Dagbók: maí 2007
Fimmtudagur, 31. 05. 07.
Alþingi var sett á hefðbundinn hátt klukkan 13. 30 og klukkan 19.50 flutti forsætisráðherra stefnuræðu sína.
Í umræðum um stefnuræðuna kom á óvart, hve Steingrími J. Sigfússyni, formanni vinstri grænna, er heitt í hamsi gagnvart Samfylkingunni og hve hann tekur það persónulega, að hún hafi myndað stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Kallaði hann sjálfan sig guðföður stjórnaraðildar Samfylkingarinnar en baðst í hinu orðinu undan því, að vera hafður að blóraböggli vegna stjórnasetu flokksins.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði um vinstri/græn og Samfylkingu og framgöngu þeirra að loknum kosningum: „Þau vildu vera þar sem við vorum.“ Og vísaði hann þar til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, Steingrímur J. og Ögmundur Jónasson hefðu legið flatir fyrir Sjálfstæðisflokknum.
Þá kvað við nýjan tón hjá formanni Framsóknarflokksins í garð Evrópusambandsins, þegar hann sagðist óttast, að Samfylking drægi sjálfstæðismenn með sér inn í sólarblinduna af ESB. Er það ekki einmitt ógæfa Framsóknarflokksins að hans mati, að flokkurinn lét glepjast í ESB-málum? Hefur hann flokkinn nú með sér í málinu? Hann ætti að lesa álit fulltrúa hans í Evrópunefnd og ráða í það - hvaða stefna felst í því? Ekki treystu þeir sér til að vera með okkur sjálfstæðismönnum og vinstri/grænum í andstöðu við aðild að ESB.
Á fyrsta fundi, þegar kosið var í nefndir og í ræðum stjórnarandstöðunnar, kom fram mikill ótti við hinn mikla meirihluta ríkisstjórnarinnar á þingi. Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður frjálslyndra, taldi stjórnarþingmenn geta bannað umræður um fjárlög! Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður framsóknar, sagði sjálfstæðismenn geta komið málum í gegn með þingstyrk sínum, ef Samfylking sæti hjá við afgreiðslu máls.
Ég vakti máls á því fyrir nokkru, að María Kristjánsdóttir, leiklistargagnrýnandi Morgunblaðsins, hefði verið í Venezúela og skrifað greinaflokk í lesbók blaðsins til að bera blak af Hugo Chavez, einræðisherra í landinu.
Hugo Chavez gerir nú atlögu að frjálsum sjónvarpsstöðvum í Venezúela vegna gagnrýni þeirra á stjórnvöld. Fréttablaðið ber þetta undir Maríu Kristjánsdóttur í dag.
Lesa meiraMiðvikudagur, 30. 05. 07.
Þriðjudagur, 29. 05. 07.
Enn á ný ræða menn um ofbeldi í miðborg Reykjavíkur. Í Stöð 2 kom fram í kvöld, að um er ræða stuttan tíma um þrjár klukkustundir aðfaranótt laugardags og aðfaranótt sunnudags, þegar ofbeldishneigð virðist helst leggjast á almenna borgara, einkum ungt fólk.
Hvernig á að uppræta þessa ónáttúru? Er hert löggæsla og fjölgun myndavéla besta leiðin? Löggæsla hefur verið aukin og yfirstjórn lögreglu vinnur náið með borgaryfirvöldum í því skyni að sporna við ósómanum.
Þeir, sem gera að sárum fórnarlamba ofbeldisins og starfað hafa á sjúkarhúsum erlendis, segja ástandið hér einstakt að því leyti, að ekki sé um átök glæpahópa að ræða, eins og venjulegt sé í útlöndum, heldur ofsafengin samskipti almennra borgara.
Tengist þessi framganga sóðaskapnum í borginni? Tillitsleysið við umhverfið er oft þannig að með ólíkindum er, svo að ekki sé talað um skemmdarfýsnina og virðingarleysið fyrir eignum annarra. Á daglegum gönguferðum við Perluna undrast ég, hve mikið menn leggja á sig til að brjóta þykkt öryggisgler á ljóskösturum við hitaveitutankana. Hve oft undirgöngin á Bústaðaveginum yfir í Suðurhlíðar eru máluð vegna veggjakrots, veit ég ekki, en krotararnir láta sér ekki segjast og halda áfram skemmdarverkunum.
Í morgun fór ég í sund í fyrsta sinn eftir sjö vikna hlé og var gott að taka sundtökin að nýju og hitta félagana.
Sunnudagur, 27. 05. 07.
Fréttaskýring Agnesar Bragadóttur á forsíðu Morgunblaðsins sl. föstudag um stöðuna innan Framsóknarflokksins er ekki fullnægjandi, fyrr en hún skýrir, hvert hefur verið hlutverk Finns Ingólfssonar og Helga S. Guðmundssonar í innsta kjarna flokksins. Agnes gefur til kynna, að þeir hefðu getað ráðið því, að Björn Ingi Hrafnsson yrði næsti formaður Framsóknarflokksins, en þeir hefðu fallið frá því og auk þess ákveðið að hætta virkri þátttöku í Framsóknarflokknum.
Fyrir ári lá í loftinu, að Finnur Ingólfsson yrði næsti formaður Framsóknarflokksins. Þá var eitt af skilyrðunum, að Guðni Ágústsson hætti sem varaformaður. Guðni hætti ekki og er nú formaður.
Laugardagur, 26. 05. 07.
Í pistli á vefsíðunni hér í dag ræði ég lítillega um, hvernig stórviðburðum er lýst í fjölmiðlum. Í gær sagði ég frá því, hvernig ráðherrum er raðað til fundarborðs í ríkisráði og ríkisstjórn. Með því vildi ég vekja máls á einum þætti stjórnarskiptanna, sem ekki er ræddur í fjölmiðlum.
Bloggarar kveiktu á punktinum en hinn eini, sem ég sé, að fjallað hefur um hann af einhverju viti er Guðmundur Magnússon. Aðrir eins og Kjartan Valgarðsson í Maputo taka allt annan og einkennilegri pól í hæðina.
Ég hefði raunar átt að láta þess getið í gær, að ráðherrum er raðað til þingsæta í sömu röð og þeir sitja á ríkisstjórnarfundum. Ég mun því sitja í sama sæti og á síðasta kjörtímabili á þinginu, í þriðja sæti til hægri við forseta þingsins.
Föstudagur, 25. 05. 07.
Aðalfundur Aflsins, félags qi gong iðkenda var haldinn í Von, húsi SÁÁ við Efstaleiti, klukkan 08.25 eftir hugleiðslu undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar, hann minntist einnig Lóu Konráðsdóttur, sem andaðist sl. miðvikudag en hún stundaði æfingar með okkur um árabil.
Ég flutti skýrslu stjórnar, Guðni Hannesson gjaldkeri kynnti reikninga og Viðar H. Eiríksson ritari gerði grein fyrir félagafjölda og fjölda iðkenda. Í lokin heiðruðum við Gunnar Eyjólfsson heiðursforseta og sýndum honum þakklætisvott.
Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar var haldinn í dag klukkan 09.30 og í tilefni dagsins var boðin terta á fundinum með kaffinu og teinu, en það er fastur liður að þeir drykkir eru í boði á fundunum fyrir utan vatn.
Eins og venja er við upphaf starfa eru ýmsar grunnreglur kynntar fyrir nýju fólki. Reglur um dagskrá ríkisstjórnarfunda, ritun fundargerða og varðveislu gagna eru að grunni til frá þeim tíma, þegar ég var ritari á ríkisstjórnarfundum undir lok áttunda áratugarins. Þá gildir sú regla í umræðum í ríkisstjórn, að ekki er vísað til ráðherra með nafni heldur embættisheiti.
