingar að þeir yrðu ekki undrandi að í ljós kæmi að bandarísk yfirvöld vildu vita meira um sjónarmið norskra stjórnvalda en kynnast megi í fjölmiðlum. Þriðji sérfróði fræðimaðurinn er annarrar skoðunar. Hann heldur að ekkert nógu spennandi gerist í Noregi til að vekja áhuga bandarískra hlerara.
Spyrja má um Ísland: Hleraði Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) síma Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar eða Össurar Skarphéðinssonar? Þarf ekki að leita svara við þessu – eða hvort símar núverandi ráðamanna eru hleraðir?
Áhugi á hlerunum hvarf á alþingi eftir að Ögmundur Jónasson varð dómsmála- og síðar innanríkisráðherra. Það liggur þó fyrir að lögregla hefur aldrei stundað jafnvíðtækar hleranir hér á landi en í stjórnartíð hans og Jóhönnu Sigurðardóttur. Áhugi þingmanna á hlerunum snerist raunar aldrei um samtímann heldur það sem gerðist fyrir 50 til 70 árum.
Jón Baldvin Hannibalsson og Árni Páll Árnason sögðu síma sína hafa verið hleraða þegar þeir störfuðu í utanríkisráðuneytinu. Málið var rannsakað án þess að nokkuð grunsamlegt kæmi í ljós – það skyldi þó ekki hafa verið NSA sem hleraði síma þeirra?
Miðvikudagur 23. 10. 13
Í dag ræddi ég við Halldór Halldórsson, fyrrv. bæjarstjóra á Ísafirði, í þætti mínum á ÍNN. Hann hefur boðið sig fram í forystusæti á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík. Eins og áhorfendur munu kynnast er Halldór gjörkunnugur sveitarstjórnarmálum og hefur skýra sýn á hvert skuli stefna fyrir utan mikla reynslu af að leiða fólk saman. Næst er þátturinn sýndur á miðnætti og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.
Í samtalinu segist Halldór Halldórsson vera sammála Jóni Gnarr borgarstjóra um mannréttindamál en hann viti ekki hvort þeir séu sammála um sveitarstjórnarmál því að hann hafi ekki heyrt hann tala um þau!
Það er sérkennilegt að lesa rök stuðningsmanna Jóns Gnarrs fyrir ágæti hans í embætti borgarstjóra. Árni Matthíasson á Morgunblaðinu segir til dæmis í blaðinu í dag:
„Sú nýlunda að vera með borgarstjóra sem er borgarstjóri Reykjavíkur, en ekki höfuðborgarstjóri, sú nýlunda að maðurinn í brúnni sé að vinna fyrir borgarbúa fyrst og fremst, hefur að vonum vakið pirring andstæðinga Besta flokksins, en einnig óánægju utan borgarinnar, þar sem menn hafa verið duglegir að krefja borgina um hitt og þetta smálegt fyrir það að vera höfuðborg. Sú togstreita á milli borgar og landsbyggðar birtist svo í því að stjórnmálamenn stefna til borgarinnar, flytja jafnvel lögheimili um „stundarsakir“ til Reykjavíkur til að seilast þar til valda og þá væntanlega færa borgina í gamalkunnan búning höfuðborgar sem er svo mikil höfuðborg að hún tekur ekki tillit til íbúa sinna.“
Árni ætlar greinilega að sneiða að Halldóri Halldórssyni en skrifar á þann hátt að óskiljanlegt er þótt fyrr í grein sinni hafi hann rætt um gildi þess að stjórnmálamenn tali mannamál. Þá einkennir það málflutning þeirra sem hefja Jón Gnarr til skýjanna að þeir geta lítið úr þekkingu og reynslu á sviði sveitarstjórnarmála. Þetta er andkannaleg afstaða en óhjákvæmileg fyrir þá sem mæla með borgarstjóra sem svarar út í hött þegar hann er spurður um úrlausnarefni á verksviði hans.
Þriðjudagur 22. 10. 13
Í kvöld var sýnd í Svt1 ný mynd Our Nixon sem er að uppistöðu tekin af þremur nánustu samstarfsmönnum Richards Nixons í Hvíta húsinu, H.R. Haldeman, John Ehrlichman and Dwight Chapin. Þeir höfðu Super 8 kvikmyndavélar með sér á vinnustað og ferðalögum. Auk myndanna eru birtir kaflar úr upptökum af samtölum við Nixon. Þessar filmur voru allar gerðar upptækar fyrir 40 árum, gleymdust en eru nú aðgengilegar og er kvikmyndin nýkomin til sýninga. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna eins og sjá má hér.
