6.10.2013 22:40

Sunnudagur 06. 10. 13

Hér á landi snúast fréttir um bankahrunið fyrir fimm árum mest um hvað gerðist í október 2008 þótt það hafi verið margrætt og grandskoðað bæði af nefndum, dómstólum og höfundum margra bóka. Á vefsíðu The Guardian sem er sögð þriðja mest lesna vefsíða dagblaðs í heiminum (á eftir síðu The Daily Mail og The New York Times) er sunnudaginn 6. október birt frásögn af því sem gerst hefur á Íslandi frá 2008 eins og lesa má hér.

Í greininni kemur meðal annars fram að erlendir kröfuhafar hafi vonað að Steingrímur J. og vinstri grænir sætu áfram í ríkisstjórn að kosningum loknum. Þeir hafi talið hlut sínum betur borgið undir hinni tæru vinstri stjórn en að fá Sigmund Davíð Gunnlaugsson í áhrifastöðu, Honum er lýst sem populista, lýðskrumara, í greininni og endurspeglar orðið viðhorf kröfuhafanna.

Greinarhöfundur telur að hina hörmulegu útreið vinstri stjórnarinnar megi rekja til hve illa hún hélt á Icesave-málinu. Hann minnist ekki á ESB-málið sem bendir til að í augum erlendra manna sé það brölt allt saman næsta óskiljanlegt úr því að stjórnarflokkarnir voru ekki samstiga í málinu.

Greinin í The Guardian fellur að þeirri skoðun sem lýst var hér á síðunni í gær um að mun forvitnilegra sé á þessum tímamótum að velta fyrir sér hvað gerst hefur í íslenskum stjórnmálum og efnahagsmálum á undanförnum fimm árum en því sem gerðist fyrir fimm árum.