Ákveðnar reglur gilda annars vegar um það, hvernig menn sitja á ríkisráðsfundum, og hins vegar um sætaröð þeirra á ríkisstjórnarfundum. Ég ætla ekki að rekja reglurnar hér, en miðað við allar vangaveltur í tilefni stjórnarskipta, er undarlegt, að fjölmiðlamenn skuli ekki hafa gert þessar reglur að umtalsefni eða hvers vegna ráðherrar sitja ekki á sama stað við ríkisráðsborðið og ríkisstjórnarborðið - eitt er víst, þar ræður ekki nein tilviljun.
Nú sit ég í kvöldsólinni í Fljótshlíð - þótt kaldir vindar blási er fegurðin og kyrrðin einstök.
Fimmtudagur, 24. 05. 07.
Klukkan 10.30 hófst ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar að Bessastöðum og um tólf leytið komu makar ráðherra og bauð forseti Íslands til hádegisverðar.
Klukkan 14.00 hófst ríkisráðsfundur annarrar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, og var ritað undir skipunarbréf ráðherra, sem rituðu undir eiðstaf sinn.
Hélt ég frá Bessastöðum tæplega 15.00.
Í dag felldi hæstiréttur dóm í máli, sem ljósmyndarar höfðuðu upphaflega gegn ríkinu til að fá það viðurkennt, að ljósmyndurum með iðnréttindi væri einum heimilt að taka ljósmyndir í íslensk vegabréf. Héraðsdómari hafði fallist á sjónarmið ljósmyndara, en hæstiréttur sýknaði ríkið af kröfum ljósmyndara og féllst á þau meginrök dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að útgáfa vegabréfa sé hluti af stjórnsýslu, myndatakan sé órjúfanlegur þáttur í útgáfuferlinu og að ekki séu gerðar faglegar kröfur þannig að jafnað verði við myndatöku í atvinnuskyni í skilningi iðnaðarlaga.
Miðvikudagur, 23. 05. 07.
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir efndu til blaðamannafundar á Þingvöllum kl. 11.00 og kynntu sáttmála nýrrar stjórnar, sem þau vilja, að nefnd verði Þingvallastjórn.
Jón Sigurðsson sagði af sér formennsku í Framsóknarflokknum og tók varaformaðurinn Guðni Ágústsson við kyndlinum. Guðni hefur níu líf í pólitík en fyrir ári átti að skipta honum út sem varafomanni, þegar Halldór Ásgrímsson hvarf af braut.
Víða var mér vel tekið í dag með endurnýjað umboð sem dóms- og kirkjumálaráðherra og þakka ég góðar kveðjur, sem mér hafa borist.
Í hádeginu hlustaði ég á Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, flytja erindi um skólann í Rotary-klúbbi Reykjavíkur. Á innan við áratug frá því að skólinn komst á legg hefur hann vaxið og dafnað undir kröftugri stjórn Hjálmars. Hann taldi, að gæfuríkt spor hefði verið stigið, þegar ákveðið var að stofna nýjan einkarekinn skóla frá grunni í stað þess að sameina skóla, sem voru hér fyrir, og færa þá á háskólastig. Þá sagði hann samþættingu listgreina innan skólans hafa gefið góða raun og víða væri litið á hann sem fyrirmynd.
Þegar þær ræddu saman í Kastljósi í sjónvarpinu í kvöld um stjórnarsáttmálann Guðfinna Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður vinstri/grænna, og minnst var á breytingar í heilbrigðiskerfinu, gat Guðfinna um góðan árangur af því, að hleypa einkarekstri í háskólastarfsemina. Listaháskóli Íslands er meðal þess, sem sannar ágæti þeirrar stefnu. Um leið og minnst var á einkarekstur, fór Kolbrún hins vegar að tala um einkavæðingu, sem er allt annað, eins og Guðfinna nefndi.
Kolbrún sagðist skilja muninn á einkarekstri og einkavæðingu, þótt hún talaði eins og hún gerði það ekki. Einmitt þessi framganga vinstri/grænna fælir marga frá því einu að reyna samtöl um stjórnmálasamstarf við þau. Kreddufestan er svo mikil, að ekki er einu sinni unnt að nota rétt orð.
Þriðjudagur, 22. 05. 07.
Klukkan 08.45 hitti ég Geir H. Haarde, formann Sjálfstæðisflokksins, í Ráðherrabústaðnum og var ég fyrsti viðmælandi hans þar, en fram til klukkan 18.00 hitti hann 24 þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ræddi við þá um myndun ríkisstjórnar með Samfylkingunni.
Klukkan 19.00 var haldinn fundur í flokksráði Sjálfstæðisflokksins í Valhöll, þar sem Geir fór yfir sáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hann skýrði einnig frá því, hvernig ráðuneytum yrði skipt milli flokkanna. Var máli hans mjög vel tekið og eindregnum stuðningi lýst við tillögu hans um þetta stjórnarsamstarf.
Strax að loknum flokksráðsfundinum kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman til fundar í Valhöll. Þar lagði Geir fram tillögu sína um ráðherra flokksins og þar á meðal, að ég yrði áfram dóms- og kirkjumálaráðherra. Féllst þingflokkurinn umræðulaust á tillöguna eins og verið hefur síðan ég settist í hann.
Geir hefur haldið vel á stjórnarmyndunarviðræðunum og sýndu báðir fundirnir í dag, að hann nýtur óskoraðs trausts bæði flokksráðs og þingflokks.
Mánudagur, 21. 05. 07.
Í morgun þurfti að skafa snjó af bílnum, áður en haldið var af stað og í gönguferð síðdegis kom él, en þess á milli skein blessuð sólin.
Fréttir voru sagðar áfram af stjórnarmyndunarviðræðum en síðdegis var gert hlé á þeim og er líklegt, að formennirnir ætli að ræða við þingmenn sína og aðra, áður en lengra er haldið.
Sunnudagur, 20. 05. 07.
Játningar Ágústínusar voru ritaðar 397 til 401 eða fyrir rúmum 1600 árum og eru enn til eftirbreytni, enda gaf Hið íslenska bókmenntafélag þær út á síðasta ári í þýðingu herra Sigurbjörns Einarssonar biskups. Þar segir meðal annars:
„Þá eru og slík verk óhæfa, sem í er fólgin löngun til þess að vinna öðrum mein, skömm eða skaða. Þau stjórnast af hefndarhug, eins og þegar fjandmenn skiptast við, eða ábatavon, svo sem þegar stigamaður ræðst á vegfaranda. Þá getur valdið hræðsla um illt af annars hendi, er menn vilja firra sig, eða öfund - sá, sem illa vegnar, skaðar hinn, sem betur má, eða sá, sem nýtur einhvers gengis, níðist á þeim, sem hann óttast að nái sér eða fellur þungt að vita jafnan sér. Stundum ræður og ein saman nautn af annarra kvölum, svo sem hjá þeim, er hafa gaman af mannvígum skylmingaleikja, eða þeim, sem hæða og spotta bágstadda.“
Þessi orð eru til marks um, hvers vegna Játningarnar eru klassískar og eiga erindi til okkar enn það dag í dag. Þau minna okkur einnig á að mannlegt eðli hefur ekki breyst - hinn kristni boðskapur á enn fullt erindi til okkar allra.
Laugardagur, 19. 05. 07.
Athygli hefur vakið, að Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, valdi sósíalistann Bernard Kouchner sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni. Kouchner hefur verið áberandi í frönsku stjórnmálalífi um langt árabil og látið að sér kveða á mörgum sviðum. Það vakti til dæmis sérstaka athygli, að hann studdi innrásina í Írak árið 2003, af því að hann taldi lífsnauðsynlegt fyrir Íraka að losna undan alræði Saddams Husseins.
Skipan Kouchners í embætti utanríkisráðherra er talin til marks um vilja Sarkozys til að bæta sambandið við Bandaríkin, sem beið nokkurn hnekki vegna afstöðu Jacques Chiracs gegn Bandaríkjamönnum og Bretum vegna innrásarinnar í Írak.