Guðlaugur Gylfi Sverrisson framsóknamaður skrifar um slaka stöðu Framsóknarflokksins á vefsíðuna Pressuna í dag. Hann segir meðal annars:
„Fjölmiðlar hafa reynt, meðvitað eða ómeðvitað, að gera lítið úr framsóknarmönnum sem heild í mörg ár. Samkvæmt fjölmiðlum og sérstaklega hjá föstum pistlahöfundum, þykir sjálfsagt að gera lítið úr fulltrúum Framsóknarflokksins. Þá er það gert á þeim nótum að framsóknarmenn séu almennt erki-aular. Þeir gangi fyrir mútum, fyrirgreiðslu, helmingaskiptum, elski kindur meira en sjúklinga, séu á móti framförum, einangrunarsinnar, ómenntaðir, opnir í báða enda, steli fiskinum frá þjóðinni, séu náttúrusóðar og á móti umhverfisráðuneytinu, auðvaldsrónar, Finnur og Halldór, virkjunarsinnar, hækja íhaldsins, landsbyggðarflokkur og þ.a.l. á móti höfuðborginni, kjördæmapotarar og það sem er nýjast, að framsóknarmenn séu þjóðernissinnar líkt og fasistar voru í Evrópu á millistríðsárunum. Þarna eru fjölmiðlar með DV í fararbroddi komnir ansi langt í að hlutgera framsóknarmenn sem einhverskonar nýnasista, vegna áhuga flokksins á íslenskri menningu og trú flokksmanna á getu landsmanna til að vinna sig út úr þeim vanda sem Íslandi er í. Þær eru ófáar greinarnar og skopmyndirnar þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur fengið það óþvegið vegna trúar hans á getu landsins og íbúum þess.“
Fréttakona ríkisútvarpsins var í miklu uppnámi á Arnarhóli í dag þegar hún kom beint inn í hádegisfréttir og sagði frá mótmælum Gálgahraunvina og bréfi til innanríkisráðherra sem var á Austfjöðrum. Fréttakonan sagði að sér þætti bara nógu margt fólk á hólnum og vonaði greinilega að hún gæti flutt söng þess í fréttatímanum. Í raun var þetta allt mjög „ófréttalegt“ mátti frekar halda að þátttakandi í mótmælunum flytti boðskap sinn.
Mánudagur 21. 10. 13
Helgi Helgason stjórnmálafræðingur ritar grein um Schengen-samstarfið í Morgunblaðið í dag og segir meðal annars: „Schengen líkt og EES er stjórnarskrárbrot. Þessi fullyrðing er ekki bara frá mér komin. Þetta er álit þáverandi forsætisráðherra þegar við gengum í Schengen og þetta er álit manna eins og Össurar Skarphéðinssonar.“ Áður en Íslendingar gerðurst aðilar að EES-samningnum og Schengen-samstarfinu voru lögfróðir menn fengnir til að meta hvort aðildin bryti í bága við stjórnarskrána og töldu þeir svo ekki vera enda hefði ekki komið til aðildarinnar ef svo hefði verið talið.
Þá segir Helgi:
„Við vitum að fyrir Schengen þreifst ekki mansal á Íslandi, skipulögð glæpastarfsemi var nánast ekki til, fáir fangar voru útlendir glæpamenn, fíkniefni voru tæpast framleidd í stórum stíl í landinu. Og nú er það nýjasta nýtt, erlendir útigangsmenn eru orðnir svo ágengir að íslenskir útigangsmenn fá ekki lengur pláss í gistiskýlum ætluðum þeim (DV. 28.8. 2013). Á maður að hlæja eða gráta?“
Þetta eru stór orð. Að kenna Schengen-samstarfinu um þetta ástand ber ekki vott um mikla þekkingu á eðli þess annars vegar og á EES-samstarfinu hins vegar. Réttur fólks til að dveljast hér á landi ræðst af EES-aðildinni en ekki Schengen-samstarfinu. Þeir sem Helgi amast við í grein sinni hafa rétt til að dveljast hér hvað sem líður Schengen-aðildinni.
Helgi ætti að kynna sér umræður á Bretlandi um komum fólks þangað frá ESB-ríkjum en Bretar hafa ekki gerst aðilar að Schengen.
Greini menn ekki vandann rétt komast þeir að rangri niðurstöðu. Að telja það Schengen-aðild að kenna að Reykjavíkurborg hefur undir stjórn Jóns Gnarrs minnkað þjónustu við útigangsmenn sýnir ógöngur Helga Helgasonar.
Sunnudagur 20. 10. 13
Á ensku segja menn wake-up-call og á íslensku að menn vakni við vondan draum en ákveði að gera betur með sérstöku átaki. Þetta kemur í hugann þegar tölur um fylgi stjórnarflokkanna eru kynntar og Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Það verður spennandi að sjá hvernig forysta ríkisstjórnarinnar tekur á málum og hvað sjálfstæðismenn í Reykjavík gera.
Mörgum þykir furðulegt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skuli velja þennan tíma núna til að taka sér frí. Umræður um fjarveru hans hafa þó í raun verið litlar miðað við það sem orðið hefði í öðrum löndum gerðist eitthvað sambærilegt þar. Þegar rætt var um stjórnaferil Nicolas Sarkozys Frakklandsforseti hvíldi sá skuggi alltaf yfir honum að hafa farið í frí á snekkju auðkýfings á Miðjarðarhafi strax eftir að hafa náð kjöri. Var það talið meðal helstu skýringa á því að Sarkozy náði ekki endurkjöri árið 2012.
Til umræðu hefur verið að Halldór Halldórsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, færi í prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hann segir í viðtali við mbl.is í dag:
„Nú er ég að reyna að átta mig betur á leikreglunum í prófkjörinu, en mér finnst þær ekki liggja alveg skýrar fyrir eins og er. Fulltrúaráðið samþykkti að skilyrði fyrir þátttöku í prófkjörinu væri að viðkomandi hefði greitt félagsgjöld, og miðstjórn hefur túlkað þær reglur á ákveðinn hátt. Í mínum huga er þetta þó frekar óljóst ennþá. Það væri óþægilegt að fara í prófkjörsbaráttu um ákveðið sæti þegar leikreglurnar eru ekki alveg skýrar í mínum huga.“
Þessi orð koma heim og saman við það sem áður hefur komið fram hér á síðunni. Þessi vandræðagangur forystumanna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lofar ekki góðu fyrir framhaldið.