Frægt var, þegar Tony Blair sagði í breska þinginu, að ekki þýddi að bíða eftir niðurstöðu í öryggisráðinu, því að Frakkar mundu segja nei við öllu. Þá var de Villepin, fráfarandi forsætisráðherra og andstæðingur Sarkozys, utanríkisráðherra Frakka og þótti áhrifamikill í öryggisráðinu sem fulltrúi sjónarmiða Chiracs. De Viillepin hefur nú tapað áhrifum sínum í frönsku ríkisstjórninni með brottför Chiracs.
Eftir að Kouchner tók við embætti utanríkisráðherra lét formaður franskra sósíalista þau boð út ganga, að Kouchner væri brottrækur út flokknum.
Tony Blair fer nú vítt og breitt um veröldina til að kveðja, áður en hann lætur af embætti forsætisráðherra. Jimmy Carter, fyrrverandi Bandarikjaforseti, réðst harkalega á hann í tilefni komu hans til Washington vegna samstarfs hans við George W. Bush, Bandaríkjaforseta, um innrásina í Írak. Í fréttum var þessu lýst svona:
In an interview with BBC radio, Carter was asked how he would describe Blair's attitude to US President George W. Bush. He replied: "Abominable. Loyal, blind, apparently subservient.
"I think that the almost undeviating support by Great Britain for the ill-advised policies of President Bush in Iraq have been a major tragedy for the world."
Eftir að hafa lesið ræður og greinar Blairs um innrásina í Írak er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, að ekki hafi þurft að þröngva honum til innrásar í Írak.
Föstudagur, 18. 05. 07.
Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman til fundar klukkan 09.30 og gerði Geir H. Haarde honum grein fyrir gangi mála í stjórnarmyndunarviðræðum, áður en hann fór á fund forseta Íslands að Bessastöðum klukkan 11.00, baðst lausnar fyrir ríkisstjórnina og fékk umboð til að mynda nýja stjórn. Hófust viðræður við Samfylkinguna formlega síðdegis.
Í Viðskiptablaðinu í dag birtist langt viðtal Ólafs Teits Guðnasonar við mig, þar sem við ræðum auglýsingar Jóhannesar Jónssonar, afskipti stjórnarformanns Baugs, afstöðu til einstakra stjórnmálaflokka og stöðu mína að loknum kosningum.
Í úttekt sinni á fjölmiðlun síðustu daga segir Ólafur Teitur meðal annars frá því í Viðskiptablaðinu í dag, hvernig Ólafur Ragnar og álitsgjafar hlynntir honum leituðu skýringa á því, að 28 þúsund kjósendur skiluðu auðu í forsetakosningunum 2004. Þá héldu þeir því blákalt en ranglega fram, að áhrifamenn og Morgunblaðið hefðu hvatt fólk til að skila auðu. Nú þegar sagt er, að auglýsing gegn einum frambjóðandi hafi haft áhrif á kjósendur, láta álitsgjafar á borð við Egil Helgason í veðri vaka, að það sé dónaskapur við kjósendur að vekja máls á þessu.
Baugsmiðlar þykir skammaryrði og nú er hið sama uppi á tengingnum um orðið Baugsstjórn. Hvað veldur? Stjórnarformaður Baugs ætti að skrifa svo sem eina skammargrein til að útskýra það.
Fimmtudagur, 17. 05. 07.
Þau þáttaskil urðu í stjórnmálum í dag, að stjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks slitnaði og Geir H. Haarde hóf viðræður við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um nýja stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég er eini ráðherrann, sem sat fyrsta ríkisráðsfund ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem var mynduð 23. apríl 1995 og segi frá upphafi ráðherradóms míns hér. Ég hef því verið í þessu samstarfi með framsóknarmönnum frá fyrsta degi með rúmlega eins árs hléi 2002 til 2003. 12 ára sögu mína af stjórnarsamstarfinu má lesa hér á þessari vefsíðu.
Fór klukkan 20.00 í Listasafn Íslands, þar sem kvartett Kammersveitar Reykjavíkur lék alla þrjá kvartetta Jóns Leifs og var þetta í fyrsta sinn, sem þeir voru allir fluttir saman á tónleikum.
Þegar ég vann á Morgunblaðinu kom það stundum fyrir, að ég skrifaði athugasemd ritstjóra aftan við einhverja grein, sem birtist. Oft bárust reiðilegar athugasemdir vegna þessa frá greinarhöfundum, sem þótti miður að sjónarmið þeirra fengju ekki að njóta sín að minnsta í einn dag óáreitt fyrir athugasemdum annarra.
Í gær sendi ég frá mér yfirlýsingu vegna áskorana Jóhannesar Jónssonar, kaupmanns, í auglýsingu hans um að strika út nafn mitt á kjördag. Yfirlýsing mín birtist í Morgunblaðinu í dag en fyrir neðan hana er síðan athugasemd frá Hreini Loftssyni, stjórnarformanni Baugs, við yfirlýsingu mína. Morgunblaðið skýrir því miður hvorki fyrir mér né öðrum lesendum sínum, hver sé aðild Hreins Loftssonar að þessu máli eða hvers vegna svo mikið er látið með hann, að yfirlýsing mín fái ekki að standa ein og óáreitt fyrir uppivöðslusemi Hreins. Fréttablaðið birtir yfirlýsingu mína, án þess að hnýta Hreini aftan við hana.
Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir á vefsíðu sinni, að það sé beinlínis rangt, að hann hafi hlakkað yfir því, að ég lækkaði á lista flokksins hann hefði hvergi lýst því yfir. Ég bendi lesendum síðu minnar á að hlusta á viðtal við Ágúst Ólaf á morgunvaktinni miðvikudaginn 16. maí og það sem hann sagði um fall tveggja ráðherra Framsóknarflokksins og útstrikanir á ráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Vek athygli á þessu bréfi á vefsíðu Ögmundar Jónassonar. Þá hefur Salvör Gissurardóttir einnig fjallað um málið, Gísli Freyr Valdórsson, Stefán Friðrik og Björn Ingi Hrafnsson.
Miðvikudagur, 16. 05. 07.
Í hádegisfréttum heyrði ég, að 2514 hefðu strikað mig út á kjördag, eða um 18% kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður og ég félli niður um eitt sæti - rúm 80% kjósenda flokksins urðu þannig ekki við áskorun Jóhannesar Jónssonar kaupmanns í auglýsingu hans 11. maí. Ég gaf út yfirlýsingu, eftir að fréttin birtist og læt hana nægja sem viðbrögð mín á þessu stigi málsins. Af þeim fjölda töluvbréfa, sem ég hef síðan fengið, dreg ég þá ályktun, að yfirlýsingin hafi verið tímabær og veki fólk til umhugsunar um hvert stefnir.
Þótt ég hafi oft rætt um kvikmyndina Das Leben der Anderen hér á síðuna, hafði ég aðeins séð hana á DVD og þýsku, þar til í dag, að ég brá mér í Háskólabíó og sá hana þar á hvíta tjaldinu og með íslenskum texta. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Einn af kostum myndarinnar er, hve öguð hún er og markviss í allri gerð. Hvergi er farið lengra en nauðsynlegt er til að segja söguna.
Ég missti því af kvöldfréttunum en sé, að Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs, verður nú málsvari auglýsingar Jóhannesar Jónssonar kaupmanns, sem sagðist auglýsa í eigin nafni, þótt hann kynni að vísu að njóta afsláttar fyrirtækja sinna, þegar reikningarnir yrðu skrifaðir. Hann sagði einnig í sama viðtali, þegar hann var spurður um viðbrögð við auglýsingunni, að þau hefðu verið 80% á móti 20% - það væru þessi venjulegu 20%, sem alltaf kvarta, mátti skilja á orðum hans. Nú er annað uppi á teningnum með 20% hjá Baugi, eins og heyra má.
Samkvæmt ábendingu leit ég á frétt sjónvarps ríkisins um málið og sé, að fréttastofan er við sama heygarðshornið og vill gera hlut minn sem verstan. Ég er undrandi á því, ef fréttastofan birtir ekki athugasemd mína við frétt hennar frá því í gær, þar sem ranglega var sagt, að auglýsing dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á embættum í Lögbirtingablaðinu hefði verið kveikjan að auglýsingu Jóhannesar Jónssonar gegn mér.
Þriðjudagur, 15. 05. 07.
Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30 og ræddum við saman um stöðuna að loknum alþingiskosningum en eftir að fundinum lauk sátum við ráðherrar Sjálfstæðisflokksins á rökstólum.
Þegar ég kom út af fundinum vildi Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður sjónvarps ríkisins, fá að vita afstöðu mína til útstrikana, ég sagðist ekki hafa heyrt neinar tölur og gæti ekki sagt neitt um málið. Spurði hún, hvort ég hefði ekki heyrt tölur í fréttum. Var hún þar að vísa til frétta sjónvarpsins, sem sagði í gær, að ég hefði fallið niður um tvö sæti en í kvöld, að óvíst væri, hvort ég hefði fallið niður um eitt eða tvö sæti. Þetta sýnir óvissu í málinu, á meðan tölur frá talningamönnum hafa ekki verið birtar.
Sjónvarpið er eini fjölmiðillinn, sem sýnir þessu útstrikanamáli einhvern áhuga og var með útstrikanir í fjórum fréttum í fréttatíma sínum í kvöld. Það er þegar gengið var á eftir mér, þegar rætt var um athugun umboðsmanns alþingis á embættaveitingum, en gagnaöflun vegna hennar lauk 10. febrúar 2007, þegar rætt var Gunnar Helga Kristinsson um val á mönnum í ráðherraembætti og Baldur Símonarson um útstrikanir á Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.
Í fréttinni um athugun umboðsmanns alþingis, sem er löngu lokið og er ekki í neinum tengslum við fréttir síðustu daga, sagði samkvæmt ruv.is:
„Dómsmálaráðuneytið hefur sætt harðri gagnrýni fyrir það hvernig staðið var að auglýsingum á embættum ríkissaksóknara og vararíkislögreglustjóra. Umræðan varð til þess að Jóhannes Jónsson í Bónus skoraði á kjósendur að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra á kjörseðlum. Svo virðist sem um fimmtungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður hafi gert það. “´
Hvernig getur fréttastofan sannreynt, að umræða um það, að dómsmálaráðuneytið auglýsti embætti í Lögbirtingablaði, eins og lögbundið er, hafi verið kveikjan að níðauglýsingu Jóhannesar Jónssonar í Bónus? Sjálfur lýsir Jóhannes Baugsmálinu sem kveikjunni að auglýsingu sinni. Veit fréttastofa sjónvarps ríkisins betur? Er hún að bera blak af Jóhannesi? Eða er bara einhverju slegið fram um þetta, sem hentar fréttastofunni vegna hennar eigin framgöngu?
Hér má til dæmis sjá allt aðra skoðun á þessu máli, en fram kom í sjónvarpsfréttum í kvöld.
Mánudagur, 14. 05. 07.
Morgunblaðið leggst eindregið á þá sveif í leiðara sínum í dag, að ríkisstjórnin eigi að halda áfram, enda hafi hún til þess meirihluta. Forsíðufrétt blaðsins er einnig í þeim anda. Þar má lesa, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi sýnt svo mikinn hroka í samtölum við einhverja sjálfstæðismenn að loknum kosningum, að hafi þeir haft áhuga á að ræða við hana um stjórnarsamstarf, sé hann fokinn út í veður og vind. Hvers vegna halda menn, að vandræðin séu svona mikil í forystu Samfylkingarinnar? Hafa menn gleymt því, hvernig Ingibjörg Sólrún kom fram við samstarfsfólk sitt í R-listanum, eftir að hún ákvað að brjótast til valda í landsmálum?
Norræna módelið, sem vinstri flokkarnir kynntu í kosningabaráttunni, blasir við á forsíðu Fréttablaðsins, þar sem sagt er frá því, að þau Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J. Sigfússon hafi rætt það í gær, að þau mynduðu minnihlutastjórn með hlutleysi eða stuðningi framsóknarmanna. Stundum dettur manni í hug, að fólk sé í vitlausu landi, þegar lesið er um norræna draumóra vinstrisinna. Og nú erum við einnig að upplifa skopmyndastríð hér, að vísu ekki vegna spámannsins Múhameðs, heldur annars, sem teiknaður var með skegg og mótmælaspjald og krefst afsökunar, áður en hann talar við framsóknarmenn.
Framlag Morgunvaktar á rás 1 var að kalla á Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing til að geta sagt það síðan sem fyrstu frétt kl. 08.00, að hér hefðu bæði setið ríkisstjórnir með 32 atkvæði og einnig að þær hefðu talist of veikburða. Allt ræðst þetta af pólitískum vilja, hann var fyrir hendi í viðreisnarstjórninni, en hvorki eftir kosningar 1991 né 1995. Eitt atkvæði tryggir meirihluta - málið er ekki flóknara en það og pólitískur vilji er allt, sem þarf.
Nýr þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 18.00 og var ánægjulegt að hitta samherja í hátíðarskapi. Umboð Geirs H. Haarde er ótvírætt af hálfu þingmanna.
Þegar ég kom út af fundinum vildi fréttamaður sjónvarpsins spyrja mig um útstrikanir, en fréttastofan hefur frá kjördegi flutt fréttir af þeim, þótt Sveinn Sveinsson, formaður kjörstjórnar í Reykjavík suður, segi ekki enn ljóst, hvernig útstrikunum hafi verið háttað. Ég sagðist ekki vita neitt um málið og gæti þess vegna ekki sagt neitt um það. Hitt er einkennilegt, ef fréttamenn hafa betri aðgang að upplýsingum um mál af þessum toga en frambjóðendur sjálfir. Ef þetta væri að gerast á vettvangi stjórnsýslunnar, þættu vinnubrögð af þessum toga ekki til fyrirmyndar.
Sunnudagur, 13. 05. 07.
Glæsileg úrslit!
Úrslit kosninganna í gær voru glæsileg fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann fékk 36,6% atkvæða eða 2,9% meira fylgi en fyrir fjórum árum og 25 þingmenn í stað 23. Flokkurinn getur haldið áfram í ríkisstjórn með Framsóknarflokki með samtals 32 þingmenn af 63, myndað stjórn með vinstri/grænum með 34 þingmenn eða Samfylkingu 43 þingmenn.
Ríkisstjórnin hélt velli í kosningunum, þótt Framsóknarflokkurinn tapaði 6% og fengi 11,7% og sjö þingmenn í stað 12.
Samfylkingin tapaði 4,2% og tveimur þingmönnum, er með 18 þingmenn í stað 20.
Vinstri/græn bættu við 5,5% fengu 14,3% og níu þingmenn í stað fimm áður.
Frjálslyndir héldu sínu en Íslandshreyfingin kom ekki að manni.
Þetta eru söguleg og sterk úrslit fyrir Sjálfstæðisflokkinn eftir 16 ára stjórnarsetu og forystu nær allan þann tíma. Úrslitin staðfesta, að Samfylkingunni hefur fatast flugið undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.
Í fréttum hafa birst frásagnir af því, að í mínu kjördæmi Reykjavík suður hafi allt að 20% kjósenda strikað út nafn á lista Sjálfstæðisflokksins og er getum leitt að því, að þar hafi menn farið að tilmælum Jóhannesar Jónssonar í Bónus í auglýsingu í öllum dagblöðum daginn fyrir kjördag um að strika yfir nafn mitt. Ég hef ekki fengið neina staðfestingu á því, hvað rétt er í þessum tölum.