Laugardagur 19. 10.13
Í fréttum ríkisútvarpsins í dag var sagt að Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, teldi ekki boðlegt að alþingi skipaði rannsóknarnefndir sem kostuðu mikla fjármuni, um óskýr verkefni. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins ætlaði að endurskoða lög um rannsóknarnefndir.
Fréttastofan sagði að skýrsla um Íbúðalánasjóð sem kom út í sumar hefði átt að kosta 70 milljónir en kostaði 250 milljónir. Þá væri skýrsla um sparisjóðina væntanleg. Einar K. Guðfinnsson forseti Alþingis segði að áður en gengið yrði lengra í öðrum rannsóknum þyrfti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að komast að niðurstöðu um það hvernig slíkum málum skyldi háttað. Í sumum tilfellum gæti reynst óþarft að skipa nefndir, frekar væri hægt að leita til ríkisendurskoðunar eða umboðsmanns alþingis. Þingforseti sagði:
„Það er alveg ljóst að við verðum að læra af þessari reynslu. Þetta getur ekki gengið svona áfram, Við sjáum til dæmis með sparisjóðina og Íbúðalánasjóð að þau verkefni voru skilin eftir galopin að hálfu alþingis. Það sjá allir að það getur ekki gengið.“
Þessi frétt minnir á að alþingi hefur lokaeftirlit með opinberum eftirlitsmönnum og rannsakendum. Alþingi setur þeim einnig erindisbréf og ákveður fjárveitingarnar. Af orðum þingforseta má ráða að hann telur erindisbréfin hafa verið of óljós, veitt rannsakendum of rúmar heimildir auk þess sem við blasir að nefndum hefur verið afhent auð ávísun á skattgreiðendur. Farið hefur verið langt út fyrir þann fjárhagsramma sem settur var þeim sem höfðu það hlutverk að kanna meðferð annarra á opinberu fé.
Föstudagur 18. 10. 13
Í morgun klukkan 08.10 var útgáfuhóf á vegum Aflsins, félags qigong iðkenda, í tilefni af útgáfu bókarinnar Gunnarsæfingarnar. Hittumst við tæplega 60 manns í Von, húsi SÁÁ við Efstaleiti, þar sem ég kynnti bókina.
Í fyrsta sinn hefur verið gefin út bók á íslensku um qigong, mörg þúsund ára gamlar kínverskar lífsorkuæfingar sem njóta sívaxandi vinsælda um heim allan. Bókin heitir Gunnarsæfingarnar og er þar vísað til æfingakerfis sem Gunnar Eyjólfsson, leikarinn þjóðkunni, hefur þróað og hundruð Íslendinga hafa stundað í tæpa tvo áratugi.
Qigong-æfingar eru reistar á agaðri öndun, öguðum líkamsburði og agaðri hugsun. Æfingarnar styrkja ónæmiskerfið. Með andlegu og líkamlegu jafnvægi eykst orka og heilbrigði. Æfingarnar milda sársauka og skapa viðnám gegn sjúkdómum. Með því að iðka qigong má létta daglegar áhyggjur og draga úr spennu, skapa gleði og hugarró.
Í bókinni er æfingakerfi Gunnars Eyjólfssonar lýst. Allir geta stundað Gunnarsæfingarnar, einnig þeir sem eru veikburða eða eiga erfitt með hreyfingu. Gunnar hefur um árabil leitt hugleiðslu hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Af bókinni má læra hugleiðsluæfingar Gunnars. Þar er einnig sagt frá vaxandi áhuga á hugleiðslu meðal heilbrigðisstarfsmanna.
Höfundar eru Gunnar Eyjólfsson og Þorvaldur Ingi Jónsson auk mín.
Útgefandi er Aflinn félag qigong iðkenda á Íslandi. Félagið kynnir qigong og félagar æfa saman reglulega eins og sagt er frá í bókinni. Bókaútgáfan Salka annast dreifingu bókarinnar.
Fimmtudagur 17. 10. 13
Engar tímasetningar stóðust af hálfu þeirra sem settu ESB-umsóknina af stað, sögðu hana fara hraðbyri í gegnum báknið í Brussel og í síðasta lagi yrði greitt um hana þjóðaratkvæði fyrir árslok 2012. Ekkert af þessu stóðst og ekki hafði verið tekið til við að ræða hin eiginlegu ágreiningsmál þegar ESB-ríkisstjórnin féll í kosningum og and-aðildarsinnar fengu góðan byr sem fleytti þeim inn í stjórnarráðið.
Þeir sem aldrei vildu ræða þessar tímasetningar aðildarsinna fyrir kosningar hafa eftir þær fest sig í umræður um tímasetningar vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram ESB-umræðunum eftir að á þeim hefur verið gert hlé. Þetta tal um tímasetningu eftir að viðræðum hefur verið hætt er í raun hlægilegt. Hver ætlar að flytja tillögu um að taka upp viðræðuþráðinn að nýju? Hvaða stjórnmálamaður er svo skyni skorpinn að hann telji sér til framdráttar að feta í fótspor Samfylkingarinnar sem lenti í „hamförum“ í þingkosningunum?