Útstrikanir eru hluti leikreglna okkar en hitt er óvenjulegt, að opinberar áskoranir birtist með hvatningu um þær. Hér er um einn anga Baugsmálsins að ræða. Málið var komið af stað, þegar ég varð ráðherra og hefur verið á döfinni allt kjörtímabilið. Frá upphafi hefur verið leitast við að setja það í pólitískt samhengi tengt Sjálfstæðisflokknum. Spurning var, hvort og þá hvernig því yrði beint gegn flokknum í kosningabaráttunni að þessu sinni. Í auglýsingunni lagði Jóhannes í Bónus spjót sitt gegn mér persónulega en hvatti til stuðnings við flokkinn. Í kosningabaráttunni taldi ég mestu skipta, að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi sterkur frá kosningunum, sem gerðist. Hafi ómálefnaleg og ósmekkleg persónuleg árás á mig stuðlað að því, tel ég meginniðurstöðuna og styrk Sjálfstæðisflokksins skipta mestu.
Laugardagur, 12. 05. 07.
Kjördagur - veitið Sjálfstæðisflokknum brautargengi - XD!
Við Rut fórum í Hlíðaskólann að kjósa fyrir klukkan 10. 00 í morgun og skömmu síðar komu þeir Þorgeir Ástvaldsson og Kristófer Helgason frá Bylgjunni í heimsókn og ræddu við mig í tilefni kjördags og kosninga.
Mestu skiptir, að sem flestir kjósendur nýti sér rétt sinn til að kjósa og hafi þannig áhrif á, hvernig stjórn landsins verður háttað næstu fjögur ár. Línur hafa verið að skýrast síðustu daga milli stjórnar og stjórnarandstöðu og á kjördag eru mál kynnt þannig í fjölmiðlum, að valið sé á milli stjórnar með þátttöku Sjálfstæðisflokksins eða vinstri stjórn.
Af þeim málum, sem rædd hafa verið í kosningabaráttunni, vekur mikla undrun, að rifist skuli um, hvort skattar hafi verið lækkaðir hér eða ekki. Er raunar óskiljanlegt, hvernig unnt er að deila um þetta, þegar litið er ákvarðanir, sem hafa verið teknar í skattamálum. Hitt þykir mér einnig skrýtið að heyra stjórnarandstöðuna hneykslast á svonefndum eftirlaunalögum - ráðist var í setningu þeirra að frumkvæði stjórnarandstöðunnar eins og Gunnar I. Bigisson lýsir í grein í Morgunblaðinu í dag. Fjölmiðlamenn hafa spurt um þetta mál, án þess að brjóta það sjálfir til mergjar, til að lýsa á hlutlægan hátt inntaki þess.
Í grein sinni segir Gunnar meðal annars um aðdraganda frumvarpsins og síðar laganna um eftirlaun:
„Upphaf þess að frumvarpið var samið er þetta: Fulltrúar stjórnarandstöðunnar, Guðjón A. Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson komu til forsætisráðherra og hreyfðu þessu máli fyrstir manna. Í kjölfarið var ákveðið að allir flokkar á þingi flyttu frumvarpið. Frumvarpið þýddi í fyrsta lagi að lífeyriskjör þingmanna voru lækkuð um 1%. Í öðru lagi voru eftirlaun ráðherra og hæstaréttardómara rýmkuð. Eftir ákveðinn starfstíma gátu þeir tekið eftirlaun þótt þeir hyrfu til annarra starfa.
Það hefur vakið athygli mína að stjórnarandstaðan vill ekkert tala um þetta. Ekki heldur rannsóknarblaðamenn Íslands, Kompás, DV og fleiri. Menn hljóta að spyrja sig hvaða menn það eru sem njóta þessa réttar, lögum samkvæmt. Ætli hakan sé ekki skyld skegginu? Sjálfur veit ég um nokkra menn sem njóta hlunninda sem lögin færðu þeim og mun ég að sjálfsögðu ekki nafngreina þá. Ég get þó sagt að þeir eru ekki sjálfstæðismenn.“
Föstudagur, 11. 05. 07.
Lokaumræðuþáttur formanna stjórnmálaflokkanna var í sjónvarpinu í kvöld. Ég er þeirrar skoðunar, að formenn stjórnarflokkanna hafi borið herðar yfir aðra í þættinum, þar sem stefna þeirra var skýr og ótvíræð. Umræðurnar leiddu í ljós, að stjórnarandstaðan lifir enn í voninni um kaffibandalagið, þótt Steingrímur J. biðlaði ekki jafnsterkt til Samfylkingarinnar og hann gerði á Stöð 2 sl. miðvikudag.
Þeir Ómar Ragnarsson og Steingrímur J. Sigfússon tóku í upphafi þáttarins upp hanskann fyrir Jóhannes í Bónus vegna auglýsingar hans í dagblöðunum í dag um að fólk í mínu kjördæmi ætti að strika úr nafn mitt af listanum á kjördag. Ómar sagðist skilja Jóhannes, af því að hann sæti sjálfur undir kæru frá framsóknarmanni á Austurlandi fyrir ólögmæt afnot af landi fyrir austan. Steingrímur J. gaf þá skýringu, að Baugsmálið hefði verið lengi fyrir dómstólunum. Geir H. Haarde lýsti gagnrýni á framtak Jóhannesar, aðrir leiddu málið hjá sér.
Mér kom afstaða Steingríms J. á óvart, því að vinstrisinnar láta jafnan eins og þeir telji ámælisvert, að auðmenn séu að nota fjármagn sitt til pólitískra afskipta. Tvískinnungur þeirra í því efni er þó kunnur eins og betlibréfið, sem vinstri/græn rituðu til Alcan, eftir að hafa ráðist á Stöð 2 fyrir að fá kostun frá Alcan vegna Kryddsíldarinnar á gamlársdag. Þá má ekki gleyma því, að Jóhannes er búsettur í kjördæmi Steingríms J.
Þegar við sjálfstæðismenn vorum að flytja tillögur um úrbætur í málefnum Reykjavíkurborgar á tímum R-listans, spratt Ingibjörg Sólrún alltaf á fætur og spurði: Hvað kostar þetta, hvernig ætlið þið að fjármagna það? Nú situr hún og brosir vandræðalega, þegar spurt er, hvernig hún ætlar að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar og svarar næstum því eins og Kristrún Heimisdóttir, þegar hún sagði með þjósti í Kastljósi, að hún hefði ekki hugmynd um, hvað kosningaloforð Samfylkingarinnar kostuðu, samt væru þau góð.
Þegar Ómar var spurður, hvernig þeir félagar í flokki hans ætluðu að kosta útgjöldin, sem þeir boða, svaraði hann, að Japanir væru með sendiráð á 2. hæð við Suðurlandsbraut en við með hús í Tókýó – þarna mætti spara. Þetta svar Ómars á auðvitað að lesa í ljósi auglýsingar hans um, að hann sé ekkert að grínast.
Steingrímur J. sagði ekki sanngjarnt, að spyrja sig um það, hvort hann ætlaði að taka upp eignaskatt að nýju! Við sem höfum hlýtt á vinstri/græn á þinginu vitum, að þau sakna hvers skatts, sem hverfur, og harma hverja lækkun, sem verður á þeim sköttum, sem eftir lifa.
Fimmtudagur, 10. 05. 07.
Klukkan 14.00 hitti ég lögreglustjóra á fundi í Þjóðmenningarhúsinu og kynnti þeim löggæsluáætlun, sem gildir til 2011 og er samin í framhaldi af nýskipan lögreglumála, sem kom til sögunnar um síðustu áramót.
Þegar sést, hverjir sigruðu í Evróvisjón-keppninni í kvöld, kemur í ljós, hvar keppnin vekur mesta athygli um þessar mundir, það er meðal þjóðanna í austur- og suðausturhluta Evrópu. Líklegt er, að það sé frekar samkennd meðal þjóða, sem ræður hvar atkvæðið fellur, en tónlistin og umgjörð hennar. Miðað við þá dóma, sem féllu hjá matsmönnum norrænu sjónvarpsstöðvanna á lögum í keppninni, hefði Eiríkur Hauksson átt skilið að ná betri árangri en að komast ekki í hóp hinna tíu, sem komust í úrslitin.