Miðvikudagur 16. 10. 13
Nú er mánuður þar til gengið verður til prófkjörs meðal sjálfstæðismanna í Reykjavík til að velja fulltrúa á listann vegna borgarstjórnarkosninganna vorið 2014. Mikið er í húfi vilji flokkurinn bjóða skýran kost gegn Besta flokknum og Samfylkingunni. Enn er hins vegar óljóst hvernig prófkjörinu verður háttað. Þegar ákveðið var að hafa almennt prófkjör en ekki svonefnt leiðtogaprófkjör eins og forystumenn í Verði, fulltrúaráði flokksins, lögðu þeir sem töpuðu atkvæðagreiðslunni til að kosningaréttur í prófkjörinu yrði þrengdur með því að binda hann við þá sem greitt hafa félagsgjöld. Þetta nýmæli var samþykkt að því er virðist án mikilla umræðna.
Meðal þeirra sem láta sig þetta prófkjör varða innan Sjálfstæðisflokksins er enn óljóst hvernig að því verður staðið, hvort það verður í raun „þröngt“ eða „opið“. Þeir sem vilja þrengja rétt Reykvíkinga til þátttöku í prófkjörinu tengjast þeim öflum sem hafa skapað sér aðstöðu í krafti hverfafélaga flokksins í borginni. Þykir mörgum sérkennilegt að þeir sem telja sig vera í bestum tengslum við grasrótina meðal borgarbúa skuli vilja reisa þröskuld þegar kemur að þátttöku í prófkjörinu.
Þess er að vænta að næstu vikur færist aukin spenna í þennan þátt kosningaundirbúnings sjálfstæðismanna. Skiptir flokkinn miklu hvernig að þessum þætti málsins verður staðið því að hann skiptir miklu til að auðvelda flokksmönnum að stilla saman strengina í baráttunni vorið 2014.
Þriðjudagur 15. 10. 13
Fyrir tæpum fimm árum varð dálítið uppnám þegar trúnaðarskjal úr norska sendiráðinu á Íslandi birtist í fjölmiðlum í Noregi. Þar var lýsing sendiherra Noregs á Íslandi á hádegisverði með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í danska sendiráðinu. Myndin sýndi forsetann í miklum ham. Hann hjó á báða bóga.
Þessi atburður rifjaðist upp við lestur greinar sem birtist í norska blaðinu Klassekampen um ráðstefnuna sem Ólaf Ragnar skipulagði um norðurslóðir í Hörpu án þess að setja norska embættismenn á mælendaskrá. Sagt er frá greininni á Evrópuvaktinni. Norski stjórnmálafræðingurinn sem skrifar hana veltir fyrir sér hvort Norðmenn hafi ekki átt upp á pallborðið vegna þess að þeir hafi gert á hlut Íslendinga í Norðurskautsráðinu.
Vangaveltur í þessa veru eru mun algengari í erlendum fjölmiðlum en íslenskum. Rétt er hjá norska greinarhöfundunum að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra brást mjög illa við þegar fimm af átta ríkjum í Norðurskautsráðinu tóku að ráða ráðum sínum án þess að bjóða íslenskum fulltrúa til fundarins. Ekki batnaði skap Össurar við að ákveðið var að skrifstofa Norðurskautsráðsins yrði í Tromsö en ekki á Íslandi eins og hann vildi. Reiði hans í garð Norðmanna birtist meðal annars í ásökunum um að þeir stjórnuðu aðför ESB í garð Íslendinga í makríldeilunni.
Hafi það ráðist af óvild að norskir embættis- eða stjórnmálamenn voru ekki á mælindaskrá á norðurslóðaráðstefnunni í Hörpu kemur það Íslendingum örugglega almennt á óvart. Hitt er undarlegra fyrir Íslendinga hve lítinn áhuga Norðmenn sýndu knattspyrnuleiknum í kvöld sem markaði þáttaskil í íslenskri knattspyrnusögu.
Mánudagur 14. 10. 13
Sérstaða talsmanns neytenda hefur löngum verið verið nokkur frá því að það var stofnað með lögum frá 2005. Talsmaðurinn hefur oftar en ekki til dæmis lýst allt öðrum lagaskilningi en aðrir lögfræðingar. Nú hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra lagt fram frumvarp til laga um að embættið hverfi úr sögunni. Í greinargerð með frumvarpinu segir meðal annars:
„Í skýrslu þriggja stofnana Háskóla Íslands, sem gefin var út í maí 2008 undir heitinu Ný sókn í neytendamálum, var fjallað um skipulag og yfirstjórn neytendamála. Í skýrslunni var m.a. tekið fram að æskilegt væri að sníða vankanta af núverandi fyrirkomulagi og væri það til þess fallið að styrkja neytendavernd hér á landi. Þar segir jafnframt á bls. 231 að „[n]úverandi fyrirkomulag – að hið opinbera haldi annars vegar úti Neytendastofu og hins vegar embætti talsmanns neytenda – er til þess fallið að skapa nokkurn rugling, bæði meðal neytenda um það hvert skuli leita, svo og um aðgreiningu verksviðs hvorrar stofnunar fyrir sig. Með hliðsjón af því, svo og stærð lands og þjóðar, virðist skynsamlegra að stefna að því að reka eina og sterka opinbera stofnun á sviði neytendamála.“
Eins og segir í gildistökuákvæði er gert ráð fyrir að verkefnum sem nú er sinnt af embætti talsmanns neytenda verði í framtíðinni sinnt af Neytendastofu. Reynslan hefur sýnt að mjög óhagkvæmt er að reka stofnun með eingöngu einum starfsmanni, sem á að sinna öllu í senn, rekstrarlegum þáttum, öflugri faglegri starfsemi, halda úti upplýsingagjöf til almennings og rekstur heimasíðu. Því er með þessari tillögu verið að styrkja málaflokkinn. Tilgangurinn er fyrst og fremst hagræðing og einföldun en nokkuð hefur borið á því að neytendur rugli saman embætti talsmanns neytenda og Neytendastofu og átti sig ekki á hlutverki stofnananna.“
Allt er þetta kurteislega orðað enda ekki ástæða til annars. Hið undarlega er hvers vegna ekki var strax á árinu 2008 ákveðið að stíga það skref sem nú er stigið. Var ekki sagt að stjórnmálamenn hefðu átt að læra af hruninu að fara að faglegri ráðgjöf? Þrátt fyrir álit þriggja háskólastofnana um hið gagnstæða hefur embætti talsmanns neytenda lifað í fimm ár á kostnað skattgreiðenda.
Sunnudagur 13. 10. 13.
Jarðskjálftinn í morgun (4,8 stig undan Reykjanestá) fannst greinilega í Fljótshlíðinni. Síðar tók ég eftir að rammi af mynd sem hékk á vegg hafði dottið og glerið brotnað. Þetta rakti ég til skjálftans.
Í dag flutti breski rithöfundurinn og blaðamaðurinn John O'Sullivan fróðlegt erindi um Margaret Thatcher í Háskóla Íslands á vegum RNH og SUS. Hann var vinur og samstarfsmaður Thatcher í forsætisráðherratíð hennar og eftir það. Hann skrifaði fyrir hana ræður og aðstoðaði hana við ritun sjálfsævisögu hennar í tveimur bindum. Thatcher hóf ritun sjálfsævisögunnar rúmu hálfu ári eftir að hún var hrakin úr embætti forsætisráðherra. Við brottvísunina lagðist hún í þunglyndi og stuðlaði O‘Sullivan að bata hennar með þátttöku í ritun sjálfsævisögunnar. Hann er kaþólskrar trúar, og árið 2006 gaf hann út bókina The President, the Pope, and the Prime Minister um þátt Thatcher, Ronalds Reagans og Jóhannesar Páls II. páfa í því að fella kommúnismann.
Laugardagur 12. 10. 13
Fregnir frá hringborði norðurslóða í Hörpu, þar sem um 1.000 manns hafa setið í dag, herma að í ávörpum erlendra forystumanna hafi komið fram mikil aðdáun á dugnaði Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, við að kalla allan þennan hóp saman í því skyni að ræða norðurslóðamálefni.
Á vefsíðunni Alaska Dispatch er sagt frá hringborðinu, Arctice Circle, og jafnan tekið fram að útgefandi Alaska Dispatch, Alice Rogoff, sé frumkvöðull að þessu framtaki með Ólafi Ragnari. Alice Rogoff er gift David Mark Rubenstein, bandarískum fjármálamanni sem er best þekktur sem annar stofnenda The Carlyle Group, fjárfestingafyrirtækis. Á lista Forbes yfir auðugustu Bandaríkjamenn á árinu 2013 er nettóvirði Rubensteins talið vera 3 milljarðar dollara.
Alaska Dispatch kom til sögunnar sem fréttablogg árið 2008. Alice Rogoff, fyrrverandi fjármálastjóri vikuritsins U.S. News & World Report, keypti meirihluta bréfa í fyrirtækinu á bakvið vefsíðuna árið 2009 og flutti starfsemina í flugskýli á Merrill Field flugvellina við Anchorage þar sem Rogoff, fullnuma flugmaður, geymir einnig Cessna 206 fugvél sína. Eftir að Rogoff eignaðist vefsíðuna hefur fjölgað starfsliði við hana.
Í frétt Alaska Dispatch af ráðstefnunni var sagt að boð um þátttöku í hringborðinu hefði ekki vakið áhuga alríkisstjórnarinnar í Washington, hins vegar kæmi frammáfólk frá Alaska.
Það sannast enn við þennan atburð hve Ólafur Ragnar hefur mikla hæfileika til að vekja áhuga auðugs fólks á hugðarefnum sínum og hve auðvelt honum er að eiga samstarf við þetta fólk. Þessu kynntust Íslendingar á heimavelli á tímum útrásar.
Á Alaska Dispatch má sjá fréttir af hringborðinu eða í tengslum við það. Þar á meðal þessa frétt sem endursögð var á Evrópuvaktinni.
Föstudagur 11. 10. 13
Í morgun var dagskrá DR1 komin á sinn stað í Morgunblaðinu og er það fagnaðarefni fyrir þá sem fylgjast með höfuðrás danska sjónvarpsins. Það hlýtur að vera vandasamt að velja þær stöðvar sem á að kynna á síðum íslenskra dagblaða. Dagskrá færeyska sjónvarpsins er til dæmis forvitnileg.
Viðtal mitt við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á ÍNN hinn 9. október er komið á netið og má sjá það hér.
Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri fjármálaeftirlitsins, ritar athyglisverða grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann ræðir um hvernig haldið hefur verið á stjórn mála í landinu frá því að eftir að bankarnir urðu gjaldþrota.