Eiríkur Hauksson sagði raunar í sjónvarpinu eftir keppnina, að austur-evrópsk mafía hefið keypt úrslitin í henni. Hvatti hann okkur til að kjósa Finna eða Svía úrslitakvöldið.
Tony Blair tilkynnti í dag, að hann mundi láta af formennsku í breska Verkamannaflokknum og embætti forsætisráðherra 27. júni. Hann hefur átt margar stórar stundir á ferli sínum og einni þeirra má kynnast í kvikmyndinni The Queen, þegar lýst er viðbrögðum hans við láti Díönu prinsessu og samskiptum við Elísabetu drottningu.
Blair hefur valdið straumhvörfum meðal jafnaðarmanna í Evrópu. Jafnt í Frakklandi og hér á landi takast þeir á um það innan sinna raða, hvort þeir eigi að fylgja opinni stefnu hans eða halda sig við gamaldags vinstrimennsku og sósíalisma. Blair hefur einnig espað pólitíska andstæðinga sína í öðrum flokkum, sem telja hann ótrúverðugan tækifærissinna.
Nú er mönnum efst í huga, að Tony Blair var einarður málsvari innrásarinnar í Írak. Vonbrigði almennings yfir blóðugri framvindu mála í Írak mótar viðhorfið til Blairs, þegar hann kveður. Sjálfur segir hann nú, að hugsanlega hafi innrásin verið mistök. Í dómi sögunnar yfir Blair verður þess minnst, hve miklum árangri hann náði í friðarviðræðum um Norður-Írland.
Miðvikudagur 09. 05. 07.
Frá því var skýrt, að Bjarni Torfason skurðlæknir hefði í dag stjórnað hópi 10 manna, sem vann að því í dag að setja gervihjarta í mann. Bjarni skar mig fyrir réttum fjórum vikum og gerði þannig að mínum meinum, að mér fer fram á hverjum degi. Honum og afreksfólki hans sýnast lítil takmörk sett.
Formannaþátturinn á Stöð 2 var vel heppnað sjónvarpsefni, sérstaklega þegar spurningum var beint til hvers formanns fyrir sig. Ég hallast að því, að Stöð 2 hafi haldið betur á kosningabaráttunni en RÚV. Þátturinn í kvöld var til dæmis mun frjálslegri og líflegri en vænta má, að formannaþátturinn verði á RÚV á föstudagskvöld, þar sem stjórnendur setja sig í allt aðrar stellingar en í þessum þætti á Stöð 2.
Viðræðurnar í kvöld voru lausar við stagl um niðurstöður skoðanakannanna, en það setur mikinn svip á fréttir RÚV af kosningabaráttunni. Til lengdar eru þessar talnarunur óspennandi fréttaefni og í raun mikil einföldun á stjórnmálafréttum. Þess á milli koma svo stjórnmálafræðingarnir og segja okkur að taka tölunum með fyrirvara.
Umræðuefnin í þessum þærri voru hefðbundin og í sjálfu sér kom ekki neitt á óvart, sem þar var rætt. Á hinn bóginn er nokkuð sérkennilegt, að ekki þyki ástæða til að víkja einu orði að alþjóðavæðingu, utanríkisstefnu eða stöðu þjóðarinnar í öryggis- og varnarmálum, þegar því kjörtímabili er að ljúka, sem hefur leitt til mestu breytinga í þeim málaflokki síðan 1951. Að þessi mál séu ekki rædd finnst mér sýna, að vel hafi verið á þeim haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hins vegar er ástæða til að fá það fram hjá stjórnarandstöðunni, hvort hún ætli að halda áfram á þeirri braut, sem var mótuð í september 2006 eða fara aðra leið til að tryggja öryggi lands og þjóðar.
Geir H. Haarde hélt vel á málum Sjálfstæðisflokksins og varnaðarorð hans um, að vinstri stjórn væri í spilunum voru tímabær. Kjósendur tryggja ekki stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins nema með því að kjósa hann - málið er ekki flóknara en það. Ef menn kjósa vinstri flokkana eru þeir að leggja grunn að stjórn þeirra.
Þriðjudagur, 08. 05. 07.
Töluverður tími fór í það hjá mér í dag að svara spurningum blaða- og fréttamanna um það, hvers vegna auglýst hefði verið eftir aðstoðarríkislögreglustjóra í Lögbirtingablaðinu í framhaldi af frétt sjónvarpsins um málið í gærkvöldi.
Hér eru nokkrar staðreyndir:
1. Auglýst var eftir lögfræðingi, enda starfslýsing þannig að lögreglumaður getur ekki uppfyllt hana. Þess vegna er óskiljanlegt, að kvartað sé undan því, að félagsmenn í Landssambandi lögreglumanna hafi ekki getað kynnt sér auglýsinguna.
2. Lögfræðingar voru markhópur auglýsingarinnar. Ráðuneytinu er kunnugt um, að Lögbirtingablaðið er lesið á öllum embættum sýslumanna og lögmenn fylgjast með því, sem þar birtist.
3. Embætti aðstoðarríkislögreglustjóra hefur aldrei verið auglýst áður, en lögum samkvæmt er skylt að auglýsa það í Lögbirtingablaði.
4. Embætti ríkissaksóknara var auglýst í Lögbirtingablaðinu og bárust 5 umsóknir. Embætti lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu var auglýst í Lögbirtingablaði og víðar og bárust 2 umsóknir. Ráðuneytið gat ekki vitað fyrirfram, hvað margir mundu sækja um embætti aðstoðarríkislögreglustjóra eða álitið, að birtingarstaður auglýsingar réði því.
Af þessum staðreyndum er tæplega unnt að draga aðra ályktun en að fréttir um þetta mál á þann veg, að eitthvað óeðlilegt eða undarlegt sé á ferðinni, séu í besta falli byggðar á þekkingarleysi. Verra er, ef þær byggjast á viðleitni til að gera málið tortryggilegt án hinnar minnstu málefnalegu ástæðu.
Fréttastofum RÚV finnst það eiga sérstakt erindi við hlustendur, hverrar ættar umsækjandinn um embætti aðstoðarríkislögreglustjórans er og móðir hans sé ritari á ráðherraskrifstofu minni. Spyrja má, hvort fréttamennirnir telji það skýringu á því, að aðeins einn sótti um embættið - eða auglýst hafi verið í Lögbirtingablaðinu vegna uppruna umsækjandans?
Í síðustu viku hitti ég fimm umsækjendur um embætti ríkissaksóknara og ræddi við þá alla og lét í veðri vaka, að ég mundi taka ákvörðun öðru hvoru megin við helgina. Eftir samtölin taldi ég mig þurfa lengri tíma til að gera upp hug minn og lét tilkynna umsækjendum það. Nú er tekið til við að gera þetta tortryggilegt og sýnist mér spunameistarinn Pétur Gunnarsson fara þar fremstur í flokki - sá, sem taldi sig hafa trausta heimild fyrir stórpólitískri frétt, af því að hann heyrði hana á bar. Ég veit ekki, hvar hann telur sig hafa heyrt það, sem hann spinnur um þetta. Hann hefur að minnsta kosti ekki haft fyrir því að spyrja mig um málið frekar en fréttastofa sjónvarpsins.
Mánudagur, 07. 05. 07.
Klukkan 08.00 var ég í Von, húsi SÁA við Efstaleiti, þar sem við qi gong félagar höfum æft síðan síðastliðið haust. Ákváðum við að þakka fyrir okkur með því að veita styrk til ungmennastarfs SÁA og kom það í minn hlut sem formanns Aflsins, félags qi gong iðkenda að afhenda Ara Matthíassyni, framkvæmdastjóra SÁA, styrkinn.