Hann segir meðal annars:
„Við frágang á efnahagsreikningum bankanna haustið 2009 var kröfuhöfum þeirra »seldur« yfirgnæfandi hlutur í Íslandsbanka (95%) og Arion (87%), en íslenska ríkið hefur nú eignast Landsbankann að nánast öllu leyti. Bankarnir hafa hagnast verulega á þessum tíma og eigið fé þeirra styrkst að sama skapi - eða um 140 milljarða í tilviki Íslandsbanka og Arion. Ávinningur kröfuhafa er því töluverður og spyrja má hvort ríkið hafi »selt« á of lágu verði.“
Þessi orð hníga í sömu átt og málflutningur Ásgeirs Jónssonar hagfræðings þegar hann lýsir mistökunum sem gerð voru við stjórn fjármála ríkisins undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar.
Fimmtudagur 10. 10. 13
Nú er Morgunblaðið hætt að birta aðrar norrænar sjónvarpsdagskrár en þá sænsku. Eftir að dagskrá DR1 hætti að birtast í blaðinu varð að leita annarra leiða til að átta sig á hvað væri til sýnis á fyrstu rás danska ríkissjónvarpsins sem er föst fylgirás hjá sem hafa myndlykil frá Símanum. Hvers vegna skyldi ritstjórn Morgunblaðsins hafa minnkað þessa þjónustu við lesendur sína?
The Wall Street Journal sem er stærsta „alvarlega“ dagblað Bandaríkjanna ber nafn sitt vegna þess að það varð upphaflega til í kringum tölur um viðskipti á Wall Street. Dragi dagblöð úr vissri grunnþjónustu við lesendur fækkar þeim sem sjá ástæðu til að kaupa eða lesa blaðið daglega. Þegar fjölbreytni hefur aukist í aðgangi fólks að sjónvarpsstöðvum eykst ástæða fyrir dagblöö eða vikublöð til að leggja sig eftir þessum dagskrám og birta þær auk þess að leggja sig fram um kynningu á góðu efni sem þar er að finna innan lands og utan.
Nú er hafin sýning á fjórðu lotu þáttaraðarinnar Downton Abbey og eru þættirnir sýndir á sunnudagskvöldi. Á vefsíðu The Daily Telegraph á mánudögum er ítarlega fjallað um þáttinn kvöldið áður og lagt mat á hann og ber sá texti með sér að frásögninni séu gerð áberandi skil i prentaðri útgáfu blaðsins.
Miðvikudagur 09. 10. 13
Í kvöld ræði ég við Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í þætti mínum á ÍNN. Við ræðum meðal annars hvernig er að starfa í einu ráðuneyti með tveimur ráherrum. Þetta er eitt af furðuverkunum sem urðu til við stjórnarráðsbreytingu Jóhönnu Sigurðardóttur. Þarna er einn ráðuneytisstjóri og einn fjármálastjóri og þeir bera embættislega ábyrgð á ráðstöfun á helmingi fjárlaga um 250 milljörðum króna – hin pólitíska ábyrgð er hins vegar tvískipt.
Þyki þetta til marks um skref til að að styrkja ábyrgð og skilvirkni við stjórnun er það eftir bókum sem ég hef ekki lesið. Ég spyr Kristján Þór meðal annars að því hvort embættismönnum sé ljóst undir hvaða ráðherra eigi að bera mál til endanlegrar ákvörðunar. Hann telur að bærilega hafi tekist að greiða úr flækjum sem kunna að myndast.
Samtal okkar Kristjáns Þórs má sjá klukkan 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.
Þriðjudagur 08. 10. 13
Nú er unnt að horfa á viðtal mitt á ÍNN við Erlend Sveinsson, forstöðumann Kvikmyndasafns Íslands, á netinu eins og sjá má hér.
Barack Obama Bandaríkjaforseti efndi til blaðamannafundar í dag til að ræða stöðu bandarískra ríkisfjármála eftir að útgjaldabann alríkisstjórnarinnar hefur staðið í rúma viku vegna ágreinings á þingi um fjárútlát vegna Obamacare, heilbrigðiskerfisins sem kennt er við forsetann.
Obama sagði að vissulega væri útgjaldabannið alvarlegt en hitt væri þó verra ef þingið samþykkti ekki að hækka það sem í Bandaríkjunum er kallað debt ceiling en er þó ekki skuldaþak heldur hitt að ríkissjóður Bandaríkjanna geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þriðja aðila. Obama sagði að skuldir ríkisins mundu ekkert hækka þótt þingið samþykkti að heimila þessar greiðslur. Yrði það ekki samþykkt væri voðinn hins vegar vís.
Það sannast á síðara kjörtímabili Obama sem sagt hefur verið að forseta geti þá verið mislagðari hendur en á hinu fyrra. Hann vandi sig oft ekki sem skyldi þar sem hann eigi ekki kosningar yfir höfði sér.
Mánudagur 07. 10. 13
Síðdegis efni RNH til málþings í tilefni af fimm ára afmæli hrunsins, þar flutti Ásgeir Jónsson hagfræðingur ræðu meðal annarra. Hann var ómyrkur í máli um stefnu og störf ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, henni hefði mistekist stjórn efnahagsmála í skjóli hafta. Réttar ákvarðanir hefðu verið teknar fyrir réttum fimm árum en eftir að ný stjórn kom til sögunnar 1. febrúar 2009 hefði hallað undir fæti.
Ásgeir efaðist um að rétt hefði verið að innleiða höftin haustið 2008 miðað við eftirleikinn og hve illa hefði gengið að losna við þau. Vond áhrif þeirra mögnuðust aðeins. Þá hefði verið rangt hjá ríkisstjórn Jóhönnu að afhenda Arion og Íslandsbanka kröfuhöfum, allur hagnaður af rekstri bankanna rynni til þeirra en nýttist ekki landsmönnum. Einnig hefði verið haldið ranglega á málum við töku ákvarðana um eignarhald ríkisins á Landsbanka Íslands.