Klukkan 10.30 var ég í Þjóðmenningarhúsinu og ritaði undir samning við Field Aviation í Kanada um kaup á nýrri eftirlitsflugvél fyrir landhelgisgæsluna. Einnig ritaði ég undir árangursstjórnunarsamning við landhelgisgæsluna og erindisbréf forstjóra hennar.
Ég var síðan í hádegisviðtali á Stöð 2 um málefni landhelgisgæslunnar.
Ég hef velt því fyrir mér, hvort aðrar reglur sé í gildi á ríkisútvarpinu en á Stöð 2, þegar kemur að samtölum við stjórnmálamenn fyrir kosningarnar, að fréttamenn RÚV líti á allt, sem við erum að kynna í ljósi kosninganna. Fréttamaður sjónvarpsins lét að minnsta kosti í það skína í frásögn sinni af undirritun samningsins um eftirlitsflugvélina, að hún tengdist kosningunum, án þess að hann hefði nokkuð fyrir sér í því efni annað en, að kosið verður 12. maí.
Margrét Marteinsdóttir, fréttamaður á sjónvarpinu, hringdi í mig til að grennslast fyrir um það, hvort ég teldi Lögbirtingarblaðið nægilega góðan auglýsingamiðil fyrir opinber störf. Ég sagði svo vera, enda væri þess getið í lögum, að embætti ætti að auglýsa þar og hefði það oft verið gert á embættisferli mínum og skilað árangri. Blaðið væri gefið út af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og útbreiðsla þess hefði aukist, eftir að útgáfa þess fluttist á netið. Ráðuneytið efaðist ekki um gildi auglýsinga í blaðinu.
Margrét virtist telja, að auglýsingamátturinn væri ekki nægilega mikill, þar sem aðeins einn hefði sótt um embætti aðstoðarríkislögreglustjóra, sem auglýst hefði verið í Lögbirtingarblaðinu. Í sjálfu sér er ágætt að ræða, hvar opinberir aðilar eiga að auglýsa störf og annað og ekkert við slíkar umræður að athuga. Mestu skiptir þó, að farið sé að lögum og ekki sé unnt að ógilda ákvarðanir með vísan til þess, að það sé ekki gert.
Sunnudagur, 06. 05. 07.
Nicolas Sarkozy var kjörinn forseti Frakklands í dag og tekur við störfum 17. maí. Vinstrisinnar í Frakklandi töpuðu í dag þriðju forsetakosningunum í röð og af umræðum í franska sjónvarpinu má ráða, að nú hefjist enn og aftur átök innan raða franskra sósíalista um forystumenn og stefnumál. Laurent Fabius, sem er einn af leiðtogum franskra sósíalista, var þráspurður um það, hver mundi leiða sósíalista í komandi þingkosningum í Frakklandi, hann vék sér undan að svara beint með þeim orðum, að það yrði samhent forysta.
Það verður spennandi að fylgjast með því, hvort og hvernig Sarkozy tekst að hrinda róttækum stefnumálum sínum í framkvæmd. Tekst honum í raun að breyta frönsku þjóðfélagi á þann veg, sem hann hefur lofað? Margir forystumenn Frakka hafa áður kveðið fast að orði um nauðsyn breytinga, án þess að koma þeim í framkvæmd.
Eitt af átakaefnum í forsetakosningunum í Frakklandi var lengd vinnutímans. Sósíalistar hafa viljað 35 tíma vinnuviku og Royal, frambjóðandi þeirra, sagði í sjónvarpskappræðunum við Sarkozy, að hún vildi halda fast í þessa reglu, fólk ætti ekki að vinna of lengi, þá kæmust fleiri inn á vinnumarkaðinn. Sarkozy segist ekki vilja setja þak á vinnutímann - hitt stuðli að meiri vexti að leyfa sem flestum að vinna sem mest. Atvinnuleysi er mikil meinsemd í Frakklandi, einkum meðal ungs fólks.
Nú hefjast vangaveltur um, hvern Sarkozy gerir að forsætisráðherra, þegar hann sest í forsetastólinn. De Villepin, núverandi forsætisráðherra, og skjólstæðingur Jacques Chiracs, fráfarandi forseta, mun áreiðanlega víkja, því að samband þeirra Sarkozys byggist ekki á gagnkvæmum trúnaði.
Laugardagur, 05. 05. 07.
Í dag birtist við mig viðtal á Stöð 2, þar sem rætt var um heilsu mína og bata og má sjá það hér.
Nú fyrst er verið að sýna hér þýsku Óskarsverðlaunamyndina Das Leben der Anderen, sem ég hef sagt frá hér á síðunni. Hún hefur verið rækilega kynnt meðal annars með langri grein í Lesbók Morgunblaðsins í dag.
Stöð 2 vakti athygli á því í kvöld, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, teldi stækkun bjórverksmiðju til marks um blómlegt atvinnulíf við Eyjafjörð en á sínum tíma hefði hann lagst gegn því, að hér mætti kaupa bjór. Bjórinn frá Eyjafirði er hágæðabjór fyrir veitingastaði á Íslandi.
Þá minnti fréttamaður Stöðvar 2 á, að vinstri/græn hefðu bent á Bláa lónið sem dæmi um umhverfisvæna stóriðju, en síðan hefði komið í ljós, að nú yrði lónið talið umhverfisslys.
Þeir gleymdu þó mótmælum Steingríms J. gegn Stöð 2 fyrir að þiggja styrk frá Alcan vegna Kryddsíldarinnar á gamlárskvöld og bréfinu, sem vinstri/græn rituðu síðan Alcan með beiðni um 300 þúsund króna styrk til flokksstarfsins.
Stefnufesta vinstri/grænna nær til þess að vera á móti einkarekstri, móti hlutafélagavæðingu ríkisstofnana, móti vörnum landsins, móti samstarfi við nágrannaþjóðir um öryggismál og á móti því að fjármálafyrirtæki blómstri í landinu, en störfum fjölgaði hjá þeim um 1000 á síðasta ári og var heildarfjöldi starfsmanna fyrirtækjanna 8.300 í lok 2006.
1998 til 2005 fjölgaði starfsmönnum í fjármálageiranum um 28% en fjölgun starfa á almennum vinnumarkaði var um 13% á sama tíma. Hjá fjármálafyrirtækjum er mest um vel menntað hálaunafólk að ræða. Hefðu vinstri/græn ráðið ferð, hefði þetta aldrei orðið. Þá hefði ekki heldur verið ráðist í stórvirkjanir og stóriðju.
Föstudagur, 04. 05. 07.
Sótti ríkisstjórmarfund í morgun í fyrsta sinn síðan ég veiktist annan í páskum.
Klukkan 13.00 var ég í samhæfingar- og stjórnstöðinni í Skógarhlíð að kynna fyrsta áfanga af þremur í tetra-væðingu landsins, það er innleiðingu á fullkomnu fjarskipta- og stjórnkerfi, sem veldur byltingu í starfi þeirra, sem gæta öryggis landsmanna.
Klukkan 14.00 kom stjórn félags yfirlögeregluþjóna á minn fund í ráðuneytið og sæmdi formaður hennar, Geir Jón Þórisson, mig gullmerki félagsins til staðfestingar á góðu samstarfi okkar undanfarin ár. Ég met þennan virðingarvott mikils.
65% vilja að Sjálfstæðisflokkurinn sitji í næstu ríkisstjórn. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup og síðpan í mars hefur þeim fjölgað um tæp 5 %, sem vilja okkur sjálfstæðismenn áfram í stjórn.
Þegar spurt var um samstarf flokka sem mynda ættu ríkisstjórn sögðust flestir vilja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eða tæp 32%, hefur stuðningurinn aukist um 8 % frá síðustu könnun. Kaffibandalagið svonefnda eða ríkisstjórn Samfylkingar, vinstri grænna og frjálslyndra nýtur stuðnings 2,6% landsmanna.