Þetta er harður dómur, ekki síst yfir Steingrími J. Sigfússyni. Hann kemur hins vegar heim og saman við það sem sagt var frá í greininni í The Guardian um að kröfuhafarnir söknuðu Steingríms J. úr ráðherraembætti.
Sunnudagur 06. 10. 13
Hér á landi snúast fréttir um bankahrunið fyrir fimm árum mest um hvað gerðist í október 2008 þótt það hafi verið margrætt og grandskoðað bæði af nefndum, dómstólum og höfundum margra bóka. Á vefsíðu The Guardian sem er sögð þriðja mest lesna vefsíða dagblaðs í heiminum (á eftir síðu The Daily Mail og The New York Times) er sunnudaginn 6. október birt frásögn af því sem gerst hefur á Íslandi frá 2008 eins og lesa má hér.
Í greininni kemur meðal annars fram að erlendir kröfuhafar hafi vonað að Steingrímur J. og vinstri grænir sætu áfram í ríkisstjórn að kosningum loknum. Þeir hafi talið hlut sínum betur borgið undir hinni tæru vinstri stjórn en að fá Sigmund Davíð Gunnlaugsson í áhrifastöðu, Honum er lýst sem populista, lýðskrumara, í greininni og endurspeglar orðið viðhorf kröfuhafanna.
Greinarhöfundur telur að hina hörmulegu útreið vinstri stjórnarinnar megi rekja til hve illa hún hélt á Icesave-málinu. Hann minnist ekki á ESB-málið sem bendir til að í augum erlendra manna sé það brölt allt saman næsta óskiljanlegt úr því að stjórnarflokkarnir voru ekki samstiga í málinu.
Greinin í The Guardian fellur að þeirri skoðun sem lýst var hér á síðunni í gær um að mun forvitnilegra sé á þessum tímamótum að velta fyrir sér hvað gerst hefur í íslenskum stjórnmálum og efnahagsmálum á undanförnum fimm árum en því sem gerðist fyrir fimm árum.
Laugardagur 05. 10. 13
Þess er minnst á nokkrum fundum núna um helgina að fimm ár eru liðin frá hruni bankanna. Enginn atburður í Íslandssögunni hefur verið betur rannsakaður. Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, var ákærður og svaraði til saka fyrir landsdómi. Hann var sakfelldur fyrir formsatriði sem hafði í raun ekkert með hrun bankanna að gera. Meirihluti landsdóms túlkaði ákvæði stjórnarskrárinnar um ríkisstjórnarfundi á nýstárlegan hátt fyrir þá sem höfðu setið í ríkisstjórn eða skráð fundargerðir hennar.
Aðdragandi hrunsins var rannsakaður af nefnd á vegum alþingis. Nefndarmenn lögðu mikla áherslu á innlenda stjórnsýsluhlið málsins. Hvergi annars staðar hefur verið lögð jafnrík áhersla á opinbera stjórnsýsluhætti eins ríkis í umræðum um hinn alþjóðlega fjármálavanda.
Íslenskir bankar störfuðu í samræmi við evrópskar reglur og undanfarin ár hefur verið unnið að breytingum á þeim af því að þær reyndust gallaðar – hafi verið um stjórnsýsluvanda að ræða má rekja hann til EES-samningsins og reglna í samræmi við hann.
Viðbrögðin við hruninu fólust í neyðarlögunum sem hafa reynst heilladrjúg. Á fimm ára afmæli hrunsins er forvitnilegast að velta fyrir sér afleiðingum þess og hvernig ríkisstjórnin frá 1. febrúar 2009 hélt á málum.
Föstudagur 04. 10. 13
Vek athygli á lofsamlegri grein í The New York Times um Ísland eins og má sjá hér.
Stefán Ólafsson er prófessor við Háskóla Íslands. Hann heldur úti vefsíðu og sagði þar í dag (4. október):
„Ég hef lengi haft taugar til Evrópu. Þess vegna hrekk ég oft við þegar ég les skrif um Evrópu og ESB hér á landi. Þar er yfirleitt dregin upp svo hrikaleg mynd af einu og öllu sem evrópskt er.
Þegar fjallað er um kreppuna er eins og Evrópa standi öll í björtu báli – eða að allt sé að hrynja hjá þeim greyjunum!
Slíkar hörmungarfréttir af Evrópu, sem finna má hjá íslenskum þráhyggjubloggurum, ellibelgjum á Evrópuvaktinni og Hádegismóra á Mogganum, að ógleymdum æsingamönnum á ÍNN, hafa vakið mér óhug og áhyggjur af vinum mínum í Evrópu.“
Ég er annar „ellibelgjanna“ á Evrópuvaktinni. Þetta orðaval um okkur Styrmi Gunnarsson er hvorki til marks um mikla virðingu fyrir okkur né almennt þeim sem eru eldri en prófessorinn. Þyki slíkt orðbragð við hæfi af rjóma íslenskra menntamanna í Háskóla Íslands er ekki mikils af vænta af þeim sem minna mega sín gagnvart hinni einstöku elítu menntamanna.
Á Evrópuvaktinni er í dag birt frásögn af fundi menntamanna, embættismanna og stjórnmálamanna í Brussel þar sem þeir lýsa áhyggjum af Evrópusambandinu eins og lesa má hér. Hvaða uppnefni ætli Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, velji þeim sem þarna eru nefndir til sögu?
Fimmtudagur 03. 10. 13
Skýrt var frá því í dag að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, hefði tekið að sér að leiða Albani inn í Evrópusambandið. Blair rekur 200 manna fyrirtæki sem kemur á tengslum og greiðir úr flækjum sem kunna að koma til sögunnar við úrlausn erfiðra viðfangsefna auk þess sem Blair og félagar starfa sem einskonar almannatenglar fyrir þá sem þurfa að vinna sig í álit á alþjóðavettvangi.
Tony Blair var á blaðamannafundi í Tirana, höfuðborg Albaníu, í dag með sósíalistanum Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu. Óljóst er hvað ráðgjöf fyrirtækisins Tony Blair Associates kostar Albani. Rama gaf raunar til kynna að Blair ætlaði að sinna málefnum Albaníu sjálfur og persónulega sem flokksbróðurgreiða við sig.
Miðað við vandræðaganginn í ESB-aðildarviðræðunum fyrir Íslands hönd undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar er undarlegt að flokksbræðrum Blair hér á landi skyldi ekki hafa dottið í hug að kalla hann á vettvang til aðstoða sig við að komast inn fyrir gullna hliðið.
Hér stóðust engar tímasetningar og ESB-menn ýttu á undan sér að hefja viðræður um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Óvíst er að Blair hefði tekið að sér að vinna fyrir Össur og félaga, hann hefði orðið að kynna sér á hvern hátt var staðið að ESB-aðildarumsókninni og hefði að líkindum sagt sig frá verkinu eftir þau kynni. Það sækir nefnilega engin ríkisstjórn um aðild að ESB án þess að vilja verða aðili.
Miðvikudagur 02. 10. 13
Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í ræðu sinni í stefnuumræðunum á alþingi í kvöld að úttekt á örlögum sparisjóðanna kostaði 500 milljónir króna. Skýrsla um málið væri væntanleg. Hann vék einnig að skýrslu um Íbúðalánasjóð sem hefði verið rædd í stjórnarskrár- og eftirlitsnefnd þingsins þar sem hún sætti mikilli gagnrýni. Leidd voru rök að óvönduðum vinnubrögðum. Kostaði ekki 250 milljónir króna að semja þá skýrslu?
Í umræðum um íbúðalánaskýrsluna kom fram að þeir sem sæta gagnrýni í henni hefðu ekki fengið að njóta andmælaréttar. Rannsóknarnefnd alþingis á bankahruninu gaf aðilum andmælarétt en farið var með andmæli þeirra á þann veg að þau eru ekki hluti af hinum prentuðu gögnum frá nefndinni.
Leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna gerðu meiri athugasemdir við stílinn á stefnuræðu forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar en efni. Þetta sannaði enn að það eitt að fara ótroðnar slóðir dugar til að afvegaleiða, jafnvel forystumenn í stjórnmálum ef þeir hafa ekki sett sér skýrt markmið. Stjórnarandstaðan hefur það eitt fram að færa að elta ráðherrana. Afhroðið í kosningunum kippti fótunum undan flokkunum og þeim hefur ekki enn tekist að fóta sig að nýju.
Í DR1 var í kvöld sýndur fyrsti þáttur í 12 þátta röð þriðju lotu af Homeland sem hefur fengið góða dóma og mikið áhorf í heimalandinu, Bandaríkjunum. Þáttaröðin snýst um átök CIA við hryðjuverka- og undirróðursmenn og auk þess átök innan CIA og bandaríska stjórnkerfisins. Þessi fyrsti þáttur var frumsýndur í Bandaríkjunum sunnudaginn 29. september. Um er að ræða bandaríska endurgerð á ísraelskri þáttaröð.
Þriðjudagur 01. 10. 13
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, var undrandi á sumum spurningum Helga Seljans í Kastljósi kvöldsins sem snerist um fjárlagafrumvarpið sem Bjarni lagði fyrir þingið í dag. Spurningarnar voru í anda fréttastofu ríkisútvarpsins sem hleypur í skotgrafir í stað þess að leitast við að kynna hlustendum eða áhorfendum heildarmyndinni. Markmið fjárlagafrumvarpsins er skýrt: að stöðva skuldasöfnun undanfarinna ára.
Takist ekki að koma böndum á ríkisfjámálin halda skuldir áfram að aukast og sífellt stærri hluti ríkisútgjalda rennur til greiðslu á vöxtum. Um 85 milljarðar króna renna nú árlega úr ríkissjóði til að standa í skilum við lánardrottna ríkisins. Fyrir um það bil 20 árum stóð fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með Friðrik Sophusson sem fjármálaráðherra í sömu sporum og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar nú í baráttu við íþygjandi ríkisskuldir. Við sem kynntumst breytingunni sem varð við að sigur vannst í þeim slag hljótum að óska núverandi ríksstjórn velfarnaðar í fjárlagastríðinu.
Til marks um skrýtna meðferð ríkisútvarpsins á fjárlagafrumvarpinu má nefna að efni frumvarpsins hafði ekki fyrr verið kynnt í fréttum klukkan 18.00 en birt var yfirlýsing Páls Magnússonar útvarpsstjóra um að ríkisútvarpið fengi illa útreið, gerð væri 7% krafa um hagræðingu hjá ríkisútvarpinu þótt í skýringum fjárlagafrumvarpsins væri annað sagt. Að mati Páls rýrir frumvarpið afkomu stofnunarinnar á næsta ári um rúmlega 260 milljónir króna.