Í allan vetur hafa talsmenn flokkanna þriggja í kaffibandalaginu lagt áherslu á, að bandalagið sé hinn skýri og ótvíræði kostur gegn ríkisstjórninni. Misheppnaðiri barátta i þágu nýrrar ríkisstjórnar hefur líklega aldrei verið háð.
Fimmtudagur, 03. 05. 07.
Í Kastljósi hefur undanfarið verið sagt frá því, að á alþingi hefði að tillögu allsherjarnefndar verið samþykkt að veita ungri konu frá Guatemala íslenskan ríkisborgararétt. Helgi Seljan hóf frásögnina með einræðu í þættinum og henni hefur síðan verið haldið áfram. Í gærkvöldi var látið að því liggja, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði á einhvern hátt farið á sérstakan hátt með umsókn konunnar. Í tilefni af því sendi ráðuneytið frá sér fréttatilkynningu í dag undir fyrirsögninni: Hefðbundin vinnubrögð við afgreiðslu, þar sem segir:
„Vegna umræðna um afgreiðslu alþingis á umsókn ungrar stúlku frá Guatemala um ríkisborgararétt vill dóms- og kirkjumálaráðuneytið taka fram:
Aðalreglan er, að alþingi veitir íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Þegar umsækjandi óskar eftir, að umsókn fari fyrir alþingi, fer hún um hendur dóms- og kirkjumálaráðuneytis, sem leitar umsagnar lögreglu og útlendingastofnunar. Ráðuneytið óskar eftir afgreiðslu þessara stofnana innan þeirra tímamarka, sem afgreiðsla alþingis setur.
Í því tilviki, sem hér um ræðir hefur verið gefið til kynna, að afgreiðslan hafi verið á annan veg en almennt gerist. Fullyrðingar um það efni eru ekki réttar miðað við starfsvenjur ráðuneytisins, þegar umsókn er lögð fyrir alþingi. Upplýsingar frá lögreglu og útlendingastofnun eru þess eðlis, að almennt er unnt að veita þær samdægurs, ef svo ber undir.
Tímafrestir, sem getið er um á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, gilda, þegar ráðuneytið sjálft veitir ríkisborgararétt, en ekki þegar umsókn er lögð fyrir alþingi.“
Ég heyrði síðan Sigurjón Þórðarson, þingmann frjálslyndra, segja í fréttum, að hann hefði skoðað gögn í allsherjarnefnd og hefði sannfærst betur en áður um, að ekki væri allt sem skyldi, þar sem umsagnir hefðu borist ráðuneytinu samdægurs. Grunsemd þigmannsins er úr lausu lofti gripin. Hvaða ástæða er til að gera afgreiðslu máls tortryggilega aðeins vegna þess, að hún er hröð? Í áranna rás hef ég svarað mögrum erindum, sem mér hafa borist sem ráðherra samdægurs - er það til marks um, að ég sé að hygla þeim, sem til mín leita?
Vissulega eru þau sjónarmið til innan stjórnsýslunnar, að ekki eigi að svara erindum of hratt, þar sem það sé líklegt sé til að minnka virðingu fyrir yfirvöldunum og þungum embættisskyldum. Best sé að hafa biðlista til að halda virðingu sinni. Ég hef aldrei verið þessarar skoðunar og hef þvert á móti kosið skjót viðbrögð, þar sem þau eiga heima.
Miðvikudagur, 02. 05. 07.
Þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, var spurð um kaffibandalagið svonefnda í Kastljósi í kvöld og hvort hún gæti sest í stjórn undir forystu Steingríms J. svaraði hún: Eigum við ekki að tala um pólitík! Í allan vetur hefur það verið kjarnaatriði í pólitík stjórnarandstöðunnar, að hún hefði stofnað bandalag um nýja ríkisstjórn en þá, sem nú situr. 10 dögum fyrir kosningar telur Ingibjörg Sólrún það ekki umræður um pólitík að ræða kaffibandilagið.
Kaffibandalagið hefur gengið sér til húðar að mati Samfylkingarinnar, úr því að vinstri/græn hafa hlotið meiri styrk meðal kjósenda samkvæmt könnunum en Samfylkingin.
Sjónvarpseinvígi forsetaframbjóðendanna í Frakklandi var í kvöld og fylgdist ég með því á France 2, hljóðið var því miður bilað í upphafi en komst í lag - hvor frambjóðandi talaði í rúmlega 70 mínútur. Margt var rætt á þessum 145 mínútum. Fyrirheit um að blása nýju lífi í atvinnulífið og bæta hag þeirra, sem minna mega sín, settu mikinn svip á umræðurnar. Sarkozy reitti Royal til reiði með því að saka hana um óvandað orðbragð um sig, þegar hann ræddi um skólagöngu fatlaðra.
Sarkozy vill nýta kjarnorku til að framleiða meira rafmagn en Royal er hikandi. Sarkozy vill ekki Tyrkland í Evrópusambandið, Tyrkland sé ekki í Evrópu, Royal segir, að ræða þurfi málið og ekkert gerist nema eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina í Frakklandi, hún var neikvæð í garð aðildar Tyrklands. Sarkozy segir Frakka hafa hafnað stjórnarskrársáttmála ESB, það þurfi ekki að bera málið oftar undir þá. Royal segir, að hún vilji aðra þjóðaratkvæðagreiðslu.
Kunnustu sjónvarpsfréttastjórar Frakka stjórnuðu umræðunum en höfðu sig mjög lítið í frammi og voru ekki að láta ljós sitt skína á neinn hátt. Hér verður ekki felldur dómur um, hvor frambjóðandanna stóð sig betur.
Þriðjudagur 01. 05. 07.
Klukkan 11.00 var ég í lögreglumessu í Digraneskirkju, þar sem Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, prédikaði og lögreglukórinn söng.
Umræður um skattamál í Kastljósi í kvöld sýndu, að stefna stjórnarandstöðunnar snýst um skattahækkanir, þótt hún þori ekki að tala um það nema á óljósan hátt. Umræðurnar voru líflegar undir stjórn Ingólfs Bjarna Sígfússonar, en hann fór illa að ráði sínu, þegar hann beindi talnarunu í anda stjórnarandstöðunnar gegn Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, en sagði tímann löngu liðinn, þegar Árni ætlaði að svara honum. Hlutdrægni af þessu tagi er enn undarlegri en ella, þegar hún er höfð í frammi, eftir að útsendingartíma er lokið. Slökkt er á svarinu vegna tímaskorts!
Í gær undraðist ég neikvæð ummæli Halldórs Ásgrímssonar um EES-samninginn og í dag fékk ég áróðursblað Samfylkingarinnar inn um lúguna, þar sem Aðalsteinn Leifsson, fyrrverandi starfsmaður Evrópusambandsins og EFTA, lætur eins og Íslendingar séu í einskonar samningsþröng gagnvart Evrópusambandinu.
Frá sumri 2004 þar til í mars á þessu ári stýrði ég Evrópunefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna og héldum við meira en 40 fundi um aðild Íslands að EES, stöðu EES-samningsins og önnur tengsl okkar við ESB. Þessi lýsing Halldórs og Aðalsteins stangast alfarið á við þá mynd, sem við nefndarmenn drögum upp í ítarlegri skýrslu um tengsl Íslands og Evrópusambandsins.
Af ummælum þeirra Halldórs og Aðalsteins dreg ég helst þá ályktun, að hvorugur þessara miklu áhugamanna um Evrópumál hafi lesið skýrslu Evrópunefndar. Hafi þeir gert það, má spyrja, hvort þjóni nokkrum tilgangi að leggja á sig jafnmikla vinnu og við nefndarmenn inntum af hendi - aðrir viti bara betur, hvað sem öllum hlutlægum upplýsingum líði. Með vísan til þeirra upplýsinga gef ég ekki mikið fyrir hræðsluáróður þeirra Halldórs og Aðalsteins um stöðu okkar Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu.